Hæstiréttur íslands

Mál nr. 341/1998


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Sjómaður


Fimmtudaginn 25

Fimmtudaginn 25. febrúar 1999.

Nr. 341/1998.

Bertel Benediktsson

(Steingrímur Þormóðsson hdl.)

gegn

Fiskiðjunni Skagfirðingi hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Vinnuslys. Sjómenn.

B slasaðist um borð í togara í eigu S er hann skar sig á vasahnífi í litlafingur. Skipstjórinn saumaði sárið í samráði við lækni og gaf B sýklalyf. Að mati læknis í landi var ekki ástæða til að fara með B til næstu hafnar, en þangað var 8 til 9 klukkustunda sigling. Sýking komst í sárið og rúmum tveimur árum eftir slysið var gerð aðgerð á B þar sem hluti fingursins var fjarlægður. B krafði S um bætur fyrir miska, varanlega örorku og töpuð lífeyrisréttindi á grundvelli þess að um hefði verið að ræða stórkostlegt gáleysi skipstjórans. Ekki var talið að snúa ætti sönnunarbyrði við í málinu og leggja hana á S. Þá var ekki talið að byggja ætti ábyrgð S á því að vasahnífurinn sem B skar sig á hefði verið bilað eða gallað tæki í skilningi skaðabótaréttar. Talið var ósannað að meðhöndlun skipstjórans hafi átt þátt í varanlegri örorku B. Var niðurstaða héraðsdóms um sýknu S af kröfum staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 27. ágúst 1998 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.920.100 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 23. október 1990 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara, að sök verði skipt, kröfur áfrýjanda lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Vátryggingafélagi Íslands hf. hefur verið stefnt fyrir Hæstarétt til réttargæslu.

I.

Samkvæmt ljósriti úr dagbók togarans Skafta SK 3, sem lagt var fyrir Hæstarétt, var skráð eftirfarandi sunnudaginn 21. október 1990: „Kastað í Rósagarði 10.oo dregið suður af ... Bertel Benediktsson sker sig á vasahníf í litlafingur saumað sk læknisr.“ Ágreiningur málsaðila lýtur að orsökum og afleiðingum þessa slyss.

Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi.

Fallist verður á með héraðsdómi, með vísan til forsendna hans, að sönnunarbyrði verði ekki snúið við og lögð á stefnda í máli þessu. Einnig ber að fallast á, með vísan til röksemda héraðsdóms, að sök stefnda verði ekki á því reist að vasahnífurinn hafi verið bilað eða gallað tæki í skilningi skaðabótaréttar. Aðferð áfrýjanda við að opna hnífinn getur og ekki talist venjuleg.

II.

Áfrýjandi kom til skoðunar hjá Ara Helga Ólafssyni, sérfræðingi í bæklunar- og handaskurðlækningum, á bæklunardeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri 6. nóvember 1990. Þar gekkst áfrýjandi undir aðgerð á fingrinum 16. sama mánaðar. Í  ljós kom að önnur beygisinin út í fingurinn hafði skorist í sundur. Að sögn læknisins hafði sjálf sinin dregist alveg upp í hendi og þurfti að sækja hana þangað og þræða aftur út í litla fingur til að tengja afskornu endana. Þarna hafði myndast allmikill örvefur, sem þurfti að hreinsa burt. Daginn eftir var sett sérstakt togstrekk til þess að minnka stirðleika og fá betri árangur af aðgerðinni. Áfrýjandi var með togstrekkið til 13. desember 1990, og kom nokkrum sinnum til eftirlits.

Að mati læknisins varð árangur aðgerðarinnar ekki nægilega góður og allmikil kreppa kom í fingurinn. Í vottorði 26. júní 1991 taldi læknirinn rétt að bíða og sjá hvernig gengi, en með haustinu kæmi sterklega til greina að gera svokallaða tenolys-aðgerð, þar sem losaðir væru samvextir við sinar og jafnvel við liði. Í þessu vottorði tjáði læknirinn sig um þá skoðun, sem sett hafði verið fram, að áfrýjandi „hefði helst þurft að komast til læknis innan 6 í mesta lagi 12 klukkutíma ef ekki hefði átt að fara svo illa sem raun ber vitni.“ Læknirinn kvaðst ekki sammála þessari fullyrðingu. Það skipti miklu meira máli hvernig meðferð sjálft sárið fengi í byrjun. Fái sár rétta meðferð í byrjun sé yfirleitt hægt að reikna með að fá þokkalega góðan árangur þó að líði allt að mánuður fram að sinasaumi. „Í þessu tilviki eru samt sennileg röð af óheppilegum aðstæðum. Það hefði til dæmis ekki átt að sauma sárið úti á sjó þar sem ekki eru fullkomnar sótthreinsaðar aðstæður. Sennilega hefur það að einhverju leyti orsakað bólgu sem var í fingrinum og meiri örmyndun. Eingöngu hefði átt að þvo sárið og hreinsa vel og setja sótthreinsaðar umbúðir.“

