Hæstiréttur íslands

Mál nr. 458/2014


Lykilorð

  • Fjársvik
  • Skjalafals
  • Ákæra
  • Einkaréttarkrafa
  • Vítur
  • Dráttur á máli


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015.

Nr. 458/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda María Stefánsdóttir saksóknari)

gegn

Gunnari Ágústi Halldórssyni

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

(Stefán Karl Kristjánsson hrl. f.h. brotaþola)

Fjársvik. Skjalafals. Ákæra. Einkaréttarkrafa. Vítur. Dráttur á máli.

G voru gefin að sök aðallega fjársvik en til vara umboðssvik sem fólust í því að hafa blekkt A og misnotað aðstöðu sína sem vinur hans með því að hafa hagnýtt sér meðal annars þroskaskerðingu hans og skort á skilningi á flóknari hlutum og fengið hann til að takast á hendur verulegar fjárhagsskuldbindingar fyrir hönd G sem hann nýtti í eigin þágu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í þessum hluta ákærunnar væri ekki lýst háttsemi sem félli undir þau brotaheiti og refsiákvæði sem ákæruvaldið teldi hana varða við með heimfærslu til 248. gr. og 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þannig kæmi ekki fram í hverju blekking G gagnvart A hefði verið fólgin og því síður hvernig G ætti að hafa misfarið með umboð frá A. Þegar um slíkt misræmi væri að ræða milli verknaðarlýsingar og heimfærslu brotsins í ákæru yrði viðhlítandi vörnum ekki komið við, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Var þeim hluta ákærunnar því vísað frá héraðsdómi. G voru jafnframt gefin að sök fjársvik fyrir að hafa blekkt starfsmenn sparisjóðsins B með því að hafa komið fram fyrir hönd A án umboðs og hagnýtt sér ranga hugmynd þeirra um umboð sitt og fengið þá til að framkvæma millifærslur sem tilgreindar voru í sjö töluliðum af reikningum A og nýtt sér í eigin þágu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í bréfi sem sparisjóðurinn sendi til lögreglu í tengslum við rannsókn málsins hefði komið fram að ekki hefði verið skráð hver hefði beðið um þær millifærslur sem tilgreindar væru í 1. til 5. lið ákæruhlutans og hvernig óskum um þær hefði verið komið á framfæri. Þar segði jafnframt að ekki væri vitað hvort A hefði átt þar einhvern hlut að máli. Var því talið ósannað gegn neitun G að hann hefði sjálfur óskað eftir þeim millifærslum og var hann því sýknaður af þeim liðum ákæruhlutans. Á hinn bóginn var talið sannað að G hefði blekkt starfsmann S til að framkvæma þær millifærslur sem tilgreindar voru í 6. og 7. lið og hann nýtt sér féð að stærstum hluta í eigin þágu. Var hann því fundin sekur um þau fjársvik sem tilgreind voru í þeim liðum ákæruhlutans. Loks var G sýknaður af sakargiftum um skjalafals þar sem talið var ósannað að hann hefði falsað undirskrift C á tiltekið skjal sem laut að kaupleigusamningi. Við ákvörðun refsingar G var litið til þess að hann hafði áður hlotið dóm fyrir fjársvik og hafði sá dómur ítrekunaráhrif, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga. Var refsing G því ákveðin fangelsi í 9 mánuði en þar sem meðferð málsins hafði dregist óhæfilega hjá lögreglu og fyrir Hæstarétti var talið óhjákvæmilegt að skilorðsbinda refsinguna að fullu. Þá var G gert að greiða A 2.523.646 krónur í skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og hún bundin skilorði. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 8.240.271 krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 22. júlí 2004 til 20. janúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu sína verði staðfest. Þá krefst hann þess að ákærða verði gert að greiða sér miskabætur að fjárhæð 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 22. júlí 2004 til 20. janúar 2011, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

I

Þegar aðalmeðferð málsins í héraði hófst 25. febrúar 2014 upplýsti verjandi ákærða að höfð yrði uppi krafa um frávísun málsins. Við framhald aðalmeðferðar 21. mars sama ár lagði verjandinn síðan fram bókun þar sem krafan kom fram. Í stað þess að úrskurða sérstaklega um kröfuna í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var leyst úr henni í hinum áfrýjaða dómi og henni hafnað. Með áfrýjun sinni leitar ákærði endurskoðunar á þeirri niðurstöðu dómsins. Frávísunarkrafa ákærða er reist á því að ákæra málsins sé í ósamræmi við 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008, einkum c. og d. lið greinarinnar.

Í I. hluta ákæru er ákærða gefin að sök fjársvik en til vara umboðssvik á tímabilinu frá 14. júlí 2003 til 5. september 2007. Í þessum hluta ákærunnar eru síðan tilgreindar í sjö töluliðum millifærslur hjá Sparisjóði Keflavíkur á tímabilinu frá 15. febrúar 2005 til 19. júní 2007. Þrátt fyrir þetta ósamræmi í ákæru að því er varðar brotatímabil er augljóst að ákærða er aðeins gefið að sök að hafa framið brotin með þeim millifærslum sem lýst er í ákærunni. Þessi annmarki gat því með engu móti hamlað ákærða að taka til varna og verður ekki fallist á kröfu um frávísun af þessari ástæðu. Á það verður heldur ekki fallist með ákærða að ófullnægjandi sé að nafngreina ekki þá starfsmenn Sparisjóðs Keflavíkur sem ákærða er gefið að sök í þessum ákæruhluta að hafa blekkt, en þær sakargiftir sem hér um ræðir orka ekki tvímælis. Vafi að þessu leyti getur hins vegar haft áhrif við efnislega úrlausn málsins þar sem sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt var ekki þörf á að tilgreina í þessum ákæruhluta hvort ákærði hefði komið sjálfur í bankann, haft samband símleiðis eða rafrænt gegnum heima- eða netbanka. Verður því ekki fallist á kröfu um frávísun þessa hluta ákærunnar. 

 Í II. hluta ákæru eru ákærða gefin að sök fjársvik en til vara umboðssvik með því að hafa blekkt A til þeirra ráðstafana sem lýst er í þremur töluliðum. Í þessum hluta ákærunnar er ekki lýst háttsemi sem fellur undir þau brotaheiti og refsiákvæði, sem ákæruvaldið telur hana varða við með heimfærslu til 248. gr. eða 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þannig kemur ekki fram í hverju blekking ákærða gagnvart A hafi verið fólgin og því síður hvernig ákærði á að hafa misfarið með umboð frá honum. Aftur á móti er því lýst hvernig ákærði hafi misnotað aðstöðu sína sem vinur A og hagnýtt sér þroskaskerðingu hans og skort á skilningi á flóknari hlutum og innsæi í félagsleg samskipti, einmanaleika hans, vilja og getu til að aðstoða fólk. Þessi verknaðarlýsing tekur til háttsemi sem gæti talist misneyting samkvæmt 253. gr. almennra hegningarlaga. Eins og þessi ákæruhluti er úr garði gerður, með því að heimfæra brot til refsiákvæða sem falla ekki að verknaðarlýsingu hans, kemur ekki til álita að dæma eftir öðru ákvæði sem lýsir broti annars eðlis en því sem vísað er til. Þegar um slíkt misræmi er að ræða milli verknaðarlýsingar og heimfærslu brotsins í ákæru verður viðhlítandi vörnum ekki komið við, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Þessum hluta ákærunnar verður því vísað frá héraðsdómi.

Svo sem greinir í hinum áfrýjaða dómi féll ákæruvaldið frá III. hluta ákæru. Ákærði hefur með engu móti rökstutt kröfu sína um að IV. hluta hennar verði vísað frá dómi en engir þeir annmarkar eru á þeim ákæruhluta sem leitt geta til frávísunar. Verður honum því ekki vísað frá.

II

A mun í æsku hafa fengið heilahimnubólgu og er talið að þau veikindi hafi valdið þroskaskerðingu hjá honum. Í þágu rannsóknar málsins var gerð taugasálfræðileg athugun á honum. Í skýrslu sálfræðingsins um hana 10. nóvember 2010 kom fram að prófun gæfi til kynna að greindaraldur A svaraði til barns ekki eldra en 9 til 10 ára. Þegar tekið væri mið af þroskaskerðingu A skorti hann skilning á flóknari hlutum og hann væri í þeirri hættu að verða fyrir misnotkun óprúttinna manna. Því þarfnaðist hann tilsjónar og handleiðslu.

Eftir að hafa lokið grunnskólagöngu starfaði A sem verkamaður, lengst af hjá F og E. Fram kemur í gögnum málsins að hann hafi verið duglegur og traustur starfsmaður sem hafi áunnið sér velvilja samstarfsmanna sinna. Á síðarnefnda vinnustaðnum kynntust A og ákærði, sem starfaði þar um skeið. Fór A síðan að sinna tilfallandi vinnu fyrir ákærða, sem rak verktakafyrirtæki, en ákærði hefur skýrt svo frá að hann hafi jafnframt aðstoðað A á ýmsa lund. Um mitt ár 2004 festi A kaup á raðhúsi að [...] í [...] og greiddi hluta kaupverðs með íbúð sinni að [...] í [...]. Seljandi raðhússins var fyrirtæki sem mun vera í eigu föður þáverandi sambúðarkonu ákærða, C. A seldi síðan raðhúsið og festi í ársbyrjun 2006 kaup á íbúð að [...] í [...]. Ákærði mun hafa verið [...] innan handar í þessum viðskiptum og aðstoðað hann við að koma sér fyrir í nýju húsnæði. Einnig mun ákærði hafa farið með A í útibú Sparisjóðs Keflavíkur í [...] þegar hann færði viðskipti sín þangað frá þeim banka þar sem hann hafði verið í viðskiptum.

Haustið 2007 hafði vinnufélagi A hjá E samband símleiðis við systur hans, D, og greindi henni frá því að A væri fluttur úr íbúð sinni og í leiguíbúð á vegum ákærða. Í kjölfarið voru fjármál hans könnuð og kom þá meðal annars í ljós að á honum hvíldu umtalsverðar fjárskuldbindingar. Með bréfi sýslumannsins í [...] 7. nóvember 2007 var D skipuð ráðsmaður bróður síns og með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness [...]. janúar 2008 var hann sviptur fjárræði. Í framhaldi af því var hún skipuð fjárhaldsmaður hans.

Með bréfi 18. október 2007 voru kærð til lögreglu viðskipti A við ákærða, þáverandi sambúðarkonu hans og fyrirtæki þeim tengd, þar með talið GÁH ehf. Var málið tekið til rannsóknar og beindist hún meðal annars að þeim millifærslum sem tilgreindar eru í I. hluta ákæru. Einnig var kærð til lögreglu 31. maí 2010 fölsun á nafnritun A á því skjali sem IV. hluti ákæru tekur til.

III

Með bréfi 6. desember 2007 fór D, sem þá var ráðsmaður A, þess á leit við Sparisjóðinn í Keflavík að hann veitti upplýsingar um tilteknar færslur á reikningum bróður hennar, annars vegar af bankabók hans og hins vegar tékkareikningi. Tók beiðnin meðal annars til allra þeirra færslna sem um getur í I. hluta ákæru. Í erindinu sagði að tilgangurinn væri að staðreyna hvort þessar ráðstafanir hefðu verið framkvæmdar með vitund, vilja og að beiðni A. Þessu erindi svaraði þjónustustjóri útibús sparisjóðsins í [...] með bréfi 11. janúar 2008. Þar kom fram að ákærði hefði haft milligöngu um að A færði viðskipti sín í sparisjóðinn. Einnig sagði að starfsmenn sparisjóðsins væru þeirrar skoðunar að ákærði hefði verið að gæta hagsmuna A, en hann hefði talið ákærða velgjörðarmann sinn. Ekki hefði verið útbúið umboð til ákærða vegna reiknings A, en færslur hefðu verið gerðar í góðri trú um að ákærði hefði verið heiðarlegur í samskiptum sínum við A og sparisjóðinn. Þá sagði að erfitt væri að benda á staðfestingu um að beiðni hefði borist frá A um þessar ráðstafanir, en gert væri ráð fyrir að hann hefði óskað eftir þeim og haft vitneskju um þær þar sem ekki væri millifært af reikningum nema réttar upplýsingar væru gefnar, auk þess sem A hefðu verið sendar kvittanir og yfirlit. Með bréfi 3. apríl 2008 til sparisjóðsins mótmælti D, sem þá var orðin fjárhaldsmaður A, öllum greiðslum af reikningum hans til ákærða og krafðist endurgreiðslu fyrir hans hönd.

