Hæstiréttur íslands

Mál nr. 286/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Réttindaröð
  • Laun


Mánudaginn 20. júní 2011.

Nr. 286/2011.

Baldur Már Helgason

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

Glitni banka hf.

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Réttindaröð. Laun.

B kærði úrskurð héraðsdóms þar sem krafa hans við slit G hf. var viðurkennd í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Krafðist B þess að krafan yrði viðurkennd í réttindaröð samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í dómi Hæstaréttar sagði að eins og greindi í hinum kærða úrskurði væri nægilega komið fram í málinu að ráðningarsamningi B við G hefði ekki verið slitið er starfstöð hans hefði verið flutt frá Kaupmannahöfn til New York. Þar í borg hefði B starfað í þágu Glitnir Equity Investments sem leggja bæri til grundvallar í málinu að hefði verið deild innan G. Með þeirri athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. apríl 2011, sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 10. maí 2011. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 12.087.000 krónur var viðurkennd í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og áðurnefnd krafa hans með dráttarvöxtum viðurkennd í réttindaröð samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 29. apríl 2011 og krefst þess aðallega að staðfest verði afstaða slitastjórnar um að hafna kröfu sóknaraðila. Til vara er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er nægilega fram komið í málinu að ráðningarsamningi sóknaraðila við varnaraðila hafi ekki verið slitið er starfstöð hans var flutt frá Kaupmannahöfn til New York. Þar í borg starfaði hann í þágu Glitnir Equity Investments sem leggja ber til grundvallar í máli þessu að hafi verið deild innan varnaraðila. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. apríl 2011.

I

Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 17. mars 2011 var þingfest 3. júní 2010.  Sóknar­aðili er Baldur Már Helgason, Sólvallagötu 43, Reykjavík, en varnaraðili er Glitnir banki hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

Sóknaraðili gerir þær dómkröfur að krafa hans að fjárhæð 12.087.000 krónur ásamt dráttarvöxtum frá 31. desember 2008 til 22. apríl 2009 verði viðurkennd sem for­gangs­­­krafa við slit varnaraðila samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrota­skipti o.fl.  Þá krefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði gert að greiða honum máls­kostn­­að auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur varnaraðila eru þær aðallega að staðfest verði sú afstaða hans að hafna kröfu sóknaraðila.  Til vara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila verði viður­kennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.  Til þrautavara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila verði lækkuð í 8.828.406 krón­ur.  Þá krefst varnaraðili þess að dráttarvaxtakröfu sóknaraðila verði hafnað og að sókn­ar­aðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað auk virðisauka­skatts.

II

Málavextir eru þeir helstir að sóknaraðili hafði starfað hjá varnaraðila hér á landi frá árinu 2001 er hann réð sig til starfa á starfsstöð varnaraðila í Danmörku, sbr. ráðning­ar­samning milli aðila 11. október 2005.  Hinn 8. október 2007 gerðu aðilar með sér nýjan samning um flutning sóknaraðila hinn 1. janúar 2008 yfir til Glitnis Equity Invest­ments sem staðsett var í New York.  Kemur fram í samningnum að verkefni sókn­­ar­­­aðila sé að byggja upp Glitni Equity Investments og að ráðning hans í nýja stöðu gildi í upphafi í allt að einu ári.  Þá kemur fram að ráðning hans til framtíðar ráðist af vel­gengni nýju starfseminnar.

Samkvæmt framangreindum samningi skyldu laun hans vera 175.000 bandaríkjadalir á ári og skyldu launin greidd mánaðarlega með jöfnum greiðslum og kemur fram að sókn­ar­­aðili þiggi laun frá Glitni Equity Investments eða Glitni Capital Corporation.  Þá átti sóknaraðili rétt á bónusgreiðslum á grundvelli frammistöðu í samræmi við bónus­kerfi Equity Investments og skyldi greiðslan að lágmarki vera 100.000 banda­ríkja­­dalir vegna ársins 2008. 

Hinn 7. október 2008 ákvað Fjármálaeftirlitið að taka yfir vald hluthafafundar varnar­aðila og skipa honum skilanefnd.  Varnaraðila var veitt heimild til greiðslu­stöðv­un­­ar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009.  Var greiðslustöðvunin fram­lengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009.  Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009, var varnaraðila skipuð slitastjórn.  Gaf slitastjórnin út innköllun til skuld­heimtu­­manna sem birtist fyrra sinni í Lögbirtinga­blaði 26. maí 2009 og rann kröfulýs­ing­ar­­­frestur út sex mánuðum síðar eða 26. nóvember 2009.  Frestdagur var 15. nóvember 2008. 

Hinn 31. október 2008 sagði skilanefnd varnaraðila sóknaraðila upp störfum en bauð hon­um jafnframt vinnu hjá Nýja Glitni banka hf. í Reykjavík.  Hóf sóknaraðili störf þar um miðjan nóvember 2008.  Óumdeilt er að sóknaraðili hefur fengið greidd laun samkvæmt ráðningarsamningi vegna starfa sinna í New York að öðru leyti en varðar bónusgreiðslur að fjárhæð 100.000 bandaríkjadalir. 

Sóknaraðili lýsti kröfu sinni með bréfi 11. júní 2009 sem síðar var leiðrétt með nýrri kröfu­lýsingu sem móttekin var af slitastjórn 22. júní 2009.  Var þess krafist að krafan nyti forgangsréttar.  Með bréfi 4. desember 2009 hafnaði slitastjórn varnaraðila kröf­unni.  Afstaða slitastjórnar var sú að hafna bæri kröfunni, þar sem  henni væri beint að röngum aðila og að auki byggðist hún á skilyrðum um árangur sem ekki hefðu verið upp­fyllt.  Sóknaraðili mótmælti afstöðu varnar­aðila með bréfi 16. desember 2009.  Vegna mótmælanna boðaði varnaraðili til fundar með sóknaraðila þann 24. mars 2010.  Ekki tókst að jafna ágreining aðila og var honum beint til dómsins með bréfi 9. apríl 2010 sem móttekið var hinn 11. maí 2010.

III

Kröfu sína kveðst sóknaraðili byggja á meginreglum kröfuréttarins um skuldbind­ing­ar­gildi samninga og á samningi sem gerður hafi verið milli hans og varnaraðila hinn 8. október 2007 um launakjör sóknaraðila frá því tímamarki.  Samkvæmt honum sé skýrt tekið fram að hluti launa sóknaraðila, 100.000 bandaríkjadalir, skuli greiddur einu sinni á ári.  Greiðslan sé sögð vera kaupauki sem greiðist án nokkurra skilyrða einu sinni á ári eins og beint orðalag samningsins beri með sér en í c lið 2. greinar samningsins segi: “Baldur will be entitled to a bonus payment based on his performance according to Equity Investments bonus system and the bonus will be at least USD 100.000 for 2008.“.  Greiðslan hafi verið óháð öllum rekstri bankans og þar með hluti fastra launa sóknaraðila.  Við gerð samningsins hafi það verið skýr skilning­ur sóknaraðila að ofangreind greiðsla að fjárhæð 100.000 bandaríkjadalir væri hluti fastra launa hans frá varnaraðila.  Hvergi sé tekið fram í samningnum að sóknaraðili skuli vera starf­andi hjá félaginu á þeim tíma sem kaupauka sé krafist eins og varnar­aðili telji og sé þeirri full­yrð­ingu því sérstaklega mótmælt sem órökstuddri.  Krafa sókn­araðila sé vegna van­greidds kaupauka sem samkvæmt ráðningarsamningi skyldi vera 100.000 bandaríkjadalir miðað við gengi 31. desember 2008 (120,87) eða 12.087.000 krónur.

Krafa sóknaraðila sé krafa um hluta launa hans sem ákveðinn hafi verið í samningi aðila 8. október 2007.  Á grundvelli þess og alls framangreinds falli krafa sóknaraðila und­ir ákvæði 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þar sem tiltekið sé að launa­kröfur og annað endur­gjald fyrir vinnu falli undir ákvæðið, enda hafi krafan fall­ið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag.   

