Hæstiréttur íslands

Mál nr. 158/2012


Lykilorð

  • Kyrrsetning
  • Skaðabætur
  • Aðfinnslur


 

Fimmtudaginn 29. nóvember 2012.

Nr. 158/2012.

 

Arion banki hf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

og gagnsök

 

Kyrrsetning. Skaðabætur. Aðfinnsla.

S höfðaði mál gegn A hf. til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns og miska sem hún taldi sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningargerðar sem beinst hafði að eiginmanni hennar, E. Kyrrsetningin fór fram í eignastýringarsafni sem E hafði gert samning um við forvera A hf., 6. júní 2004, til tryggingar skuld E samkvæmt skuldabréfi sem hann hafði gefið út til bankans. Í málinu lá fyrir að S og E undirrituðu yfirlýsingu 20. júlí 2009 þar sem þess var farið á leit við A hf. að eignarhaldi á eignasafninu yrði breytt þannig að S yrði skráð eigandi þess ásamt E. Við þessu var ekki brugðist af hálfu A hf. Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2010 var komist að þeirri niðurstöðu að S hafi verið eigandi eignasafnsins að hálfu og var A hf. gert að greiða henni andvirði helmings þess með dráttarvöxtum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við þessar aðstæður hafi ekki verið tilefni af hálfu A hf. til að beina kyrrsetningarbeiðninni að öllu eignasafninu. En þar sem S hafði ekki tekist að sanna fjártjón sitt var kröfu hennar þar að lútandi hafnað. Þá voru ekki taldar forsendur til að dæma henni bætur að álitum þar sem A hf. hafði greitt S dráttarvexti vegna alls þess tíma sem S varð, vegna kyrrsetningarinnar, af því að geta nýtt þann hluta eignasafnsins sem var talin eign hennar. Á hinn bóginn var talið að gerðin hafi verið til þess fallin að valda S óþægindum og voru henni dæmdar 400.000 krónur í miskabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Árni Kolbeinsson og Helgi I. Jónsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2012. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að krafa gagnáfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 21. maí 2012. Hún krefst þess að aðaláfrýjandi greiði sér 90.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2009 til 14. júlí 2010 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eiginmaður gagnáfrýjanda, Einar Þór Einarsson, gerði 4. júní 2004 samning um eignastýringu við forvera aðaláfrýjanda. Samkvæmt 10. gr. skilmála samningsins skyldi bankanum tilkynnt þegar í stað ef annar aðili öðlaðist rétt til eignasafns þess sem samningurinn tók til, en samkvæmt 11. gr. skilmálanna gat viðskiptavinur bankans hvenær sem er sagt samningnum upp. Með samningi 15. apríl 2005 setti Einar Þór öll verðmæti á fjárvörslureikningi eignastýringarsafnsins bankanum að handveði til tryggingar greiðslu á kröfum vegna yfirdráttarskuldar á tilteknum tékkareikningi. Ágreiningslaust er að yfirdráttarheimild á þeim reikningi var ekki nýtt og að aðrar kvaðir voru ekki á fjárvörslureikningi vegna eignastýringarsafnsins.

 Eiginmaður gagnáfrýjanda gaf 15. desember 2006 út skuldabréf að fjárhæð 147.000.000 krónur til forvera aðaláfrýjanda. Skuldin var bundin vísitölu neysluverðs og vextir breytilegir. Þann 1. janúar 2008 skyldi greiða 130.000.000 krónur í afborgun af láninu, en eftirstöðvar þess síðan greiðast mánaðarlega með 48 afborgunum í fyrsta sinn 1. febrúar 2008. Einar Þór undirritaði beiðni um skilmálabreytingu lánsins 25. janúar 2008 og fór þess á leit að eftirleiðis yrði höfuðstóll þess miðaður við myntkörfu þar sem vægi Bandaríkjadals væri 33%, svissnesks franka 34% og japansks jens 33%. Varð bankinn við beiðninni og undirrituðu aðilar lánssamningsins skilmálabreytingu þessa efnis 29. janúar 2008, en þá var höfuðstóll lánsins tilgreindur 53.869.038 krónur. Lánstíminn var 12 mánuðir og gjalddagi höfuðstóls 10. febrúar 2009, en vaxtagjalddagar skyldu vera mánaðarlega fyrst 10. febrúar 2008. Þann 31. mars 2009 var skilmálum lánsins breytt og gjalddagi þess færður aftur um þrjá mánuði eða til 10. maí 2009. Enn var gerð skilmálabreyting á láninu 4. júní 2009 og gjalddagi þess ákveðinn 1. september 2009.

Einar Þór og gagnáfrýjandi undirrituðu yfirlýsingu 20. júlí 2009 þar sem þess var farið á leit að eignarhaldi á eignasafni því, sem fyrrgreindur samningur um eignastýringu tók til, yrði breytt þannig að gagnáfrýjandi yrði skráð eigandi þess ásamt Einari Þór. Aðaláfrýjandi staðfesti móttöku yfirlýsingarinnar samdægurs. Með bréfi 31. júlí 2009, sem ágreiningslaust er að aðaláfrýjandi hafi móttekið 6. ágúst sama ár, sögðu Einar Þór og gagnáfrýjandi framangreindum samningi um eignastýringu upp og óskuðu þess að andvirðið yrði lagt inn á tiltekinn sparisjóðsreikning.

Með kyrrsetningarbeiðni 12. ágúst 2009 fór aðaláfrýjandi þess á leit að eignastýringarsafn það, sem fyrrgreindur samningur tók til, yrði kyrrsett til tryggingar skuld eiginmanns gagnáfrýjanda samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi. Sýslumaður tók beiðnina fyrir 18. ágúst 2009. Eiginmaður gagnáfrýjanda mótmælti framgangi gerðarinnar og bar því við að gagnáfrýjandi væri einnig eigandi safnsins. Sýslumaður ákvað að gerðin skyldi ná fram að ganga. Aðaláfrýjandi höfðaði mál fyrir Héraðsdómi Reykjaness á hendur eiginmanni gagnáfrýjanda með stefnu 21. ágúst 2009 til staðfestingar gerðinni og krafðist þess jafnframt að staðfest yrði að hann ætti fjárkröfu á hendur Einari Þór samkvæmt fyrrgreindu skuldabréfi sem næmi að höfuðstól nánar tilgreindri fjárhæð í Bandaríkjadölum, svissneskum frönkum og japönskum jenum.

Gagnáfrýjandi höfðaði í nóvember 2009 mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur aðaláfrýjanda og krafðist þess að hann yrði dæmdur til að greiða sér 49.179.500 krónur með  dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags. Nam stefnukrafan helmingi af virði eignasafns á fjárvörslureikningi samkvæmt áðurnefndum eignastýringarsamningi miðað við 6. ágúst 2009. Var krafan reist á því að þau hjónin hefðu með fyrrnefndri yfirlýsingu 20. júlí 2009 farið þess á leit að eignasafnið yrði eftirleiðis skráð á nafn þeirra beggja. Hefði bankanum samkvæmt 10. gr. skilmálanna borið að verða þegar við beiðninni enda hefðu engar kvaðir hvílt á eignasafninu. Þá hefðu þau hjónin sagt upp eignastýringarsamningnum 31. júlí 2009. Dómur var upp kveðinn í málinu 23. mars 2010. Féllst dómurinn á málsástæður gagnáfrýjanda og taldi í ljós leitt að hún væri eigandi að helmingi eignasafnsins. Dómkröfur hennar voru teknar til greina og henni dæmdar 800.000 krónur í málskostnað. Aðaláfrýjandi ákvað að una dóminum. Hann greiddi gagnáfrýjanda 56.653.421 krónu 2. september 2010. Var greiðslan þannig sundurliðuð að höfuðstóll var 49.179.500 krónur, í samræmi við dómsorð fyrrgreinds dóms, dráttarvextir af þeirri fjárhæð  frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags voru 9.075.313 krónur, 854.933 krónur voru málskostnaður að viðbættum dráttarvöxtum á hann og 110.000 krónur kostnaður vegna fjárnámsbeiðni og móts, en frá dróst yfirdráttarskuld að fjárhæð 2.566.325 krónur.

Dómur féll í Héraðsdómi Reykjaness 14. júlí 2010 í máli því sem aðaláfrýjandi hafði samkvæmt framansögðu höfðað til staðfestingar kyrrsetningargerðinni 18. ágúst 2009. Var kyrrsetningin staðfest, þó einvörðungu í helmingi eignastýringarsafnsins, en kröfu aðaláfrýjanda um viðurkenningu á fjárkröfu á hendur eiginmanni gagnáfrýjanda var hafnað. Báðir aðilar áfrýjuðu dóminum til Hæstaréttar. Með dómi réttarins 17. nóvember 2011 í máli nr. 470/2010 var málinu vísað frá héraðsdómi. Gagnáfrýjandi mun á ný hafa höfðað mál til staðfestingar á kyrrsetningargerðinni, sem mun nú bíða aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

II

Gagnáfrýjandi hefur í máli þessu uppi kröfu um bætur vegna fjártjóns og miska sem hún telur sig hafa orðið fyrir vegna kyrrsetningargerðarinnar 18. ágúst 2009, sem beint hafi verið að eiginmanni hennar, en með gerðinni hafi eign hennar verið kyrrsett með ólögmætum hætti. Reisir hún kröfu sína á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr., laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Fyrir Hæstarétti sundurliðar hún kröfu sína þannig að 60.000.000 krónur eru vegna „tjóns á töpuðum viðskiptum með aflaheimildir“, 20.000.000 krónur „vegna tjóns í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna o. fl.“, en 10.000.000 krónur er miskabótakrafa.

 Aðaláfrýjandi reisir sýknukröfu sína annars vegar á því að fullt tilefni hafi verið 12. ágúst 2009 til að krefjast kyrrsetningar í öllu eignasafninu samkvæmt eignastýringarsamningum 4. júní 2004 og vísar í því efni til 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 og hins vegar til þess að gagnáfrýjandi hafi ekki lagt fram nein gögn er sýni fram á að hún hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem bætt hafi verið með uppgjörinu 2. september 2010 á grundvelli framangreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2010.

Samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 skal gerðarbeiðandi bæta tjón með þeim hætti sem segir í 1. mgr. greinarinnar sé synjað um kyrrsetningu vegna annmarka á gerðinni sjálfri, ef talið verður að ekki hafi verið tilefni til hennar. Verður að telja að þetta ákvæði eigi við ef í ljós koma þeir annmarkar á gerðinni að hún hafi beinst að kyrrsetningu verðmæta í eigu annars en gerðarþola. Hin hlutlæga bótaregla 1. mgr. 42. gr. laganna á því ekki við um kröfu gagnáfrýjanda. Eins og að framan var rakið skyldi samkvæmt 10. gr. samnings aðaláfrýjanda og eiginmanns gagnáfrýjanda um eignastýringu 4. júní 2004 tilkynna bankanum ef annar aðili öðlaðist rétt til eignasafnsins. Slíkri tilkynningu beindu gagnáfrýjandi og eiginmaður hennar að aðaláfrýjanda 20. júlí 2009 eins og að framan er rakið. Eignasafnið var þá ekki bundið neinum þeim kvöðum sem gefið gætu aðaláfrýjanda réttmætt tilefni til að verða ekki við beiðni um breytta skráningu safnsins. Með áðurgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2010, sem aðaláfrýjandi hefur kosið að una, var komist að þeirri niðurstöðu að gagnáfrýjandi væri eigandi safnsins að hálfu. Verður ekki talið að við þessar aðstæður hafi verið tilefni til að beina kyrrsetningarbeiðni 12. ágúst 2009 að öllu eignasafninu, enda þótt aðaláfrýjandi hafi þá talið ástæðu til að grípa til aðgerða til að tryggja fullnustu eiginmanns áfrýjanda á greiðslu samkvæmt skuldabréfi sem var á gjalddaga 1. september 2009.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakin matsgerð dómkvaddra manna frá júlí 2011 um ætlað tjón gagnáfrýjanda vegna þess að hún hafi vegna kyrrsetningarinnar orðið af því að gera hagfelld kaup á tilteknum aflaheimildum sem í boði hafi verið í ágúst 2009. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest niðurstaða hans um að matsgerðin sé ekki reist á viðhlítandi forsendum og verði ekki lögð til grundvallar skaðabótum í málinu. Gagnáfrýjanda hefur því ekki tekist að sanna að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að verða af viðskiptum með aflaheimildir. Þá hefur hún engin haldbær rök fært fram um að hún hafi vegna kyrrsetningarinnar orðið fyrir tjóni í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 er heimilt að dæma skaðabætur vegna kyrrsetningargerðar að álitum. Forsenda þess að þeirri heimild verði beitt er að gerðarþoli hafi gert líklegt að hann hafi orðið fyrir tjóni, sem ekki hafi þegar verið bætt. Eins og að framan er rakið greiddi aðaláfrýjandi 2. september 2010 dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 vegna alls þess tíma sem gagnáfrýjandi varð vegna kyrrsetningarinnar af því að geta nýtt þann hluta eignasafnsins sem var talin hennar eign með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2010. Dráttarvextir eru lögákveðnar meðalhófsbætur vegna vanefnda á greiðslu skuldar. Gagnáfrýjandi hefur ekki gert líklegt að hún hafi orðið fyrir tjóni umfram það sem þegar hefur verið bætt með greiðslu dráttarvaxta og eru því ekki forsendur til að dæma henni bætur að álitum.

Gögn varðandi miska gagnáfrýjanda voru af hennar hálfu lögð fyrir Hæstarétt eftir lok sameiginlegs gagnaöflunarfrests aðila og koma þar af leiðandi ekki til skoðunar. Hins vegar má fallast á það með gagnáfrýjanda að kyrrsetningargerðin hafi verið til þess fallin að valda henni óþægindum og eru miskabætur vegna þess hæfilega ákveðnar 400.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Aðaláfrýjandi verður samkvæmt þessum úrslitum dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málskostnaðar er ekki tekið tillit til kostnaðar af fyrrgreindri matsgerð, enda voru þær forsendur sem matsbeiðandi gaf matsmönnum ekki til þess fallnar að matsgerðin gæti komið að gagni við úrlausn málsins.

Í hinum áfrýjaða dómi voru málavextir reifaðir eins og þeir horfðu við frá sjónarhóli beggja málsaðila. Þessi háttur á samningu dóms er í andstöðu við d. lið 1. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en þar segir í dómi skuli greina stutt yfirlit um atvik baki máli og ágreiningsefni í því. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Arion banki hf., greiði gagnáfrýjanda, Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur, 400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2009 til 12. nóvember 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2011.

Mál þetta, sem var dómtekið 3. nóvember sl., er höfðað 12. október 2010.

Stefnandi er Steinunn Rósborg Sigurðardóttir, Mýrarkoti 6, Álftanesi.

Stefndi er Arion banki hf., Borgartúni 19, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði stefnanda skaðabætur, 100.000.000 króna, með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2009 til 14. júní 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga  nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að krafa stefnanda verði lækkuð verulega og að vaxtakröfum stefnanda verði hafnað. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar.

Upphafleg aðalkrafa stefnda var um frávísun málsins. Með úrskurði, uppkveðnum 9. febrúar 2011, var frávísunarkröfu stefnda hafnað.

I

                Stefnandi lýsir atvikum málsins þannig að hún hafi, ásamt eiginmanni sínum, Einari Þór Einarssyni, um árabil verið í miklum viðskiptum við stefnda, en áður við Kaupþing banka hf. Stefnandi og Einar Þór Einarsson hafi selt rekstur á árinu 2004 og hafi bankinn þá tekið til eignastýringar nokkra fjármuni. Til grundvallar samningi um eignastýringu hafi 4. júní 2004 verið gerður samningur um eignastýringarsafn  B # 470500. Einar Þór Einarsson hafi einn verið skráður fyrir eignastýringarsamningi þeirra hjóna. Með bréfi Einars Þórs og stefnanda til bankans, dagsettu og mótteknu 20. júlí 2009, hafi þess verið farið á leit við stefnda að nafn stefnanda væri jafnframt skráð að eignasafninu en það hafi verið í hjúskapareign beggja. Beiðnin hafi verið í samræmi við 10. gr. eignastýringarsamningsins. Stefndi hafi ekki orðið við þessari beiðni þrátt fyrir skyldur og skýr ákvæði samningsins. Stefndi hafi borið fyrir sig sumarleyfi starfsmanna sem skýringu á drætti. Samningi um eignastýringu hafi verið sagt upp með bréfi mótteknu 6. ágúst 2009.

                Sýslufulltrúinn í Hafnarfirði og starfsmenn stefnda hafi komið á heimili stefnanda 18. ágúst 2009 gagngert til að kyrrsetja eign Einars Þórs Einarssonar samkvæmt eignasafni B # 470500 til tryggingar fullnustu ætlaðrar kröfu bankans samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, (upphaflega nr. 327-74-6222). Samkvæmt eignastýringaryfirliti stefnda hafi eignir með áunnum vöxtum numið ríflega 99.000.000 króna. Stefndi hafi staðhæft að þessar eignir væru veðsettar að fullu með handveðsgerningi gegn andmælum Einars Þórs og fyrirliggjandi bréfum til stefnda, dagsettum 20. og 31. júlí 2009, árituðum um móttöku. Ekki hafi sýslumaður orðið við kröfum gerðarþola um að fresta gerð vegna réttinda stefnanda þrátt fyrir ákvæði 14. gr. kyrrsetningalaga nr. 31/1990.           Við kyrrsetningu og í eftirfarandi staðfestingarmáli hafi stefndi beint kröfu að Einari Þór Einarssyni en ekki stefnanda. Staðfestingarmál vegna kyrrsetningar hafi verið höfðað með réttarstefnu útgefinni 21. ágúst 2009, sem hafi verið þingfest 9. september 2009. Stefndi hafi í febrúar 2010 reynt að fá gert fjárnám hjá Einari Þór Einarssyni.

                Dómur í máli númer E-3425/2009: Arion banki hf. gegn Einari Þór Einarssyni hafi gengið 14. júní 2010. Dómsorð hljóði svo: „Staðfest er kyrrsetning, sem sýslumaðurinn í Hafnarfirði framkvæmdi þann 18. ágúst 2009 í eignastýringarsafni stefnda nr. B # 470500 hjá stefnanda, en þó einvörðungu í helmingi eignastýringarsafnsins. Kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að stefnandi eigi fjárkröfu á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015, útgefnu þann 15. desember 2006 af stefnda með gjalddaga þann 1. september 2009, að höfuðstól JPY 28.793.898, CHF 305.932 og USD 270.437 auk vaxta og kostnaðar, er hafnað. Kröfu stefnda um miskabætur úr hendi stefnanda að er vísað frá dómi. Málskostnaður fellur niður.”  Í rökstuðningi dómara hafi verið talið að ekki stæðu skilyrði til kyrrsetningar á eignarhluta stefnanda í eignastýringarsafninu. Stefndi hafi ekki áfrýjað dómi E-3425/2009 og reisi stefnandi meðal annars kröfur sínar á því. Stefnandi hafi ekki látið mál númer E-3425/2009 til sín taka en áskilið sér rétt til þess að hafa uppi sjálfstæðar skaðabótakröfur vegna kyrrsetningar. Stefndi hafi engar kröfur haft uppi gegn stefnanda í máli númer E-3425/2009.

                Stefnandi hafi höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda með stefnu birtri í nóvember 2009, þar sem krafist hafi verið greiðslu á 49.179.500 krónum sem nemi andvirði á hálfu eignastýringarsafninu. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu númer E-12679/2009 hafi verið kveðinn upp 23. mars 2010 og hljóði dómsorð þannig: „Stefndi, Arion banki hf., greiði stefnanda, Steinunni R. Sigurðardóttur, 49.179.500 kr., með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/ 2001 frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags og 800.000 kr. í málskostnað.”

Stefndi hafi ekki áfrýjað dóminum en greiddi ekki dómskuldina þrátt fyrir brýn tilmæli.  Stefnandi hafi gert fjárnám fyrir kröfunni 6. ágúst 2010 og hafi stefndi greitt dóminn 2. september 2010.

                Stefndi hafi leitað með aðför eftir fullnustu í hinum kyrrsettu verðmætum með boðun í aðför en hafi verið synjað um framgang með því að ekki hafi legið fyrir frumrit skuldabréfs og með bókaðri ákvörðun sýslumannsfulltrúa í Hafnarfirði 6. ágúst 2010 hafi fjárnámsbeiðni verið vísað frá, sbr. fjárnámsgerð nr. 036-2010-00359. Stefndi hafi ekki leyst fjármuni úr kyrrsetningu eftir að dómur gekk í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli númer E-12679/2009 23. mars 2010. Stefndi hafi haft uppi gegn dómi stefnanda til skuldajafnaðar staðlausar kröfur vegna óréttmætrar auðgunar. Stefndi hafi ekki svarað kröfum stefnanda eftir að dómur hafi gengið í Héraðsdómi Reykjaness 14. júní 2010, þar sem með dómi hafi verið staðfest að kyrrsetning tæki ekki til eignar stefnanda.

