Hæstiréttur íslands

Mál nr. 450/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Kröfuröð
  • Málskostnaður


                                     

Þriðjudaginn 4. september 2012.

Nr. 450/2012.

Credit Suisse International

(Einar Baldvin Axelsson hrl.)

gegn

Kaupþingi hf.

(Hjördís E. Harðardóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfuröð. Málskostnaður.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að krafa sem C lýsti í slitabú K hf., nyti rétthæðar eftir 114. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. júní 2012, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur þann dag en Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2012, þar sem kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila var hafnað og staðfest að krafa sóknaraðila nyti rétthæðar eftir 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að krafa hans að fjárhæð 24.085.622 evrur verði við slit varnaraðila viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. Þá krefst hann „kærumálskostnaðar fyrir héraðsdómi og Hæstarétti“.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kæra þessi er án nægilegs tilefnis. Með hliðsjón af a. lið 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 verður tekið tillit til þess við ákvörðun kærumálskostnaðar sem sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila með þeirri fjárhæð sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Credit Suisse International, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 600.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júní 2012.

Mál þetta, sem þingfest var 9. nóvember 2011, var tekið til úrskurðar 9. maí sl. Sóknaraðili er Credit Suisse International, 1 Cabot Square, Canary Wharf, London, Bretlandi, en varnaraðili er Kaupþing hf., áður Kaupþing banki hf., Borgartúni 26, Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að krafa hans á hendur Kaupþingi hf. nr. 20100104-0103, að fjárhæð 24.085.622 evrur, verði samþykkt sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði að krafa sóknaraðila, með tilvísunarnúmerið 20100104-0103, vegna skuldabréfs með auðkennisnúmerið XS0194805429, skuli njóta rétthæðar eftir 114. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili krefst og málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir

Árið 2004 gaf varnaraðili út skuldabréf á alþjóðamarkaði að fjárhæð fjórir milljarðar evra undir svokölluðum „4.000.000.000 Euro Medium Term Note Programme“-rammasamningi bankans um alþjóðlega skuldabréfaútgáfu, sbr. skilmála útgáfulýsingar, dags. 28. apríl 2004 (Offering Circular). Í útgáfulýsingunni var að finna almenna skilmála fyrir öll þau skuldabréf sem gefin voru út samkvæmt henni, auk lýsingar á varnaraðila, fjárhagslegra upplýsinga og tilgreiningar áhættuþátta. Kemur þar fram að hver einstök skuldabréfaútgáfa sé kölluð flokkur og var í útgáfulýsingunni gert ráð fyrir frekari verðskilmálum (Pricing Supplement) vegna útgáfu hvers skuldabréfaflokks. Voru þeir gefnir út 28. júní 2004. Fyrir liggur að sóknaraðili keypti rafrænt skuldabréf samkvæmt þessari útgáfu að fjárhæð 24.085.622 evrur í skuldabréfaflokki varnaraðila með auðkennisnúmerið (ISIN) XS0194805429. Óumdeilt er að fyrrgreindir skilmálar skuldabréfaútgáfunnar gildi um skuldabréfið.

Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórninni frá og skipaði skilanefnd yfir bankann á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008, en slitameðferð bankans hófst við gildistöku laga nr. 44/2009 hinn 22. apríl 2009 og var bankanum skipuð slitastjórn 29. sama mánaðar. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár.

Sóknaraðili krafðist þess gagnvart slitastjórn að krafa hans vegna skuldabréfsins að fjárhæð 24.302.030 evrur, eða 4.112.632.537 krónur, miðað við gengi evru hinn 22. apríl 2009, yrði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Að loknum kröfulýsingarfresti lýsti slitastjórn þeirri afstöðu sinni til kröfunnar að henni væri hafnað eins og henni var lýst á þeim grundvelli að um víkjandi skuldabréf væri að ræða og að krafan væri þar af leiðandi færð undir 114. gr. sömu laga, sem eftirstæð krafa. Var sóknaraðila jafnframt tilkynnt að slitastjórn varnaraðila myndi ekki taka efnislega afstöðu til eftirstæðra krafna, sbr. 119. gr. laganna. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu slitastjórnar með bréfi, dags. 20. september 2010, og krafðist þess að krafan yrði viðurkennd að fullu eins og henni hafði verið lýst. Á vettvangi slitastjórnar var eftir það reynt án árangurs að jafna ágreininginn. Við svo búið beindi hún málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur samkvæmt 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr., laga nr. 21/1991

