Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-57
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Viðurkenningarkrafa
- Útboð
- Hlutafélag
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 21. apríl 2023 leitar Drífa ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. mars 2023 í máli nr. 686/2021: Drífa ehf. gegn Isavia ohf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila vegna ætlaðs hagnaðarmissis sem leiddi af ákvörðun gagnaðila um að semja ekki við leyfisbeiðanda um leigu á verslunarrými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í kjölfar útboðs sem hann tók þátt í árið 2014.
4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af öllum kröfum leyfisbeiðanda staðfest. Landsréttur féllst ekki á það með leyfisbeiðanda að gagnaðila hafi borið að fylgja stjórnsýslulögum eða öðrum almennum reglum stjórnsýsluréttar við forval og útleigu verslunarrýmis í flugstöðinni. Þá var hvorki fallist á að þágildandi lög nr. 84/2007 um opinber innkaup né lög nr. 65/1993 um framkvæmd útboða hefðu gilt um útboðið. Jafnframt væri ósannað að gagnaðili eða nefndarmenn í matsnefnd um útboðið hefðu sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi við mat og meðferð á tilboði leyfisbeiðanda. Landsréttur taldi að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að vandað hefði verið til forvalsins, forsendur þess hefðu legið ljósar fyrir í útboðsgögnum, jafnræðis verið gætt og lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráðið för við mat á tilboði leyfisbeiðanda. Einnig yrði að hafa í huga tilgang gagnaðila sem væri að annast rekstur, viðhald og uppbyggingu flugstöðvarinnar og að gagnaðila væri sem rekstaraðila hennar heimilt að gera hvers konar samninga við aðra aðila til að ná þeim tilgangi sínum á sem hagkvæmastan hátt. Yrði því að játa gagnaðila ákveðið svigrúm við mat á því hvaða tilboð og viðskiptahugmyndir féllu best að tilgangi félagsins þannig að markmiðum þess um þjónustu við farþega og hagnað af rekstri flugstöðvarinnar yrði sem best náð. Skilyrði almennu skaðabótareglunnar um saknæma og ólögmæta háttsemi væru því ekki uppfyllt í málinu.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi fordæmisgildi um hvort stjórnsýslulög, almennar reglur stjórnsýsluréttar eða lög um opinber innkaup gildi þegar opinberir aðilar, þar með talin opinber hlutafélög eins og gagnaðili, ráðstafi takmörkuðum og verðmætum gæðum í eigu ríkisins. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sem og samkeppnishagsmuni sína. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.