Annað vottorð læknisins er dagsett 1. nóvember 1992. Þar kemur fram að í febrúar 1992 hafi áfrýjandi ekki haft áhuga á því að fara út í frekari aðgerðir á fingrinum, en í apríl sama árs hafi hann lýst áhuga sínum á aðgerðinni. Í september og október hafi þeir talað saman og aðgerðartími hafi verið ákveðinn 10. desember 1992. Í lok vottorðsins, sem skrifað var að beiðni þáverandi lögmanns áfrýjanda, segir læknirinn að rétt sé að láta líða a.m.k. þrjá til fjóra mánuði eftir fyrirhugaða aðgerð þar til reynt verði að meta lokaárangur.

Þriðja vottorð Ara Helga Ólafssonar læknis er frá 10. janúar 1993 og skrifað til sama lögmanns. Þar segir meðal annars: „Sjúklingur lá nú inni á Bæklunardeild FSA 09.12. - 10.12.1992. Við skoðun á fingrinum kom í ljós að puttinn var festur í kreppu að minnsta kosti jafn mikilli og búið var að vera í mjög langan tíma ef eitthvað er var kreppan orðin meiri. Útlit fingursins við skoðun var þannig að ekki var talið líklegt að góður árangur yrði af neinum þeim aðgerðum sem reyna má í því skyni að rétta úr fingri og fá í hann hreyfingu aftur. Þannig að ákveðið var í samráði við sjúkling að gera stúfhögg á litlafingrinum ...“

Varanleg örorka áfrýjanda af þessu var metin 8%.

III.

Áfrýjandi reisir kröfur sínar á hendur stefnda á því, að hann hefði átt að komast undir læknishendur eins fljótt og verða mátti. Höfuðorsök örorku hans sé stórkostlegt og vítavert gáleysi skipstjórans við þær læknisaðgerðir sem hann hafi tekist á hendur til að gera að áverkanum. Hefði þetta gáleysi ekki komið til séu allar líkur fyrir því að fingri hans hefði verið bjargað.

Svo sem í héraðsdómi greinir var Ari Helgi Ólafsson læknir spurður um þetta atriði fyrir dómi. Kjarni svara hans var, að tíminn sjálfur hafi ekki skipt sköpum heldur hitt, hvernig búið var um sárið í byrjun, og einnig, að margar samverkandi ástæður væru fyrir því að fingurinn krepptist og árangur af aðgerð varð ekki sem skyldi. Hann lagði áherslu á að sýkingin sem kom hafi þarna haft áhrif. Í því sambandi athugast, að skipstjórinn kvaðst hafa gefið áfrýjanda penísillín eins og læknirinn ráðlagði, og kvaðst áfrýjandi hafa fengið töflurnar. Skipstjórinn bar hins vegar fyrir héraðsdómi, að áfrýjandi hafi ekki tekið töflurnar og sagt að hann þyrfti það ekki, það græfi aldrei í sér. Þessu var ekki mótmælt af áfrýjanda.

Skipstjórinn kvaðst hafa farið eftir ráðleggingum læknis á Höfn í Hornafirði þegar hann bjó um sárið og saumaði það saman. Það verður ekki dregið í efa nú. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður fallist á þá niðurstöðu hans, að ósannað sé að meðhöndlun skipstjóra hafi átt þátt í hinni varanlegu örorku áfrýjanda. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Rétt þykir að hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Hvor aðila beri sinn málskostnað fyrir Hæstarétti.

                                                              

                                                                    

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 27. maí 1998.

I.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum flutningi 15. apríl sl., er höfðað af Bertel Benediktssyni, kt. 181166-4799, Hátúni 6, Reykjavík með stefnu útgefinni 28. október 1997 og þingfestri 11. nóvember 1997 á hendur Fiskiðjunni Skagfirðingi hf., kt.  461289-1269, Eyrarvegi 18, Sauðárkróki. Til réttargæslu stefndist Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur stefnanda.

