Hæstiréttur íslands
Mál nr. 57/2000
Lykilorð
- Fasteignaskattur
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 21. september 2000. |
|
Nr. 57/2000. |
Íslenska ríkið(Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Súðavíkurhreppi (Andri Árnason hrl.) |
Fasteignaskattur. Vanreifun. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta.
Í málinu var deilt um skyldu íslenska ríkisins (Í) til greiðslu fasteignaskatts til hreppsins S af mannvirkjum í hreppnum, en Í átti þar samkvæmt fasteignamati þrjár skólabyggingar, sjö íbúðir og tvær geymslur. Í nýtti fasteignirnar til margra ára fyrir starfsemi skóla. Á árinu 1991 var skólahaldi frestað um óákveðinn tíma og höfðu húsin ekki verið nýtt undir skóla síðan, að því undanskildu að sveitarfélög á svæðinu höfðu fengið að starfrækja barnaskóla í húsnæðinu eftir þörfum, án endurgjalds. Húsnæðið hafði verið notað undir gistihús á sumrin, en þeirri starfsemi var hætt að loknu sumri 1996 og fasteignirnar boðnar til sölu eða leigu. Voru fasteignirnar, að undanskildu 38,4% af húsnæðinu, leigð F frá 1. júní 1997, til reksturs gistihúss. Frá árinu 1995 lagði S fasteignaskatt á Í vegna allra eignanna, en Í neitaði greiðslu á grundvelli þess að fasteignirnar eða hluti þeirra væru undanþegnar fasteignaskatti samkvæmt 1. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Talið var að ekki hefði verið útséð um að skóli yrði ekki framvegis starfræktur í húsnæðinu á árinu 1995 og hefði enn á þeim tíma mátt líta á hluta mannvirkja Í sem skóla í merkingu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Með því að gera samning við F á árinu 1997 var hins vegar talið að Í hefði ráðstafað fasteignunum til notkunar um lengri tíma í öðru skyni en til skólahalds og með því útilokað að aðrar byggingar á staðnum yrðu nýttar í samræmi við fyrri tilgang þeirra. Var því ekki talið að umræddar fasteignir Í yrðu skilgreindar sem skóli í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 eftir það tímamark. Í féllst á skyldu sína til að greiða fasteignaskatt af hluta fasteignanna fyrir tímabilið 1. janúar 1995 til 31. maí 1997, en talið var að málið væri svo vanreifað að ekki væri unnt að komast að niðurstöðu um fjárhæð skattsins sem Í hefði borið að greiða S á tímabilinu. Var kröfum S varðandi umrætt tímabil því vísað frá héraðsdómi. Hins vegar var Í dæmt til greiðslu fasteignaskatta vegna eignanna eftir 1. júní 1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 14. febrúar 2000. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi og stefndi dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst áfrýjandi þess að sér verði aðeins gert að greiða stefnda 1.654.644 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 206.011 krónum frá 1. júní 1995 til 1. júní 1996, af 420.826 krónum frá þeim degi til 1. júní 1997, af 752.875 krónum frá þeim degi til 1. júní 1998, en af 1.654.644 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Verði þá málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti látinn falla niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins er áfrýjandi eigandi mannvirkja að Reykjanesi í Súðavíkurhreppi, sem hafa verið aðgreindar í fasteignamati sem þrjár skólabyggingar að flatarmáli samtals 2.671,9 m2, sjö íbúðir, alls 830,6 m2 að flatarmáli, og tvær geymslur, samtals 99,7 m2 að stærð. Að auki telst áfrýjandi ábúandi jarðarinnar Reykjaness að meðtöldu ræktuðu landi, en landeigandi er sagður vera Ísafjarðarbær.
