Hæstiréttur íslands

Mál nr. 262/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. júní 2006.

Nr. 262/2006.

Auðsholt ehf.

(Guðmundur Kristjánsson hrl.)

gegn

Runólfi Birni Gíslasyni

(Karl Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Frávísunardómur felldur úr gildi.

A stefndi R í almennu einkamáli til greiðslu tiltekins kostnaðar, sem A taldi sig hafa orðið fyrir við útburð R af jörð í eigu A. Féllst héraðsdómari á hluta krafna hans í dómi en vísaði öðrum frá með þeim rökstuðningi að ekki hefði farið fram mat á grundvelli 3. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og væru kröfurnar því vanreifaðar. Talið var að framangreint lagaákvæði ætti við þegar aðfararheimild kvæði á um skyldu gerðarþola til að vinna tiltekið verk, en skylda til að víkja af fasteign gæti ekki talist verk í þessum skilningi. Var frávísun héraðsdóms því felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka umræddar reikningskröfur A til efnismeðferðar. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Suðurlands 21. apríl 2006 um að vísa frá dómi nánar tilgreindum fjárkröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila, en kröfur hans voru að öðru leyti teknar til greina. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að taka framangreindar dómkröfur hans til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar á frávísunarákvæði héraðsdóms og kærumálskostnaðar.

Í dómi héraðsdóms er rökstutt að tilgreindum dómkröfum sóknaraðila sé vísað frá dómi, en ákvæði um frávísun krafnanna er ekki að finna í dómsorði. Þykir þessi annmarki þó ekki valda ómerkingu dómsins eins og mál þetta liggur fyrir.

Sóknaraðili byggir einkum á því í kæru sinni að ákvæði 3. mgr., sbr. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989 um aðför eigi ekki við í málinu, en á því reisi héraðsdómari niðurstöðu sína.

Í málinu liggur fyrir að varnaraðili var borinn út af jörðinni Auðsholti að kröfu sóknaraðila. Virðist sóknaraðili ekki nema að litlu leyti hafa nýtt heimild 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 til að krefjast jafnframt aðfarar fyrir kostnaði við gerðina. Kaus hann þess í stað að krefja varnaraðila um greiðslu kostnaðar sem hann taldi sig hafa orðið fyrir við gerðina í almennu einkamáli. Verður ekki talið að neitt í réttarfarslögum komi í veg fyrir að sóknaraðili hafi uppi kröfur sínar með þessum hætti. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu í dómi sínum að varnaraðila bæri að greiða sóknaraðila tilgreindan útlagðan kostnað hans vegna aðfarargerðarinnar og vísaði um þá niðurstöðu til 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989. Þá var á því byggt í dóminum að þar sem ekki hefði farið fram mat samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar yrðu nánar tilgreindar reikningskröfur sóknaraðila að teljast vanreifaðar og þeim vísað frá dómi af þeirri ástæðu. Nefnt lagaákvæði varðar það þegar aðfararheimild kveður á um skyldu gerðarþola til að vinna tiltekið verk og hann sinnir ekki þeirri skyldu. Skylda gerðarþola til að víkja af  fasteign er ekki verk í þessum skilningi. Heimild gerðarbeiðanda til að krefja gerðarþola um kostnað vegna gerðarinnar verður hins vegar leidd af 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 og vísar sóknaraðili meðal annars til þess lagaákvæðis til stuðnings kröfum sínum. Af framangreindum ástæðum verður hin kærða frávísun felld úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka hinar frávísuðu reikningskröfur til efnismeðferðar.

Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hið kærða ákvæði héraðsdóms um frávísun hluta dómkrafna sóknaraðila, Auðsholts ehf., á hendur varnaraðila, Runólfi Birni Gíslasyni, er fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfurnar til efnismeðferðar.

Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 21. apríl 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. mars sl., var höfðað með stefnu birtri 13. september 2005.  Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.350.858 krónur með dráttarvöxtum af 1.704.000 krónum frá 15. júní 2005 til 19. júlí s.á., af 7.291.148 krónum frá þ.d. til 22. ágúst s.á. og af 7.350.858 krónum frá þ.d. til greiðsludags. Jafnframt krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.

Stefndi gerir þær dómkröfur að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum máls­kostnað í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.

Málsatvik.

Stefnandi keypti jörð­ina Auðsholt í Ölfusi á nauðungarsölu í september 2003. Var stefndi þá búsettur þar ásamt fjölskyldu sinni og hafði stundað þar búskap um nokkurt skeið. Með símskeyti stefnanda hinn 10. desember 2003 var stefnda tilkynnt að honum bæri þá þegar, og eigi síðar en 15. janúar 2004, að víkja af eigninni, rýma hana og taka með allt sem honum sannanlega tilheyrði. Fór stefndi ekki að þessum tilmælum og setti stefnandi þá fram þá kröfu við Héraðsdóm Suðurlands að stefndi yrði borinn út af jörðinni. Með úrskurði dómsins, uppkveðnum 30. mars 2004, var fallist á þá kröfu og staðfesti Hæstiréttur þá niðurstöðu með dómi sínum 3. júní 2004.

Að fenginni þessari niðurstöðu var  málið tekið fyrir hjá sýslumanninum á Selfossi í nokkur skipti og við fyrirtöku þess 28. júní 2004 var bókað í gerðabók sýslumannsins á Selfossi að það samkomulag hefði orðið með aðilum að íbúðarhús yrði rýmt fyrir kl. 17.00 hinn 1. júlí s.á. en þeim þætti útburðar, sem sneri að húsdýrahaldi yrði frestað til 6. júlí s.á., kl. 10.00.  Jafnframt var þá bókað að stefndi skyldi þá leggja fram skriflega tillögu að því hvernig dýrin yrðu fjarlægð og hvenær þannig að tjón allra aðila yrði eins lítið og mögulegt væri og jafnframt yrði þá gerður skriflegur samningur um húsaleigu útihúsa næðist samkomulag á þessum grunni. 

Hinn 6. júlí 2004 undirrituðu málsaðilar í viðurvist sýslumannsins á Selfossi samkomulag í tilefni fyrirtöku á útburðarkröfu stefnanda. Samkvæmt því skyldi umferð og viðvera stefnda á jörðinni eingöngu miðast við nauðsynlega starfsemi við eggjaframleiðslu hans og annars þess sem nánar var þar tilgreint. Var búseta eða gisting stefnda, fjölskyldu hans eða fólks á hans vegum óheimil á jörðinni. Þá var þar og kveðið á um að stefndi skyldi fyrir kl. 12 hinn 17. ágúst 2004 vera búinn að fjarlægja af jörðinni allt rusl og annað lausadót, þ.m.t. bílhræ og vinnuvélar sínar. Gengi þetta ekki eftir félli leigan þegar úr gildi. Kom og fram í samkomulaginu að leigutíminn skyldi miðast við frestun útburðarins en honum yrði tafarlaust fullnægt yrði ekki staðið við gefna dagsetningu. Sama gilti félli samkomulagið úr gildi fyrr af framangreindum ástæðum.  Samkvæmt lokagrein samkomulagsins skyldi stefndi við lok leigutíma vera búinn að fjarlægja öll húsdýr, rusl og annað lausadót af jörðinni og úr hinum leigðu húsum og þeim skilað snyrtilegum og þrifnum. Það sem kynni að verða skilið eftir yrði litið á sem verðlaust og því fargað án ábyrgðar stefnanda og aðstandenda hans og á kostnað stefnda.

