Hæstiréttur íslands

Mál nr. 118/2011


Lykilorð

  • Samningur
  • Verðbréfaviðskipti
  • Ógilding samnings


                                     

Fimmtudaginn 24. nóvember 2011.

Nr. 118/2011.

Íslandsbanki hf.

(Stefán A. Svensson hrl.)                  

gegn

Hermanni Harðarsyni

(Arnar Þór Stefánsson hrl.)

Samningar. Verðbréfaviðskipti. Ógilding samnings.

Í hf. höfðaði mál gegn H til innheimtu á kröfu samkvæmt lánssamningi. G hf. hafði lánað H vegna kaupa H á stofnfjárhlutum í S en G hf. fékk stofnfjárhlutina að handveði til tryggingar á greiðslu lánsins. Skilanefnd var sett yfir G hf. 14. október 2008 og í kjölfarið var skuld H við bankann ráðstafað til Í hf. Síðar var bráðabirgðastjórn sett yfir B sem S hafði þá sameinast. Ekki var fallist á með H að með lánssamningi aðila hefði Í hf. takmarkað rétt sinn til að leita fullnustu skyldu H við hin veðsettu stofnfjárbréf og arð af þeim. Aftur á móti var talið að H hefði vegna villandi ráðgjafar, sem mátti rekja til ónákvæmrar upplýsingagjafar af hálfu G hf., samþykkt lántökuna á þeirri röngu forsendu að áhætta hennar takmarkaðist við hin veðsettu stofnfjárbréf. Í ljósi aðstæðna H og þeirrar villu sem hann var í um eðli skuldbindingarinnar þótti líklegt að hann hefði ekki tekið lánið ef honum hefði verið veitt rétt ráðgjöf sem hefði skýrt hvaða afleiðingar það hefði ef forsendur um rekstur sparisjóðsins og væntar arðgreiðslur gengju ekki eftir. Í ljósi atvika við samningsgerðina og stöðu aðila, efni lánssamningsins og atvika sem síðar komu til var talið að ósanngjarnt væri af Í hf. að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann fæli í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu H í öðrum eignum en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga var H sýknaður af kröfum Í hf. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Markús Sigurbjörnsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. febrúar 2011 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér aðallega 24.172.545 krónur, til vara 24.112.630 krónur, en að því frágengnu 17.657.445 krónur, í öllum tilvikum með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. október 2009 til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Íslandsbanki hf., greiði stefnda, Hermanni Harðarsyni, 600.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. janúar 2011.

I.

Mál þetta, sem var dómtekið 1. desember 2010, er höfðað af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi í Reykjavík, gegn Hermanni Harðarsyni, Skógarhlíð 18 á Akureyri.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 35.705.806 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. október 2009 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 12.324.811 íslenskar krónur, 33.804,13 bandarískir dollarar, 62.212,12 evrur, 40.904,49 svissneska franka og 1.926.726 japönsk jen ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 12.324.811 íslenskum krónum, 33.804,13 bandarískum dollurum, 62.212,12 evrum, 40.904,49 svissneskum frönkum og 1.926.726 japönskum jenum frá 19. október 2009 til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 24.172.034 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. október 2009 til greiðsludags. Til þrautaþrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 24.154.544 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. október 2009 til greiðsludags. Til þrautaþrautaþrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 22.889.318 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 19. október 2009 til greiðsludags. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins auk virðisaukaskatts.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar til muna. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

II.

Málsatvik

Stefndi er sölumaður hjá Plastprent hf. á Akureyri. Hann mun hafa keypt stofnfjárbréf í Sparisjóði Norðlendinga fyrst árið 2000.

Með bréfi, dags. 30. júlí 2007, sem stefndi fékk ásamt öðrum stofnfjáreigendum, var kynnt að viðræður væru hafnar um sameiningu Sparisjóðs Norðlendinga og Byrs sparisjóðs. Kom fram í bréfinu að stjórn sparisjóðsins hefði í tengslum við það í hyggju að auka stofnfé í honum um allt að 200.000.000 króna af kaupverði. Endanleg fjárhæð aukningarinnar myndi ráðast af skiptihlutfalli ef af sameiningu sjóðanna yrði.

Hinn 3. október 2007 voru stofnfjáreigendur boðað til fundar í Sparisjóði Norðlendinga á Hótel KEA 15. október 2007. Á dagskrá fundarins var að taka afstöðu til sameiningarinnar við Byr sparisjóð, aukningar stofnfjár í tengslum við það og breytinga á samþykktum sjóðsins. Fundurinn var haldinn framangreindan dag á Hótel KEA. Þar mun hafa verið samþykkt að veita stjórninni heimild til að auka stofnfé í sparisjóðnum um 241.326.538 krónur. Sú heimild virðist þó ekki hafa verið nýtt.  Auk þess var samrunaáætlun við Byr sparisjóð samþykkt á fundinum en hún hafði áður verið samþykkt á stjórnarfundum sjóðanna 3. október 2007.

Með bréfi til stofnfjáreigenda 13. nóvember 2007 voru þeir boðaðir á ný til fundar á Hótel KEA 23. nóvember 2007. Fram kom í bréfinu að nauðsynlegt þætti að breyta samþykktum sparisjóðsins til samræmis við samþykktir Byrs sparisjóðs og rýmka heimild stjórnarinnar enn frekar til að auka stofnféð svo halda mætti því skiptihlutfalli sem samið hefði verið um. Lyti meginefni tillögunnar að því að stjórnin fengi heimild til að hækka stofnfé sparisjóðsins um allt að þrjá milljarða króna og að stjórninni yrði falið að annast framkvæmd aukningarinnar. Fram kom í bréfinu að stofnfjáraðilum yrði boðið upp á fjármögnun vegna þessarar aukningar.

Fyrir liggur að stefndi var á fundinum 23. nóvember 2007. Þar mun hafa verið samþykkt breyting á samþykktum sjóðsins þess efnis að stofnfé sparisjóðsins, sem þá var 152.720.409 krónur, gæti verið allt að 3.100.000.000 króna að nafnvirði og að stjórn hans hefði samkvæmt því heimild til að auka stofnféð um 2.947.279.591 krónu að nafnverði. Samkvæmt yfirlýsingu fyrrverandi stjórnarmanna í Sparisjóði Norðlendinga, dags. 9. mars 2009, munu drög að samningi Glitni banka og Sparisjóðs Norðlendinga um sölutryggingu, fjármögnun og útboð, einnig hafa verið kynnt fyrir stofnfjáreigendum á fundinum. Þá kemur fram í yfirlýsingunni, sem og í framburði aðila og vitna, að tilboð Glitnis banka á fjármögnun stofnfjáraukningarinnar hafi einnig verið kynnt á fundinum.

Samningur milli Glitnis banka og Sparisjóðs Norðlendinga, sem bar yfirskriftina „Samningur um sölutryggingu, fjármögnun og útboð fyrir Sparisjóð Norðlendinga“, var undirritaður á stjórnarfundi sparisjóðsins 27. nóvember 2007. Fyrir hönd Glitnis banka skrifaði Einar Sigurðsson, starfsmaður bankans, undir samninginn en stjórnarmenn í sparisjóðnum undirrituðu hann fyrir hönd sparisjóðsins. Í öðrum tölulið samningsins er fjallað um tilgang hans. Þar kemur fram að Sparisjóður Norðlendinga hyggist efna til stofnfjárútboðs í tengslum við fyrirhugaða sameiningu sjóðsins við Byr sparisjóð. Hafi sparisjóðurinn falið Glitni banka að vera til ráðgjafar við verkefnið auk þess að sölutryggja stofnfjárútboðið og tryggja stofnfjáreigendum fjármögnun til þátttöku í stofnfjárútboðinu. Hafi Glitnir banki fallist á að taka verkið að sér.

Nánar er vikið að sölutryggingunni í tölulið 3.1 í framangreindum samningi. Þar er tekið fram að í henni felist að Glitnir banki skuli kaupa eða finna kaupendur að þeim stofnfjárhlutum sem ekki seldust í forgangsréttarútboði til núverandi stofnfjáreigenda sparisjóðsins. Síðan eru þar sett ákveðin skilyrði fyrir sölutryggingunni. Tekið er fram að hún feli í sér sölurétt af hálfu Sparisjóðs Norðlendinga og kaupskyldu af hálfu Glitnis banka ef ákveðið yrði að nýta sölutrygginguna. Miðað væri við að bankinn fengi tilkynningu um nýtingu söluréttarins í síðasta lagi fimm virkum dögum frá því að útboðstímabili í forgangsréttarútboðinu lyki. Þá væri gert ráð fyrir að gerður yrði sjálfstæður sölutryggingarsamningur, sem myndi mæla nánar fyrir um nýtingu söluréttarins, „þegar ákvörðun hefur verið tekin um forgangsréttarútboð og það útboðstímabil sem um útboðið mun gilda“.

Í grein 3.2 í samningnum kemur fram að endanleg upphæð stofnfjáraukningarinnar skyldi ráðast af fyrirhuguðu stofnfjárútboði Byrs sparisjóðs með hliðsjón af fyrirhugaðri sameiningu sjóðanna.

Fjallað er um fjármögnun stofnfjáraukningarinnar í grein 3.3 í samningnum. Kemur þar fram að Glitnir banki skuli tryggja öllum stofnfjáreigendum sem uppfylla almenn útlánaskilyrði bankans lán til kaupa á stofnfé í stofnfjárútboðinu. Lánskjör yrðu í takt við almenn lánskjör sem bankinn byði upp á í sambærilegum viðskiptum þegar útboðið færi fram og skyldi öllum stofnfjáreigendum boðinn þessi fjármögnunarmöguleiki. Skyldi lánstími vera tólf til átján mánuðir og gæti bankinn krafist veðs í stofnfé, arðgreiðslum og því hlutafé sem félli í hlut stofnfjáreigenda við breytingu á rekstrarformi sjóðsins. Færu arðgreiðslur fram á lánstímanum gæti bankinn krafist þess að þær færu að öllu leyti til niðurgreiðslu á láninu. Átti Sparisjóður Norðurlands að kynna þennan fjármögnunarmöguleika fyrir stofnfjáreigendum en allt kynningarefni á lánum og lánakjörum skyldi vera með vitund og samþykki viðeigandi lánastjóra hjá Glitni banka og Fyrirtækjaráðgjafar Glitnis. Þá var mælt fyrir um það í grein 3.4 að Sparisjóður Norðlendinga myndi hafa samband við alla stofnfjáreigendur í sparisjóðnum og gera þeim grein fyrir hvaða áhrif það hefði að kaupa ekki þá hluti sem þeirra forgangsréttur næði til. Bæri Glitni banka að veita ráðgjöf um efni slíkra samskipta og útbúa öll skjöl sem þessu tengdust eftir óskum sparisjóðsins.