Kröfu sína um greiðslu málskostnaðar byggir sóknaraðili á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir hann á lögum nr. 50/1988 en sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri nauðsyn á að fá dóm fyrir skatti þessum.

IV

Varnaraðili kveður að grundvallaratriði hvað varðar skuldbindingargildi samninga sé að samningur sé á milli aðila.  Í þessu máli hafi sóknaraðili verið starfsmaður Glitnis Capital Corporation sem verið hafi dótturfélag varnaraðila í Bandaríkjunum, en dóttur­félagið hafi greitt sóknaraðila laun.  Sóknaraðili hafi fengið laun fyrir vinnu sem unnin hafi verið í þágu dótturfélagsins og hafi starfsskyldur hans einungis verið á starfs­­stöð dótturfélagsins við það félag en ekki varnaraðila.  Beri varnaraðili ekki ábyrgð á skuldbindingum þess félags og því hafi sóknaraðili beint kröfu sinni að röng­um aðila.  Auk þess hafi umrætt félag verið selt og hafi núverandi eigendur tekið við öll­um skuldbindingum þess félags.  Þegar af þeirri ástæðu beri að staðfesta afstöðu slita­­stjórnar varnaraðila til kröfu sóknaraðila.

Varnaraðili kveður að í samningi aðila frá 8. október 2007 komi fram að sóknaraðili væri ráðinn til starfa hjá Glitni Equity Investment og að hann myndi þiggja laun sín ann­að­­hvort frá þeirri deild eða frá dótturfélagi varnaraðila, Glitni Capital Corpor­ation.  Sam­kvæmt launaseðli hafi sóknaraðili þegið laun sín frá Glitni Capital Corpor­ation.  Hafi sóknaraðili því ekki fengið greiðslur frá varnaraðila heldur frá dótturfélagi sem sókn­araðili hafi haft starfskyldur við í New York.  Sóknaraðili hafi aldrei gert athuga­­semd­ir við það fyrirkomulag og af því megi leiða að hann hafi viðurkennt samn­ings­sam­band sitt við Glitni Capital Corporation.

Verði niðurstaðan sú að sóknaraðili teljist eiga kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli ráðn­ingar­samningsins sé nauðsynlegt að gera efnislega grein fyrir skilyrðum kaup­auka­­­greiðslunnar.

Sóknaraðili telji að með ráðningarsamningi sem hann byggi kröfu sína á hafi varnar­aðili skuldbundið sig til að greiða honum 100.000 bandaríkjadali, án tillits til þess hvort ákveðinn árangur hafi náðst og óháð vinnuframlagi.  Þrátt fyrir að krafan sé talin ótengd vinnuframlagi sóknaraðila sé því jafnframt haldið fram að umrædd krafa sé launa­­krafa í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991, án þess að vitnað sé í hvaða tölulið ákvæð­­isins átt sé við og án þess að byggt sé á réttarheimildum.

Krafa sóknaraðila byggi á samningi sem skrifað hafi verið undir 8. október 2007 þar sem fram komi að sóknaraðili eigi tilkall til lágmarks kaupaukagreiðslu byggðri á árangri sóknaraðila í starfi.  Orðrétt segi þar „Baldur will be entitled to a bonus payment based on his performance according to Equity Investments bonus system and the bonus will be at least USD 100.000 for 2008“.  Í íslenskri þýðingu hljóði þetta svo: „Baldur á rétt á bónusgreiðslum á grundvelli frammistöðu í samræmi við bónuskerfi Equity Investments og verður bónusinn að lágmarki 100.000 bandaríkjadalir fyrir árið 2008“.

Framangreint orðalag vísi í nokkrar ákvörðunarástæður.  Í fyrsta lagi sé það loforð um greiðslu ákveðinnar lágmarksgreiðslu.  Í öðru lagi sé hún bundin skilyrði um frammi­stöðu og í þriðja lagi verði greiðslan að koma úr ákveðnu kaupaukakerfi.   Sé það því rangt hjá sóknaraðila að halda því fram að samið hafi verið um að hann fengi um­rædda greiðslu óháð því hvort ákveðnum skilyrðum væri fullnægt eða ekki.  Greiðslan falli niður nema öll skilyrði ákvæðis ráðningarsamningsins séu uppfyllt.  Saman myndi ákvörðunar­ástæður greinarinnar ákveðna formúlu um það hvenær greiðsla skuli fara fram.