                Stefndi kveður málsatvikalýsingu stefnanda verulega óljósa og vanreifaða og því verði málsatvik reifuð, eins og þau horfi við stefnda. Nauðsynlegt sé að greina frá samskiptum eiginmanns stefnanda, Einars Þórs Einarssonar, við stefnda, enda séu þau samskipti nátengd ágreiningi stefnanda og stefnda í þessu máli. Þann 15. desember 2006 hafi Einar Þór gefið út skuldabréf númer 6222 til Kaupþings banka hf. (nú í eigu stefnda), upprunalega að höfuðstól 147.000.000 króna. Til trygg­ingar skilvísum greiðslum á öllum skuld­bindingum Einars Þórs gagnvart Kaup­þingi banka hf., þar á meðal kröfu bank­ans samkvæmt skuldabréfinu, hafi staðið inneign Einars Þórs á inn­láns­­­reikn­ingi hans hjá Kaupþingi banka hf. númer 300926, að handveði samkvæmt hand­veðs­samn­ingi dagsettum 5. maí 2006. Þegar lánið hafi verið veitt hafi inn­eign inn­­láns­reikningsins verið rúm­lega 77 milljónir króna, eins og sjá megi af framlögðu yfirliti yfir hreyfingar á innláns­reikningn­um um það leyti sem lánið hafi verið veitt. Þann 29. janúar 2008 hafi kröfu skulda­­bréfsins, að beiðni Einars Þórs, verið myntbreytt, þ.e. breytt úr íslenskum krónum í er­lendar myntir. Skulda­bréfið hafi þá fengið nýtt númer, númerið 7015.

                Þann 13. mars 2009 hafi Einar Þór óskað eftir því að inneign hans á fyrrgreindum innlánsreikn­ingi yrði flutt á eignastýringarsafn hans númer 470500, sem stofnað hafi verið til á grundvelli samn­­ings um eignastýringu. Þessi milli­færsla hafi verið sam­þykkt af viðskiptabankasviði Kaupþings banka hf. en aðilar hafi staðið í þeirri trú að eigna­stýr­ing­ar­safnið væri, eins og innlánsreikningur hans númer 300926, handveðsett til trygg­ingar greiðsl­um á öll­um skuld­bindingum Einars Þórs gagnvart stefnda, þar á meðal kröfu bank­ans samkvæmt skulda­bréfi númer 7015. Svo hafi þó ekki reynst vera, enda hafi eigna­stýringar­safn númer 470500 verið handveðsett bank­an­um til tryggingar á greiðslu yfir­drátt­arskuldar, eins og hún væri á hverjum tíma, á tékka­reikningi númer 763 samkvæmt handveðssamningi Einars Þórs og bankans dagsettum 15. apríl 2005. Samhengisins vegna sé upplýst að 31. mars og 4. júní 2009 hafi greiðslu­skilmálum skuldabréfs­ins verið breytt.

                Með yfirlýsingu, dagsettri 8. júní 2009, hafi stefnandi og Einar Þór hafið aðgerðir sem virðast ekki hafa haft neinn annan tilgang en að skerða möguleika stefnda til að fulln­usta kröfu samkvæmt  skulda­bréfi númer 7015 gagnvart Einari Þór. Þann dag hafi Einar Þór framselt hesthús sitt að Kaplaskeiði 22, Hafnarfirði, til stefnanda. Skömmu síðar, eða 20. júlí 2009, hafi Einar Þór afhent stefnda yfirlýsingu þar sem farið hafi verið fram á það við stefnda að eignarhaldi að eignastýringarsafni hans númer B 470500 yrði breytt þannig að stefnandi yrði skráður eigandi þess ásamt Einari Þór. Með bréfi dagsettu 31. júlí 2009 hafi Einar Þór og stefnandi til­kynnt að þau hafi sagt upp eigna­stýringarsamningi Einars Þórs við stefnda og að leggja ætti and­virði eignastýringarsafnsins inn á reikning í eigu stefnanda. Ekki hafi orðið af þessari milli­færslu. Lögmaður stefnanda og Einars Þórs hafi sent bankastjóra stefnda bréf dagsett 17. ágúst 2009 og ítrekað fyrri fyrirmæli þeirra.

                Einar Þór hafi jafnframt tilkynnt starfsmanni stefnda að hann ætlaði sér ekki að greiða að fullu kröfu stefnda samkvæmt skulda­bréfi númer 7015. Þann 1. ágúst 2009 hafi skuldabréfið staðið í JPY 29.036.436, CHF 306.518,94 og USD 270.989,83, en umreiknað í íslenskar krónur hafi skuldin numið  109.798.450 krónum. Af því sem fram hafi komið í samskiptum Einars Þórs og stefnda hafi stefndi dregið þá ályktun að þeir fjármunir á eigna­stýringar­safni númer 470500, sem hafi átt að vera til tryggingar á efndum kröfu stefnda samkvæmt skulda­bréfinu, myndu ekki vera til staðar þegar skuldabréfið myndi falla í gjalddaga. Stefndi hafi því með beiðni dagsettri 12. ágúst 2009 kraf­ist kyrrsetn­ingar á fjármunum á eignastýringar­safninu til trygg­ingar á greiðslu kröfu stefnda samkvæmt skulda­­bréfinu. Sýslu­maðurinn í Hafnarfirði hafi fallist á kyrr­setn­ingar­beiðnina í máli númer K-13-2009. Réttarstefna hafi verið gefin út í stað­festingar­máli vegna kyrr­setn­ingar­innar 21. ágúst 2009, sem þing­fest hafi verið 9. september 2009. Dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu hafi fallið 14. júlí 2010 og hafi kyrrsetningin verið staðfest að hluta. Stefn­andi hafi hvorki átt aðild að kyrrsetningar­gerðinni né að eftir­farandi kyrr­setn­ingarmáli, sem stefnanda hefði þó verið heimilt að ganga inn í á grundvelli 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrr­setningu, lögbann o.fl.

                Skömmu eftir að sýslumaður hafi kyrrsett fjármuni á eignastýringarsafni Einars Þórs hjá stefnda hafi stefnandi hafið málarekstur gegn stefnda til að fá greitt frá stefnda það sem stefnandi hafi talið vera sinn helm­ing umræddra fjármuna. Stefndi hafi tekið til varna í málinu, enda hafi umrætt fé aldrei verið skráð á nafn stefnanda hjá stefnda og því hafi stefndi talið að stefnandi ætti ekki heimtingu á fénu, eins og stefnandi hafi krafist. Því sé ljóst að ­­­ágrein­ingur hafi verið milli aðila um eignarhald um­ræddra fjár­muna. Héraðsdómur Reykja­víkur hafi vísað málinu frá með úrskurði 3. febrúar 2010, en þeim úr­skurði hafi verið skotið til Hæsta­réttar sem hafi með dómi uppkveðnum 2. mars 2010 snúið úr­­skurð­inum við og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnis­meðferðar. Dómur hafi fallið í málinu áður en dómur hafi verið uppkveðinn í stað­fest­ingarmáli vegna kyrr­setn­ing­ar, en með dómi Hér­aðs­­dóms Reykja­víkur frá 23. mars. 2010 hafi stefndi verið dæmd­ur til að greiða stefnanda 49.179.500 krónur með dráttar­vöxt­um frá 6. ágúst 2009 til greiðslu­­­dags. Stefndi hafi greitt kröfuna 2. september 2010.

                Í mars 2011 aflaði stefnandi matsgerðar dómkvaddra matsmanna sem falið var að skoða og meta til fjár ætlað tjón stefnanda vegna ólögmætrar kyrrsetningar sem stefndi fékk lagt á inneign stefnanda hjá stefnda með gerð sýslumannsins í Hafnarfirði 18. ágúst 2009. Matsmennirnir, þeir Einar S. Hálfdánarson, hrl. og löggiltur endurskoðandi og Birkir Leósson löggiltur endurskoðandi, skiluðu matsgerð sinni í júlí 2011. Töldu matsmenn að hið meinta fjárhagstjón yrði best áætlað með skoðun og virðingu á eftirgreindum þáttum:

1. Missi hagnaðar á tímabilinu frá 18. ágúst 2009 til 2. september 2010 vegna verðhækkunar aflamarks. Í þessu tilviki væri á því byggt að aflaheimildir yrðu endurseldar.

2. Nýtingu aflamarks með veiðum af útgerð Glaðs 13. Í þessu tilviki væri mat á tjóni byggt á tapaðri framlegð útgerð Glaðs 13.

3. Tapi sem stafar af tilneyddri sölu Glaðs 13.

4. Miski og fjártjón svo sem spjöll á lánstrausti og viðskiptahagsmunum.

Komust matsmennirnir að þeirri niðurstöðu að hagnaður stefnanda af því að endurselja leigukvóta hefði, miðað við forsendur að baki útreikningum matsmanna, getað numið á bilinu 43.770.000-79.350.000 krónum. Miðuðu matsmenn tjón stefnanda við mismun á kaupverði og endursöluverði leigukvóta og við meðaltal hæsta og lægsta verðs á leigukvóta í niðurstöðum sínum, eða endursöluverðið 123.960.000 króna. Að áliti matsmanna telst tjón matsbeiðanda miðað við forsendur matsbeiðanda og að teknu tilliti til alls kostnaðar, bæði útlagðs kostnaðar og eigin kostnaðar, bæði við kaup og sölu leigukvótans nema 60.000.000 króna.

II

                Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hún og Einar Þór Einarsson hafi gert út um árabil fiskiskip - Glað ÍS 121.  Stefnandi hafi ætlaði að nýta sér uppsafnaða fjármuni til þess að leysa til sín aflaheimildir í þágu þess reksturs. Hafi bankanum verið kunnugt um þetta. Útgerðin hafi haft takmarkaðar aflaheimildir og leigt heimildir á markaði. Stefnanda hafi staðið til boða verulegar heimildir á mjög góðu verði enda staðgreiðsla í boði. Stefnanda hafi verið nauðsynlegt að losa féð til þess að fullnusta í kaupin. Stefnandi hafi farið þess á leit við bankann að hann losaði kyrrsetningu á 50-60 milljónum króna gegn veðtryggingu svo unnt væri að efna kaup um aflaheimildir. Stefnandi hafi fyrr leyst til sín leigukvóta í allmiklum mæli og framselt að því marki að stefnandi hafi ekki sjálfur nýtt og haft af því góða þjénustu. Þetta hafi starfsmönnum stefnda verið kunnugt um enda hafi leigan farið fram fyrir milligöngu bankans. Þrátt fyrir þessa vitneskju hafi stefndi neitað málaleitan stefnanda. Vitneskja starfsmanna bankans sé staðfest í framburði þeirra fyrir dómi.