                Stefnandi krefst þess, að Fiskiðjunni Skagfirðingi verði gert að greiða sér 3.920.100 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 23. október 1990 til greiðsludags.  Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til þess að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

                Ekki eru hafðar uppi sjálfstæðar kröfur á hendur réttargæslustefnda.

Dómkröfur stefnda.

                Stefndi, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda en til vara að sök verði skipt, stefnukröfur lækkaðar stórlega og málskostnaður felldur niður.

                Réttargæslustefndi gerir ekki kröfur í málinu.

II.

Málavextir.

                Þann 23. október 1990 var stefnandi við vinnu sína, sem háseti, um borð í togaranum Skafta SK-3 frá Sauðárkróki er skipið var á veiðum í Rósagarðinum miðja vegu milli Íslands og Færeyja. Skipverjar voru að skera úr og bæta troll skipsins. Við starf sitt ætlaði stefnandi m.a. að nota vasahníf af algengustu gerð sem er þannig gerður að blað hnífsins er fellt inn í skaftið þegar ekki er verið að nota hnífinn. Hnífinn hafði hann fengið afhentan um borð í skipinu. Að sögn stefnanda hafði hann fengið hnífinn nýjan daginn áður en honum gekk strax illa að opna hann. Í þetta sinn greip hann því til þess ráðs að setja blað hnífsins í skrúfstykki og reyndi að opna hann með því að toga í skaftið. Virðist sem hnífurinn hafi opnast að einhverju leyti en skroppið úr skrúfstykkinu áður en hann opnaðist alveg. Þegar hnífurinn losnaði úr festingunni small hann saman og skar stefnanda í litla fingur hægri handar.

                Stefnandi kveðst hafa sýnt bátsmanni sárið og hann hafi farið með stefnanda til skipstjóra, Sverris Kjartanssonar. Skipstjóri hafði strax samband við lækni á Höfn í Hornafirði. Að sögn stefnda bað læknirinn skipstjórann að spyrja stefnanda hvort hann hefði tilfinningu í fingrinum sem stefnandi hafði. Að þessum upplýsingum fengnum hafi læknirinn sagt skipstjóranum að sauma sárið saman, búa um það og gefa stefnanda pencillin. Að mati læknisins hafi ekki verið ástæða til að fara með stefnanda í land en til næstu hafnar var milli 8 og 9 klukkustunda sigling. Skipstjóri fór að ráðleggingum læknisins og saumaði sárið saman með fjórum sporum og gaf stefnanda penisillíntöflur og lét hann að auki hafa umbúðir til skiptanna. Stefnandi kveðst ekki hafa heyrt samtal skipstjórans og læknisins. Hann kveðst hafa unnið áfram eins og hann gat en það hafi ekki verið mikið.

                Að sögn stefnanda var farið að grafa mjög í sárinu á sjötta degi og hann hafi þá fengið lítinn hníf hjá skipstjóranum og skorið á saumana og tekið þá úr en við það hafi komið gröftur út um götin eftir saumana. Hann kveðst þá hafa stungið gat á sárið, sem var bólgið og þrútið, og hleypt greftrinum út. Síðan hafi hann hreinsað sárið og búið aftur um það og síðan hafi allt virst vera í lagi þann tíma sem var eftir af veiðiferðinni. Afla skipsins átti að selja erlendir og kom það við í Færeyjum u.þ.b. hálfum mánuði eftir slysið og þar fór stefnandi af og flaug heim til Íslands.

                Daginn eftir að stefnandi kom heim fór hann til læknis sem vísaði honum til Ara H. Ólasonar, sérfræðings í handar- og bæklunarskurðlækningum. Ari framkvæmdi aðgerð á hendi stefnanda þann 16. nóvember 1990 þar sem hann taldi afltaug hafa farið í sundur. Þar sem stefnanda versnaði í fingrinum gekkst hann undir aðra aðgerð þann 10. desember 1992. Í síðari aðgerðinni var hluti litlafingursins fjarlægður með svokölluðu stúfhöggi.

                Stefnandi fór í örorkumat þann 7. mars 1991 og var varanleg örorka hans þá metin 3%. Í ágúst 1993 fór hann aftur í örorkumat vegna aðgerðarinnar sem gerð var í desember 1992. Í því mati var varanleg örorka hans, af Júlíusi Valssyni, lækni metin 8%.