Þar sem stefnandi taldi að stefndi hefði vanefnt samninginn tilkynnti hann stefnda að samningurinn væri úr gildi fallinn. Krafðist hann þess jafnframt að útburði stefnda yrði fram haldið. Við fyrirtöku málsins hinn 22. október 2004 mótmælti stefndi kröfunni með þeim rökum að aðfararheimildin hefði fallið niður með framangreindu samkomulagi 6. júlí 2004. Málinu hefði þar með verið lokið. Þessu mótmælti stefnandi og krafðist þess, að útburðurinn færi fram. Sýslumaður frestaði gerðinni til 8. nóvember s.á. en ákvað þann dag, að aðilum fjarstöddum, að gerðinni skyldi þá fram haldið. Skaut stefndi þeirri ákvörðun til dómstóla og var kröfu hans vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 22. febrúar 2005 sem staðfestur var í Hæstarétti 6. apríl s.á. 

Lögmaður stefnanda sendi stefnda símskeyti 21. mars 2005 þar sem skorað var á stefnda að fjarlægja allt lausafé hans, fjölskyldu hans og allra annarra á hans vegum af fasteigninni fyrir 31. sama mánaðar. Í skeytinu var og tekið fram að yrði stefndi ekki við þessari áskorun yrði litið svo á að hann gerði ekki tilkall til þessa lausafjár og yrði því þá ráðstafað á hans ábyrgð og kostnað.

Hinn 29. apríl 2005 var að kröfu stefnanda gert fjárnám í fasteign stefnda að Austurmörk 20, Hveragerði, til tryggingar greiðslu lögmanns- og málskostnaðar að fjárhæð 329.925 krónur vegna framangreindra útburðarmála. Hafnað var að svo stöddu kröfu stefnanda um fjárnám fyrir 2.000.000 króna kostnaði „vegna útburðar og hreinsunar eftir viðskilnað og flutning gerðarþola þ.e. mannskap, tæki og tól“ meðan ekki lægju fyrir gögn um þá kröfu.

Hinn 30. maí 2005 var útburðarkrafan tekin fyrir enn á ný á skrifstofu sýslumannsins á Selfossi. Voru þá bókuð mótmæli stefnda við því að gerðin færi fram þar sem hann „hafi ítrekað óskað eftir að fá að taka hluti sína og verið meinað það, auk þess sem rætt hafi verið um kaup hans á jörðinni og hann sé reiðubúinn að taka eignir sínar enda hafi verkið verið hafið“. Þrátt fyrir mótmæli stefnda ákvað sýslumaður að útburður skyldi fram fara.  Var fyrirtökunni síðan fram haldið að Auðsholti í viðurvist aðila eða umboðsmanna þeirra og þar ákveðið með hvaða hætti útburðurinn færi fram. Skyldu munir verða teknir úr tilgreindum húsum og settir í gáma, sem síðan yrðu geymdir á læstu svæði Hafnarbakka. Að ósk stefnda var gerð grein fyrir þeim kostnaði, sem nú þegar væri orðinn af gerðinni og hver hann yrði gróft áætlað. Var bókað að áætlaður kostnaður þess sem tæki að sér verkið væri 1.190.000 krónur án virðisaukaskatts fyrir vinnu, mánaðarleiga á geymslusvæði 7.000 krónur auk virðisaukaskatts, leiga á 40 feta gámi 24.000 krónur auk virðisaukaskatts, flutningskostnaður 31.348 krónur auk virðisaukaskatts fyrir hverja ferð, akstur vinnumanna 12.000 krónur á dag auk virðisaukaskatts, tækjaleiga 8.500 krónur auk virðisaukaskatts á klst. og flutningskostnaður 14.000 krónur auk virðisaukaskatts á dag.  Umbúðakostnaður bættist síðan ofan á. Bókun sýslumanns lýkur síðan með því, að framkvæmd útburðarins geti hafist á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola. 