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að slitastjórn sé óheimilt að flokka kröfu sína sem eftirstæða kröfu á grundvelli 4. tl. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti þar sem ekki sé kveðið á um það með nægilega skýrum hætti í samningi aðila að kröfur vegna skuldabréfsins skuli greiddar á eftir öllum öðrum kröfum í bú varnaraðila.  Þvert á móti sé beinlínis gert ráð fyrir í skilmálum skuldabréfsins að það víki fyrir vissum kröfum en ekki öðrum og standi samhliða tilteknum kröfum.

Í verðskilmálun skuldabréfsins komi aðeins fram í fyrirsögn að um sé að ræða útgáfu á 300 milljóna evra víkjandi bréfum, með breytilegum vöxtum, sem hafi gjalddaga í júní 2014.  Auk þess sé að finna almenna tilvísun til þess að staða bréfanna (status of the notes) sé víkjandi (subordinated) án þess að skýrt sé nánar við hvað sé átt. Skilgreiningu á hugtakinu víkjandi skuldabréf (Subordinated Notes) sé hins vegar að finna í grein 2(b) í útgáfulýsingunni. Þar komi fram að með víkjandi skuldabréfi, og öðrum tengdum skjölum sem gefin séu út vegna þess, sé átt við ótryggða og skilyrðislausa skyldu útgefanda, sem sé samhljóða þeim víkjandi skuldbindingum sem lýst sé í 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og að við gjaldþrot eða slit útgefanda skuli kröfur samkvæmt hinu víkjandi skuldabréfi flokkast víkjandi í greiðsluréttarröð, á eftir öðrum skuldbindingum útgefanda en þeim sem teljast ekki víkjandi samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en á undan endurgreiðslu hlutafjár og/eða stofnfjár og/eða sambærilegu eigin fjár og varasjóða útgefanda. Þá standi umrætt víkjandi skuldabréf að minnsta kosti samhliða þeim víkjandi skuldbindingum útgefanda sem lýst sé berum orðum í 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. 

Í 6. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki sé kveðið á um skilgreiningu eigin fjár fjármálafyrirtækja. Komi þar m.a. fram að til eiginfjárþáttar B skuli telja víkjandi lán „… sem fjármálafyrirtæki taka gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár“. Í 7. mgr. 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki segir að til eiginfjárþáttar C skuli telja víkjandi lán „… til skamms tíma sem fjármálafyrirtæki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en tvö ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár.“  Jafnframt skuli í tilviki slíks víkjandi láns kveðið á um „… að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárkrafa hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis er undir lágmarkskröfu skv. 1. mgr. eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárkrafan fer undir tilvitnað lágmark“. Önnur víkjandi lán séu ekki nefnd í 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Þannig sé t.d. ekki minnst á víkjandi lán til minna en tveggja ára.  Af því megi leiða að mismunandi reglur gildi um stöðu víkjandi lána þegar komi að innbyrðis rétthæð krafna á hendur varnaraðila við gjaldþrotaskipti. Víkjandi lán til styttri tíma en tveggja ára gangi framar víkjandi láni til lengri tíma sem uppfylli skilyrði 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki og standi jafnhliða skuldabréfinu samkvæmt skilmálum þess. 

Þá sé ljóst að ákvæði um að krafa gangi aftar öllum öðrum kröfum nema kröfu um endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár uppfylli ekki formskilyrði 4. mgr. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti þar sem skýrt sé kveðið á um að krafa sé aðeins eftirstæð sé samið um að hún gangi aftar öllum öðrum kröfum. Samkvæmt því sé ljóst að skilyrði 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki fyrir hendi í þessu máli þar sem áskilið sé í skilmálum skuldabréfsins að krafa samkvæmt því víki fyrir tilteknum skuldbindingum en ekki öðrum. Fái þetta og skýran stuðning í athugasemdum í frumvarpinu með tilvitnuðu ákvæði laganna.

