Hæstiréttur íslands
Mál nr. 248/1998
Lykilorð
- Skjalafals
Fimmtudaginn 14. janúar 1999.
Nr. 248/1998. Ákæruvaldið
(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Bergþóru Guðmundsdóttur
(Hilmar Ingimundarson hrl.)
Skjalafals.
B var ákærð fyrir skjalafals með því að hafa notað skuldabréf með falsaðri áritun um skuldskeytingu við kaup á bifreið. Talið sannað með játningu ákærðu að hún hefði brotið gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Dómur héraðsdóms um sakfellingu og ákvörðun viðurlaga staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 3. júní 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærða krefst þess að refsing verði milduð og skilorðsbundin.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærða, Bergþóra Guðmundsdóttir, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 30.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 30.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 1998.
Árið 1998, miðvikudaginn 29. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-221/1998: Ákæruvaldið gegn Bergþóru Guðmundsdóttur, en málið var dómtekið 3. þ.m.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 3. mars 1998 á hendur: „Bergþóru Guðmundsdóttur, Miðtúni 17, kt. 161161-3069 og Pétri Runólfssyni, Mávahlíð 25, kt. 140856-2589, báðum til heimilis í Reykjavík, fyrir skjalafals með því að hafa, á bílasölunni Horninu, Dugguvogi 12, Reykjavík, 20. mars 1997, greitt Hafdísi Hrönn Björnsdóttur, kt. 091071-4799, andvirði bifreiðarinnar SV-303 með yfirtöku skuldabréfs nr. 11037 frá Samvinnusjóði Íslands að eftirstöðvum kr. 889.562 samkvæmt yfirlýsingu um skuldskeytingu, dagsettri sama dag, sem þau vissu að var fölsuð með áritun á nafni Eyjólfs Eyjólfssonar, kt. 120336-7899, í reit fyrir samþykki greiðanda og er ákærðu Bergþóru jafnframt gefið að sök að hafa af sama tilefni falsað afsal fyrir bifreiðinni og tilkynningu um eigendaskipti með nafni Eyjólfs.
Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist, að ákærðu verði dæmd til refsingar.
Linda Bentsdóttir, hdl., hefur uppi eftirfarandi skaðabótakröfu í málinu fyrir hönd Samvinnusjóðs Íslands hf.:
"Höfuðstóll, 27.10.97 kr. 826.492
samn.vx. til 01.03.97 kr. 7.460
samn. vextir frá 27.10.97-27.12.97 kr. 17.631
kr. 851.583"
Ákæruvaldið hefur fallið frá hluta efnislýsingar ákærunnar þannig að burt falli niðurlagið "og er ákærðu Bergþóru jafnframt gefið að sök að hafa að sama tilefni falsað afsal fyrir bifreiðinni og tilkynningu um eigendaskipti með nafni Eyjólfs.“
Ákæruvaldið hefur fallið frá ákærunni varðandi ákærða Pétur.
Verjandi ákærðu krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og refsivist, ef dæmd verður, verði skilorðsbundin að öllu leyti eða hluta. Þess er krafist að skaðabótakröfu Samvinnusjóðs Íslands hf. verði vísað frá dómi. Þá er krafist réttargæslu- og málsvarnarlauna að mati dómsins.
Ákærða Bergþóra kom fyrir dóminn og lýsti ákæruna rétta á hendur sér og er skírskotað til ákærunnar um frekari lýsingu málavaxta.
Sannað er með skýlausri játningu ákærðu sem studd er öðrum gögnum málsins, að ákærða hafi framið þá háttsemi sem ákært er út af og varðar brot hennar við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða hefur frá árinu 1992 hlotið 6 refsidóma, aðallega fyrir þjófnað, skjalafals og fjársvik. Síðast hlaut ákærða dóm í maí 1995 fyrir skjalafals og fjársvik.
Refsing ákærðu þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði, en skilorðsbinding refsivistarinnar þykir ekki koma til álita eins og sakarferli ákærðu er háttað.
Verjandi ákærðu andmælti skaðabótakröfunni fyrir hennar hönd. Af gögnum málsins virðist mega ráða að Samvinnusjóður Íslands hf. leysti bifreiðina til sín eða hefur fengið úthlutað hluta af uppboðsandvirði vegna hennar. Skaðabótakrafan hefur ekki verið lækkuð sem því nemur og því ekki fyllilega ljóst hvert tjónið er. Kröfunni hefur verið andmælt og þykir hún svo óljós að varði frávísun frá dómi.
Ákærða greiði allan sakarkostnað þar með taldar 70.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, en Guðjón Magnússon fulltrúi, flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Dómsorð:
Ákærða, Bergþóra Guðmundsdóttir, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Skaðabótakröfu Samvinnusjóðs Íslands hf. er vísað frá dómi.
Ákærða greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 70.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun til Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns.