Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2009


Lykilorð

  • Refsiákvörðun
  • Sakhæfi
  • Svipting ökuréttar


Mánudaginn 21

 

Mánudaginn 21. desember 2009.

Nr. 70/2009.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson setur saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Jónsson hrl.)

Refsiákvörðun. Sakhæfi. Svipting ökuréttar.        

X var ákærður fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreið óhæfur til að stjórna henni örugglega sökum áhrifa fíkniefna, og fyrir að hafa ekið bifreiðinni sviptur ökurétti í tvö skipti. Í málinu lá fyrir matsgerð geðlæknis þar sem fram kom að refsing myndi ekki bera árangur gagnvart X. Af þeim sökum var X ekki gerð sérstök refsing með vísan til 16. gr. almennra  hegningarlaga nr. 19/1940. Í matsgerðinni kom jafnframt fram hvaða búsetuúrræði kæmi helst til greina X til handa í framtíðinni. Þar sem ekki var talið að háski stafaði af X, og eins og málið lá fyrir dóminum, þótti ekki efni til þess að ákveða um sérstakar ráðstafanir samkvæmt VII. kafla almennra hegningarlaga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 12. febrúar 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms. 

Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði látin niður falla, en til vara mildunar refsingar.

Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa 1. ágúst og 28. september 2008 ekið bifreið sviptur ökurétti og í fyrra sinnið undir áhrifum fíkniefna. Ákærði játaði sök við þingfestingu málsins og var farið með það samkvæmt 125. gr. þágildandi laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. nú 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Hann var dæmdur í fangelsi í einn mánuð og sviptur ökurétti ævilangt. Ákærði unir niðurstöðu héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og verður hún staðfest.

Fyrir liggja ýmis gögn um geðhagi ákærða. Hinn 27. mars 2009 var Tómas Zoëga geðlæknir dómkvaddur að beiðni ríkissaksóknara til að meta geðhagi ákærða. Hann skilaði matsgerð 17. september 2009 með þeirri niðurstöðu að ákærði eigi við alvarlegan geðklofasjúkdóm að stríða með miklum aðsóknarhugmyndum, ofheyrnum og hugsanatruflunum. Þó sé ekkert sem styðji að ákærði hafi 1. ágúst eða 28. september 2008 verið ófær til að stjórna gerðum sínum vegna sjúkdómsins. Á hinn bóginn hafi ástand ákærða umrædda daga verið með þeim hætti að 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 hafi átt við hann þá. Taldi læknirinn heldur engar líkur vera á því að ákærða hefði batnað eftir það. Mat hann það svo að það væri „borin von“ að refsing í formi fangelsisvistar gæti borið árangur. Geðlæknirinn var einnig beðinn um að meta hvort einhverjar ráðstafanir væru nauðsynlegar vegna réttaröryggis til að varna því að háski yrði af ákærða. Kvaðst læknirinn telja að besta úrræði ákærða til handa væri „vernduð búseta þar sem hægt er að fylgjast með líkamlegu og andlegu ástandi hans og tryggja það að hann haldi áfram að fá geðlyf.“  Þá sagði ennfremur: „Að mati undirritaðs eru ekki líkur á því að háski verði af X þannig að eins og málin standa er öruggari gæsla ekki fýsileg, en auðvitað gæti komið til þess að hann þyrfti að leggjast inn á geðdeild ef ástand hans versnar tímabundið. Ekkert bendir til þess í sjúkrasögu X að hann sé til lengri tíma hættulegur öðrum. Langvarandi efnaneysla hans og skortur á sjúkdómsinnsæi geta í sjálfu sér orðið til þess að lífslíkur hans séu töluvert minnkaðar. Að mati undirritaðs er ekki líklegt að vistun á hæli eins og getið er um í 62. og 63. gr. almennra hegningarlaga ... komi að gagni.“

Fram er komið að ákærði sé nú á vergangi í Hollandi. Læknirinn hitti ákærða ekki er hann vann að matinu. Það er byggt á sjúkraskrá ákærða, auk þess sem læknirinn átti samtal við föður hans. Þrátt fyrir þetta er bæði af hálfu ákærða og ákæruvalds byggt á matsgerðinni við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Að henni virtri og öðrum gögnum málsins verður talið að nægilega sé fram komið að refsing muni ekki bera árangur gagnvart ákærða. Verður honum því ekki gerð refsing, sbr. 16. gr. almennra hegningarlaga. Í framangreindri matsgerð er að finna umfjöllun um hagi ákærða og bent á hvaða búsetuúrræði komi helst til greina honum til handa í framtíðinni. Á hinn bóginn er eins og áður segir ekki talið að háski stafi af honum. Með hliðsjón af því og eins og málið liggur fyrir dóminum þykja eigi efni til þess að ákveða um sérstakar ráðstafanir samkvæmt VII. kafla almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest, en rétt er að áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærða, X, er ekki gerð refsing.

