Hæstiréttur íslands

Mál nr. 338/2009


Lykilorð

  • Landamerki


                                                        

Fimmtudaginn 20. maí 2010.

Nr. 338/2009.

Landeigendur Reykjahlíðar ehf.

(Jónas A. Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Herdísi Steingrímsdóttur

Elínu Steingrímsdóttur

Guðrúnu Benediktsdóttur

Kjartani Þ. Sigurðssyni

Hauki Aðalgeirssyni og

Þorgerði Egilsdóttur

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Landamerki.

L, sem fram kom í málinu í þágu eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar, og H o.fl., eigendur jarðarinnar Grímsstaða, deildu um merki þessara tveggja jarða í Skútustaðahreppi á svæði, sem nær frá Mývatni norður til fjalla. Í þinglesnum landamerkjabréfum fyrir jarðirnar frá árinu 1891 var merkjum á þessu svæði lýst svo að þau næðu frá kennileitinu Kvæk við Mývatn um Flatskalla og í há Skjólbrekku. Stóð deila aðila um hvar Flatskalli væri. Talið var að af gögnum, sem aðilarnir höfðu aflað, yrði ekki dregin ótvíræð ályktun um hvar staðsetja ætti Flatskalla. Á hinn bóginn væru í ljósi staðhátta þær líkur fyrir að krafa H o.fl., um merkin ætti við rök að styðjast að leggja yrði sönnunarbyrði á L um að Flatskalli væri á þeim stað sem hann héldi fram. Sú sönnun hefði ekki tekist. Samkvæmt því var fallist á að merki jarðanna væru eins og H o.fl. kröfðust.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. júní 2009. Hann krefst þess „að viðurkennt verði að landamerki jarðanna Reykjahlíðar og Grímsstaða í Skútustaðahreppi liggi með eftirfarandi hætti frá há Skjólbrekku að Mývatni; úr vörðu á há Skjólbrekku um beina línu í vörðubrot á Flatskalla, vestan Fagraneshóla, með GPS-hnitið N 65°39´ 539´´ og V 16°57´ 614´´, og þaðan um beina línu í svonefndan Kvæk við Mývatn.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur gengu á vettvang með fulltrúum málsaðila 11. maí 2010.

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um merki milli jarðanna Reykjahlíðar og Grímsstaða í Skútustaðahreppi á svæði, sem nær frá Mývatni norður til fjalla, en stefndu eru eigendur síðarnefndu jarðarinnar og kemur áfrýjandi fram í málinu í þágu eigenda þeirrar fyrrnefndu í skjóli málsóknarumboðs. Í landamerkjabréfum fyrir jarðirnar, frá 8. apríl 1891 fyrir Reykjahlíð og 8. maí sama ár fyrir Grímsstaði, er merkjum á þessu svæði lýst svo að þau nái frá kennileitinu Kvæk við Mývatn um Flatskalla og í há Skjólbrekku. Í fyrrnefnda bréfinu segir að merkin liggi um merkivörðu austast á Flatskalla, en í því síðarnefnda er rætt um að þau fari um Flatskalla austast. Bæði bréfin voru undirrituð af eigendum þessara tveggja jarða og voru þau þinglesin í maí 1891 og júlí 1892. Í málinu er ekki ágreiningur um hvar merkin séu í Kvæk eða há Skjólbrekku, en á hinn bóginn stendur deila um hvar Flatskalli sé.

Af gögnum, sem aðilarnir hafa aflað, verður ekki dregin ótvíræð ályktun um hvar staðsetja eigi Flatskalla. Til þess verður á hinn bóginn að líta að þegar horft er til norðurs frá kennileitinu Kvæk á bökkum Mývatns sést vel til þess hóls, sem stefndu halda fram að melurinn Flatskalli sé á, og af þeim mel sést að sama skapi vel til vörðu í há Skjólbrekku. Frá Kvæk verður ekki séð til þess staðar, sem áfrýjandi heldur fram að sé Flatskalli, þótt þaðan sjáist vel til há Skjólbrekku. Þótt í merkjabréfunum sé ekki rætt um að merki séu í sjónhendingu milli staða verður að gæta að því að við gerð þeirra hlýtur eins og venjulegt var að hafa verið miðað við röð sýnilegra kennileita, sem rekja megi merkin eftir frá einum stað til annars, enda á þeim tíma ekki við aðra kosti að styðjast, svo sem uppdrætti eða hnitasetningu. Í þessu efni skiptir ekki síður máli að merkjabréfum jarðanna tveggja ber saman um að merki þeirra ráðist af fimm merkipunktum, þar á meðal þeim þremur sem áður er getið. Eins og stefndu hafa í málatilbúnaði sínum staðsett kennileitið Flatskalla virðist eftir endilöngum merkjunum myndast því sem næst bein lína, en sé tekið mið af þeim stað, sem áfrýjandi telur bera heitið Flatskalla, tækju merkin stefnu frá Kvæk til norðvesturs að Flatskalla og þaðan í norðaustur í há Skjólbrekku. Ekki verður séð að aðstæður í landslagi eða annað, sem fram hefur komið í málinu, hafi kallað á að merki vikju á þennan hátt frá beinni línu, svo sem almennt verður að teljast venjulegt. Enn verður að gæta að því að á þeim stað, sem stefndu halda fram að sé Flatskalli, er að finna vörðu, svo sem vísað var til í landamerkjabréfi Reykjahlíðar, en á staðnum, sem áfrýjandi heldur fram, er ekki vörðu að finna. Þegar þetta allt er virt verður að telja að þær líkur séu fyrir að krafa stefndu eigi við rök að styðjast, að leggja verði sönnunarbyrði á áfrýjanda um að Flatskalli sé á þeim stað sem hann heldur fram. Sú sönnun hefur ekki tekist. Samkvæmt því verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Viðurkennt er að merki milli jarðanna Grímsstaða og Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi ráðist meðal annars af merkjavörðu austast á kennileitinu Flatskalla með hnitasetningu E594281 og N574976 (N 65°39´ 31,604´´ V 16°57´ 01,744´´).

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað er staðfest.

Áfrýjandi, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., greiði stefndu, Herdísi Steingrímsdóttur, Elínu Steingrímsdóttur, Guðrúnu Benediktsdóttur, Kjartani Þ. Sigurðssyni, Hauki Aðalgeirssyni og Þorgerði Egilsdóttur, samtals 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra fimmtudaginn 15. janúar 2009.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 24. nóvember sl., hafa Herdís Steingrímsdóttir, kt. 100761-5219, Grímsstöðum I, Elín Steingrímsdóttir, kt. 221059-5229, Grímsstöðum I, Guðrún Benediktsdóttir, kt. 030640-2339, Grímsstöðum II, Kjartan Þ. Sigurðsson, kt. 070644-3719, Grímsstöðum II, Haukur Aðalgeirsson, kt. 130926-4879, Grímsstöðum III, og Þorgerður Egilsdóttir, kt. 031227-3219, Grímsstöðum IV, Skútustaðahreppi í Þingeyjarsýslu, höfðað hér fyrir dómi með stefnu, birtri 17. mars 2008, á hendur Landeigendum Reykjahlíðar ehf., kt. 550402-3860, Lágmúla 5, Reykjavík.

