Hæstiréttur íslands
Mál nr. 491/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Lán
- Samningur
- Veðréttur
- Handveð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2016 þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 5.625.219,49 bresk pund var viðurkennd við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur, en til vara að kröfum varnaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar, en til vara að krafa sín að fjárhæð 4.369.000 bresk pund „ásamt fjárhæð sem samsvarar áföllnum vöxtum á innlánsreikningi nr. 322-38-200075 til uppkvaðningar dóms“ verði viðurkennd við gjaldþrotaskipti á sóknaraðila og njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins tók Saxbygg ehf., síðar Icarus ehf., þátt í að fjármagna kaup á verslunarkeðjunni Somerfield á grundvelli samkomulags sem gert var milli félagsins og Isis Investments Ltd. í janúar 2006. Skuldbatt Saxbygg ehf. sig til þess að greiða Isis Investments Ltd. í þessu skyni 3.000.000 bresk pund, auk 75.000 breskra punda í þóknun, en síðarnefnda félagið hafði gert samninga við Tazamia Ltd. um að veita því félagi lán og gerast áskrifandi að hlutabréfum í því. Samkvæmt áðurnefndu samkomulagi Saxbyggs ehf. og Isis Investments Ltd. skyldi fyrrgreinda félagið, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, fá framlag sitt endurgreitt að fullu og að auki 90% af því sem svaraði til hlutdeildar sinnar í ágóðanum af fjármögnun á kaupum verslunarkeðjunnar. Í skilmálum fyrir þátttöku Saxbyggs ehf. í fjármögnuninni sagði meðal annars: „Allar greiðslur eða innborganir annars aðila til ... hins ... skulu greiddar á móttökureikning hins aðilans. Hvor aðili um sig getur tilnefnt annan reikning sem móttökureikning fyrir greiðslu með fimm daga fyrirvara fyrir greiðsludag.“ Í samkomulagi Saxbyggs ehf. og Isis Investments Ltd. var tekið fram að móttökureikningur merkti gagnvart því fyrrnefnda reikningur þess nr. 0329-26-480058 hjá varnaraðila. Á þessum tíma mun sami maður hafa verið stjórnarformaður varnaraðila og hins erlenda félags.
Hinn 6. janúar 2006 var undirritaður samningur milli Saxbyggs ehf. og varnaraðila sem bar yfirskriftina „Staðfesting á skiptasamningi nr.: AFS12553“. Í samningnum var kveðið á um að varnaraðili skyldi lána Saxbyggi ehf., sem í samningnum var vísað til sem viðskiptamanns, 2.050.000 bresk pund sem jafngilti 271.317.500 krónum. Einnig að lánsfjárhæðin, svonefnd viðmiðunarfjárhæð, samsvaraði verðmæti viðmiðunarbréfa, sem bæru auðkennið „TAZ AGR“ og væru að nafnverði 2.000.000 bresk pund, miðað við gengið 1,025. Samkvæmt samningnum skuldbatt Saxbygg ehf. sig til að endurgreiða fjárhæðina ekki síðar en 8. janúar 2007. Vextir skyldu reiknast frá dagsetningu samningsins til gjalddaga og var vaxtafótur „í upphafi“ sagður vera 5,5938% sem skiptist í grunnvexti, 4,5938%, og álag, 1%. Í samningnum sagði meðal annars: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu viðskiptamanns samkvæmt samningi þessum hefur viðskiptamaður lagt fram tryggingar sem tilgreindar eru í Handveðssamningi/Handveðssamningum vegna afleiðusamninga og viðaukum þeirra sem teljast hluti af samningi þessum.“ Skilmálum samningsins var breytt tvívegis, fyrst 8. janúar 2007 og síðan 8. janúar 2008. Í báðum tilvikum var gildistími samningsins framlengdur um eitt ár, í síðara skiptið til 8. janúar 2009, og lánsfjárhæðin hækkuð, í síðara skiptið í 2.308.426,56 bresk pund, auk þess sem umsömdum vöxtum af láninu var breytt. Óumdeilt er að andvirði lánsins, sem varnaraðili veitti Saxbyggi ehf. á grundvelli samningsins, var fyrst lagt inn á vörslusafn félagsins hjá varnaraðila, en síðan notað á árinu 2006 til að inna af hendi hluta umsaminnar greiðslu þess samkvæmt samkomulaginu við Isis Investments Ltd.
Meðal gagna málsins er handveðssamningur sem undirritaður var af Saxbyggi ehf. og varnaraðila 16. janúar 2008. Með samningnum setti félagið sem veðsali varnaraðila sem veðhafa „að handveði: Öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. öll verðbréf og peningainnstæður á vörslusafni veðsala hjá veðhafa nr. #480058, og alla innistæðu þess eins og hún er á hverjum tíma“. Í samningnum sagði meðal annars: „Veðandlagið er hér með sett veðhafa að handveði til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum í tengslum við afleiðuviðskipti, eins og þau eru skilgreind í b-lið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 33/2003, sem veðsali tekst á hendur gagnvart veðhafa, sem þegar hafa stofnast eða síðar munu stofnast, í hvaða formi sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er, hvort sem um er að ræða skiptasamninga, framvirka samninga, valrétti eða hvaða aðrar afleiður sem er og hvort sem um er að ræða höfuðstól, verðbætur, gengishækkanir, vexti, dráttarvexti og hvers kyns kostnað, þar með talinn innheimtukostnað lögmanna.“ Í samningnum var tekið fram að meðfylgjandi honum væri útprentun sem sýndi stöðu fjármálagerninga og verðmæta á áðurnefndu vörslusafni eins hún væri við undirritun samningsins. Það skjal hefur ekki verið lagt fram í málinu, en hins vegar er meðal gagna þess eignarstýringaryfirlit þar sem auk annars koma fram hreyfingar á vörslusafninu á tímabilinu frá 1. janúar 2006 til 25. september 2015.
Fyrir liggur að Isis Investments Ltd. tók við greiðslu frá Tazamia Ltd. 27. febrúar 2009 þar sem annars vegar var um að ræða endurgreiðslu á láni og hins vegar hagnað af sölu á framangreindri verslunarkeðju. Áður en Isis Investments Ltd. greiddi Saxbyggi ehf. það, sem því bar samkvæmt samkomulaginu frá í janúar 2006, var bú fyrrgreinda félagins tekið til gjaldþrotaskipta 8. mars 2010.
Hinn 27. apríl 2009 var heiti Saxbyggs ehf. breytt í Icarus ehf. Skömmu síðar, 15. maí sama ár, var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta og rann frestur til að lýsa kröfum í búið út 26. júlí 2009.
Margvíslegur ágreiningur milli kröfuhafa í þrotabúi Isis Investments Ltd. mun hafa orðið til þess að úthlutun úr búinu dróst á langinn. Hinn 15. janúar 2015 gerðu málsaðilar með sér samkomulag um að skiptastjóri sóknaraðila myndi beina því til skiptastjóra í þrotabúi Isis Investments Ltd. að þeir fjármunir, sem til stæði að greiða úr búinu vegna þátttöku Saxbyggs ehf. í kaupum á framangreindri verslunarkeðju, yrðu lagðir inn á sérgreindan bankareikning í Arion banka hf. í nafni sóknaraðila. Lýstu aðilarnir því yfir að gerð samkomulagsins og móttaka sóknaraðila á fjármununum „raski í engu efnislegum rétti hvorugs aðila frá því sem orðið hefði ef samkomulagið væri ekki gert.“ Með bréfi 12. mars 2015 til varnaraðila tilkynnti skiptastjóri sóknaraðila að hann hafi tekið á móti 4.369.000 breskum pundum og lagt þau inn á áðurgreindan bankareikning.
Varnaraðili lýsti kröfum þeim, sem mál þetta snýst um, á hendur sóknaraðila 1. apríl 2015. Var kröfugerðin einkum reist á því að varnaraðili hafi veitt þrotamanni lán og samhliða hafi hann „með samningi dags. 6. janúar 2006 veðsett væntanlegar fjárkröfur sínar vegna endurgreiðslu á fjárfestingunni í Somerfield til handa kröfuhafa. Ber veðsamningurinn með sér að allar greiðslur sem þrotamanni áttu að berast vegna fjárfestingarinnar ... hafi átt að berast inn á þar til greindan reikning nr. 0329-26-480058 hjá Kaupþingi, en þann reikning hafði þrotamaður veðsett til tryggingar á viðskiptum sínum við kröfuhafa“. Því til stuðnings var vísað til handveðssamningsins frá 16. janúar 2008. Sóknaraðili hafnaði kröfum varnaraðila með bréfi 9. apríl 2015 og í kjölfarið var ágreiningnum beint til héraðsdóms á grundvelli 171. gr. laga nr. 21/1991.
II
Sóknaraðili krefst þess sem fyrr greinir að hinn kærði úrskurður verði ómerktur. Færir hann þau rök fyrir kröfunni að héraðsdómur hafi ekki tekið afstöðu til allra málsástæðna sinna, svo sem nauðsyn hafi borið til við úrlausn málsins.
Samkvæmt d., e. og f. liðum 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 1. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, skal í forsendum úrskurðar eins og þess, sem hér um ræðir, greina stutt yfirlit um atvik að baki máli og ágreiningsefni í því, helstu málsástæður aðila og réttarheimildir sem þeir byggja á, þó aðeins að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar máli, og rökstudda niðurstöðu um sönnunaratriði og lagaatriði. Þótt nokkuð skorti á að gerð sé grein fyrir málsatvikum með gagnorðum og skilmerkilegum hætti í hinum kærða úrskurði, þar sem meðal annars gætir ónákvæmni þegar vísað er til efnis málsskjala, er þar leyst úr helstu málsástæðum aðila á fullnægjandi hátt. Af þeim sökum er ekki fallist á ómerkingarkröfu sóknaraðila.