Í tilefni af þeim bréfaskiptum sem hér hafa verið rakin óskaði sparisjóðurinn eftir því með bréfi 5. maí 2008 að ákærði og sambúðarkona hans gerðu ítarlega grein fyrir ráðstöfun þeirra fjármuna sem millifærðir voru af reikningum A yfir á reikninga þeirra og GÁH ehf. Þessu erindi svaraði ákærði með bréfi 21. sama mánaðar, en þar var því andmælt að einhverjar millifærslur hefðu verið gerðar að beiðni hans eða sambúðarkonunnar. Þvert á móti hefðu allar millifærslur farið fram að beiðni A og með fullu samþykki hans. Í bréfinu var síðan vikið að einstökum millifærslum og upplýsingar veittar um ráðstöfun fjármuna en þó ekki gefnar skýringar á þeim öllum.

Með bréfi lögreglu 10. júní 2010 var ítarlegum spurningum beint til sparisjóðsins um viðskipti A og hver hafi verið aðdragandi að millifærslum af reikningum hans yfir á reikninga sem ákærði hafði umráð yfir. Því erindi svaraði fyrrgreindur þjónustustjóri útibúsins með bréfi 25. sama mánaðar. Þar kom fram að auk hans hefðu þrír nafngreindir starfsmenn sparisjóðsins annast millifærslurnar. Einnig sagði að ákærði hefði ekki haft skriflegt umboð til að annast fjármál A, en hann hefði kynnt ákærða í útibúinu sem umboðsmann sinn þegar þeir komu þangað upphaflega í þeim tilgangi að hefja þar viðskipti. Að því er varðar millifærslur þær sem greindar eru í 1. til 5. lið I. hluta ákæru var tekið fram að í öllum tilvikum hefðu þær verið gerðar í millifærslukerfi sparisjóðsins, en ekki verið skráð hver hefði óskaði eftir þeim. Einnig væri ekki vitað hvort sá sem óskaði eftir millifærslu hverju sinni hefði komið í sparisjóðinn eða gert það símleiðis og heldur ekki hvort A hefði með einhverju móti átt þar hlut að máli. Þá sagði að millifærslurnar hefðu ekki verið framkvæmdar nema gefnar væru upplýsingar um reikninginn sem dregið var af og leyninúmer hans. Enn fremur var greint frá skýringum sem höfðu verið skráðar við millifærslur eða ákærði gefið sparisjóðnum síðar. Loks var tilgreint í hvaða starfstöð sparisjóðsins millifærslurnar hefðu farið fram og hvaða starfsmaður hefði annast hverja færslu fyrir sig. Hvað varðar þær millifærslur sem liðir 7 og 8 í I. hluta ákæru taka til kom fram í bréfinu að ákærði hefði óskað eftir þeim við sparisjóðinn í kjölfar þess að A var veitt lán að ósk ákærða gegn veðskuldabréfi sem A gaf út 12. júní 2007 að fjárhæð 3.210.000 krónur.

IV

Ákærða er í I. hluta ákæru gefin að sök fjársvik fyrir að hafa blekkt starfsmenn Sparisjóðs Keflavíkur með því að koma fram án umboðs og hagnýta sér ranga hugmynd starfsmanna sparisjóðsins um umboð sitt og fá þá til að millifæra samtals 6.627.014 krónur af reikningum A og nýtt sér í eigin þágu. Þessum millifærslum er síðan nánar lýst í 1. til 7. lið þessa hluta ákærunnar. Voru þessi brot til vara talin umboðssvik en fallið var frá því við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti í ljósi þess að byggt væri á því að ákærði hefði ekki haft umboð frá brotaþola.

Ákærði hefur fyrir dómi og við rannsókn málsins hjá lögreglu eindregið neitað að hafa óskað eftir að starfsmenn sparisjóðsins framkvæmdu þær millifærslu sem tilgreindar eru í 1. til 5. lið I. hluta ákæru. Svo sem áður er rakið kom fram í bréfi sparisjóðsins 25. júní 2010 að ekki hefði verið skráð hver hafi beðið um þessar millifærslur og hvernig þeim óskum hafi verið komið á framfæri. Í bréfinu sagði einnig að ekki væri vitað hvort brotaþoli hefði átt þar einhvern hlut að máli. Fyrir dómi gátu þeir starfsmenn sparisjóðsins sem önnuðust þessar millifærslur ekki tjáð sig um þetta að öðru leyti en því að einn þeirra kvaðst muna óljóst eftir að ákærði hefði í nokkur skipti óskað símleiðis eftir millifærslum af reikningum brotaþola. Alls óvíst er hins vegar að þau tilvik lúti að umræddum millifærslum. Að þessu gættu er ósannað gegn neitun ákærða að hann hafi sjálfur óskað eftir þessum millifærslum og því verður hann sýknaður af þeim brotum sem honum eru gefin að sök í þessum liðum ákæruhlutans.

Að því er varðar 6. og 7. lið I. hluta ákæru kannaðist ákærði við í skýrslutöku hjá lögreglu 27. janúar 2010 að hafa óskað eftir þeim millifærslum sem þar er lýst. Aðdragandanum lýsti ákærði þannig að hann hefði rætt við fyrrgreindan þjónustustjóra útibús sparisjóðsins í [...] og óskað eftir láni fyrir brotaþola til að gera upp vanskilaskuldir hans. Þetta lán að fjárhæð 3.210.000 krónur var síðan veitt gegn áðurgreindu veðskuldabréfi brotaþola, en öllu andvirði þess að frádregnum lántökukostnaði, 3.081.549 krónur, var ráðstafað til ákærða með þeim millifærslum sem þessir liðir ákærunnar taka til. Fyrir dómi greindi ákærði á sama veg frá aðdragandanum. Hann sagði einnig að millifært hefði verið á hvorn sinn reikninginn í sinni umsjá þar sem hann hefði verið búinn að borga vanskil fyrir ákærða af öðrum reikningnum en ætlað að greiða eftirstöðvarnar af hinum. Tildrögum lánsins og ráðstöfun á andvirði þess lýsti þjónustustjóri útibúsins á sama veg í vætti sínu fyrir dómi.

Ákærði hefur borið því við að hann hafi ráðstafað þeim fjármunum sem 6. og 7. liður I. hluta ákæru taka til í þágu brotaþola. Því til stuðnings hefur ákærði bent á skuld brotaþola vegna bílasamnings við SP fjármögnun hf. að fjárhæð 1.664.724 krónur miðað við 12. júní 2007. Af þeirri fjárhæð greiddi ákærði 163.381 krónu inn á skuldina 16. október 2007 eða rétt tæpum fjórum mánuðum eftir að andvirði lánsins til brotaþola var ráðstafað til hans. Þá gaf ákærði út sjö tékka fram í tímann til að gera upp þessa skuld þótt hann hefði þegar tekið við nægum fjármunum frá brotaþola til að standa skil á henni. Þeir tékkar voru ekki innleystir og liggur fyrir staðfesting 6. október 2009 frá fjárreiðustjóra SP fjármögnunar hf. um að skuldin sé ógreidd. Einnig hefur ákærði bent á greiðslur hans fyrir brotaþola, annars vegar 280.000 krónur vegna láns til tölvukaupa og hins vegar 678.853 krónur vegna skuldar við Húsasmiðjuna hf. Þessar greiðslur fóru fram löngu eftir að lánið til brotaþola var veitt og því ráðstafað til ákærða. Var fyrri greiðslan innt af hendi 15. október 2007, en kvittun vegna þeirrar síðari er frá 10. mars 2008. Í henni kom fram að greitt hefði verið með ávísun og var gerður fyrirvari um gildi og innstæðu hennar. Þá hefur ákærði vísað til greiðslu að fjárhæð 311.997 krónur til Lýsingar hf. vegna tveggja samninga, en annar þeirra var vegna fjórhjóls sem mun í raun hafa verið í eigu ákærða. Loks hefur ákærði bent á aðrar og smærri greiðslur samtals að fjárhæð 157.885 krónur, en þær eru ýmist óstaðfestar eða voru inntar af hendi nokkru eftir að andvirði lánsins til brotaþola var ráðstafað til ákærða. Að öllu þessu virtu hefur ákærði ekki gefið viðhlítandi skýringar á meðferð fjárins þótt fyrir liggi að hann hafi að einhverju marki, nokkru eftir að það stóð honum til ráðstöfunar, innt af hendi greiðslur í þágu brotaþola. Vafa í þeim efnum verður að virða ákærða í hag, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008, en því verður engu að síður slegið föstu að þær svari til fjárhæðar sem er aðeins hluti af því fé sem ákærði veitti viðtöku með millifærslunum sem tilgreindar eru 6. og 7. lið ákæruhlutans.

Samkvæmt öllu því sem hér hefur verið rakið er sannað að ákærði hafi blekkt þjónustustjóra útibús Sparisjóðs Keflavíkur í [...] til að millifæra á reikninga, sem ákærði hafði umráð yfir, fé af reikningi brotaþola sem svaraði til andvirðis láns sem honum var veitt í því skyni að gera upp vanskil hans. Með þessu beitti ákærði þjónustustjórann blekkingum til að ráðstafa fénu í þessum tilgangi til sín og nýtti hann síðan féð samkvæmt framansögðu að stærstum hluta í eigin þágu. Gerðist ákærði með þessu sekur um þau fjársvik sem honum eru gefin að sök í 6. og 7. lið I. hluta ákæru og varða þau við 248. gr. almennra hegningarlaga.

V

Hinn 6. október 2006 gerði C, sambúðarkona ákærða, kaupleigusamning við Glitni banka hf. um skemmtibát og bátakerru að fjárhæð 2.900.000 krónur, en samningurinn var til fimm ára og með mánaðarlegum greiðslum. Til tryggingar efndum samningsins gekkst A í sjálfskuldarábyrgð.

Ákærða er í IV. hluta ákæru gefið að sök skjalafals með því að hafa í júní 2009 afhent Íslandsbanka hf., sem tekið hafði við réttindum og skyldum samkvæmt kaupleigusamningnum, yfirlýsingu um breytingu á honum þar sem ákærði hafi í blekkingarskyni falsað undirritun C og A. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði ekki sakfelldur fyrir að hafa falsað undirskrift A og unir ákæruvaldið þeirri niðurstöðu.

Ákærði hefur neitað að hafa falsað undirskrift sambúðarkonu sinnar og borið því við að hann hafi haft heimild hennar til undirritunar skjalsins. Við rannsókn málsins hjá lögreglu gaf C skýrslu en þar var hún ekki innt eftir því hvort ákærði hefði undirritað skjalið með hennar heimild. Við aðalmeðferð málsins í héraði skoraðist hún undan því að gefa skýrslu á grundvelli 117. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu er ósannað að ákærði hafi undirritað skjalið án heimildar hennar. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum.     

VI

Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi hlaut ákærði þrjá dóma á árunum 2002 til 2005 fyrir skjalafals og auðgunarbrot. Er fallist á með héraðsdómi að dómur sem ákærði hlaut 25. júní 2002 hafi ítrekunaráhrif við ákvörðun refsingar vegna þeirra fjársvika sem hann hefur hér verið sakfelldur fyrir, sbr. 255. gr. almennra hegningarlaga. Að þessu gættu er refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 9 mánuði.

Svo sem áður er rakið var mál þetta upphaflega kært til lögreglu 18. október 2007. Í maí og júlí 2008 voru teknar skýrslur hjá lögreglu af ákærða og A, en rannsókn málsins var eftir það ekki fram haldið fyrr en á árinu 2010 þegar frekari skýrslur voru teknar. Rannsókn málsins lauk síðan í upphafi árs 2011 en ákæra var ekki gefin út fyrr en 11. júní 2013. Þessi fáheyrði dráttur á rannsókn málsins og saksókn er vítaverður og í hróplegu ósamræmi við 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008, 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Ber að átelja þetta harðlega. Með bréfi til ríkissaksóknara 4. júní 2014 lýsti ákærði yfir áfrýjun héraðsdóms, en málsgögn bárust ekki Hæstarétti fyrr en 18. júní 2015. Þegar gætt er að þeim óhæfilega drætti sem orðið hafði á meðferð málsins hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, áður en ákæran var gefin út, var enn brýnni ástæða en ella til að meðferð þess drægist ekki frekar en þörf krafði. Tilgreindur dráttur á málsmeðferðinni fyrir Hæstarétti er því jafnframt ámælisverður. Af þessum sökum verður ekki hjá því komist að skilorðsbinda að fullu refsingu ákærða á þann veg sem í dómsorði greinir.

Samkvæmt framansögðu hefur ákærði verið sakfelldur fyrir það brot sem honum er gefið að sök í 6. og 7. lið I. hluta ákæru. Í einkaréttarkröfu brotaþola er krafist bóta að fjárhæð 2.523.646 krónur vegna þeirra ákæruliða og hefur þá verið tekið tillit til þess að 557.903 krónur hafi runnið til brotaþola eins og miðað er við í síðari ákæruliðnum. Með skírskotun til þess sem áður greinir liggur fyrir að ákærði fékk greitt andvirði láns til brotaþola að frádregnum lántökukostnaði 3.081.549 krónur inn á bankareikninga sem hann hafði umráð yfir. Í þessum þætti málsins verður hann að bera hallann af því að hafa ekki sýnt fram á að hafa greitt meira af skuldum brotaþola en nemur framangreindri fjárhæð. Verður honum því gert að greiða brotaþola bætur að fjárhæð 2.523.646 krónur með þeim vöxtum og málskostnaði fyrir Hæstarétti sem í dómsorði greinir. Að öðru leyti verður skaðabótakröfu ákærða vegna fjártjóns vísað frá héraðsdómi samkvæmt 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008.

