Hæstiréttur íslands

Mál nr. 191/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 24

 

Miðvikudaginn 24. apríl 2002.

Nr. 191/2002.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2002.

Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að X verði úrskurðaður í gæsluvarðhald allt til föstudagsins 31. maí nk. kl. 16:00 á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Af hálfu kærða er þess krafist að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjórans í Reykjavík kemur fram að kærði hafi verið handtekinn í gær vegna gruns um aðild að máli nr. 010-2002-12623. Hafi þar verið um það að ræða að kærði hafi hringt úr farsíma sínum í Dominóspizza og pantað pizzu að Vallarhúsum 28. Er pizzasendillinn hafi komið á staðinn hafi kærði ásamt tveimur öðrum veist að sendlinum. Hafi þeir allir verið með húfur sem skýldu andlitum þeirra. Hafi kærði ógnað sendlinum með hjólabretti og hótað honum ef hann léti þá ekki fá peninganna. Hafi sendillinn látið peninganna um 8000 kr. af hendi án mótþróa. Framburður kærða og félaga hans bendi eindregið til þess að hér hafi verið um þaulskipulagt rán að ræða.

Undanfarna daga, vikur og mánuði hafi lögreglan margoft þurft að hafa afskipti af X vegna ýmissa afbrota og þá hafi hann þrátt fyrir ungan aldur hlotið 3 dóma nú í vetur. Hinn 29. desember sl. hlaut hann 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár fyrir þjófnað og tilraun til þjófnaðar, kærði sem hafi verið viðstaddur dómsuppsögu hafi unað dómi. Hinn 29. janúar sl. hafi kærði hlotið annan dóm nú 75 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár, fyrir alls 6 þjófnaði, kærði sem hafi verið viðstaddur dómsuppsögu hafi unað dómi. Þriðja dóminn hafi kærði hlotið 26. mars sl. 6 mánaða fangelsi óskilorðsbundið, fyrir alls 9 þjófnaði, eignaspjöll, húsbrot og nytjastuld. Kærði hafi setið í gæsluvarðhaldi í 6 vikur vegna þeirra brota sem lokið hafi verið með dóminum 26. mars sl. og nú hafi kærði gerst brotlegur enn á ný.

Þrátt fyrir afskipti lögreglu og dómstóla hafi kærði rofið dómanna frá því í desember og í janúar. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrskurðarð X í gæsluvarðhald að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík hinn 12. febrúar sl. Eftir að kærði hafi losnað úr gæsluvarðhaldinu 26. mars sl. hafi hann verið nokkuð samfellt í afbrotum.

Ljóst sé af framangreindu að brotaferill X sé orðinn verulegur þrátt fyrir ungan aldur. Hann hafi síðustu daga, vikur og mánuði verið í afbrotum og hafi ekki, þrátt fyrir afskipti lögreglu og dómstóla, látið sér segjast heldur haldið áfram í afbrotum. X sér ekki í skóla, sé atvinnulaus og sé lögreglu kunnugt um að hann sé stórfelldur fíkniefnaneytandi sem neyti fíkniefna reglulega og þá hafi hann áður borið við yfirheyrslur að hann fjármagni bæði áfengis- og fíkniefnaneyslu sína með afbrotum. X hafi borið að hafa farið í meðferð á Vogi vegna fíknar sinnar dagana 5. – 10. janúar sl. en ljóst sé að kærði hafi ekki hætt vímuefnaneyslu og hafi haldið áfram afbrotum.

Stöðva beri og verði þennan afbrotaferil X. Af framansögðu og af afbrotaferli kærða verði ekki annað talið en að yfirgnæfandi líkur séu á að hann haldi áfram brotastarfsemi sinni fari hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi svo koma megi í veg fyrir frekari afbrot.

Stefnt sé að því að gefa út ákæru á hendur X á fyrirhuguðum gæsluvarðhaldstíma vegna þess brots sem hann hafi nú framið og nú sé til meðferðar hjá lögreglu.

Kærði sé grunaður um brot gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Með vísun til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún er fram sett.

Af hálfu verjanda var því hafnað að ljóst væri að um rán hefði verið að ræða, en ekki gripdeildarbrot. Benti hann á að kærði fullyrti að hann væri í vinnu og væri ekki í fíkniefnaneyslu og lægju engin gögn frammi sem bentu til annars. Sakarferill gæfi ekki tilefni til gæsluvarðhalds á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Kærði hefði að miklum hluta verið dæmdur hegningarauki, hann væri mjög ungur og hefði ekki verið tekið nægilegt tillit til þess við ákvörðun refsingar í þeim dómum sem hann hefði hlotið. Þá hefðu forráðamenn og barnaverndarnefnd ekki gripið til þeirra úrræða sem þeim væru tiltæk ef ástæða væri til að grípa inn í mál kærða.  Taldi verjandi hvorki efnis- né lagarök fyrir gæsluvarðhaldi.

Kærði hefur játað aðild sína að broti því sem hann er nú kærður fyrir en neitar að hafa beitt ofbeldi eða hótað ofbeldi. Sterkar líkur eru fyrir því að brot þetta verði talið varða við 252. gr. almennra hegningarlaga. Svo sem lýst er í kröfu og samkvæmt þeim dómum sem þar eru tilgreindir hefur kærði orðið uppvís af fjölmörgum afbrotum á tæpu ári. Hann var dæmdur 29. nóvember 2001 ásamt öðrum fyrir innbrot í bifreið, þjófnað úr henni og tilraun til frekari þjófnaðar. Var refsingin skilorðsbundin í tvö ár frá dómsuppsögu. Hinn 29. janúar á þessu ári var hann dæmdur ásamt öðrum fyrir innbrot í og þjófnað úr sex bifreiðum, var hér um hegningarauka að ræða og var skilorð látið haldast frá dómsuppsögudegi. Aftur hlaut hann dóm 26. mars á þessu ári fyrir fjölmörg brot. Voru fjögur þeirra framin fyrir dóminn frá 29. nóvember 2001, en fimm eftir þann dóm og fyrir dóminn frá 29. janúar sl. og tvö brotanna tæpum tveimur vikum eftir þann dóm. Var því ýmist um að ræða hegningarauka og skilorðsrof. Um var að ræða innbrot í bifreiðar og húsnæði, eignaspjöll, húsbrot og nytjastuld. Nú er hann kærður fyrir rán framið 20. apríl sl., tæpum mánuði eftir að hann hlaut síðast dóm. Við uppsögu þess dóms, 26. mars sl., þar sem hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi óskilorðsbundið, áskildi hann sér fjögurra vikna áfrýjunarfrest og er sá frestur ekki liðinn.

Þegar brotaferill kærða er virtur og tímasetningar brota hans, virðist hann ekki hafa látið sér segjast við þá dóma sem hann hefur hlotið. Hann er nú kærður fyrir ránsbrot, sem er mjög alvarlegt brot enda lágmarksrefsing lögbundin sex mánaða fangelsi, er brotið framið innan mánaðar frá því hann hlaut þungan dóm. Vegna þessa eru verulegar líkur á því að kærði muni halda áfram brotaferli sínum gangi hann laus.  Er því fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi samkvæmt c- lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 svo sem krafist er.

Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 31. maí nk. kl. 16.00.