III
Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð er heimilt að stofna til handveðréttar í lausafé. Í 2. mgr. segir að handveðréttur öðlist réttarvernd við afhendingu veðsins til veðhafa eða aðila sem tekið hefur að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum. Þá er kveðið á um í 3. mgr. að sé veðið í umráðum annars en eiganda á gildistíma veðsetningarinnar öðlist handveðréttur einnig réttarvernd þegar umráðamaður hefur fengið tilkynningu um veðsetninguna og um það að eigandinn ráði ekki yfir veðinu. Eftir 1. mgr. 45. gr. sömu laga er heimilt að veðsetja almenna fjárkröfu manns á hendur nafngreindum skuldara. Veðréttur í slíkri kröfu öðlast réttarvernd við það að skuldarinn fær tilkynningu um veðsetninguna, annaðhvort frá veðsala eða veðhafa, sbr. 1. mgr. 46. gr. laganna.
Málsaðilar eru sammála um að með samningnum milli Saxbyggs ehf. og varnaraðila 6. janúar 2006, sem breytt var 8. janúar 2007 og síðar 8. janúar 2008, hafi félagið fengið lán úr hendi varnaraðila sem því hafi borið að endurgreiða. Í samningnum var kveðið á um að til tryggingar þeirri greiðslu hafi félagið lagt fram tryggingar sem tilgreindar væru í samningi eða samningum um handveð vegna afleiðusamninga. Ekki verður séð að slíkur samningur hafi verið gerður samhliða. Eins og áður greinir heldur varnaraðili því fram að með handveðssamningnum, sem undirritaður var 16. janúar 2008, hafi verið samið um handveð til tryggingar efndum Saxbyggs ehf. á fyrrnefnda samningnum. Því andmælir sóknaraðili, meðal annars með þeim rökum að ekki hafi verið um að ræða skuld í tengslum við afleiðuviðskipti, svo sem áskilið hafi verið í handveðssamningum. Á það sjónarmið sóknaraðila er ekki fallist þar sem hugtakið afleiða er skilgreint svo rúmt í d. og h. liðum 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sbr. áður b. lið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 33/2003, að viðskipti á grundvelli samningsins frá 2006 hafi fallið undir það. Jafnframt styðst þessi niðurstaða við að í þeim samningi var að því er varðaði tryggingar fyrir efndum vísað til samnings eða samninga um handveð vegna afleiðusamninga, auk þess sem samningnum hafði verið breytt og gildistími hans framlengdur tíu dögum áður en handveðssamningurinn var gerður.
Til tryggingar efndum á samningnum 6. janúar 2006 setti Saxbygg ehf. samkvæmt þessu varnaraðila að handveði samkvæmt handveðsréttarsamningum 16. janúar 2008: „Öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. öll verðbréf og peningainnstæður á vörslusafni“ félagsins hjá varnaraðila „nr. #480058, og alla innistæðu þess eins og hún er á hverjum tíma“. Eftir orðanna hljóðan stofnaðist með samningnum handveðréttur til handa varnaraðila í öllum verðmætum á hinu auðkennda vörslusafni Saxbyggs ehf. hjá honum á hverjum tíma, svo sem í verðbréfum og innstæðum á þeim bankareikningi sem vísað er til að framan. Sem fyrr segir var andvirði lánsins, sem félagið fékk hjá varnaraðila, lagt inn á vörslusafnið, en síðan notað þegar á árinu 2006 til að inna af hendi hluta af greiðslu félagsins samkvæmt samkomulaginu við Isis Investments Ltd. frá janúar 2006 án þess að gerðar hafi verið ráðstafanir samkvæmt 22. gr. laga nr. 75/1997 til þess að veita veðréttinum réttarvernd. Þessir fjármunir voru því hvað sem öðru líður ekki háðir handveðrétti varnaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 18. desember 2012 í máli nr. 720/2012.
Að þessu sögðu kemur til skoðunar hvort krafa Saxbyggs ehf., síðar Icarusar ehf., á hendur Isis Investments Ltd. hafi verið veðsett varnaraðila. Þegar bú Icarusar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta hafði Isis Investments Ltd. ekki staðið fyrrgreinda félaginu skil á greiðslum samkvæmt áðurgreindu samkomulagi. Þegar gjaldþrotaúrskurður var kveðinn upp öðlaðist sóknaraðili því samsvarandi fjárkröfu á Isis Investments Ltd., að því tilskildu að slíkt færi ekki í bága við réttindi annarra, sbr. 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991. Ekkert liggur fyrir um að varnaraðili eða Icarus ehf. hafi áður tilkynnt hinu erlenda félagi um að krafan væri veðsett, svo sem áskilið er í 1. mgr. 46. gr. laga nr. 75/1997. Ákvæði í samningi þess efnis að skuldari skuli inna greiðslu af hendi á tiltekinn reikning getur ekki komið í stað slíkrar tilkynningar, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar 8. september 2000 í máli nr. 334/2000 og 18. nóvember 2004 í máli nr. 211/2004. Því síður geta stjórnunartengsl milli skuldarans og þess, sem krefst viðurkenningar á veðrétti, gert það. Samkvæmt þessu var krafa sóknaraðila á hendur Isis Investments Ltd. og síðar þrotabúi þess ekki undirorpin veðrétti varnaraðila.
Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, verður aðalkröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila hafnað, en henni var lýst eftir að kröfulýsingarfresti lauk. Varakröfu varnaraðila, sem reist er á því að stofnast hafi til veðréttar honum til handa, er jafnframt hafnað.
Miðað við þessi málsúrslit verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Kröfum varnaraðila, Kaupþings ehf., á hendur sóknaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., er hafnað.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 3.000.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2016.
I.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál um slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins 5. júní 2015 með bréfi varnaraðila með vísan til 3. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, sbr. 171. gr. sömu laga. Málið var tekið til úrskurðar 4. maí 2016.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans, að fjárhæð 5.625.219,49 bresk pund, verði viðurkennd við gjaldþrotaskipti á varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans, að fjárhæð 4.369.000 bresk pund, ásamt áföllnum vöxtum á innlánsreikningi nr. 322-38-200075 til uppkvaðningar úrskurðar, verði viðurkennd við gjaldþrotaskipti á varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað að skaðlausu.
II. Málavextir.
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þau að haustið 2005 tók sóknaraðili, ásamt öðrum, þátt í að fjárfesta í bresku verslunarkeðjunni Somerfield, m.a. með því að leggja Tazamia Limited (frá Bresku Jómfrúareyjunum) til 67.150.000 bresk pund vegna fjárfestingarinnar. Sóknaraðili hafði milligöngu um að bjóða nokkrum völdum fjárfestum sem voru í einkabankaþjónustu hjá sóknaraðila þátttöku í framangreindri fjárfestingu og varð hlutdeild þeirra í fjármögnuninni alls 40.000.000 breskra punda af framangreindum 67.150.000 bresku pundum. Varnaraðili, sem þá hét Saxbygg ehf., var einn þessara aðila.
Þátttaka varnaraðila í þessari fjárfestingu fólst í að varnaraðili gerði svokallaðan hlutdeildarsamning (e. sub-participation agreement) við Isis Investment Limited („Isis“), sem staðsett er á eyjunni Mön, þar sem hann skuldbatt sig til að taka þátt í að fjármagna kaup á Somerfield með framlagi að fjárhæð 3.000.000 breskra punda að viðbættri þóknun að fjárhæð 75.000 bresk pund. Samkvæmt hlutdeildarsamningnum skyldi Isis greiða ágóða varnaraðila að fjárfestingunni inn á bankareikning 0329-26-480058 hjá sóknaraðila (vörslureikning).
Með framsalssamningi (e. Transfer Deed), dags. 29. desember 2005, yfirtók Isis réttindi og skyldur sóknaraðila samkvæmt samningnum við Tazamia. Kaupþing og Isis voru nátengd enda var Isis undir yfirráðum og stjórn Kaupþings og var þáverandi stjórnarformaður sóknaraðila, Sigurður Einarsson, jafnframt stjórnarformaður Isis.
Af gögnum málsins verður ráðið að ávinningur varnaraðila, og annarra fjárfesta, af þátttökunni hafi falist í því að fá hlutdeild í 90% af mögulegum ágóða Isis vegna sölu fjárfestingarinnar í Somerfield ásamt endurgreiðslu á framlagi sínu, að því marki sem Isis fékk greitt frá Tazamia samkvæmt lánssamningnum og allt í hlutfalli við þátttöku hvers fjárfestis. Hvort tveggja skyldi Isis greiða fjárfestunum eftir að Tazamia hafði endurgreitt Isis lán samkvæmt framangreindum lánssamningi og hlutdeild Isis í söluhagnaði verslunarkeðjunnar. Þrátt fyrir nafngiftina var ekki um formlegt hlutdeildarskírteini að ræða í skilningi laga nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði.
Varnaraðili var samkvæmt hlutdeildarsamningi sínum skuldbundinn til þess að inna greiðslu sína til Isis af hendi í breskum pundum. Varnaraðili gerði samning við ISIS Investment Limited 6. janúar 2006 þar sem kveðið var á um að hann myndi taka þátt í fjármögnun kaupanna í Tazamia fyrir 3.000.000 breskra punda, en 75.000 bresk pund voru greidd varnaraðila í formi þóknunar. Í þeim samningi er móttökureikningur sóknaraðila skilgreindur sem reikningur hans nr. 0329-26-480058 hjá varnaraðila á Íslandi.