Þá er málið höfðað með gagnstefnu aðalstefnda á hendur aðalstefnendum, birtri 29. apríl 2008, en þingfestri 4. júní sama ár.

Fjallað verður um málið í einu lagi þar sem kröfur málsaðila eru þær sömu, bæði í aðalsök og gagnsök

Endanlegar dómkröfur aðalstefnenda, hér eftir nefndir stefnendur eru, að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðanna Grímsstaða og Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi afmarkist af nákvæmri lýsingu landamerkjaskráa jarðanna frá árinu 1891 þannig:  yfir há Skjólbrekku, hnitpunktur E594252/N576417 (N 65° 40´ 18,135” W 16° 57´ 00,356”) í merkjavörðu austast á Flatskalla, hnitpunktur E594281/ N574976 (N 65° 39´ 31,604” W 16° 57´ 01,744”) og yfir hið nýja hraun að Kvæk, sem er grashvammur er gengur norður frá Mývatni inn í hraunið vestarlega milli bæjanna, hnitpunktur E 594106/N574263 (N 65° 39´ 08,779” W 16° 57´ 17,234”).  Þá krefjast stefnendur þess, að merkjavarðan austast á Flatskalla verði viðurkennd sem umrædd merkjavarða og umræddur melur sem merkjavarðan stendur á verði viðurkenndur sem melurinn Flatskalli, í samræmi við örnefnaskrá Péturs Jónssonar frá Reykjahlíð.  Þá krefjast stefnendur málskostnaðar samkvæmt fram lögðum reikningi.

Dómkröfur aðalstefnda eru, að viðurkennt verði með dómi, að landamerki jarðanna Reykjahlíðar og Grímsstaða í Skútustaðahreppi liggi með eftirfarandi hætti frá há Skjólbrekku að Mývatni; úr vörðu á há Skjólbrekku um beina línu í vörðubrot á Flatskalla, vestan Fagraneshóla, með GPS hnitið N 65° 39” 539, og W 16° 57” 614, og þaðan um beina línu í svonefndan Kvæk við Mývatn.  Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt fram lögðum reikningi.

Af hálfu aðalstefnda í aðalsök, hér eftir nefndur stefndi, er krafist sýknu í aðalsök, en einnig er krafist málskostnaðar.

Dómkröfur gagnstefndu í gagnsök eru þær að kröfum gagnstefnanda verði hafnað, og er af hálfu dómsins litið svo á að þar sé átt við kröfu um sýknu.  Jafnframt krefjast gagnstefndu málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.

I.

Í máli þessu deila aðilar um landamerki milli Grímsstaðabæja og Reykjahlíðar.  Verður ráðið að ágreiningurinn hafi orðið áþreifanlegur sumarið 2006 eftir að stefnendur lögðu fram erindi til sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um breytingu á aðalskipulagi.  Tilefnið var að þeir höfðu gert leigusamning um lóð við ferðaþjónustufyrirtæki, í og vestan við aflagða malarnámu, norðan Kísilvegar, þ.e. þjóðveg nr. 87.  Með bréfi dagsettu 31. ágúst sama ár var umbeðinni breytingu á aðalskipulagi andmælt af hálfu fyrirsvarsmanns stefnda með vísan til þess að umrætt landsvæði væri að stærstum hluta innan landamerkja Reykjahlíðar.  Liggur fyrir að í kjölfar þessa hittust málsaðilar á fundi í Hótel Reykjahlíð hinn 14. október 2006.  Eftir fundinn lá það fyrir að enginn ágreiningur var með aðilum með landamerkjapunkta, sem nefndir eru í landamerkjaskrám jarðanna, að því er varðaði vörðu á há Skjólbrekku og um staðsetningu örnefnisins Kvæks við Mývatn.  Var þetta áréttað síðar við meðferð málsins fyrir dómi, sbr. afstöðumyndir á dskj. nr. 27, 50, 51 og 58.  Ágreiningur aðila var hins vegar skýr varðandi staðsetningu hóls eða mels, sem ber örnefnið Flatskalli, og var erindi þar um sent sýslumanninum í Suður-Þingeyjarsýslu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 41, 1919 um landamerki, og þess óskað að hann leitaði sátta.  Aðilar hittust á fundi með sýslumanni hinn 14. febrúar 2007, en sáttatilraunir reyndust árangurslausar.

Samkvæmt ofangreindu varðar ágreiningur aðila staðsetningu örnefnisins Flatskalla og þeirrar merkjavörðu sem á honum er, en fyrir liggur að hún ræður merkjum milli jarðanna samkvæmt landamerkjaskrám jarðanna Grímsstaða og Reykjahlíðar.

Halda stefnendur því fram að Flatskalli sé uppi á hæsta hólnum séð frá jörð þeirra, Grímsstöðum.  Stefndi telji örnefnið aftur á móti vera hæsta melinn vestan svonefndra Fagraneshóla, þar sem gamli vegurinn á milli Grímsstaða og Reykjahlíðar lá um forðum.

Af hálfu málsaðila hafa verið lögð fyrir dóm margvísleg gögn.  Helst má þar telja landamerkjalýsingar fyrir Grímsstaði og Reykjahlíð frá 8. apríl og 8. maí 1891, en einnig örnefnaskrár fyrir jarðirnar, fyrrnefndar hnitsettar afstöðumyndir og ljósmyndir, minjalýsingu Mývatnssveitar og lýsingu á náttúrufari heimalands Reykjahlíðar og Voga í Mývatnssveit, sem Helgi Hallgrímsson tók saman árin 1977 og 1980, sbr. dskj. nr. 33 og 34, og loks fjölmargar yfirlýsingar nafngreindra aðila um staðsetningu örnefnisins Flatskalla.