Einhverjar viðræður málsaðila eða fulltrúa þeirra munu hafa átt sér stað, bæði fyrir framangreinda fyrirtöku málsins og eins í kjölfar hennar, um hvernig standa skyldi að fjarlægingu muna og öðrum frágangi að Auðsholti. Með bréfi, dags. 4. júní 2005, fór lögmaður stefnda fram á að stefndi fengi afhentar eignir sínar jafnskjótt og þær væru fluttar frá Auðsholti. Kom þar og fram að stefndi hefði lagt 2.000.000 króna inn á fjárvörslureikning lögmannsstofu hans „sem hann fellst á að standi sem trygging fyrir greiðslu kostnaðar til umbjóðenda yðar vegna útburðargerðarinnar og er hann reiðubúinn að leggja fram yfirlýsingu þess efnis ef fram á það verður farið.“ Einnig var í bréfinu tekið fram að stefndi hafnaði þeim skilyrðum sem stefnandi hefði sett fyrir afhendingu eigna.  Lutu skilyrði þessi að því annars vegar að stefnandi yrði að fallast á að greiða allan áfallinn kostnað stefnanda sem væri lögmannskostnaður vegna útburðargerðarinnar, fyrri lögmannskostnaður sem fjárnámið hefði verið gert fyrir, greiðsla vegna vinnu Auðsholtsmanna við hreinsun og tiltekt á jörðinni að fjárhæð 500.000 krónur og annan kostnað við gerðina. Þá yrði hann hins vegar að falla frá öllum frekari kröfum á hendur stefnanda og fyrirsvarsmönnum hans. 

Með bréfi lögmanns stefnanda til lögmanns stefnda, dags. 7. júní 2005, var gerð grein fyrir þeirri afstöðu stefnanda að hann teldi framangreinda upphæð og greiðslumáta vera ófullnægjandi og ekkert gildi hafa gagnvart sér. Var vinnu við útburð stefnda þá haldið áfram og kveður stefnandi verkinu hafa lokið um 10. júní 2005.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi segir skuld stefnda byggjast á eftirgreindum ellefu reikningum vegna þess kostnaðar sem fallið hafi á vegna útburðar stefnda og viðskilnaðar á jörðinni Auðsholti:

1.    Reikningur nr. 40,                                dags. 31. mars 2005,                                 kr.                                225.594

2.    Reikningur nr. 100,                                dags.     8. júní 2005,                                kr.                                1.704.000

3.    Reikningur nr. 1318,                                dags.   10. júní 2005,                                 kr.                                2.650.979

4.    Reikningur nr. 193610,                                dags.   26. júní 2005,                                 kr.                                369.852

5.    Reikningur nr. 86035,                                dags.   30. júní 2005,                                 kr.                                458.160

6.    Reikningur nr. 2943,                                dags.   30. júní 2005,                                 kr.                                83.538

7.    Reikningur nr. 10,                                dags.   30. júní 2005,                                 kr.                                568.218

8.    Reikningur nr. 11,                                dags.   30. júní 2005,                                kr.                                1.101.327

9.    Reikningur nr. 12,                                dags.   30. júní 2005,                                kr.                                129.480

10.  Reikningur nr. 86339,                                dags.   5. ágúst 2005,                                kr.                                37.300

11.  Reikningur nr. 86487,                                dags.   5. ágúst 2005,                                kr.                                22.410

                                Samtals                                kr.                                7.350.858               

 

Stefnandi gerir eftirfarandi grein fyrir þessum reikningum í samræmi við framangreinda tölumerkingu þeirra:

1.          Reikningur frá Svínabúi Þóru og Úlla sem taki til hreinsunar starfsmanns búsins út úr haughúsum í hænsnahúsi og ungahúsi sem stefndi hafi haft á leigu og átti að skila snyrtilegum og þrifnum við leigulok. Við hreinsunina, sem tekið hafi 45 klst., hafi dráttarvél verið notuð í 38 klst.

