Hæstiréttur íslands

Mál nr. 629/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                     

Fimmtudaginn 11. október 2012.

Nr. 629/2012.

Tryggingamiðstöðin hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

X5 ehf.

(enginn)

Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli T hf. gegn X ehf. var vísað frá dómi þar sem T hf. þótti ekki eiga hagsmuni af því að fá dóm um staðfestingu veðréttar í tiltekinni bifreið. Hinn kærði úrskurður var felldur úr gildi þar sem héraðsdómari hafði ekki tekið afstöðu til kröfu T hf. er laut að því að X ehf. yrði gert að þola aðför og eftirfarandi nauðungarsölu bifreiðarinnar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2012 sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 3. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2012, þar sem málinu var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til löglegrar meðferðar. Þá er krafist kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fram er komið að sóknaraðila hafi ekki borist vitneskja um hinn kærða úrskurð fyrr en 12. september 2012.

Í héraðsstefnu krafðist sóknaraðili þess í fyrsta lagi að varnaraðili yrði dæmdur til að þola staðfestingu 1. veðréttar í bifreiðinni AS-902 fyrir skuld að fjárhæð 1.425.770 krónur og bankakostnaðar að fjárhæð 2.975 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. mars 2008 til greiðsludags. Í öðru lagi krafðist hann þess að varnaraðila yrði gert að þola aðför og eftirfarandi nauðungarsölu á fyrrgreindri bifreið vegna kröfu samkvæmt veðskuldabréfi, upphaflega að fjárhæð 1.555.806 krónur, útgefnu í Reykjavík 6. febrúar 2007 af 5x ehf. til sóknaraðila. Þá krafðist sóknaraðili málskostnaðar.

Við þingfestingu málsins í héraði var ekki sótt þing af hálfu varnaraðila. Héraðsdómari vísaði málinu frá dómi án kröfu á þeim forsendum að sóknaraðili hefði ekki hagsmuni af því að fá dóm fyrir staðfestingu á veðrétti í umræddri bifreið. Héraðsdómari tók hins vegar ekki afstöðu til þeirrar kröfu sóknaraðila sem lýtur að því að varnaraðila verði gert að þola aðför og eftirfarandi nauðungarsölu á bifreiðinni. Er þetta slíkur annmarki á úrskurðinum að óhjákvæmilegt er að fella hann úr gildi og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2012.

Þetta mál, sem var dómtekið 15. maí 2012, er höfðað af Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Síðumúla 24, Reykjavík, með stefnu birtri í Lögbirtingablaðinu 28. febrúar 2012, á hendur X5 ehf., kt. 670706-0790, Unubakka 11, Þorlákshöfn.

Dómkröfur: Stefnandi gerir þá kröfu að staðfestur verði 1. veðréttur hans í bifreið stefnda, AS-902, árgerð 2003, fyrir skuld að fjárhæð 1.425.770 krónur og banka­kostnaði að fjárhæð 2.975 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 5. mars 2008 til greiðsludags.

Þá er gerð krafa um að stefndi verði dæmdur til að þola aðför og eftirfarandi nauð­ungarsölu í bifreiðinni AS-902, vegna kröfu samkvæmt veðskuldabréfi nr. TMB18095 með þinglýsingarnúmerinu 433-B-000117/2007, upphaflega að fjárhæð 1.555.806 krónur, útgefnu í Reykjavík 6. febrúar 2007, af 5x ehf., kt. 560902-2040 til stefnanda.

Loks er gerð krafa um að stefndi greiði stefnanda málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.

Málsástæður og önnur atvik: Stefnandi kveður þessa kröfu til komna vegna skuldar samkvæmt veðskuldabréfi nr. TMB18095 með þinglýsingarnúmer­inu 433-B-000117/2007, upphaflega að fjárhæð 1.555.806 krónur, útgefnu 6. febrúar 2007, af 5x ehf., kt. 560902-2040, til stefnanda. Lánið hafi átt að endur­greiða með 66 mánaðar­legum afborgunum, fyrst 5. apríl 2007. Það sé vísitölu­tryggt miðað við vísitölu neyslu­verðs með grunnvísitöluna 266,9 stig og beri breyti­lega vexti samkvæmt vaxta­skrá kröfuhafa, á útgáfudegi 6,8%. Til tryggingar skil­vísri og skaðlausri greiðslu skuld­ar­innar hafi stefnanda verið sett að veði bifreiðin AS-902 með 1. veðrétti.

Stefndi hafi keypt umrædda bifreið 1. nóvember 2008 og sé honum því stefnt til að þola staðfestingu veðréttar í henni. Fyrri eigandi bifreiðarinnar og skuldari sam­kvæmt veðskuldabréfinu, 5x ehf., kt. 560902-2040, sé gjaldþrota og hafi ofan­greindri kröfu verið lýst í þrotabúið. Gjaldþrotaskiptum hafi lokið 15. desem­ber 2008 án þess að greiðsla hafi fengist upp í lýstar kröfur.

