Hæstiréttur íslands

Mál nr. 76/1999


Lykilorð

  • Tollalagabrot
  • Upptaka


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 20. maí 1999.

Nr. 76/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Ólafi Páli Rafnssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

Tollagabrot. Upptaka.

Ó var ákærður fyrir áfengis- og tolllagabrot með því að hafa smyglað áfengi og vindlingum til landsins. Taldi hann ákvörðun héraðsdóms um fésekt of háa, en með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga 19/1991 voru ekki talin efni til að breyta henni Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest og Ó dæmdur til greiðslu sektar og upptöku smyglvarningsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. febrúar 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.

Ákærði krefst þess að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð.

Héraðsdómari taldi sekt ákærða hæfilega ákveðna 400.000 krónur, meðal annars miðað við verðmæti þess varnings, sem ákærði viðurkenndi að hafa flutt inn andstætt 1. mgr. 123. gr. tollalaga nr. 55/1987. Með vísan til 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, eru ekki efni til að breyta þessari ákvörðun. Með vísan til þessa og forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður hann staðfestur.

Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Ólafur Páll Rafnsson, greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.

Dómur Héraðsdómur Reykjaness 14. janúar 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 14. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness í málinu nr. S-620/1998: Ákæruvaldið gegn Á, H, Ólafi Páli Rafnssyni, P og Þ.

Mál þetta er höfðað með ákæru sýslumannsins í Keflavík 19. október 1998 á hendur Á, H, Ólafi Páli Rafnssyni, kt. 041065-5089, P, Þ, og fimm öðrum mönnum fyrir brot gegn tilgreindum ákvæðum tollalaga nr. 55/1987, áfengislaga nr. 75/1998 og laga nr. 63/1969 um verslun með áfengi og tóbak, „með því að hafa við komu ms. Goðafoss aðfaranótt 25. ágúst 1998 til Njarðvíkur, smyglað hingað til lands 473,5 lítrum af áfengi og 363 kartonum af tóbaki ..., en lögregla fann varninginn við leit í bifreiðunum YE-342 og NZ-364”.  Í ákæru er tilgreint það magn áfengis og vindlinga sem hverjum hinna ákærðu er gefið að sök að hafa smyglað til landsins.

Við þingfestingu málsins var fallið frá saksókn á hendur þremur mönnum sem upphaflega voru ákærðir í því. Þá mun þáttur þess fjórða sæta aðalmeðferð hér fyrir dómi, en hann hefur neitað sök. Loks er einn þeirra, sem ákæran beinist að, búsettur í Namibíu og mun ekki koma hingað til lands fyrr en í lok þessa árs. Hefur þáttur þessara tveggja verið skilinn frá málinu, sbr. 24. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, og með þá farið sem tvö aðskilin mál.

Ákærðu Á, H, P og Þ komu fyrir dóm 2., 18. og 29. f.m. og viðurkenndu skýlaust að hafa gerst sekir um þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru. Var málinu lokið að því er þá varðar með viðurlagaákvörðunum, sbr. 1. mgr. 124. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Ákærði Ólafur Páll kom fyrir dóm 2. f.m. og gekkst við sakargiftum samkvæmt ákæru. Var honum boðið að ljúka málinu með greiðslu 410.000 króna sektar til ríkissjóðs og sæta upptöku á þeim varningi sem hann smyglaði til landsins. Ákærði taldi sektarfjárhæðina hins vegar of háa og hafnaði því að ljúka málinu með greiðslu hennar. Dómarinn ákvað þá að með þátt ákærða yrði farið í samræmi við 125. gr. laga nr. 19/1991, enda ekki þörf á að frekari sönnunarfærsla færi fram um hann. Samkvæmt þessu er þáttur ákærða Ólafs Páls eingöngu til úrlausnar hér. Var málið dómtekið 29. f.m., en þá fyrst lá afstaða allra meðákærðu til sakarefnis fyrir. Þótti rétt að bíða með dómtöku málsins þar til ljóst yrði hvort fara bæri með það sem játningarmál gagnvart öðrum en ákærða. 

Í ákæru er ákærða Ólafi Páli, sem er til heimilis að Fjallalind 80, Kópavogi, gefið að sök, að hafa í greint sinn smyglað til landsins 73,5 lítrum af sterku áfengi og 60 kartonum af vindlingum, „þar af 31,5 lítrum fyrir meðákærða [Þ]”.

Við þingfestingu málsins var heimfærslu á broti ákærða til refsiákvæða breytt frá því sem í ákæru greinir og á þann veg, að honum er nú einungis gefið að sök að hafa með háttsemi sinni í umrætt sinn brotið ákvæði 1. mgr. 123. gr. tollalaga nr. 55/1987. Var sú breyting grundvölluð á dómi Hæstaréttar Íslands frá 8. október 1998 í málinu nr. 180/1998.

Í ákæru er þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á því áfengi og tóbaki sem hann er ákærður fyrir að hafa smyglað til landsins.

I.

Svo sem áður greinir hefur ákærði Ólafur Páll skýlaust viðurkennt að hafa gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Telst með þeirri játningu sannað að hann hafi, aðfaranótt 25. ágúst 1998, gerst sekur um ólöglegan innflutning á  73,5 lítrum af sterku áfengi og 60 lengjum af vindlingum. Varðar þessi háttsemi ákærða við 1. mgr. 123. gr. tollalaga nr. 55/1987.

II.

Ákærði hefur með framangreindu broti sínum unnið til refsingar samkvæmt 1. mgr. 124. gr. tollalaga. Verður honum gert að greiða sekt. Við ákvörðun sektar verður litið til verðmætis þess varnings, sem ákærði hefur gengist við að hafa flutt inn, og þess, að hann hefur ekki áður gerst sekur um brot sem áhrif hefur á ákvörðun refsingar hans nú. Samkvæmt þessu er sekt ákærða hæfilega ákveðin 400.000 krónur. Sektin skal renna í ríkissjóð. Greiðist hún ekki innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa skal ákærði í hennar stað sæta fangelsi í 75 daga. Þá skal ákærði sæta upptöku á 73,5 lítrum af sterku áfengi og 60 lengjum af vindlingum, sem hald var lagt á við rannsókn málsins. Loks verður ákærða gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 10.000 krónur.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði Ólafur Páll Rafnsson greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 75 daga.

Ákærði sæti upptöku á 73,5 lítrum af sterku áfengi og 60 lengjum af vindlingum.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 10.000 krónur.