Sóknaraðili leggi áherslu á að hvorki orðalag 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 né framangreind athugasemd leyfi svigrúm til að kveða á um að krafa gangi aftar öllum kröfum nema einni, jafnvel þótt um sé að ræða endurgreiðslukröfu á hlutafé eða stofnfé. Þá sé ekki heldur fyrir hendi neitt svigrúm til að kveða á um að krafa standi jafnfætis tilteknum kröfum. Ákvæðið mæli ekki fyrir um að krafa vegna víkjandi láns falli í öllum tilvikum undir greinina heldur aðeins ef áskilið sé sérstaklega í lánasamningi að krafan víki undantekningarlaust fyrir öllum kröfum á hendur þrotamanni.

Þessu til viðbótar bendi sóknaraðili á að í skilmálum skuldabréfsins sé hvergi vísað til ákvæðis 4. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991, líkt og eðlilegt væri að gera.  Jafnframt sé hvergi tekið fram með skýrum hætti í skilmálum skuldabréfsins, hvorki í verðskilmálum né útgáfulýsingu, að kröfur vegna þess gangi aftar öllum öðrum kröfum við gjaldþrotaskipti varnaraðila, eins og skýrt er mælt fyrir um í 4. mgr. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Þvert á móti hafa skilmálarnir að geyma óskýra tilvísun til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem beinlínis mæli fyrir um að tvær tegundir af eftirstæðum lánum fjármálafyrirtækis skuli greiddar á undan kröfum um endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár ef til gjaldþrots þess kemur. Þá sé í skilmálunum sérstaklega mælt fyrir um að skuldabréfið standi jafnhliða þessum tveimur tegundum af eftirstæðum lánum í stað þess að mæla skýrt fyrir um að skuldabréfið eigi að greiða á eftir þeim, eins og hefði átt að vera ef um kröfu er að ræða sem falli undir 4. mgr. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti.

Gera verði ríkar kröfur til skýrleika samningsákvæða sem ætlað sé að uppfylla kröfu 4. mgr. 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Ákvæðið sé undantekningarákvæði frá meginreglunni um jafnræði kröfuhafa og meginreglunni um að óheimilt sé að semja um rétthæð einstakra krafna við gjaldþrotaskipti. Af þeim sökum beri að skýra 4. tl. 114. gr. eftir orðanna hljóðan og þröngt, þar sem meginregla íslensks gjaldþrotaréttar sé að ekki sé  leyfilegt að semja um réttindaröð krafna. Þannig sé óheimilt að semja um að tilteknar kröfur njóti forgangs við gjaldþrotaskipti. Geri dómstólar ekki strangar kröfur til samninga um að kröfur verði eftirstæðar, eða telji lögmætt að raða eftirstæðum kröfum í tiltekna röð með samningum, sé um leið opnað á að semja um forgang tiltekinna krafna með því móti að kveða á um að aðrar kröfur séu eftirstæðar samkvæmt 4. tl. 114. gr. gjaldþrotalaga.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að enginn vafi leiki á því að skuldabréf sóknaraðila, sem hin lýsta krafa hans grundvallist á, sé víkjandi skuldabréf og umrædd krafa sé þar af leiðandi eftirstæð í skilningi ákvæðis 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í því sambandi bendi varnaraðili á að kveðið sé á um víkjandi stöðu skuldabréfsins með skýrum og ótvíræðum hætti í verðskilmálum skuldabréfaflokksins. Þannig segi t.d. á forsíðu skilmálanna að um sé að ræða víkjandi skuldabréf með fljótandi vöxtum. Þá sé í ákvæði 13 a) á annarri blaðsíðu skilmálanna skilmerkilega tekið fram að staða bréfanna sé eftirstæð (subordinated), en í því felist augljóslega að til greiðslu krafna sem byggðar séu á slíkum bréfum komi ekki fyrr en allar aðrar kröfur sem falli undir 109.-113. gr. laga nr. 21/1991 hafi verið greiddar út. Einnig sé í ákvæði 2 b) í útgáfulýsingunni nánar skilgreint hvað felist í því að hin útgefnu skuldabréf skuli njóta víkjandi stöðu ef til greiðsluþrots varnaraðila komi. Sé sú skilgreining að öllu leyti í samræmi við gildandi lög á sviði íslensks gjaldþrotaskiptaréttar. Í ákvæðinu komi nánar tiltekið fram að í víkjandi skuldabréfi felist ótryggð og skilyrðislaus skuldbinding útgefanda, sem sé í víkjandi stöðu samkvæmt og í skilningi 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og að við gjaldþrot eða slit útgefanda skuli kröfur samkvæmt þessum víkjandi skuldabréfum flokkast í greiðsluréttarröð á eftir öllum þeim skuldbindingum útgefanda sem ekki teljist víkjandi samkvæmt og í skilningi 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Þá flokkist umrædd skuldabréf samhliða öllum öðrum víkjandi skuldbindingum útgefanda samkvæmt og í skilningi nefndrar 84. gr. en á undan endurgreiðslu hlutafjár og/eða stofnfjár og/eða sambærilegu eigin fjár útgefanda.