Í fyrsta lagi þurfi árangur sóknaraðila í starfi að teljast viðunandi og í öðru lagi þurfi und­­ir­­liggjandi forsendur útreiknings á kaupaukagreiðslum að vera með þeim hætti að til staðar sé tekjustofn sem taki mið af þeim forsendum sem gildi um viðkomandi kaup­­auka­kerfi.  Í tilviki sóknaraðila hafi hann fengið greitt úr svokölluðum „Equity Investments bonus“ eða nokkurs konar eiginfjárkaupaukakerfi, án þess að fram komi hvort miðað sé við þróun eiginfjárstöðu dótturfélagsins eða móðurfélagsins eða með hvaða öðrum hætti reikna eigi kaupaukann.  Það liggi hins vegar fyrir að sóknaraðili hafi þegið greiðslur frá dótturfélaginu Glitni Capital Corporation og sé því eðlilegast að miða við afkomu þess félags og þróun eiginfjár þess.  Andlag kaupaukagreiðsl­unn­ar hafi þannig átt að miðast við eiginfjárstöðu dótturfélagsins, sem hafi þróast með mjög neikvæðum hætti allt árið 2008 og því ákaflega erfitt að sjá hvernig skilyrðið um árang­ur sóknaraðila í starfi sé uppfyllt.  Verði andlag greiðslunnar talið koma frá eigin­­fjárstöðu varnaraðila gildi sömu sjónarmið og nægjanlegt að horfa til slita­með­ferð­­ar varnaraðila til að sýna fram á að eigið fé varnaraðila hafi verið orðið verulega neikvætt á því tímabili sem sóknaraðili fari fram á kaupaukagreiðslu fyrir.

Það sé því fráleitt að sóknaraðili geti farið fram á greiðslu kaupauka, sem hafi það að skil­yrði að greiðslur komi úr ákveðnu kaupaukakerfi þar sem tekjustofninn sé neikvæð­ur.  Einnig verði að líta til 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 sem kveði á um að eigið fé fjármálafyrirtækis þurfi að vera yfir ákveðnum viðmiðunar­mörk­um, sem augljóslega séu ekki uppfyllt í þessu máli, enda um að ræða neikvæða eigin­fjárstöðu.  Árangur sóknaraðila í starfi sé því vandséður.

Í öðru lagi sé um að ræða frestskilyrði sem felist í viðunandi árangri sóknaraðila og lausn­­ar­skilyrði sem bindi greiðslurnar við ákveðið kaupaukafyrirkomulag sem taki mið af eiginfjárstöðu og tengdum þáttum í rekstri félaganna.  Loforð varnaraðila sé því bundið tveimur skilyrðum sem verði að teljast óuppfyllt.  Bæði skilyrðin tengist þeirri staðreynd að varnaraðili hafi farið í slitameðferð með þeim afleiðingum að sókn­­­ar­aðili hafi annars vegar orðið ófær um að sinna sínu starfi með fullnægjandi hætti og svo hinu að eiginfjárstaða varnaraðila og dótturfélagsins hafi farið niður fyrir þau viðmiðunarmörk sem í gildi hafi verið, enda varnaraðili ógreiðslufær og eigin­fjár­stað­­an orðin neikvæð.

Hvergi í samningum aðila sé það tekið fram að sóknaraðili eigi skýlausan rétt á greiðsl­­um, sama hvaða árangri hann nái í starfi, eða að afkoma vinnuveitandans skipti engu máli.  Þvert á móti sé það sett sem skilyrði að þessar forsendur séu til staðar.  Af þess­­um sökum sé þess krafist að afstaða varnaraðila til kröfulýsingar sóknaraðila verði stað­fest.

