Hæstiréttur íslands

Mál nr. 178/2006


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. nóvember 2006.

Nr. 178/2006.

Ísfélag Vestmannaeyja hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Sigmari Gíslasyni

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

 

Vinnuslys. Líkamstjón. Skaðabætur.

S, stýrimaður á fiskiskipinu ÍV, slasaðist er hönd hans festist í nót sem verið var að draga um borð. S byggði kröfu sína á því að vanbúnaður í tækjum, auk óeðlilegs hávaða um borð í skipinu hefði orsakað slysið. Þá taldi S varhugavert af skipstjóra að vera ekki við stjórnborðsgluggann með yfirsýn yfir vinnusvæðið á meðan S vann við kraftblökkina, þar sem skipstjóranum var kunnugt um að S var ekki í færi við neyðarrofann á meðan hann sinnti þessu starfi. Neyðarrofar til að stöðva nótina voru í stýrishúsi og á dekkinu skammt frá kraftblökkinni sem S stóð við. Talið var að S hafi kallað í tvo samstarfsmenn sína á dekki og til skipstjórans áður en tókst að stöðva nótina, en vegna mikils hávaða hafi ekki heyrst til hans fyrr. Í bæri því fulla ábyrgð á tjóni hans og í ljósi aðstæðna var því hafnað að S bæri sök á tjóninu sem leiða ætti til skerðingu bótagreiðslna til hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. mars 2006. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. 

Endanleg krafa stefnda er sú að áfrýjandi greiði honum 16.460.873 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.280.948 krónum frá 8. mars 2001 til 5. apríl 2003 en af 16.460.873 krónum frá þeim degi til 3. nóvember 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.274.380 krónum miðað við 20. október 2004 og 5.621.115 krónum miðað við 18. apríl 2005. Þá krefst hann staðfestingar á málskostnaðarákvæði héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi hefur lagt fyrir Hæstarétt útreikning sem sýnir að heildarfjárhæð kröfu hans er lítillega lægri en sú fjárhæð sem dæmd var í héraði. Liggur fyrir staðfesting áfrýjanda á réttmæti útreikningsins. Telst stefnda því heimilt að gera kröfuna með þessum hætti fyrir Hæstarétti þó að hann hafi ekki áfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti.

         Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram slasaðist stefndi um borð í loðnuskipinu Tunu GR 18 aðfaranótt 8. mars 2001 þegar verið var að draga inn nótina. Mikil loðna var í henni og við það mynduðust pokar í nótinni ofan á kraftblökkinni, sem stefndi stóð við. Þurfti hann að koma pokunum yfir svonefndan blýtein. Er fram komið í málinu að þetta verklag var alvanalegt við þessar aðstæður. Hönd hans festist þá í nótinni, sem dregin var hægt inn á dekkið. Þegar nótin var stöðvuð var höndin komin upp að öxl inn í nótina. Í málinu liggur fyrir að tveir vinnufélagar stefnda á dekkinu, sem stóðu um einum til einum og hálfum metra frá honum, og skipstjórinn, sem rétt í því hafði lokið við að hífa í snurpuvírinn, heyrðu þá fyrst köll hans. Er ljóst að stefndi hlaut þá að hafa verið búinn að kalla áður til þeirra, en vegna mikils hávaða hafi ekki heyrst fyrr til hans. Með vísan til þessa og forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjandi beri alla sök á slysi stefnda og verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjanda þá fjárhæð sem hann krefst nú, sbr. það sem að framan greinir um kröfuna. 

         Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verður staðfest.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., greiði stefnda, Sigmari Gíslasyni, 16.460.873 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.280.948 krónum frá 8. mars 2001 til 5. apríl 2003 en af 16.460.873 krónum frá þeim degi til 3. nóvember 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 1.274.380 krónum miðað við 20. október 2004 og 5.621.115 krónum miðað við 18. apríl 2005.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 7. mars 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 7. febrúar s.l., er höfðað með stefnu birtri við þingfestingu 8. júní s.l.

Stefnandi er Sigmar Gíslason, kt. 271257-2449, Illugagötu 62, Vestmannaeyjum.