Í yfirlýsingu fyrrverandi stjórnarmanna í Sparisjóði Norðlendinga frá 16. febrúar 2010 kemur fram að á fundi þeirra með Einari Sigurðssyni og Páli Ragnari Jóhannessyni 27. nóvember 2007 hafi verið farið yfir skjal frá Glitni banka með upplýsingum um fjármögnun bankans á stofnfjáraukningunni. Liggur ekki annað fyrir en að þetta skjal hafi í kjölfarið verið sent öllum stofnfjáreigendum þar á meðal stefnda. Þar er fjallað um þennan fjármögnunarmöguleika og vikið að ólíkum samsetningum lána eftir gjaldmiðlum og þeim vaxtakjörum sem í boði voru miðað við það. Fram kemur á skjalinu að lánshlutfall geti verið allt að 100% af kaupverði og lánstíminn yrði 18 mánuðir. Afborgun höfuðstóls yrði ein í lok lánstímans en vexti ætti að greiða tvisvar, fyrst eftir sex mánuði og síðan í lok lánstímans. Um tryggingar segir síðan orðrétt í skjalinu: „Glitni banka hf. sett að handveði stofnfjárhlutir stofnfjárhafa og væntar arðgreiðslur af stofnfjárhlutum. Ekki er farið fram á aðrar tryggingar.“

 Í málinu liggur fyrir útboðslýsing sem gefin var út 28. nóvember 2007. Þar kemur fram í inngangi að lýsingin sé gefin út vegna útgáfu nýs stofnfjár hjá Sparisjóði Norðlendinga samtals að nafnvirði 2.658.710.775 krónur sem selt yrði í útboði til stofnfjáreigenda í sparisjóðnum. Hafi Fjármálaeftirlitið farið yfir lýsinguna. Í samantektarkafla útboðslýsingarinnar segir að hún hafi verið unnin af Sparisjóði Norðlendinga, sbr. 30. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, í samvinnu við stjórn, sparisjóðsstjóra og KPMG hf. Tilgangur útboðsins væri að ná umsömdum skiptihlutföllum í fyrirhugaðri sameiningu við Byr sparisjóð, sbr. samrunaáætlun sem undirrituð hefði verið 3. október 2007, og að stuðla að framgangi og vexti sameinaðs sjóðs „með stækkun lánasafns og með því að nýta betur en áður fjárfestingatækifæri“. Fram kom að söluverð hvers stofnfjárhlutar yrði 1,0275330396 miðað við vísitölu neysluverðs fyrir desember 2007 og heildarverðmæti stofnfjáraukningarinnar því 2.731.913.164 krónur. Þá kemur fram að fyrir hækkunina hafi heildarnafnverð stofnfjár í sparisjóðnum að viðbættu endurmati verið 156.925.266 krónur en yrði eftir hækkunina 2.888.838.430 krónur að teknu tilliti til ónýttrar heimildar til endurmats stofnfjár og að því gefnu að allt stofnféð seldist. Í samantektinni var forgangsréttarhöfum sérstaklega bent á að ef þeir nýttu sér ekki rétt sinn í útboðinu myndi skerðing á hlut hvers og eins verða 94,6% miðað við að allt stofnféð seldist. Samsvaraði það því að eignarhlutur viðkomandi yrði 5,4% af fyrri eignarhlut hans í stofnfé sparisjóðsins.

Í útboðslýsingunni er síðan fjallað á ítarlegan hátt um sparisjóðinn og rekstrarstöðu hans. Þar segir m.a. að rekstur sparisjóðsins á árinu 2006 hafi gengið vel en hagnaður hans eftir tekjuskatt hafi þá numið 186 milljónum króna. Þá væru horfur einnig mjög góðar fyrir árið 2007 en afkoma sparisjóðsins fyrstu sex mánuði ársins hefði numið 162 milljónum króna og væri hagnaður umfram áætlanir. Þar er síðan gefið yfirlit yfir rekstur og efnahag sparisjóðsins frá 2003 fram til 30. júní 2007 bæði í samantektarkafla og síðan með ítarlegri hætti í kafla sem ber yfirskriftina „Útgefandalýsing“. Í útboðslýsingunni er einnig fjallað almennt um  stofnfé í sparisjóðnum og skilmála útboðsins. Þá er þar vikið að einstökum áhættuþáttum er snertu Sparisjóð Norðlendinga. Þar er m.a. vikið að áhættu tengdri stofnfjáreign, seljanleikaáhættu, almennri rekstraráhættu, fjárfestingaráhættu, útlánaáhættu, markaðsáhættu, lausafjár- og fjármögnunaráhættu o.fl. Þess er þó jafnframt getið að þessi upptalning sé ekki tæmandi og fjárfestar hvattir til að leita sér ráðgjafar ef eitthvað þætti óljóst í þessum efnum.

Í útboðslýsingunni kom fram að áskriftarfrestur væri til 12. desember 2007. Mun  stefndi hafa skráð sig fyrir stofnfjárhlutum eins og hann átti tilkall til. Eindagi greiðslunnar var 19. desember 2007.

Til að fjármagna stofnfjáraukninguna undirritaði stefndi lánssamning 14. desember 2007 þar sem hann var lántaki og Glitnir banki lánveitandi. Kom fram í samningnum að um væri að ræða „helmingaskipt lán til 18 mánaða að fjárhæð jafnvirði … kr. 27.596.121 50% í íslenskum krónum (óverðtryggt) og 50% í erlendum myntum“ með þeim skilmálum sem fram komu í samningnum. Sá helmingur lánsins sem var í erlendum myntum skyldi vera „samsettur úr eftirfarandi myntum í eftirgreindum hlutföllum: USD 10%, EUR 25%, CHF 10% og JPY 5%“. Í samningnum var kveðið á um að ráðstafa skyldi láninu beint inn á tilgreindan reikning lánveitanda til þess að fjármagna kaup lántaka á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Norðlendinga vegna aukningar á stofnfé sparisjóðsins. Myndi lánveitandi ráðstafa andvirði lánsins til greiðslu á þeim stofnfjárbréfum sem lántaki fengi úthlutað við stofnfjáraukninguna.

Um endurgreiðslu lánsins sagði í samningnum að lántaki skuldbindi sig til að endurgreiða lánið með einni greiðslu 19. júní 2009. Bæri að endurgreiða það „í þeim gjaldmiðlum sem það samanstæði af“. Mætti lántaki því aðeins greiða lánshluta í erlendum myntum í íslenskum krónum að lánveitandi hefði samþykkt það og móttekið skriflega beiðni lántaka þar um minnst fimmtán dögum fyrir gjalddaga. Sú greiðsla sem lántaka bæri að inna af hendi á gjalddaga í erlendum myntum yrði umreiknuð í íslenskar krónur allt að fimmtán dögum fyrir gjalddagann.

Í samningnum er síðan fjallað í 4. gr. um vexti, vaxtabreytingar og greiðslu vaxta. Skyldu vextir greiðast tvisvar, í fyrra skiptið 19. júní 2008 og síðan á lokagjalddaga. Mælt var fyrir um að ef til þess kæmi að arður af hinum veðsettu stofnfjárbréfum yrði greiddur út fyrir 19. júní 2008 skyldu vextir greiðast þann sama dag og arðurinn yrði greiddur út. Í 5. gr. samningsins er síðan vikið að tryggingum. Þar er kveðið á um að lántaki setji lánveitanda að handveði stofnfjárbréf í Byr sparisjóði ásamt arði til tryggingar á skilvísri og skaðlausri greiðslu á láninu. Það skilyrði var sett fyrir útborgun lánsins að lántaki afhenti lánveitanda stofnfjárbréfin ásamt yfirlýsingu um handveðsetningu þeirra svo og að lántaki uppfyllti almenn lánaskilyrði Glitnis banka hf.

Í 10. gr. samningsins er fjallað um vanefndaúrræði lánveitanda. Í lokamálsgrein ákvæðisins kemur fram að þegar lánið væri í gjalddaga fallið gæti lánveitandi  án frekari fyrirvara leitað fullnustu fyrir kröfum sínum í þeim tryggingum sem lántaki hefði sett á hvern þann hátt sem lánveitandi kysi. Væri lánveitanda í sjálfsvald sett hvort leitað yrði fullnustu í öllum tryggingum sem hefðu verið settar eða einungis hluta þeirra og þá í hvaða röð það væri gert.

Í málinu liggur enn fremur frammi handveðsyfirlýsing sem er undirrituð af stefnda 14. desember 2007. Þar kemur fram að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á skuldum stefnda við Glitni banka hf. vegna lánasamnings til að fjármagna kaup hans á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Norðlendinga væri bankanum sett að handveði stofnfjárbréf veðsala í Sparisjóði Norðlendinga að nafnvirði 26.587.106 krónur. Tekið var fram í yfirlýsingunni að veðhafi skyldi meðan veðsetning þessi varaði „án undangenginnar tilkynningar til útgefanda/veðsala, móttaka allan arð sem kynni að vera greiddur af hinu veðsetta“. Væri honum þá heimilt að ráðstafa arðgreiðslunum hvort sem væri til greiðslu á gjaldföllnum eða ógjaldföllnum hluta þeirra skulda sem handveðinu væri ætlað að tryggja. Skuldbindi veðsali sig til þess að láta Sparisjóð Norðlendinga ráðstafa arðgreiðslum jafnóðum til greiðslu vaxta og niðurgreiðslu höfuðstóls samkvæmt þeim lánssamningi sem veðinu væri ætlað að tryggja.

Hinn 11. apríl 2008 mun stefndi hafa fengið greiddan arð af hinum veðsettu stofnfjárbréfum að fjárhæð 9.938.678 krónur. Arðurinn virðist hafa verið greiddur beint inn á lánssamninginn.

Með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 14. október 2008 að ráðstafa eignum Glitnis banka hf., þ.m.t. kröfuréttindum og tryggingaréttindum sem þeim tengdust, til Nýja Glitnis banka hf. Það er óumdeilt í málinu að krafa samkvæmt framangreindum lánssamningi við stefnda var á meðal þeirra kröfuréttinda sem við þetta færðust til nýja bankans. Nafni hans var breytt í Íslandsbanki hf. í febrúar 2009 og er hann stefnandi máls þessa.

Með viðauka við lánasamning stefnda við stefnanda, sem gerður var 19. júní 2009, var gjalddagi lánsins færður til 19. október 2009.