Varnaraðili fjármagnaði greiðslu sína til Isis með eiginfjárframlagi að fjárhæð 1.025.000 bresk pund en einnig með láni frá sóknaraðila að fjárhæð 2.050.000 bresk pund. Sóknaraðili hafði milligöngu um greiðslu vegna hlutdeildarsamnings varnaraðila og Isis. Sóknar- og varnaraðili gerðu samhliða framangreindum gerningum með sér lánssamning í formi skiptisamnings, dags. 6. janúar 2006, þar sem kveðið var á um að sóknaraðili myndi lána varnaraðila 2.050.000 bresk pund. Samkvæmt samningnum skyldi lánsfjárhæðin, 2.050.000 bresk pund,, bera 5,5938% vexti og var þar mælt fyrir um að lánið skyldi gert upp 8. janúar 2007.
Í skiptisamningnum var tiltekið sérstaklega að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu sinni hefði viðskiptamaður lagt fram tryggingar sem tilgreindar væru í handveðssamningi/handveðssamningum vegna afleiðusamninga og viðaukum þeirra sem teldust hluti af skiptisamningnum.
Skilmálum skiptisamningsins frá 6. janúar 2006 var breytt 8. janúar 2007 og 8. janúar 2008. Samkvæmt síðari skilmálabreytingunni var nýr höfuðstóll skuldarinnar tilgreindur sem samanstóð af upphaflegum höfuðstól auk áfallinna vaxta. Þannig var nýr höfuðstóll skuldarinnar 2.308.426,56 bresk pund og skyldi lánsfjárhæðin bera 6,53% vexti. Þá var kveðið á um það í samningnum að til uppgjörs skyldi koma 8. janúar 2009. Óumdeilt er með aðilum að til skuldarinnar hafi verið stofnað óháð því samningsformi sem var notað um lánveitinguna.
Í málinu liggur fyrir handveðssamningur á milli aðila, dags. 16. janúar 2008, þar sem varnaraðili setti sóknaraðila að handveði „öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. öll verðbréf og peningainnstæður á vörslusafni veðsala hjá veðhafa nr. #480058, og alla innistæðu þess eins og hún er á hverjum tíma (einnig nefnt hið „veðsetta“ eða „veðandlagið“).“ Í samningnum kom jafnframt fram að veðið næði til „allra verðmæta sem [yrðu] geymd á ofangreindu vörslusafni veðsala, bæði þeirra sem [væru] til staðar við undirritun“ samningsins og einnig þeirra sem bættust við síðar og kæmu í stað stað þáverandi verðmæta, þ.e. veðandlagsins. Þá var tekið fram í samningnum að meðfylgjandi honum væri útprentun sem sýndi stöðu fjármálagerninga/verðmæta á vörslusafninu, eins og hún væri við undirritun handveðssamningsins, en ekki væri um tæmandi talningu á veðandlaginu að ræða. Þá sagði í samningnum:
,Veðandlagið er hér með sett veðhafa að handveði til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til veðhafa á öllum skuldum og fjárskuldbindingum í tengslum við afleiðuviðskipti, eins og þau eru skilgreind í b-lið 2. mgr. 2. gr. laga nr. 33/2003, sem veðsali tekst á hendur gagnvart veðhafa, sem þegar hafa stofnast eða síðar munu stofnast, í hvaða formi sem er og í hvaða gjaldmiðli sem er, hvort sem um er að ræða skiptasamninga, framvirka samninga, valrétti eða hvaða aðrar afleiður sem er og hvort sem um er að ræða höfuðstól, verðbætur, gengihækkanir, vexti, dráttarvexti og hvers kyns kostnað þar með talinn innheimtukostnað lögmanna.
Veðandlagið hér með sett veðhafa að handveði til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum veðsala, sbr. ofangreint og stendur það til tryggingar endurgreiðslu á höfuðstól skuldarinnar, gengismun, vöxtum og dráttarvöxtum, svo og hvers konar kostnaði sem leiða kann af vanskilum, málssókn eða öðrum réttargjöldum, lögmannsþóknun eða öðru er veðhafa ber að greiða og framlengingu á þessum skuldum eða samningum, eins og nánar er kveðið á um i handveðssamningi þessum.
Veðsetning þessi stendur óhögguð þótt skuldaskjölum sé breytt, þ.á.m. þó svo ákvæðum um tryggingar sé breytt eða greiðslufrestir veittir einu sinni sem oftar á skuldum þeim sem veðandlagið á að tryggja, sama gildir ef skuldirnar eru framlengdar eða endurnýjaðar með nýjum skjali/skjölum.
Hvers kyns greiðslum sem til eru komnar vegna veðandlagsins, svo sem arði, vöxtum, afborgunum, greiðslum vegna innlausnar eða lækkunar hlutafjár, er veðhafa heimilt að ráðstafa til greiðslu á skuldbindingum þeim sem veðandlagið á að tryggja, enda þótt þær séu ekki gjaldfallnar, leggja þær inn á sérstakan reikning sem skal vera handveðsettur með sama hætti og með sömu skilmálum og greinir í handveðssamningi þessum, leggja þær inn á vörslureikning veðsala og veðsetja þær veðhafa þar, en sé fjárfest í nýjum fjármálagerningum fyrir andvirðið nær handveðsréttur veðhafa til þeirra.
Eftir að Isis hafði fengið endurgreitt á grundvelli lánssamnings við Tazamia (e. facility agreement), nánar tiltekið hinn 27. febrúar 2009, en áður en Isis greiddi þeim fjárfestum sem höfðu tekið þátt í að fjármagna verkefnið samkvæmt hlutdeildarsamningum, þar á meðal varnaraðila, var Isis tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði dómstóls á eyjunni Mön (High Court of Justice of the Isle of Man) hinn 8. mars 2010. Af því leiðir að fjárfestarnir áttu kröfu á hendur þrotabúi Isis á grundvelli hlutdeildarsamninganna.
Hinn 10. mars 2015 kom til greiðslu úr þrotabúi Isis. Með samkomulagi dags. 15. janúar 2015 sömdu sóknaraðili og skiptastjóri varnaraðila um að hinn síðarnefndi myndi beina þeim tilmælum til skiptastjóra Isis að fjármunir sem áttu samkvæmt samningnum að berast inn á hinn veðsetta reikning skyldu greiddir inn á sérgreindan reikning í Arion banka í nafni varnaraðila.
Samhliða lýstu aðilar því yfir að gerð samkomulagsins og móttaka varnaraðila á fjármunum myndu ekki raska efnislegum rétti hvors aðila frá því sem orðið hefði ef samkomulagið hefði ekki verið gert. Í samræmi við það tók skiptastjóri við 4.369.000 breskum pundum inn á vörslureikning varnaraðila nr. 322-38-200075, svo sem skiptastjóri varnaraðila tilkynnti um með bréfi dags. 12. mars 2015.
Með kröfulýsingu, dags. 1. apríl 2015, lýsti sóknaraðili kröfu vegna lánssamningsins sem hann gerði við varnaraðila 6. janúar 2006 vegna fjárfestingar í Somerfield. Var höfuðstól kröfunnar lýst sem 2.459.166,81 breskra punda en dráttarvöxtum frá 8. janúar 2009 til 1. apríl 2015 að fjárhæð 3.166.052,68 bresk pund, eða alls 5.625.219,49 bresk pund.
Í kröfulýsingunni eru viðskipti aðila rakin og kemur þar fram að samhliða lánveitingu kröfuhafa til þrotamanns að fjárhæð 2.000.000 breskra punda hafi verið undirrituð lánaskjöl í formi skiptasamnings. Samkvæmt ákvæðum samningsins hafi þrotamaður skuldbundið sig til að greiða kröfuhafa lánið til baka ásamt þeim hækkunum sem yrðu á gengi myntar samningsins frá samningsdegi. Þá hafi þrotamaður skuldbundið sig til að greiða kröfuhafa umsamda vexti af lánsfjárhæð en vextir hafi alls numið 4,5938%. Í skiptisamningnum hafi verið vísað til „TAZ AGR“ og hafi sú tilvísun eingöngu verið til þeirrar fjárfestingar þrotamanns sem lýst sé í kröfulýsingu.
Þá kemur fram í kröfulýsingunni að upphaflegur gjalddagi samkvæmt skiptisamningnum hafi verið 8. janúar 2007 en þeim gjaldaga hafi verið breytt með breytingu á skilmálum samningsins 8. janúar 2007 og hann framlengdur til 8. janúar 2007. Þá hafi lánsfjárhæðum og vaxtaprósentum verið breytt til samræmis við stöðu lánsins 8. janúar 2007. Hinn 8. janúar 2008 hafi kröfuhafi og þrotamaður aftur undirritað breytingu á skilmálum samningsins og framlengt gjalddaga til 8. janúar 2009, auk þess sem lánsfjárhæð og vaxtaprósentum hafi verið breytt.