Stefndi er Ísfélag Vestmannaeyja, kt. 660169-1219, Strandvegi 28, Vestmannaeyjum.  Réttargæslustefndi er Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði honum 16.863.691 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2004 til greiðsludags að frádregnum 5.878.739 krónum sem greiddar voru 18. apríl 2005.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu, en til vara að kröfur hans verði lækkaðar.  Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins, en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.  Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hann gerir engar kröfur í málinu.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að þann 8. mars 2001 á þriðja tímanum um nóttina var loðnuskipið Tunu GR 18 að veiðum við Krýsuvíkurbjarg.  Var verið að draga nótina eftir fyrsta kast og var mikið í henni.  Við þær aðstæður mun það oft gerast að tarnir eða loðnupokar myndast neðan við blökkina og þarf að velta þeim yfir teininn til að betur gangi að draga og einnig til að forðast skemmdir á nótinni.  Stefnandi gegndi stöðu yfirstýrimanns um borð og var við stjórntæki blakkarinnar.  Við blökkina voru tveir menn, þeir Hannes Gústafsson, 2. stýrimaður og Gísli Snorrason, háseti.  Skipstjórinn, Snorri Gestsson, var uppi í brú og venjulega í sjónfæri við blökkina, en hann mun hafa brugðið sér frá þar sem hífa þurfti í snurpuvírinn í brúnni.  Neyðarrofar fyrir kraftblökkina eru uppi í brú og við stjórntæki hennar á dekkinu.  Stefnandi skýrir svo frá að þegar búið hafi verið að draga um þriðjung af nótinni hafi byrjað að myndast loðnupokar.  Hannes og Gísli hafi unnið við nótina en stefnandi farið að blökkinni til að koma loðnupokunum yfir blýteininn.  Er hann hafði unnið að þessu þó nokkra stund hafi hann skyndilega fundið að hönd hans festist í nótinni og dregst innundir, en kraftblökkin hafi verið stillt á hægustu ferð.  Stefnandi segist umsvifalaust hafa öskrað að stöðva ætti blökkina, en skipstjóri hafði þá brugðið sér frá eins og áður er rakið.  Stefnandi kvaðst ekki hafa náð til neyðarrofans og vegna gríðarlegs og óeðlilegs hávaða á dekkinu, sem stafi frá tækjum skipsins og lögnum, hafi þeir Hannes og Gísli ekki heyrt til stefnanda, en þeir hafi snúið baki við honum.  Segir stefnandi að það hafi ekki verið fyrr en hann hafði öskrað þrívegis hástöfum að skipstjóri og skipverjar verða einhvers varir og stökkva þá til og stöðva kraftblökkina.  Var henni síðan bakkað og losnaði stefnandi þá úr henni.

Skipinu var snúið til hafnar og kom að bryggju í Grindavík um kl. 04:40 um morguninn.  Var stefnandi fluttur á slysadeild LSH þar sem gert var að meiðslum hans.  Kom í ljós að stefnandi var með alvarlega áverka á hægri handlegg og brot á upphandlegg, efri og neðri hluta, þ.e. radius- og sveifarbeinið.  Þá var stefnandi marinn og með yfirborðsáverka á andliti.  Fór stefnandi þegar í aðgerð og var m.a. settur nagli í hægri öxl.