                Stefnandi kveðst setja fram kröfur um skaðabætur á grundvelli ákvæða  kyrrsetningarlaga nr. 31/1990 og reisa kröfur á því að kyrrsetning á eign hennar hafi verið ólögmæt og valdið stefnanda miklu fjártjóni. Áður en kyrrsetning hafi verið ráðin og framkvæmd var stefnda um það kunnugt að stefnandi væri eigandi þeirra verðmæta að hluta er kyrrsetning beindist að. Stefndi hafi neitað að leysa fjármuni undan kyrrsetningu þrátt fyrir að boðin hafi verið fram veð.

                Krafa stefnanda sé um skaðabætur að fjárhæð 100.000.000 króna og sé reist á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og meginreglu íslensks skaðabótaréttar.  Krafan sé höfð uppi til sjálfstæðs dóms og krafist skaðabóta fyrir fjártjóni sem hin ólögmæta kyrrsetning hafi valdið stefnanda.

1)       Bætur fyrir tjón vegna tapaðs ávinnings

við leigu og sölu á aflaheimildum                                                         60.000.000 króna.

2)       Bætur fyrir tjón í útgerð vegna tapaðra

viðskiptahagsmuna og spjalla á lánstrausti                                        30.000.000 króna

3)       Miskabætur                                                                                                10.000.000 króna

                                                                                      Samtals                 100.000.000 króna

               

                Hvað lagarök varðar vísar stefnandi um réttarfar til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Krafan um dráttarvexti styðst við  6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.  Krafa um málskostnað er reist á ákvæðum laga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt er reist á  lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Grundvöllur skaðabóta og aðild stefnanda er reist á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Enn fremur á meginreglum íslensks skaðabótaréttar.

III

                Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnanda, enda virðist af gögnum máls­ins að stefnandi sé ekki sá sem geti krafist umræddra hagsmuna. Ekki verði ráðið af gögnum málsins hver eigi þau réttindi sem krafist sé í málinu. Af lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða leiði að aflaheimild verði aðeins framseld frá einu skipi yfir á annað skip. Fram sé tekið í málsatvikalýsingu í stefnu að stefnandi og Einar Þór Einarsson hafi um árabil gert út fiskiskipið Glað ÍS 121. Þá komi fram í greinargerð Einars Þórs í máli nr. E- 3425/2009 að stefndi og Einar Þór hafi gert skipið út og að þau hafi bæði gert ráðstafanir til leigu á aflaheimildum. Þá segi Einar Þór í aðilaskýrslu í sama máli að hann hafi rekið bátinn sjálfur. Vísar stefndi til þess að ekki sé ljóst hvort stefnandi eða Einar Þór hafi átt skipið eða hvort þau bæði hafi átt það og þá ekki hver hafi ætlað að taka þátt í meintum viðskiptum með aflaheimildir og geti þar af leiðandi gert skaðabótakröfu vegna þess tjóns sem stefnandi fullyrði að hafi hlotist af því að af umræddum viðskiptum hafi ekki orðið. Því eigi að sýkna stefnda af kröfum stefnanda samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Stefndi kveðst í öðru lagi byggja á því að stefnandi hafi þegar fengið dæmdar skaða­bætur úr hendi stefnanda vegna greiðsludráttar stefnda, sbr. dóm í máli nr. E-12679/2009 og geti því ekki krafist frekari skaða­bóta úr hendi stefnda en henni hafi verið dæmdar. Hafi stefndi greitt kröfu stefnanda 2. september 2010 með dráttarvöxtum frá 6. ágúst 2009 til greiðsludags, 9.075.313 krónur. Stefndi byggi auk þess á því að það hvíli á stefnanda að sýna fram á að hún eigi heimtingu að fá frekari skaðabætur en hún hafi fengið dæmdar með dómi í máli nr. E-12679/2009.

                Stefnandi virðist byggja mál sitt um greiðslu skaðabóta annars vegar á grundvelli 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. en hins vegar á grund­velli sakar­reglun­­­nar (vegna tjóns utan samninga). Stefndi byggi sýknukröfu sína í þriðja lagi á því að stefnandi geti ekki byggt skaða­­bótakröfu sína á grund­velli 42. gr. laga nr. 31/1990 þar sem sú lagagrein heimili aðeins skaðabóta­kröf­ur þeg­ar kyrrsetning hafi fall­ið niður og auk þess að kyrrsetningin hafi fallið nið­ur „vegna sýknu þeirrar kröfu, sem gerðinni var ætlað að tryggja,“ eins og segi í 1. mgr. 42. gr. laganna. Með dómi Héraðs­dóms Reykja­ness í máli nr. E-3425/2009 hafi verið hafnað að verða við viðurkenningarkröfu bankans í því máli en kyrr­setn­ingar­gerð sýslumanns hafi að hluta til verið staðfest. Einar Þór hafi því hvorki verið sýknaður af kröfu bankans í því máli né að kyrrsetn­ingar­gerð­in hafi alfarið verið felld niður, en hvort tveggja sé áskilið samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990. Stefndi byggi auk þess á því að kyrrsetningin hafi ekki verið felld niður að hluta vegna þess að hún hafi verið ólögmæt. Til þess sé einnig að líta að í for­­send­um dóms í máli nr. 3425/2009 komi fram að dómurinn telji sig ekki hafa ann­an kost en að hafna viðurkenningarkröfu bankans í málinu á grundvelli réttar­fars­ástæðna. Hér verði einnig að horfa til þess að stefndi hafi áfrýjað niðurstöðu dóms í máli nr. E-3425/2009 til Hæstaréttar og krefjist stefndi þess meðal annars að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og kyrr­setn­ingargerð sýslu­manns verði staðfest.

                Auk alls þessa komi ekki fram í stefnu hvenær meint viðskipti stefnanda með aflaheimildir hafi átt að hafa fara fram eða henni hafi annars orðið ljóst að hún hafi orðið fyrir því tjóni, sem hún krefjist bóta fyrir í þessu máli. Kyrrsetningin hafi hafist með kyrr­setn­ingar­gerð sýslu­manns­ins í Hafnarfirði 18. ágúst 2009 og 2. sept­em­ber 2010 hafi stefndi greitt stefnanda umrætt fé. Það blasi því við að hin meintu við­skipti með aflaheimildir hafi þurft að eiga sér stað á því tímabili, þ.e. frá því kyrr­setn­ing­in hófst og þangað til stefnanda hafi verið greitt féð, svo stefnandi geti byggt rétt sinn gagn­vart stefnda á 42. gr. laga nr. 31/1990. Málsatvikalýsing í stefnu sé óljós um þetta mikil­væga atriði. Af því sem fram sé komið að framan séu að mati stefnda ekki skilyrði til beit­ingar 42. gr. laga nr. 31/1990 og því eigi sú lagagrein ekki að koma til álita í málinu. Fallist dóm­ur­­inn ekki á það kveðst stefndi vísa til þeirra röksemda sem fram komi að framan og einnig til rökstuðnings fyrir þrautavarakröfu sinni um verulega lækk­un skaðabótakröfu stefnanda og höfnun vaxta­krafna hennar, enda eigi sömu sjónarmið við varð­andi beit­ingu sakar­reglunnar og þeirrar skaða­bótareglu sem fram komi í 42. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

                Stefndi kveðst í fjórða lagi byggja sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi ekki sannað eða gert lík­legt að þau viðskipti með aflaheimildir, sem lýst sé í stefnu, hafi komist á eða að stefnandi hafi á annað borð ætlað að taka þátt í viðskiptum með aflaheimildir sem stefndi hafi á ein­hvern hátt komið í veg fyrir. Stefn­andi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sanni að viðskipti stefn­anda með aflaheimildir hafi átt að eiga sér stað. Í þokkabót sé veigamikið ósam­ræmi í mála­­tilbúnaði stefnanda og vikið hafi verið að. Stefndi byggi auk þess á því að ákvæði laga nr. 106/2006 um stjórn fiskveiða komi í veg fyrir að þau viðskipti með afla­heim­ildir, sem stefnandi haldi fram að hafi átt að eiga sér stað, hafi geta átt sér stað. Um það sé vísað til ákvæða laganna sem takmarki framsal aflaheimilda. Því hafi stefn­andi aldrei geta fullnustað meint kaup hennar á aflaheimildum. Stefndi byggi einnig á því að þar sem stefnandi hafi ekki óskað eftir því skriflega við stefnda að fá fjármuni af eignastýringar­safni Einars Þórs afhenta, heldur aðeins í samtölum við starfsmenn stefnda, verði stefnandi að bera hall­ann af sönnun um það hvers efnis ósk hennar hafi verið. Stefndi veki athygli á því að þó stefn­andi full­yrði í stefnu að hún hafi komist að samkomulagi um kaup eða leigu á aflaheimild­um, sem hún hafi svo ekki getað greitt fyrir, virðist gagnaðili hennar í þeim viðskiptum ekki hafa beitt hana nein­um vanefndaúrræðum, sem megi heita undarlegt miðað við fjárhæð þeirra við­skipta sem stefn­andi segi að hafi komist á.

