Hæstiréttur íslands

Mál nr. 216/2007


Lykilorð

  • Aðild
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 31

 

Fimmtudaginn 31. janúar 2008.

Nr. 216/2007.

Sigmundur Friðgeir Guðlaugsson

(Steingrímur Þormóðsson hrl.)

gegn

Bónus

(Kristín Edwald hrl.)

 

Aðild. Frávísun máls frá héraðsdómi.

S höfðaði mál gegn hlutafélaginu B til greiðslu skaðabóta vegna slyss sem hann varð fyrir á vinnustað sínum í versluninni Bónus, Spönginni. Í greinargerð í héraði upplýsti stefndi að hann væri ekki hlutafélag heldur einstaklingsfyrirtæki og lagði fram útprentun úr fyrirtækjaskrá því til staðfestingar. Stefndi B var sýknaður af kröfu S í héraði og áfrýjaði hann dóminum. Ekki var talið að gerð hefði verið grein fyrir því við rekstur málsins hvernig B gæti haft aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Málinu var því sjálfkrafa vísað frá héraðsdómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 26. febrúar 2007, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 11. apríl sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hann héraðsdómi öðru sinni 23. apríl 2007. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna líkamstjóns, sem áfrýjandi varð fyrir í vinnuslysi 21. desember 2000, er hann féll á gólf vinnustaðar síns í versluninni Bónus, Spönginni, Grafarvogi og slasaðist á hægri fæti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna slyssins og að málskostnaður falli niður.

Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt stefnu í héraði var mál þetta höfðað á hendur „Bónus hf. kt. 450199-3389, Skútuvogi 13, 104 Reykjavík“. Í greinargerð stefnda í héraði var sérstakur kafli um aðild þar sem segir: „Í upphafi skal tekið fram að stefndi er ekki hlutafélag eins og sagt er í stefnu heldur er stefndi einstaklingsfyrirtæki. Heiti stefnda er því Bónus en ekki Bónus hf.” Í greinargerðinni var vísað til útprentunar úr fyrirtækjaskrá Lánstrausts hf., þar sem segir að um sé að ræða „einstaklingsfyrirtæki með kennitölu (skráð fyrir 1. júlí 2003).“ Samkvæmt málflutningi fyrir Hæstarétti mun Bónus vera heiti í eigu Haga hf.

Ekki hefur verið gerð grein fyrir því við rekstur málsins hvernig stefndi Bónus geti haft aðildarhæfi samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Af því leiðir að máli þessu verður vísað sjálfkrafa frá héraðsdómi. Málskostnaður verður ekki dæmdur en niðurstaða héraðsdóms um gjafsóknarkostnað verður staðfest.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2006.

          Mál þetta, sem var dómtekið 12. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigmundi Friðgeiri Guðlaugssyni, Andrésbrunni 15, Reykjavík á hendur Bónus, Skútuvogi 13, Reykjavík og Sjóvá-Almennum Tryggingum hf., Kringlunni 5, 103 Reykjavík, til réttargæslu, með stefnu birtri 5. september 2006.

                Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi.

Að viðurkennd verði með dómi skaðabótaskylda stefnda, Bónus, vegna tjóns sem stefnandi varð fyrir í vinnuslysi hinn 21. desember 2000, er hann féll á gólf vinnustaðar síns og slasaðist á hægra fæti.

Þá er þess krafist að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnanda, eins og ekki væri um gjafsóknarmál að ræða.

Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.

Stefndi krefst þess til vara að hann verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta vegna þess slyss sem stefnandi varð fyrir hinn 21. desember 2000 og að málskostnaður verði felldur niður.

          Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda og hefur hann engar kröfur gert í málinu.

 

Málavextir.

Stefnandi var starfsmaður stefnda í versluninni í Spönginni í Grafarvogi.  Ágreiningslaust er að um kl. 7.00 árdegis hinn 21. desember 2000 féll hann á  blautu gólfi verslunarinnar en ræstingafólk var þá enn að störfum. Er óhappið átti sér stað var stefnandi á gangi á milli frystikistu og vörurekka.  Hann rann þar til og skall við það niður á annað hnéið. Stefnandi byggir á því að gólfið hafi verið nýbónað og því blautt og hann hafi ekki verið varaður við því. 