Að beiðni réttargæslustefnda voru haldin sjópróf 9. maí 2001 og var við það tilefni lagt fram afrit hávaðamælingar sem sagðar voru framkvæmdar í Tunu þegar skipið var ekki við veiðar.  Fram kom við sjóprófin að vélstjórar hefðu framkvæmt þær mælingar sem þar komu fram, en samkvæmt mælingablaðinu, sem er óundirritað og ódagsett, mældist mesti hávaði í spilkerfi niður við gír 108 Db en lægstur hávaði mældist 99 Db.  Þá hefur verið lögð fram niðurstaða Rannsóknarnefndar sjóslysa frá 21. október 2002 og segir nefndin að eftirfarandi hafi m.a. komið fram við rannsóknina: hinn slasaði hafi verið að troða netinu inn í blökkina þegar vettlingur hans festist í henni, hann hafi stjórnað aðgerðum á staðnum, hinn slasaði hafi verið stjórnandi blakkarinnar, en hafði farið frá stjórntökkum við að aðstoða við netið með vitund skipstjóra, það vinnufyrirkomulag hafi verið hefðbundið vinnuferli, færsla nótariðilsins geti orðið allt að 50 cm á sekúndu, mikill hávaði hafi verið á vinnusvæðinu, athugasemd hafi verið gerð af skoðunarmanni frá Söfartsstyrelsen um að hávaðamæla þyrfti spilkerfið, samkvæmt hávaðamælingu hafi hávaðinn reynst yfir 96 Db vegna þeirra tækja sem í gangi voru.  Þá var bent á að formleg hávaðamæling hafi ekki verið framkvæmd, en samkvæmt reglum dönsku siglingamálastofnunarinnar og einnig þeirrar íslensku, skuli hávaði ekki vera meira en 70 Db á vinnusvæðum sem þessum.  Þá er tekið fram að engin opinber gögn séu til um hávaðamælingu í skipinu á vegum íslenskra yfirvalda þann tíma sem það hafi verið undir íslenskum fána.  Nefndin taldi að við þessar aðstæður hefði mátt stöðva hífingu á neti þar sem góð yfirsýn við þessar aðgerðir sé mjög mikilvæg.  Þá taldi nefndin mjög mikilvægt að  huga að því að hávaði sé innan lögbundinna hávaðamarka.  Nefndin taldi óvarlegt af skipstjóra, sem hafði yfirsýn yfir vinnusvæðið, að yfirgefa það þar sem hann sá að stjórnandi hífingar var að sinna öðrum stöfum.  Þá taldi nefndin óvarlegt af stýrimanni að yfirgefa stjórntæki blakkarinnar án þess að gera viðeigandi ráðstafanir.  Lagði nefndin til að Siglingamálastofnun Íslands hefði forgöngu um að hávaðamörk á skipum verði í samræmi við það sem reglur kveði á um. 

Að beiðni málsaðila var fengið sameiginlegt mat læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Leifs Dungal til að meta afleiðingar slyssins fyrir stefnanda samkvæmt ákvæðum skaðabótalaga.  Matsgerð þeirra er dagsett 21. júlí 2004 og töldu þeir tímabundið atvinnutjón vera 100% frá 8. mars til 13. júní 2001 og síðan 6 vikur vegna naglatöku og innsetningar nýs nagla árið 2002.  Ekki var talið að frekari bata væri að vænta eftir 5. apríl 2003 og tímabil þjáningabóta töldu læknarnir vera það sama og tímabundna óvinnufærni, en á þessum tíma mun stefnandi hafa verið rúmliggjandi á sjúkrahúsum í samtals 17 daga.   Varanlegur miski var talinn vera 20% og varanleg örorka 30%.