Á árinu 2008 sameinuðust Sparisjóður Norðlendinga og Byr sparisjóður. Hinn 22. apríl 2010 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrs sparisjóðs og víkja stjórninni í heild sinni frá, sbr. heimild í VI. ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og bráðabirgðastjórn skipuð. Þá var öllum eignum sparisjóðsins ásamt skuldbindingum ráðstafað til Byrs hf. nema að þær væru sérstaklega undanskildar.  Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí 2010 var sparisjóðurinn tekinn til slitameðferðar.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir kröfu sína á lánssamningnum frá 17. desember 2007 með viðauka sem og ákvörðun Fjármálaeftirlitisins frá 14. október 2008 sem hafi verið reist á 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Stefnandi vísar til þess að gjalddagi lánsins hafi verið 19. október 2009 og því telur stefnandi að krafan sé gjaldfallin. Þar sem skuldin samkvæmt samningnum sé gjaldfallin beri stefnda að inna af hendi útistandandi lánsfjárhæð.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á því að ábyrgð stefnda sé ekki takmörkuð við það handveð sem lánveitandi, nú stefnandi, hafi í stofnfjárbréfunum. Stefnandi geti því einnig krafið stefnda persónulega um greiðslu lánsins. Um þetta atriði vísar stefnandi til nokkurra atriða.

Stefnandi telur í fyrsta lagi að orðalag í kynningargögnum Glitnis banka, þar sem stofnfjáreigendum er boðin ákveðin lánafyrirgreiðsla í bankanum í tengslum við aukningu stofnfjár í Sparisjóði Norðlendinga, hafi falið í sér skyldu lántaka til að setja að handveði tilteknar tryggingar auk þess sem þar komi fram að ekki yrði krafist frekari trygginga. Orðalagið gefi ekki til kynna að lántakar beri enga persónulega greiðsluábyrgð vegna lánaskuldbindingarinnar. Það lúti eingöngu að tryggingum vegna hinnar persónulegu greiðsluskuldbindingar sem lántakendur gengust undir. Stefnandi telur að hér sé um hefðbundin veðréttindi að ræða, þ.e.a.s. að lánveitanda sé veittur forgangsréttur í tilteknum fjárverðmætum, þ.e. veð í stofnfjárbréfunum, til að leita fullnustu fyrir peningakröfu sinni. Veiting veðréttinda af hálfu stefnda, sem og annarra lántaka, leysi þá ekki undan eiginlegri greiðsluábyrgð, þ.e. hinni fjárhagslegu skuldbindingu. Telur stefnandi að slík niðurstaða fæli í raun í sér að kröfuréttur félli sjálfkrafa niður við fullnustu veðréttar jafnvel þótt hið veðsetta dygði ekki fyrir fjárhæð þeirra kröfuréttinda sem veðinu væri ætlað að tryggja. Sú niðurstaða fái hvorki stoð í orðalagi kynningargagnanna né í almennum reglum kröfu- og veðréttar.

Stefnandi telur enn fremur að túlka verði umþrætt orðalag í umræddu skjali í samræmi við meginreglur kröfu- og veðréttar, þ.m.t. um aðgreiningu kröfu- og veðréttinda. Ekki sé unnt að fallast á að lántakinn beri í raun enga ábyrgð vegna lánaskuldbindingarinnar öðruvísi en með afhendingu bréfanna. Það leiddi til þess að fjárhagsleg áhætta hvíldi öll á stefnanda.

Stefnandi vísar enn fremur til þess að orðalag kynningarefnis í tengslum við útgáfu stofnfjárbréfanna geti ekki gengið framar skýru orðalagi lánssamningsins sjálfs. Þar sé ekki að finna neitt sem gefur tilefni til að álykta að ekki yrði gengið að öðru en hinum handveðsettu stofnfjárbréfum.

Stefnandi telur að það geti ekki hafa verið lagaleg forsenda fyrir lántökunni af hálfu lántakenda, og þá eftir atvikum stefnda, að þeir bæru ekki persónulega greiðsluábyrgð. Hafi stefnanda, eða þeim sem hann leiðir rétt sinn frá, í öllu falli hvorki verið kunnugt um slíkar forsendur lántakenda né mátt vera um það kunnugt. Forsendukenningar samningaréttar eigi því ekki við í þessu sambandi að mati stefnanda.

Í öðru lagi telur stefnandi að ekki hafi verið nauðsynlegt að geta þess berum orðum í texta lánssamningsins að lántakar bæru persónulega ábyrgð á skuldinni með öllum eigum sínum. Um þetta vísar stefnandi m.a. til 5. gr. lánssamningsins þar sem fram kemur að lántaki setji til tryggingar skilvísri greiðslu á láninu að handveði stofnfjárbréf í Byr sparisjóði ásamt arði. Orðalag ákvæðisins feli samkvæmt almennri textaskýringu ekki í sér að stefndi hafi verið undanþeginn persónulegri greiðsluábyrgð. Þá vísar stefnandi til 10. gr. samningsins sem fjalli um vanefndaúrræði. Þar segi að verði vanefnd af hálfu lántaka geti lánveitandi án fyrirvara gjaldfellt allar eftirstöðvar lánsins auk áfallinna vaxta. Enn fremur að þegar lánið sé fallið í gjalddaga sé lánveitanda heimilt að leita fullnustu fyrir kröfum sínum í þeim tryggingum sem lántaki hafi veitt lánveitanda. Sé lánveitanda í sjálfsvald sett hvort hann leiti fullnustu í öllum tryggingum sem hafi verið settar eða einungis í hluta þeirra og þá í hvaða röð það sé gert. Samkvæmt þessu sé lánveitanda, nú stefnanda, í sjálfsvald sett hvort hann gangi að tryggingum eða ekki. Væri samningurinn túlkaður með þeim hætti sem stefndi leggi til væri stefnanda beinlínis skylt að ganga að tryggingum, þ.e. lánveitanda væri þá ekki í sjálfsvald sett að krefja lántakendur, hér stefnda, um greiðslu peningaskuldbindingarinnar.

Stefnandi telur að engin rök standi til þess að gera kröfu um að geta þess sérstaklega í texta lánssamningsins að lántaki beri persónulega ábyrgð á skuldinni með öllum eigum sínum enda leiði það beinlínis af texta samningsins, svo og meginreglu kröfu- og veðréttar, venjum og eðli málsins, að lántaki beri persónulega greiðsluábyrgð. Í reynd hefði því þurft að geta þess sérstaklega í texta lánssamningsins ef lántaki bæri ekki persónulega greiðsluábyrgð.

Þá vísar stefnandi til orðalags í handveðssamningi aðila þar sem veðhafa sé veitt heimild til að taka veðið eða hluta þess til fullrar eignar „sem lið í fullnustu á kröfum sínum“. Bendi þetta til þess að hér hafi aðeins verið um það að ræða að stofnfjárbréfin yrðu framseld stefnanda sem liður í fullnaðargreiðslu stefnda ef til þess kæmi.

Stefnandi vísar enn fremur til þess að almennt sé það svo í stærri lánaviðskiptum, og þá þeim sem séu gerð í ákveðnum tilgangi, að lánið sjálft sé ekki greitt inn á reikning lántaka, heldur sé samhliða gert samkomulag um ráðstöfun fjárins inn á tiltekinn reikning og þá í tengslum við þau viðskipti sem lánið er veitt fyrir.

Í þriðja lagi er á því byggt af hálfu stefnanda að þótt veðréttur geti fræðilega séð verið til staðar án þess að honum fylgi nein persónuleg ábyrgð þannig að fullnusturéttur sé takmarkaður við veðandlagið eitt þá sé það undantekning frá þeirri meginreglu að veðrétti fylgi jafnframt kröfuréttarleg ábyrgð. Slík niðurstaða, að engin kröfuréttarleg ábyrgð fylgi veðrétti, verði því annaðhvort að vera leidd af lögum eða skýru orðalagi samnings. Hvorugu sé til að dreifa í fyrirliggjandi máli. Slík sjónarmið fái því ekki staðist að mati stefnanda.

Í stefnu telur stefnandi rétt að taka sérstaklega fram að Glitnir banki hf. hafi ekki haft umsjón með útboði á stofnfjárhlutum í Byr sparisjóði og hafi ekki átt í verðbréfaviðskiptum við kaupendur stofnfjárbréfa. Hlutverk bankans hafi einungis verið að lána þeim sem vildu kaupa stofnfjárbréf í umræddu útboði. Lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti eigi því ekki við eins og hér standi á.

Um lagarök vísar stefnandi í stefnu einkum til meginreglna samninga- og kröfuréttar, þ.m.t. um skuldbindingargildi samninga og rétt kröfuhafa til efnda fjárskuldbindinga. Jafnframt vísar stefnandi til meginreglna veðréttar. Þá er af hálfu stefnanda vísað til 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í stefnu var gerð krafa um að stefndi greiddi stefnanda 35.705.805 krónur með nánar tilgreindum dráttarvöxtum. Þar kemur fram að á því sé byggt að skuldbinding stefnda samkvæmt lánssamningnum sé að hluta í erlendum myntum, sbr. til hliðsjónar ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þann hluta skuldbindingarinnar hafi stefndi skuldbundið sig til að endurgreiða í þeim gjaldmiðlum sem skuldbindingin samanstóð af. Í stefnunni er sérstök grein gerð fyrir sundurliðun stefnufjárhæðar þar sem m.a. kemur fram að lánsfjárhæðir vegna einstakra lánsþátta séu reiknaðir út miðað við lokagjalddaga 19. október 2009, að frádreginni innborgun 11. apríl 2008, auk áfallinna vaxta til 19. október 2009. Um fjárhæðina var enn fremur vísað til framlagðs stöðuyfirlits.

