Hæstiréttur íslands

Mál nr. 85/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


Þriðjudaginn 16. febrúar 2010.

Nr. 85/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

Fallist var á kröfu lögreglu um að X, sem veitt hafði verið reynslulausn, á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, skyldi afplána 540 daga eftirstöðvar refsingar, enda taldist kominn fram sterkur grunur um að X hefði framið brot varðað gæti allt að 6 ára fangelsi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afplána 540 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar og 23. september 2008 og Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2008. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila verði gert að afplána 540 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt framangreindum dómum.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðila var veitt reynslulausn á fyrrgreindum eftirstöðum fangelsisrefsingar 2. september 2009. Í ákvörðuninni Fangelsismálastofnunar um það segir til samræmis við 2. mgr. 64. gr. laga nr. 49/2005, að skilyrði hennar séu: ,,Að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum.“ Varnaraðili hefur játað fyrir lögreglu að hafa gerst sekur um fimm brot, sem falla undir 244. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er grunaður um eitt brot að auki gegn 244. gr. sömu laga, sem hann hefur ekki viljað tjá sig um. Er með þessu fullnægt skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 40/2005 um að hann hafi á reynslutíma rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnarinnar og að fyrir liggi sterkur grunur um að hann hafi framið brot sem varðað getur sex ára fangelsi. Verður samkvæmt þessu  fallist á kröfu sóknaraðila.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal afplána 540 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar og 23. september 2008 og Héraðsdóms Reykjaness 30. apríl 2008.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. febrúar 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að X, kt. [...],[...], verði á grundvelli 2. mgr. 65. gr. laga nr. um fullnustu refsinga gert að sæta afplánun á 540 daga eftirstöðvar refsingar samkvæmt dómum Héraðsdóms Reykjavíkur 31. jan., 30. apríl og 23. september 2008, sem honum var veitt með ákvörðun Fangelsismálastofnunnar um reynslulausn 2. september 2009. 

Í greinargerð lögreglu er fjallað um brot sem kærði er grunaður um að hafa framið frá því að honum var veitt reynslulausn:

Mál lögreglu nr. 007-2010-9571.  Stuldur á diktafón og bíllyklum og bílþjófnaður við Þönglabakka þann 11. febrúar.

Mál lögreglu nr. 007-2010-3323.  Þjófnaður þann 16. janúar í verslun í Kringlunni á 2 dvd og 2 cd diskum.

Mál lögreglu nr. 007-2010-2823.  Þjófnaður þann 14. janúar í verslun í Kringlunni í félagi við annan aðila.  Stolið  fatnaði að verðmæti kr. 40.000. 

Mál lögreglu nr. 007-2009-79252.  Tilraun til fjársvika þann 17. desember sl., í verslun Hagkaupa, Skeifunni.  Hafi tekið snyrtivörusett að verðmæti kr. 5.899 og gert tilraun til að fá inneignarnótu og eða endurgreiðslu með blekkingum. 

Mál lögreglu nr. 007-2009-75086.  Þjófnaður þann 29. nóvember í verslun, stolið 2 dvd diskum og 4 dósum af orkudrykkjum. 

Mál lögreglu nr. 007-2009-70044.  Þjófnaður 8. nóvember í verslun í Kringlunni, stolið buxum að verðmæti kr. 17.990.

Lögregla kveðst telja að kærði hafi nú rofið gróflega skilyrði reynslulausnar sinnar, enda sé uppi sterkur grunur um að hann hafi framið brot sem geti varðað allt að 6 ára fangelsi.  Honum hafi verið veitt reynslulausn á 540 daga eftirstöðvum refsingar samkvæmt þremur dómum, en hann hafi verið dæmdur til að sæta fangelsi í samtals 36 mánuði. 

Við fyrirtöku hér fyrir dómi játaði kærði þau brot sem greind eru að framan.  Ætla má að hann hann hafi unnið til refsingar samkvæmt 244., 248. og 259. gr. almennra hegningarlaga.  Auðgunarbrot þessi eru sex talsins, en hvert um sig verður að teljast smávægilegt. 

Um afleiðingar rofa á skilyrðum reynslulausnar er fjallað í 65. gr. laga nr. 49/2005.  Meginreglan er sú samkvæmt 1. mgr. að refsing skuli ákveðin í einu lagi fyrir nýja eða nýju brotin og svo með hliðsjón af þeirri refsingu sem óafplánuð er samkvæmt eldri dómi.  Frá þessu er gerð undantekning í 2. mgr.  Dómur getur ákveðið með úrskurði að eftirstöðvar refsingar skuli afplánaðar, ef kærði hefur rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar.  Þá er það sett að skilyrði að nýja brotið geti varðað fangelsi allt að sex árum eða varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. 

Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að það felur í sér undantekningu frá meginreglu, sem ekki skuli beitt nema sérstök ástæða sé til.  Þó kærði hafi verið staðinn að sex auðgunarbrotum eru smávægileg hvert um sig.  Er ekki fallist á að hann hafi rofið skilyrði reynslulausnar gróflega í skilningi 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005.  Sýnist nærtækast að um skilorðsrof hans verði fjallað er endanlega verður leyst úr um hin nýju brot fyrir dómi. Verður kröfu lögreglu því hafnað. 

Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Hafnað er kröfu lögreglu um að kærða, X, verði gert að afplána 540 daga eftirstöðvar refsingar.