Verði ekki fallist á það að greiðsluskylda varnaraðila sé bundin þeim skilyrðum sem nefnd hafa verið, sé ljóst að krafa sóknaraðila geti ekki notið forgangs við slita­með­ferð varnaraðila.  Haldi sóknaraðili því fram í greinargerð sinni að um sé að ræða launa­­kröfu og byggi hana á 112. gr. laga nr. 21/1991 án þess að gera nánari grein fyrir kröf­unni.  Undantekningar frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa beri að túlka þröngt, þar á meðal launahugtakið og forgangsréttinn sem laun hafi samkvæmt 1. tölu­lið 1. mgr. 112. gr. laganna.  Sé það afstaða slitastjórnar að krafan geti aldrei notið for­gangs­réttar við slitameðferð varnaraðila enda eigi krafan ekki rætur að rekja til vinnu varn­­araðila.  Kaupauki sem falla eigi til eftir að félag hefur verið tekið til gjaldþrota­skipta­meðferðar og eftir frestdag, óháð árangri eða vinnuframlagi á samningstímanum verði því ekki felldur undir 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 enda fæli sú niðurstaða í sér brot á meginreglu gjaldþrotalaga um jafnræði kröfuhafa.

Verði ekki fallist á aðal- eða varakröfu varnaraðila, krefst hann þess að krafa sóknar­aðila verði lækkuð í 8.828.406 krónur, sem miðast við að notast sé við jafnaðar­sölu­gengi bandaríkjadollars gagnvart íslensku krónunni fyrir árið 2008, en sóknaraðili hafi í grein­argerð sinni notast við sölugengi fyrir síðasta dag ársins 2008.  Krafa varnar­aðila bygg­ist á því að ávinnsla greiðslnanna hafi hafist 1. janúar 2008 og lokið 31. desember 2008, enda sé um jafna ávinnslu réttindanna að ræða allt tímabilið.  Samkvæmt því sé rétt að notast við meðaltal sölugengis bandaríkjadals gagnvart íslenskri krónu fyrir allt árið 2008 enda hafi rétturinn þá stofnast jafnt og þétt.

Þá mótmælir varnaraðili dráttarvaxtakröfu sóknaraðila þar sem ekki liggi fyrir hvenær kraf­an hafi orðið gjaldkræf.  Samningur aðila kveði ekki á um neina dagsetningu greiðslna og megi af framkvæmd sambærilegra kaupaukagreiðslna ráða að þær hafi verið greiddar í áföngum í allt að ár eftir síðasta dag ávinnslu greiðslnanna. Sam­kvæmt því eigi dráttarvaxtakrafan ekki rétt á sér.  

Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar varnaraðili til meginreglna gjald­þrota­skipta-, samninga- og kröfuréttar.  Kröfu um málskostnað styður varnaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað byggir hann á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum nauðsyn að fá dóm fyrir þeim skatti.

V

Í máli þessu lýtur meginágreiningur aðila að því hvort sóknaraðili eigi kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli ráðningarsamnings milli þeirra 8. október 2007.  Verði talið að svo sé er ágreiningur um hvar skipa skuli kröfu sóknaraðila í skuldararöð auk þess sem aðilar deila um við hvaða gengi skuli miða kröfufjárhæð og rétt sóknaraðila til dráttarvaxta.  Fyrir liggur að sóknaraðili hefur fengið greidd laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti frá varnaraðila að frádregnum launum hjá nýjum vinnuveitanda, Nýja Glitni banka hf.  Lýtur ágreiningur aðila að kröfu sóknaraðila um greiðslu bónuss eða kaupauka að fjárhæð 100.000 bandaríkjadalir.

Sóknaraðili byggir kröfur sínar á ráðningarsamningi milli aðila sem dagsettur er 8. októ­ber 2007.  Samkvæmt honum skyldi sóknaraðili, sem starfaði á þessum tíma hjá varn­ar­aðila í Danmörku, flytjast yfir til Glitnis Equity Investments í New York hinn 1. janúar 2008 og skyldi flutningurinn í nýja stöðu gilda í allt að einu ári og ráðning til framtíð­ar ráðast af velgengni nýju starfseminnar.  Verkefni sóknaraðila sam­kvæmt samn­­ingnum var að byggja upp Glitni Equity Investments.  Þá segir í samn­ingnum að sóknaraðili þiggi laun frá Glitni Equity Investments eða Glitni Capital Corporation.