Í nefndri minjalýsingu Mývatnssveitar og lýsingu á náttúrufari segir m.a. að í fornsögum sé Grímsstaða ekki getið, en að þeir muni þó vera forn jörð, enda ein af þeim landmestu í Mývatnssveit.  Segir að land jarðarinnar nái allt að merkjum Þeistareykja við norðvesturhorn Gæsafjalla eða um 17 km vegalengd, en um austurmörk jarðarinnar segir orðrétt:  „Að austan eru merkin á móti Reykjahlíð (áður Fagranesi) úr Kvæk eða Flataskalla (mel) í Rauðhóla og Bóndhól.“  Um Reykjahlíð segir í minjalýsingunni m.a. að hennar sé getið í Íslendingasögum sem landnámsjarðar, og að hún sé langstærsta jörðin í Mývatnssveit.  Um merki segir að land Reykjahlíðar nái að sýslumörkum að norðan en að Jökulsá að austan, að í suðri séu mörkin ótiltekin, en að vestan liggi þau að Mývatni (Ytri-Flóa), að Grímslandi norðan vatnsins og að Vogalandi sunnan þess.  Þá er í minjalýsingunni frá því greint að árið 1729 hafi hraun runnið frá Leirhnjúk að bænum og fært hluta hans í kaf.  Og nánar um eldhraunið 1729 segir síðan:  „Það hefur kaffært allmikið af grónu landi, þ.e. gömlu uppgrónu hrauni og votlendi og rann auk þess spölkorn út í vatnið.  Túnið í Fagranesi fór allt undir hraun og flest hús á bænum, en aðeins sést móta fyrir tóftum á nokkrum hólum, sem standa upp úr hrauninu.  Þá munu engjar jarðarinnar einnig hafa eyðilagst að mestu og því fór Fagranes í eyði.  Landið lagðist til Reykjahlíðar.  Þá hafa tún og engjar Reykjahlíðar einnig eyðst að miklum hluta.  Fátt er um kennileiti í eldhrauninu og mjög fá örnefni eru inni á hrauninu.  Niður við vatnið eru hins vegar nokkrar víkur og tangar eða nef, sem hafa hlotið nöfn.  Helsti tanginn er Hrauntangi, stuttur en breiður, nálægt miðju hrauni, en utan (NV) við hann er Hrauntangavík.“  Einnig segir:  „Vestan við Hrauntangavík er Smjörklettsvík, lítil og nokkru vestar er vík sem kallast Kvækur (sennilega skylt kvika, enda safnast kesja í botn víkurinnar).  Austanvert við Kvæk liggur gamall grjótgarður norður hraunið.  Kvæksgarður, en um hann eru merki Reykjahlíðar og Grímsstaða.  Er þá komið nálægt vesturmörkum hraunsins.  Sunnan undir háhólnum í Fagraneshólum er Fagranestóft eða Björnstóft öðru nafni í dálitlum hólkolli nálægt hraunjaðri.  Þar voru beitarhús á síðustu öld og hafa e.t.v. verið þar áður (frá Fagranesi).“

Í landamerkjaskrá Reykjahlíðar frá 8. apríl 1891 er merkjum jarðarinnar lýst og segir þar m.a.:  „Bein stefna frá Dettifossi í Eilífshnjúk, þaðan bein stefna yfir Hrútfjöll og Gjástykki mót Þeistareykjalandi, vestur í mó, þar til Bóndhóll er genginn í hásuður og Eilífshnjúkur ber rétt norðan undan Gæsafjöllum.  Frá merki þessu ræður bein stefna í Bóndhól, sem er beint vestur af Gæsadalsfjöllum og þaðan móti Grímsstaðalandi bein lína í Þverdalsbyrgi, þaðan yfir há Skjólbrekku í merkjavörðu austast á Flatskalla, þaðan beina stefnu í Kvæk, sem er grashvammur við vatnið, er gengur inn í hraunið vestarlega, milli Grímsstaða og Reykjahlíðar.  Þá ræður Mývatn suður að Svínavog.“

Landamerkjaskráin er undirrituð af þáverandi eigendum og ábúendum Reykjahlíðar og Grímsstaða, ásamt eigendum annarra aðliggjandi jarða.  Skráin var þinglesin á Skútustöðum 29. maí 1891.

Í landamerkjaskrá Grímsstaða frá 8. maí 1891 er merkjum lýst, þ. á m. gagnvart Reykjahlíð, og segir þar um:  „Þá er bein stefna til austurs í nefnt fjallmerki (Eilífsfjall) milli Grímsstaða og Þeistareykjalands þar til Bóndhóll er stendur vestur af Gæsafjöllum sunnanverðum er beina stefnu þaðan í Hrafnabjörg.  Sú lína er merkilína milli Grímsstaða og Reykjahlíðarlands.  Síðan beint af Bóndhól í Þverdalsbryggju, þaðan yfir há Skjólbrekku, síðan Flataskalla austast og yfir hið nýja hraun að Kvæk, sem er grashvammur er gengur norður frá Mývatni inn í hraunið vestarlega milli bæjanna Grímsstaða og Reykjahlíðar.

Landamerkjaskráin er undirrituð af þáverandi eigendum og ábúendum Grímsstaða og Reykjahlíðar, ásamt eigendum annarra aðliggjandi jarða.  Skráin var þinglesin á Skútustöðum 12. júlí 1892.

Í framlagðri skrá Örnefnastofnunar er getið um kennileiti jarðanna Grímsstaða og Reykjahlíðar.  Er ágreiningslaust með aðilum að helsti heimildarmaður þar um hafi verið Pétur Jónsson í Reykjahlíð, en hann var fæddur árið 1898.

Í skrá Örnefnastofnunar fyrir Grímsstaði (örnefni skráð í stafrófsröð) segir m.a.:

„Flatskalli, hæsti melurinn norðaustur af bænum.  Þar merki móti Reykjahlíð.“

„Graslág, lægð norður af Flatskalla.“

,,Hrauntagl, gengur vestur úr hrauninu, norðan við Kvosir.“

Í örnefnaskrá Péturs Jónssonar um Grímsstaði segir m.a.:

„Ef við förum nú austur fyrir Morkelduna, þá er þar næst vatninu austari-Morkeldumóar.  Höfði er grasi gróinn smáhóll fram úr hrauninu við vatnið ofan við Morkeldu.  Ofan við höfðann er vík inn í hraunið, sem heitir Kvækur, þar eru merki móti Reykjahlíð.  Hundahellir er í hraunjaðrinum austur af miðri Morkeldukvos, og litla Hrauntagl gengur vestur úr hrauninu og vestur í kvosina, og svo er merkjavarða austast á Flataskalla, en þar er hæsti melurinn norðaustur af bæ.  Hrauntagl gengur vestur úr hrauninu norðan við Kvosir, er síðar getur.  Hraun það, sem hér er talað um er á korti nefnt Eldhraun, það er sá mikli hrauneldur frá 1729 milli Reykjahlíðar og Grímsstaða.  Flataskalli er norðan við hrauntaglið vestur af Fagraneshólum, sjá Reykjahlíðarland.  Norður af Flataskalla er lægð sem heitir Graslág …“

Í skrá Örnefnastofnunar um Reykjahlíð (örnefnaskrá í stafrófsröð) segir m.a.:  „Flatskalli, flatur melur vestur af Fagraneshólum, merki móti Grímsstöðum.“

Í örnefnaskrá Péturs Jónssonar um Reykjahlíð segir m.a.:

„Kvækur er hvammur við vatnið eða vík inn í hraunið fyllt af kesju, þar eru merkin móti Grímsstöðum, svo er línan yfir nýja hraunið og í vörðu á Flatskalla, sem er melur allmyndarlegur, er varðan austast á honum.  Kvæksnef er hraunhorn fram í vatnið rétt við Kvæk og Kvæksgarður er vörslugarður gamall rétt fyrir ofan Kvæk, merkjagarður.

