Hæstiréttur íslands
Mál nr. 514/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Kæruheimild
- Upplýsingaskylda
- Þagnarskylda
- Skattur
- Stjórnsýsla
- Persónuvernd
- Sératkvæði
|
|
Föstudaginn 3. október 2008. |
|
Nr. 514/2008. |
Ríkisskattstjóri(Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri) gegn Valitor hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Kæruheimild. Upplýsingaskylda. Þagnarskylda. Skattar. Stjórnsýsla. Persónuvernd. Sératkvæði.
Samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003 laga um tekjuskatt er öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Á grundvelli þessa ákvæðis úrskurðaði héraðsdómur að V væri skylt að veita R yfirlit yfir hreyfingar á greiðslukortum sem gefin voru út og skuldfærð erlendis, en notuð á Íslandi til úttektar í bönkum eða til greiðslu á vörum og þjónustu á tilteknu tímabili, enda hefði heildarúttekt hvers korts á tímabilinu numið að minnsta kosti 5.000.000 íslenskum krónum. V krafðist þess að hinn kærði úrskurður yrði felldur úr gildi og reisti kröfu sína meðal annars á því að honum væri óheimilt að afhenda umbeðnar upplýsingar vegna lögboðinnar þagnarskyldu sem á honum hvílir samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í dómi Hæstaréttar sagði að þar sem ákvæði 94. gr. laga nr. 90/2003 fæli í sér skyldu til að veita upplýsingar og telja yrði þau sérákvæði gagnvart ákvæðum 58. gr. laga nr. 161/2002 gengju nefnd ákvæði 94. gr. þeim framar. Vegna áskilnaðar lögmætisreglunnar um að íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda yrðu að byggjast á skýrri lagaheimild réðist skýring á valdheimildum R eingöngu af texta 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 en ekki af ákvæði reglugerðar nr. 373/2001 sem vísað var til af hálfu R. Féllst Hæstiréttur á með R að orðalagið „annarra aðila“ í ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 væri það rúmt að það tæki bæði til nafngreindra og ónafngreindra aðila sem upplýsingagjafi hefði átt samskipti við og hefðu upplýsingar um. Þá var talið að umbeðnar upplýsingar R væru fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og uppfylltu því skilyrði 2. töluliðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd svo sem nauðsynlegt var. Skilyrði 3. töluliðar sama ákvæðis var einnig talið uppfyllt. Á grundvelli framansagðs voru uppfyllt lagaskilyrði til að taka kröfu R til greina og var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2008. Í úrskurðinum var varnaraðila gert að veita sóknaraðila yfirlit yfir hreyfingar á greiðslukortum sem gefin voru út og skuldfærð erlendis, en notuð á Íslandi til úttektar í bönkum eða til greiðslu á vörum og þjónustu á tímabilinu frá 1. júlí 2006 til og með 30. júní 2007, enda hafi heildarúttekt hvers korts á tímabilinu numið að minnsta kosti 5.000.000 íslenskum krónum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði reisir sóknaraðili kröfu sína á 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Heimild hans til að bera kröfuna undir héraðsdóm er að finna í 4. mgr. 94. gr. laganna. Verður ákvæðið skýrt þannig að um meðferð málsins fyrir héraðsdómi fari eftir lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. þeirra.
Varnaraðili reisir kröfu sína á því að honum sé óheimilt að afhenda umbeðnar upplýsingar vegna lögboðinnar þagnarskyldu sem á honum hvíli samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt ákvæðinu hvíli þagnarskylda á varnaraðila um allt það sem hann fær vitneskju um við framkvæmd starfa sinna og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þar sem ákvæði 94. gr. laga nr. 90/2003 fela í sér skyldu til að veita upplýsingar og telja verður þau einnig sérákvæði gagnvart ákvæðum 58. gr. laga nr. 161/2002 ganga nefnd ákvæði 94. gr. þeim framar.
Varnaraðili byggir einnig á því að krafa sóknaraðila verði ekki byggð á 94. gr. laga nr. 90/2003 þar sem beðið sé um upplýsingar um ótiltekinn fjölda aðila sem ekki séu nafngreindir. Í því sambandi vísar varnaraðili til forsendna héraðsdóms í hæstaréttarmáli nr. 345/2006, sem dæmt var 8. mars 2007, en þar er sagt að 94. gr. laga nr. 90/2003 muni hafa verið „skýrð svo, eða beitt í framkvæmd með þeim hætti, að upplýsinganna verði krafist frá aðilum eða um aðila sem sérstaklega eru tilgreindir hver og einn.“ Hafi Hæstiréttur staðfest dóminn með vísan til forsendna hans.