                Þá kveðst stefndi í fimmta lagi byggja sýknukröfu sína á því að hvorki sé ólögmætri né saknæmri háttsemi fyrir að fara hjá stefnda, þ.e. ekki hafi verið sýnt fram á að starfsmenn stefnda hafi valdið tjóni stefnanda af ásetningi eða gáleysi. Stefn­andi beri sönnunarbyrðina fyrir því að svo hafi verið, en þá sönnunar­byrði hafi hún ein­faldlega ekki axlað. Þegar stefndi hafi óskað eftir því við sýslumann 18. ágúst 2009 að hann kyrrsetti fé til tryggingar greiðslu skuldabréfs númer 7015 hafi skuld samkvæmt skuldabréfinu, umreiknað í íslenskar krónur, verið 109.798.450 krónur. Stefndi telji ljóst af lýsingu málsatvika að framan að þegar stefndi hafi ósk­að eftir kyrrsetningunni hafi stefndi rétt­mæt­an grun um að stefnandi og Einar Þór væru að skjóta und­an eign­um Einars Þórs, að því er virðist í þeim eina tilgangi að fullnusta skulda­bréfs númer 7015 yrði örðugri fyrir stefnda. Því hafi honum verið heimilt, og í raun nauðugur einn sá kost­ur, að vernda þá hagsmuni sína með kyrrsetningunni. Þessu til stuðnings vísi stefndi til ákvörð­un­ar sýslu­manns um að fall­­­ast á umbeðna kyrrsetningu og til forsendna dóms í máli númer E-3425/2009, en af dóminum megi ráða að hann fallist á full­yrðingar bank­ans um að mögu­leikar hans á að fullnusta umrædda kröfu hafi tak­markast veru­lega ef kyrr­setn­ingar­innar nyti ekki við.

                Hér verði einnig að horfa til þess að stefnandi og stefndi hafi átt í réttarágreiningi um það hvort stefnandi ætti heimtingu á helmingi þess fjár sem hafi verið á eignastýringarsafni Einars Þórs hjá stefnda. Stefndi hafi aldrei verið grandsamur um það að stefnandi hafi átt þá fjármuni sem voru á eigna­­stýringarsafninu. Þeim réttar­ágrein­­ingi hafi lokið með greiðslu stefnda til stefnanda 2. september 2010. Réttarágreiningur aðila hafi bæði verið umfangsmikill og flókinn, en meðferð hvors máls fyrir dómstólum sé lýst að framan. Stefndi byggi á því að það hafi ekkert bent til þess að stefnandi ætti skýlausan rétt til helmings fjárins sem hafi verið á eignstýringarsafni Einar Þórs hjá stefnda númer 470500 og því sé ekki hægt að segja að niðurstaða réttarágreinings aðila um þetta atriði hafi verið fyrir­sjá­anleg. Um þetta atriði hafi verið ágreiningur og hann hafi verið leystur fyrir dómstólum. Stefndi byggi jafnframt á því að þær tryggingar sem stefnandi segist hafa boðið stefnda í stað fjárins, hafi ekki verið fullnægjandi, hvorki að eðli né fjárhæð. Stefndi hafi því verið í fullum rétti að hafna mála­leitunum stefnanda um að afhenda henni féð meðan leyst væri úr ágreiningi aðila fyrir dómstólum.

                Stefndi kveðst jafnframt byggja á því að umrædd kyrrsetning sýslumanns á fjármunum á eigna­stýringarsafni Einars Þórs hafi verið lögmæt, a.m.k. hafi Héraðsdómur Reykjaness í máli nr. E-3425/2009 ekki fellt kyrrsetningargerðina að hluta til úr gildi vegna þess að hún hafi verið ólögmæt. Auk þessa hafi Einar Þór áfrýjað og stefndi gagnáfrýjað niðurstöðu héraðs­dóms í málinu til Hæstaréttar og því sé ekki hægt að fullyrða að kyrrsetning hafi verið ólögmæt. Stefndi byggi jafnframt á því að hann hafi gætt meðalhófs við kyrrsetninguna, enda hafi að­gerðir stefnda til að vernda hagsmuni sína ekki gengið lengra en efni hafi staðið til. Sé vísað til þess að skuldin hafi á þessum tíma verið 109.798.450 krónur og þeirrar yfirlýsingar sem Einar Þór hafi gefið starfsmanni stefnda um að hann ætlaði sér ekki að greiða skuldina að fullu og þeirra aðgerða sem Einar Þór og stefnandi hafi gripið til gegn stefnda og lýst hafi verið. Stefndi telji með hliðsjón af öllu framansögðu ekkert kom­ið fram sem gefi til kynna að hann hafi valdið stefnanda tjóni með saknæmri eða ólögmætri háttsemi. Þvert á móti telji stefndi að háttsemi stefnanda og Einars Þórs hafi miðað að því að valda stefnda tjóni. Því beri þegar og af þeim sökum að sýkna stefnda af kröfum stefn­anda.

                Stefndi kveðst í sjötta lagi byggja sýknukröfu sína á því að orsakatengsl séu ekki á milli meints tjóns stefnanda og þeirra athafna/athafnaleysis starfsmanna stefnda, sem stefnandi telji að hafi valdið sér tjóni. Stefnandi telji meint tjón sitt nema 100.000.000 króna og að stefndi hafi valdið því tjóni með ólögmætri kyrrsetningu og/eða eftirfarandi höfnun starfsmanna stefnda að greiða stefnanda fé sem hafi verið á eigna­stýringar­safni Einars Þórs númer 470500 hjá stefnda. Stefndi telji að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að meint tjón hans megi rekja til athafna/athafnaleysis starfs­manna stefnda, enda sé mjög ólíklegt að kyrrsetning á 49.179.500 krónum hafi verið það íþyngjandi að hún hafi valdið stefnanda tjóni sem nemi ríflega tvöfaldri þeirri upphæð. Stefndi byggi a.m.k. á því að ekki séu orsakatengsl milli athafna/at­hafna­leysis starfsmanna stefnda og alls tjóns stefnanda. Varðandi það vísi stefndi meðal annars til þess að í greinargerð Einars Þórs í mál nr. E-3425/2009, komi fram að stefnandi og Einar Þór hafi gert ráðstafanir til að leigja afla­heimildir að fjárhæð 60.000.000 króna. Þessi sama fjárhæð komi fram í skýrslutöku yfir Einari Þór í málinu. Fjárhæð þeirra viðskipta, sem vísað sé til í stefnu, komi ekki fram þar, en stefndi leyf­i sér varðandi þetta að álykta að fyrrgreind fjárhæð úr máli nr. E-3425/2009 sé fjárhæð þeirra við­skipta sem lýst sé í stefnu. Samt sem áður byggi stefnandi málatilbúnað sinn á því að hann hafi orðið af umræddum viðskiptum þar sem hann hafi ekki fengið greitt fé frá stefnda sem hafi numið 49.179.500 krónum, sem hafi verið stefnufjárhæð stefnanda í máli nr. 12679/2009. Stefndi byggi á að hann geti ekki verið gerður ábyrgur fyrir tjóni stefnanda þegar ljóst sé að stefnandi hafi ekki getað fullnustað kaupin nema að hluta með þeim fjármunum sem hann telji stefnda halda með óréttmætum hætti.  Þá byggi krafa stefnanda á tjóni vegna tapaðs ávinnings af sölu og leigu á aflaheimildum, spjalla á lánstrausti og viðskiptahagsmunum. Stefndi ítreki áður framkomin sjónarmið sín og vísar til þess að tjón stefnanda sé afleitt tjón, þ.e. tjón sem leiði af frum­verknaðinum, sem stefndi eigi ekki að bera ábyrgð á.

                Í sjöunda lagi kveðst stefndi byggja sýknukröfu sína á því að meint tjón stefnanda sé ekki sennileg afleiðing af háttsemi stefnda. Í máli þessu liggi fyrir að stefndi hafi krafist kyrrsetningar á eigna­stýringarsafni eiginmanns stefnanda til að tryggja augljósa og lögvarða hagsmuni stefnda, sem hafi verið ógnað af aðgerðum stefnanda og eiginmanns hennar. Að mati stefnda sé skaðabótakrafa stefnanda fjarstæðu­kennd og meint tjón hennar ekki í neinu samræmi við háttsemi stefnda. Það sé ósannað að stefndi hafi vitað eða séð fyrir að kyrrsetningargerðin kynni að valda stefn­anda tjóni og hvað þá tjóni af þeirri stærðargráðu sem stefnandi full­yrði um tjón sitt, þ.e. ríflegra tvö­faldri þeirri fjárhæð sem stefnandi telji stefnda hafa fengið kyrrsetta með ólögmætum hætti. Stefndi telji raunar að saga stefnanda um þessi umræddu viðskipti sé fjarstæðukennd, þ.e. að hún hefði geta tekist á hendur viðskipti sem hefðu gefið af sér ávöxtum sem nemi 60.000.000 króna, en miðað við að hún hefði fjárfest fyrir þá fjár­muni sem hún telji stefnda hafa fengið kyrrsetta með ólögmætum hætti (49.179.500 kr.), þá sé um ríflega 100%  ávöxtun að ræða fyrir þessi tilteknu viðskipti. Stefndi telji að öllu framansögðu að skilyrðinu um sennilega afleiðingu sé ekki fullnægt og því eigi að sýkna stefnda af kröfu stefnanda.

                Aðalkröfu sína um sýknu byggi stefndi í áttunda lagi á almennum meginreglum skaðabótaréttar­ins um sönnun tjóns. Stefnandi beri alfarið sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði skaðabóta­ábyrgðar séu fyrir hendi og jafnframt fyrir fjárhæð hins meinta tjóns. Stefndi byggi á því að stefnandi hafi ekki sannað eða gert líklegt að hún hafi orðið tjóni. Stefndi telji að stefnandi hafi ekki lagt fram nein sönnunargögn sem sanni fjárhæð hins meinta fjártjóns hennar eða geri líklegt að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna hinnar meintu saknæmu háttsemi stefnda. Að mati stefnda standi öll rök til þess að slík gögn eigi að liggja fyrir, hafi á annað borð verið um raun­veruleg viðskipti að ræða, enda um viðskipti að ræða sem nemi 60.000.000 króna, sé tekið mið af fjárhæð í greinar­gerð Einars Þórs og aðilaskýrslu hans í máli nr. E-3425/2009. Stefndi kveðst byggja á því að þar sem stefn­anda hafi ekki tek­ist að sanna tjón sitt eða gera líklegt að hún hafi orðið fyrir tjóni af völdum stefnda, beri að sýkna stefnda.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 100.000.000 króna með dráttar­­­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Stefndi kveðst mót­­mæla þeirri kröfugerð stefnanda alfarið, þ.e. að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni, eða að hún hafi gert líklegt að hún hafi orð­ið fyrir tjóni, og einnig fjárhæð kröfunnar. Í þessu sambandi bendi stefndi á þá einkennilegu staðreynd sem fram komi í greinar­­gerð Einars Þórs í staðfestingarmáli vegna kyrrsetningar. Þar sé ætluðum kaupum stefnanda og Einars Þórs á aflaheimildum lýst að fjárhæð 60.000.000 króna og sagt að athafnir stefnda hafi leitt til þess að Einar Þór hafi orðið fyrir „verulegu fjártjóni, miska og veru­legum spjöllum á lánstrausti og viðskiptahags­munum,“ sem séu sömu atriði og krafist sé bóta vegna í stefnu í þessu máli. Í því máli hafi verið krafist bóta að fjár­hæð 30.000.000 króna. Aftur á móti sé í þessu máli krafist skaðabóta sem nemi rúmlegra þrefaldri þeirri fjárhæð eða 100.000.000 króna. Þessi munur á milli þessara tveggja skaða­bóta­krafna sé al­gjörlega óútskýrð­ur af hálfu stefnanda og geri málatilbúnað stefnanda verulega ótrú­verðugan að mati stefnda. Þess megi geta að skaðabótakröfu Einars Þórs hafi verið vísað frá með dómi í máli nr. E-3425/2009.

