Hæstiréttur íslands
Mál nr. 371/2007
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Skilorð
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2008. |
|
Nr. 371/2007. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn Ólafi Aroni Ingvasyni (Guðmundur Ó. Björgvinsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Skilorð.
Ó var ákærður fyrir vörslur á 418 töflum, sem innihéldu MDMA-klóríð, og voru ætlaðar til söludreifingar. Játaði hann að hafa haft töflurnar í vörslum sínum en gaf misvísandi upplýsingar um hvað hann hefði ætlað að gera við þær. Þótti sannað að hann hefði vitað að töflurnar hefðu verið til söludreifingar en ekki að hann hefði sjálfur ætlað að annast hana. Samkvæmt rannsókn á styrkleika taflnanna voru þær veikari en algengt var um töflur sem þessar. Varð háttsemi Ó ekki heimfærð undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga heldur talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni. Að teknu tilliti til upplýsinga um að Ó hefði breytt lífi sínu mjög til betri vegar frá því er hann framdi brot sitt var refsing hans ákveðin skilorðsbundið fangelsi í 12 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu og refsingu ákærða svo og um upptöku fíkniefna.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvalds en til vara mildunar refsingar og að hún verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta.
Ákærða er í ákæru gefið að sök að hafa tilgreindan dag á heimili sínu „haft í vörslum sínum 418 töflur sem innihéldu MDMA-klóríð, ætlaðar til söludreifingar.“ Eins og rakið er í héraðsdómi viðurkenndi ákærði, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, að hafa haft þær töflur sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins í vörslum sínum, en gaf óljósar og breytilegar skýringar á því hvað hann hafi ætlað að gera við efnin.
Ákæruvaldið hefur í greinargerð sinni fyrir Hæstarétti sætt sig við niðurstöður héraðsdóms um háttsemi ákærða, en gert þá athugasemd að ákærða sé „ekki gefið að sök að hafa sjálfur ætlað MDMA töflurnar til söludreifingar“, eins og skilja megi af forsendum héraðsdóms. Er á því byggt af hálfu ákæruvalds að ákærða „hafi hlotið að vera ljóst að svo mikið magn af MDMA töflum væri ætlað til söludreifingar.“ Í ákæru er háttsemi ákærða heimfærð undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í 1. mgr. þeirrar greinar segir að hver, sem andstætt ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni lætur mörgum mönnum í té ávana- og fíkniefni eða afhendir þau gegn verulegu gjaldi eða á annan sérstaklega saknæman hátt, skuli sæta fangelsi allt að 12 árum. Í 2. mgr. greinarinnar segir svo að sömu refsingu skuli sá sæta, sem gegn ákvæðum nefndra laga framleiðir, býr til, flytur inn, flytur út, kaupir, lætur af hendi, tekur við eða hefur í vörslum sínum ávana- og fíkniefni í því skyni að afhenda þau á þann hátt, sem greint er í 1. mgr.
Þegar litið er framburðar vitna og misvísandi skýrslna ákærða, annars vegar hjá lögreglu en hins vegar fyrir dómi, er sannað að ákærði hafði umrætt magn fíkniefna í vörslum sínum og að hann hafi vitað að efnið væri til söludreifingar þótt ósannað sé að hann hafi átt að annast hana. Samkvæmt gögnum málsins var meðalþungi þeirra 20 taflna sem sendar voru til efnagreiningar rétt um 0,228 grömm en í heild var lagt hald á 418 töflur hjá ákærða. Samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og framburði Jakobs Kristinssonar dósents fyrir héraðsdómi mun styrkleiki fíkniefnis í hverri töflu hafa verið minna en það sem algengast mun vera um töflur sem þessar. Samkvæmt öllu framanrituðu verður háttsemi ákærða ekki heimfærð undir ákvæði 173. gr. a. almennra hegningarlaga heldur talin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.