Í þinghaldi 10. nóvember 2010 lagði stefnandi fram bókun um breytta kröfugerð, sbr. kafla I hér að framan. Aðalkrafa samkvæmt henni er um greiðslu skuldar að fjárhæð 35.705.806 krónur með dráttarvöxtum frá 19. október 2009 til greiðsludags. Til skýringar á aðalkröfu kemur fram í bókuninni að lánshlutar í erlendum myntum öðrum en evrum og íslenskum krónum hafi borið LIBOR-vexti, svo sem nánar er tilgreint í  a-lið 4. gr. lánssamningsins, að viðbættu 3% vaxtaálagi. Lánshluti í evrum hafi borið EURIBOR-vexti, sem nánar hafi verið lýst í a-lið 4. gr. lánssamningsins, að viðbættu 3% álagi. Lánshluti í íslenskum krónum hafi borið REIBOR-vexti eins og þeir voru skráðir af Seðlabanka Íslands að viðbættu 3% vaxtaálagi, sbr. nánar c-lið 4. gr. lánssamningsins. Hafi eftirstöðvar lánssamnings í íslenskum krónum á gjaldfellingardegi numið 11.351.933 krónum auk ógreiddra vaxta frá 11. apríl 2009 að fjárhæð 972.687 krónur eða samtals 12.324.811 krónum. Á gjaldfellingardegi hafi fjárhæð skuldbindingar í bandarískum dollurum (USD, nr. 941664, 10%) verið 32.938,35, auk ógreiddra vaxta frá 11. apríl 2009 að fjárhæð 865,26 bandarískir dollarar. Gengi USD á gjaldfellingardegi hafi verið 125,10. Uppreiknaðar eftirstöðvar þessa lánshluta í íslenskum krónum, sbr. ákvæði 4 (e) í lánssamningi aðila, hafi verið 4.228.897 krónur. Á gjaldfellingardegi hafi fjárhæð skuldbindingar í evrum (EUR, nr. 941665, 25%) verið 60.671,85, auk ógreiddra vaxta frá 11. apríl 2009 að fjárhæð 1.539,32 evrur. Gengi EUR á gjaldfellingardegi hafi verið 184,82. Uppreiknaðar eftirstöðvar þessa lánshluta í íslenskum krónum, sbr. ákvæði 4 (e) í lánssamningi aðila, hafi verið 11.498.867 krónur. Á gjaldfellingardegi hafi fjárhæð skuldbindingar í svissneskum frönkum (CHF, nr. 941666, 10%) verið 40.086,10, auk ógreiddra vaxta frá 11. apríl 2009 að fjárhæð 817,75 svissneskir frankar. Gengi CHF á gjaldfellingardegi hafi verið 121,76. Uppreiknaðar eftirstöðvar þessa lánshluta í íslenskum krónum, sbr. ákvæði 4 (e) í lánssamningi aðila, hafi því verið 4.980.531 íslensk króna. Á gjaldfellingardegi hafi fjárhæð skuldbindingar í japönskum jenum (JPY nr. 941667, 5%) verið 1.887.359, auk ógreiddra vaxta frá 11. apríl 2009 að fjárhæð 39.338 japönsk jen. Gengi JPY á gjaldfellingardegi hafi verið 1,3876. Uppreiknaðar eftirstöðvar þess lánshluta í íslenskum krónum, sbr. ákvæði 4 (e) í lánssamningi aðila, hafi verið 2.673.485 íslenskar krónur. Samkvæmt þessu hafi heildareftirstöðvar lánssamningsins við gjaldfellingu hinn 19. október 2009, að teknu tilliti til umbreytingar í íslenskar krónur, sbr. ákvæði 4 (e) í samningi aðila, því verið 35.705.806 krónur.

Til vara krefst stefnandi þess að stefndi greiði honum eftirstöðvar lánsins á gjaldfellingardegi 19. október 2009 í þeim myntum sem lánasamningurinn mælir fyrir um ásamt vöxtum auk dráttarvaxta frá gjaldfellingardegi til greiðsludags. Um sundurliðun fjárhæða má vísa til umfjöllunar um aðalkröfu en í bókuninni kemur fram að fjárhæð varakröfu svari í reynd til fjárhæðar aðalkröfu að öðru leyti en því að henni hefur ekki verið umbreytt í íslenskar krónur að því leyti sem hún er í erlendum myntum.

Til þrautavara krefst stefnandi greiðslu á 24.172.034 krónum með dráttarvöxtum frá 19. október til greiðsludags. Er þá tekið mið af því að krafan beri að öllu leyti REIBOR-vexti í samræmi við ákvæði 4 (c) í lánssamningnum. Ákvarðist REIBOR-vextir tveimur dögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 3% vaxtaálagi. Með REIBOR (Reykjavík Inter Bank Offered Rate) vöxtum sé átt við vexti á millibankamarkaði með íslenskar krónur eins og þeir eru auglýstir kl. 11 að staðartíma í Reykjavík. Nánar er vísað til framlagðs útreiknings um kröfu þessa.

Til þrautaþrautavara krefst stefnandi greiðslu á 24.154.544 krónum ásamt dráttarvöxtum frá 19. október 2009 til greiðsludags. Þar krefst stefnandi að stefndi greiði höfuðstól lánsins miðað við stöðu þess á gjaldfellingardegi í íslenskum krónum og hefur þá verið tekið tillit til innborgunar á lánssamninginn. Miðað er við að krafan hafi átt að bera vexti en að um hæð þeirra verði ekki litið til þess sem um var samið í lánssamningi heldur beri að miða vexti við það að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir væru. Þeir eigi því að vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum, sbr. 1. málsl. 4. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 38/2001, og séu birtir samkvæmt 2. mgr. 10. gr. sömu laga. Nánar er vísað til framlagðs útreiknings um fjárhæð kröfunnar.

Til þrautaþrautaþrautavara krefst stefnandi greiðslu á 22.889.318 krónum ásamt dráttarvöxtum frá 19. október 2009 til greiðsludags. Fram kemur í bókuninni að verði fallist á þessa dómkröfu feli það í sér að sá hluti lánssamningsins sem tilgreindur var í erlendum myntum hafi átt að bera samningsvexti eins og þeir eru í lánssamningnum miðað við hina erlendu gjaldmiðla, þ.e. annars vegar LIBOR-vexti ástamt föstu 3% álagi og hins vegar EURIBOR-vexti ásamt föstu 3% álagi. Nánar er vísað til framlagðs útreiknings um kröfu þessa.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi reisir sýknukröfu sína aðallega á því að láni Glitnis banka til stefnda hafi ekki fylgt persónuleg ábyrgð lántaka og stefnandi geti aðeins gengið að handveði því sem hann hafði til tryggingar kröfu sinni til fullnustu greiðslu lánsins. Verði ekki fallist á það telur stefndi að ógilda beri ákvæði samningsins eða víkja þeim til hliðar þar sem hann sé bersýnilega ósanngjarn. Í tengslum við báðar þessar málsástæður tekur stefndi fram þrátt fyrir framsal kröfunnar samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þá eigi hann að geta haldið fram öllum sömu mótbárum gagnvart stefnanda og gagnvart upphaflegum kröfuhafa. Þá vísar stefndi til þess að mikill aðstöðumunur hafi verið á stefnda og Glitni banka við samningsgerðina og kynningu á þeirri fjármögnun sem hann fól í sér. Verði að skýra alla óvissuþætti og óskýrleika stefnda í hag, sbr. meginreglur samningaréttar, 1. mgr. 36. gr. a og b í lögum nr. 7/1936 og dómafordæmi. Stefndi telur enn fremur að lög um verðbréfaviðskipti hafi gilt um ráðgjöf Glitnis banka, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 1. gr., sbr. og 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 108/2007. Vísar stefndi þar annars vegar til samningsins sem bankinn gerði við Sparisjóð Norðlendinga um sölutryggingu, fjármögnun og útboð vegna stofnfjáraukningarinnar í sparisjóðnum og hins vegar til þess að um lánveitingu til fjárfestis hafi verið að ræða sem tryggði að stefndi gæti átt viðskipti með fjármálagerning sem Glitnir banki hafi komið að.

Stefndi byggir málatilbúnað sinn á því að það hafi verið meginforsenda hans fyrir þátttöku í stofnfjárútboðinu og lántökunni hjá Glitni banka að bankinn hafi lofað að ekki yrði krafist annarra trygginga en handveðs í stofnfjárbréfunum og arði af þeim og að persónuleg ábyrgð hans á greiðslu lánsins væri engin. Stefndi sé almennur launamaður sem eigi litlar eignir og hafi verið varkár í fjárfestingum og ekki stundað önnur verðbréfaviðskipti. Fram að hinni örlagaríku stofnfjáraukningu hafi eignarhald hans í sparisjóðnum takmarkast við lágar fjárhæðir. Hafi stefndi treyst í einu og öllu á ráðgjöf Glitnis banka og aðila sem kynntu fjármögnunina á vegum bankans, þ.e. starfsfólks Glitnis banka og stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga. Samkvæmt sölutryggingarsamningnum hafi stjórn sparisjóðsins átt að kynna fjármögnum Glitnis banka fyrir stofnfjáreigendum. Sú kynning hafi m.a. farið fram á fundi með stofnfjáreigendum á Hótel KEA 23. nóvember 2007. Á þeim fundi hafi stjórnarformaður sparisjóðsins verið spurður hvort gengið yrði að öðrum eignum stofnfjáraðila en stofnfjárbréfunum sjálfum ef arður af bréfunum dygði ekki til þess að greiða af þeim. Hafi því verið svarað neitandi enda stæðu bréfin ein til tryggingar greiðslu. Rík áhersla hafi verið lögð á að sem flestir stofnfjáreigendur tækju þátt í stofnfjárútboðinu því annars þurrkaðist hlutur þeirra í sparisjóðnum nánast út.

Stefndi vísar enn fremur til þess að á fundi stjórnar sparisjóðsins með starfsmönnum Glitnis banka hafi verið ákveðið að breyta orðalagi á kynningarblaði frá bankanum sem senda átti stofnfjáraðilum þar sem stofnfjáreigendur hefðu spurt ítrekað um persónulega ábyrgð þeirra á framangreindum fundi. Samkvæmt yfirlýsingu frá stjórnarmönnum í sparisjóðnum hafi það verið gert til að bregðast við áhyggjum út af þessu atriði.

Stefndi kveðst enn fremur hafa spurt starfsmann Glitnis banka, þegar hann ætlaði að undirrita lánssamninginn, hvort ekki væri skýrt að engar aðrar tryggingar lægju láninu til grundvallar og hvort það væri ekki öruggt að ekki yrði gengið að öðrum eignum hans ef hann gæti ekki greitt af láninu. Hafi stefnda þá verið tjáð að ekki yrði gengið að öðrum eignum hans en stofnfjárbréfunum.

Samkvæmt framansögðu telur stefndi að því hafi verið lofað af hálfu starfsmanna Glitnis banka og stjórnar sparisjóðsins fyrir hönd Glitnis banka og samkvæmt ráðleggingum bankans að ekki yrði gengið að öðru en stofnfjárbréfum hans og arðgreiðslum til fullnustu skuldarinnar. Stefndi, eins og margir aðrir stofnfjáreigendur, hefði aldrei tekið umrætt lán ef ekki hefði verið fyrir fullyrðingar um að ekki væri þörf á frekari tryggingum og að ekki yrði gengið að þeim persónulega ef stofnfjárbréfin eða arður af þeim dygði ekki til að greiða lánið. Telur stefndi að stefnandi geti ekki borið fyrir sig að hann hafi ekki vitað af forsendum stefnda þar sem starfsmenn Glitnis banka hafi rætt ítrekað um áhættuleysi skuldbindinganna við stjórn sparisjóðsins og stofnfjáreigendur sjálfa, ásamt því að breyta kynningargögnum til að bregðast við áhyggjum stjórnarinnar og stofnfjáreigenda. Þá hafi bankinn veitt stjórn sparisjóðsins umboð til þess að kynna fjármögnunina fyrir stofnfjáreigendum.