Stefnandi slasaðist við fallið á hægra hné og fann fyrir sárum verkjum og leitaði strax til Stefáns Dalbergs læknis. Var þann dag tappað af hnénu 60 ml af blóði. Hinn 26. janúar 2001 fór stefnandi í speglun á hné og kom í ljós rifinn framhluti medial menisk og mikill synovit auk blæðinga suprapatellert. Einnig sáust skemmdir í liðbrjóski á lærlegg í femuro patellar liðnum. Var einnig tekinn hluti medial menisk. Hinn 10. apríl 2001 var stefnandi speglaður á ný vegna verkja frá hnénu. Sást þá rifinn hluti af lateral menisk og var skemmdi hluti þess liðþófa tekinn. Stefnandi var enn speglaður 12. febrúar 2002 vegna verkja í hné. Sást við það að brjóskið, er skemmst hafði áður í femuropaterall liðnum, hafði losnað upp á smásvæði. Var það brjósk fjarlægt.

Slysið var tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins með tilkynningu sem móttekin var hinn 11. janúar 2001.

Með bréfi 29. apríl 2002 óskaði þáverandi lögmaður stefnanda eftir að réttargæslustefndi tæki afstöðu til bótaskyldu stefnda. Bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu var hafnað með tölvupósti 12. ágúst 2002. Hins vegar var fallist á greiðsluskyldu úr slysatryggingu launþega.

Stefnandi vísaði málinu þá til Tjónanefndar vátryggingafélaganna sem komst að þeirri niðurstöðu að tjónið yrði ekki rakið til sakar stefnda og skyldi því ekki bætast.

Stefnandi vísaði málinu því næst til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum sem komst að sömu niðurstöðu og tjónanefndin, þ.e. að ekki hefði verið sýnt fram á saknæma háttsemi starfsmanna stefnda eða vanbúnaðar sem hann bæri ábyrgð á.

Stefnandi hefur, án árangurs, krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda á líkamstjóni  sínu. Hann telur sig hafa lögvarða hagsmuni af því að leita viðurkenningardóms um kröfur sínar, skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 og höfðar því mál þetta.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir kröfur sínar á, að leggja verði þá skyldu á vinnuveitanda, þegar hættulegar aðstæður skapist á vinnustað líkt og í þessu tilfelli, að upplýsa aðra starfsmenn um þá hættu sem er til staðar. Það gerði vinnuveitandinn ekki í þessu tilfelli. Byggir stefnandi á, að það hafi verið óforsvaranlegt að bóna gólf vinnustaða rétt áður en fólk mætti til  vinnu. Byggir stefnandi á, að gólfið þar sem hann rann, hafi litið eins út, eins og það hefði verið þrifið og bónað um nóttina, eins og venja var. Gólfið hafi litið út eins og venjulega að morgni dags og gat stefnandi með engu móti séð að það hefði verið bónað seinna en vanalega og væri  enn blautt.  Byggir stefnandi á, að vinnuveitanda á slíkum vinnustað beri að láta þrífa gólf sem þessi utan vinnutíma annarra starfsmanna, en að öðrum kosti að vara starfsfólk við þeirri hættu sem skapast, með viðeigandi merkingum. Byggir stefnandi á, að eðlilegum öryggisráðstöfunum hafi ekki verið sinnt umræddan morgun við þrif á gólfi verslunarinnar. Slysið er stefnandi varð fyrir megi því rekja til þessarar saknæmu háttsemi vinnuveitanda stefnanda.

Stefnandi byggir á, að þó ræstingarfólk hafi enn verið við störf á vinnustað hans, þegar hann mætti til vinnu,  hafi hann mátt treysta því að starfsfólkið hefði ekki skilið umrætt gólf eftir sig nýbónað og hált, án þess að ræstingarfólkið eða yfirmaður hans myndi vara hann sérstaklega við slíkri hættu. 

              Stefnandi byggir á að slysið megi rekja til ófullnægjandi og hættulegrar vinnuaðstöðu hjá stefnda. Stefnandi telur stefnda hafa brotið gegn skyldum sínum skv. lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustað og reglugerðum settum skv. þeim.

Bar stefnda að hafa vinnuaðstæður þannig að ekki skapaðist hætta af vinnu-umhverfi og athafnarými starfsmanna, þannig að  hamlaði vinnuöryggi, sbr. 42. gr. laga nr. 46/1980, sbr. 6. gr. reglugerðar um húsnæði vinnustaða, nr. 581/1995, settar af stjórn vinnueftirlits ríkisins skv. heimild í 38., 43. og 44. gr. laga nr. 46/1980 og með hliðsjón af tilskipun 89/391EBE.

