Hæstiréttur íslands
Mál nr. 306/2005
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Skilorðsrof
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 1. desember 2005. |
|
Nr. 306/2005. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson ríkissaksóknari) gegn Guðmundi Helga Rögnvaldssyni (Sigurður Georgsson hrl.) |
Fíkniefnalagabrot. Skilorðsrof. Hegningarauki.
G var gefið að sök fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 1,93 g af amfetamíni og 16 E-töflur á nafngreindum veitingastað. G átti talsverðan sakarferil að baki. Var refsing hans ákveðin eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna. Talið var að G hafi verið með hættuleg fíkniefni í fórum sínum umrætt sinn. Engin gögn hafi verið lögð fram um það að G hafi tekið sig á, líkt og hann hélt fram. Þegar litið var til þessa og sakaferils G þótti ekki koma til álita að dæma honum frekari skilorðsbundna fangelsisrefsingu. Var hann dæmdur til 12 mánaða fangelsisvistar, auk upptöku á fíkniefnunum, en níu mánaða skilorðsdómur var dæmdur með.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. júní 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing hans verði þyngd og staðfest verði ákvæði héraðsdóms um upptöku.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og hún skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta.
Í máli þessu er ákærða gefið að sök fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 31. júlí 2004 1,93 grömm af amfetamíni og 16 E-töflur (ecstacy) á þar tilgreindum veitingastað.
Samkvæmt sakavottorði ákærða, sem lagt var fram við meðferð málsins fyrir Hæstarétti, var hann dæmdur 29. mars 2001 í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir tilraun til þjófnaðar. Hann stóðst skilorð þess dóms. Ákærði var dæmdur á ný 23. júní 2004 fyrir sams konar brot í fangelsi í tvo mánuði, skilorðsbundið í tvö ár. Þá gekkst hann undir sátt 28. desember sama ár með greiðslu sektar vegna fíkniefnabrots. Með dómi Héraðsdóms Suðurlands 8. apríl 2005, sem var hegningarauki við dóminn frá 23. júní 2004, var hann dæmdur í níu mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir tvö ránsbrot 12. febrúar 2004 í félagi við annan mann og var skilorðsdómurinn 23. júní 2004 dæmdur upp. Með hinum áfrýjaða dómi, sem var kveðinn upp 28. apríl 2005, var sama skilorð dæmt með og virðist því sem héraðsdómara hafi ekki verið kunnugt um dóminn frá 8. apríl sama ár, enda var hans ekki getið á framlögðu sakavottorði. Eftir að hinn áfrýjaði dómur var kveðinn upp hefur ákærði gengist undir greiðslu sektar með tveimur sáttum 28. maí 2005 vegna fíkniefnabrota 1. ágúst og 12. nóvember 2004 og hlotið með dómi 2. júní 2005 eins mánaðar fangelsi fyrir skjalafals og brot gegn 157. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Fíkniefnabrot ákærða sem hér er til umfjöllunar var framið fyrir uppsögu dómanna frá 8. apríl og 2. júní 2005 og ber því að ákveða honum refsingu eftir reglum 78. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 77. gr. laganna.
Ákærði var með hættuleg fíkniefni í fórum sínum umrætt sinn. Í vörn sinni hefur hann haldið því fram að hann hafi tekið sig á, en engin gögn lagt fram því til stuðnings. Þegar litið er til þessa og sakaferils ákærða þykir ekki koma til álita að dæma honum frekari skilorðsbundna fangelsisrefsingu. Þá eru ekki efni til að ákveða honum óskilorðsbundna refsingu sér í lagi og láta skilorðsdóminn haldast. Verður dómurinn frá 8. apríl 2005 því tekinn upp og ákærði dæmdur í einu lagi fyrir brotin sem hann var þar sakfelldur fyrir og það brot sem hann var sakfelldur fyrir með hinum áfrýjaða dómi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku eru staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Guðmundur Helgi Rögnvaldsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 252.169 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sigurðar Georgssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. apríl 2005.
Mál þetta, sem dómtekið var 13. apríl s.l. hefur lögreglustjórinn á Akureyri höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með ákæru útgefinni 2. mars 2005 á hendur Guðmundi Helga Rögnvaldssyni, kt. 160982-5439, Melateigi 20, Reykjanesbæ.
„fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 31. júlí 2004 verið með í vörslum sínum 1,93 gr. af amfetamíni og 16 E-pillur (ecstasy) inni á veitinga- og skemmtistaðnum Sjallanum að Geislagötu 14 Akureyri þegar lögreglan hafði þar afskipti af honum.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 60, 1980, sbr. lög nr. 13, 1985 og sbr. lög nr. 82, 1998 og 2. gr., sbr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á 1,93 gr. af amfetamíni og 16 stykki af E-pillum sem lögreglan lagði hald á og tilgreint er í efnaskrám nr. 024-2004-49, og 024-2004-104, skv. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
Ákærði hefur hér fyrir dóminum skýlaust játað brot sitt eins og því er í ákæru lýst og er sú játning í samræmi við gögn málsins og telst því nægjanlega sannað og varðar það við tilgreind lagaákvæði.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði alls sex sinnum á árunum 2000-2004 hlotið refsingar fyrir brot á hegningarlögum, umferðarlögum og fíkniefnalöggjöfinni. Hinn 23. júní 2004 var ákærði dæmdur í 2 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir brot á 244., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Með broti sínu nú rauf ákærði skilorð þess dóms. Þykir með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga rétt að dæma í einu lagi það brot og brot ákærða nú. Við ákvörðun refsingar er haft í huga að ákærði hafði í vörslum sínum mjög hættulegt fíkniefni. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin samkvæmt 77. gr. almennra hegningarlaga fangelsi í 4 mánuði.
Dæma ber ákærða til að sæta upptöku á 1,93 gr. af amfetamíni og 16 stykki af E-pillum svo sem nánar greinir í dómsorði.
Að lokum ber að dæma ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Guðmundur Helgi Rögnvaldsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.
Ákærði sæti upptöku á 1,93 gr. af amfetamíni og 16 stykki af E-pillum samkvæmt efnaskrám lögreglu nr. 024-2004-49 og 024-2004-104.
Ákærði greiði allan sakarkostnað.