Í kröfulýsingunni segir enn fremur:
„Kröfuhafi byggir kröfu sína á að hann hafi veitt þrotamanni peningalán sem þrotamanni er skylt að endurgreiða. Samhliða peningaláninu hafi þrotamaður með samningi dags. 6. janúar veðsett væntanlegar fjárkröfur sínar vegna endurgreiðslu á fjárfestingunni í Somerfield til handa kröfuhafa. Ber veðsamningurinn með sér að allar greiðslur sem þrotamanni áttu að berast vegna fjárfestingarinnar í Somerfield hafi átt að berast inn á þar til greindan reikning nr. 0329-26-480058 hjá Kaupþingi, en þann reikning hafði þrotamaður veðsett til tryggingar á viðskiptum sínum við kröfuhafa, sbr. fylgiskjal 3. Að mati kröfuhafa eru öll skilyrði veðsetningar á almennri fjárkröfu sem þessari uppfyllt skv. íslenskum lögum og lögum þeim er gilda á eyjunni Mön, þ.á.m. að greiðanda fjárkröfunnar, þ.e. Isis, hafi verið veðsetningin ljós. Byggir kröfuhafi afstöðu sína á að kröfuhafi hafi farið með stjórn greiðanda Isis, stjórnarformaður kröfuhafa, Sigurður Einarssonar, hafi verið stjórnarformaður Isis, kröfuhafi hafi undirbúið viðskiptin og það hafi verið meðvituð ákvörðun allra aðila að tilgreining vörslureiknings þrotamanns hjá kröfuhafa, en sá reikningur var handveðsettur kröfuhafa vegna allra afleiðuviðskipta hans við kröfuhafa sem „Receiving account“, sbr. fylgiskjal 1. Breytir það engu að mati kröfuhafa þó svo að Isis hafi síðar verið úrskurðaður gjaldþrota og skipaður skiptastjóri, enda skiptastjóri bundinn við þá löggerninga sem Isis stóð að fyrir skipun skiptastjóra. Þá byggir kröfuhafi á að það haggi ekki veðsetningunni þó svo að krafan hafi ekki verið orðin gjaldkræf þegar veðsetningin hafi farið fram. Þá hafi þrotamanni verið óheimilt að breyta viðtökureikningnum (e. Receiving account) nema með samþykki og fyrir atbeina Isis, en eins og áður segir fór kröfuhafi með stjórn Isis.
Kröfuhafi telur að veðréttur sinn í fjármunum sem skiptastjóri þrotamanns hefur móttekið eigi enn frekari stoð í lögum Manar á Írlandshafi (þar sem Isis er skráð), en ensk lög giltu um samning á milli þrotamanns og Isis. Áskilur kröfuhafi sér allan rétt til að afla sönnunar um slík atriði.“
Skiptastjóri varnaraðila hafnaði kröfu sóknaraðila með bréfi, dags. 9. apríl 2015, en í bréfinu sagði meðal annars svo:
1. Kröfu þessari hefði borið að lýsa eigi síðar en 26. júlí 2009 en þá lauk kröfulýsingarfresti. Hún er því fallin niður. Að auki var henni ekki lýst án ástæðulauss dráttar að því marki sem undantekningarákvæði laga gætu átt við. Mögulegur veðréttur fellur því niður við vanlýsingu enda ekki hægt að fullnusta veðið með beinum hætti í skilningi 4. mgr. 116. gr. [laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti].
2. Ekki verður séð að það hafi stofnast að lögum til tryggingarréttinda, enda skilyrði ákvæða laga um samningsveð ekki uppfyllt að íslenskum lögum og ekki sýnt fram á að ákvæði laga á eyjunni Mön séu þess efnis að leitt geti til að viðurkenna beri tryggingaréttindin að íslenskum lögum.
3. Gerð er krafa um dráttarvexti frá 8.1. 2009. Sú krafa fær ekki staðist að mati skiptastjóra en undirstrikar að lýsa hefði átt kröfunni áður en kröfulýsingarfrestur rann út.
4. Ekki verður séð að krafa Kaupþings sé andlag nokkurs gilds veðsamnings sem gerður hefur verið en um er að ræða samningssamband milli þb. Icarusar og Isis á eyjunni Mön.
Að því leyti sem framangreint þrýtur er lýst yfir riftun á veðsetningunni þar sem möguleg veðsetning gerðist eftir að krafa stofnaðist en innan sex mánaða fyrir frestdag.
Þar sem ekki tókst jafna ágreininginn vísaði skiptastjóri varnaraðila ágreiningnum til héraðsdóms, með bréfi dags. 13. maí 2015.
III.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir á því að krafa hans samkvæmt kröfulýsingu eigi að komast að við skipti á þrotabúi varnaraðila og að hún skuli viðurkennd eins og henni er lýst þar. Sóknaraðili byggir aðallega á því að um sé að ræða veðkröfu, sbr. 111. gr. laga nr. 21/1991 en til vara að um sé að ræða búskröfu, sbr. 3. tölul. 110. gr. laganna.
Aðalkrafa
Sóknaraðili telur ágreiningsefni málsins lúta að því hvort sóknaraðili eigi tryggingarréttindi í eign varnaraðila vegna fjárfestingarinnar í Isis þar sem sá fjármálagerningur sem gerður var samhliða fjárfestingunni hafi verið handveðsettur sóknaraðila frá upphafi eða í síðasta lagi við greiðslu á grundvelli fjármálagerningsins til varnaraðila. Þá telur sóknaraðili að varnaraðili hafi veðsett sóknaraðila kröfu sína á hendur Isis til tryggingar á endurgreiðslu lánsins samhliða lánveitingu sóknaraðila.
Aðilar málsins hafa sammælst um að við úrlausn þess verði litið svo á að Isis hafi geymslugreitt kröfuna vegna fjármálagerningsins sökum vafa um það hver sé réttur eigandi verðmætanna. Þannig teljist hvorki kröfunni né veðréttindum lokið fyrr en ágreiningur aðila hefur verið til lykta leiddur.
Fjármálagerningur Isis og varnaraðila var handveðsettur sóknaraðila
Sóknaraðili byggir í fyrsta lagi á því að samkvæmt handveðssamningi milli sóknaraðila og varnaraðila hafi varnaraðili sett að handveði öll verðmæti inni á eignastýringarsafni varnaraðila hjá sóknaraðila númer 480058 til tryggingar á þeim skuldbindingum sem varnaraðili hafði undirgengist gagnvart sóknaraðila.
Sóknaraðili vísar til þess að samningnum hafi fylgt útprentun sem sýndi stöðu fjármálagerninga á vörslusafninu en tekið var fram að ekki væri um tæmandi talningu að ræða. Meðal fjármálagerninga sem tilgreindir voru á útprentuninni var TAZ AGR og Tazamia, sem er auðkenning þeirra fjármálagerninga sem hlutdeildarsamningur Isis og varnaraðila laut að. Veðandlagið var allt frá undirritun samninga tilgreint á eignastýringarsafni varnaraðila með nákvæmum hætti, sbr. eignastýringaryfirlit frá 1. janúar 2006 til 25. september 1015. Þar kemur fram tilvísun til Tazamia Holdings og Tazamia Holdings Agreement, nafnverð og myntgengi.
Sóknaraðili byggir á því að tilgreining með þessum hætti uppfylli öll skilyrði laga um samningsveð nr. 75/1997 („svl.“) og að með handveðssamningnum hafi varnaraðili afsalað sér umráðum veðandlagsins og því hafi handveðrétturinn öðlast réttarvernd þá þegar, sbr. 2. mgr. 22. gr. svl. Samkvæmt ákvæðinu sé heimilt að stofna til handveðréttar í lausafé en samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á hugtakinu lausafé er um að ræða samheiti yfir allar eignir sem ekki falla undir hugtakið fasteign. Því falli hvers kyns eignarréttindi undir hugtakið hvort sem þau lúta að hlutbundnum eða óhlutbundnum verðmætum. Það sé því hafið yfir vafa að varnaraðila var heimilt að handveðsetja sóknaraðila þau eignarréttindi varnaraðila sem fólust í umræddum fjármálagerningum og kröfum varnaraðila á grundvelli þeirra á hendur þriðja aðila.
Sóknaraðili bendir á að í handveðssamningnum komi skýrlega fram að veðsali skuli sviptur umráðum þess á meðan kröfur þær sem veðandlagið á að tryggja eru ekki að fullu greiddar og að veðsala sé óheimilt að ráðstafa veðandlaginu með hvaða hætti sem er nema hann hefði áður fengið skriflegt leyfi veðhafa, þ.e. sóknaraðila.
Þessu til viðbótar bendir sóknaraðili á að í lánssamningi aðila, sem var í formi skiptasamnings, var vísað til Tazamia Holding Agreement sem skuldbindingar sóknaraðila. Af því megi ráða að aðilar hafi litið svo á að veðandlagið hafi verið í umráðum sóknaraðila og að krafa á hendur Isis gengi beint til uppgjörs á lánssamningnum.
Verði ekki talið að í framanröktu hafi falist afhending hins veðsetta til sóknaraðila byggir sóknaraðili á að líta beri svo á að veðandlagið hafi verið í umráðum Isis frá gildistöku handveðréttarins og með því hafi handveðréttur öðlast réttarvernd, með vísan til 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Samkvæmt ákvæðinu er ein leið til að tryggja réttarvernd handveðréttar að afhenda veðið aðila sem hefur tekið að sér að hafa umráð veðsins fyrir veðhafa þannig að eigandinn sé sviptur möguleikanum á því að hafa veðið undir höndum.
Í því sambandi bendir sóknaraðili á að svokallaður viðtökureikningur varnaraðila (e. Receiving Account) var skilgreindur sem reikningur nr. 0329-26-480058 hjá Kaupþingi banka á Íslandi, sbr. 5. gr. staðfestingar frá 6. janúar 2006. Varnaraðili hafði handveðsett sóknaraðila þann reikning með sama hætti og fjármálagerningurinn var handveðsettur. Því hafi verið ljóst að ef til greiðslu kæmi á grundvelli fjármálagerningsins bæri Isis að inna greiðsluna af hendi inn á tilgreindan reikning og því gat varnaraðili ekki ráðið yfir þeim verðmætum sem voru fólgin í fjármálagerningnum.
Sóknaraðili telur aðilum hafa verið ljóst að óheimilt var að breyta viðtökureikningnum, enda hefði það verið í andstöðu við handveðssamninginn. Auk þess hafi verið tekið skýrlega fram að slík breyting var háð samþykki Isis sem hafði undirgengist fyrrgreinda skuldbindingu. Það eitt að bú Isis og varnaraðila hafi verið tekið til skipta geti ekki breytt þessum samningsskuldbindingum. Auk þess hafi verið sérstaklega tiltekið í skilmálum samnings Isis og varnaraðila að Isis hafði ekki heimild til að skuldajafna hugsanlegum kröfum sínum á hendur varnaraðila enda hefði slíkt verið í ósamræmi við handveðrétt sóknaraðila. Þá hafi Kaupþing séð um skjalagerð fyrir Isis og því augljóst að Kaupþing upplýsti Isis um handveðréttinn.
