Hæstiréttur íslands

Mál nr. 359/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Málsvarnarlaun
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu


Föstudaginn 10

 

Föstudaginn 10. ágúst 2007.

Nr. 359/2007.

Hulda Björk Þórisdóttir

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Sýslumanninum á Blönduósi

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Málsvarnarlaun. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

H krafðist þess að árangurslaust fjárnám, sem gert hafði verið hjá henni vegna vangreidds sakarkostnaðar í opinberu máli, yrði fellt úr gildi. Reisti hún kröfuna á c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem m.a. er kveðið á um að hafi sakborningur ekki nægt fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis sé það nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þetta ákvæði gæti aðeins leyst H undan greiðslu málsvarnarhluta sakarkostnaðarins. Með því að aðfarargerðin varð árangurslaus hefði það engin áhrif á gildi hennar þótt fallist yrði á að H skyldi vera laus undan skyldu til að greiða hluta þess kostnaðar sem aðfarar var beiðst fyrir. Var þegar af þeirri ástæðu fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að staðfesta gerðina.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júní 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2007, þar sem staðfest var árangurslaust fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila 27. febrúar 2007. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fjárnámið verði fellt úr gildi. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var sóknaraðili 20. janúar 2006 dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða 307.773 krónur í sakarkostnað í opinberu máli. Málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar námu að meðtöldum virðisaukaskatti 200.000 krónum og voru því aðeins hluti hins dæmda sakarkostnaðar. Sóknaraðili byggir kröfu sína um að hin árangurslausa fjárnámsgerð 27. febrúar 2007 verði felld úr gildi á c. lið 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem hefur lagagildi hér á landi samkvæmt lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Þar er kveðið svo á að hver sá sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli njóta þess réttar að fá að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali. Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis ef það sé nauðsynlegt vegna réttvísinnar. Þetta lagaákvæði getur ekki leitt til þess að sóknaraðili verði með öllu laus undan greiðslu þess sakarkostnaðar sem kveðið var á um í dóminum 20. janúar 2006 heldur aðeins málsvarnarhluta hans. Með því að aðfarargerðin, sem sóknaraðili krefst að felld verði úr gildi, varð árangurslaus, hefði það engin áhrif á gildi hennar þótt fallist yrði á sjónarmið sóknaraðila um að henni hafi borið réttur til að vera laus undan skyldu til að greiða hluta þess kostnaðar sem aðfarar var beiðst fyrir. Ber þegar af þessari ástæðu að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2007.

Málið barst dóminum 15. mars sl. og var þingfest 13. apríl sl.  Það var tekið til úrskurðar 5. maí sl.

Sóknaraðili er Hulda Björk Þórisdóttir, Reyrengi 4, Reykjavík.

Varnaraðili er sýslumaðurinn á Blönduósi.

Sóknaraðili krefst þess að fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá henni 27. febrúar sl., nr. 011-2007-1558, verði fellt úr gildi.  Þá er krafist málskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að fjárnámið verði staðfest og sér úrskurðaður málskostnaður.

II

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 20. janúar 2006 var sóknaraðili dæmd í skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás.  Hún var einnig dæmd til að greiða 307.773 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, 200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 65.000 krónur í þóknun til réttargæslumanns, einnig að meðtöldum virðisaukaskatti.

Innheimta sakarkostnaðarins var falin varnaraðila og krafðist hann fjárnáms hjá sóknaraðila 31. janúar sl. eftir árangurslausar innheimtutilraunir hjá henni.  Málið var tekið fyrir hjá sýslumanni 20. febrúar sl., en var frestað þegar sóknaraðili mótmælti framgangi gerðarinnar.  Aftur var málið tekið fyrir 27. febrúar og lauk þá aðförinni með því að gert var árangurslaust fjárnám hjá sóknaraðila.  Lögmaður sóknaraðila skaut gerðinni til dómsins eins og að framan segir.

III

Sóknaraðili byggir á því að það sé andstætt ákvæðum c-liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, að innheimta sakarkostnað hjá sér.  Hún kveðst vera tekjulítil og eignalaus.  Einu tekjur sínar séu örorkubætur.

Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili hafi verið dæmd til að greiða sakarkostnað með framangreindum dómi og sé það í samræmi við ákvæði laga um meðferð opinberra mála.  Þótt hún sé tekjulítil hafi henni verið mögulegt að greiða sakarkostnaðinn með afborgunum sem henni hafi verið boðið í samræmi við gildandi reglur.  Þessu boði hafi ekki verið sinnt og til að hægt sé að fella sakarkostnaðinn niður þurfi að gera árangurslaust fjárnám hjá skuldara.

IV

Sóknaraðili var dæmd fyrir líkamsárás 20. janúar 2006, en verknaðinn framdi hún 17. júlí 2004.  Meðal gagna málsins eru skattframtöl hennar vegna tekjuáranna 2004 og 2005.  Árið 2004 voru heildartekjur hennar samtals 1.601.925 krónur og árið 2005 voru þær samtals 2.351.088 krónur.  Hún taldi engar eignir fram fyrir árið 2004, en árið 2005 taldi hún fram tæplega 70.000 króna eign á bankareikningum. 

Í málinu byggir sóknaraðili á því að hún verði ekki krafin um greiðslu sakar­kostn­að­arins vegna efnaleysis.  Vísar hún máli sínu til stuðnings til c liðar 3. mgr. 6. gr. mann­rétt­indasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.  Í nefndri grein segir að hver sá, sem borinn sé sökum um refsiverða háttsemi skuli fá að halda uppi vörnum sjálfur eða með aðstoð verjanda að eigin vali.  Hafi hann ekki nóg fé til að greiða lögfræðiaðstoð skuli hann fá hana ókeypis ef það er nauðsynlegt vegna réttvísinnar.  Með vísun til þess sem rakið var um tekjur sóknaraðila er ekki fallist á það með henni að tekjur hennar séu svo lágar að hún hafi ekki nægt fé til að greiða sakarkostnaðinn.  Eignaleysi hennar fær þessu ekki breytt og heldur ekki að tekjur hennar eru að mestum hluta tryggingabætur.  Fjárnámsgerðin verður því staðfest en málskostnaður skal falla niður.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð

Fjárnám sem sýslumaðurinn í Reykjavík gerði hjá sóknaraðila, Huldu Björk Þórisdóttur, 27. febrúar 2007 í málinu nr. 011-2007-1558, er staðfest.

Málskostnaður fellur niður.