Fyrir liggur í málinu að áfrýjandi nýtti þessar fasteignir um margra ára skeið fyrir starfsemi Héraðsskólans í Reykjanesi. Hann kveður skólahaldinu hins vegar hafa verið „frestað um óákveðinn tíma“ á árinu 1991 og hafi húsin þar ekki verið höfð til þeirra nota síðan, þó að því frátöldu að sveitarfélög við Ísafjarðardjúp hafi fengið að starfrækja þar barnaskóla eftir þörfum án endurgjalds til áfrýjanda. Um árabil hafi Ferðaskrifstofa ríkisins og síðar Ferðaskrifstofa Íslands hf. rekið gistihús að Reykjanesi á sumrin. Hafi síðast verið gerður samningur um þessi afnot húsnæðisins á árinu 1995 og hann átt að gilda til 1998, en leigutími hafi verið árlega frá 10. júní til 31. ágúst. Vegna dræmrar aðsóknar að gistihúsinu hafi þessum rekstri verið hætt að loknu sumri 1996 og áfrýjandi þá boðið fasteignir héraðsskólans til sölu eða leigu. Í kjölfarið hafi verið gerður leigusamningur, sem gilda átti frá 1. júní 1997 til 30. september 2002, við Ferðaþjónustuna Reykjanesi ehf. um allt húsnæði héraðsskólans að undanskilinni sundlaug, sem leigutaka var þó heimilað að nota, einni íbúð, stjórnunarrými skólans, bókasafni, smíðakennslustofu og nokkrum nánar tilgreindum geymsluherbergjum. Kveður áfrýjandi 38,4% af húsnæðinu öllu hafa þannig verið undanskilin leigu, en samkvæmt leigusamningnum átti húsvörður á vegum hans að hafa umsjón með þeim hluta þess. Mun áðurnefnt félag hafa rekið gistihús í hinum leigðu mannvirkjum.
Til loka ársins 1994 voru umræddar eignir áfrýjanda í Reykjafjarðarhreppi, en hann sameinaðist 1. janúar 1995 tveimur öðrum sveitarfélögum undir heiti stefnda. Áfrýjandi kveðst fram að því hafa greitt fasteignaskatt af þessum eignum til Reykjafjarðarhrepps, en gjöldin hafi aðeins tekið mið af þeim hluta eignanna, sem var að mati áfrýjanda ekki undanþeginn fasteignaskatti lögum samkvæmt. Á árinu 1995 lagði stefndi hins vegar fasteignaskatt á áfrýjanda vegna allra eigna hans að Reykjanesi, en heildarfjárhæð skattsins nam 689.096 krónum. Aftur lagði stefndi fasteignaskatt á áfrýjanda vegna þessara eigna á árinu 1996, samtals 718.544 krónur, á árinu 1997 726.318 krónur og 1998 1.391.619 krónur. Áfrýjandi greiddi ekki stefnda þessa skatta, þar sem hann taldi fasteignirnar í Reykjanesi að öllu eða að minnsta kosti einhverju leyti þess eðlis að þær væru undanþegnar fasteignaskatti samkvæmt ákvæði 1. mgr. og eftir atvikum 3. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Í málinu krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu á samanlagðri fjárhæð áðurnefndra fasteignaskatta, sem hann lagði á áfrýjanda á árunum frá 1995 til 1998, alls 3.525.577 krónum.
II.
Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 skal árlega leggja á allar fasteignir, sem metnar eru til fasteignamats, fasteignaskatt til sveitarfélags þar sem þær eru. Með 1. mgr. 5. gr. laganna eru þó undanþegnar þessum skatti fasteignir, sem nýttar eru í nánar tilteknu skyni, þar á meðal „skólar“, sbr. og 3. mgr. sömu greinar.
Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að byggingar, sem nú eru að Reykjanesi, hafi í öndverðu verið reistar gagngert fyrir starfsemi skóla. Óumdeilt er að þær voru nýttar af áfrýjanda í þessu skyni, svo og til rekstrar leigutaka á sumargistihúsi, allt til ársins 1991, þegar skólahaldi var eins og áður segir frestað um óákveðinn tíma. Er einnig óumdeilt að upp frá því og fram til sumars 1997 voru húsin eingöngu notuð við sams konar rekstur sumargistihúss og að einhverju leyti af nærliggjandi sveitarfélögum fyrir starfrækslu skóla án endurgjalds til áfrýjanda. Þegar allt þetta er virt verður ekki eftir gögnum málsins slegið föstu að útséð hafi verið um að skóli yrði ekki framvegis starfræktur í húsnæðinu þegar stefndi byrjaði á árinu 1995 að leggja fasteignaskatt á allar eignir, sem áfrýjandi átti að Reykjanesi eða hafði í ábúð. Í því ljósi mátti enn á þeim tíma líta á hluta mannvirkja áfrýjanda sem skóla í merkingu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, þótt slík starfsemi í þeim hefði í reynd að mestu legið þá niðri um nokkurra ára skeið, enda hafði hagnýtingu þeirra að öðru leyti ekki verið breytt frá því, sem áður var. Með því að gera á hinn bóginn áðurnefndan samning við Ferðaþjónustuna Reykjanesi ehf. um leigu meginhluta bygginganna til fimm ára frá 1. júní 1997 undir rekstur gistihúss ráðstafaði áfrýjandi þeim til notkunar um lengri tíma í öðru skyni en til skólahalds. Verður og að líta svo á að áfrýjandi hafi með þessu útilokað í reynd að aðrar byggingar hans á staðnum yrðu nýttar í samræmi við fyrri tilgang þeirra. Upp frá þessu voru því ekki efni til að telja fasteignir áfrýjanda að Reykjanesi á nokkurn hátt til skóla í skilningi 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995.