Austur af Flatskalla eru hólar norðan hraunsins, sem heita Fagraneshólar.  Þetta eru háir og áberandi hólar.  Sunnan við hólana er eyðibýlið Fagranes, sem fór í eyði 1729.  Fagranestættur eru þar sem bærinn var.  Þar voru beitarhús síðast, þess vegna nefnt Björnstóft.  Það var Björn í Hrauney sem notaði þau.  Graslág er stór og djúp lág, sem liggur þvert norður af Fagraneshólum og Flatskalla …  Norður úr Fagraneshólum er stórgrýttur melhalli, sem heitir Grjótháls.“

Á meðal gagna er ljósrit frá Fornleifastofnun Íslands frá árinu 2000, um fornleifar við norðan- og austanvert Mývatn.  Er þar m.a. greint frá merkjavörðu, og er hún sýnd á afstöðumynd, ásamt hnitum, en tekið er fram að nokkur skekkjumörk séu þar á.  Segir nánar um vörðuna:

„Merkjavarða er austast á Flatskalla, en það er hæsti melurinn norðaustur af bæ, segir í örnefnalýsingu.  Á Flataskalla eru þrjár vörður og sú í miðjunni, sem einnig stendur dálítið sunnar en hinar tvær, er þeirra stærst.  Tvær vestari vörðurnar standa á mel sem er örlítið hærra en melurinn austan við.  Hættumat:  Engin hætta.“

Líkt og áður var vikið að voru af hálfu málsaðila lagðar fyrir dóminn yfirlýsingar fjölmargra aðila, þar sem staðhæft er um staðsetningu örnefnisins Flatskalla.  Hafa stefnendur m.a. lagt fram dskj. nr. 10-18 og 86, sem eru ljósrit með mynd, þar sem nafngreindir aðilar rita undir texta þess efnis að Flatskalli sé á landamerkjum Grímsstaða og Reykjahlíðar, nánar tiltekið þar sem hæsti hóllinn (melurinn) er norðaustur frá Grímsstöðum.  Í textanum segir ennfremur að suðvestan í hól þessum sé malargryfja og önnur norðan í honum.  Áréttað er að örnefnið eigi við hæsta hólinn á myndinni, en einnig er tekið fram að girðing liggi því næst á merkjum Grímsstaða og Reykjahlíðar yfir hraunið frá Kvæk að ristarhliði á þjóðvegi nr. 87 og stefni á hólinn austanverðan.  Þessu til viðbótar rita nokkrir yfirlýsingargjafanna viðbótartexta frá eigin brjósti, en að auki eru yfirlýsingar aðila, sbr. dskj nr. 19-21 þar sem m.a. kemur fram að efni til vegagerðar hafi verið tekið úr nefndum hól, Flatskalla, og að hann sé í landi Grímsstaða.  Stefndi hefur einnig lagt fram yfirlýsingu fjölmargra aðila, sbr. dskj. nr. 54-57 og 61-84, sem ritað hafa undir texta þar sem segir að örnefnið Flatskalli sé þar sem gömlu reiðgöturnar og síðan gamli þjóðvegurinn hafi legið norðan við Fagraneshóla og beygi síðan til suðvesturs upp á mel þar sem mikið og fagurt útsýni sé um sveitina.  Segir í textanum að örnefnið Flatskalli sé vestan Fagraneshóla.  Við aðalmeðferð málsins staðfestu yfirlýsingargjafarnir, nokkrir hverjir, nafnritanir sínar, en upplýst var og sumir þeirra væru fallnir frá.

Málsaðilar hafa þessu til viðbótar lagt fram ljósmyndir/loftmyndir af áðurgreindum stöðum, m.a. af Skjólbrekku og Kvæk, en einnig af því sem þeir staðhæfa að sé hinn eiginlegi Flatskalli.

Undir rekstri málsins gengu dómarar á vettvang ásamt lögmönnum og hittu þar fyrir málsaðila og fulltrúa þeirra.  Var gengið meðal annars að vörðum og vörðubroti við þau örnefni eða staði, sem málsaðilar staðhæfa að sé hinn eiginlegi Flatskalli.  Einnig var gengið að Björnstóft, að aflagðri malarnámu og með landgræðslugirðingu, sem reist var um 1990 við Kvæk og að ristarhliði á Kísilvegi.

II.

Stefnendur byggja kröfugerð sína á áður röktum landamerkjaskrám jarðanna Reykjahlíðar og Grímsstaða frá 1891, á skrá Örnefnastofnunar, og þá ekki síst á örnefnaskrá Péturs Jónssonar frá Reykjahlíð.  Máli sínu til stuðnings vísa stefnendur einnig til fjölmargra yfirlýsinga og vottorða staðkunnugra aðila, er staðhæfa að örnefnið Flatskalli sé sá melur sem þeir haldi fram, en þar um vísa þeir og sérstaklega til yfirlýsinga vitnanna sem komu fyrir dóminn, m.a. þeirra er unnu við efnistöku úr Flatskalla í landi Grímsstaða við gerð svonefnds Kísilvegar á seinni hluta sjöunda áratugar síðustu aldar.  Stefnendur benda og á að varðanna þriggja á Flatskalla sé getið sérstaklega á fornleifakorti og telja þeir að það sýni að margnefnd merkjavarða, sem þeir vísi til, sé gömul, alþekkt og njóti verndar.