Í þessu sambandi bendi varnaraðili á að í ákvæðum 6. og 7. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 sé að finna þau fyrirmæli löggjafans varðandi víkjandi lán að við gjaldþrot eða slit fjármálafyrirtækja sem slík lán taki fáist þau endurgreidd á eftir öllum öðrum kröfum á hendur hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Að áliti varnaraðila verði því að telja ljóst að skilgreining á víkjandi skuldabréfum og rétthæð þeirra í framangreindu samningsákvæði 2 b) sé að öllu leyti í samræmi við nefnd ákvæði 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki.

Þá leggi varnaraðili sérstaka áherslu á að ákvæði 84. gr. laga nr. 161/2002 sé í fullkomnu samræmi við gildandi rétt hvað varði stöðu eftirstæðra krafna við gjaldþrotaskipti. Þessu til skýringar vísi varnaraðili til þess að 4. tl 114. gr. laga nr. 21/1991 kveði á um að á eftir öllum kröfum skv. 109.-113. gr. sömu laga skuli koma kröfur sem samið hafi verið um að víki fyrir öllum öðrum kröfum. Ljóst sé því að ákvæði 84. gr. laga nr. 161/2002, þar sem fram komi að víkjandi lán fáist við slit eða gjaldþrot fjármálafyrirtækis endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur því, sé í samræmi við orðalag 114. gr.