                Skipta megi kröfu stefnanda í þrjá liði. Undir fyrsta kröfulið í stefnu krefjist stefnandi 60.000.000 króna vegna „tapaðs ávinnings við leigu og sölu á aflaheimildum.“ Stefndi kveðst hafna þessum kröfulið. Þá fái stefndi ekki séð hvernig stefnandi hafi tapað ávinn­ingi og orðið fyrir tjóni af því að leigja og selja aflaheimildir þegar fyrir hafi legið samkvæmt stefnu máls­ins að stefn­andi hafi ætlað að leysa til sín aflaheimildir í þágu reksturs skips­ins Glaðs ÍS 121. Einnig byggi stefndi á því að hann geti ekki verið gerður ábyrgur fyrir tjóni sem stefnandi haldi fram að hafi orðið á rekstri þeirra, þar sem svo virðist af aðila­skýrslu yfir Einari Þór í máli nr. E-3425/2009, að skipið Glaður ÍS 121 hafi verið rekið án varanlega aflaheimilda og því hafi rekstur skipsins verið háður því að stefnandi hafi getað á hverjum tíma keypt aflaheimildir vegna skipsins. Hér hafi stefnandi tekið áhættu í rekstri skipsins, sem hún verði sjálf að bera. Með hliðsjón af fram­an­­sögðu telji stefndi því að sýkna beri stefnda af þessum kröfulið stefn­anda.

                Í öðrum kröfulið sé krafist 30.000.000 króna fyrir tjón í útgerð vegna „tapaðra viðskiptahagsmuna og spjalla á lánstrausti.“ Stefndi hafni þessum kröfulið. Stefndi telji stefnanda ekki hafa fært neinar sönnur fyrir þessum kröfulið og hann sé með öllu órök­studdur og ósannaður. Stefndi mótmæli einnig fjárhæð þessa kröfuliðs. Þá sé aðkoma stefnanda að þessum kröfulið einnig óljós, enda ekki ljóst hvort um hennar eigin hagsmuni sé að ræða eða hagsmuni í eigu annarra aðila. Af framan­greindu leiði að stefndi eigi að vera sýknaður af þessum kröfulið. Í þriðja kröfulið krefjist stefnandi 10.000.000 króna í miskabætur. Þessum kröfulið hafni stefndi, enda afar óljóst á hvaða grundvelli þessi kröfuliður sé byggður. Stefndi hafi ekki vís­að til viðeigandi laga­reglu sem kveði á um heimild dómstóla til að dæma henni bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og, jafnvel þó svo væri, telji stefndi ekkert hafa komið fram í mála­til­bún­aði stefnanda sem sanni eða geri líklegt að hún hafi orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni. Þá skarist þessi kröfuliður við annan kröfulið, en stefnandi rökstyðji ekki í stefnu hver sé munur þessara tveggja kröfuliða. Þá mót­mæli stefndi einnig fjárhæð kröfunnar, enda hafi það ekki tíðkast í íslenskri dómaframkvæmd að dæma svo háar miskabætur. Stefndi telji því að sýkna eigi af þessum kröfulið. Stefndi vilji taka skýrt fram að hann telji að stefnandi hafi ekki einungis mistekist að sanna tjón sitt, heldur einnig að sýna fram á að líkindi standi til þess að hún hafi orðið fyrir nokkru tjóni. Stefndi telji því að ekki sé nein ástæða til að dæma stefnanda skaðabætur eftir álitum úr hendi stefnda, annaðhvort á grundvelli lokamálsliðar 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 eða annarra réttar­­heimilda.

                Þá kveðst stefndi í níunda lagi byggja á því að háttsemi stefnanda sjálfs eigi að leiða til þess að til­dæmdar skaðabætur verði felldar niður. Það hafi því verið aðgerðir stefnanda og Einars Þórs, sem lýst sé að framan, sem hafi leitt til beiðni stefnda um kyrrsetningu á fjármunum á eigna­­­stýringar­safni Einars Þórs. Þessu til stuðnings kveðst stefndi vísa til ákvörðunar sýslu­manns um að fall­ast á umbeðna kyrrsetningu og til forsendna dóms í máli nr. E-3425/2009. Í dóminum hafi verið fallist á að helm­­ingur af eignastýringarsafni Einars Þórs yrði kyrrsettur, en af dóminum megi ráða að hann fallist á fullyrðingar bankans um að mögu­leikar hans á að fullnusta umræddri kröfu tak­mörkuðust verulega ef kyrrsetn­ingar­innar nyti ekki við.

                Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í tíunda lagi á því að stefnandi hafi ekki gert neinar ráðstafanir til að tak­marka tjón sitt, s.s. með því að fjármagna meint kaup á aflaheimildum með öðrum hætti eftir að starfsmenn stefnda hafi hafnað því að greiða henni fé af eignastýringarsafni Einars Þórs. Auk þessa virðist stefnandi engar ráðstafanir hafa gert til kaupa á afla­heim­ildum eftir að stefndi hafi greitt henni 49.179.500 krónur, ásamt dráttar­vöxtum 2. september 2010 í samræmi við dóm í máli nr. E-12679/2009, en þá þegar hafi stefn­andi getað hafist handa við fjárfestingar í afla­­heimildum og þannig reynt að hagnast á slíkum viðskiptum eins og lýst sé í stefnu. Með því móti hafi stefnandi getað takmarkað tjón sitt af þeim við­skiptum sem stefnandi segist hafa getað tek­ið þátt í, en stefndi hafi meinað henni að gera. Þar sem stefnandi hafi ekki gripið til viðeigandi ráð­stafana til að takmarka tjón sitt, telji stefndi að sýkna eigi hann af kröfum stefnanda.

                Stefndi kveðst telja að framangreindar röksemdir, hver og ein og allar saman, eigi að leiða til þess að stefndi verði alfarið sýknaður af kröfum stefnanda. Fallist dómurinn ekki á ofangreind rök fyrir aðalkröfu stefnda um að sýkna stefnda alfarið af kröfum stefnanda, krefst stefndi þess til vara að kröf­­­ur stefnanda verði lækkaðar verulega og að kröfu stefnanda um vexti verði al­farið hafn­að. 

                Eins og fram hafi komið hafi stefndi þegar greitt stefnanda dráttarvexti að fjár­hæð 9.075.313 krónur vegna dóms nr. E-12679/2009. Verði ekki fallist á að sýkna stefnda alfarið af kröfu stefnanda, krefjist stefndi þess í fyrsta lagi að sú fjárhæð, sem hann hafi þegar greitt stefnda, komi til frádráttar tildæmdum skaðabótum, enda byggi stefndi á því að stefna­ndi hafi ekki rök­stutt kröfur sínar til skaðabóta í þessu máli með öðrum hætti en í hinu fyrra máli. Í öðru lagi kveðst stefndi byggja á því að þær röksemdir, sem líst hafi verið eigi að leiða til þess að skaðabætur verði lækkaðar verulega. Varðandi sönnun tjóns, þá taki stefndi fram að hann mótmæli því að stefnandi hafi sannað eða gert á annan hátt líklegt að hún hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra atvika sem komi fram í stefnu. Því séu engin rök fyrir því að beita loka­máls­lið 1. mgr. 42. gr. laga nr. 31/1990 í þessu máli og dæma bætur að álitum. Stefndi byggi einnig á því að lækka eigi bóta­fjár­hæðina eða fella hana alfarið niður á grundvelli 1. mgr. 24. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

                Verði fallist á kröfu stefnanda að einhverju eða öllu leyti kveðst stefndi krefjast þess að vaxtakröfum stefnanda, þ.e. kröfu stefnanda um vexti af skaða­bóta­kröfum og dráttarvexti, verði alfarið hafnað. Í stefnu sé þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verð­tryggingu frá 18. ágúst 2009 til 14. júní 2010, en dráttar­­vaxta frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi fær ekki séð af máls­atvika­lýsingu í stefnu eða af þeim gögnum sem stefnandi hafi lagt fram hvers vegna krafist sé vaxta frá 18. ágúst 2009 eða hvers vegna 14. júní 2010 sé upphafs­dagur dráttarvaxta. Stefndi telji þó að stefnandi geti ekki sótt dráttar­vaxta­kröfu sinni stoð í 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, þar sem stefndi hafi fyrst verið krafinn um greiðslu skaðabóta­kröfunnar við höfðun máls­ins 12. október 2010. Vegna þessa telji stefndi að hafna eigi vaxtakröfum stefn­anda, en a.m.k. eigi ekki að dæma stefnda til að greiða stefnanda dráttar­vexti frá fyrra tímamarki en 12. nó­vem­ber 2010, þ.e. einum mánuði eftir að stefndi var sannanlega krafin um greiðslu kröfun­nar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

                Hvað lagarök varðar vísar stefndi til almennra megin­reglna skaðabóta­réttarins meðal annars um sönnun tjóns og sakarregluna. Um skilyrði fyrir kyrr­setningunni vísar stefndi til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Einnig er vísað til laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Um kröfu vegna vaxta og dráttarvaxta vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verð­trygg­ingu, einkum VI. kafla lag­anna. Um sönnun hins meinta tjóns stefn­anda vísar stefndi einnig til 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig er vísað til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 1. mgr. 24. gr. laganna. Varðandi kröfu stefnda um málskostnað vísar stefndi m.a. til ákvæða einkamálalag­anna, einkum og sér í lagi 129. gr. og 130. gr. þeirra. Um kröfu stefnda um virðis­auka­skatt af málflutnings­þóknun vísast til laga nr. 50/1988 um virðis­auka­skatt. Stefndi er ekki virðis­aukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnanda.