Stefnendur benda á að í landamerkjaskrám jarðanna sé tekið fram að merkin séu austast á Flatskalla.  Þannig sé í merkjalýsingu Reykjahlíðar skráð að merkin fari yfir há Skjólbrekku í merkjavörðu austast á Flatskalla.  Árétta stefnendur að í þessari lýsingu sé skýrlega tekið fram að um merkjavörðu sé að ræða.  Benda þeir á að varða sé stein- eða moldarhraukur, hlaðin til vegvísunar, sbr. íslenska orðabók Menningarsjóðs, útg. 1963, bls. 770.  Hraukur merki samkvæmt sömu bók stafli, stakkur, sbr. móhraukur, torfhraukur, eða keila.  Þannig sé varða í almennri vitund mikið eða nokkurt mannvirki, sem hlaðið sé upp og notað til þess mikið af grjóti.  Einn steinn eða fáir verði þess vegna aldrei taldir vera varða heldur steinn og séu þeir tveir sé um tvo steina að ræða.  Telja stefnendur með vísan til þessa að það sé rangt og er því hafnað af þeirra hálfu, að unnt sé að draga merkjalínu frá fyrrnefndri vörðu á há Skjólbrekku til vesturs að þeim tveimur steinum sem stefndi telji að marki umræddan Flatskalla.  Vísa stefnendur til þess að einn steinn reistur upp og studdur af broti, vísast úr þeim sama steini, enda brotsár nýlegt þar eð skófir hafi ekki vaxið í brotunum, geti aldrei orðið að merkjavörðu, þ.e. „merkjavörðu austast á Flatskalla“. Benda stefnendur á að þjóðfrægir héraðshöfðingjar líkt og lengi hafi byggt stórjörðina Reykjahlíð hefðu aldrei kallað einn stein vörðu þótt sá væri studdur steinbroti einu til að rísa upp af landi þar sem nóg sé af grjóti til að hlaða veglega vörðu eins og sjáist á fram lögðum myndum af vettvangi.  Staðhæfa stefnendur að ef umræddur steinn væri umrætt vörðumerki, eins og stefndi haldi fram, þá hefði verið ritað í landamerkjaskrá Reykjahlíðar:  ,,..þaðan í stein..“ o.s.frv.  Það sé ekki svo heldur þvert á móti sé skýrlega skráð að um merkjavörðu sé að ræða og því eigi merkjapunkturinn að vera varða.  Þannig sé þessu líka farið, slíkar vörður séu á Flatskalla.  Sé ein þeirra austast, hún sé forn og því sú sem þeir haldi fram að sé merkjavarðan.  Varða þessi sjáist vel og skýrlega úr Kvæk, sbr. fram lagðar ljósmyndir.  Benda stefnendur á að það skipti einmitt máli það sem sjáist frá þeim stað þar sem aðilar telja landamerkin vera.  Frá steini þeim er stefndi telji merkjavörðuna, nú vörðubrot, sjái hins vegar ekki eins yfir eins og frá merkjavörðu þeirri sem stefnendur haldi fram þegar horft sé til umræddra punkta úr öðrum merkjapunktum, þ.e. af há Skjólbrekku og Kvæk.  Af há Skjólbrekku blasi við merkjavarðan á Flatskalla og öfugt og af Flatskalla sjáist vel niður að vatninu í átt að Kvæk og frá Kvæk blasi merkjavarðan á Flatskalla við.  Einkenni Flatskalla og mikilvægi hans sem landamerkis sé þannig víðsýnið af melnum, sbr. Árbók Ferðafélags Íslands frá árinu 2006, bls. 111, sbr. dskj. nr. 23, en þar segi að vestarlega í Fagraneshólum sé Flatskalli og hafi þótt þaðan fögur sýn yfir Mývatnssveit, en í framhaldi af því sé vitnað í vísu þeirra Árna Jónssonar á Skútustöðum og Stefáns Stefánssonar í Ytri-Neslöndum:  Fagurt er á Flatskalla/ fyrir norðan sveitina/ að horfa yfir hólmana/ hraun á báða flóana.  Telja stefnendur að nota megi vísu þessa til að rannsaka nánar hvar umræddur melur sé, þ.e. Flatskalli.  Í vísunni komi nefnilega fram ýmislegt er styðji það hvar örnefnið sé að áliti stefnenda.  Liggi þannig fyrir að Flatskalli sé fyrir norðan sveitina og þaðan sé hægt að horfa yfir hólmana, hraun og báða flóana.  Við flutning var af hálfu stefnenda vísað til þess að við vettvangsgöngu hefði þetta og allt skýrlega komið í ljós.

Af hálfu stefnenda er hafnað þeim vangaveltum og röksemdum stefnda, að fyrirtíðarmenn hefðu ekki farið upp á tiltekna hóla til náttúruskoðunar, enda hefðu sennilega ekki öll náttúruljóð verið ort af reið- eða þjóðvegi heldur þaðan sem yfirsýn hafi verið hvað best, líkt og lýst sé í kvæði Matthíasar, „Gekk ég fram á gnípu og geigvæna brún“ o.s.frv.

Af hálfu stefnenda er því andmælt að ágreiningur um staðsetningu umrædds örnefnis, Flatskalla, hafi fyrst komið fram uppúr 1990 og til þess vísað, m.a við flutning, að stefnendur kannist alls ekki við að ágreiningur hafi verið um landamerkin, þ. á m. við gerð landgræðslugirðingar umrætt ár.  Og varðandi þá málsástæðu stefnda að engin dæmi séu um að fé frá Grímsstöðum hafi verið rekið til beitar í Graslág, benda stefnendur á að merkin milli jarðanna liggi einmitt um Graslágina.  Hafi stefndi rekið fé sitt sérstaklega í Graslág, þá hafi það fé væntanlega bitið báðum megin merkja, því ekki þekki sauðirnir landamerkin þegar mannfólkið geti jafnvel greint á um þau.  Þá hafi fé frá Grímsstöðum að sjálfsögðu einnig runnið óhindrað til beitar í Graslág og þá bitið á sama hátt óháð landamerkjalínunni þegar ekki var girt.  Þá benda stefnendur á, varðandi jörðina Fagranes og beitarhús henni tilheyrandi, að ekki verði fram hjá því litið að sú jörð virðist hafa verið frekar landlítil og hafi eyðst í hraunstraumi 1729.

Um lagarök er af hálfu stefnenda vísað til laga um landamerki o.fl. nr. 41, 1919 með síðari breytingum, til landskiptalaga nr. 46, 1941 með síðari breytingum og til almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkja og túlkun þeirra.  Varðandi aðild er af hálfu stefnenda vísað til 18., 19. og 21. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en um málskostnað til 129., sbr. 130. gr. sömu laga.