Þá bendi varnaraðili á að í 17. kafla laga nr. 21/1991, sem hafi að geyma lagareglur um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, sé hvergi fjallað um rétthæð krafna hluthafa eða annarra sem lagt hafa fram stofnfé í þágu félags. Sé ástæðan fyrir þessari þögn laganna um slíkar „kröfur“ einfaldlega sú að þær komi ekki til úthlutunar fyrr en að skiptameðferð lokinni og eftir að allar lýstar og viðurkenndar kröfur á hendur þrotabúi hafa verið greiddar út. Séu hluthafar enda ekki kröfuhafar félags í krafti hlutafjáreignar sinnar heldur eigendur og verði að gera skýran greinarmun þar á. Það megi því segja að slíkar „kröfur“ hluthafa séu réttlægri en þær eftirstæðu kröfur sem skipað sé í réttindaröð skv. 114. gr. laga nr. 21/1991 og sé það eðlileg niðurstaða í ljósi þess að hluthafar gjaldþrota félags eigi ekki að vera betur settir við skiptameðferð félagsins en lánardrottnar þess. Reglan um þetta atriði komi og skýrt fram í ákvæði 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002 þar sem sé að finna fyrirmæli um hvernig fara eigi með ef eignir verði afgangs að lokinni slitameðferð og eftir að allar viðurkenndar kröfur hafi verið greiddar. Samkvæmt ákvæðinu sé annars vegar um það að ræða að láta viðkomandi fjármálafyrirtæki aftur í hendur hluthafa eða stofnfjáreigenda, að uppfylltum þar tilgreindum skilyrðum, og hins vegar „... að greiða hluthöfum eða stofnfjáreigendum út eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna samkvæmt frumvarpi til úthlutunar ...“. Sé svipaða reglu jafnframt að finna í 2. mgr. 105. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög en þar segi svo: „Standi eignir eftir við gjaldþrotaskipti að greiddum kröfum lánardrottna skal skipta þeim milli hluthafa í hlutfalli við hlutafjáreign ...“ Samkvæmt framangreindu sé því ljóst að hluthafar og stofnfjáreigendur fjármálafyrirtækja fái ekki greitt á grundvelli eignarhluta síns fyrr en allar viðurkenndar kröfur, þ. á m. eftirstæðar kröfur skv. 114. gr. laga nr. 21/1991, hafi verið greiddar út til kröfuhafa. Að áliti varnaraðila sé þar af leiðandi auðséð að ákvæði 84. gr. laga nr. 161/2002, sem grundvallist á þessari staðreynd, sé að öllu leyti í samræmi við 4. tl. 114. gr. og að ákvæði 2 b) í útgáfulýsingu vegna skuldabréfaflokksins, sem skuldabréf sóknaraðila tilheyri, hafi verið í fullkomnu samræmi við gildandi gjaldþrotaskiptarétt.

Með vísan til framangreindra röksemda hafni varnaraðili þeirri staðhæfingu sóknaraðila að ekki hafi komið nægilega skýrt fram í samningi aðila að krafa sóknaraðila vegna skuldabréfsins sé víkjandi og verði greidd á eftir öllum öðrum kröfum við slitameðferð varnaraðila. Verði  samningsákvæði umræddra skilmála ekki skilin á annan veg en að skuldabréfakrafa sóknaraðila víki fyrir öllum öðrum kröfum sem skipað sé í réttindaröð skv. 109.-113. gr. við slitameðferð varnaraðila, í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991. Skipti í því sambandi engu máli þótt ekki hafi í skilmálunum verið beinlínis vísað til ákvæðis 4. tl. 114. gr. laganna. Fullnægjandi hafi verið að taka fram með skýrum og ótvíræðum hætti að umrædd skuldabréf víki fyrir öllum kröfum öðrum en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár þar sem slík endurgreiðsla komi ekki til álita nema þegar eignir standa eftir að lokinni útgreiðslu allra viðurkenndra krafna. Þá verði ekki  fram hjá því litið að með því að ganga að nefndum samningsskilmálum hafi sóknaraðili, sem sjálfur sé fjármálafyrirtæki og ætti að vera kunnugt um þýðingu víkjandi skuldbindinga, samþykkt að krafa hans vegna bréfsins skuli víkja fyrir öllum öðrum kröfum samkvæmt 109.-113. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. tl. 114. gr. sömu laga.