Með bréfi dagsettu 3. október 2004 sendi lögmaður stefnanda réttargæslustefnda bótakröfu byggða á framangreindu mati og í framhaldi af því voru stefnanda þann 20. október sama ár greiddar bætur úr slysatryggingu sjómanna, 1.274.380 krónur.  Með bréfi dagsettu 4. febrúar 2005 lýsti réttargæslustefndi sig reiðubúinn að greiða stefnanda þriðjungsbætur, eða 5.878.739 krónur sem fullnaðarbætur vegna slyssins og var tekið fram að félagið teldi sig óbundið af forsendum tillögunnar væri ekki fallist á fyrirvaralaust uppgjör.   Var uppgjörstillagan þannig að bætur vegna varanlegrar örorku skyldu vera 13.971.218 krónur og höfðu þá verið dregnar frá áætlaðar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, 800.000 krónur og áðurgreind slysatrygging sjómanna, 1.274.380 krónur.  Þjáningabætur voru 155.010 krónur og miskabætur 1.151.200 krónur.  Frádráttur vegna eigin sakar stefnanda var 10.184.952 krónur, vextir 482.889 krónur og innheimtulaun með virðisaukaskatti 303.374 krónur.  Réttargæslustefndi greiddi stefnanda 5.931.239 krónur 18. apríl 2005 en tók fram að bótaskylda væri ekki viðurkennd og væri það mat félagsins að slysið verði vart rakið til atvika sem vinnuveitandi geti borið skaðabótaábyrgð á.  Mismunurinn á þessari fjárhæð og uppgjörstillögunni frá 4. febrúar 2005 mun skýrast af vísitöluhækkunum og vöxtum til greiðsludags.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að vanbúnaður í tækjum hafi orsakað slysið.  Liggi fyrir að gríðarlegur hávaði hafi verið á vinnudekki næst kraftblökk.  Þessi hávaði hafi verið óeðlilegur og hafði margoft verið kvartað undan honum, m.a. af skipstjóra við útgerð skipsins.  Staðfesti framburður annarra skipverja við sjópróf og þessa niðurstöðu, en þessi hávaði geri það að verkum að samskipti milli manna, bæði á vinnudekki og í brú, hafi verið óeðlileg og mjög erfið.  Hafi þetta gert allt vinnulag mun erfiðara og hættulegra.  Vegna þessa óeðlilega hávaða hafi það gerst eftir að stefnandi festist í blökkinni að hann hafi ekki getað komið skilaboðum til nærstaddra mann á dekki eða skipstjóra í brú fyrr en of seint.  Ef hávaði hefði verið eðlilegur hefðu þessi skilaboð komist strax til skila og hefði verið unnt að stöðva kraftblökkina áður en slys varð.  Sé því beint orsakasamband á milli hins mikla  hávaða og þess að ekki tókst að koma í veg fyrir slysið.  Fram komi í skýrslu stefnanda í sjóprófi að hann hafi öskrað a.m.k. þrisvar sinnum áður en skipverjar á dekki í 1-2 metra fjarlægð heyrðu til hans, sem og skipstjóri í brú. Hafi margoft verið kvartað undan þessum hávaða við útgerðina, en hann hafi verið með þessum hætti í nokkur ár.  Skipinu hafi verið flaggað undir grænlenskum fána og taki danska siglingamálastofnunin skipið þá út.  Við þá skoðun hafi verið gerð sérstök athugasemd í haffærisskírteini vegna hávaðans og þess krafist að hávaðamæling yrði send til viðeigandi yfirvalda.  Þá komi fram í hávaðamælingu að hávaði sé mjög mikill, eða um 100 Db, en taka beri fram að umrædd hávaðamæling sé gerð án átaks.  Þegar slysið var hafi hins vegar verið mikið í nótinni og hávaði því meiri en fram komi í hávaðamælingu. 

Stefnandi byggir einnig á því að varhugavert hafi verið af skipstjóra að vera ekki við stjórnborðsgluggann og í sjónfæri við kraftblökkina.  Hafi stefnandi unnið að því um nokkurn tíma að standa við kraftblökkina og koma loðnupokum yfir blýteininn.  Hafi þessi framkvæmd verið venjubundin um borð í skipum undir þessum kringumstæðum.  Hafi skipstjóri vitað af því að stefnandi var ekki við stjórntæki blakkarinnar og því ekki í færi við neyðarrofann.  Hafi skipstjóri þurft að bregða sér frá til að hífa í snurpuvírinn, en neyðarrofi hafi verið í brúnni.  Hins vegar verði að segjast að aðstæður um borð vegna hávaðans hafi gert allt vinnulag og skipanir mun erfiðari en átt hefði að vera og væri það meginskýring þess að slysið varð.  Hafi Rannsóknarnefnd sjóslysa talið að við þessar aðstæður hefði mátt stöðva hífingu á neti þar sem góð yfirsýn við þessa aðgerð sé mjög mikilvæg.  Þá telji nefndin að mjög mikilvægt sé að hugað sé að því að hávaði sé innan lögbundinna hávaðamarka.  Þá telji nefndin að óvarlegt hafi verið af skipstjóra, sem hafði yfirsýn yfir vinnusvæðið, að yfirgefa það, þar sem hann sá að stefnandi var að sinna öðrum störfum.  Einnig taldi nefndin óvarlegt af stefnanda að yfirgefa stjórntæki blakkarinnar án þess að gera viðeigandi ráðstafanir.  Þá hafi nefndin lagt til að Siglingastofnun Íslands  hefði forgöngu um að hávaðatakmörk á skipum verði í samræmi við það sem reglur kveði á um.