Stefndi byggir málatilbúnað sinn einnig á því að það beri að túlka ákvæði lánssamnings aðila og samsvarandi ákvæði í handveðssamningi í samræmi við kynningu Glitnis banka á lántökunni. Bendir stefndi á að við kynninguna hafi verið tekið sérstaklega fram að ekki yrði farið fram á aðrar tryggingar. Hafi það gefið skýr og greinileg fyrirheit um að verið væri að takmarka áhættu lántaka og breytt algerlega eðli lántökunnar. Í besta falli sé um mjög villandi kynningu að ræða á skilmálum lánveitingarinnar, enda ekki hægt að gera ráð fyrir því að hinn almenni stofnfjáreigandi skilji slíka yfirlýsingu öðruvísi en svo að hann sé ekki að hætta neinu öðru en tryggingunni. Getur þessi kynning ekki talist í samræmi við góða viðskiptavenju eða eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, hvað þá að aðili sé upplýstur nægjanlega um þá áhættu sem hann er að taka, sbr. 5. gr. og 14. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Stefndi vísar jafnframt til þess að Glitnir banki hafi verið búinn að meta áhættutöku sína gaumgæfilega áður en lánið var veitt. Hafi bankinn gert ráð fyrir því að veittar tryggingar myndu auðveldlega duga til greiðslu lánsins. Þessu til stuðnings vísar stefndi til kynningargagna frá Glitni banka þar sem farið hafi verið yfir breytingu á Byr sparisjóði í hlutafélag. Þar sé því lýst hvernig víðtækar heimildir sparisjóða til að greiða arð geti þjónað því hlutverki að greiða stofnfjáreigendum til baka á skömmum tíma þá fjármuni sem þeir leggja í stofnfjáraukningu. Hafi stefnandi verið vel meðvitaður um það hversu mikilla arðgreiðslna hafi verið að vænta og hagað lánstíma í samræmi við það. Hafi hann gætt að því að lánstíminn næði yfir tvö arðgreiðslutímabil sem myndu, miðað við þær forsendur sem Glitnir banki setti sjálfur fram, geta leitt til þess að lánin yrðu greidd til baka að verulegu leyti, jafnvel að fullu, fyrir lok lánstímans. Til að tryggja stöðu sína enn frekar hafi Glitnir banki gert samning við Sparisjóð Norðlendinga og Byr sparisjóð um bundið innlán til 13 mánaða sem yrði laust til útborgunar ef til þess kæmi að stofnfjáreigendur fengju greiddan arð. Hafi Glitnir banki því verið búinn að tryggja að lausafé yrði til staðar svo hægt yrði að greiða inn á lánin.

Stefndi telur það styðja þá ályktun að umræddur gerningur hafi átt að vera áhættulaus að Glitnir banki virti að vettugi almenn lánaskilyrði bankans. Ekki hafi farið fram greiðslumat í nokkru einasta tilviki áður en samþykkt var að lána stofnfjáreigendum. Skipti þá engu máli hvort lánað hafi verið til barna eða háaldraðra.  Fjárhæðir lánveitinganna hafi ekki skipt neinu máli þó að þær hafi verið allt frá hundruðum þúsunda króna upp í hundruð milljóna króna. Þá hafi ekki skipt máli hvort stofnfjáreigendur settu lán sín inn í félög með takmarkaða ábyrgð eða ekki. Lánin hafi alltaf verið veitt án frekari skoðunar.

Stefndi telur að samkvæmt öllu þessu sé ljóst að Glitnir banki hafi aldrei ætlað sér að ganga að öðru en framlögðum tryggingum stefnda. Styðji það túlkun stefnda á kynningargögnum Glitnis, lánssamningi og handveðssamningi aðila. Beri að túlka lánssamninginn í samræmi við fyrrgreind kynningargögn, eðli málsins og aðkomu Glitnis banka að stofnfjáraukningunni í heild. Hvergi í lánssamningnum komi fram að stefndi sé persónulega ábyrgur fyrir greiðslu lánsins. Bendir stefndi á að Glitnir hafi átt veg og vanda af allri uppsetningu stofnfjáraukningarinnar og fjármögnun hennar og samið alla lánapappíra og kynningargögn. Hefði bankinn sem sérfræðiaðili þurft að taka það sérstaklega fram í lánssamningi aðila ef samningar aðila hafi ekki átt að vera í samræmi við kynningu bankans sjálfs. Verður stefnandi að bera hallann af því að svo var ekki rétt eins og hann verður að bera hallann af því að kynning var óskýr eða ónákvæm.

Stefndi heldur því fram að túlkun hans á lánssamningi aðila sé í samræmi við viðurkenndar meginreglur í veðrétti. Í veðrétti sé talið að persónuleg ábyrgð fylgi ekki handveðsetningu í lausafé að uppfylltum þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi að lánveitandi hafi atvinnu sína af því að lána peninga gegn tryggingu; í öðru lagi að lánveitingin taki einungis mið af verðmæti veðandlagsins og í þriðja lagi að lánveitingin taki ekki mið af framtíðartekjumöguleikum veðsala eða fjárhagsstöðu hans að öðru leyti. Öll þessi skilyrði séu uppfyllt í málinu enda ljóst að stefndi átti aldrei möguleika á því að afla tekna sem samsvöruðu lánsfjárhæðinni á þeim stutta lánstíma sem lá til grundvallar auk þess sem eignastaða hans var aldrei könnuð. Lánveitingin hafi tekið mið af verðmæti stofnfjárbréfanna og stefnandi hafi atvinnu af lánveitingum gegn veði í lausafé.

Um þá málsástæðu að lánssamninginn beri að ógilda og/eða víkja til hliðar sem bersýnilega ósanngjörnum vísar stefndi til 33. gr., 1. mgr. 36. gr. og 36. gr. c í lögum nr. 7/1936. Styður stefndi kröfu sína m.a. við að Glitnir banki hafi ekki farið eftir eigin reglum um mat á almennum lánaskilyrðum og viðurkenndum venjum í lánaviðskiptum eða gætt reglna er gilda um lánveitingu og ráðgjöf við kaup á verðbréfum, sbr. lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.

Þá vísar stefndi til þess sem áður er getið um það hvernig lánssamningurinn var kynntur fyrir stefnda og öðrum stofnfjáreigendum. Telur stefndi að Glitni banka hafi verið fullkunnugt um að stefndu og aðrir stofnfjáraðilar hafi túlkað kynningarbréf bankans þannig að þeir væru ekki persónulega ábyrgir fyrir greiðslu lánsins enda hafi svör starfsmanna bankans og samskipti þeirra við stjórnarmenn í Sparisjóði Norðlendinga og Byr sparisjóði gefið það til kynna. Telur stefndi þetta leiða til þess að óheiðarlegt sé af stefnanda að bera fyrir sig lánssamning aðila og því beri að sýkna stefnda af þeim sökum.

Stefndi telur að ákvæði 36. gr. laga nr. 7/1936 veiti dómstólum enn fremur heimild til að lýsa óskuldbindandi löggerninga sem í upphafi hafi verið gildir og allt þar til á annan aðilann fer að halla vegna atvika sem upp koma eftir gerð samningsins enda sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Stefndi tekur fram að umræddur samningur hafi verið gerður milli tveggja aðila við tiltölulega eðlilegar aðstæður og efni hans hafi verið sett upp miðað við þann tíðaranda sem einkenndi samfélagið á þessum tíma. Atvik sem síðar komu til, nánar tiltekið hrun íslenska bankakerfisins, sem telja verði að hafi ekki síst orðið af völdum lánveitandans, Glitnis banka, og afföll þau sem urðu á endurgjaldi  við færslu lánsins frá Glitni banka til stefnanda, samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og íslenska ríkisins, leiði hins vegar til þess að bersýnilega sé ósanngjarnt af stefnanda að bera samninginn fyrir sig.

Þá telur stefndi ljóst að aðilar hafi ekki verið jafnsettir við samningsgerðina varðandi þekkingu og reynslu á þeim samningum sem verið var að gera. Þessu til viðbótar hafi Glitnir banki átt mikinn þátt í skipulagningu á því heildarferli sem fór fram, t.d. hversu mikið stofnféð var aukið á endanum með það að leiðarljósi að sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag og að endingu að hann sameinaðist Glitni banka. Þá ítrekar stefndi í þessu sambandi þá afstöðu sína að Glitnir banki hafi hvorki viðhaft eðlilega og sanngjarna viðskiptahætti við kynningu á lánveitingunni né eðlilega gát við mat á áhættu sinni.

Stefndi vísar einnig í þessu sambandi til stöðu stefnanda sem kröfuhafa. Það sé ljóst að stefnandi hafi fengið lán þetta með verulegum afföllum frá Glitni banka. Ekki sé óvarlegt að ætla að því hafi verið ráðstafað til stefnanda með a.m.k. 40% afföllum en sú prósentutala hafi komið fram í fjölmiðlum. Það sé bersýnilega ósanngjarnt af hálfu stefnanda að innheimta slík lán af þeim þunga gagnvart skuldara sem hér sé reynt að gera. Í þessu sambandi vísar stefndi enn fremur til ákvæða laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Eins og fram komi í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögunum hafi verið ætlast til að svigrúm nýju bankanna sem varð með afföllunum yrði notað til að skuldavandi heimila og fyrirtækja yndi ekki frekar upp á sig. Á framangreindum grundvelli hafi stefnandi boðið viðskiptavinum sínum lækkun fasteignaveðlána þannig að skuld nemi 110% af fasteignamati og lækkun á höfuðstól erlendra lána um allt að 25%. Stefndi hafi hins vegar ekki fengið nein þess háttar boð eða á því byggt í stefnu hans í málinu.

Til viðbótar þessu vísar stefndi til þess að athafnir gagnaðila hafi einnig valdið því að rétt sé að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, t.d. ef hann hefur orðið uppvís að lögbrotum í tengslum við viðkomandi samning. Hafi sú ráðagerð bankans að lánið yrði tekið að hluta í erlendri mynt verið algerlega fráleit gagnvart stefnda. Hafi bankanum mátt vera ljóst að krónan var við það að falla mikið auk þess sem nú sé orðið ljóst, sbr. umfjöllun í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að bankarnir, þ.m.t. Glitnir banki, hafi verið í miklum stöðutökum gegn íslensku krónunni og haft hag af því að hún félli gagnvart erlendri mynt, m.a. til að fegra efnahagsreikninga sína. Telur stefndi að bankinn hafi því ráðlagt honum eitt en síðan unnið sjálfur að hinu gagnstæða. Það sé skýlaust lögbrot og óviðunandi og bersýnilega ósanngjarnt að stefnandi hagnist á slíku.