Með hliðsjón af öllu framansögðu telur sóknaraðili ljóst að þeim kröfum sem gerðar verði að lögum fyrir handveðsetningu þeirra eignar- og kröfuréttinda varnaraðila sem fólust í framangreindum fjármálagerningum sé fullnægt. Þá telur sóknaraðili einnig ljóst að það hafi verið ætlun aðila frá upphafi að sóknaraðili nyti slíkra tryggingarréttinda yfir væntum endurheimtum varnaraðila af fjárfestingunni. Því sé sú fjárhæð, sem varnaraðili fékk greidda á grundvelli fjárfestingarinnar, bundin tryggingarréttindum og sóknaraðila hafi því verið heimilt að ráðstafa henni upp í kröfur sínar á hendur varnaraðila. Beri því að fallast á kröfur sóknaraðila.
Innstæða varnaraðila er handveðsett sóknaraðila
Verði ekki fallist á að fjármálagerningurinn hafi verið veðsettur frá upphafi byggir sóknaraðili á því að líta beri svo á að handveðsetningin hafi öðlast réttarvernd við geymslugreiðslu Isis á hlutdeild varnaraðila í fjárfestingunni. Líta beri svo á að geymslugreiðslan hafi sömu réttaráhrif og ef greiðslan hefði borist inn á reikning nr. 0329-26-480058. Skýrt sé í samningi varnaraðila og Isis að greiðsla skyldi berast inn á áður tilgreindan reikning hjá sóknaraðila (reikning nr. 0329-26-480058). Ótvírætt sé af handveðssamningi aðila að hann nái til allra verðmæta á vörslusafni varnaraðila sem og greindum reikningi og að veðið nái til allra verðmæta sem verða geymd þar, bæði þeirra sem voru til staðar við undirritun samnings og einnig þeirra sem bætast við síðar eða koma í stað þeirra verðmæta.
Samkomulag aðila um greiðslu kröfu varnaraðila á hendur Isis leiði þannig til þess að handhöfn varnaraðila á fjárhæðinni sé í raun bundin sömu kvöðum og hefði hún verið greidd inn á reikning nr. 0329-26-480058. Sóknaraðili telur óumdeilt að sá reikningur er handveðsettur sóknaraðila, sbr. handveðssamning aðila. Þannig standi allar fjárhæðir á reikningnum til tryggingar á efndum varnaraðila á skuldbindingum sínum við sóknaraðila. Af því leiðir að fallast ber á kröfur varnaraðila.
Krafa varnaraðila á hendur Isis er veðsett sóknaraðila
Sóknaraðili telur hvað sem öðru líður ljóst að krafa varnaraðila á hendur Isis á grundvelli fjármálagerninganna hafi verið veðsett honum í skilningi 1. mgr. 45. gr. svl. og öll skilyrði slíkrar veðsetningar hafi verið uppfyllt. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laganna sé heimilt að veðsetja almenna fjárkröfur sem maður á á hendur nafngreindum skuldara eða kemur til með að eignast. Slík krafa öðlist réttarvernd við það að skuldarinn fær tilkynningu um slíka veðsetningu, hvort heldur frá veðsala eða veðhafa, sbr. 1. mgr. 46. gr. svl.
Sóknaraðili byggir á því að slíka veðsetningu megi ráða af fyrirliggjandi gögnum og öllum atvikum sem rakin hafa verið. Ekki skipti máli í því samhengi að veðsamningur beri heitið handveðssamningur, enda sé skýrt af honum og yfirliti yfir vörslureikninginn að aðilar sömdu um veðsetningu kröfunnar á grundvelli fjármálagerningsins sem vísað var til. Þá sé ljóst af framangreindu að Isis hafi fengið um það vitneskju og með því öðlaðist veðsetningin réttarvernd.
Verði ekki talið að veðsetning sé fólgin í veðskjölum – þvert gegn skilningi sóknaraðila – þá telur sóknaraðili ljóst að allir aðilar að fjármálagerningunum, þ.m.t. forsvarsmenn Isis (skuldarans), hafi sammælst um slíka veðsetningu. Munnleg veðsetning sé jafngild skriflegri.
Um kröfufjárhæð og gjalddaga
Sóknaraðili telur ótvírætt að verðmætin sem tilgreind eru í handveðssamningnum hafi staðið til tryggingar á skuldbindingu varnaraðila samkvæmt lánssamningi aðila, sbr. tilvísun þess efnis í lánssamningnum og í handveðssamningnum.
Í dómkröfu sóknaraðila er krafist viðurkenningar á veðrétti vegna kröfu að fjárhæð 5.625.219,49 bresk pund, þar af höfuðstól að fjárhæð 2.459.166,81 bresk pund en dráttarvextir að fjárhæð 3.166.052,68 bresk pund. Svo sem rakið var í vísun varnaraðila á ágreiningsmálinu til héraðsdóms er ekki ágreiningur að til skuldar hafi verið stofnað og að vextir séu rétt út reiknaðir miðað við þær forsendur að gjalddaginn sé 8. janúar 2009. Hins vegar gerir varnaraðili fyrirvara um þá dagsetningu.
Sóknaraðili telur það leiða með skýrum hætti af 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, að dráttarvextir reiknast frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.
Um gjalddaga er það að segja að upphaflegur gjalddagi samningsins var, eins og rakið var í málsatvikum, hinn 8. janúar 2007. Þann dag undirrituðu sóknaraðili og varnaraðili skilmálabreytingu á samningnum og var hann framlengdur til 8. janúar 2008. Sams konar framlenging átti sér stað hinn 8. janúar 2008, þegar sóknaraðili og varnaraðili undirrituðu skilmálabreytingar sem m.a. fólu í sér framlengingu samningsins til 8. janúar 2009. Gjalddagi samningsins teljist því 8. janúar 2009.
Um heimild sína til að höfuðstólsfæra vexti og dráttarvexti vísar sóknaraðili til 12. gr. laga nr. 38/2001. Þótt vextir og dráttarvextir séu ekki höfuðstólsfærðir telur sóknaraðili að krafa vegna þeirra sem grundvallast á lánssamningnum njóti veðréttinda í þeirri eign sem áður hefur verið lýst. Sóknaraðili vísar um það til handveðssamnings aðila, þar sem skýrt sé kveðið á um að veðið standi til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum til sóknaraðila á öllum skuldum og fjárskuldbindingum, þ.m.t. vöxtum og dráttarvöxtum.
Sóknaraðili bendir á að krafa hans sé nokkru hærri en þeir fjármunir sem liggja inni á áður tilgreindum bankareikningi hjá Arion banka en við móttöku á fjármununum námu þeir alls 4.369.000 breskum pundum. Að sögn sóknaraðila helgast það af því að hann telur sig eiga tilkall til þeirra vaxta sem fjármunirnir komi til með að bera á innlánsreikningnum. Sóknaraðili áskilur sér rétt til framlagningar sönnunargagna um áfallna vexti við aðalmeðferð málsins.
Verði talið að krafa sóknaraðila nemi hærri fjárhæð en þeim fjármunum sem liggja á framangreindum reikningi Arion banka hf. er þess krafist að eftirstöðvar kröfunnar verði viðurkenndar sem almenn krafa við skiptin á varnaraðila á grundvelli 113. gr. gþl.
Krafan á að fá að komast að og veðréttur er ekki niður fallinn né riftanlegur
Sóknaraðili byggir á og telur ljóst að krafa hans eigi að komast að við skipti á búi varnaraðila á grundvelli meginreglu 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991. Í lagagreininni felist sú meginregla að lánardrottinn, sem nýtur heimildar til fullnustu fjárkröfu á hendur þrotabúi án frekari dóms, sáttar eða aðfarar í skjóli tryggingarréttinda fyrir henni í eign þess, geti fylgt þeim rétti sínum eftir án tillits til þess hvort hann hafi lýst kröfu sinni við gjaldþrotaskiptin.
Þar sem sóknaraðili eigi tryggingarréttindi í eignum þrotabúsins telur hann augljóst að krafa sín fái komist að. Sóknaraðili byggir á sömu sjónarmiðum hvað varðar almenna kröfu hans en byggir jafnframt á 5. tölul. 1. mgr. 118. gr. gþl., enda hafi sóknaraðila fyrst orðið ljóst eftir úthlutun úr búi Isis að hlutdeild varnaraðila næmi lægri fjárhæð en heildarskuld varnaraðila samkvæmt lánssamningi. Því beri að líta svo á að krafan hafi fyrst orðið til við greiðslu Isis á fjármunum til varnaraðila.
Sóknaraðili mótmælir sjónarmiðum varnaraðila um að meintur veðréttur sóknaraðila sé fallinn niður sökum þess að honum var ekki lýst á innköllunarfresti, enda hafði ekki komið til greiðslu vegna veðandlagsins á innköllunarfresti. Skiptastjóri varnaraðila tilkynnti um móttöku greiðslunnar þann 15. mars 2015, svo sem rakið var, og var kröfunni lýst svo fljótt sem auðið var í kjölfar þess, sbr. 5. tl. 118. gr. gþl.
Sóknaraðili mótmælir einnig þeim sjónarmiðum sóknaraðila að um riftanlega ráðstöfun sé að ræða, enda hafi stofnast til veðréttinda, bæði kröfunnar á hendur Isis og handveðsetningar vörslureiknings, um leið og samningur komst á en í síðasta lagi í tengslum við undirritun handveðssamnings 16. janúar 2008. Frestdagur varnaraðila var 14. maí 2009 og því getur ekki komið til riftunar veðsetningarinnar, enda stofnaðist til þeirra um leið og stofnað var til skuldbindingarinnar og alltaf meira en sex mánuðum fyrir frestdag varnaraðila.