2.          Reikningur sem taki til áfallins geymslukostnaðar á lausafé stefnda í hlöðu, verkstæði á fjóslofti, fjósi, bílskúr, kjallara íbúðarhúss og í gamla íbúðarhúsinu tímabilið júní 2004 til júní 2005, í alls 12 mánuði. Mánaðarlegur kostnaður hafi verið 100.000 krónur eða 1.200.000 krónur samtals. Þá sé geymsla á þremur gámum í 12 mánuði, mánaðargjald 7.000 krónur á gám eða samtals 252.000 krónur og geymsla á einum gámi í 3 mánuði, samtals 21.000 krónur.  Loks sé geymsla á ökutækjum, traktorsgröfu og jarðýtu í 11 mánuði á 21.000 krónur fyrir hvern mánuð eða 231.000 krónur. Samtals geri þetta 1.704.000 krónur.

3.          Reikningur frá K og S sf., sem stefnandi hafi ráðið til að hreinsa til eftir stefnda.  Vísist að öðru leyti í það, sem stefnandi hafi upplýst við framkvæmd útburðarins 30. maí 2005 að ósk stefnda.

4.          Reikningur frá Gámaþjónustunni hf. sé fyrir gámaflutning og gámaleigu og flutning á grófum úrgangi eða sorpi,  sem stefndi hafi skilið eftir sig.

5.          Þessi reikningur Hafnarbakka taki til leigu á fjórum gámum, samtals 68.000 krónur, og aksturs með 10 gáma, samtals 300.000 krónur, hvoru tveggja auk virðisaukaskatts.

6.          Reikningur þessi sé frá Sorphirðunni ehf. og varði leigu á gámum og flutning á munum, sem stefndi hafi skilið eftir sig, frá Auðsholti til Reykjavíkur.

7.          Þetta sé reikningur stefnanda fyrir umsjón með verktökum vegna útburðar í Auðsholti.

8.          Reikningur stefnanda fyrir vinnu við hreinsun eftir stefnda á húsum að Auðsholti að meðtöldum dráttarvéla- og bílakostnaði.

9.          Reikningur stefnanda fyrir vinnu og vélanotkun vegna förgunar á heyrúllum sem stefndi hafi skilið eftir og samþykkt að fargað yrði.

10-12. Reikningar Eimskips vegna gámaleigu og geymslukostnaðar á eigum stefnda.

Stefnandi kveðst hafa sent stefnda innheimtubréf hinn 4. ágúst 2005 með áskorun um greiðslu framangreindra reikninga nr. 1-9, en stefndi hafi í engu sinnt því.  Með vísan til þess og allrar framangreindrar framgöngu stefnda hafi málssókn því verið nauðsynleg.

Stefnandi segir greiðsluskyldu stefnda byggjast á þeirri staðreynd að stefndi sem gerðarþoli í framangreindu útburðarmáli beri endanlega allan þann kostnað sem af því hljótist samkvæmt almennum reglum. Hafi áskilnaður um þetta alltaf verið uppi af hálfu stefnanda á öllum stigum málsins. Allir framangreindir reikningar taki til kostnaðar sem beinlínis tengist útburði stefnda og viðskilnaði hans við og af Auðsholti.  Þetta hafi verið fullnustuaðgerðir stefnanda í tilefni gildrar aðfararkröfu hans á hendur stefnda. Kostnað allan vegna þeirra beri stefndi og fyrir honum öllum hafi stefnandi haldsrétt í þeim eignum stefnda sem stefnandi hafi nú í sínum vörslum. Vísar stefnandi jafnframt í framangreint samkomulag aðila frá 6. júlí 2004 og skyldur þær sem stefndi hafi þar gengist undir, þar á meðal skyldu til greiðslu kostnaðar kæmi til vanefnda stefnda sem svo orðið hafi samkvæmt framanrituðu.

Framangreindar kröfur sínar kveðst stefnandi styðja við almennar reglur kröfuréttar sem og reglur samningaréttar um gagnkvæma samninga og um greiðslu fjárskuldbindinga.  Jafnframt skírskotar hann til þeirrar reglu sem fram kemur í 2. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Vaxtakröfuna styðji stefnandi við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.  Stefnandi vísi til 129. - 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 hvað varði kröfuna um málskostnað. Kröfuna um virðisaukaskatt á kostnaðinn kveður hann byggjast á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.  