Auk bóta vegna fjártjóns krefst brotaþoli miskabóta að fjárhæð 2.000.000 krónur úr hendi ákærða. Telur brotaþoli að ákærði hafi fellt á sig miskabótaábyrgð með persónulegri meingerð í sinn garð, sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Athafnir ákærða hafi verið ólögmætar og þær beinst að persónu brotaþola, enda hafi hann misnotað sér fákunnáttu brotaþola í fjármálum og það traust sem hann bar til ákærða. Í málinu hefur ákærði ekki verið sakfelldur fyrir misneytingu gagnvart brotaþola heldur fjársvik með því að blekkja starfsmann Sparisjóðs Keflavíkur til að millifæra í þágu brotaþola fjármuni inn á reikninga sem ákærði hafði umráð yfir. Að þessu gættu verður miskabótakröfu brotþola vísað frá héraðsdómi.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest að öðru leyti en því að ákærði greiði þriðjung málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns og réttargæslumanns brotaþola. Jafnframt verður ákærða gert að greiða sama hlutfall áfrýjunarkostnaðar. Að öðru leyti fellur þessi kostnaður á ríkissjóð. þessum grundvelli.em reist er ´rotaþola heldur fjvart iti til þessa er ns, annars vegar lu fölsun lgreindar eru

Dómsorð:

Ákærði, Gunnar Ágúst Halldórsson, sæti fangelsi í 9 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði A 2.523.646 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. júní 2007 til 20. janúar 2011 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Jafnframt greiði hann brotaþola 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað er staðfest að öðru leyti en því að ákærði greiði þriðjung málsvarnarlauna verjanda síns og þóknunar réttargæslumanns brotaþola.

Ákærði greiði þriðjung áfrýjunarkostnaðar málsins, sem í heild er 952.928 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda hans fyrir Hæstarétti, Hauks Arnar Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. mars 2014, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum, útgefinni 11. júní 2013, á hendur Gunnari Ágústi Halldórssyni, kt. [...], Móavegi 1, Reykjanesbæ, fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum:

I.

Aðallega fyrir fjársvik en til vara fyrir umboðssvik á tímabilinu frá 14. júlí 2003 til og með 5. september 2007 með því að hafa blekkt starfsmenn Sparisjóðs Keflavíkur með því að hafa komið fram og annast ýmsa viðskipta- og fjármálagerninga fyrir hönd A, kt. [...], án umboðs og með þeim hætti hagnýtt sér ranghugmynd bankastarfsmanna um umboð sitt og með því fengið ótilgreinda starfsmenn Sparisjóðsins til að millifæra samtals kr. 6.627.014,- af reikningum A og þannig haft af A fé og nýtt sér aðstöðu í eigin þágu, sem hér segir: (008-2007-[...]).

  1. Þann 15. febrúar 2005, hlutast til um að ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins millifærðu kr. 1.250.000,- af reikningi A nr. [...] yfir á eigin reikning nr. [...].
  2. Þann 3. janúar 2006, hlutast til um að ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins millifærðu kr. 1.490.000,- af reikningi Á nr. [...] yfir á reikning sambýliskonu ákærða, C, kt. [...], nr. [...].
  3. Þann 3. janúar 2006, hlutast til um að ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins millifærðu kr. 291.000,- af reikningi A nr. [...] yfir á reikning ákærða nr. [...].
  4. Þann 10. janúar 2006, hlutast til um að ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins millifærðu kr. 750.000,- af reikningi A nr. [...] yfir á reikning sambýliskonu ákærða, C, kt. [...], nr. [...].
  5. Þann 17. janúar 2007, hlutast til um að ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins millifærðu kr. 798.000,- af reikningi A nr. [...] yfir á reikning ákærða nr. [...] en kr. 475.632,- fóru til uppgreiðslu á fjárhagsskuldbindingum A.
  6. Þann 19. júní 2007, hlutast til um að ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins millifærðu kr. 2.000.000,- af reikningi A nr. [...] yfir á reikning sambýliskonu ákærða, C, kt. [...], nr. [...].
  7. Þann 19. júní 2007, hlutast til um að ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins millifærðu kr. 1.081.549,- af reikningi A nr. [...] yfir á reikning fyrirtækis ákærða, G.Á.H. ehf., kt. [...], nr. [...] en kr. 557.903,- af greindum fjármunum greiddi ákærði í þágu A vegna vanskila hans.

Telst þessi háttsemi ákærða aðallega varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 249. gr. sömu laga.

II.

Aðallega fyrir fjársvik en til vara fyrir umboðssvik, með því að hafa blekkt A, kt. [...], og misnotað aðstöðu sína sem vinur hans er hann hagnýtti sér þroskaskerðingu hans, skort hans á skilningi á flóknari hlutum, skort hans á innsæi í félagslegum samskiptum, einmanaleika hans á tímabilum og vilja hans og getu til að aðstoða fólk og með þeirri blekkingu fengið A til að takast á hendur verulegar fjárhagsskuldbindingar fyrir hönd ákærða sem ákærði nýtti í eigin þágu, sem hér segir: (008-2007-[...]).

  1. Þann 22. júlí 2004, blekkt A til að fara í SPRON og láta millifæra af reikningi í hans eigu nr. [...]  kr. 500.000,- yfir á reikning sinn nr. [...].
  2. Þann 8. mars 2007, fengið A til að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð á tryggingarbréf nr. [...] að fjárhæð kr. 3.000.000,- til tryggingar á tékkareikningi G.Á.H. ehf., kt. 701106-1050, nr. [...], hjá Sparisjóði Keflavíkur með heimild að fjárhæð kr. 989.258,-.
  3. Þann 4. september 2007 fengið A til að undirrita sem greiðandi víxil nr. [...] að fjárhæð kr. 1.080.000,- á gjalddaga 3. desember 2007 sem seldur var Sparisjóði Keflavíkur sem lagði inn andvirði hans kr. 1.011.255,- inn á reikning A nr. [...] en ákærði hlutaðist til um að sú fjárhæð yrði millifærð inn á reikning sambýliskonu ákærða, C, kt. [...], nr. [...] þann 5. september 2007. Víxillinn var greiddur upp af G.Á.H. ehf., kt. 701106-1050, þann 5. nóvember 2007.

Telst þessi háttsemi ákærða aðallega varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en til vara við 249. gr. sömu laga.

III.

Fyrir skjalafals, með því að hafa, í janúar 2009, afhent til Glitnis Fjármögnunar, kt. 490503-3230, Kirkjusandi, Reykjavík, tvö skjöl, dagsett þann 14. janúar 200,9 sem hér segir: (008-2010-[...]).

  1. Yfirlýsingu til breytinga á eignaleigusamningi nr. [...], sem ákærði undirritaði nafn A, kt. [...], á sem sjálfskuldarábyrgðaraðila og falsaði með því undirritun hans.
  2. Greiðsluáætlun samnings, sbr. lið 1. að ofan, sem ákærði undirritaði nafn A, kt. [...], á og falsaði með því undirritun hans.

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

IV.

Fyrir skjalafals, með því að hafa, í júní 2009, afhent til Íslandsbanka Fjármögnunar, kt. 490503-3230, Kirkjusandi, Reykjavík, yfirlýsingu um breytingu á eignaleigusamningi nr. 428418-001, dagsetta þann 23. júní 2009, en ákærði falsaði í blekkingarskyni, með því að undirrita á yfirlýsinguna, nafn C sem leigutaka og nafn A, kt. [...], sem sjálfskuldarábyrgðaraðila. (008-2010-[...]).

Telst þessi háttsemi ákærða varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

D, kt. [...], fjárhaldsmaður A, kt. [...], krefst þess fyrir hans hönd að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 12.855.929,- með vöxtum frá 14. júlí 2004 sem sundurliðast þannig:

1.       Kr. 10.623.754,- með vöxtum af kr. 933.958,- frá 14. júlí 2004 til 22. júlí 2004, af kr. 1.458.958,- frá 22. júlí 2004 til 15. febrúar 2005, af kr. 2.708.958,- frá 15. febrúar 2005 til 3. janúar 2006, af kr. 4.489.958,- frá 3. janúar 2006 til 10. janúar 2006, af kr. 5.239.938,- frá 10. janúar 2006 til 11. maí 2006, af kr. 5.339.938,- frá 11. maí 2006 til 16. janúar 2007, af kr. 6.137.958,- frá 16. janúar 2007 til 18. janúar 2007, af kr. 6.415.950,- frá 18. janúar 2007 til 14. maí 2007, af kr. 6.530.950,- frá 14. maí 2007 til 19. júní 2007, af kr. 9.612.499,- frá 19. júní 2007 til 5. september 2007 og af kr. 10.623.754,- frá 5. september 2007 til greiðsludags skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr., til greiðsludags.

2.       Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða kröfuhafa kr. 2.000.000,- með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2004 til greiðsludags en að mánuði liðnum frá birtingu bótakröfu er krafist dráttarvaxta skv. 6. gr., sbr. 5. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags.

3.       Enn fremur er krafist réttargæsluþóknunar úr hendi ákærða brotaþola að skaðlausu skv. framlögðum reikningi.

Af hálfu ákærða er aðallega krafist sýknu og að sakarkostnaður, þ.m.t. hæfileg málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, greiðist úr ríkissjóði. Til vara er þess krafist að ákærða verði ekki gerð refsing en komi til refsingar verði honum gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin. Þá er krafist frávísunar bótakröfu en til vara verulegrar lækkunar bóta.

                Mál þetta var þingfest 16. júlí 2013 en var þá frestað að ósk ákærða. Fyrirtaka var í málinu þann 17. september 2013 þar sem ákærði neitaði sök og hafnaði bótakröfu. Við þá fyrirtöku var óskað eftir fresti til framlagningar greinargerðar. Þann 8. október 2013 var fyrirtaka í málinu þar sem óskað var eftir framlengdum fresti til greinargerðar. Við fyrirtöku málsins þann 22. október 2013 var því lýst yfir af hálfu verjanda ákærða að greinargerð yrði ekki skilað. Málinu var frestað ótilgreint til aðalmeðferðar. Undirrituðum héraðsdómara var úthlutað málinu þann 4. nóvember 2013. Var aðalmeðferð ákveðin utan réttar í samráði við sækjanda, verjanda og réttargæslumann brotaþola sem hófst með skýrslutökum þann 25. febrúar 2014 en framhald aðalmeðferðar fór fram þann 21. mars sl. Við framhald aðalmeðferðar lagði ákærði fram bókun, framlagt skjal nr. 8, um frávísun málsins. Við aðalmeðferð féll ákæruvaldið frá ákærulið III.          

I

Um málavexti kemur fram í skýrslum lögreglu að þann 19. október 2007 hafi verið móttekin kæra á hendur tveimur einstaklingum og fyrirtækjum þeim tengdum vegna ýmissa fjármálagerninga A, brotaþola þessa máls. Fram kom að brotaþoli væri þannig settur að hann ætti erfitt með að sjá um eigin fjármál og liggi vel við höggi. Umtalsverðir fjármálagerningar hafi verið gerðir yfir nokkurra ára tímabil, þar sem þessir einstaklingar hafi komið við sögu, sem meðal annars tengist kaupum og sölu fasteigna auk ábyrgða og lána á nafni brotaþola. Að mati kæranda hafði eigið fé brotaþola rýrnað verulega á þessu tímabili og væri sterkur grunur um að þessir einstaklingar hafi nýtt sér bága stöðu brotaþola og komist yfir eigur hans með svikum.

Þann 31. maí 2010 lagði fjárhaldsmaður brotaþola fram nýja kæru á hendur sömu einstaklingum vegna skjalafals, sem um getur í ákærulið III. og IV.

II

Hér verður eftir þörfum rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og lögreglu um ákæruliði í kafla I. og II.

Ákærði bar fyrir dómi að ákæran kæmi honum einkennilega fyrir sjónir þar sem ekkert væri getið um hvað hann hefði gert fyrir brotaþola. Þannig hafi hann greitt ýmis útgjöld fyrir brotaþola, breytt þvottahúsi hans, smíðað sólpall, keypt dekk og felgur, séð um viðgerð á bílum brotaþola, greitt tannlæknakostnað, keypt málningu, húsgögn og margt fleira.