Varakrafa
Varakrafa sóknaraðila byggir á því að verði af einhverjum sökum litið svo á að móttaka varnaraðila á fjármunum frá Isis hafi réttaráhrif þannig að veðréttindi sóknaraðila falli niður eigi sóknaraðili skaðabótakröfu á hendur þrotabúinu á grundvelli 3. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili vísar til fyrri röksemda um þær skuldbindingar sem varnaraðili undirgekkst með tilvísuðum samningum. Sóknaraðili telur augljóst af samningum aðila og málsatvikum öllum að hugur aðila stóð til þess að andvirði fjárfestingarinnar rynni fyrst til uppgjörs á kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila. Meðal annars hafi veðsetningu á bankareikningi, sem tilgreindur var sem greiðslustaður kröfu varnaraðila á hendur Isis, verið ætlað að tryggja þau réttaráhrif. Hefði samningnum verið fylgt að þessu leyti stæði að mati sóknaraðila enginn ágreiningur um tilkall sóknaraðila til greiðslunnar á grundvelli veðréttar.
Sóknaraðili byggir á því að varnaraðili hafi mátt vita að greiðslustaður kröfunnar hafi verið hinn handveðsetti bankareikningur. Verði talið að krafa varnaraðila á hendur Isis hafi ekki verið veðsett sóknaraðila, og að handveðréttur sóknaraðila (hvort sem er handveðréttur í heildarfjárfestingunni eða handveðréttur yfir bankareikningnum sem var greiðslustaður kröfunnar) hafi ónýst við það að greiðsla Isis var innt af hendi inn á annan bankareikning en þann sem tilgreindur var sem greiðslustaður kröfunnar, sé ljóst að sóknaraðili hefur orðið fyrir tjóni sem nemur verðmæti greiðslunnar. Það tjón sé þá eingöngu að rekja til þess að varnaraðili fylgdi ekki samningsskuldbindingum sínum og fór fram á að fjárhæðin væri greidd annað án þess að tryggja um leið að handveðréttur sóknaraðila ónýttist ekki. Telur varnaraðili það saknæma og ólögmæta háttsemi. Teljist slíkar aðstæður uppi ber að viðurkenna varakröfu sóknaraðila. Sóknaraðili telur ljóst af 5. tölul. 118. gr. gþl. að slík krafa eigi að komast að við skiptin.
Málsástæður varnaraðila
Krafan fallin niður vegna vanlýsingar:
Varnaraðili telur að krafa sóknaraðila sé fallin niður vegna vanlýsingar, sbr. 1. mgr. 118. gr. gþl. Varnaraðili vísar til þess að þegar kröfulýsingarfrestur sé liðinn komist ekki frekari kröfur að nema ákvæði 1.-6. tölul. 118. gr. gþl. eigi við. Í ljósi þess að ákvæðið sé undantekningarákvæði frá aðalreglu 117. gr. gþl. beri að skýra það þröngt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 19/2013.
Í því sambandi vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi vitað eða mátt vita um allt sem máli skiptir og því átt þess raunhæfan kost að lýsa kröfum innan kröfulýsingarfrests. Hann hafi lýst öðrum kröfum sínum í bú sóknaraðila innan kröfulýsingarfrests og haft fulla vitneskju um gjaldþrotaskiptin, svo og gjaldþrotaskipti ISIS, enda hafi hann sjálfur staðið að því að þau skipti urðu. Þá hafi sóknaraðili vitað allt um eðli og efni allra samninga sem tengjast þessu máli, þar sem hann hafi sjálfur staðið að gerð þeirra. Hann hafi því enga afsökun fyrir því að hafa ekki lýst kröfum sínum fyrr, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 14/2011.
Veðkrafan fallin niður vegna vanlýsingar:
Varnaraðili telur enga veðkröfu vera fyrir hendi í máli þessu. Þannig hafi mögulegur veðréttur aldrei getað staðið sjálfstætt þegar aðalkrafan var fallin niður, eins og áður er getið, en þegar af þeirri ástæðu verði að hafna kröfum sóknaraðila.
Varnaraðili telur að það sé landlægur misskilningur að ekki þurfi að lýsa veðkröfu við gjaldþrotaskipti. Að mati varnaraðila virðist sá misskilningur fólginn í því að í undantekningartilfellum megi fullnusta veðrétt, samkvæmt 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 þótt krafan sjálf sé niður fallin vegna vanlýsingar. Slíkt eigi ekki við í þessu máli enda hafi sóknaraðili ekki reynt að fullnusta hana.
Varnaraðili vísar í þessu sambandi til þess að ákvæði 1. mgr. 117. gr. gþl. sé fortakslaust um að kröfum, sem ekki verða hafðar uppi samkvæmt 116. gr. laganna, skuli lýsa fyrir skiptastjóra. Kröfunni þurfi þá að lýsa innan tilskilins frests, annars fellur hún niður, sbr. 1. mgr. 118. gr. gþl.
Varnaraðili bendir á að í 2. mgr. 117. gr. gþl. sé tilgreint í dæmaskyni hvers konar kröfum eigi að lýsa í þrotabú. Í sem stystu máli séu það hvers konar kröfur sem hægt sé að gera fyrir dómi en í ákvæðinu komi þó einnig fram að lýsa skuli tilteknum kröfum um „ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu“. Að mati varnaraðila falla veðkröfur meðal annars þarna undir en í dómum Hæstaréttar í málum nr. 459/2010 og 460/2010 sé tekið af skarið um þetta svo ekki verði um villst.
Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi ekki getað fullnustað kröfur sínar með þeirri aðferð sem um getur í 4. mgr. 116. gr. enda hafi engin skilyrði verið til þess. Hefði honum verið það unnt myndi hann hafa gert það. Varnaraðili vekur athygli á því að sóknaraðili byggi ekki á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir nr. 46/2005, enda hafi engin skilyrði verið til þess.
Hvernig sem á allt er litið telur varnaraðili að bæði hafi þurft að lýsa láni og veðkröfu án ástæðulauss dráttar ef kröfulýsing sóknaraðila í þrotabú varnaraðila að liðnum innköllunarfresti ætti að geta komið til álita.
Varnaraðili átti aldrei meinta veðkröfu á hendur sóknaraðila:
Varnaraðili telur ekki ljóst af greinargerð sóknaraðila til hvaða samnings sé vísað í málatilbúnaði sóknaraðila um að hann eigi handveð í fjármálagerningi. Þannig sé ekki ljóst hvort sóknaraðili eigi þar við samning milli Isis og Tazamia eða samning milli varnaraðila og Isis. Hvorugt séu þó fjármálagerningar sbr. 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti eða 2. gr. l. nr. 46/2005.
Varnaraðili leggur þar að auki áherslu á að hann átti engan hlut að samningum milli Isis og Tazamia. Það hafi til dæmis komið skýrt fram af hálfu sóknaraðila fyrir High Court Of Justice, Chancery Division í London, þar sem fyrirsvarsmaður sóknaraðila, Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl., gaf þá yfirlýsingu til framlagningar í réttinum um að málavextir í málflutningsskjali sóknaraðila fyrir réttinum væru réttir og sannleikanum samkvæmir. Í því skjali var skýlaust tekið fram að fjárfestarnir samkvæmt hlutdeildarsamningnum væru einungis almennir kröfuhafar sem ættu engin forgangsréttindi til fjármuna sem ættaðir voru úr fjárfestingum ISIS í Somerfield. Þá kemur jafnframt fram í skjalinu að um væri að ræða viðskipti milli fjárfesta og ISIS sem veittu þeim engan hlut í viðskiptum milli ISIS og Tazamia.
Það breytir því engu þótt samningur ISIS við varnaraðila feli í sér að ávöxtun fjárfestingar varnaraðila sé nokkurs konar afleiða af viðskiptum ISIS við Tazamia. Hafa má í þessu sambandi hliðsjón af Hrd. 398/2011. Engu máli skiptir heldur þótt starfsemi Isis væri takmörk sett hvað umfang varðar, vegna samninga við þá sem lánuðu Isis peninga í tengslum við viðskipti þess félags við Tazamia.
Að því er snertir þær röksemdir sóknaraðila að um það hafi samist milli aðila máls að varnaraðili skyldi sviptur umráðum þess sem sóknaraðili telur að hafi verið handveðsett þá telur varnaraðili að sóknaraðili líti þar með fram hjá þeirri staðreynd að áform og samningar geta engu máli skipt við niðurstöðu málsins. Þannig sé það í fyrsta lagi grundvallarforsenda fyrir stofnun handveðs að veðsali sé „sviptur umráðum“ hins veðsetta, sbr. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Varnaraðili telur að slík svipting hafi aldrei átt sér um þau verðmæti sem deilt er um í málinu, en fyrir því beri sóknaraðili sönnunarbyrðina.
Varnaraðili mótmælir að auki því að nokkrir samningar hafi verið gerðir þess efnis að varnaraðili skyldi hafa umráð yfir kröfum og réttindum sóknaraðila í tengslum við samninga hans við Isis.