Stefnandi vísar til dómvenju um víðtækari bótaskyldu útgerðar vegna slysa um borð í skipum, einkum þegar um sé að ræða vanbúnað eða galla í tækjum eins og í þetta skipti.  Til marks um hvernig stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins hafi litið á störf sjómanna megi benda á að með úrskurði gerðardóms um kjaramál fiskimanna, sem tekið hafi gildi í maímánuði árið 2001, sé útgerðum skylt að tryggja sjómenn fyrir öllum slysum um borð í fískiskipum og skipti sök þá engu máli.

Stefnandi vísar til meginreglna samningaréttar, kröfuréttar og skaðabótaréttar, einkum til rýmkaðrar bótaskyldu vegna slysa á sjó þar sem sé vanbúnaður í tækjum.  Vísað er til siglingalaga og reglugerða settra samkvæmt þeim lögum.  Vaxtakröfur eru reistar á IV. kafla laga nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 19/1991, einkum 130. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi telur að hávaði kunni að hafa verið í meira lagi en mótmælir því að um saknæman vanbúnað sé að ræða.  Stefndi bendir á það að í afriti haffærisskírteinis frá dönsku Siglingamálastofnuninni sé einungis farið fram á að hávaðamæling verði framkvæmd en engin tímamörk sett.  Þá sé þess að engu getið að hávaðinn hafi verið yfir leyfilegum mörkum.  Þá liggi ekkert fyrir um að íslensk siglingayfirvöld hafi gert athugasemdir varðandi hávaðann, þvert á móti hafi skipið haft gilt haffærisskírteini frá Siglingamálastofnun sem gilt hafi frá 6. nóvember 2000 til 14. apríl 2001.  Stefndi mótmælir því að um sé að ræða saknæman vanbúnað og þá telur stefndi ósannað að hávaði hafi verið yfir lögbundnum mörkum eða að útgerð hafi vanrækt að framfylgja fyrirmælum þar til bærra yfirvalda um úrbætur að þessu leyti.  Þá telur stefndi það ekki geta staðist að ekki hafi heyrst í stefnanda þegar hann öskraði eftir að hann festist, miðað við að 1-2 metrar voru milli hans og starfsfélaga hans.  Þá liggi fyrir að skipstjóri og félagar stefnanda á dekkinu hafi heyrt í honum á sama tíma og hafi þeir þá strax brugðist við og stöðvað blökkina.  Stefnandi sé einn til frásagnar um að ekki  hafi heyrst í honum fyrr en í þriðju tilraun og mótmælir stefndi þeirri fullyrðingu hans harðlega, enda afar langsótt að sú hafi verið raunin miðað við fjarlægð hans frá félögum sínum. 

Stefndi hafnar því einnig að óvarlegt hafi verið af skipstjóra að yfirgefa stjórnborðsgluggann eins og hann gerði skömmu fyrir slysið.  Það sé í verkahring skipstjóra að hífa í snurpuvírinn þegar þess þurfti og var hann einmitt að sinna þeim skyldum þegar slysið varð.  Hafi aðstæður verið þannig að hann komst ekki hjá því að víkja úr glugganum einhver augnablik.  Það hafi hins vegar viljað svo óheppilega til að slysið hafi einmitt orðið á því augnabliki.  Sé því um óhappatilvik að ræða en ekki saknæma vanrækslu.  Þá sé ósannað að seinlæti skipverja hafi valdið því að meiðsl stefnanda urðu eins alvarleg og raun bar vitni, enda hafi blökkinni verið slegið út svo til á sama augnabliki í brúnni og á dekkinu.