Stefndi telur enn fremur að ógilda beri lánssamninginn á grundvelli reglna um brostnar forsendur. Það sé ljóst að stefndi hefði ekki stofnað til lánssamningsins ef hann hefði séð, eða mátt sjá fyrir, að bankinn gæti haft uppi þá kröfu sem hér um ræði. Þá sé ljóst að stefndi hefði ekki stofnað til slíkrar skuldbindingar ef hann hefði séð, eða mátt sjá fyrir við samningsgerðina, að slíkar kollsteypur yrðu á markaði eða gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum svo sem raunin varð. Sé hér um verulegar forsendur að ræða sem jafnframt sé ljóst að Glitnir banki mátti vita af. Svo að loforðsgjafi losni undan loforði sínu verði hagsmunir hans að vera sérstaks eðlis. Telur stefndi að þeir séu það svo sannarlega í hans tilviki því dómur um greiðsluskyldu myndi leiða til gjaldþrots hans. Hafi loforðsmóttakandi tekið meðvitaða áhættu þegar hann hafi tekið við loforðinu og verið þess raunar albúinn að taka á sig áhættuna af forsendubrestinum. Það myndi því leiða til mjög óeðlilegrar niðurstöðu ef loforðið yrði metið skuldbindandi við þessar aðstæður. Stefndi hafi ekkert haft með það að gera að hinar sérstöku aðstæður mynduðust. Á hinn bóginn séu allar líkur á að Glitnir banki hafi haft vitneskju og áhrif á það hvernig aðstæður þróuðust. Verði því að telja eðlilegt og sanngjarnt að áhættan af forsendubresti færist yfir á stefnanda og stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Stefndi færir þau rök fyrir varakröfu sinni að tenging helmings lánsins við erlenda myntkörfu hafi verið óheimil samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Telur stefndi að um óheimila verðtryggingu hafi verið að ræða og því sé hún ógild. Því beri að miða kröfu stefnanda hinn 19. október 2009 við að öll greiðsla lánsins sé í íslenskum krónum. Beri stefnanda að lækka kröfur sínar í samræmi við það.

Um lagarök vísar stefndi til meginreglna samninga- og kröfuréttar og meginreglna veðréttar um handveð. Jafnframt vísar stefndi til samningalaga nr. 7/1936, einkum III. kafla, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 108/2008 um verðbréfaviðskipti og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þá vísi stefndi til laga nr. 107/2009. Um kröfu um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV.

1. Skuldbinding samkvæmt lánssamningi aðila

Í máli þessu greinir aðila í raun á um hvort stefndi hafi með lánssamningi, sem var undirritaður 17. desember 2007, skuldbundið sig til að endurgreiða lánið þannig að unnt sé að afla aðfararhæfrar dómsúrlausnar um skyldu hans til að greiða eftirstöðvar þess. Telur stefndi að svo sé ekki heldur hafi skylda hans takmarkast við að veita Glitni banka handveð í stofnfjárbréfum hans í Sparisjóði Norðlendinga og að arður af þeim yrði notaður til að greiða niður lánið.

Efni lánssamningsins er rakið í kafla II hér að framan. Í 2. gr. samningsins kemur skýrt fram að með samningnum skuldbindi stefndi sig til að endurgreiða lánið á tilteknum gjalddaga og að honum beri að greiða það í þeim gjaldmiðlum sem lánið samanstendur af eins og segir í samningnum. Ákvæði lánssamningsins um tryggingar veldur engum vafa um þessa greiðsluskyldu stefndu. Lokamálsgrein 10. gr. samningsins verður ekki skilin á þann veg að fullnusturéttur lánveitanda hafi átt að takmarkast við stofnfjárbréfin enda einungis kveðið á um heimild hans til að nýta hin handveðsettu bréf til fullnustu kröfunnar. Að mati dómsins er því ekki unnt að finna því stoð í lánssamningi aðila að skylda stefnda og réttur lánveitanda hafi verið takmarkaður með þeim hætti sem stefndi heldur fram. Þegar lántaki lofar með samningi að endurgreiða peningalán ber honum að efna þá skyldu þó að ekki sé kveðið á um það í samningnum að hann sé „persónulega ábyrgur fyrir greiðslu lánsins“.

Röksemdir stefnda fyrir túlkun sinni á samningsskyldum sínum eru þó ekki nema að litlu leyti sóttar í samninginn sjálfan. Stefndi telur að honum hafi verið lofað að ekki yrði gengið að öðrum eignum hans en hinum veðsettu stofnfjárbréfum við fullnustu á greiðsluskyldu hans áður en hann gekk til samninga við bankann. Þetta hafi m.a. komið fram á kynningarfundi sem haldinn hafi verið á Hótel KEA 23. nóvember 2007. Það sama hafi komið fram hjá þjónustufulltrúa Glitnis banka er hann hafi spurt út í þetta atriði áður en hann og eiginkona hans undirrituðu lánssamningana sem þau gerðu við bankann. Þá beri að túlka samninginn í samræmi við kynningarblað frá Glitni banka þar sem fram hafi komið að ekki yrði farið fram á aðrar tryggingar. Stefndi vísar enn fremur til þess að Glitnir banki hafi metið áhættutöku sína alfarið út frá verðmæti hinna handveðsettu stofnfjárbréfa enda hafi greiðsluhæfi stefnda ekki verið metið. Því telur stefndi ljóst að bankinn hafi aldrei ætlað sér annað en að leita fullnustu í hinum handveðsettu bréfum. Stefndi bendir síðan á að í samningnum komi ekki fram að greiðandi beri persónulega ábyrgð. Telur stefndi að framangreind atriði er lúta að kynningu á fjármögnuninni og afstöðu Glitnis banka til lánssamningsins leiði til vafa um túlkun hans sem stefnandi verði að bera hallann af.

Ekki verður með nægilegri vissu ráðið af skýrslu Ægis Reynissonar, sem starfaði sem þjónustufulltrúi hjá Glitni banka í lok árs 2007, að hann hafi tjáð stefnda að það væru aðeins stofnfjárbréfin sem „væru í hættu“ í viðskiptunum. Það verður því að teljast ósannað.

Efni ódagsettrar kynningar á fjármögnun Glitnis banka, sem sent var til allra stofnfjáreigenda í Sparisjóði Norðlendinga, er rakið í kafla II hér að framan. Þar lofaði bankinn að ekki yrði „farið fram á aðrar tryggingar“ en veð í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Dómurinn telur að leggja verði þann skilning í orðið tryggingu, eins og það er notað í þessu samhengi, að átt sé við ráðstafanir sem veita kröfuhafa meira öryggi fyrir efndum á skuldbindingu skuldara. Þó að kröfuhafi fari ekki fram á neinar tryggingar af þessu tagi haggar það ekki efndaskyldu skuldara. Sama á við ef hann lofar að fara ekki fram á aðrar tryggingar en þær sem hann tilgreinir sérstaklega. Orðalag í framangreindu skjali gefur að mati dómsins ekki tilefni til að leggja annan skilning í skuldbindingar lántaka og réttindi lánveitanda en hér er rakið. 

 Engum vafa er undirorpið að stefndi skuldbatt sig samkvæmt lánssamningnum til að greiða lánið til baka. Þá er ekki unnt að finna því stoð í samningi aðila eða tilboði Glitnis banka að bankinn hafi takmarkað rétt sinn til að leita fullnustu á þeirri skyldu stefnda við hin veðsettu stofnfjárbréf og arð af þeim. Þó að Glitnir banki hafi ekki horft til greiðslugetu stefnda og hafi sjálfur reiknað með því að arðgreiðslur myndu a.m.k. fara langt með að greiða lánið upp felur það ekki í sér yfirlýsingu um að skuldbindingunni fylgi engin persónuleg ábyrgð þannig að það víki til hliðar hinni ótvíræðu skuldbindingu sem fólst í lánssamningnum. Ummæli formanns stjórnar Sparisjóðs Norðurlands um skilmála lánveitinga Glitnis banka á fundi, sem haldinn var til að leita eftir heimild til stofnfjáraukningar, geta ekki breytt efni þeirrar skuldbindingar sem stefndi gekkst undir með hinum umdeilda lánssamningi. Þar sem skylda stefnda til að endurgreiða lánið var ótvíræð samkvæmt samningi aðila verður heldur ekki talið að undantekning frá því að veðrétti fylgi persónuleg ábyrgð þegar handveð er tekið í lausafé eigi við í máli þessu.

2. Gildi lánssamningsins

 Stefndi reisir málatilbúnað sinn einnig á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, sbr. 6. gr. laga nr. 11/1986, þar sem óheiðarlegt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig. Verður að ætla að þessi málsástæða stefnda miði ekki að því að ógilda samninginn í heild heldur breyta honum þannig að fullnusturéttur stefnanda takmarkist við hin handveðsettu stofnfjárbréf. 

Í 1. mgr. 36. gr. laganna segir að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig, sbr. þó 36. gr. c. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Ákvæði þetta gildir um lánssamning stefndu við Glitni banka með þeirri breytingu sem felst í 3. mgr. 36. gr. c í lögunum, sbr. 1. mgr. sömu greinar, enda er samningurinn gerður sem liður í starfsemi Glitnis banka við einstakling, sbr. 1. mgr. 36. gr. a. Í 3. mgr. 36. gr. c kemur fram að samningur teljist ósanngjarn ef hann stríðir gegn góðum viðskiptaháttum og raskar til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta eða breytt segir í ákvæðinu að samningurinn skuli að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að það getur almennt ekki talist óvenjulegt, hvað þá ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju, að fjármálafyrirtæki eins og Glitnir banki semji á þann veg að lántaki endurgreiði peningalán, sem lánveitandinn hefur veitt honum til að fjárfesta í stofnfjárbréfum sparisjóða eða taka þátt í annars konar áhættusömum viðskiptum, og takmarki þá ekki rétt sinn til að leita fullnustu á efndum þeirrar samningsskuldbindingar hjá lántakanum sjálfum. Þvert á móti eru það eðlilegir samningsskilmálar sem jafnan verður ekki vikið til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.