Hvað sem öllu framangreindu líður hafa tryggingarsamningar ekkert gildi gagnvart þrotabúi nema hið veðsetta hafi notið verndar gagnvart lánardrottnum varnaraðila a.m.k. sex mánuðum fyrir frestdag, sbr. Hrd. 753/2012 og Hrd. 720/2012. Sóknaraðili ber sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið. Undir henni hefur hann ekki risið. Að auki sé augljóst af því sem fyrir liggur í málinu að aldrei var um slíka vernd að ræða.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili virðist reisa kröfur sínar á meintum handveðssamningi sem sagður er gerður 7. desember 2007. Samningurinn sé hins vegar óvottaður og ekki undirritaður af hálfu varnaraðila og tók því aldrei gildi. Þá telur varnaraðili að ef samningur þessi væri á annað borð gildur, þá væri hann fallinn niður með yngri samningi, dags. 16. janúar 2008. Þessum síðari veðsamningi hafi verið lýst í búið en hann taki aðeins til afleiðuviðskipta og eigi því ekki við um lánasamninga líkt og samning varnaraðila og Isis. Þá sé ágreiningslaust í málinu að þrátt fyrir formið á samningi aðila þessa máls um 2.000.000 breskra punda hafi aðeins verið um lánaviðskipti að ræða.
Af þessum samningum verði ekki ráðið að sóknaraðili eigi veð í kröfum varnaraðila á hendur Isis. Það hafi til dæmis hvergi verið orðað í upphaflegri kröfulýsingu sóknaraðila í varnaraðila eins og hefði þá þurft, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 460/2010. Veði samkvæmt samningi var því aldrei lýst og alls ekki án ástæðulauss dráttar.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili haldi því fram í greinargerð að með því að gera lánasamning í formi skiptasamnings hafi aðilar „litið svo á“ að hið meinta veðandlag hafi verið í umráðum sóknaraðila. Varnaraðili ítrekar hins vegar að það hafi engu máli skipt hvernig aðilar „litu á“ hlutina þegar kemur að handveði, heldur hvað var raunverulega framkvæmt og hvort umráðasvipting hafi falist í framkvæmdinni.
Varnaraðili telur að þess misskilnings virðist gæta í greinargerð sóknaraðila að hægt sé að veðsetja vörslureikninga og tilgreina þar undirliggjandi verðmæti og telja að þar með séu þau veðsett án þess að þeim fylgi raunverulegar vörslur þess sem telur sig hafa veðið. Varnaraðili telur að til að svo megi vera þurfi verðmætin að tilheyra umræddum reikningum með þeim hætti að aðeins sé hægt að ráðstafa þeim í gegnum slíka reikninga. Þá þurfi slíkar vörslur að geta staðið af sér fullnustugerðir skuldheimtumanna ef á slíkt reyndi, sjá 3. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 22. gr. svl. Til að veðsetning af þessu tagi haldi þurfa undirliggjandi verðmæti að vera tengd vörslureikningi með þeim hætti að þeim verði aðeins ráðstafað í gegnum hann.
Varnaraðili telur að ofangreind atriði hafi aldrei átt við þann samning sem hann gerði við ISIS. Verðmætin sjálf þurfa að vera „á vörslusafni“ eða „innstæða“ eins og segir í kröfulýsingu sóknaraðila. Að auki sé rétt að benda á að ekki verður séð að á þeim vörslureikningi sem um ræðir hafi umþrætt verðmæti nokkurn tíma verið þar tilgreind.
Varnaraðili telur fjarstæðu að halda því fram að Isis hafi annast vörslur meints veðs í umboði sóknaraðila. Ekkert í málinu bendi til slíks, auk þess sem það geti ekki staðist að skuldari kröfu sé með vörslur kröfunnar fyrir meintan handveðshafa. Eins og áður er getið átti varnaraðili enga hlutdeild í kröfu Isis á hendur Tazamia.
Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila að í 5. gr. samnings varnaraðila og Isis felist óafturkræf skylda gagnvart sóknaraðila að leggja fjármuni inn á hinn handveðsetta reikning. Vísar varnaraðili til þess að sóknaraðili sé eingöngu nefndur í samningnum sem viðtakandi afgreiðsluskjala og þess háttar og að hann eigi enga aðild að 5. gr. Að mati varnaraðila fer því víðs fjarri að í þessari grein sé nokkuð sem felur í sér handveðssamning.
Hvað sem framangreindu líður telur varnaraðili að dómur Hæstaréttar í máli nr. 211/2004 setji skýrt fordæmi um að skuldbindandi yfirlýsingar þrotamanns um ráðstöfun fjármuna feli ekki í sér veðsamninga og að yfirlýsingar skuldara um ráðstöfun fjárverðmæta til þriðja manns víki fyrir ákvæðum laga nr. 21/1991.
Varnaraðili telur enn fremur að ýmsar málsástæður sóknaraðila virðist byggjast á misskilningi. Þannig sé sóknaraðila tíðrætt um hvað hann telji að samist hafi um milli aðila þessa máls á sínum tíma. Varnaraðili telur hins vegar að það leiði af ákvæði 87. gr. laga nr. 21/1991 um að skiptastjóri skuli svipta þrotamann vörslu fjármuna sinna að allar skuldbindandi yfirlýsingar þrotamanns um slíkar ráðstafanir ónýtist enda taki réttaráhrif gjaldþrotaskipta til allra fjárverðmæta þrotamanns. Þá eigi ákvæði 122. gr. gþl. hér einnig við með sambærilegum hætti. Í því ákvæði komi fram að skiptastjóri einn ráðstafi hagsmunum bús en af því leiði að samningar sem þrotamaður kann áður að hafa gert um annað verða ógildir.
Varnaraðili telur það engu máli skipta hvaða réttarstöðu sóknaraðili telur sig hafa haft á eyjunni Mön á grundvelli samninga eða þarlendra laga; íslensk gjaldþrotalög gangi öllu framar innan gildissviðs gjaldþrotalaga, samkvæmt reglum um lagaskil en um lagaskil í þessu sambandi megi vísa m.a. til dóms Hæstaréttar í máli 120/2014.
Varnaraðili bendir á að sóknaraðili virðist halda því fram að allir fjármunir sem berist eftir úrskurðardag inn á reikning nr. 0329-26-480058, eða hefðu átt að gera það samkvæmt eldri samningum, veiti sóknaraðila sjálfkrafa forgang umfram aðra kröfuhafa til slíkra réttinda. Varnaraðili hafnar þessum sjónarmiðum og ítrekar fyrri málsástæðu um að við upphaf skipta hafi umráðaréttur þrotamanns yfir eigum sínum fallið niður og allar eldri ráðstafanir hans ónýst.
Varnaraðili bendir á að á eignarstýringaryfirliti sem nær yfir tímabilið 1. janúar 2006 til 25. september 2015 sé hvergi minnst á þau verðmæti sem sóknaraðili telur sig hafa veð í. Að vísu sé á einum stað talað um „hlutabréf“ í „Tazamia Holdings Agreement“. Varnaraðili fullyrðir hins vegar að hvorki hann né sóknaraðili hafi átt hluti eða hlutabréf í neinu hlutafélagi sem heitir Tazamia Holding Agreement Ltd. Að auki hafi varnaraðili aldrei átt hlut í né kröfu á neitt félag sem inniber nafnið Tazamia.
Varnaraðili vekur athygli á því að í eignarstýringaryfirlitinu sé aðeins minnst á GBP 1.000.000 og að ekki hafi verið útskýrt af hverju sóknaraðili þrefaldar þá fjárhæð í veðkröfu sinni. Er á því byggt að hvað sem líður kröfum sóknaraðila geti þær af þessum ástæðum aldrei tekið til meiri verðmæta en GBP 1.000.000.
Varnaraðili bendir enn fremur á að samkvæmt samningi varnaraðila og ISIS mátti varnaraðili ekki framselja réttindi sín til þriðja manns. Af því leiðir að varnaraðili gat ekki, svo gilt sé, veðsett réttindin, sbr. 2. mgr. 3. gr. svl.
Varamálsástæða um veðrétt á grundvelli 45. gr. laga nr. 75/1997:
Varnaraðili telur óumdeilt að hann hafi átt kröfu á hendur Isis. Sú krafa var á hinn bóginn aldrei veðsett varnaraðila með sjálfsvörsluveði í skilningi 45. gr. svl. Varnaraðili bendir á að veðsetning af þessu tagi þurfi að fara fram með skýrum hætti og að hún geti ekki talist vera fólgin í langsóttum túlkunum á atvikum og skjölum. Því síður geti hún verið munnleg.
Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að til að veðsetning á grundvelli 45. gr. svl. eigi að hafa gildi þurfi hún að vera á hendur nafngreindum skuldara. Hvorki ISIS né nokkur annar skuldari sé hins vegar nafngreindur í þeim skjölum sem sóknaraðili vísi til. Þá sé það einnig skilyrði sjálfsvörsluveðs að skuldari kröfunnar geti ekki losnað undan greiðsluskyldu sinni nema með því að greiða veðhafa en í þessu máli sé það skilyrði ekki uppfyllt. Sönnunarbyrðin um að svo hafi verið hvílir á sóknaraðila.
Annað
Varnaraðili telur að með því að krafan sé fallin niður vegna vanlýsingar verði hún ekki fullnustuð á grundvelli tryggingarbréfs sem tryggir ótilgreindar kröfur, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 222/2001. Varnaraðili telur að hvað sem öðru líður þá séu vextir eldri en 4 ára fyrndir og að að vextir sem fallið hafi á eftir úrskurðardag séu eftirstæðir, sbr. 114. gr. gþl.
Ekki er fallist á að sóknaraðili geti átt kröfu til vaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, enda í andstöðu við almenna skilmála varnaraðila, frá júní 2005 og þá staðreynd að lán fór fram í breskum pundum vegna fjárfestinga ytra.
Verði fallist á rök sóknaraðila í málinu telur varnaraðili að vextir geti aðeins reiknast frá dómsuppsögu en ella í fyrsta lagi frá því að skiptastjóri varnaraðila sendi tilkynningu til slitastjórnar sóknaraðila um móttöku fjármuna, dags. 12. mars 2015.