Fyrir utan ákvæði samnings aðila um launakjör eru ýmis ákvæði um útgjöld sem varn­ar­aðili tók að sér að greiða fyrir sóknaraðila, s.s. kostnað vegna búferlaflutninga, flug­far­gjalda o.fl. 

Framangreindum ráðningarsamningi sagði skilanefnd varnaraðila upp 31. október 2008 í kjölfar falls og rekstrarstöðvunar varnaraðila.  Var sóknaraðila sagt upp frá og með þeim degi og leystur undan starfsskyldum við varnaraðila.  Með ráðningar­samn­­ingi sama dag réð sóknaraðili sig til Nýja Glitnis banka hf. 

Glitnir Capital Corporation var dótturfélag varnaraðila í Bandaríkjunum.  Samkvæmt gögnum málsins var Glitnir Equity Investments hins vegar eining innan fjárfest­inga­banka­sviðs varnaraðila og var yfirmaður þeirrar einingar Rósant Már Torfa­son.   Sóknar­aðili byggir kröfur sínar á hendur varnaraðila á því að hann hafi verið starfsmaður þeirrar einingar og undirmaður Rósants Más en með aðsetur í Banda­ríkj­un­um. 

Samkvæmt ráðningarsamningi aðila er ljóst að sóknaraðili var ráðinn til starfa af varn­ar­aðila til að byggja upp, í New York, þá einingu sem kölluð var Glitnir Equity Invest­ments.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum tilheyrði sú eining varnaraðila og yfir­­mað­ur hennar var eins og áður segir Rósant Már.  Voru bæði hann og aðrir starfs­menn ein­ing­ar­innar, fyrir utan sóknaraðila, staðsettir í höfuðstöðvum varnaraðila að Kirkju­sandi í Reykjavík.  Þetta staðfestu vitnin Rósant Már, Ragnar Torfi Geirsson, fyrrver­andi forstöðumaður launadeildar varnaraðila, og Elfar Rúnarsson, fyrrver­andi mann­auðs­stjóri varnaraðila, í skýrslutöku fyrir dómi. 

Fyrir liggur að sóknaraðili fékk laun sín greidd frá dótturfélagi varnaraðila, Glitni Capital Corporation.  Kom fram hjá vitninu Ragnari Torfa að varnaraðili hafi nýtt sér dótturfélagið til launagreiðslna af hagkvæmnisástæðum, meðal annars vegna þess að Bandaríkin væru stíft reglugerðarríki varðandi atvinnuleyfi og skattamál.  Varnaraðili hafi hins vegar séð um launagreiðslurnar en nýtt sér þjónustu annars fyrirtækis í Bandaríkjunum sem hafi séð um frá­gang launaseðla s.s. útreikning skatta og svo hafi dótturfélagið greitt sóknaraðila launin á grundvelli þessara gagna. 

Þegar allt framangreint er virt og sérstaklega þegar litið til ákvæða ráðningarsamnings aðila um skyldur varnaraðila gagnvart sóknaraðila þykir sóknaraðili hafa sýnt fram á svo ekki verður um villst að hann hafi verið starfsmaður varnaraðila.  Þá fær sú niður­staða enn frekari stuðning í því að varnaraðili taldi sig réttan aðila til að segja upp samningi aðila í kjölfar falls varnaraðila auk þess sem hann greiddi sóknaraðila laun í upp­sagnarfresti.

Í málinu deila aðilar um hvort sóknaraðili eigi rétt á bónusgreiðslum samkvæmt ákvæði ráðningarsamningsins.  Í 2. grein samningsins þar sem fjallað er um laun, bón­usa og hlunnindi segir svo í c-lið ákvæðisins í íslenskri þýðingu löggilts skjala­þýð­anda: „Baldur á rétt á bónusgreiðslum á grundvelli frammistöðu í samræmi við bónus­kerfi Equity Investments og verður bónusinn að lágmarki 100.000 bandaríkjadalir fyrir árið 2008.“

