Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-226
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Kyrrsetning
- Endurupptaka
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
Með beiðni 18. september 2020 leita Ingvar Heiðar Þórðarson og Sunshine Press Productions ehf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 7. sama mánaðar í málinu nr. 357/2020: Ingvar Heiðar Þórðarson og Sunshine Press Productions ehf. gegn Datacell ehf., á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 5. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Datacell ehf. leggst gegn beiðninni.
Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu féllst 2. júlí 2019 á beiðni gagnaðila um kyrrsetningu í kröfu leyfisbeiðandans Sunshine Press Productions ehf. á hendur Valitor hf. til tryggingar kröfu gagnaðila að fjárhæð 540.075.000 krónur. Ágreiningur aðila lýtur að ákvörðun sýslumannsins 8. ágúst 2019 um að endurupptaka fyrrnefnda kyrrsetningargerð að beiðni leyfisbeiðenda. Sýslumaður samþykkti endurupptökuna á þeim grunni að þriðja manni, leyfisbeiðandanum Ingvari Heiðari, sem taldi sig eiga veð í umræddum fjármunum hafi ekki verið gefinn kostur á því að gæta hagsmuna sinna og koma að mótmælum, sbr. 4. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990. Gagnaðili skaut fyrrnefndri ákvörðun til héraðsdóms sem tók kröfu hans til greina og felldi hana úr gildi. Í úrskurði Landsréttur var fallist á með héraðsdómi að skilyrði 3. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990 fyrir endurupptöku samkvæmt beiðni leyfisbeiðandans Sunshine Press Productions ehf. hafi ekki verið til staðar og að hafna hefði átt endurupptökubeiðni hans. Þá vísaði Landsréttur til þess að þau réttindi sem leyfisbeiðandinn Ingvar Heiðar hefði lýst yfir að hann ætti gætu ekki komið í veg fyrir að kyrrsetningin næði fram að ganga. Þá hefði hann ekki fært fyrir því haldbær rök að fyrrnefnd kyrrsetningargerð bryti í bága við rétt hans. Úrskurður héraðsdóms var því staðfestur og ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu felld úr gildi.
Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða hins kærðar úrskurðar sé röng þar sem fyrir liggi að leyfisbeiðandinn Ingvar Heiðar hafi ekki átt þess kost að koma fram mótmælum gegn gerðinni á meðan á henni stóð og að hann hafi lögvarða hagsmuni af framkvæmd gerðarinnar þar sem kyrrsetningin fari í bága við rétt hans. Kyrrsetningin valdi því að hin kyrrsettu verðmæti séu ekki lengur til reiðu fyrir hann sem veðhafa. Vísa leyfisbeiðendur til þess að fram komi í 4. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990 að telji þriðji maður kyrrsetninguna fara í bága við rétt sinn sé honum heimilt að krefjast endurupptöku. Landsréttur hafi tekið yfir það hlutverk sýslumanns að meta við fyrirtöku kyrrsetningargerðar hvort hún færi í bága við rétt þriðja manns. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að málið hafi fordæmisgildi en með úrskurði Landsréttar hafi verið vikið til hliðar eldra fordæmi um að veðhafar féllu undir ákvæði 4. mgr. 22. gr. laga nr. 31/1990 um rétt þriðja manns til endurupptöku kyrrsetningargerðar. Telja leyfisbeiðendur að slíkt fordæmi verði að koma með skýrum hætti frá Hæstarétti Íslands.
Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni eða hafi slíkt fordæmisgildi að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.