Stefndi mótmælir tilvísun stefnanda í dómvenju um víðtækari bótaskyldu útgerðar vegna slysa um borð í skipum og segist ekki kannast við tilvist slíkrar reglu.  Þá sé úrskurður gerðardóms um kjaramál fiskimanna frá 16. maí 2001 máli þessu óviðkomandi.

Stefndi bendir á að stefnandi hafi verið yfirstýrimaður um borð í skipinu, verkstjóri á dekki og hafi hann stjórnað þeim tækjum sem komu við sögu.  Stefnandi hafi verið 43 ára á slysdegi, búinn að vera á sjó frá 1973 og hjá stefnda hafði hann unnið í 9 ár sem stýrimaður á nótaveiðiskipunum Gígju VE og Guðmundi VE (Tunu GR 18).  Hann hafi því verið þrælvanur þeim störfum sem þarna var verið að vinna og sjálfur ákveðið hvernig staðið var að verki.  Hann hafi margsinnis unnið verkið áður og ekkert við framkvæmd þess hefði átt að koma honum á óvart.  Hann hafi þurft að gæta þess að fara ekki of langt með höndina þannig að hún festist í blökkinni, en þetta hafi brugðist hjá stefnanda.  Hann hafi algjörlega stjórnað atburðarásinni og geti ekki komið ábyrgðinni á því sem úrskeiðis fór yfir á aðra.  Stefndi vekur athygli á að í skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa sé tekið fram að óvarlegt hafi verið af stefnanda að yfirgefa stjórntæki blakkarinnar án þess að gera viðeigandi ráðstafanir.  Hafi stefnandi haft tvo menn sér til aðstoðar við framkvæmd verksins og hafi því verið í lófa lagið að hafa hlutina í lagi.  Það hafi hann hins vegar ekki gert, hann hafi boðið hættunni heim og ekki gætt þeirrar varúðar sem gera verði kröfu um hjá vönum manni eins og stefnanda og á því geti enginn borið ábyrgð nema hann sjálfur.

Varakrafa stefnda er á því byggð að eigin sök stefnanda sé augljós.  Stefndi vísar til framangreindra raka fyrir sýknukröfunni og ítrekar að stefnandi stjórnaði verki því sem var verið að vinna.  Hann hafi haft mikla reynslu í starfi, verið yfirmaður á dekki og haft atburðarásina fram að slysinu algerlega í hendi sér.  Blasi því eigin sök stefnanda við og þá þannig að meirihluti sakarinnar sé hjá honum.  Hafi stefnandi því fengið þær bætur sem honum bar og eigi hann því ekki frekari kröfur á hendur stefnda.

Niðurstaða.

              Í  máli þessu er ágreiningur um bótaskyldu stefnda þrátt fyrir að hann hafi greitt stefnanda bætur þar sem gert er ráð fyrir því að stefnandi beri sjálfur 2/3 hluta sakarinnar.  Stefnandi byggir á vanbúnaði tækja sem hafi verið í því fólginn að gríðarlegur hávaði hafi verið á vinnudekki sem hafi gert öll samskipti manna þar mjög erfið.  Hafi stefnandi af þeim sökum ekki náð að koma skilaboðum til nærstaddra á dekki eða skipstjóra fyrr en of seint.  Hafi margoft verið kvartað undan þessum hávaða án þess að úrbætur hafi verið gerðar.  Þá hafi verið varhugavert af skipstjóra að bregða sér frá stjórnborðsglugga í brúnni til þess að hífa í snurpuvírinn en við það hafi hann misst yfirsýn yfir vinnusvæðið á dekkinu.  Stefndi viðurkennir að hávaði kunni að hafa verið í meira lagi en mótmælir því að um saknæman vanbúnað af þeim sökum hafi verið að ræða.  Þá mótmælir stefndi því að óvarlegt hafi verið af skipstjóra að yfirgefa stjórnborðsgluggann enda hafi vinnuaðstæður hans verið þannig að hann hafi ekki komist hjá því til þess að hífa í snurpuvírinn.  Varakrafa stefnda er byggð á því að stefndi beri að meginhluta til sök á slysinu.