Af ákvæði þessu verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi átt rétt á árangurs­tengd­um greiðslum samkvæmt nefndu bónuskerfi og að á árinu 2008 skyldi hann vera að lágmarki 100.000 bandaríkjadalir.  Var það skilningur vitnanna Ragnars Torfa, Elfars og Rósants Más, sem allir komu að samningsgerðinni gagnvart sóknaraðila, að sóknar­aðila hafi verið lofað að lágmarki þessi fjárhæð án tillits til frammistöðu hans.  Samkvæmt þessu er ekki um að ræða árangurstengda greiðslu hvað snertir þessa lágmarksfjárhæð heldur samningsbundna greiðslu sem sóknaraðili á rétt á burt séð frá árangri.  Tilkynning Lárusar Welding, forstjóra varnaraðila, til æðstu stjórnenda varnaraðila hinn 13. apríl 2008 um að engir bónusar, fyrir utan þá sem rígbundir eru í samningum, verði greiddir fyrir árið 2008 vegna afkomu varnaraðila, hefur því ekki áhrif á rétt sóknaraðila að þessu leyti. 

Sóknaraðili byggir á því að krafa hans sé forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 og má af málatilbúnaði hans ráða að hann byggi á 1. tölulið 1. mgr. þess ákvæðis.  Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 njóta kröfur um laun og annað endurgjald fyrir vinnu í þjónustu þrotamanns forgangsréttar við gjald­þrota­skipti, enda hafi þær fallið í gjalddaga á síðustu átján mánuðum fyrir frestdag.  Eins og að framan greinir hefur því verið slegið föstu að sóknaraðili eigi rétt á umræddri greiðslu óháð árangri hans í starfi.  Kom fram hjá vitninu Elfari að með þessari greiðslu hafi sóknaraðila verið tryggt að hann yrði skaðlaus þótt hann yfirgæfi sitt starfsumhverfi og væri, með því að flytjast til New York, að fara út í óvissu.  Það sama kom fram hjá vitninu Ragnari Torfa.  Hann kvað sóknaraðila hafa verið að fara á nýtt svið í kerfi sem ekki hafi verið til staðar og hann hafi verið fyrsti starfsmaðurinn sem færi til New York vegna þessa.  Kom fram hjá honum að segja mætti að sóknar­aðila verið lofað þessari lágmarksgreiðslu vegna þeirrar óvissu.

Þegar framangreint er virt og til þess litið að umrædd lágmarks bónusgreiðsla var óháð vinnu­framlagi og frammistöðu sóknaraðila verður ekki unnt að líta svo á að hún teljist laun eða endurgjald fyrir vinnu í skilningi 1. töluliðar 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 og nýtur hún því ekki forgangs við slit varnaraðila heldur verður hún viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Í samningi aðila er ekki talað um gjalddaga greiðslunnar.  Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við upp­kvaðn­ingu úrskurðar um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta án tillits til þess sem kann áður að hafa verið umsamið eða ákveðið með öðrum hætti.  Þar sem gögnum er ekki til að dreifa um annað verður að styðjast við upphafsdag slitameðferðarinnar hinn 22. apríl 2009.  Sóknaraðili á kröfu í bandaríkjadölum og samkvæmt 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 skulu kröfur á hendur þrotabúi í erlendum gjaldmiðli færðar til íslensks gjaldmiðils eftir skráðu sölugengi á þeim degi sem úrskurður gekk um gjald­þrotaskipti.  Sóknaraðili byggir útreikning sinn á sölugengi bandaríkjadals hinn 31. desember 2008, eða 120,87.  Hinn 22. apríl 2009 var sölugengi bandaríkjadals sam­kvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands 130,71.  Verður því ekki fallist á með varnaraðila að lækka beri fjárhæð kröfunnar.

Með vísan til þess að ekki hefur verið sýnt fram á að krafa sóknaraðila hafi fallið í gjalddaga fyrr en við upphafsdag slitameðferðar verða dráttarvextir ekki reiknaðir á kröfuna.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er rétt að aðilar beri hvor sinn kostnað af málinu.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Krafa sóknaraðila, Baldurs Más Helgasonar, að fjárhæð 12.087.000 krónur er viður­kennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila, Glitnis banka hf.

Málskostnaður fellur niður.