Ekki verður fallist á með varnaraðila að fyrrnefndur dómur Hæstaréttar hafi fordæmisgildi í máli þessu enda voru hin tilvitnuðu orð héraðsdóms ekki nauðsynlegur þáttur í röksemdarfærslu fyrir niðurstöðu hans, auk þess sem málið varðaði túlkun á upplýsingaskyldu samkvæmt 92. gr. laga nr. 90/2003.
Sóknaraðili telur sér heimilt að afmarka kröfu sína svo sem hann hefur gert og þurfi hann ekki að nafngreina þá sem upplýsinga er krafist um heldur sé honum heimilt að óska eftir tilviljunarúrtaki. Vísar hann til 3. gr. reglugerðar nr. 373/2001 um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókna máli sínu til stuðnings, en þar kemur fram að við val á aðilum sem eftirlit beinist að skuli gæta samræmis og skuli valið gert á hlutlægan hátt eða látið ráðast af tilviljunarúrtaki.
Vegna áskilnaðar lögmætisreglunnar um að íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda verði að byggjast á skýrri lagaheimild hafa ákvæði reglugerðar nr. 373/2001 ekki þýðingu við skýringu á lögbundnum heimildum sóknaraðila til að krefjast aðgangs að gögnum í þágu starfa sinna, enda er ekki vikið að skyldu til að veita upplýsingar í lagaheimild reglugerðarinnar. Ræðst skýring á valdheimildum sóknaraðila af texta 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 en hann hljóðar svo: „Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Með skattyfirvöldum í þessari grein er átt við skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra.“
Fallist er á með sóknaraðila að orðalagið „annarra aðila“ í ákvæði 2. málsliðar 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 sé það rúmt að það taki bæði til nafngreindra og ónafngreindra aðila sem upplýsingagjafi hefur átt samskipti við og hefur upplýsingar um.
Varnaraðili reisir kröfu sína einnig á því að tilgangur upplýsingaöflunarinnar sé óljós og ekki hafi verið sýnt fram á að sóknaraðila sé nauðsynlegt að fá allar þessar upplýsingar.
Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga taka til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sbr. ákvæði 3. gr. laganna. Persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 eru upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til eins tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölulið 2. gr. laganna. Ákvæði laga nr. 77/2000 gilda því um upplýsingaöflun samkvæmt 94. gr. laga nr. 90/2003 þegar óskað er eftir aðgangi að rafrænt skráðum persónuupplýsingum. Við afmörkun á kröfu um upplýsingar samkvæmt síðast nefndu laganna ber sóknaraðila þannig að gæta ákvæða 7. gr. laga nr. 77/2000.
Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 verða umbeðnar upplýsingar að vera fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi. Sóknaraðili kveðst hafa óskað eftir umbeðnum upplýsingum frá varnaraðila og öðrum greiðslukortafyrirtækjum hérlendis en grunur leiki á að aðilar sem séu skattskyldir hér á landi hafi komið eignum og tekjum undan skattlagningu með því að flytja fjármagn og fjármálaumsvif sín úr landi, þótt skattskylda þeirra hérlendis sé óbreytt. Upplýsinganna sé óskað til að viðhafa skatteftirlit sem sé hluti af lögbundnum starfsskyldum sóknaraðila, sbr. 102. gr. laga nr. 90/2003. Fallist er á með sóknaraðila að uppfyllt séu skilyrði 2. töluliðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000.
Samkvæmt 3. töluliðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 verða umbeðnar upplýsingar að vera nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Sóknaraðili kveðst hafa afmarkað kröfu sína svo með tilliti til fjárhæða að ekki væri hætta á að ferðamenn féllu inn í þennan hóp eða aðilar sem tímabundið störfuðu hér á landi. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til gagna málsins verður ekki séð að afmörkun á kröfu sóknaraðila brjóti í bága við fyrrnefnt ákvæði.