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að á honum hvíli ekki greiðsluskylda vegna þeirra reikninga sem stefnandi byggi kröfu sína á. Telji stefndi að stefnandi hafi að ófyrirsynju stofnað til kostnaðar sem stefndi geti ekki borið ábyrgð á. Megi í þessu sambandi benda á að stefndi hafi sjálfur gert tilraunir til þess að fjarlægja eigur sínar af jörðinni en verið meinaður aðgangur að henni eins og ráða megi af drögum að sam­komu­lagi milli aðilja um viðskilnað stefnda sem liggi fyrir í málinu. Sérstaka athygli veki að stefndi hafi séð ástæðu til þess að fara fram á að stefndi félli frá öllum kröfum sínum á hendur stefnanda og eigendum stefnanda. Vandséð sé hvernig stefndi hefði við þessar aðstæður átt að geta orðið við áskorun stefnanda um að rýma jörðina.

Þá hafi stefndi verið búinn að fá tilboð í það frá verktaka að fjarlægja það sem hann kynni að eiga á jörðinni og hafi það verið mun lægra en sá kostnaður sem stefnandi krefji hann um nú. Jafnframt hafi stefndi boðið stefnanda að hann myndi greiða kostnað við útburðar­gerðina gegn því að eigur hans yrðu fluttar beint til hans þannig að ekki yrði stofnað til óþarfa kostnaðar við flutning þeirra eða geymslu. Með þessu hafi stefnandi leitast við að takmarka þann kostnað sem af gerðinni gæti hlotist.

Stefndi kveðst vísa til eftirfarandi athugasemda og málsástæðna varðandi einstaka reikn­ing­a stefnanda:

Stefndi kveðst mótmæla reikningi frá Svínabúi Þóru og Úlla enda rangt að viðskilnaður hans við hænsnahús og ungahús hafi ekki að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði samkomulags aðila, dags. 6. júlí 2004. Minnir stefndi á að sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á stefnanda.

Reikningum útgefnum af Auðsholti ehf., dags. 8. júní og 30. júní 2005, sé harðlega mótmælt. Í fyrsta lagi ítreki stefndi það sem komi fram hér að framan að honum hafi verið meinaður aðgangur að jörðinni til að fjarlægja þær eigur sem hann kynni að eiga þar. Jafnframt hafi hann verið búinn að semja við verktaka um að fjarlægja þær gegn lægra gjaldi en sem nemi þeim kostnaði sem hann sé nú krafinn um af hálfu stefnanda. Þá mótmæli stefndi því að viðskilnaður hans við jörðina hafi verið með þeim hætti að hreinsunar hafi verið þörf og telji hann að viðskilnaðurinn hafi fyllilega verið í samræmi við fyrrgreint sam­komu­lag aðila. Því sé og mótmælt af hálfu stefnda að stefnandi hafi heimild til þess að gefa út reikning fyrir útseldri vinnu sinni varðandi þessi verk. Möguleg greiðsla til stefnanda myndi í öllum tilvikum takmarkast við sannanlegt tjón hans. Stefnanda sé alls óheimilt að hafa út­burð stefnda og eftir atvikum meintar vanefndir hans að féþúfu og því sé reikningum þessum alfarið mótmælt.

Stefndi kveðst mótmæla reikningi útgefnum af K og S sf., dags. 10. júní 2005, með vísan til þess sem áður hefur verið rakið, að honum hafi verið meinaður aðgangur að jörðinni til þess að fjarlægja þær eigur sem hann kynni að eiga þar. Einnig hafi hann verið búinn að semja við verktaka um að fjarlægja þær gegn lægra gjaldi en sem nemi þeim kostnaði sem hann sé nú krafinn um af hálfu stefnanda.

