Hæstiréttur íslands

Mál nr. 456/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal sakamanns
  • Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi


Miðvikudaginn 27. júlí 2011.

Nr. 456/2011.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson saksóknari)

gegn

X

(Jóhannes Árnason hdl.)

Kærumál. Framsal sakamanna. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms, sem felldi úr gildi ákvörðun dómsmálaráðherra um að X skyldi framseldur til Póllands, var felldur úr gildi og ákvörðun innanríkisráðherra staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júlí 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2011, þar sem ákvörðun innanríkisráðherra 9. júní sama ár, um að framselja varnaraðila til Póllands, var felld úr gildi. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og staðfest verði ákvörðun innanríkisráðherra 9. júní 2011 um framsal varnaraðila til Póllands.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Pólsk yfirvöld hafa krafist framsals varnaraðila til fullnustu refsingar, sem hann hefur hlotið samkvæmt fjórum dómum. Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða þrjá dóma fyrir líkamsárásir þar af tvo fyrir meiriháttar líkamsárásir. Í tveimur tilvikum var dæmt að varnaraðili hafi framið líkamsárásirnar í félagi við aðra. Í fjórða dóminum var varnaraðili sakfelldur fyrir hylmingu. Fyrir brotin, sem varnaraðili framdi samkvæmt gögnum málsins flest eftir að hann náði 20 ára aldri, hefur hann verið dæmdur í refsingu sem samtals nemur fjögurra og hálfs árs fangelsi. Ágreiningslaust er að refsingin er ekki fallin niður fyrir fyrningu.

Varnaraðili reisir kröfu sína um að staðfesta beri hinn kærða úrskurð og synja um framsal á þeim grundvelli að mannúðarástæður mæli gegn framsali, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Tilgreinir hann fyrst og fremst fjölskylduaðstæður, en hann eigi barn með íslenskri konu og hafi tengst henni og þremur börnum hennar af fyrra sambandi fjölskylduböndum. Þá hafi hann dvalið á Íslandi frá miðju ári 2006, stundað atvinnu og ekki gerst brotlegur við refsilög. Loks bendir hann á, að dráttur á því að pólsk yfirvöld fylgdu kröfu um framsal eftir hafi verið slíkur að hann hafi mátt með réttu telja að fallið hefði verið frá áformum um að krefjast framsals. Hann bendir í þessu sambandi á 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Til grundvallar ákvörðun innanríkisráðherra 9. júní 2011 um að fallast á kröfu pólskra yfirvalda um framsal varnaraðila liggur mat á því hvort mannúðarástæður mæli gegn framsali. Verður ekki annað séð en að það mat hafi verið framkvæmt með réttum og málefnalegum hætti. Verður það mat ekki endurskoðað í máli þessu.

Varnaraðila hlaut að vera ljóst að til þess kynni að koma að pólsk yfirvöld krefðust framsals hans til þess að fullnusta refsingu þá sem honum hafði verið dæmd vegna hinna alvarlegu brota sem lýst er að framan. Hefur dráttur á kröfu um framsal ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

Samkvæmt framansögðu verður krafa sóknaraðila tekin til greina á þann hátt, sem getur í dómsorði.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi um annað en laun réttargæslumanna. Ákvörðun innanríkisráðherra 9. júní 2011 um framsal varnaraðila, X, til Póllands er staðfest.

Þóknun skipaðs réttargæslumanns varnaraðila fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Árnasonar héraðsdómslögmanns, 180.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2011.

Ríkissaksóknari hefur vísað til Héraðsdóms Reykjavíkur kröfu varnaraðila, X, kt. [...], um úrskurð um hvort skilyrði laga um framsal séu fyrir hendi vegna ákvörðunar innanríkisráðuneytisins, dags. 9. júní 2011 um að fallast á beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um að framselja varnaraðila til Póllands.  Um lagaheimild er vísað til II. kafla laga nr. 13/1984 og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 88/2008.

Ríkissaksóknari krefst þess að staðfest verði ákvörðun innanríkisráðuneytisins frá 9. júní 2011 um að framselja varnaraðila. 

Varnaraðili krefst þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.  Þá krefst hann máls­kostnaðar. 

Mál þetta hófst er bréf pólska dómsmálaráðuneytisins með beiðni héraðsdóms í Przeworsk í Póllandi barst dómsmálaráðuneytinu 8. mars 2011.  Krafist var framsals varnaraðila til fullnustu fangelsisrefsingar samkvæmt dómum dómstólsins.  Varnar­aðili var þar dæmdur til að sæta fangelsi í samtals 4 ár og 6 mánuði. 

Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða þessar dómsúrlausnir:

Dómur frá 3. júní 2002 þar sem varnaraðili var dæmdur til að sæta fangelsi í eitt ár, skilorðsbundið.  Hann var sakfelldur fyrir að slá brotaþola ítrekað í andlit og höfuð með krepptum hnefa þannig að af hlutust yfirborðsáverkar og nefbrot.  Með ákvörðun 21. júlí 2006 var mælt fyrir um að fangelsisrefsingin skyldi afplánuð þar sem varnaraðili hefði gerst sekur um samkynja brot á skilorðstímanum.

Með dómi 12. mars 2009 var varnaraðila gert að sæta fangelsi í 3 ár og 6 mánuði, en um var að ræða sameiginlega refsingu vegna eftirtalinna þriggja refsi­dóma:

Dómur 18. október 2005, sakfellt fyrir hilmingu með því að hafa í júlí 2005 keypt farsíma er varnaraðili vissi að væri þjófstolinn. 

Dómur 22. febrúar 2006, staðfestur af áfrýjunardómstól 23. maí sama ár.  Varnaraðili var þar sakfelldur fyrir ofbeldi gegn lögreglumönnum og líkamsárás með því að hafa þann 15. september 2005 í félagi við aðra veist að tveimur lögreglu­mönnum vegna starfa þeirra.  Varnaraðili sló annan lögreglumanninn ítrekað á bringu með krepptum hnefa á meðan félagar hans spörkuðu í hann. 

Dómur 11. apríl 2006, sakfellt fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa 13. október 2005 fellt brotaþola, sest á hann og slegið með hnefa í höfuðið á meðan annar maður sparkaði í brotaþola um allan líkamann. 

Í greinargerð varnaraðila er persónulegum högum hans lýst.  Hann kveðst hafa flutt hingað til lands í júlí 2006.  Hann hafi komið hingað til að vinna.  Hann hafi verið hér samfleytt í fimm ár. 

Varnaraðili kveðst hafa myndað sterk tengsl við landið.  Hann búi nú með konu, A.  Þau hafi hafið sambúð á árinu 2008.  Hún eigi þrjú börn sem hann hafi gengið í föður stað.  Þá hafi þau eignast dóttur í byrjun desember 2009. 

Varnaraðili lagði fram vottorð Þórhildar Sigtryggsdóttur, læknis, um B, dóttur A.  [...]

Nánar er því lýst í greinargerð að það yrði allri fjölskyldu varnaraðila mjög þungbært ef hann yrði framseldur til Póllands.  Sambýliskona hans og börn hennar hafi ekki önnur tengsl við Pólland en tengslin við varnaraðila. 

Varnaraðili byggir mál sitt nær eingöngu á 7. gr. laga nr. 13/1984.  Telur hann að mannúðarsjónarmið komi í veg fyrir að hann verði framseldur.  Hann segir að ákvæðið beri að túlka með hliðsjón af 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og barna­sáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Vísar hann sérstaklega til 1. mgr. 3. gr. barna­sáttmálans. 

Hann vitnar til greinargerðar með frumvarpi er varð að lögum nr. 13/1984.  Þar segi í athugasemdum við 7. gr. að hafa verði í huga félagslegar aðstæður manns í heild.  M.a. hvort viðkomandi eigi fjölskyldu hér á landi.  Bendir varnaraðili á að hann eigi hér stóra fjölskyldu, hafi búið hér samfleytt í fimm ár og hafi verið í fastri vinnu allan tímann. 

Varnaraðili bendir á að framsalsbeiðni hafi fyrst borist á árinu 2009.  Hafi þá verið tekin skýrsla af varnaraðila og honum verið skipaður réttargæslumaður.  Ekki hafi heyrst frekar í pólskum yfirvöldum fyrr en tveimur árum síðar, í mars 2011.  Þessi seinagangur brjóti í bága við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.  Varnaraðili hafi talið að beiðni um framsal væri úr sögunni, að staða sín á Íslandi væri trygg og að hann gæti helgað sig sinni nýju fjölskyldu. 

Loks gerir varnaraðili athugasemd við meðferð málsins.  Byggt sé á skýrslum sem teknar hafi verið af varnaraðila á árinu 2009 og aftur 2011.  Leiði þessi máls­meðferð til þess að ekki sé unnt að fallast á framsalsbeiðnina. 

Niðurstaða

Þegar varnaraðili flutti hingað til lands hafði hann verið sakfelldur fyrir brot þau sem lýst er að framan, en öll varða þau fangelsisrefsingu samkvæmt íslenskum lögum.  Í ákvörðun ráðuneytisins er vitnað til skýrslu er varnaraðili gaf í tilefni af framsalskröfu á árinu 2009.  Er eðlilegt að segja frá öllum meginþáttum málsins og verður ákvörðun um framsal ekki hnekkt vegna þessa. 

