Hæstiréttur íslands

Mál nr. 49/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaðartrygging


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. febrúar 2003.

Nr. 49/2003.

Garðabær

(Andri Árnason hrl.)

gegn

þrotabúi Kviltar ehf.

(enginn)

 

Kærumál. Málskostnaðartrygging.

Úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu G o.fl. um að þrotabúi K yrði gert að setja málskostnaðartryggingu í máli, sem þrotabúið hafði höfðað á hendur G o.fl., var staðfest.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila og tveggja annarra aðila að máli, sem varnaraðili hefur höfðað, um að honum verði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að setja málskostnaðartryggingu, aðallega að fjárhæð 1.000.000 krónur, en til vara annarrar lægri fjárhæðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 29. janúar 2003.

    Mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness 8. janúar 2003. 

Stefnandi er þrotabú Kviltar ehf., kt. 661094-2499, Lágmúla 7, 108 Reykjavík.

    Stefndi er Garðabær, kt. 570169-6109, Garðatorgi 7, Garðabæ og til vara Sigurjón Ragnarsson, kt. 160729-2289, Blikanesi 13, Garðabæ og Sigríður Sigurjónsdóttir, kt. 120568-5239, með lögheimili í Bretlandi.

    Mál þetta snýst um skaðabótakröfu stefnanda á hendur stefndu.

    Við þingfestingu málsins 8. janúar sl. gerðu stefndu kröfu til þess að stefnanda yrði gert að setja málskostnaðartryggingu á grundvelli b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991.  Þann 15. janúar sl. var málið tekið til úrskurðar um þennan þátt að fram komnum greinargerðum aðila. 

Stefndi Garðabær gerir kröfu til þess að sér verði sett málskostnaðartrygging að fjárhæð kr. 1.000.000 eða að annarri lægri fjárhæð að mati réttarins og að sér verði dæmdur málskostnaður í þessum þætti málsins.

Stefndu Sigurjón Ragnarsson og Sigríður Sigurjónsdóttir gera kröfu til þess að sett verði málskostnaðartrygging að fjárhæð kr. 500.000 hvoru þeirra til handa.

    Stefnandi krefst þess að kröfum stefndu verði hafnað. Einnig krefst hann málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu að mati réttarins.

     I.

    Stefndi Garðabær byggir dómkröfur sínar á því að stefnandi sé þrotabú. Skiptastjóri þrotabúsins hafi lýst því yfir að engar eignir séu í búinu að frátaldri kröfu stefnanda á hendur stefndu í máli þessu. Stefndi telur því ljóst að þrotabúið geti ekki greitt þann málskostnað sem stefndu kunni að verða tildæmdar falli málið þrotabúinu í óhag. Þannig sé líkum leitt að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar og lagaskilyrði séu því fyrir hendi að krefja stefnanda um tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar sbr. ákvæði b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 19/1991.

    Stefndi kveður stefnanda hafa sönnunarbyrði fyrir gjaldfærni þrotabúsins þrátt fyrir yfirlýst eignaleysi þess. Stefnandi hafi engin gögn lagt fram sem styðja það að þrotabúið eða kröfuhafar þess hafi getu eða séu reiðubúnir til þess að standa undir þeim kostnaði sem af dómsmálinu kunni að hljótast. Raunar hafi verið talið að það eitt að ekki njóti upplýsinga um eignir þrotabús fullnægi skilyrðum b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um málskostnaðartryggingu.

    Þá byggir stefndi á því að málskostnaði stefnanda yrði skipað undir 2. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 en málskostnaði sem stefnda yrði dæmdur úr hendi stefnanda yrði skipað undir 3. tl. sömu lagagreinar. Þannig yrði kostnaður þrotabúsins af málarekstrinum greiddur á undan dæmdum málskostnaði til handa stefnda.

    Stefndu Sigurjón Ragnarsson og Sigríður Sigurjónsdóttir byggja kröfur sínar á b-lið 133. gr. laga nr. 91/1991 enda muni stefnandi vera ófær um greiðslu málskostnaðar ef hann verður dæmdur til greiðslu hans.

     II.                        

    Stefnandi byggir á því að hagsmunir stefndu séu að fullu tryggðir. Í málinu liggi fyrir yfirlýsing frá Tollstjóranum í Reykjavík dags. 9. janúar 2003 um að embættið ábyrgist að svo stöddu hugsanlegan málskostnað að fjárhæð kr. 750.000. Þá eru einnig líkur á því að tryggingin verði hækkuð ef hærri málskostnaður verður dæmdur.

Mál það sem er fyrir dóminum er einfalt og málavextir þess eftir því sem stefnandi kemst næst óumdeildir. Fjárhagslegir hagsmunir séu aðeins kr. 2.500.000 að höfuðstóli. Þannig verði að telja nánast útilokað að stefndu fái dæmdan hærri málskostnað en umrædda tryggingu. Hagsmunir stefndu eru þegar af þeirri ástæðu tryggðir að fullu.

III.

Bú stefnanda var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 18. september 2002.

Í b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 kemur fram að stefndi geti krafist málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda ef leiða má líkur að því að hann sé ófær um greiðslu málskostnaðar. Ákvæði þetta er undantekningarákvæði og hvílir sönnunarbyrði varðandi ógjaldfærni á stefnda. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 91/1991 er ákvæði þetta meðal annars rökstutt með þeim hætti að því sé ætlað að koma í veg fyrir tilefnis- eða tilgangslausar málssóknir af hendi ógjaldfærra aðila.

Í málinu liggur fyrir að stefnandi er þrotabú. Stefndu byggja á því að stefnandi sé eignalaus og því ófær um að greiða málskostnað. Ekki er fallist á að það að stefnandi sé þrotabú leiði eitt og sér líkur að því að stefnandi sé ófær til greiðslu málskostnaðar. Í málinu liggur fyrir yfirlýsing frá Tollstjóranum í Reykjavík um að embættið ábyrgist að svo stöddu hugsanlegan málskostnað að fjárhæð 750.000. Þá liggur einnig fyrir í málinu yfirlýsing frá skiptastjóra dags. 15. janúar 2003 um að greiðsla málskostnaðar sem þrotabúið verður hugsanlega dæmt til að greiða muni ganga fyrir kostnaði skiptastjóra  af málinu. Ábyrgð sú sem Tollstjórinn í Reykjavík hefur gengist í vegna málssóknarinnar að fjárhæð 750.000 stendur því öll til tryggingar vegna hugsanlegs dæmds málskostnaðar á hendur þrotabúinu sem er stefnandi málsins.

Með vísan til framanritaðs og með hliðsjón af umfangi málsins er kröfu stefndu um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda hafnað. 

    Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.

Sveinn Sigurkarlsson, héraðsdómari, kveður úrskurðinn upp.

Ú r s k u r ð a r o r ð

    Kröfu stefnda Garðabæjar og stefndu Sigurjóns Ragnarssonar og Sigríðar Sigurjónsdóttur um málskostnaðartryggingu úr hendi stefnanda Þrotabúsins Kviltar ehf. er hafnað.

    Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.