Fram kom í sjóprófum og við aðalmeðferð  málsins að gífurlegur hávaði hafi verið á dekkinu.  Þá var við sjóprófin lagt fram afrit hávaðamælingar, en fram kom að sú mæling hafi verið gerð við bryggju og hávaði því ekki eins mikill eins og þegar allar dælur eru í gangi undir álagi við veiðar.  Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur einnig bent á það að hávaði á vinnusvæðinu hafi verið mikill og jafnframt að formleg hávaðamæling hafi ekki verið framkvæmd.  Þá telja hinir sérfróðu meðdómendur ljóst að hávaðinn verði enn meiri þegar snurpuvírinn er hífður, en upplýst er að skipstjóri var einmitt að hífa snurpuvírinn þegar stefnandi festist í blökkinni.  Stefndi hefur viðurkennt að hávaði kunni að hafa verið í meira lagi en hefur ekki hlutast til um að hnekkja niðurstöðu þeirrar hávaðamælingar sem lögð var fram við sjóprófin.  Hefur komið fram í málinu að margoft hafi verið kvartað undan hávaðanum án þess að úrbætur hafi verið gerðar.  Þá hefur komið fram að verk það sem stefnandi vann var ekki unnt að vinna með öðrum hætti.  Voru vinnuaðstæður stefnanda því mjög hættulegar og því brýnt að tryggja að tafarlaust væri unnt að ná til neyðarrofa færi eitthvað úrskeiðis.  Neyðarrofi var við stjórntæki blakkarinnar, en upplýst hefur verið að stefnandi gat ekki náð til hans ef hann festist við blökkina.  Varð hann því að treysta á vinnufélaga sína á dekki að slá út rofann og var því nauðsynlegt að hann gæti komið skilaboðum til þeirra greiðlega.  Annar neyðarrofi var í brúnni, en þar var skipstjóri einn að störfum og þurfti að bregða sér úr sjónlínu við vinnusvæði stefnanda í því skyni að hífa snurpuvírinn.  Má gera ráð fyrir því að skipstjóri hefði getað slegið út neyðarrofann í tæka tíð hefði hann verið við stjórnborðsgluggann og séð framvindu mála á dekkinu.  Stefnandi heldur því fram að honum hafi ekki tekist að gera vart við sig fyrr en eftir að hann öskraði í þriðja sinn á vinnufélaga sína.  Þessi fullyrðing stefnanda getur staðist í því ljósi að upplýst er að verið var að  hífa snurpuvírinn, en eins og að framan greinir eykst hávaði þá um allan helming.  Virðist því að stefnanda hafi fyrst tekist að gera vart við sig eftir að skipstjóri hætti að hífa.  Samkvæmt framansögðu voru stefnanda allar bjargir bannaðar, hann náði sjálfur ekki til neyðarrofans, skipstjórinn úr sjónlínu við hann og félagar hans á dekki heyrðu ekki til hans sökum gífurlegs hávaða.  Telja verður að þessar vinnuaðstæður sem stefnanda var boðið upp á hafi verið algjörlega óviðunandi og stórhættulegar.  Það er  því álit dómsins að stefndi eigi fulla sök á tjóni stefnanda og með hliðsjón af því hvernig aðstæður voru á vettvangi ber, hvað sem líður reynslu og stöðu stefnanda, að hafna því að hann beri sjálfur einhverja þá sök á tjóni sínu sem leiða eigi til skerðingar á bótagreiðslum til hans.  Verða kröfur stefnanda því að fullu teknar til greina með þeirri breytingu að miðað skal við að stefndi hafi greitt stefnanda 5.931.239 krónur 18. apríl 2005.  Með  hliðsjón af þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.        

Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn ásamt með- dómsmönnunum Sigurði Georgssyni og Sveini Valgeirssyni, skipstjórum.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., greiði stefnanda, Sigmari Gíslasyni, 16.863.691 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 3. nóvember 2004 til greiðsludags að frádregnum 5.931.239 krónum sem greiddar voru 18. apríl 2005.

Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.