Í dómaframkvæmd hefur verið lögð sú lína að dómstólar skuli meta hvort mat stjórnvalda á því hvort mannúðarástæður samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984 skuli standa framsali í vegi hafi verið gagnsætt.  Hæstiréttur hefur bent á að þegar metið sé hvort ákvæði 7. gr. laga nr. 13/1984 eigi að leiða til þess að hafna beri kröfu um fram­sal vegist á gagnstæð sjónarmið. Annars vegar eðlilegir hagsmunir erlends ríkis af því að fá aðila framseldan og mikilvægi þess að ekki sé grafið undan framsalskerfinu sem sé hluti af alþjóðlegu samstarfi á sviði afbrotamála.  Við mat á því, hve mikilvægir hagsmunir ríkis séu á því að fá aðila framseldan, ráði meðal annars grófleiki brotsins og hversu langt sé um liðið síðan það var framið.  Hins vegar séu mannúðarástæður, aldur, heilsufar og persónulegar aðstæður. 

Þegar þessi atvik eru metin nánar í þessu máli eru annars vegar þeir hagsmunir að varnaraðili geti ekki komið sér undan refsingu sem honum hafi verið ákveðin vegna alvarlegra brota.  Á móti vegur að talsvert langur tími er nú liðinn frá því að brotin voru framin og að hann hefur verið búsettur hér á landi í fimm ár.  Þá er hann í sambúð og á barn með sambýliskonu sinni, auk þriggja fósturbarna.  Þá hefur hann verið í fastri vinnu.  Tíminn vegur tiltölulega þungt í þessu tilviki þar sem brot sín virðist varnaraðili hafa framið áður en hann náði 20 ára aldri. 

Í ákvörðun ráðuneytisins er vikið að þessum atriðum.  Lögð er veruleg áhersla á að 7. gr. laganna sé undantekningarregla sem beri að skýra þröngt.  Þá er sagt að varhugavert sé að hafna framsali með tilliti til þess eins að varnaraðili hafi komið sér fyrir hér á landi eftir að hann hlaut refsidóma í Póllandi og lifi hér hefðbundnu lífi.  Segir að honum hafi mátt vera ljóst að hans biði refsing fyrir brot sín í Póllandi.  Telur ráðuneytið að slíkt gæti í raun leitt til þess að hvetja dæmda afbrotamenn til að flytjast hingað til lands til að komast undan því að taka úr refsingu sína. 

Í íslenskum rétti er ekki viðurkennd sem algild regla að undantekningarreglur skuli skýra þröngt.  Viðurkennt er hins vegar að undantekningarreglur verði almennt ekki skýrðar rúmri skýringu.  Þá verður það ekki lesið úr dómaframkvæmd um 7. gr. laga nr. 13/1984 eða lögskýringargögnum að ákvæðið skuli skýra þröngt.  Þá er í ákvörðun ráðuneytisins vikist undan því að taka beina afstöðu til þess hvort aðstæður varnaraðila séu slíkar að mannúðarsjónarmið eigi að leiða til þess að líta beri framhjá tiltölulega þungri refsingu fyrir alvarleg brot, sem hann á eftir að afplána í Póllandi.  Sú staðreynd að varnaraðila var kunnugt um refsidómana er hann kom hingað til lands getur ekki leyst stjórnvöld undan því að fjalla nákvæmlega um þessi tvö sjónarmið og komast að niðurstöðu eftir að þau eru vegin saman.  Þá er ekki fjallað um þýðingu þess að langur tími er liðinn frá því að varnaraðili kom hingað til lands og að ekki eru komnar fram skýringar á þeim mikla drætti sem orðið hefur á máli þessu, að því er virðist hjá pólskum stjórnvöldum.  Þá er ekki að núgildandi lögum unnt að taka tillit til þess við ákvörðun um framsal, að ákveðin niðurstaða geti leitt til þess að fleiri menn með sakarferil muni vilja flytja hingað til lands.  Loks er ekki fjallað neitt um það
hvort við mat á mannúðarsjónarmiðum skuli eingöngu líta til stöðu varnaraðila sjálfs, eða hvort meta beri áhrif niðurstöðunnar á þá sem eru nákomnir honum. 

Samkvæmt þessu hefur við umrædda ákvörðun ekki verið tekið nægilega á þeim atriðum sem ráða eiga niðurstöðu málsins og að nokkru beitt ólögmætum sjónar­miðum og rangri skýringu á lögum.  Verður því að fella ákvörðun ráðherra úr gildi. 

Varnaraðili réð sér nýjan lögmann eftir að meðferð málsins hófst hér fyrir dómi.  Verður að greiða þóknun beggja úr ríkissjóði.  Þóknun hvors um sig er ákveðin með virðisaukaskatti eins og í úrskurðarorði greinir. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Ákvörðun innanríkisráðherra frá 9. júní 2011 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er felld úr gildi. 

Þóknun Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 100.000 krónur, og Jóhannesar Árnasonar hdl., 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.