Stefndi lýsir málsástæðum og öðrum atvikum m.a. svo, að þegar gengið hafi verið frá landamerkjaskrám beggja jarðanna árið 1891, hafi enginn ágreiningur verið um legu landamerkisins Flatskalla.  Hafi báðar landamerkjaskrárnar verið undirritaðar af þáverandi eigendum jarðanna og sé því að áliti stefnda ljóst, að á þeim tíma hafi ekki vafist fyrir neinum hvar Flatskalli var.  Ekki sé heldur kunnugt um neinn ágreining langt fram eftir 20. öldinni.  Þessu til stuðnings vísar stefndi til örnefnaskráa sem gerðar hafi verið fyrir báðar jarðirnar á miðri 20. öldinni og sé unnt að fullyrða af þeim að enginn ágreiningur hafi verið um landamerkin, enda beri þeim vel saman hvað þetta varði, sbr. það sem hér að framan var rakið.  Af hálfu stefnda er þó á það bent, að Fagraneshólarnir séu ekki taldir upp í örnefnaskrá Grímsstaða, enda séu þeir í landi Reykjahlíðar og séu taldir upp í örnefnaskrá þeirrar jarðar.  Byggir stefndi á því að örnefnið Flatskalli geti þegar af þessari ástæðu ekki verið uppi á hæsta hólnum í Fagraneshólum, enda sé hann vestur af þeim hólum, eins og skýrlega komi fram í örnefnaskrá Grímsstaða og einnig í örnefnaskrá Reykjahlíðar.  Byggir stefndi á því að sökum þessa sé það augljóst, þegar örnefnaskrár fyrir jarðirnar séu skoðaðar hvar örnefnið Flatskalli er, en það sé melur vestur af Fagraneshólum.  Og þar sem Fagraneshólarnir séu samkvæmt áðursögðu ótvírætt í landi Reykjahlíðar geti örnefnið Flatskalli ekki verið í hæsta hólnum, líkt og stefnendur staðhæfi.

Stefndi byggir á því að fleira styðji málsástæður hans og er í því efni áréttað að í örnefnaskrá sé örnefninu Graslág lýst svo:  „Stór og djúp lág, sem liggur þvert norður af Fagraneshólum og Flatskalla.“  Bendir stefndi á að Graslágin sé gróflega áætluð um 50-60 hektarar að stærð og afbragðsbeitiland.  Reykjahlíð hafi ágreiningslaust nýtt Graslág til beitar svo lengi sem elstu menn muni.  Engin dæmi séu til þess að fé frá Grímsstöðum hafi verið rekið til beitar í Graslág.  Beitarhúsatóft sunnan Fagraneshóla, Björnstóft sem nefnd sé í örnefnaskrá Reykjahlíðar, sé staðsett þannig að naumast fari á milli mála að sauðum sem þar hafi verið hýstir, hafi verið haldið til beitar í Graslág.

Þessu til viðbótar bendir stefndi á að efnistaka til vegagerðar muni hafa hafist norðan í Fagraneshólum nokkru fyrir miðja 20. öld þegar vegur hafi verið lagður í Grímsstaði.  Telur stefndi að fullyrða megi að Pétur Jónsson í Reykjahlíð, lengi vegaverkstjóri, hafi tekið þarna möl sem ofaníburð í veg og ekki þurft leyfi Grímsstaðamanna, en hann sjálfur hafi verið í forsvari fyrir landeigendur Reykjahlíðar.

Um málatilbúnað sinn almennt og rök er af hálfu stefnda á það bent, að yngstu núlifandi kynslóðir á Íslandi hafi e.t.v. ekki sömu tilfinningu fyrir blæbrigðum íslensks máls hvað snertir nafngiftir á náttúrufyrirbærum eins og fyrri kynslóðir, sem hafi háð lífsbaráttu sína daglega á vettvangi úti í náttúrunni við að halda fé til beitar, við veiðiskap og annað.  Í daglegu lífi skipti þannig máli að geta lýst landslagi og aðstæðum með nákvæmni.  Meðal annars þess vegna séu fjölmörg íslensk örnefni þannig, að í nafninu felist býsna nákvæm lýsing á staðháttum eða þá að ákveðin saga felist í nafngiftinni.  Telur stefndi að enginn vafi sé á því, að í Mývatnssveit hafi að minnsta kosti verið gerður ákveðinn munur á hól annars vegar og mel hins vegar.  Bendir hann á, að ef athuguð séu örnefni í Mývatnssveit sem endi á -mel, megi sjá að melar séu að jafnaði ávalir og jafnvel flatir að ofan og engan veginn eins háir og áberandi og hólar og hvað þá hæsti hóll.  Stefndi bendir og á að lengi hafi tíðkast í Mývatnssveit að tala mikið í áttum og t.d. í örnefnaskrám séu áttir notaðar með mikilli nákvæmni.  Staðhæfir stefndi að þegar segi í örnefnaskrá Grímsstaða að Flatskalli sé „hæsti melurinn norðaustur af bænum“ sé ljóst, að í fyrsta lagi sé einungis verið að lýsa örnefnum í Grímsstaðalandi, og þess vegna komi Fagraneshólar í landi Reykjahlíðar málinu ekki við.  Í öðru lagi sé um að ræða flatan mel, líkt og nafnið beri með sér, en ekki háan og áberandi hól, eins og Fagraneshólar séu.  Þess vegna stemmi þessi lýsing engan veginn við há Fagraneshóla, eins og stefnendur byggi á að Flatskalli sé.  Í þriðja lagi sé sagt „norðaustur af bænum“.  Telur stefndi að ef verið væri að vísa til há Fagraneshóla myndi að öllum líkindum hafa verið sagt „aust- norðaustur af bænum“.  Þá staðhæfir stefndi að við þeim er gangi upp á hæsta hólinn í Fagraneshólum og skoði aðstæður blasi við að ef nafnið Flatskalli hefði verið gefið þessum hól væri um argasta öfugmæli að ræða, þarna sé ekki um neinn flata að ræða.

Þá bendir stefndi máli sínu til stuðnings á jörðina Fagranes og legu hennar, en hún hafi runnið til Reykjahlíðar eftir Mývatnselda 1729.  Um hafi verið að ræða áður sjálfstæða jörð og sé hún í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1712 metin á 8 hundruð að dýrleika, en til viðmiðunar hafi Reykjahlíð þá verið metin á 30 hundruð.  Jörðin Fagranes hafi þannig verið metin á meira en sem nemur ¼ af Reykjahlíð, sem segi að áliti stefnda nokkra sögu um stærð og gæði jarðarinnar.

Stefndi bendir ennfremur á að í máldaga „Hlíðarkirkju“ frá 1573 segi m.a. um vestur-landamerki Reykjahlíðar, sem þá hljóti að hafa verið á móti Fagranesi: „Landamerki í austanverðan Seljadal og svo langt út í mó ...“.  Telur stefndi að af þessu megi sjá, að hefðu merkin milli Fagraness og Grímsstaða verið um há Fagraneshóla og miðja Graslág, hefði breidd lands Fagraness á þessu svæði ekki verið nema u.þ.b. 1,2-1,3 km.  Merkjalína um 400-500 m vestar, miðað við merki um Flatskalla vestan Graslágar, hefði skipt þarna verulegu máli varðandi beitiland í nálægð við Fagranesbæinn.