IV

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslur vitnin Einar Þór Einarsson og Kári Kort, svo og Einar S. Hálfdánarson og Birkir Leósson löggiltir endurskoðendur og dómkvaddir matsmenn, sem staðfestu matsgerð sína fyrir dómi.

Ágreiningur málsaðila snýst um það hvort stefnandi hafi orðið fyrir fjártjóni við kyrrsetningu á eignastýringarsafni nr. B 470500 í vörslum stefnda (áður Nýja Kaupþing banka hf.), sem kyrrsett var 18. ágúst 2009 að kröfu stefnda til tryggingar fullnustu á kröfu stefnda á Einar Þór Einarsson samkvæmt skuldabréfi 327-35-7015. Telur stefnandi sig hafa orðið fyrir tjóni af aðgerðum stefnda með kyrrsetningu á eignarstýringarsafninu og krefst bóta fyrir miska og fjártjón samtals að fjárhæð 100.000.000 króna, auk vaxta. Kröfuna, sem reist er á 42., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sundurliðar stefnandi þannig: Bætur fyrir tjón vegna tapaðs ávinnings við leigu og sölu á aflaheimildum, 60.000.000 króna; bætur fyrir tjón í útgerð vegna tapaðra viðskiptahagsmuna og spjalla á lánstrausti, 30.000.000 króna og miskabætur, 10.000.000 króna.

Fyrir liggur að eignasafnið númer 470500 var í vörslum stefnda á nafni eiginmanns stefnanda, Einars Þórs Einarssonar. Var það á grundvelli sérstaks samnings milli Einars Þórs Einarssonar og KB banka hf. um eignastýringuna frá 4. júní 2004. Samkvæmt 10. gr. samningsins skal tilkynna bankanum þegar í stað ef annar aðili hefur öðlast rétt til eignasafnsins. Þá segir í 11. gr. samningsins að viðskiptavinur geti sagt samningnum upp hvenær sem honum henti. Uppsögn skuli gera skriflega, með símbréfi eða með öðrum sannanlegum hætti.

Með bréfi dagsettu 20. júlí 2009 óskuðu stefnandi og Einar Þór Einarsson eftir því að stefnandi yrði skráður eigandi að eignasafninu með Einari Þór, enda væri safnið hjúskapareign þeirra. Stefndi móttók beiðnina samdægurs en sinnti henni ekki. Með bréfi til stefnda, dagsettu 31. júlí 2009, sögðu stefnandi og Einar Þór Einarsson upp samningi við stefnda um eignastýringuna. Bréfið var móttekið í bankanum 6. ágúst 2009. 

Krafa stefnda um sýknu af kröfum stefnanda er meðal annars byggð á aðildarskorti. Vísar stefndi til þess að gögn málsins bendi ekki til að stefnandi geti krafist þeirra hagsmuna sem krafist sé í málinu. Því beri að sýkna stefnda samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fram er komið að krafa stefnanda er reist á ákvæðum 42. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og á meginreglum skaðabótaréttarins. Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefnandi hafi verið eigandi að hálfu eignasafni nr. B 470500 sem hafi verið kyrrsett með ólögmætum hætti og valdið stefnanda bótaskyldu tjóni. Stefnda hafi verið kunnugt um það að stefnandi væri eigandi þeirra verðmæta sem kyrrsetningin hafi beinst að og þá hafi stefndi neitað að leysa fjármuni undan kyrrsetningu þrátt fyrir framboðin veð. Með vísan til þess að krafa stefnanda er öðrum þræði reist á 42. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og því að stefnda var eða mátti vera kunnugt um það 18. ágúst 2009 að eignasafnið sem stefndi fékk kyrrsett til að tryggja fullnustu á kröfu stefnda á hendur Einari Þór Einarssyni, var að hluta til í eigu stefnanda og vörslur stefnda á safninu voru samkvæmt samningi sem hafði þá þegar verið sagt upp af stefnanda og Einari Þór Einarssyni, verður ekki fallist á sjónarmið stefnda og kröfu um sýknu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefnda er meðal annars byggð á því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni að fjárhæð 60.000.000 króna vegna tapaðs ávinnings við leigu og sölu á aflaheimildum. Í bréfi lögmanns stefnanda til dómkvaddra matsmanna, dagsettu 24. maí 2011, segir að stefnandi og Einar Þór hafi um árabil stundað útgerð og hafi reksturinn verið á hendi eiginmanns stefnanda. Þau hafi gert út bátinn Birtu ÍS 551 en selt bátinn 29. ágúst 2008. Sama dag hafi þau keypt Hólmanes SU 1 sem hafi verið selt í mars 2009. Í febrúar 2009 hafi þau keypt fiskiskipið Glað ÍS 221 sem þau hafi gert út sjálf. Í júlí 2009 hafi báturinn verið seldur til félagsins Hlið útgerð ehf. sem stefnandi og Einar Þór hafi stofnað til að stunda fiskveiðar frá og með fiskveiðiárinu 1. september 2009. Hafi stefnandi ætlað að nýta sér verðmæti úr eignasafninu til öflunar veiðiheimilda, þ.e. til að kaupa leigukvóta til nota fyrir eigin útgerð og til áframsölu. Þá vísar stefnandi til þess að boðist hafi aflaheimildir í ágúst 2009 fyrir fiskveiðiárið 2009-2010. Um hafi verið að ræða 300 tonn í þorski, 270 tonn í ýsu og 30 tonn í skötusel og hafi staðgreiðsluboð verið mjög hagfellt, 62.400.000 krónur. Á því er byggt að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni vegna þess að hinir kyrrsettu fjármunir hafi ekki verið stefnanda til reiðu frá 18. ágúst 2009 til 2. september 2010. Stefndi hafnar öllum sjónarmiðum stefnanda í þessa veru og fullyrðir að stefnandi hafi ekki sannað eða gert sennilegt að viðskipti með aflaheimildir hafi komist á eða að stefnandi hafi á annað borð ætlað að taka þátt í viðskiptum með aflaheimildir sem stefndi hafi á einhvern hátt komið í veg fyrir. Hafi stefndi ekki lagt fram nein gögn sem sanni að slík viðskipti hafi átt að eiga sér stað.

Í niðurstöðum dómkvaddra matsmanna kemur fram, hvað þennan hluta af ætluðu tjóni stefnanda varðar, að matsmenn byggja niðurstöðu sína á framlögðu tilboði, sem þeir meta „ákaflega hagstætt” fyrir stefnanda. Bera matsmenn saman verð á leigukvóta per kíló samkvæmt skráðum og birtum verðtölum frá Fiskistofu samkvæmt meðalverði 16. september 2009, 16. febrúar og 16. júní 2010. Komast matsmenn að þeirri niðurstöðu með útreikningum sínum að hagnaður stefnanda af því að endurselja leigukvótann hefði, miðað við gefnar forsendur, numið 43.770.000 til 79.350.000 króna. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar segir orðrétt: „Samkvæmt framansögðu miða matsmenn tjón matsbeiðanda við mismun á kaupverði og endursöluverði leigukvóta. Matsmenn miða meðaltal hæsta og lægsta verðs á leigukvóta í niðurstöðum sínum, eða endursöluverðið kr. 123.960.000. Tjón matsbeiðanda telst þannig miðað við forsendur matsbeiðanda og að teknu tilliti til alls kostnaðar, bæði útlagðs kostnaðar og eigin kostnaðar bæði við kaup og sölu leigukvótans nema kr. 60.000.000. Hefði matsbeiðanda hins vegar ekki staðið til boða að kaupa leigukvóta á því mjög hagfellda verði sem tilgreint er í matsbeiðni heldur þurft að kaupa hann á almennu markaðsverði næmi tjón hans talsvert lægri fjárhæð.“

Meðal málsgagna er „söluyfirlit“ fasteignasölunnar Neseignir, sem er prentað út og staðfest af Kára Kort sölustjóra 8. september 2009. Í yfirliti þessu kemur fram að um sé að ræða „leigu kvóta fyrir fiskveiðiárið 2009-2010 eftirfarandi tegundir og magn staðgreiðslu er krafist og miðað er við að neðangreint magn sé tekið í einu lagi. 300 tonn af þorski selst á 150 kr kg 270 tonn ýsa 50 kr. kg ásamt 30 tonn skötuselur á 130 kr kg kvóti fyrir samtals kr. 62.400.000 kr.“  Fram er tekið á yfirlitinu að söluumboð gildi til 14. ágúst 2009 og að „eign“ hafi verið skoðuð 3. ágúst 2009.

Vitnið Kári Kort, lögfræðingur og sölustjóri Neseigna, kom fyrir dóminn og staðfesti undirritun sína á framlagt yfirlit fasteignasölunnar um kvóta. Vitnið staðfesti að kvótinn hefði verið til sölu á því verði sem tilgreint væri á yfirlitinu. Vitnið greindi frá því að fasteignasalan Neseignir hefði gert talsvert að því að selja kvóta og hefði verið beðin um að selja greindan leigukvóta samkvæmt yfirlitinu á þessum tíma. Þetta atvikist þannig að fasteignasalan fengi yfirlit yfir kvóta og verð og fengi það hlutverk að finna kaupanda sem legði inn peninga á fjárvörslureikning fasteignasölunnar. Þá væru viðskiptin komin á. Um þann leigukvóta sem tilgreindur væri á yfirlitinu greindi vitnið svo frá að fasteignasalan hefði fengið mjög skamman tíma til að selja kvótann. Vitnið greindi einnig frá því að það hefði átt samskipti við Einar Þór Einarsson sem hefði haft samband við fasteignasöluna og spurst fyrir um kvóta til sölu og viljað kaupa kvóta á bát sem hann væri með. Aðspurður um það til hvers skjalið væri svaraði vitnið því að skjalið væri útbúið til að sýna fram á að kvótinn væri til sölu. Nafn seljanda kæmi ekki fram og neitaði vitnið að upplýsa um það hver hefði verið að selja þennan kvóta. Það taldi vitnið vera trúnað milli þess sem hefði átt kvótann og vitnisins. Vitnið kvað ekki hafa orðið af sölunni fyrir milligöngu fasteignasölunnar. Greindi vitnið frá því að kvótinn hefði verið boðinn 3. ágúst 2009 og hefði umboð til sölunnar fallið niður 14. ágúst sama ár. Þá kom fram hjá vitninu að kvótinn hafi verið til sölu á fleiri en einum stað á sama tíma. Vitnið kvaðst ekki hafa selt kvótann, en það hefði annar söluaðili gert. Ákvörðun um uppgefið verð kvótans væri seljandans. Vitnið sagði mikið framboð hafa verið á kvóta á þessum tíma sem skýrði væntanlega hið lága verð sem hefði verið boðið á þessum kvóta. 