Hér verður þó að gæta að fleiri þáttum við það sanngirnismat sem 36. gr. laganna mælir fyrir um, þ.á m. atvikum við samningsgerðina og stöðu samningsaðila. Það er liður í röksemdum stefnda fyrir túlkun hans á samningsskuldbindingum sínum að við kynningu á fjármögnuninni hafi komið fram að ekki yrði gengið að öðrum eignum stofnfjáreigenda en hinum veðsettu stofnfjárbréfum ef arður af bréfunum myndi ekki duga til að greiða lánin. Þessu hafi hann treyst en hann eigi ekki miklar eignir, hafi verið varkár í fjárfestingum og ekki stundað önnur verðbréfaviðskipti en þau sem snúi að eign hans á þessum stofnfjárbréfum. Hefði hann aldrei tekið umrætt lán ef ekki hefði verið fyrir þessar fullyrðingar við kynninguna á fjármögnuninni. Að fenginni þeirri niðurstöðu að stefndi hafi skuldbundið sig til að greiða lánið til baka og að lánveitandi hafi ekki gefið eftir rétt sinn til að leita fullnustu á þeirri skyldu hjá stefnda persónulega verður í ljósi þess sem að framan greinir að ætla að stefndi telji sig hafa skrifað undir samninginn á röngum forsendum um skyldur sínar.

Í skýrslu sinni fyrir dómi greindi stefndi frá því að hann hefði sótt fund stofnfjáreigenda 23. nóvember 2007. Þar hafi formaður stjórnar sparisjóðsins lýst því að Glitnir banki hefði boðist til að fjármagna stofnfjáraukninguna og að aðeins yrðu tekin veð í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Þegar hann hafi verið spurður nánar út í þetta af Páli Jónssyni, stofnfjáreiganda, hafi formaðurinn svarað að ekki þyrfti að hafa áhyggjur, það eina sem ætlunin væri að taka að veði væru stofnfjárbréfin og arðurinn af þeim og ekki væri hægt að ganga að öðrum eignum. Sama hafi komið fram er stefndi hafi rætt málið við Aðalheiði Eiríksdóttur, stjórnarmann í sparisjóðnum og nágranna stefnda. Kvaðst stefndi hafa ákveðið að taka þátt í útboðinu og taka lánið hjá Glitni banka í ljósi þessarar kynningar en honum hafi annars ekki hugnast þessi mikla hækkun og íhugað að selja bréfin sín. Hélt hann því fram að hann hefði aldrei tekið lánið ef hann hefði gert sér grein fyrir að hann væri með því að „leggja heimilið að veði“.

Jón Kr. Sólnes, fyrrum formaður stjórnar Sparisjóðs Norðlendinga, gaf einnig skýrslu í málinu. Þar greindi hann frá því að vikið hefði verið að fjármögnun stofnfjáraukningarinnar á fundi með stofnfjáreigendum á Hótel KEA 23. nóvember 2007. Þar hafi verið upplýst að fjármögnunin yrði „áhættulaus“.

Í skýrslum Eiðs Gunnlaugssonar og Aðalheiðar Eiríksdóttur, sem bæði áttu sæti í stjórn sparisjóðsins, kemur einnig fram að spurt hafi verið út í það á fundinum hvort lántakar yrðu persónulega ábyrgir fyrir greiðslu lána sinna. Eiður kvaðst minnast þess að Jón Kr. Sólnes hafi svarað neitandi spurningu frá Páli Jónssyni um þetta atriði. Aðalheiður greindi svo frá að þessu hafi verið svarað þannig að eingöngu yrði um veð í stofnfjárbréfunum og væntanlegum arðgreiðslum að ræða.

Páll Halldór Jónsson stofnfjáreigandi gaf enn fremur skýrslu í málinu. Hann greindi frá því að hann hefði spurt Jón Kr. Sólnes um það á fundinum hvort bankinn „gerði enga kröfu í neinar aðrar eignir en stofnfjárbréfin“ og hafi Jón þá svarað „að engar aðrar eignir þyrfti að veðsetja en stofnfjárbréfin“. Hafi hann skilið þessi ummæli þannig að hann sem lántaki yrði ekki persónulega ábyrgur fyrir endurgreiðslu lánsins. Nánar aðspurður kvaðst vitnið hafa fengið þau svör á fundinum að ekki yrði „gengið að“ öðrum eignum en stofnfjárbréfunum.

Það liggur fyrir í málinu að öll framangreind vitni tóku þátt í útboðinu og fjármögnuðu kaupin með lántöku frá Glitni banka og er óhjákvæmilegt að líta til þess við mat á sönnunargildi framburðar þeirra. Ekki verður skýrlega ráðið af skýrslum þeirra hvað nákvæmlega var spurt út í eða hvers efnis umræðurnar voru enda vitnin ekki á einu máli um það. Þó þykir nægilega fram komið að á þessum fundi hafi skapast umræða um þá áhættu sem hlytist af lántökunni enda um umfangsmikla skuldbindingu að ræða. Þykir óhætt að slá því föstu að svör formanns stjórnarinnar við spurningu er að þessu laut hafi styrkt fundarmenn í þeirri trú að lántakan væri áhættulaus án þess að fullyrt verði að þar hafi komið fram á hvaða forsendum það byggðist. Ekki verður hins vegar talið nægilega fram komið að þar hafi beinlínis verið rætt um hver ábyrgð lántaka yrði ef stofnfjárbréfin dygðu ekki til að endurgreiða lánin.

Skýrslum vitna ber almennt saman um að mikil áhersla hafi verið lögð á það af hálfu Glitnis banka og Sparisjóðs Norðlendinga að allir stofnfjáreigendur tækju þátt í útboðinu. Í glærukynningu Glitnis banka, sem lögð hefur verið fram í málinu, og ber yfirskriftina „Hlutafélagavæðing Sparisjóða“, og virðist hafa verið tekin saman sumarið 2007, kemur fram að nauðsynlegt sé að tryggja öllum stofnfjáreigendum fjármögnun til kaupa á nýju stofnfé en verðmæti eignarhluta þeirra sem ekki keyptu stofnfé myndi lækka umtalsvert við svo ríflega fjölgun stofnfjárhluta sem þar var lagt á ráðin um. Sama áhersla kemur fram á skjali sem tekið var saman af starfsmönnum fyrirtækjaráðgjafar Glitnis banka með spurningum og svörum varðandi stofnfjáraukningu hjá Byr sparisjóði en fyrir liggur að stofnfjáraukningin í Sparisjóði Norðlendinga kom til út af henni. Þar var sérstök áhersla lögð á að mjög mikilvægt væri að stofnfjáreigendur tækju þátt í útboðinu til að lenda ekki í verðmætaskerðingu. Tekið var dæmi af stofnfjáreiganda sem ætti „í dag 100 þúsund krónur að markaðsvirði“ og talið að eftir útboð myndi hann eiga „18 þúsund krónur að markaðsvirði“ ef hann tæki ekki þátt en „u.þ.b. 150 þúsund krónur“ ef hann tæki þátt í útboðinu. Þá kom fram að ef hann tæki lán fyrir sínum hlut í aukningunni myndi „skuldsetningin nema um 1/3 af markaðsvirði“ bréfanna „þ.e.a.s. 50 þúsund krónum“. Ekki er í skjalinu hins vegar minnst á þá áhættu sem fælist í skuldsettum kaupum á stofnfjárhlutum í þeim mæli sem þátttaka í stofnfjáraukningunni krafðist.

Við ráðgjöf til stofnfjáreigenda um útboðið virðist samkvæmt framansögðu hafa verið gengið út frá þeim forsendum að markaðsvirði bréfanna væri umtalsvert hærra en nafnvirði þeirra, að stofnféð væri gefið út á verulega lægra gengi en markaðsvirði og að það myndi rýrna mikið í verði við stofnfjáraukninguna ef stofnfjáreigendur tækju ekki þátt í útboðinu. Í útboðslýsingunni á Sparisjóði Norðlendinga var einnig bent á að skerðing á hlut þess sem ekki tæki þátt í aukningunni næmi 94,6%. Ekkert í gögnum málsins bendir til þess að við þá ráðgjöf, sem reist var á þessum forsendum, hafi verið getið um þá áhættu sem fólst í því að virði bréfanna, sem veðsetja átti, og rekstur sparisjóðsins gæti þróast til verri vegar og hvaða áhrif það hefði á skuldbindingu lántaka. Má m.a. ráða af skýrslum vitna að ekki hafi verið minnst á þessa áhættu á fundinum 23. nóvember 2007. Eins og fram kemur hér að framan verður þvert á móti að ætla að þar hafi formaður stjórnar sparisjóðsins látið orð falla sem hafi styrkt fundarmenn í þeirri trú að því fylgdi ekki mikil áhætta að taka lán til að fjármagna kaupin.

Af skýrslu stefnda má ráða að eiginkona hans hafi einnig tekið lán í Glitni banka til að fjármagna kaup á stofnfjárbréfum í útboðinu. Ekki liggur fyrir í málinu aðrar upplýsingar um fjárhagsstöðu stefnda en þær sem hann skýrði frá fyrir dómi. Sameiginlega taldi hann að þau hjónin skulduðu um 70 milljónir króna en að þau eigi hús og bifreið. Taldi hann gjaldþrot blasa við yrði fallist á kröfur stefnanda. Eins og málið liggur fyrir verður enn fremur að leggja til grundvallar að stefndi hafi ekki mikla reynslu í verðbréfaviðskiptum en hann starfar sem sölumaður hjá iðnfyrirtæki. Hafi hann treyst því, sem gefið hafi verið til kynna á fundinum 23. nóvember 2007, að lántakan hjá Glitni banka væri áhættulaus. Ljóst er að stefndi og eiginkona hans voru með lántökunni að taka á sig afar þunga fjárhagsbyrði miðað við hagi sína ef forsendur um rekstur sparisjóðsins gengju ekki eftir. Þar sem engar viðvaranir fylgdu ráðgjöfinni þá eða síðar um þá áhættu sem í þessu fólst og með hliðsjón af því sem að framan greinir þykir í ljós leitt að stefndi hafi samþykkt lántökuna á þeirri röngu forsendu að áhætta hans væri bundin við hin veðsettu stofnfjárbréf og að fullnusturéttur lánveitanda takmarkaðist við þau.

Í ljósi ótvíræðrar greiðsluskyldu stefnda á láninu verður að telja að ábendingar á fundinum 23. nóvember 2007 um þá takmörkuðu áhættu sem fylgdi því að skuldsetja sig jafn mikið og raun ber vitni til að leggja fé inn í rekstur sparisjóðsins hafi verið villandi.