                Að sögn stefnanda hefur hann alltaf talið að útgerð skipsins bæri skaðabótaábyrgð á tjóni sínu en hann hafi falið lögmanni að ganga frá málinu fljótlega eftir að örorkumatið frá 1993 lá fyrir. Hins vegar hafi ekkert gerst í málinu og hann hafi því tekið málið úr höndum lögmannsins á árinu 1997. Núverandi lögmaður hans hafi skrifað réttargæslustefnda bréf 30. júní sl. og krafist svars um bótaskyldu félagsins. Þann 4. ágúst hafi réttargæslustefndi hafnað bótaskyldu og því hafi mál þetta verið höfðað.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Stefnandi byggir kröfu sína á því, að höfuðorsök örorku hans sé stórkostlegt og vítavert gáleysi skipstjóra togarans Skafta við þær ,,læknisaðgerðir” sem hann gerði á stefnanda. Á gáleysi skipstjórans beri útgerð skipsins vinnuveitendaábyrgð. Einnig er á því byggt að vítavert hafi verið af skipstjóranum að koma stefnanda ekki undir læknishendur eins skjótt og kostur var en hann hefði þurft að komast til læknis innan 6 klukkustunda frá slysinu en hann komst ekki til læknis fyrr en að 16 sólarhringum liðnum. Stefnandi byggir á því að hann hafi skýrt skipstjóranum frá því að hann gæti ekki kreppt fingurinn og að hann teldi eitthvað vera í sundur.  

                Stefnandi byggir einnig á því að hann hafi ekki fengið þá ummönnun sem skylt var að veita honum, skv. 34. gr. sjómannalaga, eftir slysið. Hann hafi ekki mátt reyna á handlegginn en þrátt fyrir það hafi honum verið haldið til verka. 

                Þá byggir stefnandi á því, að stefndi beri alfarið sönnunarbyrgðina í málinu miðað við þau gögn sem lögð hafa verið fram í málinu. Í þessu sambandi bendir hann á að ekkert hafi verið skráð í skipsbækur um slysið eins og skylt var skv. 5. mgr. 221. gr. siglingarlaga. Hér sé rétt að horfa til þess að ef vafi er um hvort örorka stefnanda orsakist af ,,læknisverkum” skipstjórans eða því að stefnandi komst ekki undir læknishendur eins skjótt og kostur var þá verði að skýra þann vafa stefnanda í hag. 

                Stefnandi byggir kröfur sínar einnig á því, að vasahnífur sá sem honum var fenginn hafi verið vanbúinn eða gallaður, en verulega erfitt hafi verið að opna hnífinn. Stefnandi hafi orðið að liðka hnífinn til þess að hann kæmi að gagni og við það verk hafi hann skorið sig vegna vanbúnaðar hnífsins. 

                Stefnandi sundurliðar stefnukröfu sína, sem byggð er á örorkutjónsútreikningum Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings, þannig:

Varanleg örorka

3.226.500.- kr

Töpuð lífeyrisréttindi

193.600 .-kr.

Miskabætur

500.000 .-kr.

Samtals

3.920.100.- kr.

                Stefnandi telur að ekki beri að lækka bætur til hans vegna skattfrelsis bótanna því með því sé viðkomandi tryggingafélag að seilast inn á verksvið skattyfirvalda. Bendir hann á í því sambandi að skv. skattalögum séu örorkubætur skattfrjálsar. Með lækkun bótanna njóti skaðvaldurinn skattahagræðisins en ekki tjónþolinn og slíkt sé andstætt stjórnarskrárvernduðum eignarétti hans.

                Kröfu sína um miskabætur byggir stefnandi á því, að slysið hafi gert honum ómögulegt að stunda sjómennsku, sem hann hafi valið sér sem lífsstarf. Slysið hafi breytt stöðu hans og högum, t.d. hafi hann flutt búferlum til Akureyrar þar sem hann stundi nú léttari vinnu. Einnig sé á hægri hendi hans lýti.

                Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttarins um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar hann til sakarreglunnar varðandi aðgerðir skipstjórans. Vísar hann einnig til þeirrar sönnunarreglu að þar sem orsakasamband hafi hugsanlega verið milli sakar og tjóns, skuli tjónþoli njóta vafans. Þá vísar hann til reglna skaðabótaréttarins um vanbúin tæki og loks til grundvallarreglna um vinnuvernd.