Samkvæmt framansögðu eru uppfyllt lagaskilyrði til að taka kröfu sóknaraðila til greina og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Málsaðila greinir á um skýringu á 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 sem hljóðar svo: „Öllum aðilum, bæði framtalsskyldum og öðrum, er skylt að láta skattyfirvöldum í té ókeypis og í því formi, sem óskað er, allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðast og unnt er að láta þeim í té. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni. Með skattyfirvöldum í þessari grein er átt við skattstjóra, skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra.“
Við málflutning fyrir Hæstarétti hafa málsaðilar vísað til allmargra dóma réttarins þar sem fjallað hefur verið um heimildir skattyfirvalda til að krefjast upplýsinga varðandi framtöl og skattskil gjaldenda og sinna almennu skatteftirliti. Í engu þeirra hefur verið leyst úr því, hvort í 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 eða samsvarandi eldri lagaákvæðum felist heimild skattyfirvalda til að krefjast upplýsinga án þess að nafngreina þá gjaldendur sem upplýsingaöflun beinist að. Í forsendum héraðsdóms í málum þeim sem dæmd voru í Hæstarétti 8. mars 2007, mál nr. 325, 333 og 345/2006, er komist svo að orði að 94. gr. laga nr. 90/2003 muni hafa verið „skýrð svo, eða beitt í framkvæmd með þeim hætti, að upplýsinganna verði krafist frá aðilum eða um aðila sem sérstaklega eru tilgreindir hver og einn.“ Hæstiréttur staðfesti dómana með vísan til forsendna þeirra en niðurstaða réðst af öðru en skýringu á 94. gr. laganna.
Við skýringu á texta 1. gr. 94. gr. laga nr. 90/2003 verður að líta til þess að um er að ræða valdheimild ríkisins gagnvart borgurum sem samkvæmt viðurkenndri meginreglu við skýringu á efni slíkra heimilda verður að fela ótvírætt í sér heimild til þeirrar valdbeitingar sem krafist er. Í 2. málslið 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 er komist svo að orði að ekki skipti máli hvort upplýsingarnar sem um er beðið varði þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann er hann getur veitt upplýsingar um og „varða skattlagningu þeirra aðila eða eftirlit með eða rannsókn á henni.“ Af þessum texta verður ekki ótvírætt ráðið að skattyfirvöldum sé heimilað að leita upplýsinga á borð við þær sem greinir í máli þessu án þess að nafngreina þá sem upplýsingar varða og rannsókn eða eftirlit beinist að. Ég tel að vafa í þessu efni eigi að skýra varnaraðila í hag samkvæmt fyrrgreindri meginreglu. Ég tel því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi og synja kröfu sóknaraðila.
Samkvæmt þessari niðurstöðu tel ég að gera ætti sóknaraðila að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem samtals ætti að nema 500.000 krónum.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2008.
Með beiðni, dags. 14. júlí 2008, krafðist ríkisskattstjóri þess að varnaraðilum, Valitor hf., kt. 500683-0589, Laugavegi 77, Reykjavík og Jakobi Bjarnasyni, kt. 310860-2989, Dofraborgum 14, Reykjavík, f.h. félagsins, verði gert að láta sóknaraðila í té yfirlit um hreyfingar á greiðslukortum sem uppfylla þessi skilyrði:
Greiðslukort sem gefin voru út og skuldfærð erlendis en notuð á Íslandi til úttektar í bönkum eða til greiðslu á vörum og þjónustu á tímabilinu frá 01.07.2006 til og með 30.06.2007, enda hafi heildarúttekt hvers korts á tímabilinu numið a.m.k. ísl. kr. 5.000.000.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefjast þeir málskostnaðar.
Samkvæmt frásögn í greinargerð sóknaraðila áttu dönsk skattyfirvöld frumkvæði að því að afla upplýsinga um kreditkortafærslur þar í landi með kortum sem gefin voru út og gerð upp í öðrum löndum. Hófu skattyfirvöld í Noregi og Svíþjóð svipaðar aðgerðir. Beindust sjónir manna einkum að kortum sem notuð væru í landinu reglulega um langan tíma. Sé þannig unnt að skilja ferðamenn frá athugun yfirvalda. Koma mætti með þessu upp um aðila sem ættu eignir erlendis en segðu ekki frá þeim á skattframtölum. Gæti verið um að ræða aðila sem hefðu skotið undan tekjum eða eignum eða ástunduðu peningaþvætti. Segir sóknaraðili að upplýsingar þær er dönsk yfirvöld veittu hafi leitt til athugunar og síðan gjaldabreytinga í einu tilviki hér á landi.