Auk þess skilorðsbundna dóms sem ákærði hlaut á árinu 2002, og getið er um í héraðsdómi, var hann í nóvember 2006 dæmdur til greiðslu sektar fyrir vörslu á 0,46 grömmum af kókaíni og í febrúar 2007 dæmdur til greiðslu sektar fyrir vörslu á 1,7 grömmum af amfetamíni. Var honum í hvort skipti gert að greiða 45.000 krónur í sekt. Bæði þessi brot voru framin sumarið 2006 eða um líkt leyti og það brot sem nú er til meðferðar. Brot þessi og viðurlög við þeim eru svo smávægileg að þau hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar ákærða nú þótt dómar þessir hafi gengið eftir að ákærði framdi það brot sem nú um ræðir. Við ákvörðun refsingar ákærða verður einkum litið til magns fíkniefnanna en einnig til styrkleika þeirra sem og þess að fram er komið, meðal annars með gögnum frá SÁÁ, vinnuveitanda ákærða og sóknarpresti hans, að ákærði, sem er ungur maður, mun hafa breytt lífi sínu mjög til betri vegar frá því sem var er hann framdi brot sitt. Refsing ákærða verður ákveðin fangelsi í 12 mánuði, sem rétt er að binda almennu skilorði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest. Áfrýjunarkostnaði málsins, þar með töldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði, verður samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skipt þannig að ákærði greiði helming hans en helmingur greiðist úr ríkissjóði, allt svo sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Ólafur Aron Ingvason, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum þremur árum frá uppsögu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Guðmundar Óla Björgvinssonar hæstaréttarlögmanns, ákveðast 311.250 krónur. Áfrýjunarkostnað málsins, sem nemur samtals 327.396 krónum, skal ákærði greiða að helmingi en hinn helmingur áfrýjunarkostnaðar greiðist úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2007.
Mál þetta sem dómtekið var 18. apríl s.l. að loknum munnlegum málflutningi er höfðað með ákæru útgefinni 20. nóvember 2006 á hendur Ólafi Aroni Ingvasyni, [kt. og heimilisfang], "fyrir stórfellt fíkniefnabrot, með því að hafa föstudaginn 14. júlí 2006, á heimili sínu, haft í vörslum sínum 418 töflur sem innihéldu MDMA-klóríð, ætlaðar til söludreifingar.
Háttsemi ákærða telst varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974, sbr. lög nr. 32/2001.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og að ofangreindar töflur og 0,79 g af kókaíni sem fannst við leit lögreglu á heimili hans 14. júlí 2006 verði gert upptækt samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002."
Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara er krafist vægustu refsingar, sem verði skilorðsbundin. Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hans Halldór H. Backman hrl.
I. Málavextir.
Föstudaginn 14. júlí 2006 var faðir ákærða handtekinn vegna gruns um fíkniefnasölu og fór í framhaldi af því fram leit að fíkniefnum á heimili hans að [...], en á þessum tíma var ákærður og grunaður um fíkniefnasölu og hafði verið heimiluð með úrskurði húsleit vegna þess. Í aðalhluta hússins fundust um 12 pakkningar af amfetamíni sem móðir ákærða viðurkenndi að hún ætti og ætlað til nota í sambandi við sérstakt tilefni, þ.e. fimmtugsafmaæli. Þá fannst smáræði af marihuana.
Í framhaldi af þessu fór fram leit í herbergi ákærða og í bílskúrnum sem er framan við herbergið. Ofan á gardínukappa í herberginu fundust í tveimur bikurum talsvert magn af ætluðum E-töflum, en þó aðeins 1 1/2 tafla í öðrum, voru pillurnar langflestar gular með deilistriki á annarri hlið en strumpamynd á hinni hliðinni, ennfremur voru örfáar rauðyrjóttar töflur með deilistriki öðru megin, en krossi hinu megin. Ekkert annað samnæmt fannst við leitina, sem ákærður var viðstaddur og tjáði hann lögreglumönnunum sem framkvæmdu leitina, að hann hafi fundið meintar E-töflur úti í móa mánudaginn á undan, en töflurnar voru gróflega taldar á lögrglustöðinni og reyndust vera 415 talsins.
Ætlaðar e-töflur voru sendar til tæknideildar Lögreglustjórans í Reykjavík, þar sem þær voru vigtaðar og efnagreindar með litaprófunum og reyndust þær vera 418 að tölu og greindust sem ecstacy töflur, þ.e. þær innihéldu efnið MDMA við prófunina.
Sýni af þessum töflum voru svo send Rannsóknarstofu í lyfjafræði við Háskóla Íslands til rannsóknar.
Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents kemur fram, að efnissýnin sem rannsökuð voru hafi annars vegar verið 17 gular töflur 8,1 mm. og að meðalþunga 0,228 gr. Í annarri hlið taflanna var mynd af andliti en deiliskora á hinni.
Hins vegar var hitt sýnið 3 gular töflur 8,1 mm. í þvermál að meðalþunga 0,229 gr. Í annarri hlið þeirra var mynd af andliti, en á hinni mynd af 4 blaða smára.