Af hálfu stefnda er einnig á það bent að í örnefnaskrá Reykjahlíðar segi m.a. að Björnstóft sé áberandi hústóft sunnan undir há Fagraneshólum.  Vísar stefndi til þess að nefndur Björn hafi búið í Hrauney nokkru eftir miðja 19. öld og hafi hann haft fé þarna í beitarhúsum.  Sjá megi þarna minjar um fleiri byggingar.  Bendir stefndi á að ef landamerkin hefðu verið um há Fagraneshóla, svo sem stefnendur haldi fram, hafi línan legið um 10-15 m vestan við framangreindar tóftir.  Staðsetningu beitarhúsa svo nærri landamerkjum telur stefndi vægast sagt vera sérkennilega, en telur að ennfremur megi velta því fyrir sér hvers vegna beitarhús hafi verið staðsett þarna ef ekki hafi verið ætlunin að beita fénu í Graslág, steinsnar frá.

Að lokum bendir stefndi á að eftir að eldhraunið rann og breiddi úr sér milli Reykjahlíðar og Grímsstaða sumarið 1729 hafi verið ruddur reiðvegur yfir hraunið rétt sunnan við svonefnd Slý (tjarnir á votlendi), norðaustur af Fagraneshólum og síðan hafi leiðin legið vestur norðan við Fagraneshól og yfir Flatskalla.  Og þegar riðið hafi verið frá Reykjahlíð norður að Slýjum og síðan áfram vestur hafi lítið sést til Mývatns fyrr en komið var upp á Flatskalla, en þá hafi sveitin blasað við, vatnið, Slútnes fyrir landi og fjallahringurinn.  Hafi að vonum vegfarendum þótt þarna „fögur sýn yfir Mývatnssveit“, enda hafi þarna verið alfaraleið, bæði innansveitarfólki og vegfarendum öðrum er leið hafi átt milli landsfjórðunga.  Það sé því eðlilegt að Flatskalli hafi orðið þekktur og rómaður útsýnisstaður, bæði meðal Mývetninga og ferðamanna.  Vísar stefndi til þess að þó svo að hæsti hóllinn í Fagraneshólum, nokkru austar, sé hærri, megi telja fullvíst að ekki hafi margir lagt á sig að ríða upp á hann, hvað þá að ganga þangað upp til að njóta útsýnis.  Telur stefndi að ætla megi að ekki hafi margir núlifandi Mývetningar gengið upp á þennan hól og enn síður hafi margir farið þangað upp í fyrri tíð, meðan samgöngur hafi verið erfiðar og ekki hafi verið algengt að fólk gæfi sér tóm frá daglegu amstri til náttúruskoðunar.  Staðhæfir stefndi að hliðstæðan við Flatskalla sé Námaskarð, sem einnig hafi verið rómaður útsýnisstaður.  Það sé augljóslega vegna þess að þar um hafi legið alfaraleið frá alda öðli.  Þegar vegfarendur hafi komið að austan blasi Mývatnssveit við þeim frá Námaskarði.  Báðum megin skarðsins séu útsýnisstaðir sem liggi mun hærra og frá þeim sé að sjálfsögðu meira útsýni en af skarðinu.  Samt séu þeir ekki þekktir sem slíkir heldur Námaskarðið.  Að þessu leyti var af hálfu stefnda við flutning einnig vísað til framlagðra yfirlýsinga um legu Flatskalla og vitnisburða fyrir dómi.

Samkvæmt öllu framangreindu telur stefndi það blasa við að taka verði kröfu hans til greina um að Flatskalli sé hæsti melurinn vestan við Fagraneshóla, þar sem gamli vegurinn milli Grímsstaða og Reykjahlíðar hafi legið um, en ekki hæsti hóllinn í Fagraneshólunum, líkt og stefnendur haldi fram.  Af hálfu stefnda er að lokum öllum málsatvikum, málsástæðum og sjónarmiðum sem fram komi í stefnu málsins og í bága fari við málsatvik, málsástæður og sjónarmið í málatilbúnaði hans mótmælt sem röngum.

Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til laga nr. 41, 1919 um landamerki o.fl. og meginreglna íslensks eignaréttar um landamerki.  Um heimild til höfðunar gagnsakar vísar stefndi til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, en um málskostnaðarkröfu vísar hann til 1. mgr. 130. gr. sömu laga.

III.

Við aðalflutning gáfu skýrslur stefnendur málsins, þau Elín Steingrímsdóttir, Kjartan Þór Sigurðsson og Guðrún Benediktsdóttir, en af hálfu stefnda fyrirsvarsmennirnir Jón Illugason og Finnur Sigfús Illugason.  Ennfremur gáfu þá skýrslur vitnin Egill Steingrímsson, Birgir Valdemar Hauksson, Þorgeir Gunnarsson, Arngrímur Geirsson, Sigurður Jónsson, Ásmundur Jón Kristjánsson, Snæbjörn Pétursson, Jón Árni Sigfússon og Ingólfur Ísfeld Jónasson.

Samkvæmt landamerkjalögum frá árinu 1882 var eiganda eða umráðamanni hverrar jarðar skylt að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar, eins og hann vissi þau réttust.  Þá bar landeiganda að sýna merkjalýsingu hverjum þeim er land átti til móts við hann, sem og eigendum lands þess, er hann taldi jörð sína eiga ítak í, og er þeir allir höfðu ritað nafn sitt á hana skyldi hann fá hana sýslumanni í hendur til þinglesturs á næsta manntalsþingi.

Líkt og hér að framan var rakið voru landamerkjaskrár fyrir Grímsstaði og Reykjahlíð gerðar vorið 1891 og þinglesnar þá um sumarið og sumarið 1892.

Í máli þessu er engin ágreiningur með aðilum um merkjalýsingar nefndra landamerkjaskráa, en eins og fram er komið skipta þar mestu þrjú örnefni, Skjólbrekka, Flatskalli og Kvækur, en um þau liggja landamerki jarðanna.

Samkvæmt framangreindu varðar ágreiningur aðila í máli þessu staðsetningu örnefnisins Flatskalla og þeirrar merkjavörðu sem á honum er, en fyrir liggur að hún ræður merkjum.  Halda stefnendur því fram að örnefni þetta sé hæsti hóllinn eða melurinn séð frá jörð þeirra, Grímsstöðum, og að landamerkin liggi um austustu vörðuna.  Stefndi telur örnefnið aftur á móti vera hæsta melinn vestan svonefndra Fagraneshóla, þar sem gamli vegurinn á milli Grímsstaða og Reykjahlíðar lá um forðum og að merkin séu þar við vörðubrot.

Við vettvangsgöngu voru nefnd kennileiti og örnefni skoðuð, en einnig var virt fyrir sér útsýni frá Grímsstöðum, vörður og vörðubrot skoðuð, gengið um efnistökuhól þann er tekið var úr malarefni við byggingu Kísilvegar á árunum 1967 og 1968, gengið hjá Björnstóft og með landgræðslugirðingu er liggur frá staðnum Kvæk við Mývatn til norðurs yfir nýja hraunið í stefnu á efnistökuhólinn.