Ákærði bar að hann og brotaþoli hafi unnið saman hjá E og hafi verið félagar þrátt fyrir aldursmun. Þeir hafi meðal annars farið saman í bíó og borðað saman. Hann hafi ekki getað séð að brotaþoli hafi haft neina andlega annmarka heldur hafi hann litið á hann sem jafningja sinn. Hann hafi stutt brotaþola, sem hafi staðið illa fjárhagslega, og hann hafi lánað honum peninga og hjálpað honum að gera aðbúnað hans betri. Einnig hefði brotaþoli unnið hjá honum við að smíða og hann greitt honum tímagjald fyrir. Það hafi þó ekki verið reglulega eða undir ákveðnum formerkjum.

Aðspurður um hvernig það hafi gerst að hann hafi byrjað að aðstoða brotaþola í fjármálum hans, upplýsti ákærði að brotaþoli hafi sjálfur viljað skipta um banka, hafi viljað fara úr Landsbankanum og yfir í Sparisjóð Keflavíkur. Það gæti vel verið að hann hafi farið með honum í Sparisjóðinn og þar hafi þeir sennilega talað við G bankastjóra. Hann hafi ekki haft orð fyrir brotaþola, þeir hafi báðir rætt við G. Spurður hvort hann vissi númer á reikningum þeim sem stofnaðir voru í sparisjóðnum svaraði ákærði því neitandi og einnig sagðist hann ekki vita leyniorð  reikninganna. Ákærði taldi að brotaþoli hefði í öll skiptin átt frumkvæði að því að hann aðstoðaði hann í fjármálum en hann hefði líklega farið í eitt eða tvö skipti með honum að ræða við útibússtjórann, hann G, sem hafi verið tengiliður brotaþola við bankann. Einnig hafi kona, að hann minnti að nafni H, komið að málum hans. Ákærði bar að hann hafi verið með skriflegt umboð frá brotaþola í einhver skipti þegar hann fór í bankann.

Ákærði var spurður um gögn sem hann hafi ætlað að koma með til lögreglu. Upplýsti hann þá að hann teldi að gögnin væru í bókhaldi brotaþola svo sem varðandi tölvukaup, en þau gögn væru hjá D, systur brotaþola. Ákærði sagðist aldrei hafa nýtt fjármuni brotaþola í eigin þágu. Hann hafi hins vegar fengið brotaþola til að ganga í ábyrgðir fyrir sig eða fyrirtæki hans. Það hefði verið í sambandi við yfirdráttarheimild, vegna kaupa á bát og fjórhjóli, auk þess sem hann hefði fengið hann til að skrifa upp á víxla sem hafi allir verið greiddir upp. Taldi hann að þetta hafi verið vinargreiði hjá brotaþola. Ákærði upplýsti að G bankastjóri hafi átt hugmyndina að þessu fyrirkomulagi. Hann upplýsti einnig að brotaþoli hafi verið formaður fyrir félagi í hans eigu en brotaþoli hafi ekkert komið nálægt rekstrinum. Hann hafi hins vegar átt að fá einhverjar greiðslur fyrir þetta og mánaðarlega hafi verið greitt til brotaþola vegna þess. 

Í lögregluskýrslu, dagsettri þann 31. júlí 2008, kom fram haft eftir ákærða að hann væri með lögmann, sá ætti ekki heimangengt en lögmaðurinn hefði umtalsvert af gögnum sem ákærði taldi nauðsynlegan málstað sínum til varnar. Þessi gögn væru lykilatriði og myndu aðstoða við að upplýsa málavöxtu. Sjálfur upplýsti ákærði að brotaþoli hefði unnið fyrir sig persónulega af því að brotaþoli hafi hætt að vinna hjá E. Hann hafi greitt fyrir hverja einustu vinnustund sem brotaþoli hafi unnið hjá honum og gott betur en hann gæti ekki framvísað neinum gögnum um það. Spurður um þau verk sem brotaþoli hafi unnið, meðal annars fyrir [...], kom fram, haft eftir ákærða, að hluti starfanna hafi verið ólaunaður vinargreiði eins og allir geri.

Í lögregluskýrslu, dagsettri þann 27. janúar 2010, kom fram, haft eftir ákærða þegar hann var spurður um heimildir til annast fjármál fyrir brotaþola, að brotaþoli hafi veitt honum heimild. Eina skiptið sem hann hafi farið í bankann fyrir brotaþola hafi verið þegar brotaþoli hafi verið kominn í vanskil vegna bílakaupa og tölvukaupa fyrir sambýlisfólk sitt og hafi brotaþoli þá farið með honum í bankann. Þegar ákærði var spurður hvort brotaþoli hafi einnig verið að vinna fyrir tengdaföður ákærða svaraði hann: „Nei hann var ekki að vinna, hann var bara að aðstoða.“ Spurður um hvort brotaþoli hafi verið hluthafi í G.Á.H. ehf. og hvers vegna brotaþoli hafi verið formaður í því félagi svaraði ákærði: „Vegna kunningsskapar okkar, A hafði engan hagnað af þessu eða skuldbindingar og hann kom ekki nálægt ákvarðanatöku.“ Þegar ákærði var spurður hvort hann hafi greitt brotaþola með einhverjum hætti fyrir þessa vinnu kom fram haft eftir ákærða: „Ég studdi A. Oft var hann að hjálpa mér og vantaði pening og þá reyndi ég að aðstoða hann eins og hægt var. Hann fékk stundum að taka bensín á bíl sinn þegar hann sagði mér að bíllinn hans væri bensínlítill.“ Þegar ákærði var spurður um ákveðnar millifærslur kom fram að hann sjálfur hafi ekki talað við neinn í bankanum nema þegar brotaþoli hafi verið með og hafi brotaþoli séð um allar færslur inn á hans reikning og hafi brotþoli ákveðið sjálfur hvaða upphæðir hann millifærði.

Í skýrslutöku þann 10. febrúar 2010 var ákærði spurður hvort brotaþoli hafi verið með honum þegar sótt var um lán í sparisjóðinum vegna meintra ábyrgða brotaþola, en ákærði hafði bæði gefið þá skýringu að brotaþoli hafi verið með honum og að hann hafi ekki verið með honum. Svar ákærða var: „Ég mætti tvisvar ef ekki þrisvar og A kom með mér í eitt af þessum skiptum.“

Í skýrslutöku þann 2. mars 2010 kom fram, haft eftir ákærða, að brotaþoli hafi ekki verið í ábyrgðum fyrir hann sjálfan, brotaþoli hafi verið í ábyrgðum fyrir yfirdrætti G.Á.H. og að víxlarnir hafi verið „einn, tveir eða þrír“ en engir víxlar hafi fallið á hann. Fram kom að hann hafi farið í eitt skipti í bankann án þess að brotaþoli hafi verið með og hafi það verið til þess að ræða við bankastjórann um lán fyrir brotaþola, en brotaþoli hafi séð um allar millifærslur sjálfur. Þá kom fram að ákærði myndi koma öllum gögnum til lögreglu sem og greinargerð um hagi brotaþola og þess fólks sem bjó hjá honum.

Fyrir dómi bar A, brotaþoli þessa máls, að hann hafi unnið með ákærða hjá E og kynnst honum þar. Vinskapur þeirra hafi hafist með því að ákærði hafi beðið hann um að hjálpa sér með ýmisleg, meðal annars í sumarbústað bróður hans. Hann hafi eitthvað fengið greitt, bæði peninga og bensín, en það hafi ekki verið mikið. Stundum hafi ákærði borgað en stundum ekki. Hann hafi sjálfur skrifað tímana sína en ákærði hafi ekki viljað fá þá af því að hann hafi sjálfur skrifað þá hjá sér en aldrei hafi verið rætt um tímakaup.

Brotaþoli var spurður af hverju hann hafi flutt bankaviðskipti sín frá Landsbankanum yfir í sparisjóðinn og upplýsti hann þá að ákærði hafi sagt honum að það væri betra að vera með viðskiptin þar. Þeir hafi farið saman í sparisjóðinn og hitt bankastjórann. Fram kom að þeir hafi bara farið einu sinni saman í bankann. Spurður hvort ákærði hafi haft aðgang að reikningum hans upplýsti brotaþoli að hann hafi gefið honum númer á einni bók þar sem ákærði hafi lagt inn peninga. Aðspurður hvort ákærði hafi vitað leyninúmer á þeim reikningi upplýsti brotaþoli að hann hafi þurft að gefa ákærða það svo að hann gæti lagt inn á hann, ákærði hafi viljað það. Ítrekað spurður um þetta atriði sagðist hann ekki muna hvort hann hafi látið ákærða hafa númerið. Hann hafi hins vegar aldrei leyft honum að taka út peninga af reikningi hans. Brotaþoli sagðist aldrei hafa millifært sjálfur peninga né óskað eftir því að þjónustufulltrúi gerði það, hann kynni ekki að millifæra. Hann hafi ekki veitt ákærða neitt umboð til þess að sjá um fjármál sín og ekki kynnt ákærða sem umboðsmann sinn.

Spurður um það hvort hann hafi viljað kaupa eignina að [...] í [...] upplýsti hann að svo hefði verið. Hann hafi þó fljótlega viljað selja þar og fara aftur til [...]. Hafi ákærði hjálpað honum með það, hann hafi séð um söluna á [...] í [...] og kaupin á eigninni að [...] í [...]. Ákærði hafi séð um allt. Spurður hvort ákærði hafi hjálpað honum að flytja sagðist brotaþoli hafi gert það sjálfur, hann væri ekki með það mikið. Spurður hvort ákærði hafi hjálpað honum með endurbætur á þvottahúsi og að gera sólpall í [...] svaraði brotaþoli því neitandi það hafi ekki verið gert, ákærði hafi bara talað um það. Spurður hvort ákærði hafi greitt fyrir hann tannlæknakostnað svaraði brotaþoli því neitandi, hann hafi greitt það allt sjálfur. Þá hafi ákærði ekki hjálpað honum við að kaupa húsgögn. Ákærði hafi hins vegar málað [...] og keypt hurðir og borðplötu og hafi greiðslan vegna þess átt að koma út úr greiðslum frá [...]. Bankinn hafi að öðru leyti séð um hans mál. Ákærði hafi hins vegar séð um kaup og sölu og lánveitingar vegna fasteignakaupanna og séð um bílakaup fyrir hann.

Brotaþoli upplýsti að hann hafi átt að fá peninga fyrir að vera í stjórn fyrirtækis sem ákærði átti, hafi átt að fá 30.000 krónur á mánuði fyrir að vera formaður, „Gunni sagði bara að ég ætti að vera formaður“. En hann hafi hins vegar ekki fengið neinar greiðslur fyrir.

Fram kom að brotaþoli hafi gengist í ábyrgðir fyrir ákærða. Hann hafi skrifað undir þegar ákærði var að kaupa sér fjórhjól. Spurður af hverju það hefði verið svo svaraði brotaþoli: „Hann bara vildi það en ég vissi ekki að ég ætti að borga af því“. Fram kom að hann hefði heldur ekki talið að hann ætti að vera ábyrgðarmaður þegar hann skrifaði undir skjalið. Brotaþoli mundi ekki eftir því að hafa verið ábyrgur fyrir Kvick Silver hraðbáti fyrir ákærða.

Spurður hvort þeir hafi verið oft saman sagði brotaþoli að ákærði hafi stundum hringt í sig þegar hann hafi vantað aðstoð heima hjá sér og þegar hann hafi verið í fríi frá E hafi hann unnið í málningarfyrirtæki hjá tengdaföður ákærða. Aðspurður sagðist brotaþoli ekki hafa átt marga vini á þessum tíma. Hann hafi treyst ákærða. Spurður hvort þeir hafi verið góðir vinir svaraði brotaþoli: „Hann hringdi í mig þegar hann vantaði eitthvað og ég bara fór til hans og stundum fór ég í mat.“

Vitnið D bar fyrir dómi að hún væri systir brotaþola. Beðin um að lýsa bróður sínum sagði hún hann hægan og vilja engum illt og kannski þess vegna væru hlutirnir eins og þeir væru núna. Brotaþoli hafi ekki átt marga vini en hann hafi oft talað um ákærða sem vin sinn og hefði oft hjálpað honum. Hún taldi að engum dyldist fötlun brotaþola. Hún hafi vitað um húsakaup brotaþola þegar hann keypti [...] í [...]. Hún hafi hins vegar ekki komið að öðrum húsakaupum hans. Brotaþoli hafi talað um að ákærði hafi gert hitt og þetta. Taldi hún að töluverður afgangur hefði átt að vera þegar hann seldi í [...] og keypti að [...] í [...], enda hafi [...] verið mun ódýrari. Hún hafi ekki komið að lánveitingum vegna þessara kaupa. Hún hafi ekki vitað um hvernig þau fóru fram og um fjárhagsvandræði brotaþola fyrr en vinnufélagi brotaþola hafi hringt í hana. Hafi hún síðar verið skipaður fjárhaldsmaður brotaþola og hafi það komið til vegna þessa máls. Spurð upplýsti hún að öll gögn málsins væru komin til lögreglu og að hún ætti afrit af þeim. Fram kom að hún hafi pantað tíma vegna taugasálfræðilegs mats á brotaþola til þess að fá mat á þroska hans. Taldi hún að matið lýsti brotaþola vel. Beðin um að lýsa brotaþola sagði hún hann vera heiðarlegan en hægfara, þroski hans færi ekki framhjá neinum og að hann skynjaði ekki umhverfið til hlítar. Aðspurð um ábyrgðir vegna sambýlisfólks hans upplýsti vitnið að þessir erlendu aðilar hafi aldrei verið sambýlisfólk hans.