Með blettagreiningu á þynnu, gasgreiningu á súlu, massagreiningu, vökvagreiningu á súlu og ýmsum efnagreiningum kom í ljós að hver tafla innihélt MDMA-klóríð. Magn MDMA klóríðs í hverri töflu var 51 mg., sem samsvarar 43 mg. af MDMA basa.
Jakob hefur staðfest matsgerðina hér fyrir dómi.
Ákærður gaf skýrslu hjá lögreglunni í Keflavík 15. júlí 2006 en hvarf hann þá frá frásögninni um að hann hafi fundið fíkniefnin sem fundust við húsleitina heima hjá honum úti í móa og kom með þá sögu, að eftir áramótin á undan, líklega á tímabilinu febrúar-mars 2006, hafi hann hitt á Hverfisbarnum í Reykjavík mann sem kallaði sig A og hafi spurt ákærða, hvort hann gæti reddað honum um amfetamín. Ákærður hafði átt rest af amfetamíni í vasanum, sem hann hafi látið manninn hafa. Í spjalli við mann þennan, hafi hann spurt ákærða hvort hann vildi ecstacy töflur, en hann neitar því. Ákærður hafi þá fengið hjá honum símanúmer hans. Ákærður sagðist nota töluvert af hassi og verið orðinn pirraður á því að greiða 2.500 krónur fyrir hvern skammt af því. Ákærður hafði þá ákveðið að hringja í nefndan A og athuga hvernig málin gengju fyrir sig. Þá hafði komið í ljós, að hann átti að fá hverja e-töflu á 800 krónur og hafi hugmynd ákærða verið að fá þessar e-töflur til að skipta þeim upp í hass og fá þannig hassið ódýrara. Ákærður sagðist hafa fengið 300 e-töflur hjá þessum strák, en sagðist þó hafa heyrt að um fleiri töflur hafi verið að ræða. Ákærður sagði fyrst að afhending á töflunum hafi farið fram í Reykjavík og það gerst eldsnöggt og maðurinn, nefndur A, sagt honum að eyða símanúmerinu úr síma sínum. Síðar sagði ákærði að afhendingin hafi farið fram á Esso stöðinni í Hafnarfirði, um kl. 18:00 daginn fyrir skýrslutökuna og hafi þá verið í för með honum B og C og hafi maðurinn komið þangað á pallbíl, og hafi C, sem hafi ekið bifreiðinni sem þeir voru í, lagt henni við Esso, en ákærður farið inn í afgreiðslu Esso, keypt sér eitthvað að drekka og svo farið til mannsins í pallbifreiðinni, sem afhent hafi honum töflurnar út um glugga bifreiðarinnar og ákærður sett þær í vasa sinn og gengið í burtu. Ákærður sagðist svo hafa sett pillurnar í bikar ofan við glugga í herbergi hans, eftir að hann kom heim til sín í beinu framhaldi af þessu. Hann kvaðst þá ekki hafa verið búinn að hugsa til enda, hvernig hann ætlaði að nota e-pillurnar til að fá ódýrt hass. Hann sagðist hafa haft samband við manninn 2-3 vikum áður, en þetta væri í fyrsta skipti, sem hann hafi fengið hjá honum fíkniefni.
Ákærður sagðist ekki vilja lýsa útliti mannsins né gefa upp símanúmer hans, þó að hann væri með það, af ótta við afleiðingar þess. Hann hélt fast við þann síðari framburð hjá lögreglu, að það hafi verið 300 e-töflur sem hann hafi átt að fá hjá manninum og væru það mistök hjá manninum, ef hann hafi afhent honum meira en hann bað um. Þá var hann viss um að afhending fíkniefnanna hafi farið fram við afgreiðslu Esso í Hafnarfirði. Hann sagðist ekki hafa borgað manninum neitt fyrir töflurnar og hafi hann átt að borga manninum þegar hann væri kominn með peninga, og hafi maðurinn ætlað að hafa samband við hann síðar út af því.