Umrætt skuldabréf hafi verið í vanskilum frá 5. mars 2008 og sé öll skuldin því gjaldfallin frá þeim degi. Allar tilraunir til innheimtu skuldarinnar hafi reynst árangurslausar.

Stefnandi vísar til þess að sé honum heimilt samkvæmt lögum að fara fram á nauð­ungarsölu á bifreiðinni, án undangengins dóms eða aðfarar. Ekki hafi verið unnt að fara þá leið í þessu tilviki enda sé stefndi hættur starfsemi og húsnæðið að Unu­bakka 11 í Þorlákshöfn, þar sem stefndi sé skráður til heimilis, hafi staðið autt frá því árið 2007. Hvorki hafi tekist að birta greiðsluáskoranir fyrir stefnda á ofangreindu heimil­is­fangi né fyrirsvarsmanni hans, sem sé búsettur í Noregi, þrátt fyrir ítrekaðar til­raunir. Þá sé ekki fyrir hendi heimild til birtingar greiðsluáskorunar, sem sé nauð­syn­legur undanfari nauðungarsölu, í Lögbirtingablaðinu. Því sé þessi málssókn nauð­syn­leg.

Lagarök: Stefnandi vísar til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Kröfu um dráttarvexti og vaxtavexti styðji stefnandi við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað sé byggð á því að rekja megi tilurð þessa máls til vanefnda stefnda á greiðsluskyldu sinni, sem og á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virð­is­auka­skatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri því nauðsyn á að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda. Krafa um staðfestingu veðréttar sé byggð ákvæðum skuldabréfsins. Um birt­ingu stefnu í Lögbirtingablaði vísist til 89. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða: Af hálfu stefnda hefur hvorki verið sótt né látið sækja þing og er honum þó löglega stefnt. Ber því samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnandi að því leyti sem er samrýmanlegt fram komnum gögnum, nema gallar séu á málinu sem varða frávísun þess án kröfu.

Fram lögð gögn sýna að 6. febrúar 2007 lánaði stefnandi félaginu 5x ehf., kt. 560902-2040, 1.555.806 krónur. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu afborg­ana af láninu, vaxta, dráttarvaxta og alls annars kostnaðar sem af vanskilum kynni að leiða, var bifreiðin AS902, af gerðinni Volkswagen Transporter Panel Van, árgerð 2003, sett stefnanda að veði með 1. veðrétti. Lánið hefur verið í vanskilum frá 5. mars 2008 og með vísan til heimildarákvæðis í veðskuldabréfinu hefur öll skuldin verið gjald­felld. Félagið 5x ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 20. júní 2008 og lauk skiptum 15. desem­ber 2008. Stefnandi lýsti umræddri kröfu í þrotabúið 1. ágúst 2008 en sú krafa fékkst ekki greidd við skiptin. Þann 1. nóvember 2008 keypti stefndi bifreiðina AS902.

Í fræðum hefur lengi verið viðurkennt að staðfesting veðréttar ein og sér, án þess að jafnframt sé viðurkennd greiðsluskylda skuldara, hafi ekkert gildi fyrir fram­hald aðgerða til þess að fá fjárkröfuna fullnustaða og því sé ekki nein ástæða til að stefna veðeigandanum í því skyni einu að fá veðréttinn staðfestan.

Í þessu máli er stefnandi í þeirri stöðu að hann getur ekki höfðað mál á hendur skuldara fjárkröfunnar þar sem bú skuldarans hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Hann á því óumdeilda peningakröfu sem hann getur ekki aflað dómsúrlausnar um. Jafn­framt nýtur hann veðtryggingar fyrir þeirri kröfu en getur ekki nýtt sér þá veð­trygg­ingu þar sem hann fær ekki dóm fyrir fjárkröfunni. Í tilvikum sem þessum hefur í fræðum verið viðurkennt að kröfuhafi geti farið þá leið að höfða mál á hendur eiganda veðsins og krefjast þar dóms um rétt sinn til þess að fá gert fjárnám fyrir peninga­kröf­unni í hinni veðsettu eign.

Í samræmi við þetta þyrfti stefnandi að krefjast þess að viðurkenndur væri réttur hans til þess að fá gert fjárnám í bifreið stefnda með skráningarnúmerið AS902 fyrir skuld að fjárhæð 1.425.770 krónur og banka­kostnaði að fjárhæð 2.975 krónur ásamt dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, frá 5. mars 2008 til greiðsludags.

Stefndi setur kröfu sína ekki fram á þennan hátt. Þar sem ekki er hægt að taka kröfu stefnanda upp í dómsorð verður að vísa henni frá dómi án kröfu.

Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan dóm.

D Ó M S O R Ð:

 Þessu máli er vísað frá dómi án kröfu.