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Stefndi byggir á því, að skipstjóri Skafta SK-3 eða aðrir skipverjar hafi ekki valdið slysi stefnanda og örorku. Þá verði örorkan ekki rakin til bilunar eða galla í búnaði skipsins. Bótaábyrgð útgerðarmanns fari eftir sakarreglu 171. gr. siglingarlaga nr. 34/1985 og ólögfestum reglum um bilun og galla í búnaði skips ef því er til að dreifa.

                Stefndi mótmælir sérstaklega að skipstjórinn hafi sýnt af sér nokkurt gáleysi við meðferð á áverkum stefnanda. Skipstjórinn hafi saumað sárið saman og búið um það en ekki siglt í land allt samkvæmt ráðleggingum læknis. Jafnframt hafi stefnandi fengið eðlilega ummönnun eftir slysið. Örorka stefnanda hafi komið til vegna röð óheppilegra aðstæðna sem engum var um að kenna og í þessu sambandi bendir stefndi á ummæli Ara H. Ólafssonar, bæklunarlæknis í vottorði hans, en þar komi fram að engum sköpum hafi skipt um afleiðingar slyssins þó stefnandi hafi ekki komist undir læknishendur fyrr en hann gerði. 

                Stefndi reisir kröfur sínar á því að slysið verði rakið til óhappatilviljunar eða aðgæsluleysis stefnanda sjálfs. Óþarft og gáleysislegt hafi verið af honum að reyna að opna hnífinn með þeim hætti sem hann gerði í stað þess að biðja un nýjan hníf en með því hefði hann varnað slysinu. Stefnandi sé vanur sjómaður og því hafi hann átt að kunna sér forráð í þessum efnum. Þá hafi hnífurinn hrokkið úr skrúfstykkinu fyrir óhappatilviljun eða þá að stefnandi herti ekki nægilega vel að honum en hafi svo verið sé við stefnanda sjálfan að sakast.

                Þá byggir stefndi á því að vasahnífur sá sem stefnandi fékk hafi ekki verið vanbúinn eða gallaður þannig að slys stefnanda og örorku megi rekja til þess. Stefnandi hafi viðurkennt að hnífurinn hafi ekki verið í notkun nema einn sólarhring. Hafi hnífurinn hins vegar verið stirður og ryðgaður eins og stefnandi haldi fram, hafi hann átt að óska eftir nýjum hníf sem hann hefði fengið. Ekki sé við neinn að sakast þó hnífur sem annað járn ryðgi úti á sjó.  Hins vegar flokkist slíkt ekki undir bilun eða galla í tæki í skilningi laga.

                Stefndi mótmælir því, að sönnunarbyrgði verði snúið við eða slakað á kröfum um sönnun sem gera eigi til stefnanda. Með lögreglurannsókn sé upplýst að hnífur sá sem stefnandi skar sig á hafi farið fyrir borð og því hafi ekki verið unnt að skoða hann og þá séu læknisfræðilegar afleiðingar slyssins þess eðlis að þær hefðu ekki upplýst neitt betur við sjópróf.

                Stefndi styður varakröfu sína þannig, að meginorsök slyssins og afleiðinga þess verði rakin til óhappatilviljunar og stefnanda sjálfs auk óheppilegra læknisfræðilegra aðstæðna. Af þeim sökum verði stefnandi að bera meginhluta tjóns síns sjálfur í hlutfalli við sök. Auk þess verði að lækka stefnukröfur verulega þar sem þær séu allt of háar. Einnig mótmælir stefndi örorkumati Júlíusar Valssonar læknis sem allt of háu. Stefndi telur að lækka beri bætur vegna varanlegrar örorku stórlega vegna skattfrelsis bótanna og eingreiðsluhagræðis samkvæmt dómvenju. Um misskilning sé að ræða hjá stefnanda haldi hann að hann eigi stjórnarskrárverndaðan rétt vegna þessa en fyrir þessu sé löng dómvenja. Einnig beri að draga frá þessum bótum greiðslur úr atvinnuslysatryggingu sjómanna og bætur úr almannatryggingum og lífeyrissjóði. Stefndi mótmælir miskabótakröfu stefnanda sem allt of hárri og andstæðri dómvenju en eðlilegar miskabætur í máli þessu gætu verið 100.000 til 150.000 krónur. Loks er vaxtakröfu stefnanda mótmælt sérstaklega. Dráttarvextir eldri en 4 ára frá stefnubirtingu séu fyrndir og þá beri ekki að dæma fyrr en frá og með dómsuppsögu.