Verði talið að sóknaraðili eigi gilda kröfu í fjármunina á grundvelli veðsamnings er endurtekið lýst yfir riftun veðsamningsins og á því byggt að veð sem ekki hélt gagnvart skuldheimtumönnum þrotamanns 6 mánuðum fyrir frestdag sé riftanlegt.
Varakrafa.
Varakröfunni er mótmælt umfram það sem nú segir. Varnaraðili viðurkennir að hafi sóknaraðili átt rétt og möguleika til að fullnusta hið meinta veð úr hendi þrotabús Isis, og að slíkt yrði endanleg niðurstaða, hafi sá réttur ekki farið forgörðum við það eitt að skiptastjóri Isis greiddi varnaraðila fjármunina.
IV. Niðurstaða
Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans, að fjárhæð 5.625.219,49 bresk pund, verði viðurkennd við gjaldþrotaskipti á varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Byggir krafa sóknaraðila að þessu leyti á því að varnaraðili hafi samkvæmt handveðssamningi milli sóknaraðila og varnaraðila sett að handveði öll verðmæti inni á eignastýringarsafni varnaraðila hjá sóknaraðila númer 480058 til tryggingar á þeim skuldbindingum sem varnaraðili hafði undirgengist gagnvart sóknaraðila með skiptisamningi 6. janúar 2006.
Varnaraðili heldur því fram að sóknaraðili eigi enga veðkröfu á hendur honum til tryggingar skuldbindingum samkvæmt skiptisamningi aðila frá 6. janúar 2006. Auk þess er því haldið fram af hálfu varnaraðila að veðkrafan sé fallin niður vegna vanlýsingar.
Eins og rakið er í kafla II hér að framan er sérstaklega tiltekið í skiptisamningi aðila að til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu sinni hafi varnaraðili lagt fram tryggingar sem tilgreindar eru „í handveðssamningi/handveðssamningum vegna afleiðusamninga og viðaukum þeirra sem teldust hluti af skiptisamningnum.“
Í skiptisamningnum frá 6. janúar 2006 er ekki tiltekið sérstaklega hvaða handveðssamning sé um að ræða. Í handveðssamningi aðila málsins, dags. 16. janúar 2008, er hins vegar kveðið um að andlag veðs samkvæmt samningnum séu öll verðmæti sem geymd yrðu á vörslusafni veðsala, sem auðkennt var með númerinu 480058, bæði þeirra sem væru til staðar við undirritun samningsins og þeirra sem bættust við síðar eða kæmu í stað núverandi verðmæta. Á yfirliti yfir umrætt eignastýringarsafn, sem nær yfir hreyfingar á tímabilinu 1. janúar 2006 til 25. september 2015, er tiltekið að sala að nafnverði 2.000.000 breskra punda hafi átt sér stað 6. janúar 2006 og í því sambandi vísað til ,,Tazamia Holdings Agreement“.
Eins og að framan er rakið ber orðalag skiptisamnings aðila frá 6. janúar 2006 skýrlega með sér þá ætlun þeirra að sóknaraðili nyti handveðsréttar vegna kröfu sinnar á hendur varnaraðila samkvæmt samningnum um endurgreiðslu lánsins. Þar sem skiptisamningurinn vísar til handveðsamnings eða –samninga til tryggingar afleiðusamningum varnaraðila verður að telja að handveðsamningur aðila frá 16. janúar 2008 taki til þeirrar kröfu sóknaraðila sem mál þetta lýtur að og að vörslusafn varnaraðila á reikningi 480058 hjá sóknaraðila hafi því staðið til tryggingar skuldbindingum varnaraðila samkvæmt skiptisamningnum. Þessu til áréttingar má benda á að viðskipti aðila 6. janúar 2006 eru tilgreind á hreyfingayfirliti vörslusafns varnaraðila á fyrrgreindum reikningi sem lagt hefur verið fram í málinu. Sami reikningur vörslusafnsins er skilgreindur sérstaklega sem móttökureikningur í 5. gr. í samningi varnaraðila og Isis, dags. 6. janúar 2006.
Af framangreindu verður jafnframt ráðið að varnaraðili hafi í reynd verið sviptur möguleikanum á því að hafa þau verðmæti undir höndum sem stóðu til tryggingar kröfu sóknaraðila á hendur honum, sbr. 2. mgr. 22. gr. laga nr. 75/1997, um samningsveð. Er þá einnig litið til þess að náin tengsl voru á milli sóknaraðila og Isis sem birtust meðal annars í því að stjórnarformaður sóknaraðila og Isis voru einn og sami maðurinn.
Í ljósi þess sem að framan er rakið verður ekki séð að varnaraðili hafi á nokkru stigi farið með umráð þeirrar fjárkröfu sem sóknaraðili byggir veðréttindi sín á þannig að skilyrðum laga fyrir réttarvernd handveðs sé ekki fullnægt.
Samkvæmt framangreindu verður að leggja til grundvallar að krafa sóknaraðila á grundvelli skiptisamnings hans við varnaraðila, dags. 6. janúar, sem breytt var 8. janúar 2007 og 8. janúar 2007, og lýst var með kröfulýsingu hans 1. apríl 2015 hafi notið handveðréttar.
Það leiðir af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, að krefjast má nauðungarsölu á eign til fullnustu gjaldfallinni peningakröfu samkvæmt samningi um handveð í eigninni fyrir tiltekinni peningakröfu. Í samræmi við þessa reglu hefði sóknaraðila verið unnt að krefjast nauðungarsölu á þeirri fjárkröfu sem tilgreind er í eignastýringarsafni varnaraðila vegna þeirra viðskipta sem mál þetta lýtur að.
Af þeim sökum verður að telja að krafa sóknaraðila í máli þessu falli undir ákvæði 4. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti. Í ákvæðinu felst sú meginregla að kröfuhafi, sem nýtur heimildar til fullnustu fjárkröfu á hendur þrotabúi án frekari dóms, sáttar eða aðfarar í skjóli tryggingarréttinda fyrir henni í eign þess, getur fylgt þeim rétti sínum eftir án tillits til þess hvort hann hafi lýst kröfu sinni við gjaldþrotaskiptin, sbr. dóm Hæstaréttar frá 24. ágúst 2010 í máli nr. 460/2010.
Í ljósi þessa verður að hafna málsástæðum varnaraðila um að sóknaraðila hafi borið nauðsyn til að lýsa kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests til þess að girða fyrir að hann hún félli niður vegna vanlýsingar. Enn fremur verður ekki séð að kröfulýsingu varnaraðila frá 1. apríl 2015 hafi verið efnislega áfátt hvað aðalkröfu hans snertir, eins og varnaraðili virðist byggja á. Jafnframt verður að hafna þeim málsástæðum varnaraðila sem lúta að ákvæði 87. gr. og 122. gr. laga nr. 21/1991 og skilja verður á þann veg að ákvæðið leiði til þess að skuldbindingar þrotamanns um ráðstafanir í þágu veðsetningar ónýtist vegna réttaráhrifa gjaldþrotaskipta. Rétt er að taka fram að ef fallist yrði á þau sjónarmið sem varnaraðili hefur lýst í tengslum við ákvæði 87. og 122. gr. laga nr. 21/1991 er raunar vandséð að ákvæði 4. mgr. 116. gr. geti haft sjálfstæða þýðingu.
Krafa sú sem sóknaraðili krefst viðurkenningar á í máli þessu nemur alls 5.625.219,49 breskra punda. Eins og áður er fram komið nemur höfuðstóll kröfunnar 2.459.166,81 breskra punda en sóknaraðili krefst enn fremur dráttarvaxta frá 8. janúar 2009 til 1. apríl 2015 að fjárhæð 3.166.052,68 breskra punda. Varnaraðili hefur mótmælt því að sóknaraðili geti átt kröfu til dráttarvaxta á grundvelli 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, þar sem sú krafa sé í andstöðu við almenna skilmála varnaraðila frá júní 2005 og þá staðreynd að lán fór fram í breskum pundum vegna fjárfestinga ytra.
Skiptisamningurinn sem lánveiting sóknaraðila og þar með krafa hans í þessu máli byggist á var upphaflega gerður á milli Kaupþings banka hf. og Saxbyggs ehf. 6. janúar 2006, eins og áður er rakið. Samningurinn var því gerður á milli aðila sem báðir eru íslenskir og lýtur hann því íslenskum lögum, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar. Að þessu virtu verður ekki talið að ákvæði laga standi í vegi því að sóknaraðili geti krafist dráttarvaxta með þeim hætti sem hann gerir vegna þess dráttar sem orðið hefur á því að varnaraðili standi skil á skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum.
Þrátt fyrir að önnur fyrirmæli um útreikning dráttarvaxta á kröfum í erlendri mynt komi fram í ákvæði e-liðar 7. gr. almennra skilmála fyrir viðskiptavini markaðsviðskipta Kaupþings banka hf. frá í 2005 sem varnaraðili hefur lagt fram í máli þessu verður ekki séð af gögnum málsins að aðilar málsins hafi undirritað þessa skilmála eins og áskilið er á forsíðu skilmálanna. Af þeim sökum verða þeir ekki lagðir til grundvallar við útreikning dráttarvaxta í máli þessu. Málsástæðu varnaraðila um það atriði er því hafnað.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er fallist á aðalkröfu sóknaraðila um að krafa hans að fjárhæð 5.625.219,49 bresk pund, verði viðurkennd við gjaldþrotaskipti á varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.
Með hliðsjón af þessum úrslitum málsins verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 1.100.000 krónur.
Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð en við uppkvaðningu var gætt ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Fallist er á aðalkröfu sóknaraðila um að krafa hans að fjárhæð 5.625.219,49 bresk pund, verði viðurkennd við gjaldþrotaskipti á varnaraðila, þrotabúi Icarusar ehf., og að hún njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.100.000 krónur í málskostnað.