Þá sé mótmælt sem rangri þeirri fullyrðingu sóknaraðila að ákvæði skilmála skuldabréfsins hafi ekki uppfyllt formskilyrði 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili byggi umrædda málsástæðu sína einkum á að hvorki orðalag ákvæðisins né athugasemd með ákvæðinu í frumvarpi til laganna leyfi svigrúm til að kveða á um að krafa gangi aftar öllum kröfum nema einni, enda þótt um sé að ræða endurgreiðslukröfu á hlutafé eða stofnfé, eða að krafa standi jafnfætis öðrum kröfum. Virðist skilningur sóknaraðila á 4. tl. 114. gr. því vera sá að til þess að skilyrði ákvæðisins geti talist uppfyllt megi alls ekki taka fram í skilmálum um víkjandi kröfu að hún víki fyrir öllum kröfum, þ.e. skv. 109.-113. gr. laga nr. 21/1991, en gangi þó framar endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár, jafnvel þótt það sé að öllu leyti í samræmi við skýr lagafyrirmæli, sbr. 6. og 7. mgr. 84. gr. og 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002. Þessi túlkun sóknaraðila standist einfaldlega ekki skoðun, enda leiði sjálfkrafa af framangreindum ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki að víkjandi lán gangi framar hlutafé og stofnfé við slitameðferð fjármálafyrirtækis. Þá beri að líta til þess að ákvæði 84. gr. geri sérstakan áskilnað um að í hinu víkjandi láni sé kveðið á um það með skýrum hætti að það gangi framar endurgreiðslu hlutafjár og stofnfjár. Málatilbúnaður sóknaraðila virðist því ganga út á það að með því að fullnægja kröfum 84. gr. laga um fjármálafyrirtæki sé sjálfkrafa farið gegn ákvæðum 114. gr. laga nr. 21/1991. Geti varnaraðili ekki með nokkru móti séð að sú röksemdafærsla sóknaraðila fáist staðist, enda fráleitt að halda því fram að ákvæði, sem lýsi gildandi lagaumhverfi á sviði gjaldþrotaskiptaréttar, þ.e. að eftirstæðar kröfur gangi framar endurgreiðslu hlutafjár, samrýmist ekki fyrirmælum 4. tl. 114. gr. Sé þessari staðhæfingu sóknaraðila því að öllu leyti hafnað.

Augljóst sé að sóknaraðili túlki umrætt ákvæði 4. tl. 114. gr. með röngum hætti þegar hann einblíni eingöngu á orðalag 4. töluliðar í stað þess að skýra ákvæðið í heild sinni, líkt og beri að gera. Varnaraðili bendi á að rétt skýringaraðferð á umræddu ákvæði leiði til þeirrar eðlilegu niðurstöðu að kröfur, sem um hafi verið samið að séu víkjandi, komi á eftir öllum öðrum kröfum samkvæmt 109.-113. gr. laga nr. 21/1991. Skipti í þessu sambandi engu hvort beitt sé þröngri eða rýmkandi lögskýringu. Ákvæðið verði einfaldlega ekki túlkað með öðrum hætti, enda njóti allar víkjandi kröfur innan 4. tl. 114. gr. sömu rétthæðar. Með vísan til þessa sé ofangreindri fullyrðingu sóknaraðila, og þeirri lögskýringaraðferð sem hann kjósi að nota  á 4. tl 114. gr., alfarið hafnað.

Þá verði að telja ljóst að sóknaraðila, sem sé hluti af einu stærsta alþjóðlega fjármálafyrirtæki í heimi, hafi átt að vera fullkomlega kunnugt um að hann væri að fjárfesta í víkjandi skuldabréfi. Með því að fjárfesta í víkjandi skuldabréfi hafi sóknaraðili tekið ákveðna áhættu þar sem alkunna sé að kröfur vegna þeirra séu réttlægri en aðrar kröfur á hendur útgefanda slíkra bréfa. Fyrir að taka slíka áhættu hafi sóknaraðila hins vegar verið umbunað með því að fá greidda hærri vexti en þegar um almenn (senior) skuldabréf sé að ræða. Þannig hafi víkjandi skuldabréf sóknaraðila haft ávöxtunarkröfu með 65 punkta álagi ofan á 3M EURIBOR-vexti til júní 2009 en eftir það tímamark með 165 punkta álagi, á meðan sambærilegt almennt skuldabréf hafi borið 24 punkta álag ofan á 3M EURIBOR-vexti. Samkvæmt framangreindu sé því ljóst að skuldabréf sóknaraðila hafi borið talsvert meiri áhættu en almenn skuldabréf.