Vitnið I bar fyrir dómi að vera mágur brotaþola. Aðkoma hans að málinu hafi byrjað þegar hann hafi fengið upplýsingar um að verið væri að reyna að koma brotaþola út úr íbúð sinni á [...] í [...]. Hafi hann ásamt eiginkonu sinni farið í bankastofnanir og leitað skýringar á fjárhagsvandræðum brotaþola. Hafi það leitt til þess að málið var síðar kært til lögreglu. Spurður sagði hann að brotaþoli væri ákaflega ljúf sál sem glími við ákveðna fötlun. Hann sagði að það væri öllum ljóst sem ættu í samskiptum við brotaþola að hann ætti við fötlun að stríða. Brotaþoli vilji eiga vinskap við alla og vilji vera öllum góður. Var það mat vitnisins að ákærði hafi fengið brotaþola til þess að kaupa húseignina í [...] í [...] þar sem treglega hafi gengið að selja hana. Aðspurður upplýsti vitnið að öll gögn sem hann og eiginkona hans hafi haft undir höndum vegna þessa máls hafi verið send til lögreglu. Brotaþoli hafi verið samviskusamur með öll gögn og látið þau fá þau jafnóðum.

Vitnið J bar fyrir dómi að hann og brotaþoli hafi unnið saman. Hann hafi orðið var við breytingar á háttsemi brotaþola og síðan þegar brotaþoli hafi eitt sinn komið á nýjum bíl hafi hann gengið á hann um hversu ríkur hann væri orðinn. Hafi hann spurt hann út í þennan bíl og fundist af svörum brotaþola að hann hefði verið dýr. Fljótlega eftir það hafi brotaþoli komið aftur mjög ánægður, enda hafi hann fengið uppbót, dekk á bílinn. Seinna hafi hann þurft að fá lánaðan vinnubíl fyrirtækisins því að hann þyrfti að flytja búslóð sína og hafi sagst vera búinn að missa íbúðina sína. Hann ætti hana ekki lengur heldur ákærði þessa máls og til stæði að brotaþoli færi að leigja aðra eign hjá ákærða. Átti leigan að nema næstum mánaðarlaunum brotaþola. Honum hafi fundist þetta mjög skrítið því að brotaþoli hafi ekki átt að vera svona illa staddur og hafi hann því hringt í D, systur brotaþola, og upplýst hana um málavöxtu þó svo að brotaþoli hafi sagt honum að hann mætti ekki tala við neinn um þetta. Spurður sagði vitnið að brotaþoli væri mjög duglegur í vinnu, hann væri mikill vinur vina sinna. Hann hefði meðal annars talað mikið um ákærða. Hann hefði hins vegar annmarka sem öllum væru ljósir en væri flottur karakter.

Vitnið G, fyrrverandi þjónustustjóri Sparisjóðsins í Keflavík, [...], bar að engin tengsl væru með honum og aðilum þessa máls en hann myndi eftir þeim sem viðskiptavinum. Ákærði og brotaþoli hafi komið saman í bankann í þeim erindagjörðum að stofna reikninga og greiðsluþjónustu fyrir brotaþola. Ákærði hafi kynnt sig sem umboðsmann brotaþola og hafi ákærði haft frumkvæði og orð fyrir þeim. Aðspurður sagði hann að brotaþoli hafi komið honum fyrir sjónir sem „frekar einfaldur ekki eins og flestir aðrir“. Hann upplýsti að ákærði hafi ekki verið með skriflegt umboð frá brotaþola og hann ekki gengið eftir því. Það væri ekki í samræmi við vinnureglur bankans. Vitnið bar að ákærði og brotaþoli hafi stundum komið saman í bankann. Brotaþoli hefði stundum komið einn en þá bara farið til gjaldkera til að taka út peninga af launareikningi. Vitnið bar að ákærði hefði stundum komið einn í erindagjörðum fyrir brotaþola. Þannig hefði það verið þegar ákærði hafi komið og óskað eftir láni fyrir hönd brotaþola vegna skuldbindinga brotaþola og hafi lagt fyrir hann ýmis gögn í því sambandi. Ákærði hefði ákveðið fjárhæðina og hvert hún skyldi renna en hann hafi sjálfur skoðað gögnin og lagt saman tölur og fullvissað sig um að þau væru í samræmi við umbeðna lánsfjárhæð. Aðspurður sagði hann að gögnin hafi ekki endilega verið reikningar heldur ítrekanir og skuldbindingar sem ekki hafi verið búið að greiða. Hann upplýsti að ekkert hafi verið rætt við brotaþola vegna þessa og ekki hafi verið óskað eftir greiðslumati hjá honum en brotaþoli hafi komið og ritað undir lánið. Vitnið upplýsti að þessi lánveiting hafi ekki verið gerð í samræmi við vinnureglur. Aðspurt upplýsti vitnið að hann kannaðist ekki við starfsmann að nafni  H, en sú sem hafi verið með aðstöðu fyrir utan hjá honum hafi verið M. Aðspurður sagði hann að skýringar, sem fengnar hafi verið frá bankanum um hvert millifærslur áttu að hafa farið, hafi komið eftir á, frá ákærða í máli þessu. Aðspurður sagði hann ekki skráð í bankanum hvort millifærsla hafi verið gerð eftir hringingu eða hvort aðili hafi komið í bankann en það sé alltaf óskað eftir leyninúmeri reiknings og kerfið þannig uppbyggt að ekki sé hægt að millifæra án þess. Hafi verið hringt í bankann og beðið um að millifæra hafi það ekki verið tekið upp. Þá hafi honum ekki verið kunnugt um það hvort ákærði hafi vitað leyninúmer reiknings brotaþola. Aðspurður um að haft væri eftir ákærða að það hafi verið að tilhlutan vitnisins að víxill í ákærulið II. 3 hafi verið útbúinn með þeim hætti sem þar greinir svaraði hann því til: „Að það væri alveg fáránlegt,“ þessi tilhögun væri ekki að hans tilhlutan. Þá hafi ekki vaknað hjá honum grunsemdir um að hugsanlega væri ákærði að nota brotaþola þótt eftir á að hyggja mætti alveg gagnrýna aðferðir bankans. Bankinn hafi litið þannig á að ákærði væri velgjörðarmaður brotaþola og hafi verið að ráðleggja honum heilt.

Vitnið K, fyrrverandi starfsmaður Sparisjóðs Keflavíkur, [...], bar fyrir dómi að hún þekkti ekki hvaða aðila væri verið að ræða um. Eftir að hafa verið sýnd mynd af brotaþola úr gögnum málsins kvaðst vitnið muna eftir honum, hann hafi verið hjá henni í greiðsluþjónustu. Aðspurð lýsti hún honum þannig að hann hafi verið óframfærinn og ekki haft hlutina á hreinu. Aðspurð sagði hún að það hafi verið skriflegar reglur í bankanum um umboðsmenn en þeim hafi ekki alltaf verið fylgt eftir, þau hafi treyst fólki þar sem þetta hafi verið lítill banki og þau þekkt flesta. Hins vegar hafi alltaf þurft leyninúmer til að millifæra en ekki hafi verið gefin skýring á millifærslum. Aðspurð mundi hún eftir að einhver annar hafi komið með brotaþola og að sá hafi yfirleitt haft orð fyrir honum. Hún mundi hins vegar ekki hvort sá hafi haft upplýsingar um leyninúmer brotaþola.

Vitnið L, fyrrverandi starfsmaður Sparisjóðs Keflavíkur, [...], bar fyrir dómi að hún þekkti ekki aðila þessa máls. Hún bar að ekki væri hægt að millifæra af reikningum, nema með leyninúmeri og jafnvel þó að það hafi verið hægt þá hafi þessi regla ekki verið brotin í bankanum.

Vitnið M, fyrrverandi starfsmaður Sparisjóðs Keflavíkur, [...], bar fyrir dómi að hún þekkti aðila málsins. Hún mundi eftir því að ákærði hafi komið með brotaþola og stofnað innlánsreikning og greiðsluþjónustu. Ákærði hafi haft orð fyrir þeim og henni fundist eins og ákærði væri að aðstoða brotaþola við fjárfestingu á íbúð. Aðspurð sagði vitnið að brotaþoli hafi komið henni fyrir sjónir sem sérstakur einstaklingur og ekki framfærinn. Hana minnti að ákærði og brotaþoli hafi komið saman tvisvar til þrisvar í bankann, brotaþoli hafi stundum komið einn og tekið út af reikningi sínum hjá gjaldkera. Aðspurð sagði hún að ákærði hafi beðið um millifærslur af reikningi A, að hana minnti með símhringingum. Hann hafi haft númer að bankareikningum brotaþola og leyninúmer, enda hafi ekki verið millifært nema þessi númer væru gefin upp. Aðspurð hversu oft ákærði hafi hringt í þessum tilgangi taldi vitnið það hafa verið tvisvar til þrisvar en hún gæti ekki fullyrt um það. Gagnspurð um þetta atriði hvort hún væri viss, svaraði hún því til að þetta væri það sem hana minnti. Spurð hvort hún þekkti rödd ákærða í síma svaraði hún því játandi. Spurð hvort ákærði hafi gefið upp leyniorð brotaþola svaraði hún því til að hana minnti það. Þá taldi hún að ákærði hafi ekki verið með nein umboð frá brotaþola.

Vitnið N, fyrrverandi lögreglumaður, bar fyrir dómi að hafa tekið við rannsókn þessa máls af öðrum. Fram kom að leitað hafi verið til fjárhaldsmanns brotaþola og hann fenginn til þess að hlutast til um að fá taugasálfræðilegt mat á brotaþola, enda væri nokkuð ljóst að hann ætti erfitt með að útskýra málið fyrir lögreglu. Spurður sagði hann að ákærði hefði þráfaldlega verið spurður um það hvort hann hefði gögn og hefði hann sagst ætla að koma þeim til lögreglu en ekki gert. Ekki hafi verið fengnar upplýsingar um hreyfingar af bankareikningum ákærða. Aðspurður sagði hann að mál þetta hafi ekki dregist óeðlilega hjá lögreglu.

Vitnið O, fyrrverandi lögreglumaður, bar fyrir dómi að hafa fengið málið til meðferðar í stuttan tíma sumarið 2008. Hafi hann tekið frumskýrslu af ákærða, önnur hafi aðkoma hans ekki verið.

Vitnið P fasteignasali bar fyrir dómi, eftir að lögð voru fyrir hann afrit af sölugögnum um kaup á fasteigninni [...] í [...], að hafa ritað undir skjölin en hann myndi ekkert eftir aðilum málsins.

Vitnið Q Ragnarsson bar fyrir dómi að brotaþoli hafi komið honum fyrir sjónir sem ósjálfstæður en hann hafi ekki merkt að hann gæti ekki séð um sín mál sjálfur. Ákærði hafi leitt málið um kaupin á [...] og hafi haft orð fyrir þeim. Fasteignakaupin hafi verið á eðlilegum nótum, bæði söluverð á [...] og kaupverðið á [...]. Taldi hann að ákærði hafi ásamt öðrum verið eigandi að því félagi sem átti [...].

Vitnið R sálfræðingur bar fyrir dómi að miðað við þau þroskafrávik sem mældust í þroska brotaþola þá væri mállegur og verklegur greindaraldur brotaþola mikið til á bilinu eins og hjá 9-10 ára barni. Miðað við þá  taugasálfræðilegu veikleika sem komi fram í prófunum þá sé afar líklegt að fólki hafi almennt átt að vera ljósar takmarkanir hans. Fólki ætti ekki endilega að vera ljóst um takmarkanir hans út frá útliti hans, en að orðið „einfaldur“ gæfi nokkuð góða mynd af stöðu hans. Fram hefði komið í viðtali hans við brotaþola að hann gerði sér illa grein fyrir fjármálum og upphæðum og gerði sér sjálfur grein fyrir takmörkunum sínum. Aðspurður kom fram hjá vitninu að margt af því sem greini í skýrslu hans í málinu sé hins vegar komið frá systur brotaþola.

Vitnið S læknir nr. [...], gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að hann minnti að brotaþoli hafi komið með systur sinni sem hafi verið fjárhaldsmaður hans vegna beiðni um fjárræðissviptingu. Fram kom að S hafi mælt með taugasálfræðilegu mati á brotaþola til þess að meta þroskaskerðingu hans og greind.

III

Hér verður eftir þörfum rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi og lögreglu um einstaka ákæruliði kafla I. og II.