Sóknaraðili kveðst hafa ákveðið, í samráði við skattyfirvöld annarra Norðurlanda, að afla upplýsinga um þá aðila sem fjármögnuðu fjárfestingu eða neyslu af erlendum bankareikningum í gegnum greiðslukort útgefin af erlendum bönkum. Mörk fjárhæða séu þó höfð það há að ekki sé hætta á að ferðamenn falli inn í þennan hóp, eða aðilar sem starfa tímabundið hér á landi. Telur sóknaraðili nauðsynlegt vegna almenns eftirlits að fá aðgang að færslum á tilteknum greiðslukortum sem færð kynnu að hafa verið í gegnum fjárhagskerfi varnaraðila til skuldfærslu og uppgjörs erlendis. Telur sóknaraðili að rökstuddur grunur sé um að slík kort séu í notkun hér á landi. Varnaraðili sé ekki útgefandi þessara korta og hafi væntanlega engar upplýsingar um hver sé notandi þeirra. Hann sjái eingöngu um svonefnda færsluhirðingu og stýrir færslunum á ákveðinn stað til uppgjörs og innheimtu. Það séu því ekki beinir viðskiptavinir Valitors hf. sem þarna eiga í hlut, heldur innlendir viðskiptamenn erlendra banka og greiðslukortafyrirtækja sem nýta greiðslukort frá þessum aðilum hér á landi.
Sóknaraðili kveðst fara með skatteftirlit í sérgreindum eftirlitsmálum þar sem atriði eða aðilar sem eftirlit beinist að eru valin fyrir fram sem úrtaksmengi á hlutlægan hátt eða eftir slembiúrtaki eins og mælt er fyrir um í 3. gr. reglugerðar nr. 373/2001. Kveðst hann hafa ákveðið sem þátt í reglubundnu eftirliti að afla tiltekinna gagna um greiðslukortaviðskipti sem afmörkuð væru á tiltekinn hátt.
Sóknaraðili ritaði varnaraðila bréf þann 29. febrúar 2008 og óskaði eftir upplýsingum. Varnarðili neitaði að veita þessar upplýsingar með bréfi dagsettu 13. mars 2008. Gengu nokkur bréf á milli aðila eftir þetta, en varnaraðili sat við sinn keip. Beindi sóknaraðili því beiðni sinni til dómsins eins og áður segir.
Um heimild sína til öflunar gagna og upplýsinga vísar sóknaraðili til 94., 101. og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 90/2003. Jafnframt bendir hann á 25. og 26. gr. laga nr. 45/1987 og 38. og 4. og 5. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988. Loks vísar hann til reglugerðar nr. 373/2001, einkum I. kafla, 2. og 4. gr., sbr. og 5. og 18. gr.
Í þessu máli byggir sóknaraðili kröfu sína á 94. gr. laga nr. 90/2003. Þar sé mælt fyrir um skyldu aðila til að láta skattyfirvöldum í té allar nauðsynlegar upplýsingar og gögn er þau beiðist. Upplýsingarnar þurfi heldur ekki að varða þann aðila sem gefi þær.
Sóknaraðili telur að ákvæði þetta eigi við um varnaraðila. Varnaraðili hafi hins vegar ekki sinnt skyldu sinni og borið fyrir sig bankaleynd. Sé því nauðsynlegt að leita úrskurðar héraðsdóms skv. 4. mgr. 94. gr laga nr. 90/2003. Sóknaraðili kveðst telja að umbeðnar upplýsingar og gögn séu nauðsynleg til eftirlits með skattframtölum og skattskilum þeirra aðila sem um ræðir og til að staðreyna hvort upplýsingar á ársreikningum og skattframtölum séu rétt tilgreind og álagningarstofn réttur.
Sóknaraðili tekur fram að starfsmenn hans séu einnig bundnir þagnarskyldu varðandi allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu. Kveðst hann telja að bankaleynd hljóti að víkja fyrir almennum sjónarmiðum um hagsmuni hins opinbera að geta gengið úr skugga um að skattskil séu rétt. Almennur trúnaður við viðskiptamenn í formi bankaleyndar hafi ekki þann tilgang að vernda mögulega brotastarfsemi gagnvart þeim almannahagsmunum að skattskil séu rétt. Loks telur sóknaraðili að hann hafi gætt meðalhófs er fjárhæðarviðmiðun í beiðni var ákveðin.