Niðurstaða

Krafa sóknaraðila byggist á rafrænu skuldabréfi og er ágreiningslaust með aðilum að um bréfin gildi skilmálar útgáfulýsingar bréfanna (Offering Circular) og sérstakir verðskilmálar (Pricing Supplement) sem gefnir voru út hinn 28. júní 2004 vegna viðkomandi skuldabréfaflokks.  Í fyrirsögn þessara verðskilmála kemur fram að um sé að ræða útgáfu „víkjandi skuldabréfa með breytilegum vöxtum og uppfærslurétti …“. Þá kemur fram í ákv. 13 a) á bls. 2 í skilmálunum að staða bréfanna sé eftirstæð (supordinated). Loks kemur fram í ákv. 2 b) í útgáfulýsingunni að bréfin séu í víkjandi stöðu í samræmi við ákv. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og að við gjaldþrot eða slit útgefanda skuli kröfur samkvæmt þeim flokkast í greiðsluréttindaröð á eftir öllum þeim skuldbindingum útgefanda sem ekki teljist víkjandi skv. tilvitnaðri 84. gr. Þá flokkist bréfin samhliða öllum öðrum víkjandi skuldbindingum útgefanda samkvæmt og í skilningi 84. gr., en á undan endurgreiðslu hlutafjár og/eða stofnfjár og/eða sambærilegs eigin fjár útgefanda.

Eins og fyrr greinir krefst sóknaraðili þess að krafa sín verði samþykkt sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og að dómurinn hnekki þar með þeirri afstöðu slitastjórnar varnaraðila að hún teljist eftirstæð krafa skv. 114. gr. sömu laga. Samkvæmt 114. gr. laga skulu kröfur, sem um hefur verið samið að víki fyrir öllum öðrum kröfum, vera að baki öllum kröfum skv. 109.-113. gr. í þeirri röð sem nánar greinir í ákvæðinu. Í 4. tl. lagagreinarinnar segir svo: „kröfur sem um hefur verið samið að víki fyrir öllum öðrum kröfum.“ Byggir sóknaraðili kröfu sína aðallega á því að skýrt sé samkvæmt orðalagi tilvitnaðs 4. tl. 114. gr. að krafa geti því aðeins verið eftirstæð að samið sé um að hún gangi aftar öllum öðrum kröfum. Um slíkt sé ekki að ræða í framangreindum skilmálum þar sem kveðið sé þar á um að bréfin komi á eftir skuldbindingum útgefanda um endurgreiðslu hlutafjár og/eða stofnfjár og/eða sambærilegs eigin fjár. Skilmálarnir séu alla vega óskýrir að þessu leyti og verði að túlka allan vafa þar um sóknaraðila í vil. Verður ekki á þessi rök fallist, enda eru framangreindar skuldbindingar útgefanda, sem tilgreindar eru í ákvæði 84. gr. laga nr. 161/2002 um skilgreiningu eigin fjár fjármálafyrirtækja, ekki kröfur lánardrottna heldur kröfur eigenda hlutafjár eða stofnfjár fjármálafyrirtækja til endurgreiðslu reynist eignir nægilegar til að greiða allar viðurkenndar kröfur að fullu. Koma slíkar kröfur eigendanna því ekki til úthlutunar á grundvelli ákvæða XVII. kafla laga nr. 21/1991 heldur er þeim þá fyrst úthlutað og þær greiddar þegar allar viðurkenndar kröfur lánardrottna hafa verið greiddar, sbr. 1. mgr. 103. gr. a laga nr. 161/2002. Geta þær því ekki talist kröfur í skilningi 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991.

Þar sem telja verður að skýrlega komi fram í tilvitnuðum skilmálum er gilda um skuldabréf sóknaraðila að þau séu víkjandi gagnvart öllum öðrum kröfum í skilningi ákvæðis 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991, og að í því ákvæði sé skýrt kveðið á um að kröfur sem samið hafi verið um með þeim hætti skuli koma að baki öllum kröfum skv. 109.-113. gr. laganna í þeirri röð sem ákvæðið tilgreinir, verður kröfu sóknaraðila hafnað og staðfest sú afstaða varnaraðila að krafa sóknaraðila skuli njóta rétthæðar skv. 114. gr. laga nr. 21/1991.

Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, Credit Suisse International, á hendur varnaraðila, Kaupþingi hf., er hafnað og staðfest að krafa sóknaraðila skuli njóta rétthæðar eftir 114. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.