Ákærður bar í meginatriðum á sama veg hér fyrir dómi, en kvað þó manninn, sem hann hafi hitt í Reykjavík um veturinn, hafa tjáð honum að hann væri fíkniefnasali og kvaðst ákærður hafa gefið honum upp símanúmer sitt og einnig gæti verið að maðurinn hafi gefið honum upp símanúmer sitt og gæti eins verið að ákærður hafi hringt í manninn vegna kaupanna á e-töflunum. Ákærður hélt fast við að hann hafi fengið 300 e-töflur hjá manninum, og svo heyrt að um fleiri væru að ræða. Hann hafði ekkert greitt fyrir töflurnar um leið og hann fékk þær afhentar, heldur hafi hann átt að greiða þær um leið og hann kæmi þeim út. Hann kvaðst hafa farið með töflurnar beint heim eftir afhendingu og þær ekki verið búnar að vera lengi í bikarnum í herbergi hans er húsleit fór fram.
Vitnið Bjarney Annelsdóttir, lögreglumaður hafði tekið þátt í að framkvæma húsleit að [...], og þar í herbergi inn af bílskúr, sem ákærði hafði til afnota hafi fundist fíkniefni í verðlaunagrip og hafi ákærður fylgst með leitinni. Vitnið hafði er komið var niður á lögreglustöð, tvítalið þau fíkniefni, sem fundust í verðlaunagripnum og hafi það reynst vera 418 töflur, meintar e-töflur, gular með merki. Vitnið kvaðst hafa verið vottur að haldlagningu taflanna.
Vitnið Eiríkur Valberg, lögreglumaður, kvað ákærða hafa verið uppvísan að því að vera að selja fíkniefni og hann þá framvísað kókaíni en í framhaldi hafi farið fram húsleit heima hjá honum, þar sem fundist hafi e-töflur í bikar í herbergi hans. Ákærði hafi í fyrstu sagst hafa fundið þessar töflur úti í móa, en við yfirheyrslu síðar hafi hann sagst hafa átt að fá 300 töflur hjá manni, sem hann vildi ekki nafngreina og hafi ákærður sagst hafa ætlað að skipta e-töflunum fyrir hass, og þannig hefði hann getað fengið meira af hassi. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt, að það fengist meira magn af hassi með því að greiða fyrir það með e-töflum. Það kveðst hafa talið töflurnar sem voru haldlagðar og einnig lögreglumennirnir Bjarney og Finnbjörn og hafi þær reynst vera rúmlega 400 talsins. Það kvað ferlið vera þannig í svona málum, að þeir geymi meint haldlögð fíkniefni í læstum hirslum, en svo sé farið með þau til tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík til litaprófunar og vigtunar eða talningar og þaðan séu svo send sýnishorn til efnagreiningar í rannsóknarstofu í lyfjafræði.
Vitnið Kristján Kristjánsson starfsmaður tæknideildar lögreglustjórans í Reykjavík kannaðist við að hafa fengið rúmlega 400 stykki af ætluðum e-töflum frá lögreglunni í Keflavík til vigtunar og efnagreiningar í framangreint sinn. Það kvaðst hafa talið 418 töflur sem hafi verið gular nema þrjár hafi verið rauðar, þær hafi verið svipaðar en verið með merki eða mynstur, en þau gefi ekki til kynna tegund hlutaðeigandi efnis. Við efnagreiningu eða litaprófun hafi komið svörun um að töflurnar innihéldu MDMA efni og því hafi 20 töflur verið sendar rannsóknarstofu H.Í. í lyfjafræði til efnagreiningar.
Vitnið Jakob Kristinsson, dósent í lyfjafræði við Háskóla Íslands, hefur staðfest framlagða matsgerð sína og kom fram hjá vitninu að e-töflurnar sem það efnagreindi væru í daufara lagi miðað við meðaltalsstyrkleika taflna sem rannsóknarstofan í lyfjafræði hefur fengið til efnagreiningar, sérstaklega hafi sýnin í eldri mælingum verið sterkari.
Vitnið séra Baldur Rafn Sigurðsson, staðfesti vottorð sitt merkt dskj. nr. 5. Vitnið hafði fylgst með ákærða frá unglingsárum og bar einkum um hve körfuboltinn hafi verið mikill þáttur í lífi ákærða og hve það hafi verið honum þungbært að íþróttahreyfingin hafi tekið mjög strangt á broti ákærða, sem og annarra íþróttamanna, sem verði á samskonar brot. Hafi ákærða verið meinað að æfa körfubolta frá því að hann hafi orðið uppvís að brotinu og hafi það verið honum mjög þungbært og jafngilt refsingu. Það kvað ákærða hafa tekið sig mjög á og farið í meðferð og væri hætta á að hann velti út af beinu brautinni verði hann að fara í afplánum vegna þessa brots.