Við úrlausn ágreinings þessa verður byggt á fyrrnefndum landamerkjaskrám frá árinu 1891, en einnig á örnefnaskrá Örnefnastofnunar og litið til yngri gagna, þar á meðal minjalýsingar og fornleifaskráningar svo og nýlegra yfirlýsinga og vitnisburða um staðsetningu Flatskalla.  Staðhæfingar málsaðila um atvik máls hafa hins vegar almennt ekki sönnunargildi fyrir dómi, nema um sé að ræða atriði sem honum eru óhagstæð, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.  Við úrlausn um sönnun atvika verður og að taka afstöðu til þess hvort staðhæfingar aðilanna fái nægjanlega stoð í þeim sönnunargögnum sem aflað hefur verið við rekstur málsins, en um mat á sönnunargildi vitnisburðar skal samkvæmt 59. gr. nefndra laga m.a. hugað að afstöðu vitnis til aðila, hagsmunum þess og samræmi í frásögn.

Í landamerkjaskránni fyrir Reykjahlíð segir: ,,... þaðan yfir Skjólbrekku í merkjavörðu austast á Flatskalla, þaðan beina stefnu í Kvæk“.  Í landamerkjaskránni fyrir Grímsstaði er samsvarandi lýsing:  ,,... Þaðan yfir Skjólbrekku, síðan Flatskalla austast og yfir hið nýja hraun að Kvæk, ...“

Í örnefnaskrá Örnefnastofnunar segir um Grímsstaði:  ,,... og litla Hrauntagl gengur vestur úr hrauninu og vestur í kvosina, og svo er merkjavarða austast á Flataskalla, en þar er hæsti melurinn norðaustur af bæ ... Flataskalli er norðan við hrauntaglið vestur af Fagraneshólum ...  Norður af Flataskalla er lægð sem heitir Graslág …“  Og í örnefnaskrá Reykjahlíðar segir:  ,,... í vörðu á Flatskalla, sem er melur allmyndarlegur, er varðan austast á honum ... Austur af Flatskalla eru hólar norðan hraunsins, sem heita Fagraneshólar.  Þetta eru háir og áberandi hólar ...Graslág er stór og djúp lág, sem liggur þvert norður af Fagraneshólum og Flatskalla.“

Að virtum þessum gögnum verður lagt til grundvallar að Fagraneshólar séu austan við Flatskalla, en af vitnisburðum fyrir dómi eru áhöld um hvort þeir nái vestur að hæsta hólnum eða lengra vestur.  Að áliti dómsins getur örnefnið Graslág talist norðan við hvorn staðinn sem aðilar miða við í kröfugerð sinni, og gildir það sama hvað merkingu varðar, en báðir eru þeir flatir og gróðurlausir.

Samkvæmt örnefnaskrá Grímsstaða er Flatskalli án efa hæsti melurinn norðaustur af bæ og fer að áliti dómsins vart á milli mála hvaða mel er átt við.  Í Örnefnaskrá Reykjahlíðar segir að Flatskalli sé melur allmyndarlegur.  Getur það að áliti dómsins einnig átt við hæsta hólinn, fyrrnefndan efnistökuhól, en miklu síður við mel þann sem stefndi heldur fram í kröfugerð sinni.  Er í því viðfangi m.a. til þess að líta að staður sá er stefndi vísar til er á grýttum melhrygg, sem liggur austur – vestur og er nokkru vestar en nefndur efnistökuhóll.  Yfir þennan melhrygg miðjan og þar sem hann er hvað lægstur liggur gamla þjóðleiðin, en þar er og fremur lítið vörðubrot og lítt áberandi sé mið tekið af myndarlegri vörðu á Skjólbrekku samkvæmt mynd, en hún virðist áþekk þeim sem eru á þeim hól eða mel sem stefnendur halda fram.

Í greinargóðum vitnisburðum Ingólfs Ísfelds Jónassonar, Sigurðar Jónssonar og Arngríms Geirssonar fyrir dómi lýstu þeir því að örnefni það sem stefnendur halda fram í málinu sé hinn eiginlegi Flatskalli.  Staðhæfðu vitnin að sá staður væri innan landamerkja Grímsstaða og vísuð þar um m.a. til þess að fyrrgreind efnistaka vegna vegalagningar Kísilvegar á sjöunda áratug síðustu aldar hafi verið úr námu í landi þeirrar jarðar.

Að ofangreindu virtu, aðstæðum öllum, landslagi og vætti nefndra vitna, sem eru staðkunnug, og þar sem ekki nýtur við annarra gagna sem byggt verður á verður fallist á röksemdir stefnenda í máli þessu, en málsástæðum stefnda hafnað.  Verður því dæmt að merki jarðanna séu eins og stefnendur halda fram í aðalsök, og þá þannig að miðað sé við merkjavörðu, sem er austast á Flatskalla, hnitpunktur E594281/ N574976, sbr. dskj. nr. 58.

Er niðurstaða dómsins þá sú að dæma beri að merki jarðanna skuli vera eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt þessum úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnendum málskostnað óskipt, sem telst hæfilega ákveðinn 885.308 krónur.  Hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar, þ.á m. ferðakostnaðar og virðisaukaskatts.

Dómsuppkvaðning í máli þessu hefur tafist vegna starfsanna dómsformanns, en fyrir dómsuppsögu var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Dóminn kveða upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari og meðdómendurnir dr. Bjarni E. Guðleifsson náttúrufræðingur og Hörður Blöndal verkfræðingur.

Dómsorð :

Landamerki jarðanna Grímsstaða og Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi skulu vera þessi: Lína sem hugsast dregin frá há Skjólbrekku, hnitpunktur E594252/N576417 (N 65° 40´ 18,135” W 16° 57´ 00,356”) í merkjavörðu austast á Flatskalla, hnitpunktur E594281/ N574976 (N 65° 39´ 31,604” W 16° 57´ 01,744”) og yfir hið nýja hraun að Kvæk, sem er grashvammur er gengur norður frá Mývatni inn í hraunið vestarlega milli bæjanna, hnitpunktur E 594106/N574263 (N 65° 39´ 08,779” W 16° 57´ 17,234”).  Skal austasta varðan á nefndu örnefni, Flatskalli, vera merkjavarðan millum jarðanna.

Stefndi, Landeigendur Reykjahlíðar ehf., greiði stefnendum, Herdísi Steingrímsdóttur, Elínu Steingrímsdóttur, Guðrúnu Benediktsdóttur, Kjartan Þ. Sigurðssyni, Hauki Aðalgeirssyni og Þorgerði Egilsdóttur, óskipt 885.308 krónur í málskostnað.