Varnaraðili telur sér hvorki heimilt né skylt að veita umbeðnar upplýsingar samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 eða þeirra reglugerðarákvæða er sóknaraðili vísar til. Bendir hann á túlkun Hæstaréttar á heimild þessari í dómi í máli nr. 345/2006. Í beiðni sóknaraðila séu viðkomandi korthafar hvorki nafngreindir né sérgreindir á annan hátt.
Varnaraðili bendir á að beiðnin varði ekki viðskiptamenn sína. Ákvæði 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 sé bundin við aðila sjálfan og skipti annarra við hann. Sú sé ekki raunin í þessu tilviki. Ekki sé neitt viðskiptasamband milli varnaraðila og einstakra korthafa.
Varnaraðili segir að á sér hvíli þagnarskylda samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. Til þess að aflétta þeirri skyldu þurfi skýra heimild í öðrum lögum.
Varnaraðili kveðst efast um að upplýsingar þær sem sóknaraðili vill fá séu honum nauðsynlegar. Af þeim upplýsingum sem unnt sé að veita verði ekki séð hver korthafi sé. Því sé þessi upplýsingagjöf tilgangslaus og sóknaraðili hafi því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá upplýsingarnar.
Forsendur og niðurstaða
Líta verður svo á að krafa sóknaraðila beinist að Valitor hf., en umbeðnar upplýsingar eru til staðar hjá þeim aðila. Jakob Bjarnason er fyrirsvarsmaður Valitor, en á ekki aðild að máli þessu í eigin nafni.
Aðilar deila um það hvort 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003 veiti sóknaraðila heimild til að afla þeirra upplýsinga er hann krefur um. Hæstiréttur hefur beitt samhljóða ákvæði laga nr. 75/1981 í dómi sínum í máli nr. 156/1999, sem kveðinn var upp 21. október 1999. Þar lýsir Hæstiréttur skyldu til upplýsingagjafar sem víðtækri skyldu. Segir að játa verði skattyfirvöldum rúmar heimildir til að meta þörf á upplýsingum. Matið verði þó að vera málefnalegt og fara að reglum laga nr. 37/1993.
Skylda varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 94. gr. er ekki bundin við upplýsingar um aðila sem kalla mætti viðskiptavini hans, eru í beinu samningssambandi við hann. Orðalag ákvæðisins styður ekki slíka takmörkun. Varnaraðili hefur aðgang að umbeðnum upplýsingum vegna verkefna er hann sinnir fyrir aðila sem er í beinu samningssambandi við korthafa. Er því um að ræða upplýsingar sem varða skipti varnaraðila við korthafa í skilningi ákvæðisins.
Sóknaraðili leitar upplýsinga til að beita í almennu eftirliti sínu með skattskilum einstaklinga og lögaðila. Þó að þær upplýsingar sem varnaraðili getur veitt séu ekki nafngreindar þannig að sóknaraðili geti séð hvaða aðilar eigi í hlut, kveðst hann hafa önnur úrræði til að afla þeirra upplýsinga með samvinnu við erlend skattyfirvöld. Hefur því ekki verið hnekkt að þessar upplýsingar geti komið að gagni við eftirlit sóknaraðila. Verður því ekki fallist á með varnaraðila að upplýsingarnar séu óþarfar.
Ekki er vitað hve margir aðilar koma til með að falla undir þá afmörkun sem sóknaraðili vill beita. Sennilega er þó tryggt að með henni verði ekki aflað mikilla upplýsinga sem þarflausar mætti kalla við það eftirlit sem sóknaraðili boðar. Hefur hann gætt hófs í afmörkun sinni.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á að í þessu tilviki beri, samkvæmt 1. mgr. 94. gr. laga nr. 90/2003, að víkja til hliðar þagnarskyldu varnaraðila samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 og leggja fyrir hann að veita sóknaraðila umbeðnar upplýsingar.
Málskostnaður fellur niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Varnaraðila, Valitor hf., ber að veita sóknaraðila, ríkisskattstjóra, yfirlit um hreyfingar á greiðslukortum sem gefin voru út og skuldfærð erlendis, en notuð á Íslandi til úttektar í bönkum eða til greiðslu á vörum og þjónustu á tímabilinu frá 01.07.2006 til og með 30.06.2007, enda hafi heildarúttekt hvers korts á tímabilinu numið a.m.k. 5.000.000 íslenskra króna.
Málskostnaður fellur niður.