Stefnandi byggir á, að ljóst sé að vinnuveitandi hans beri sök á því að hafa gólfið þar sem stefnandi féll nýbónað og blautt í upphafi vinnudags. Það komi beinlínis fram í gögnum málsins og sé höfuðorsök fyrir slysinu. Hvað varðar hins vegar sök stefnanda eða gáleysi, þá falli það meinta gáleysi undir svokallaða eigin sök tjónþola, en samkvæmt grunnreglum skaðabótaréttar beri vinnuveitandinn, tjónvaldurinn, sönnunarbyrði um eigin sök tjónþola. Neitar stefnandi að í gögnum málsins liggi fyrir sönnun um eigin sök stefnanda og sökum þess, að stefndi hafi ekki tilkynnt slysið til Vinnueftirlitsins, beri hann hallann af því sem óljóst má telja í málinu og þar með hallann af sönnunarskorti. Stefnandi byggir og á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni í ofangreindu slysi.

Stefnandi styður dómkröfur sínar við almennu skaðabótaregluna og regluna um vinnuveitendaábyrgð. Stefnandi vísar til almennra reglna vinnuréttarins um fullkomnar og hættulausar vinnuaðstæður, til l. nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum 42. gr. og reglna nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða, einkum 6. gr. Vísað er til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 varðandi viðurkenningarkröfuna.  Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og vaxtakröfu við lög nr. 38/2001. 

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Um ábyrgð stefnda fer samkvæmt almennu sakarreglunni. Stefndi byggir á því að ósannað sé að slysið sé að rekja til atvika sem stefndi ber skaðabótaábyrgð á að lögum. Stefndi telur að af gögnum málsins megi ráða að orsök slyssins hafi verið óhappatilviljun og/eða gáleysi stefnanda sjálfs.

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að ósannað sé að tjónið verði rakið til saknæmrar háttsemi starfsmanna stefnda eða annarra sem hann beri ábyrgð á, vanrækslu við merkingar eða viðvaranir eða annarra atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum.

Stefndi mótmælir því að aðstæður í versluninni hafi verið hættulegar í umrætt sinn og borið hafi að upplýsa stefnanda sérstaklega um að gólfið væri blautt. Ekki er saknæmt að þvo gólf verslana og því fylgir ekki meiri hætta en af gólfþvotti í heimahúsum. Ekki er heldur óforsvaranlegt að bóna gólf vinnustaða rétt áður en fólk mætir til vinnu eins og stefnandi heldur fram. Stefnanda var ljóst að verið væri að þrífa gólf verslunarinnar er hann gekk í gegnum hana í umrætt sinn og hefðu því sérstakar merkingar eða viðvaranir engu breytt. Er þannig ekkert orsakasamband milli slyssins og þess að sérstakar merkingar voru ekki settar upp eða sértakar viðvaranir gefnar. Í framburði stefnanda sjálfs fyrir lögreglu, sem hann staðfestir með undirritun sinni, segir hann að hann hafi séð er verið var að skúra þennan part af gólfinu þegar hann var staddur inni á lagernum en það hafi þá verið að undirbúa partinn undir bón. Jafnframt ber hann að þegar hann hafi mætt til vinnu um morguninn hafi ræstingarfólk enn verið að störfum.  Stefnandi vissi því að verið væri að skúra gólfin og mátti vera fullkunnugt um að gólfið gæti verið blautt og hugsanlega hált. Þá hefur vitnið Guðmundur Karl Guðmundsson borið að gólfið hafi verið áberandi blautt á umræddum stað.

Stefndi byggir á því að stefnandi hafi verið fullfær um að meta slysahættu við þær aðstæður sem blöstu við honum. Bleytan á gólfinu hafi verið vel sýnileg við eðlilega aðgæslu. Auk þess var stefnandi að jafna sig eftir aðgerð á hné og hafði því sérstaka ástæðu til að sýna aðgæslu. Verði slysið því rakið til aðgæsluleysis stefnanda sjálfs og óhapptilviljunar.

Stefndi mótmælir því alfarið að brotið hafi verið gegn lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða reglum settum með stoð í þeim lögum.

Af ofangreindu telur stefndi ljóst vera að aðstæður á vinnustað voru hvorki ófullnægjandi né hættulegar. Slys stefnanda verði ekki rakið til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.