Ákæruliður I.1. Fyrir dómi bar ákærði að hann myndi ekki hvaða millifærsla þetta hafi verið en að hún hafi verið í þágu brotaþola. Spurður út í skýrslu hjá lögreglu þar sem fram komi, eftir honum haft, að þetta hafi verið vegna framkvæmda við [...] í [...], en staðreynt sé í málinu að sú eign hafi verið keypt ári eftir að millifærslan átti sér stað, sagðist ákærði ekki vera viss, það væri langt um liðið. Í lögregluskýrslu þann 2. mars 2010 gaf ákærði þá skýringu að það gæti verið að eitthvað af þessum upphæðum hafi verið vegna víxla.

Ákæruliður I.2. Fyrir dómi bar ákærði að um hafi verið að ræða lán vegna fjórhjóls sem hafi verið skráð á brotaþola. Ákærði var upplýstur um að fjórhjólið hafi verið skráð á hann sjálfan ári eftir millifærsluna og taldi ákærði þá að þetta gæti hafa verið vegna víxils, hann myndi það hins vegar ekki. Borið var undir ákærða að hann hafi gefið þær upplýsingar hjá lögreglu að þetta hafi verið vegna endurbóta á íbúð brotaþola og sagði ákærði að það vantaði gögn í málið, og að hann hefði sennilega munað þetta ef það væri ekki svona langt um liðið. Fram kom í lögregluskýrslu dagsettri 27. janúar 2010, að haft eftir ákærða að um hafi verið að ræða lán frá Lýsingu sem hafi verið lagt inn á brotaþola en brotaþoli hafi síðan millifært það yfir á hann. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 10. febrúar 2010 mundi ákærði ekki eftir þessu.

Ákæruliður I.3. Fyrir dómi bar ákærði að þetta hefði verið eitthvað frá þeim tíma þegar brotaþoli var að kaupa [...]. Borið undir hann að í skýrslu bankans komi fram að uppgefin skýring væri kaup á bíl, taldi ákærði að það hafi verið mistök. Taldi hann að brotaþoli hafi sjálfur framkvæmt millifærsluna, hann hafi ekki haft leyninúmer reiknings eða fengið það uppgefið hjá brotaþola. Borið undir hann að fram kæmi í skýrslu lögreglu, haft eftir honum sjálfum að þetta hafi verið vegna kaupa á dekkjum og felgum, taldi ákærði að svo gæti vel verið en hann ætti engin gögn um það. Í skýringu til Landslaga lögfræðistofu þann 21. maí 2008 upplýsti ákærði að hann hefði ekki skýringu að svo stöddu. Ákærði gaf þá skýringu hjá lögreglu þann 27. janúar 2010 að millifærslan væri vegna kaupa á dekkjum og felgum.

Ákæruliður I.4. Ákærði taldi fyrir dómi hugsanlegt að þetta væri vegna víxils en hann myndi það ekki. Hann vissi ekki hvaða víxil væri um að ræða í þessu tilfelli en hann hefði einu sinni greitt víxil fyrir brotaþola. Spurður um þær upplýsingar sem hann gaf hjá lögreglu að þessi millifærsla hafi verið vegna sölulauna á [...] í [...] taldi hann að það gæti verið en hann myndi það ekki. Í skýringu til Landslaga lögfræðistofu þann 21. maí 2008 upplýsti ákærði að hann hefði ekki skýringu að svo stöddu. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 27. janúar 2010 sagðist hann ekki muna eftir þessu en brotaþoli hafi séð um þessar millifærslur og hann viti ekki hvernig það hafi verið gert. Þegar brotaþoli var spurður út í þessa millifærslu svaraði hann: „Ég vissi ekki um númer á reikningi Gunna. Ég var bara með mín skrifuð.“

Ákæruliður I.5. Ákærði var spurður út í þá skýringu sem hann hafði áður gefið um að þetta hafi verið vegna bifreiðakaupa. Ákærði sagðist hafa reynt að rifja upp hvaða bíll þetta hafi verið en hann myndi það ekki en hann hafi stundum aðstoðað brotaþola við bifreiðakaup. Spurður um þá skýringu sem hann hefði gefið lögmanni brotaþola að þetta hafi verið vegna kaupa á ísskáp, þurrkara, heimabíó og fleira sagði ákærði að það væri mögulega líka rétt en hann gæti ekki fullyrt um það. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 27. janúar 2010 kom fram, haft eftir ákærða, að hann myndi eftir að millifærslan hafi farið fram með símtali og brotaþoli hafi látið millifæra þessa upphæð og hafi það verið vegna fjórhjóls og hafi hann þurft að færa það yfir á nafn brotaþola. Hann hafi síðan þurft að taka lán út á fjórhjólið og þar sem hjólið var skráð á brotaþola þá hafi það lán verið greitt inn á hann. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 10. febrúar 2010 kom fram að ákærði neitaði því að þessi fjárhæð hafi verið vegna fjórhjólsins og sagði: „Þessi millifærsla á 798.000 krónum af reikningi A yfir á minn reikning kemur fjórhjólinu ekkert við.“ Spurður nánar um það svaraði ákærði: „Ég kem því bara ekki fyrir mig alveg nákvæmlega og gögnin um þess upphæð kom með öðrum gögnum sem við sendum til þín.“ Þegar brotaþoli var spurður hvort ákærði hafi keypt fjölda húsmuna fyrir hann sagði hann að ákærði hafi bara látið hann borga ísskápinn, eldavélina og sjónvarpið, þvottavél og þurrkara. Ákærði hafi farið í Húsasmiðjuna og keypt það. Allt hitt hafi ákærði átt sjálfur, ákærði hafi ætlað að henda því en hann tekið það. „Það gæti verið að hann hafi látið mig borga fyrir það.“

Ákæruliður I.6-7. Ákærði sagði að þetta hafi komið til vegna þess að brotaþoli hafi komið til hans með fullt af gögnum um það að hann skuldaði eitt og annað, fartölvur og bíla sem væri vegna fólksins sem bjó hjá honum. Ákærði hafi því sjálfur farið í bankann að ósk brotaþola og rætt við G bankastjóra og fengið lán fyrir brotaþola til að greiða þetta. Aðspurður af hverju lánsfjárhæðin hafi verið greidd inn á sitthvorn reikninginn hjá honum, sagði ákærði að hann hafi verið búinn að greiða ákveðið af öðrum reikningnum og átt eftir að greiða annað af hinum. Ákærði var spurður nánar út í þau gögn sem hann hafi lagt fyrir í bankanum, meðal annars reikning sem hann hafi lagt fram um uppgjör á bílasamningi, en sá reikningur hafi aldrei verið greiddur. Ákærði taldi fullvíst að hann hafi verið greiddur. Spurður um kvittanir fyrir tölvukaupaláni og að sú greiðsla hafi verið greidd fjórum mánuðum eftir millifærsluna, hafði ákærði ekki skýringu á því. Spurður út í kvittun sem hafi verið vegna greiðslu sem tengdist fjórhjóli, sem hann hafi sjálfur átt, sagði ákærði að það gæti vel verið en það hljóti að vanta eitthvað inn í þetta en hann hafi sjálfur ekki frekari upplýsingar um það. Aðspurður um kröfu frá Legalis sem hefði fylgt gögnum án frekari skýringar og um tengingu hennar við brotaþola og um kvittun frá lögmannsstofunni Legis, þar sem gerðar væru upp kröfur Húsasmiðjunnar níu mánuðum eftir að millifærsla á sér stað, taldi ákærði að hann hafi tekið vitlausa pappíra úr bókhaldi sínu. Aðspurður um kvittun frá Lýsingu vegna yfirfærslu á fjórhjólinu og hvort það hafi átt að vera kostnaður sem brotaþoli hafi átt að bera sagði ákærði að svo væri ekki, þessi kvittun hafi bara farið óvart með. Spurður um greiðslur til Landsbankans vegna Húsasmiðjunnar taldi ákærði að þetta væri vegna íbúðar brotaþola en hann hefði ekki gögn um þetta atriði. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 27. janúar 2010 svaraði ákærði því aðspurður að þessi kostnaður gæti kannski hafa verið lögfræðikostnaður. Þegar vitnið G var inntur eftir atvikum þessa láns kom fram að ákærði hafi komið og óskað eftir láni fyrir hönd brotaþola vegna skuldbindinga brotaþola og hafi lagt fyrir hann ýmis gögn í því sambandi. Ákærði hefði ákveðið fjárhæðina og hvert hún skyldi renna en hann hafi sjálfur skoðað gögnin, lagt saman tölur og fullvissað sig um að þau væru í samræmi við umbeðna lánsfjárhæð. Aðspurður sagði hann að gögnin hafi ekki endilega verið reikningar heldur ítrekanir og skuldbindingar sem ekki hafi verið búið að greiða. Hann upplýsti að ekkert hafi verið rætt við brotaþola vegna þessa og ekki hafi verið óskað eftir greiðslumati hjá honum en brotaþoli hafi komið og ritað undir lánið. Þegar brotaþoli var spurður út í þessar millifærslur svaraði hann: „Gunni sá um þetta, öll lánin. Hann vildi umbreyta lánum. Man ekki eftir að hafa skrifað undir lánin.“ Aðspurður mundi brotaþoli eftir því að hafa gengist í ábyrgðir fyrir bílakaupum, tryggingum og tölvu fyrir aðila. Spurður hvort ákærði hafi hjálpað honum við greiðslur á þessum ábyrgðum svaraði brotaþoli: „Nei hann kom ekki nálægt því.“

Ákæruliður II.1. Ákærði upplýsti fyrir dómi að brotaþoli hafi óvart lagt þetta inn á hans reikning en greiðslan hafi átt að fara til H. Helgasonar. Ákærði hefði síðan millifært þessa greiðslu til H. Helgasonar eða greitt hana með peningum þangað. Í skýrslu hjá lögreglu þann 27. janúar 2010 gaf ákærði þá skýringu að um hefði verið að ræða bílakaup og kaup á húsgögnum til brotaþola. Húsgögnin hafi verið keypt í IKEA, meðal annars hornsófi og eldhúsáhöld. Þegar brotaþoli var spurður hvort það gæti verið að hann og ákærði hafi farið í IKEA saman og keypt hornsófa og alls konar eldhúsáhöld og síðar bíl svaraði brotaþoli því neitandi. Hann hafi sjálfur keypt hornsófa af E sem þeir hafi verið að losa sig við. Þá hafi hann ekki tekið út peninga eða lagt inn peninga enda kunni hann ekki að leggja inn á eitthvað fólk. Hann hafi heldur aldrei hringt í bankann og látið millifæra á eitthvað fólk. Þá hafi hann heldur ekki verið að kaupa bíl.

Ákæruliður II.2. Ákærði upplýsti að það hafi vantað ábyrgðarmann og brotaþoli hafi boðist til þess sem að vera ábyrgðarmaður, en það hafi vinargreiði. Þegar brotaþoli var spurður út í þessar ábyrgðir sagði hann: „Það var útaf þessu fyrirtæki sem var stofnað, ég var inni í því.“ Aðspurður hvort hann hafi einhvern tíma neitað að skrifa undir eitthvað sem ákærði hafi beðið hann að skrifa undir, svaraði hann því neitandi. Spurður hvort hann hefði vitað hvað hann var að skrifa undir, svaraði hann: „Ekki alltaf.“

Ákæruliður II.3. Ákærði upplýsti að hann hafi greitt þennan víxil sjálfur. Ákærði taldi að G bankastjóri hafi átt hugmyndina að því að brotaþoli væri greiðandi víxilsins. Afstaða G var: „Að það væri alveg fáránlegt“. Brotaþoli var spurður um það hvort honum hafi verið ljóst hvað hann var að skrifa undir þegar hann undirritaði víxil og var svar brotaþola: „Nei eiginlega ekki.“

IV

                Niðurstöður:

Niðurstöður um frávísunarkröfur:

Verjandi ákærða lagði fram bókun við framhald aðalmeðferðar þann 21. mars sl. Í bókun er aðallega krafist frávísunar málsins með vísan til 2. mgr. 159. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála á þeim forsendum að ákæran væri ekki í samræmi við 152. sömu laga, einkum ákvæði c- og d- liðar og 154. gr. sömu laga. Athugasemdir verjanda beindust einkum að ákæruliðum I. og II.  Bent var á að í ákærulið I. sé ákært fyrir fjársvik en til vara fyrir umboðssvik á tímabilinu 14. júlí 2003 til og með 5. september 2007. Í töluliðum undir þessum lið sé hins vegar ekki að sjá nein brot á tímabilinu frá 14. júlí 2003 til 15. febrúar 2005 og engin brot frá 19. júní 2007 til 5. september 2007. Þetta valdi því að ákærða sé ómögulegt að verjast enda viti hann ekki hver meint brot hans séu á þessum tímabilum. Í máli sækjanda kom fram að fleiri brot hafi verið til skoðunar sem féllu undir það tímamark sem um getur í ákæru. Málið ætti hins vegar ekki að vefjast fyrir verjanda, enda væru ákæruatriði þessa kafla sett fram í sjö nánar tilgreindum liðum þar sem getið væri um dagsetningar hvers brots fyrir sig. Er það mat dómsins að framsetning ákæru, þó að hún sé með nefndum hætti, eigi ekki að valda neinum vandræðum við vörn málsins, enda er brotum þessa kafla gerð skil hverju og einu með ákveðnum dagsetningum í samræmi við c- lið 152. gr. laga nr. 88/2008. Þá er ekki fallist á það með ákærða að ekki hafi verið getið nægjanlega um það í ákæru hverjum hafi verið bakað tjón eða hvernig millifærslur hafi farið fram.

