Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Kæra
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Mánudaginn 10. mars 2014. |
|
Nr. 166/2014. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Hildur Sunna Pálmadóttir fulltrúi) gegn X (Hrefna Dögg Gunnarsdóttir hdl.) |
Kærumál. Kæra. Frávísun frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að X yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en honum þess í stað bönnuð brottför af landinu um tiltekinn tíma. Málinu var vísað frá Hæstarétti þar sem kæran uppfyllti ekki áskilnað 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2014, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en honum í þess stað gert að sæta farbanni allt til fimmtudagsins 3. apríl 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að sæta gæsluvarðhaldi „frá uppkvaðningu dóms til 3. apríl 2014 kl. 16:00“.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Við uppkvaðningu hins kærða úrskurðar 6. mars 2014 var ekki lýst yfir kæru á dómþingi heldur tiltekið af hálfu sóknaraðila að hann tæki sér lögbundinn frest til þess að taka ákvörðun um hvort hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að vilji maður kæra úrskurð eftir þann tíma skuli hann afhenda héraðsdómara skriflega kæru þar sem greint skal frá því hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. Í kæru sóknaraðila eru ekki greindar þær ástæður, sem hún er reist á, og fullnægir kæran því ekki síðastnefndu skilyrði. Samkvæmt því verður máli þessu vísað frá Hæstarétti.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2014.
Í greinargerð Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að hann hafi nú til rannsóknar meintan þjófnað og meinta líkamsárás.
Kærði hafi verið handtekinn í gærmorgun, grunaður um líkamsárás og tvo þjófnaði á töskum gesta á veitingastöðum í miðbæ Reykjavíkur.
Líkamsárásin hafi átt sér stað að kvöldi 4. mars s.l. utan við [...] í Reykjavík. Kona hafi verið á gangi heim til sín þegar kærði hafi gefið sig á tal við hana. Að lokum hafi kærði stungið upp á því að konan kæmi með honum heim. Þegar hún hafi hafnað því hafi kærði ráðist á hana með höggum og spörkum, kýlt hana í andlitið og sparkað í hana liggjandi. Vitni hafi verið að árásinni. Teknar hafi verið skýrslur af brotaþola og vitninu. Lýsing þeirra á árásarmanninum passi við lýsingu kærða. Þá hafi árásin átt sér stað mjög nærri dvalarstað kærða. Kærði hafi neitað sök hvað þetta mál varði.
Þann 4. mars hafi lögreglunni jafnframt borist tilkynning um að maður hafi stolið veski á veitingastaðnum [...] við Austurstræti, og sama kvöld hafi lögreglu borist tilkynning um þjófnað á bakpoka á veitingastaðnum [...] í Bankastræti. Að morgni 5. mars hafi lögreglu borist tilkynning frá starfsmanni [...] um að maðurinn sem hafi stolið veski þar kvöldinu áður væri þar fyrir utan, hafi sú tilkynning leitt til handtöku kærða. Kærði hafi játað þjófnað í [...] en neitað sök að því er varði þjófnað í [...].
Kærði hafi heimilað lögreglu leit á dvalarstað sínum. Hafi hann þar vísað lögreglu á I-phone síma sem tengst hafi þjófnaðinum á [...] og 3 vegabréf og svarta Sony-myndavél sem tengst hafi þjófnaðinum á [...].
Kærði, X hafi komið til Íslands þann 23. febrúar s.l. án vegabréfs, farseðils, fés til að fjármagna dvölina á Íslandi og allra skilríkja. Segist hann fyrst hafa sótt um hæli í Sviss og svo í Noregi og verið neitað á báðum stöðum. Hann hafi jafnframt sótt um hæli á Íslandi þann sama dag.