IV.

Niðurstaða.

                Af hálfu stefnanda var á því byggt við munnlegan flutning málsins, að hann hafi átt skýlausan rétt á að komast undir læknis hendur eins skjótt og kostur var og allar tafir á því séu stefnda að kenna og þar með beri hann fébótaábyrgð á tjóni stefnanda. Þegar réttur stefnanda til að komast til læknis er metinn verður að skoða aðstæður eins og þær voru þegar slysið átti sér stað. Í málinu hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að ástæða hafi verið til að sigla með stefnanda í land vegna meiðsla hans. Fram kom í framburði Ara H. Ólafssonar, sérfræðings í handaskurðlækningum að ekki hafi skipt máli þó stefnandi hafi ekki komist til læknis fyrr en hann gerði. Af þessum sökum verður ekki fallist á þetta sjónarmið stefnanda.

Af hálfu stefnanda hefur því og verið haldið fram að stefndi beri sönnunarbyrgði í máli þessu þar sem sjópróf hafi ekki verið látin fara fram vegna málsins. Í 219. gr. siglingarlaga nr. 34/1985 eru ákvæði um hvenær sjópróf skuli haldin. Þar segir m.a. að sjópróf skuli halda ef skipverji andast eða verður fyrir meiri háttar líkamstjóni. Ætla má að stefnandi telji að sjópróf hefðu átta að fara fram þar sem hann varð fyrir meiri háttar líkamstjóni. Af gögnum málsins má sjá að stefnandi var úrskurðaður með 3% varanlega örorku 5 mánuðum eftir að hann kom í land. Það var ekki fyrr en í lok árs 1992 sem hluti fingurs stefnanda er fjarlægður með svokölluðu stúfhöggi og eru þá liðin rúm 2 ár frá slysinu.  Telja verður að ekki hafi verið ástæða fyrir útgerð skipsins að óska eftir sjóprófum strax og komið var til hafnar eftir slysið þar sem ekkert benti til að afleiðingar slyssins yrðu að meiri háttar líkamstjóni stefnanda, en aðrar ástæður voru ekki til að óska eftir sjóprófi. Verður því ekki talin ástæða til að snúa sönnunarbyrgði við í málinu vegna þess að ekki fór fram sjópróf. Í þessu sambandi verður og að hafa í huga að fyrir dóminn mátti hæglega leiða vitni sem borið gátu um allt það sem fram hefði komið við sjópróf.

                Fyrir liggur að engin vitni voru að slysi stefnanda en hins vegar er ekki deilt um atvik.  Stefnandi var að liðka vasahníf og hafði sett hann í skrúfstykki en þegar hann togaði í skaftið losnaði hnífurinn og stefnandi skar sig.  Hann fór til skipstjóra sem hringdi í lækni og fékk upplýsingar um hvað gera bæri.

Vitnið Ari Helgi Ólafsson, sérfræðingur í bæklunar- og handarskurð-lækningum bar að áverkinn hafi verið þess eðlis, eftir því sem fram kom síðar, að stefnandi hafi þurft á læknisaðstoð að halda eins fljótt og kostur var. Vitnið taldi að læknir hefði vísað honum til sérfræðings þar sem í ljós kom að hann hafi ekki getað beygt fingurinn. Að mati vitnisins var erfitt að segja til um hvort stefnandi hefði sloppið við örorkuna ef ekkert hefði verið gert að sárinu og stefnandi komist eins fljótt og kostur var til læknis. Aðspurt kvaðst vitnið, ef sér hefði verið sagt að stefnandi gæti ekki beygt fingurinn, ekki hafa ráðlagt að sárið yrði saumað saman. Að mati vitnisins átti ekki að sauma sárið saman en vitnið tekur jafnframt fram að það atriði sé umdeilt meðal lækna. Í þessu tilfelli hafi verið aðalatriði að hreinsa sár vel. Ef sárið hafi verið skítugt þá hafi ekki átt að sauma það. Vitnið kveðst ekki geta fullyrt um höfuðorsök bæklunarinnar en mjög slæmt hafi verið að sýking komst í sárið því með því jókst örvefsmyndun. Þegar vitnið sá stefnanda fyrst hafi fingurinn verið stirður og bólginn sem einnig hafi verið slæmt. Að mati vitnisins er mjög erfitt að segja til um hversu miklu máli, til hins verra, saumaskapurinn skipti. Nokkrir þættir hafi getað verið til hins verra t.d. að sárið hafi verið óhreint í byrjun, ekki hreinsað nægilega vel, var saumað, síðan kom sýking í það. Allt þetta hafi haft áhrif þannig að þegar aðgerðin var gerð voru aðstæður ekki eins góðar og þær hefðu getað verið.