Í bókun verjanda ákærða kom einnig fram að ákært væri fyrir blekkingarbrot og því væri ekki nægjanlegt að tilgreina að „ótilgreindir starfsmenn Sparisjóðsins“ hafi verið blekktir. Tilgreina yrði nöfn viðkomandi starfsmanna. Í máli ákæruvaldsins kom fram að brotið beindist gegn starfsmönnum bankans óháð því hvað þeir hétu. Í c- lið 152. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að greina skuli háttsemi sem ákært sé útaf. Er það mat dómsins að háttsemin sé nægjanlega skilgreind samkvæmt nefndu lagaákvæði þótt ekki sé getið um nöfn bankastarfsmanna.

Einnig var á það bent af hálfu ákærða að ekki væru uppfyllt skilyrði 154. gr. laga nr. 88/2008. Þannig hefði vitnalisti ekki fylgt ákæru eins og beri samkvæmt nefndu lagaákvæði og verjanda hefði ekki borist listinn en einhver drög hafi verið send honum. Fram kom hjá ákæruvaldinu að verjanda hafi verið sendur endanlegur vitnalisti og hafi svar borist um móttöku á honum þann 23. febrúar sl. Í greinargerð með 154. gr. nefndra laga kemur fram að gert sé ráð fyrir því að ákæru fylgi ávallt skrá um hvaða vitni óskað er eftir að verði leidd fram í málinu. Í framkvæmd er allur gangur á því hvort vitnalisti fylgi með ákæru eða ekki. Gera verður þó þá kröfu að verjanda berist vitnalisti áður en aðalmeðferð fer fram. Ekki hefur annað verið leitt fram í málinu en verjanda hafi borist vitnalisti tveimur dögum áður en aðalmeðferð fór fram og verður málinu því ekki vísað frá á þessum forsendum.

Það er mat dómsins að frávísunarkrafa með vísan til d- liðar 152. gr. laga nr. 88/2008 eigi ekki við í máli þessu, enda voru ekki lagðar fram sérstakar röksemdir í málinu af hálfu ákæruvaldsins. Þá verða önnur atriði, sem fram koma í bókun ákærða og eiga að valda frávísun málsins, talin eiga undir efnislega meðferð málsins.

Niðurstöður um ákæruliði í kafla I.

Í vitnisburði brotaþola kom fram að hann og ákærði hafi bara farið einu sinni saman í bankann. Spurður hvort ákærði hafi haft aðgang að reikningum hans upplýsti brotaþoli að hann hafi gefið honum númer á einni bók þar sem ákærði hafi lagt inn peninga. Aðspurður hvort ákærði hafi vitað leyninúmer á þeim reikningi upplýsti brotaþoli að hann hafi þurft að gefa ákærða það svo að hann gæti lagt inn á hann, ákærði hafi viljað það. Ítrekað spurður um þetta atriði sagðist hann ekki muna það hvort hann hafi látið ákærða hafa númerið. Hann hafi hins vegar aldrei leyft honum að taka út peninga af reikningi hans. Brotaþoli sagðist sjálfur aldrei hafa millifært peninga né óskað eftir að þjónustufulltrúi gerði það, hann kynni ekki að millifæra. Þá hafi hann ekki veitt ákærða neitt umboð til þess að sjá um fjármál hans og ekki kynnt ákærða sem umboðsmann hans.

Ákærði bar að hann hafi verið með skriflegt umboð frá brotaþola í einhver skipti þegar hann fór í bankann. Í vitnisburði bankastarfsmanna kom fram að þeir töldu að ákærði hefði verið velgjörðarmaður brotaþola og hafi haft umboð til þess að vinna fyrir hann þótt starfsmennirnir hafi ekki gengið eftir því að fá það umboð. Vitnið G bar þannig að ákærði hefði stundum komið einn í erindagjörðum fyrir brotaþola. Hann upplýsti að ákærði hafi ekki verið með skriflegt umboð frá brotaþola og hann ekki gengið eftir því. Ákærði hefur ekki getað sýnt fram á það að hann hafi haft umboð í einhver skipti og jafnvel ekki þegar hann sannarlega fór í bankann og bað um lán fyrir hönd brotaþola, ákvað sjálfur upphæð lánsins og hvert andvirði þess skyldi renna.

Í vitnisburði þeirra bankastarfsmanna sem báru vitni fyrir dóminum kom fram að ekki hafi verið skráð í kerfi bankans hvort aðilar hafi komið eða þeir hringt eða hver hafi beðið um umræddar millifærslur. Allir báru þeir að ekki hafi verið hægt að millifæra nema hafa til þess leyniorð viðkomandi reiknings. Í vitnisburði M kom fram að ákærði hafi beðið um millifærslur af reikningi brotaþola að hana minnti með símhringingum. Hann hafi haft númer að bankareikningum brotaþola og leyninúmer. Aðspurð hversu oft ákærði hafi hringt í þessum tilgangi taldi vitnið það hafa verið tvisvar til þrisvar en hún geti ekki fullyrt um það. Spurð hvort hún þekkti rödd ákærða í síma svaraði hún því játandi.

Ákærði hefur ávallt neitað sök. Hefur hann gefið margar og misvísandi útskýringar á nefndum millifærslum, hvort sem það var til lögmanns brotaþola, fyrir lögreglu eða fyrir dómi. Oft gaf ákærði sömu skýringar á útgjöldum í þágu brotaþola við marga ákæruliði. Tímasetningar meintra útgjalda ákærða stóðust oft engan veginn samanborið við þær tímasetningar sem millifærslur áttu sér stað, auk þess sem hann hefur verið margsaga um þau skipti sem hann hann fór í erindagjörðum fyrir brotaþola í bankann. Þá upplýsti ákærði oft undir rekstri málsins að hann sjálfur eða lögmaður hans myndi koma með gögn til útskýringar á ýmsum þáttum ákærunnar en þrátt fyrir að það séu að verða sex ár frá því að ákærði kom fyrst til skýrslutöku hjá lögreglu vegna málsins, hafa ekki borist frekari gögn frá honum um hvað hann var að greiða fyrir brotaþola. Á það verður fallist með ákæruvaldinu að ekki standi steinn yfir steini í útskýringum ákærða á framangreindum millifærslum og er framburður hans því afar ótrúverðugur. Brotaþoli kom sjálfur fyrir dóminn og gaf sinn vitnisburð. Við þann vitnisburð verður að hafa í huga að þroski hans er á við 9-10 ára gamalt barn. Er það mat dómsins að hann hafi verið hreinskilinn og mjög trúverðugur í sínum vitnisburði.

Í máli þessu háttar svo til að ákærði fór með brotaþola í Sparisjóð Keflavíkur í þeim tilgangi að færa bankaviðskipti hans þangað frá Landsbankanum. Ákærði gaf þá skýringu að brotaþoli hafi viljað skipta um banka. Þegar brotaþoli var spurður af hverju hann hafi skipt um banka svaraði hann því til að ákærði hafi sagt honum að það væri betra að vera með viðskiptin í sparisjóðnum. Í vitnisburði G kom fram að ákærði hafi kynnt sig sem umboðsmann brotaþola og hafi ákærði haft frumkvæði og orð fyrir þeim. Aðrir bankastarfsmenn vitnuðu á svipaðan hátt að ákærði hafi haft orð fyrir brotaþola og hafi starfsmennirnir talið að hann hefði umboð fyrir hann. Ekki hefur verið sýnt fram á að ákærði hafi haft umboð fyrir brotaþola, en með athöfn sinni hafi ákærði blekkt brotaþola og starfsmenn sparisjóðsins að þessu leyti. Blekkingin hafi orðið þess valdandi að starfsmenn Sparisjóðs Keflavíkur voru í þeirri villu að ákærði væri með umboð til að annast fjármál brotaþola og sú villa, ásamt því að hann hafi komist yfir leyniorð á reikningum brotaþola, hafi gert honum kleift að láta millifæra peninga af reikningum brotaþola, eins og um getur í ákæruliðum I.1-7, enda þykir komin fram sönnun þess að ákærði hafi staðið að þeim millifærslum.

Með vísan til framangreinds er það mat dómsins að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi hringt eða komið í Sparisjóð Keflavíkur, gefið upp leyninúmer bankareikninga brotaþola og látið millifæra af reikningum hans yfir á eigin reikning, reikning sambýliskonu sinnar og reikning fyrirtækis hans, G.Á.H ehf., eins og nánar um getur í ákæruliðum I.1-7. Verða brot ákærða, samkvæmt nefndum ákæruliðum, talin réttilega heimfærð undir 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Niðurstöður úr kafla II.

Ákæruliður II.1. Ákærði bar fyrir dómi að brotaþoli hafi óvart lagt þessa fjárhæð inn á hans reikning en greiðslan hafi átt að fara til H. Helgasonar. Ekki var gefin nein skýring á því fyrir dóminum hvers vegna brotaþoli hafi átt að greiða þessa fjárhæð til H. Helgasonar. Brotaþoli kaupir [...] í [...] af H. Helgasyni ehf. á svipuðum tíma. Í þeim kaupsamningi er ekki gert ráð fyrir greiðslum frá brotaþola til H. Helgasonar ehf. sem nemur fjárhæð þeirri sem millifærð var. Stenst því ekki sú skýring sem ákærði gaf fyrir dómi. Ákærði gaf aðrar skýringar hjá lögreglu. Ákærði er margsaga og ótrúverðugur í framburði sínum. Ákærði hefur ekki lagt fram nein gögn sem gætu varpað ljósi á það hvers vegna brotaþoli hafi skuldað honum eða H. Helgasyni ehf. nefnda fjárhæð. Í málinu hefur verið leitt í ljós að þroski brotaþola er á við 9-10 ára gamalt barn. Brotaþoli kom fyrir dóm og er það mat dómsins að engum ætti að geta dulist takmarkanir brotaþola, og þar með ákærða þessa máls, og er það í samræmi við vitnisburð annarra. Er það mat dómsins að ákærði hafi gerst sekur um það sem greinir í ákæru og er brotið réttilega heimfært til refsiákvæða 248. gr. almennra hegningarlaga.

Ákæruliðir II.2 og II.3. Ákærði gerði brotaþola að stjórnarformanni í félagi sínu og sagði honum að hann fengi greitt fyrir það. Aðspurður bar ákærði fyrir dómi að brotaþoli hafi ekki haft neinn hagnað af þessu fyrirkomulagi og að hann hafi ekki komið nálægt ákvarðanatöku. Ákærði bar að brotaþoli hafi skrifað upp á fyrir hann sem vinargreiða. Brotaþoli virðist hins vegar hafa verið í þeirri trú að hann væri hluti af þessu félagi og þar með bæri honum að gangast í ábyrgðir fyrir félagið samkvæmt vitnisburði hans sjálfs. Ljóst er að ákærði nýtti sér einfeldni brotaþola með framangreindum hætti, enda virðist brotaþoli á engan hátt hafa gert sér grein fyrir réttindum sínum og skyldum því samfara að vera stjórnarformaður þessa félags eða hvað í því fælist að skrifa upp á víxla og ábyrgðir. Að mati dómsins hefur verið sýnt fram á að ákærði hafi blekkt brotaþola til þess að gangast í ábyrgðir fyrir félag ákærða, G.Á.H ehf., eins og um getur í nefndum ákæruliðum.

Aðeins verður refsað fyrir brot þau er í XXVI. hegningarlaga greinir að þau hafi verið framin í auðgunarskyni, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ásetningur samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga að ná til auðgunar. Ekki verður séð, þrátt fyrir framangreinda blekkingu, að hún hafi haft í för með sér tjón fyrir brotaþola. Þá hefur ekki verið sýnt fram á ásetning ákærða til auðgunar á þann hátt að staðið hafi til hjá ákærða að ábyrgð myndi falla á brotaþola. Fullframningarstig 248. gr. er venjulegt og því þarf afleiðing verknaðar að hafa komið fram. Þar sem ekki varð tjón og ekki hefur verið sýnt fram á auðgunarásetning, verður ákærði sýknaður af broti gegn 248. gr. almennra hegningarlaga í liðum II.1 og II.2.