Í málinu liggur fyrir að Glitnir banki og Sparisjóður Norðlendinga sömdu sín á milli um sölutryggingu og fjármögnun bankans við stofnfjárútboðið. Þessi samningur var undirritaður 27. nóvember 2007 eða nokkrum dögum eftir stofnfjáreigendafundinn. Áður en samningurinn var undirritaður áttu þrír stjórnarmenn í sparisjóðnum, þeir Jón Kr. Sólnes, Eiður Gunnlaugsson og Oddur Gunnarsson, ásamt sparisjóðsstjóranum, Erni Óskarssyni, fund með Einari Sigurðssyni og Páli Ragnari Jóhannessyni, sem komu fram fyrir hönd Glitnis banka í málinu. Af skýrslum stjórnarmannanna og Einars verður ráðið að fjármögnun á kaupum stofnfjáreigenda á stofnfjárbréfunum hafi borið á góma á þessum fundi. Í skýrslum stjórnarmannanna kemur fram að framangreindir starfsmenn Glitnis banka hafi skýrt frá því að engar „persónulegar ábyrgðir“ fylgdu því að taka lán hjá bankanum. Einungis yrðu tekin veð í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Hafi starfsmenn Glitnis banka verið beðnir um að breyta kynningarskjali um fjármögnunina til að draga þetta betur fram. Í skýrslu Einars Sigurðssonar fyrir dómi neitaði hann að hafa lýst því yfir á þessum fundi að lánunum fylgdi ekki persónuleg ábyrgð. Þó útilokaði hann ekki að einhverjir kynnu að hafa skilið orðalag kynningarskjalsins um tryggingar þannig að þeir væru aðeins að leggja stofnfjárbréfin undir en sjálfur myndi hann hafa skilið orðalagið þannig. Minntist hann þess ekki að breytingar hefðu verið gerðar á skjalinu í tilefni af umræðunni á fundinum. Í skýrslu sinni sagði Páll Ragnar Jóhannesson að hann minntist þess ekki að á fundinum hefði verið rætt um persónulega áhættu lántaka við að taka umrædd lán hjá Glitni banka.

Hér stendur orð gegn orði og verður ekki fullyrt að á þessum fundi hafi verið gefin fyrirheit um að Glitnir banki myndi takmarka fullnusturétt bankans við hin handveðsettu stofnfjárbréf eða að þeir hafi lýst því yfir að þeim fylgdi ekki persónuleg ábyrgð. Eftir sem áður þykir upplýst að á fundinum hafi verið viðraðar áhyggjur stofnfjáreigenda af hinni miklu skuldsetningu sem hlytist af því að auka stofnféð svo ríflega. Fulltrúar Glitnis banka á fundinum áttu því að vera meðvitaðir um að margir stofnfjáreigendur væru í óvissu um hagsmuni sína og þá áhættu sem þeir væru að taka.

Ætla verður að umrædd kaup á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Norðlendinga teljist til verðbréfaviðskipta í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, er tóku gildi 1. nóvember 2007, en í útboðslýsingu fyrir sparisjóðinn kemur fram að viðskipti með stofnfjárhluti hafi átt sér stað á tilboðsmarkaði sem Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. hafi haft umsjón með. Samþykki stjórnar sparisjóðsins þurfti þó fyrir framsali stofnfjárbréfa. Eins og fram hefur komið skuldbatt Glitnir banki sig, með samningi við sparisjóðinn 27. nóvember 2007, til að sölutryggja útboðið og tryggja fjármögnun kaupa stofnfjáreigenda á nýjum stofnfjárbréfum. Leggja verður þann skilning í fyrirmæli samningsins um sölutryggingu að Glitnir banki hafi skuldbundið sig til að gera sjálfstæðan sölutryggingarsamning er mælti fyrir um nýtingu sölutryggingarinnar varðandi þann hluta stofnfjárbréfanna sem áskrift næðist ekki fyrir ef sparisjóðurinn færi fram á það eftir að ákvörðun hefði verið tekin um útboðið. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að sparisjóðurinn hafi gefið þennan rétt eftir við stofnfjáraukninguna. Aðkoma bankans að stofnfjáraukningunni á grundvelli samningsins frá 27. nóvember 2007 féll því almennt undir lög nr. 108/2007, sbr. 6. tölul. 1. mgr. og 2. tölul. 2. mgr. 1. gr. laganna.

Glitni banka bar samkvæmt þessu m.a. að fylgja almennri reglu 5. gr. laganna sem leggur þá skyldu á fjármálafyrirtæki að starfa í samræmi við eðlilega viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika fjármálamarkaðarins og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Stefndi tók auk þess tilboði Glitnis banka um fjármögnun stofnfjáraukningarinnar sem var í tengslum við viðskipti bankans samkvæmt 6. tölul. 1. mgr. 1. gr. lag nr. 108/2007. Verður því að telja að Glitni banka hafi borið samkvæmt 14. gr. laganna að veita honum m.a. greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem viðskiptunum fylgdi og urðu þær að vera skýrar og sanngjarnar og máttu ekki vera villandi þannig að stefndi gæti tekið „upplýsta fjárfestingarákvörðun“. Ekki verður séð að Glitnir banki hafi gætt skyldu sinnar samkvæmt þessu ákvæði þannig að stefndi fengi nægilega greinargóðar upplýsingar um þá áhættu sem fólst í að taka lán til kaupa á stofnfjárbréfum sem námu margfaldri stofnfjáreign stefnanda. Þá var um þjónustu á sviði verðbréfaviðskipta að ræða sem telja verður að hafi fallið undir 16. gr. laganna. Því átti bankinn að óska eftir upplýsingum um þekkingu og reynslu stefnda á sviði þessarar tegundar verðbréfaviðskipta áður en ákveðið var að lána honum til að kaupanna. Þá verður ekki séð að sérstök athugun hafi farið fram á því að stefndi uppfyllti almenn lánaskilyrði bankans sem vísað var til í bókun áhættunefndar bankans frá 18. október 2007 sem lögð hefur verið fram. Umrædd bókun tekur að vísu aðeins til fjármögnunar á útboði stofnfjárbréfa í Byr sparisjóði en á væntanlega einnig við um Sparisjóð Norðlendinga.

Samkvæmt framansögðu þykir í ljós leitt að stefndi hafi vegna villandi ráðgjafar samþykkt lántökuna á þeirri röngu forsendu að áhætta hans takmarkaðist við hin veðsettu stofnfjárbréf. Þá verður að telja að Glitnir banki hafi sýnt af sér alvarlegt skeytingarleysi um hagsmuni stefnda, sem hafði ekki mikla þekkingu á verðbréfaviðskiptum, með því að upplýsa hann ekki um þá áhættu sem fólst í að taka lán til kaupa á svo miklu magni stofnfjárbréfa sem raun ber vitni. Í ljósi aðstæðna stefnda og þeirrar villu sem hann var í um eðli skuldbindingarinnar þykir óvíst að hann hefði tekið lánið ef honum hefði verið veitt rétt ráðgjöf sem hefði skýrt hvaða afleiðingar það hefði ef forsendur um rekstur sparisjóðsins og væntar arðgreiðslur gengju ekki eftir og honum bent á hvaða aðra valkosti hann hefði.

Ber þá jafnframt að líta til þess að Glitnir banki átti frumkvæði að hinni umfangsmiklu stofnfjáraukningu hjá Sparisjóði Norðlendinga sem kom til út af fyrirhugaðri sameiningu við Byr sparisjóð en ljóst er að ætlunin var að hlutafjárvæða hann. Þetta kemur fram í skýrslu Einars Sigurðssonar fyrir dómi og í glærukynningu bankans sem ber yfirskriftina „Hlutafélagavæðing Sparisjóða“. Af skýrslu Einars má ráða að þessi glærukynning hafi verið unnin í fyrirtækjaráðgjöf Glitnis banka að beiðni yfirmanna hans sumarið 2007 og verið fyrst kynnt á fundi innan bankans um það leyti. Þar er mælt með því að hækka stofnfé Byrs sparisjóðs um 20 til 30 milljarða áður en sparisjóðnum yrði breytt í hlutafélag í því skyni að auka verulega hlutdeild stofnfjáreigenda í hlutafé þess á kostnað sjálfseignarstofnunar sem yrði til við hlutafjárvæðinguna, sbr. 76. gr. laga nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki. Kemur fram á glærunum að hækkun stofnfjárins yrði „að stórum hluta mætt með arðgreiðslum til stofnfjáreigenda“ og áhersla lögð á að tryggja öllum stofnfjáreigendum fjármagn til kaupa á hinu nýja stofnfé. Þar var skírskotað til rúmra heimilda sparisjóða til að greiða stofnfjáreigendum arð. Þá hefur komið fram í skýrslum þeirra vitna sem komu að málinu af hálfu Glitnis banka að reiknað hafi verið með að arðgreiðslurnar myndu a.m.k. fara mjög langt með að standa undir endurgreiðslu lánanna.

Ljóst er að þessum áformum var hrint í framkvæmd með því að margfalda stofnfé í Byr sparisjóði og Sparisjóði Norðlendinga í desember 2007. Hefðu þessi áform eflaust getað haft í för með sér töluverðan hagnað fyrir stofnfjáreigendur ef forsendur um hagfelldan rekstur sparisjóðanna og ríflegar arðgreiðslur hefðu staðist. Þau kölluðu hins vegar einnig á umfangsmikla skuldsetningu af hálfu stefnda til að fjármagna kaupin á stofnfénu og því mikilvægt að honum væri gerð skýr grein fyrir þeirri áhættu sem í því fælist. Frumkvæði Glitnis banka sem hér er lýst undirstrikar að mati dómsins enn frekar ábyrgð bankans á því að gera stefnda grein fyrir þessari áhættu. Forsendur þessara áforma brugðust hins vegar með öllu við hrun fjármálakerfisins hér á landi haustið 2008 en óumdeilt er að stofnfjárbréfin eru nú verðlaus. Ef fallist yrði á dómkröfur stefnanda verður ekki betur séð en að stefndi myndi bera allt tjónið af því.

Það er óumdeilt að stefndi getur borið fyrir sig að ósanngjarnt sé að byggja á umræddum lánssamningi, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936, þó að krafa samkvæmt samningnum hafi verið framseld frá Glitni banka til stefnanda. Þegar litið er til framangreindra atriða, er lúta að atvikum við samningsgerðina og stöðu aðila, efni lánssamningsins og atvika sem síðar komu til, er það niðurstaða dómsins að ósanngjarnt sé af stefnanda að bera lánssamninginn fyrir sig að því leyti sem hann felur í sér rétt til að leita fullnustu á greiðsluskyldu stefnda í öðru en hinum veðsettu stofnfjárbréfum og arði af þeim. Því er rétt að breyta efni hans þannig að stefnanda sé einungis unnt að leita fullnustu í stofnfjárbréfunum og arði af þeim. Þar sem krafa stefnanda beinist að því að fá aðfararhæfan dóm um skyldu stefnda til greiðslu eftirstöðva lánsins verður hann sýknaður af kröfum stefnanda.

3. Málskostnaður o.fl.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.000.000 krónur.

Vegna embættisanna dómara hefur dómsuppkvaðning dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Aðilar töldu ekki þörf á því að málið yrði flutt að nýju.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Hermann Harðarson, er sýkn af kröfum stefnanda, Íslandsbanka hf.

Stefnandi greiði stefnda 1.000.000 króna í málskostnað.