Slysið var tilkynnt með tilkynningu til Vinnueftirlitsins og hefur stefnandi lagt hana fram. Er því mótmælt að svo hátti til í þessu máli að rétt sé að stefndi beri halla af hugsanlegum sönnunarskorti.

Til vara byggir stefndi á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til eigin sakar stefnanda og ef til vill óhappatilviljunar. Stefnandi eigi því að bera stærstan hluta tjóns síns sjálfur. Því til stuðnings vísast til sömu málsástæðna og fram koma til rökstuðnings aðalkröfu eftir því sem við á.

Um lagarök vísar stefndi einkum til reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola.  Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Forsendur og niðurstöður.

                Óhapp stefnanda átti sér stað 21. desember 2000. Fyrir liggur í lögregluskýrslu af stefnanda, sem gefin var 10. apríl 2002, að hann sá að ræstingafólk var að störfum þegar hann mætti til vinnu svo og að verið var að skúra þann hluta gólfins þar sem óhappið átti sér stað og undirbúa hann undir bón. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi ber hann að þegar hann hafi komið til vinnu hafi hann séð að gólf verslunarinnar var glansandi fínt.  Á þeim stað þar sem óhappið átti sér stað sá stefnandi að gólfið var rennandi blautt, en gerði ekki greinarmun á, annars vegar nýbónuðu gólfi og hins vegar rennandi blautu gólfi.  Í lögregluskýrslu frá 10. apríl 2002 af Guðmundi Karli Guðmundssyni, en hann var vitni að óhappinu, kemur fram að gólfið þar sem stefnandi féll hafi verið áberandi blautt, en hann vissi ekki hvort búið hefði verið að bóna það. Í lögregluskýrslu af Lofti Jens Magnússyni verslunarstjóra, dagsettri 10. apríl 2002, kemur fram að þar sem stefnandi féll hafi gólfið verið blautt og verið var að undirbúa þann hluta undir bón. Í skýrslu af Svavari Þór Lárussyni fyrir dómi, en hann stjórnaði þrifunum í versluninni, kom fram að hann sá stefnanda detta. Vitnið sagði að búið hefði verið að bóna gólfið og það hefði verið þurrt, því það væri bannað að ganga inná gólf sem væri blautt af bóni, þar sem bónið myndi þá eyðileggjast. Hann taldi ástæðu þess að stefnandi féll vera þá, að snjór hafi verið undir skóm hans.

                Með vísan til framangreinds lítur dómurinn svo á, að ekki sé hægt að rekja óhapp stefnanda til saknæmrar háttsemi hjá stefnda. Það er ekki saknæmt að þrífa gólf verslunarinnar þó að starfsmenn séu að mæta til vinnu. Stefnandi upplýsti sjálfur að gólfið hefði verið blautt og ekkert sem styður að það hafi verið blautt af bóni. Í ljósi þess að stefnandi vissi að gólfið var blautt hefði sérstök viðvörun frá öðrum ekki skipt máli.  Að mati dómsins er hér um óhappatilvik að ræða. Stefnandi var fullfær sjálfur um að meta slysahættuna af því að ganga inn á blautt gólf. Þá er einnig til þess að líta að stefnandi var veill fyrir í hné en hann var nýkomin til vinnu eftir aðgerð á hnéinu og hafði hann því sérstaka ástæðu til að sýna varfærni. Það gerði hann ekki og því ber hann sjálfur ábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir.

                Óhapp þetta var tilkynnt til Vinnueftirlitsins 11. janúar 2001, það er um þremur vikum eftir að það átti sér stað. Að mati dómsins skiptir ekki máli í þessu tilviki þótt tilkynningin hafi borist svo seint, þar sem telja verður sannað að stefnandi rann í bleytu sem hann vissi um og ekkert í málinu hefur rennt stoðum undir þá fullyrðingu stefnanda að um blautt bón hafi verið að ræða.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða málsins að stefndi er sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.  Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Allur gjafsóknarkostnaður stefnanda, þar með talin málflutningsþóknun lögmannsins, Þormóðs Skorra Steingrímssonar hdl., sem er hæfilega ákveðin 250.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun þóknunarinnar hefur ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Af hálfu stefnanda flutti málið Þormóður Skorri Steingrímsson hdl.

          Af hálfu stefnda flutti málið Kristín Edwald hrl.

          Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, Bónus, er sýknaður af kröfu stefnanda, Sigmundar Friðgeirs Guðlaugssonar.

Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkis­sjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Þórmóðs Skorra Steingrímssonar hdl., 250.000 krónur.