Ljóst sé að kærði sé peningalaus og reyni að afla sér fjár með brotum hér á landi, auk þess sem hann sé ofbeldisfullur. Líkamsárásin hafi með öllu verið tilhæfulaus og alvarleg og verði að telja að verði kærði látinn laus úr haldi muni hann halda brotum áfram og verði að telja að töluverð hætta stafi af honum og þeirri háttsemi sem hann hafi viðhaft frá komunni til landsins. Kærði hafi komið til landsins án allra skilríkja og því sé óvíst hver hann í raun sé. Því til stuðnings þá hafi kærði gefið upp tvo fæðingardaga, annars vegar [...]1982 er hann hafi komið til landsins í Leifsstöð og hins vegar [...]1982 er lögregla hafi haft afskipti af honum í gærmorgun. Kærði hafi engin tengsl við landið og því sé talin hætta vera á því að hann fari úr landi til að koma sér undan væntanlegri refsingu. Með vísan til alls framangreinds telji lögregla það vera brýnt að fallist sé á framkomna kröfu um gæsluvarðhald á grundvelli 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 og b-, c-, og d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Kærði hafi gerst brotlegur gegn 1. mgr. 217. gr. og 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. En við brotum skv. 1. mgr. 244. gr. liggi allt að 6 ára fangelsisrefsing og 1 árs fangelsisrefsing skv. 1. mgr. 217. gr. Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002 og b-, c-, og d-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Niðurstaða:
Krafa sóknaraðila um að kærði sæti gæsluvarðhaldi í fjórar vikur er reist 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 sem og b-, c- og d-liðum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Í fyrstgreinda lagaákvæðinu er mælt fyrir um að heimilt sé að úrskurða útlending í gæsluvarðhald ef hann neitar að gefa upp hver hann er, rökstuddur grunur er um að hann gefi rangar upplýsingar um hver hann er eða sýnir af sér hegðun sem gefur til kynna að af honum stafi hætta. Kærði hefur greint frá því hver hann er. Þó að hann hafi gefið upp tvo mögulega fæðingardaga, en hann kvaðst fyrir dómi ekki vita með vissu hvenær hann væri fæddur, og komið skilríkjalaus til landsins, veldur það ekki rökstuddum grun um að kærði hafi veitt yfirvöldum hér á landi rangar upplýsingar um hver hann er. Er þá jafnframt haft í huga það sem fram kom við meðferð málsins fyrir dómi að yfirvöld hér á landi hafa aflað upplýsinga um að maður, sem ber nafn kærða, hafi leyfi til dvalar í Sviss af mannúðarástæðum, en kærði greindi frá því fyrir dómi að hann hafi ekki fellt sig við skilyrði dvalarleyfis þar í landi.
Kærði neitar að hafa gerst sekur um líkamsárás sem átti sér stað við [...] kvöldið 4. mars sl. Ljósmyndir af kærða hafa ekki verið lagðar fyrir brotaþola eða vitni að árásinni. Þá kemur fram í skýrslu af brotaþola og vitni að gerandinn hafi verið klæddur í úlpu með hettu. Kærði var í jakka án hettu við handtöku og ekki fannst við leit á dvalarstað kærða yfirhöfn sem svarar til lýsingar brotaþola og vitnisins. Ekki er því fallist á með sóknaraðila að kærði sé undir rökstuddum grun um framangreinda líkamsárás.
Kærði er aftur á móti undir rökstuddum grun um tvo þjófnaði á öldurhúsum hér í borg, en fangelsisrefsing liggur við slíkum brotum. Sú háttsemi er ekki þess eðlis að draga verði þá ályktun að af kærða stafi slík hætta að rétt sé að fallast á að grípa til jafn harðra úrræða og sóknaraðili fer fram á á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002. Er þá jafnframt litið til þess að ef hann verður fundinn sekur um þessi brot er sýnt að mati dómara að þau muni aðeins hafa í för með sér skilorðsbundna fangelsisrefsingu. Því er óheimilt að úrskurða kærða í gæsluvarðhald samkvæmt 3. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Kærði hefur afar takmörkuð tengsl við Ísland auk þess sem hann er undir rökstuddum grun um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við. Því er skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fullnægt og verður kærða því gert að sæta farbanni á grundvelli heimildar í 100. gr. sömu laga. Verður farbanninu markaður sami tími og gæsluvarðhaldskrafa sóknaraðila.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila um að kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi er hafnað.
Kærða er bönnuð brottför af landinu allt til fimmtudagsins 3. apríl 2014 kl. 16:00.