Ákvæði héraðsdóms um sviptingu ökuréttar og sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 15. desember 2008.

Mál þetta, sem þingfest var 11. desember sl. og dómtekið samdægurs, var höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi, dagsettri 21. ágúst 2008, á hendur X , kt. og heimilisfang [...],

„fyrir umferðarlagabrot

I.

með því að hafa, föstudaginn 1. ágúst 2008, ekið bifreiðinni EO-615 vestur Suðurlandsveg við Þingborg í Flóahreppi, sviptur ökuréttindum og óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega vegna áhrifa amfetamíns, tetrahýdrókannabínóls og metamfetamíns.

Telst brot ákærða varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/,987 sbr. 5. gr. laga nr. 66,2006, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.

II.

með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 28. september 2008 ekið bifreiðinni PT-988 austur Hverfisgötu í Reykjavík sviptur ökurétti og gegn rauðu umferðarljósi á gatnamótum Snorrabrautar og Hverfisgötu.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta sviptingu ökuréttar frá 20. desember 2008 að telja, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50,987, sbr. lög nr. 44,1993, lög nr. 57,1997, lög nr. 23,1998, lög nr. 132,2003, lög nr. 84,2004 og lög nr. 66,2006.“

         Við þingfestingu málsins óskaði sækjandi eftir breytingu á ákærunni þannig að hann félli frá þeirri háttsemi sem lýst er í II. kafla ákærunnar um að ákærði hefði ekið gegn rauðu umferðarljósi.

Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins ásamt verjanda sínum, Björgvini Jónssyni héraðsdómslögmanni, og játaði brot sín fyrir dóminum. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín en þau eru í ákæru rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar. 

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. Krafðist verjandi ákærða, vægustu refsingar og að refsing hans yrði skilorðsbundin. Þá krafðist hann málsvarnarlauna og að þau yrðu greidd úr ríkissjóði.

Um málavexti vísast til ákæruskjals. Í matsgerð frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum við Háskóla Íslands kemur fram að í blóði ákærða hafi mælst amfetamín, 1280 ng/ml, tetrahýdrókannabínól, 6,0 ng/ml, og að metamfetamín hefði mælst í þvagi en ekki blóði. 

Samkvæmt sakavottorði sem liggur frammi í málinu á ákærði langan sakaferil að baki allt frá árinu 2000. Þau brot sem hafa áhrif við ákvörðun refsingar nú er dómur þann 20. desember 2007 þar sem ákærði var dæmdur í sex mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot og að aka undir áhrifum fíkniefna auk þess að vera sviptur ökurétti í tólf mánuði. Þá var ákærði dæmdur þann 28. apríl 2006 í fimm mánaða fangelsi fyrir ölvunarakstur og fíkniefnabrot auk þess að vera sviptur ökurétti í tólf mánuði. Hafa bæði þessi brot ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar nú. Verjandi ákærða lagði fram vottorð Ernis Snorrasonar læknis, dagsett 27. nóvember sl. Kemur fram í því vottorði að hann telji ákærða ekki sakhæfan. Þá kemur fram að ákærði hafi verið vistaður nauðugur á geðdeild í desember 2002. Ekkert frekar styður það að ákærði sé ósakhæfur og að fangelsisrefsing muni ekki hafa tilætluð áhrif. Af þessum gögnum einum verður ekki ráðið að ákærði sé ósakhæfur.

Refsing ákærða er ákveðin fangelsi í einn mánuð. Samkvæmt dómaframkvæmd þykja ekki skilyrði til að skilorðsbinda refsinguna. Þá skal ákærði sviptur ökurétti ævilangt.

Samkvæmt yfirliti er sakarkostnaður vegna lyfjarannsókna og matsgerðar 147.618 krónur sem ákærða ber að greiða með vísan til 165. gr. laga nr. 19/1991. Þá ber ákærða að greiða þóknun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 60.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk 11.040 króna í ferðakostnað.

 Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan

D ó m s o r ð :

Ákærði, X, sæti fangelsi í einn mánuð.

Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 218.658 krónur, þar með talda þóknun skipaðs verjanda síns, Björgvins Jónssonar héraðsdómslögmanns, 60.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar, 11.040 krónur.