Loks kveðst stefndi mótmæla reikningum sem útgefnir eru af Gámaþjónustunni hf., Hafnarbakka, Sorphirðunni ehf. og Eim­skipum hf. því þeir beri engan veginn með sér að vera vegna eigna stefnda eða hluta sem hann hafi skilið eftir í Auðs­holti. Þannig sé ekkert í þeim sem bendi til þess að þeir séu vegna kostnaðar sem stefndi beri ábyrgð á. Hvíli sönnun um slíkt alfarið á stefnanda.

Niðurstaða.

Eins og rakið hefur verið ákvað sýslumaðurinn á Selfossi 30. maí 2005 að stefndi skyldi borinn út af jörðinni Auðsholti í Ölfusi á grundvelli dóms Hæstaréttar uppkveðnum 3. júní 2004. Kemur fram í bókun sýslumanns vegna gerðarinnar sú meginregla um framkvæmd aðfarargerða að gerð skuli fara fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Af umræddri bókun verður og skýrlega ráðin sú niðurstaða sýslumanns að fullráðið væri að gerðarþoli gerðarinnar, stefndi í þessu máli, fengist ekki til að sinna sjálfur þeirri skyldu að rýma jörðina sem á hann var lögð með ofangreindum dómi. Hafi sýslumaður því, á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989, heimilað gerðarbeiðanda að fá aðra til að vinna verkið gegn reikningi og fjarlægja eigur gerðarþola af jörðinni. Í því ákvæði er og kveðið á um að héraðsdómari skuli þá að jafnaði ákveða gerðarbeiðanda endurgreiðslu þess reiknings úr hendi gerðarþola. Er við það miðað  samkvæmt 77. gr. að dómari skuli ákveða gerðarbeiðanda endurgjald með úrskurði og að slíkt mál skuli rekið eftir reglum 14. kafla laganna. Enda þótt mál það sem hér er til meðferðar, vegna kostnaðar sem stefnandi kveðst hafa orðið fyrir vegna fjarlægingar muna stefnda af jörðinni Auðsholti, sé ekki borið undir dómstóla með þeim hætti sem nefnd 77. gr. laga nr. 90/1989 gerir ráð fyrir þykir það ekki standa því í vegi að dómur verði á það lagður og að byggja megi í því sambandi á greindri reglu í 2. ml. 2. mgr. ákvæðisins.

Stefndi hefur haldið því fram að á honum hvíli ekki greiðsluskylda vegna hinna umstefndu reikninga þar sem hann hafi ítrekað, frá því útburðarkrafa stefnanda hafi fyrst verið lögð fram hjá sýslumanni, gert tilraun til að fjarlægja eigur sínar af jörðinni en ávallt verið meinað það af stefnanda. Þegar sýslumaður tók um það ákvörðun að útburður á stefnda skyldi fram fara 30. maí 2005 hafði stefndi sett fram mótmæli sín við því á þeim forsendum að hann hefði ítrekað óskað eftir að fá að taka lausafé sitt en þá verið meinað það. Jafnframt var bókað „að hann sé reiðubúinn að taka eignir sínar enda hafi það verk verið hafið“. Sýslumaður tók ekki tillit til þessara sjónarmiða stefnda og ákvað að gerðinni yrði fram haldið þrátt fyrir það. Stefndi átti þess kost að bera umrædda útburðargerð undir héraðsdóm á grundvelli 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 og fá þá úr þessum sjónarmiðum skorið. Það gerði hann ekki og geta þau ekki komist að í máli þessu. Tillaga stefnda, um að setja tryggingu vegna kostnaðar stefnanda að fjárhæð 2.000.000 króna sem lægi á fjárvörslureikningi lögmanns hans gegn því að fá útbornar eignir afhentar til sín, verður heldur ekki talin hafa hér neina þýðingu, enda hafði stefnandi þá ótvíræða heimild sýslumanns til þeirrar gerðar sem hinn umstefndi kostnaður stafar af.