                Við mat á sök skipstjórans, vitnisins Sverris Kjartanssonar, verður að hafa í huga að hann gat ekki séð að sin var í sundur í fingrinum enda verða ekki gerðar sömu kröfur til hans og læknis eða hjúkrunarfræðings. Að mati dómsins brást skipstjórinn við á réttan hátt við slysinu og gerði það sem honum bar. Hann hringdi til læknis og fékk ráðleggingu um að hreinsa sárið, sauma það saman og gefa stefnanda fúkkalyf. Þá verður og á því byggt að stefnanda hafi ekki verið haldið til vinnu enda bar hann sjálfur hér fyrir dómi að hann hafi ekki geta unnið. Jafnframt bar skipstjórinn að læknirinn hafi ekki talið ástæðu til að sigla með stefnanda í land og því hafi það ekki verið gert. Ákvörðun um að sigla ekki í land hafi einungis verið byggð á ráðleggingum læknisins og engu öðru. Með því að framfylgja leiðbeiningum læknisins verður að telja skipstjórann hafa hagað sér eins og góðum og gegnum skipstjóra bar við kringumstæður sem þessar. Með vísan til þess sem að framan er rakið verður stefnandi að bera sönnunarbyrgðina fyrir því að hann hafi ekki fengið að tala við lækninn eins og hann bar hér fyrir dómi. Skipstjórinn bar hins vegar að hefði stefnandi óskað eftir að fá að tala við lækninn hefði það verið auðsótt mál og læknirinn hefði að sjálfsögðu fengið að tala við stefnanda hefði hann óskað þess. Í lögregluskýrslu sem stefnandi gaf vegna slyssins er þess ekki getið að hann hafi ekki fengið að tala við lækninn. Stefnandi ber einnig hallan af því að ósannað er að hann hafi sagt skipstjóranum að hann gæti ekki beygt fingurinn og að eitthvað væri í sundur í fingrinum.

                Ekki verður séð að önnur rök en þau sem að framan er getið eigi við um 34. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og telst skipstjóri því ekki hafa gerst brotlegur gangvart ákvæðum þeirrar greinar með því að haga aðgerðum eins og hann gerði.

                Af hálfu stefnanda er einnig á því byggt, að hnífur sá er hann skar sig á hafi verið bilaður eða gallaður í skilningi skaðabótalaga. Óumdeilt er að stefnandi skar sig á venjulegum vasahníf sem hann hafði að eigin sögn fengið nýjan skömmu fyrir slysið. Ekki er unnt að fallast á með stefnanda að stirðleiki í vasahníf sé bilaður eða gallaður hnífur í skilningi skaðabótaréttar. Hér verður einnig að hafa í huga að aðferð stefnanda við að opna hnífinn getur ekki talist venjuleg notkun á hnífnum. Hnífurinn var ekki rannsakaður eftir slysið en stefnandi taldi að hann hafi farið fyrir borð. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en tjón stefnanda verið rakið til óhappatilviljunar sem engum er um að kenna en ekki til sakar starfsmanna stefnda sem hann beri ábyrgð á skv. 171. gr. siglingarlaga og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Við munnlegan flutning málsins bar stefnandi fyrir sig að stefndi bæri ábyrgð á ráðleggingum læknisins á grundvelli ákvæða 171. gr. siglingarlaga. Þessari málsástæðu var mótmælt sem of seint fram kominni af hálfu stefnda og verður hún því ekki tekin til umfjöllunar hér.

                Rétt þykir eins og hér stendur á að fella málskostnað niður.

                Halldór Halldórsson, héraðsdómari kveður upp dóm þennan en dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna anna dómarans.

Dómsorð:

                Stefndi, Fiskiðjan Skagfirðingur hf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Bertels Benediktssonar, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.