Niðurstöður
Með framburði ákærða, vætti vitna og rannsóknargögnum málsins er sannað að ákærður hafði í vörslum sínum 418 e-töflur, sem fundust við húsleit á heimili hans. Töflurnar innihéldu MDMA klóríð, en voru í veikara lagi eftir því sem fram kemur í vætti Jakobs Kristinssonar. Þá er og ljóst, að þessar e-töflur voru ætlaðar til söludreifingar.
Framburður ákærða var í upphafi óstöðugur um hvernig hann var að þessum efnum kominn og síðari framburður hans um samskipti hans við ónafngreindan mann, sem hann þekkti ekki neitt og síðari viðskipti þeirra eru óstaðfest af þessum manni og þykir framburðurinn fremur ósennilegur, þ.á.m. að ákærður hafi átt að ná hagstæðari kaupum á hassi með því að bjóða e-töflur í skiptum fyrir hass.
Þá kemur fram hjá ákærða að hann hafi keypt 300 töflur, en svo hafi hann heyrt að þær hafi verið fleiri, og hann hafi ekkert greitt fyrir þessar töflur þegar hann tók við þeim heldur ætti að greiða þær á umsömdu verði 800 krónur á töflu um leið og honum tækist að losa sig við þær. Þetta er harla ólíklegt.
Þetta bendir eindregið til þess að ákærður hafi verið í föstu viðskiptasambandi við fíkniefnasalann sem hann vildi ekki nafngreina og ber ótta af. Sá háttur sem ákærður lýsir á viðskiptum, þ.e. afhending efnanna án greiðslu og svo uppgjör miðað við hvernig ákærða gengi að selja efnin bendir til trausts eftir fyrri viðskipti.
Fram er komið að ákærði átti að greiða til baka miðað við það magn taflna sem hann fékk afhent og seljandi hefur því verið með bókhald yfir það. Ekki verður því lagt allt of mikið upp úr framburði ákærða um að hann hafi fengið afhentar 300 töflur en hann taldi þær ekki, en var gefið til kynna að í pokanum kynni að vera meira magn og hlýtur hann að hafa gert sér grein fyrir að honum yrði gert að gera skil á andvirði þeirra taflna sem í raun voru í pokanum. Ákærður verður því gerður ábyrgur fyrir þeim e-töflum, sem fundust hjá honum og mátti honum vera ljóst að hann hafi fengið þetta magn til sölumeðferðar.
Með þessari háttsemi hefur ákærður gerst brotlegur við 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. lög nr. 64/1974 sbr. lög nr. 32/2001.
Ákærður var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur í 30 daga fangelsi skilorðsbundið í 2 ár þann 2. apríl 2004 fyrir brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga og hefur því staðist það skilorð.
Við refsiákvörðun í máli þessu verður að taka mið af því að um mikið magn af hættulegu fíkniefni er að ræða og hins vegar að ákærði á sér ekki sögu um dreifingu fíkniefna, þó að hann hafi komist inn í ákveðið viðskiptasamband um kaup á e-töflunum.
Þegar allt er virt þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 22 mánuði þó að ákærður hafi tekið sig á þykir mál þetta það alvarlegt og þannig vaxið, að ekki séu skilyrði til skilorðsbindingar á refsingunni.
Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 sbr. reglugerð nr. 848/2002 skal ákærði hlíta upptöku á 418 e-töflum sem haldlagðar voru í málinu og 0,79 gr. af kókaíni.
Dæma ber ákærða til að greiða krónur 467.263 í sakarkostnað þar af er þóknun verjanda á rannsóknarstigi Lárentsínusar Kristjánssonar hrl. krónur 70.969 og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans Halldórs H. Backman hrl., sem ákveðast 258.960 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti..
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.
Uppkvaðning dómsins hefur tafist vegna anna dómarans.
DÓMSORÐ
Ákærður Ólafur Aron Ingvason, sæti fangelsi í 22 mánuði.
Ákærður sæti upptöku á 418 e-töflum og 0,79 gr. á kókaíni, sem haldlögð voru í málinu.
Ákærður greiði í sakarkostnað 467.263 krónur, þar af eru verjandalaun skipaðs verjanda á rannsóknarstigi Lárentsínusar Kristjánssonar hrl. 70.969 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og málsvarnarlaun og verjandaþóknun skipaðs verjanda Halldórs H. Backman hrl., 258.960 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.