Jafnframt mótmælir stefndi greiðsluskyldu af þeirri ástæðu að hann hafi verið búinn að fá tilboð verktaka um að fjarlægja eigur stefnanda af jörðinni sem hefði verið mun lægra en sem næmi þeim kostnaði sem stefnandi krefði hann nú um. Stefndi hefur ekki með nokkrum hætti sýnt fram á að slíkt tilboð hafi legið fyrir og ber því þegar af þeirri ástæðu að hafna þessari málsástæðu stefnda.

Þeir reikningar sem stefnandi krefst endurgreiðslu á í máli þessu eru í fyrsta lagi sjö reikningar vegna vinnu og þjónustu ýmissa aðila. Er hér um eftirgreinda reikninga að ræða:

1)       Reikning frá Svínabúi Þóru og Úlla dags. 31/3 2005 að fjárhæð 225.594 krónur.

2)       Reikning frá K og S sf. dags. 10/6 2005 að fjárhæð 2.650.979 krónur.

3)       Reikning frá Gámaþjónustunni hf. dags. 26/6 2005 að fjárhæð 369.852 krónur.

4)       Reikning frá Hafnarbakka dags. 30/6 2005 að fjárhæð 458.160 krónur.

5)       Reikning frá Sorphirðunni ehf. dags. 30/6 2005 að fjárhæð 83.538 krónur.

6)       Reikning frá Eimskip ehf. dags. 20/8 2005 að fjárhæð 37.300 krónur.

7)       Reikning frá Hafnarbakka dags. 30/7 2005 að fjárhæð 22.410 krónur.

Þegar litið er til bókunar sýslumanns um það hvernig útburður á stefnda skyldi fram fara og framburðar þeirra vitna sem kvödd voru fyrir dóminn vegna útgáfu umræddra reikninga verður ekki annað séð en að reikningarnir séu til komnir vegna vinnu og þjónustu við útburðinn á stefnda og að stefnandi hafi þurft að inna af hendi það endurgjald sem þar er tilgreint. Hefur stefndi ekki leitt neinar líkur að því að hinar umkröfðu fjárhæðir séu óhóflegar. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og með vísan til ákv. 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989 verður stefnda því gert að endurgreiða stefnanda fyrrgreinda reikninga að fjárhæð samtals 3.847.833 krónur.

Í öðru lagi er um að ræða fjóra reikninga stefnanda, einn dags. 8. júní 2005 og þrjá dags. 30. júní 2005, vegna vinnu eigenda stefnda eða starfsmanna hans í tengslum við framkvæmd útburðarins og vegna þóknunar fyrir geymslu á munum stefnda á þeim tíma sem krafa stefnanda um útburð á stefnda var til meðferðar hjá sýslumanni. Kröfur stefnanda á grundvelli þessara reikninga teljast því ekki vera endurgjaldskröfur vegna greiðslna sem stefnandi hefur innt af hendi til annarra í skilningi 2. mgr. 77. gr. laga nr. 90/1989. Þykir því ekki unnt að leggja þessa reikninga stefnanda til grundvallar við ákvörðun endurgjalds úr hendi stefnda vegna þessa. Þar eð kröfur stefnanda að þessu leyti styðjast ekki við matsgerð í samræmi við ákv. 3. mgr. 77. gr. nefndra laga er það niðurstaða dómsins að kröfur stefnanda vegna þessara reikninga, samtals að fjárhæð 3.503.025 krónur, séu vanreifaðar og verður þeim vísað frá dómi.

Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 3.847.833 krónur ásamt dráttarvöxtum af  3.788.123 krónum frá 19. júlí 2005 til 22. ágúst 2005 en af 3.847.833 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Rétt er í samræmi við þessa niðurstöðu að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 400.000 krónur.

                  Dómsorð:

Stefndi, Runólfur Björn Gíslason, greiði stefnanda, Auðsholti ehf., 3.847.833 krónur ásamt dráttarvöxtum af  3.788.123 krónum frá 19. júlí 2005 til 22. ágúst 2005 en af 3.847.833 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.