Samkvæmt lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða er óheimilt að stunda veiðar í atvinnuskyni við Íslands nema að hafa fengið til þess almennt veiðileyfi. Samkvæmt 4. gr. laganna eru veiðileyfi tvenns konar, þ.e. veiðileyfi með aflamarki og veiðileyfi með krókaaflamarki. Getur skip aðeins haft eina gerð veiðileyfis á sama fiskveiðiári. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. er veiðiheimildum á þeim tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af, úthlutað til einstakra skipa og skal hverju skipti úthlutað tiltekinni hlutdeild af leyfðum heildarafla tegundarinnar sem nefnist aflahlutdeild skips og helst óbreytt milli ára. Þá segir í 3. mgr. 8. gr. að aflamark veiðiskips á hverju fiskveiðiári, veiðitímabili eða vertíð, ráðist af leyfðum heildarafla í viðkomandi tegund og hlutdeild skipsins í þeim heildarafla samkvæmt 2. mgr., að frádregnu hlutfalli af magni hverrar tegundar sem skal vera allt að 5,3% eins og rakið er nánar í 8. gr. laganna. Samkvæmt reglugerð nr. 676/2009 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2009/2010 var heimilt að flytja aflamark á milli fiskiskipa enda leiði flutningurinn ekki til þess að veiðiheimildir skipsins verði bersýnilega umfram veiðigetu þess. Eru reglur um slíkan flutning að finna í 9. og 10. gr. nefndrar reglugerðar nr. 676/2009.

Þrátt fyrir að stefnandi kunni að hafa haft fiskiskip til ráðstöfunar til að láta færa á leigukvóta til endursölu er það mat dómsins að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það með haldbærum rökum að leigukvóti sá sem Neseignir hafði til sölu í ágúst 2009 hafi verið falur á þeim tíma sem leitað var eftir því. Fyrir liggur samkvæmt framburði Kára Kort að eiginmaður stefnanda, Einar Þór Einarsson, hafi leitað til fasteignasölunnar og spurst fyrir um kvóta til sölu. Þrátt fyrir það liggur ekkert óyggjandi fyrir um það hvaða dag það var nákvæmlega og hvort umræddur kvóti var þá enn til sölu og óseldur. Vitnið Kári Kort greindi eins og fram er komið frá því að fasteignasalan hefði fengið mjög skamman tíma til að selja umræddan kvóta. Þá liggur einnig fyrir að sami kvóti var til sölu á öðrum stöðum á sama tíma. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki fært viðhlítandi sönnur á það að stefnandi hafi ætlað að kaupa leigukvótann eða haft möguleika á að fjármagna kaupin. Í öllu falli er ljóst að stefnandi gerði ekki formlegt tilboð í kvóta á þessum tíma, hvorki þann leigukvóta, sem getið er um á yfirliti fasteignasölunnar, eða annan framboðin. Þykir stefnandi þannig ekki hafa sýnt fram á það að hún hafi ætlað að kaupa umræddan kvóta fyrir milligöngu Neseigna sem einvörðungu var boðinn „í einu lagi“ eins og fram er tekið á yfirliti Neseigna. Þá verður að hafa í huga að verðmæti kvótans er sagt vera 62.400.000 krónur, en hlutur stefnanda í eignasafni nr. 470500 nam 49.179.500 krónum. Ekkert liggur óyggjandi fyrir um það að mati dómsins að stefnandi gæti fjármagnað þennan mismun. Þá liggur heldur ekkert fyrir um það að stefnandi hefði getað endurselt leigukvótann með þeim hagnaði sem frá er greint í matsgerð dómkvaddra matsmanna. Þykir matsgerðin ekki reist á réttum forsendum að þessu leyti og verður ekki lögð til grundvallar skaðabótum í málinu. Það verður því niðurstaða dómsins að stefnanda hafi ekki tekist sönnun um tjón vegna missi hagnaðar á tímabilinu frá 18. ágúst 2009 til 2. september 2010 vegna verðhækkunar á aflamarki, en matsniðurstaðan er alfarið á því byggð að umræddar aflaheimildir hefðu verið endurseldar.

Stefnandi krefst einnig skaðabóta vegna tapaðra viðskiptahagsmuna og spjalla á lánstrausti að fjárhæð 30.000.000 króna og miskabóta að fjárhæð 10.000.000 króna. Að mati dómsins eru þessir kröfuliðir stefnanda órökstuddir með öllu og teljast ósannaðir og er þeim hafnað.

Kemur þá til skoðunar hvort dæma eigi stefnanda bætur eftir álitum samkvæmt heimild í 1. mgr. 42. gr. laga nr. 39/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Fyrir liggur að stefnandi óskað eftir því bréflega við bankann að eignarhaldi á eignarstýringarsafni yrði breytt og stefnandi og Einar Þór Einarsson yrðu bæði skráð eigendur enda væri eignasafnið hjúskapareign þeirra. Þá liggur einnig fyrir að stefndi sinnti hvorki þessari beiðni né uppsögn stefnanda og Einars Þórs á samningi frá 4. júní 2004 um eignastýringu án þess að hafa fyrir því haldbær rök. Var uppsögnin gerð bréflega 31. júlí 2009. Þess í stað fékk stefndi eignasafnið kyrrsett 18. ágúst 2009 á grundvelli beiðni þar um, dagsettri 12. ágúst 2009, í þeim tilgangi að tryggja fullnustu á fjárkröfu stefnda á hendur Einari Þór Einarssyni samkvæmt skuldabréfi nr. 327-35-7015. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 23. mars 2010, í málinu nr. 12679/2009, varð niðurstaðan sú að stefnandi ætti helming af eignastýringarsafninu og að stefnda hafi borið að verða við þeirri kröfu að greiða hennar hlut inn á sparisjóðsreikning stefnanda þegar þess var óskað í bréfi sem stefndi móttók 6. ágúst 2009. Var stefndi dæmdur til að greiða stefnanda andvirði helmings af eignasafninu, 49.179.500 krónur, auk dráttarvaxta. Dóminum var ekki áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Samkvæmt þessu liggur fyrir að eignastýringarsafn það sem kyrrsett var 18. ágúst 2009 var eign stefnanda að hálfu án þess að vera handveðsett, eða að tilgangur kyrrsetningar hafi verið að fullnusta kröfu stefnda á hendur stefnanda. Stefnandi var ekki aðili að staðfestingarmáli vegna kyrrsetningar sýslumannsins í Hafnarfirði, máli nr. 3425/2009, en dómur í málinu var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness 14. júlí 2010. Var áðurnefnd kyrrsetningargerð sýslumanns staðfest, en einvörðungu í helmingi eignarstýringarsafnsins. Samkvæmt framansögðu liggur fyrir að stefndi hafði í sinni vörslu án heimildar stefnanda fjármuni stefnanda og fékk kyrrsetta með ólögmætum hætti í stað þess að sinna beiðni stefnanda um breytingu á skráningu á eignarhaldi safnsins og síðar uppsögn hennar og eiginmanns hennar á samningi um eignastýringuna.

Samkvæmt 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. getur þriðji maður, sem telur rétti sínum hallað í sambandi við kyrrsetningargerð, haft uppi kröfur sínar í staðfestingarmáli, eða sótt þær í sérstöku máli, hvort sem er til niðurfellingar gerðar eða til skaðabóta vegna gerðarinnar. Þá er í 42. gr. laganna mælt fyrir um bótarétt gerðarþola eða annars eða annarra, sem kunna að hafa beðið tjón vegna gerðar eða framkvæmdar hennar og í 1. mgr. i.f. er berum orðum mælt fyrir um heimild til handa dómstólum til að ákvarða tjónþolum bætur eftir álitum ef sannast að hann hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna ólögmætrar gerðar en ekki er unnt að sanna fjárhæð þess. Er þetta rakið í athugasemdum með 42. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 31/1990.

                Fyrir liggur að umtalsverðir fjármunir í vörslum stefnda, en eigu stefnanda voru kyrrsettir að kröfu stefnda 18. ágúst 2009, 49.179.500 krónur. Með þeirri gerð var stefnandi útilokaður frá nýtingu umræddra fjármuna á tímabilinu frá 18. ágúst 2009 til 2. september 2010, þegar stefndi greiddi kröfuna, eða alls í 380 daga. Að mati dómsins þykir ekki vafa bundið að hin ólögmæta háttsemi stefnda að bregðast ekki við uppsögn stefnanda og Einars Þórs Einarssonar á eignastýringarsafni þeirra hjá stefnda með greiðslu umræddra fjármuna til stefnanda, eins og mælt er fyrir um í 11. gr. samnings um eignastýringuna, hafi valdið stefnanda fjárhagslegu tjóni. Verður litið til þess að sönnun um raunverulegt fjártjón er erfitt í málinu eins og atvikum þess er háttað. Þykir það ekki útiloka að skaðabætur verði dæmdar að álitum, sbr. 1. mgr. 42. gr., sbr. 40. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Að mati dómsins þykja skaðabætur til stefnanda hæfilega ákveðnar 5.000.000 króna og verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda þá fjárhæð eins og greinir í dómsorði. 

Stefnandi krefst vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst til 14. júní 2010, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Stefndi hefur mótmælt vaxtakröfu stefnanda og sérstaklega upphafstíma dráttarvaxta. Upphafstími dráttarvaxta er órökstuddur hjá stefnanda og er hafnað. Rétt þykir að skaðabótakrafa stefnanda beri vexti samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2009 til 12. nóvember 2010 þegar mánuður var liðinn frá því að stefndi var sannanlega krafinn um greiðslu skaðabóta, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 en dráttarvaxta, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.

Eftir þessum úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna og hefur þá verið tekið tilliti til útlagðs kostnaðar stefnanda við öflun matsgerðar og virðisaukaskatts af þóknun lögmanns stefnanda.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Ástríði Grímsdóttur héraðsdómara og Guðmundi Óskarssyni löggiltum endurskoðanda. Fyrir uppkvaðningu dómsins var gætt fyrirmæla 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Arion banki hf., greiði stefnanda, Steinunni Rósborgu Sigurðardóttur, 5.000.000 króna með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. ágúst 2009 til 12. nóvember 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 2.000.0000 króna í málskostnað.