Ákært er til vara fyrir brot gegn 249. gr. almennra hegningarlaga um umboðssvik. Umboðssvik eru einhliða brot. Í ákæru er háttsemi ákærða talin refsiverð vegna blekkinga ákærða gagnvart brotaþola. Blekkingin og villan sem ákærði nýtir sér gagnvart brotaþola í þessu tilfelli telst vera tvíhliða brot og þegar af þeirri ástæðu á 249. gr. almennra hegningarlaga ekki við. Auk þess liggur ekki fyrir tjón eða hætta á tjóni. Víxill í ákærulið II.3 var þannig greiddur upp tæpum mánuði fyrir gjalddaga. Þá liggur ekkert fyrir um fjárhagsstöðu G.Á.H. ehf. á þeim tíma sem gerningar áttu sér stað og þar með hver var hugsanleg hætta á tjóni. Er ákærði því sýknaður af broti gegn ákvæðum 249. gr. almennra hegningarlaga. Að mati dómsins hefði komið til greina að heimfæra brot ákærða undir 261. gr. almennra hegningarlaga ef það ákvæði hefði verið reifað.

V

Ákæruliður IV.

Ákærði bar að þetta lán hafi upphaflega verið tekið í hans eigin þágu og að hann hafi skrifað undir breytingu á skjalinu, þar sem nafn brotaþola sé, en það sé hins vegar nafn hans sjálfs sem sé ritað þar undir. Hann hafi hins vegar skrifað undir nafn C sem hafi vitað af því. Þetta hafi verið gert með þessum hætti að beiðni starfsmanns Íslandsbanka. Auðvitað hefði hann átt að skrifa fyrir hönd C eftirá að hyggja. Hann taldi líklegt að hann hafi haft umboð til þessa og taldi að það hafi fylgt með skjölunum og hann eigi ekki að líða fyrir það ef Íslandsbanki hafi glatað því. Aðspurður hverjir hafi vottað skjalið taldi ákærði að það hafi verið bílasalar sem hann hafi átt erindi við. Aðspurður hvort þá hafi verið búið að rita nafn C og nafn á línu merkta brotaþola, sagði ákærði að hann hafi skrifað nafn sitt í bankanum, það er í línu merkta brotaþola. Skjalið hafi þannig verið útfyllt þegar það var vottað.

Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 17. desember 2010 kom fram að hann hafi farið í bankann og fengið eyðublað þar. Hafi hann skrifað nafnið „Gunnar Ágúst“ á línu þar sem prentað er undir A. Hafi hann gert þetta af því að starfsmaður bankans hafi sagt honum að gera það með þessum hætti eftir að hann hafði upplýst starfsmann bankans um að hann gæti ekki útvegað annan sjálfskuldaraðila á lánið. Þegar hann var spurður hver hafi skrifað á línu þar sem prentað er undir nafn C, svaraði ákærði því: „Ég skrifaði nafnið hennar C“, og upplýsti hann að C hafi vitað af því.

Vitnið C, maki ákærða, skoraðist undan að bera vitni fyrir dómi skv. heimild í 117. gr. l. nr. 88/2008.

Í skýrslutöku hjá lögreglu sagði C að hún hafi ekki undirritað þennan samning, hvorki á línu þar sem undir er prentað nafn hennar né á línu þar sem undir er prentað nafn brotaþola. Fram kom eftir henni haft: „Ég get ekki betur séð en að þetta sé bara skriftin hans Gunnars,“ og vísaði þar til beggja undirskrifta.

Þegar ákæruliður IV. var borinn undir brotaþola svaraði hann: „Ég átti ekki svona bifreið.“ Spurður hvort hann hafi skrifað undir breytingu á eignaleigusamningi árið 2009 svaraði brotaþoli: „Ég hef ekki talað við Gunna frá árinu 2007.“

Vitnið T bar fyrir dómi þegar borið var undir hann skjal þessa ákæruliðar, að hann kannaðist ekki við skjalið sem slíkt. Hann kannaðist við stimpil sinn á skjalinu en mundi ekki eftir því hvort hann hafi vottað skjalið eða ekki.

Vitnið U gaf símaskýrslu fyrir dómi og bar að hann myndi ekkert eftir þessu máli og hann þekkti ekkert til aðila þessa máls. Í skýrslutöku hjá lögreglu staðfesti hann að um stimpil sinn og undirritun væri að ræða.

Vitnið Ú, starfsmaður Íslandsbanka, bar fyrir dómi að oftast séu skjöl send viðkomandi, sem komi með þau aftur, enda fari vottun ekki fram í bankanum. Aðspurður sagði hann að ekki lægi fyrir umboð hjá bankanum um heimild ákærða til að skrifa undir skjalið fyrir hönd C, enda bæri skjalið það ekki með sér að nöfn aðila hafi verið undirrituð í umboði einhvers.

Niðurstaða í ákærulið IV.

Ákærði neitaði sök. Við aðalmeðferð málsins og fyrir lögreglu játaði ákærði að hafa ritað sjálfur undir yfirlýsingu um eignaleigusamning nr. [...] nafn C sem leigutaka. Þá viðurkenndi hann að hafa ritað nafn sitt „Gunnar Ágúst“ þar sem nafn A er prentað undir sem sjálfskuldaraðili. C gaf ekki skýrslu fyrir dómi en fyrir lögreglu bar hún að hafa ekki undirritað skjalið. Ákærði taldi að umboð frá C hafi fylgt með umræddu skjali til Íslandsbanka og hugsanlega hafi bankinn glatað því. Í vitnisburði Ú, starfsmanns Íslandsbanka, kom fram að ekki lægi fyrir umboð, enda bæri skjalið ekki með sér að það hafi verið undirritað í nafni einhvers.

Ekki verður fullyrt að ákærði hafi með undirritun á nafni sínu á línu, þar sem nafn A er prentað undir, falsað skjalið til þess að blekkja með því í lögskiptum. Ákærði hefur hins vegar viðurkennt að hafa ritað sjálfur nafn C. Fyrir lögreglu sagði hann að C hafi vitað af því en fyrir dómi upplýsti hann að hafa ritað undir það samkvæmt umboði C. Skjalið ber það ekki með sér að það sé undirritað fyrir hönd C og ákærði hefur ekki getað sýnt fram á það svo trúverðugt sé að umboð hafi verið til staðar. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotið, sem réttilega er fært til refsiákvæða í ákærulið IV.

VI

Ákærði er fæddur árið 1970. Samkvæmt sakavottorði var hann þann 15. febrúar 2002 dæmdur í 5 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir skjalafals skv. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þann 25. júní 2002 var hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi skilorðsbundið í 3 ár fyrir skjalafals, fjársvik, tilraun til fjársvika og fjárdrátt. Þann 9. mars 2005 var hann dæmdur í 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir skjalafals. Auðgunarbrot ákærða hafa ítrekunaráhrif við mat á refsingu samkvæmt 255. gr. hegningarlaga. Ákærði braut gegn einstaklingi með þroska á við 9-10 ára gamalt barn. Einstaklingi sem leitaði vinar og taldi ákærða vera vin sinn, vin sem hann gæti treyst. Ákærði hefur enga iðrun sýnt. Tjón brotaþola er yfirgripsmikið og ásetningur ákærða var einbeittur og stóð yfir um langt skeið. Ákærði var margsaga, kvaðst oft ætla að koma með gögn til skýringar í málinu og hefur því að hluta til átt þátt í því að málið hefur dregist á langinn. Hlutur ákærða skýrir þó ekki allan þann drátt sem orðið hefur á málinu. Upphafleg kæra málsins var móttekin af lögreglu þann 19. október 2007. Fyrsta skýrsla er tekin af ákærða þann 31. júlí 2008. Næstu skýrslur af honum eru ekki teknar fyrr en í byrjun árs 2010. Ekki verður annað séð en rannsókn málsins hafi lokið í byrjun árs 2011 en ákæra var ekki gefin út fyrr en tæpu 2½ ári síðar. Að þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Þykir mega ákveða að hún verði að hluta til bundin skilorði svo sem nánar greinir í dómsorði.

VII

Ákærði hafnaði bótakröfu. Réttargæslumaður brotaþola gerði grein fyrir bótakröfunni á þann hátt að ákærði yrði dæmdur til að endurgreiða kröfuhafa 8.240.271 krónu með vöxtum. Þannig taldi réttargæslumaður að greiða ætti, vegna ákæruliðar II.1, 500.000 krónur með vöxtum frá 22. júlí 2004 til 15. febrúar 2005, frá þeim degi legðist við ákæruliður I.1, samanlagt 1.750.000 krónur með vöxtum til 3. janúar 2006, en þá legðust við ákæruliðir I.2 og I.3, samanlagt 3.531.000 krónur með vöxtum til 10. janúar 2006, en þá legðist við ákæruliður I.4, samanlagt 4.280.000 krónur með vöxtum til 16. janúar 2006, en þá legðist við ákæruliður I.5, samanlagt 4.602.368 krónur með vöxtum til 19. júní 2007, en þá legðust við ákæruliðir I.6 og I.7, samanlagt 7.160.271 króna með vöxtum til 3. desember 2007, en þá legðist við ákæruliður II.3, samanlagt 8.240.271 króna með vöxtum til 17. janúar 2011 skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en með dráttarvöxtum frá 17. janúar 2011, sbr. 6. gr., sbr. 5. gr. sömu laga en þá hafi verið liðinn mánuður frá birtingu bótakröfu.

Eins og fram hefur komið í málinu þá var ákærði sakfelldur í ákæruliðum I.1-7 og II.1 en hins vegar sýknaður af ákæruliðum II.2 og II.3. Er lið II.3, 1.080.000 krónur, því vísað frá dómi. Fjárhæðir bóta í útskýringum réttargæslumanns eru ekki alveg í samræmi við fjárhæðir í ákæru, eru of háar að mati dómsins sem nemur 33.257 krónum. Bótakrafan var kynnt ákærða þann 17. desember 2010. Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat dómsins að kröfuhafi eigi rétt á skaðabótum að fjárhæð 7.127.014 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Í greinargerð kröfuhafa var krafist miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, að fjárhæð 2.000.000 króna með vöxtum frá 22. júlí 2004 til greiðsludags skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en dráttarvöxtum frá 17. janúar 2011 til greiðsludags skv. 6. gr., sbr. 5. gr. sömu laga. Ekki var gerð grein fyrir því fyrir dómi undir hvaða ákvæði 26. gr. skaðabótalaga umræddur miski félli. Þá var ekki gerð grein fyrir því hvers vegna sú krafa ætti að bera vexti frá 22. júlí 2004. Er kröfu kröfuhafa um miskabætur því hafnað.

Réttargæslumaður kröfuhafa krafðist þess, með vísan til 1. mgr. 172. og 216. gr. laga nr. 88/2008, að honum yrði greidd réttargæsluþóknun skv. framlögðum reikningi. Í samræmi við 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 48. gr. sömu laga er þóknun skipaðs réttargæslumanns hluti sakarkostnaðar og vísast til kafla VIII um þá þóknun.

VIII

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað fyrir þau brot sem hann er sakfelldur fyrir, sem er samkvæmt yfirliti 150.281 króna.

Ákærði var sýknaður af ákæruliðum II.2 og II.3 auk þess sem ákæruvaldið féll frá ákæruliðum III. kafla við aðalmeðferð málsins. Með hliðsjón af því verður ákærða gert að greiða ¾ hluta þóknunar skipaðs verjanda síns fyrir dóminum, Ómars Arnar Bjarnþórssonar hdl., 903.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar getur um í dómsorði og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., að fjárhæð 790.650 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en ¼ hluti nefnds sakarkostnaðar skal greiðast úr ríkissjóði.

Bogi Hjálmtýsson héraðsdómari dæmir mál þetta. 

D ó m s o r ð :

Ákærði, Gunnar Ágúst Halldórsson, sæti fangelsi í 12 mánuði, en fresta skal fullnustu 9 mánaða af þeirri refsingu og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði D f.h. A, kt. [...], skaðabætur að fjárhæð 7.127.014 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001, af 500.000 krónum frá 22. júlí 2004 til 15. febrúar 2005, af 1.750.000 krónum frá 15. febrúar 2005 til 3. janúar 2006, af 3.531.000 krónum frá 3. janúar 2006 til 10. janúar 2006, af 4.281.000 krónum frá 10. janúar 2006 til 17. janúar 2006, af 4.603.368 krónum frá 17. janúar 2006 til 19. júní 2007 og af 7.127.014 krónum frá 19. júní 2007 til 17. janúar 2011, en dráttarvöxtum skv. 6. gr., sbr. 5. gr., sbr. 9. gr., vaxtalaga nr. 38/2001, frá 17. janúar 2011 til greiðsludags.

Ákærði greiði ¾ hluta sakarkostnaðar sem eru málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir dóminum, Ómars Arnar Bjarnþórssonar héraðsdómslögmanns, 903.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk þóknunar skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 790.650 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en ¼ hluti nefnds sakarkostnaðar skal greiðast úr ríkissjóði.

Ákærði greiði 150.281 krónu í annan sakarkostnað.