Í málatilbúnaði áfrýjanda fyrir Hæstarétti felst viðurkenning á því að á tímabilinu frá 1. janúar 1995 til 31. maí 1997 hafi honum með réttu borið að greiða stefnda fasteignaskatt vegna annarra íbúða sinna að Reykjanesi en einnar, sem húsvörður í þjónustu hans hafði til afnota, svo og þess hluta skólabygginga, sem leigður var út til rekstrar sumargistihúss, vegna 82 daga tímabils á hvoru árinu 1995 og 1996. Með vísan til þess, sem áður greinir, verður að fallast á með áfrýjanda að skyldu hans til að greiða stefnda fasteignaskatt fyrir umrætt tímabil verði sett þessi mörk samkvæmt ákvæðum 1. mgr. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Þótt fyrir liggi hver fasteignaskattur hafi verið á þessu tímabili fyrir einstaka íbúðir í eigu áfrýjanda, skortir mjög á að málið hafi verið reifað nægilega til þess að komist verði að niðurstöðu um fjárhæð skattsins vegna fyrrnefndrar útleigu hans á hluta skólabygginga. Er í því sambandi einkum til þess að líta að ekkert liggur fyrir í málinu um þetta efni annað en útreikningur á varakröfu áfrýjanda fyrir Hæstarétti, sem var ætlað að taka mið af takmörkun gjaldskyldu hans til samræmis við ofangreint, en sá útreikningur er reistur á órökstuddri áætlun um stærð hins leigða húsnæðis, auk þess sem þar gætir villna, sem ekki hafa fengist skýrðar við flutning málsins. Hefur stefndi og mótmælt að á útreikningi þessum verði byggt, en af hans hendi hefur þó ekki komið fram hvernig ákveða mætti fjárhæð fasteignaskattsins á þessum grundvelli. Að öllu þessu athuguðu er óhjákvæmilegt að fallast á aðalkröfu áfrýjanda um frávísun málsins frá héraðsdómi að því er varðar kröfu stefnda um fasteignaskatt fyrir tímabilið frá 1. janúar 1995 til 31. maí 1997.
Samkvæmt því, sem áður greinir, eru ekki skilyrði að lögum til að undanþiggja áfrýjanda greiðslu fasteignaskatta vegna eigna hans að Reykjanesi fyrir það tímabil eftir 1. júní 1997, sem dómkrafa stefnda tekur til. Um fjárhæð þeirra skatta er ekki deilt í málinu. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda 7/12 hluta umkrafins fasteignaskatts fyrir árið 1997, 423.685 krónur, og allan skatt ársins 1998, 1.391.619 krónur, eða samtals 1.815.304 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og fram kemur í dómsorði.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu stefnda, Súðavíkurhrepps, um fasteignaskatt af framangreindum eignum áfrýjanda, íslenska ríkisins, vegna tímabilsins frá 1. janúar 1995 til 31. maí 1997.
Áfrýjandi greiði stefnda 1.815.304 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 423.685 krónum frá 1. júní 1997 til 1. júní 1998, en af 1.815.304 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Áfrýjandi greiði stefnda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 1999.
I
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 30. apríl 1999 og dómtekið 29. f.m.
Stefnandi er Súðavíkurhreppur, kt. 630269-4589, Njarðarbraut 14, Súðavík.
Stefndi er íslenska ríkið, kt. 540269-6459, og er fjármálaráðherra stefnt fyrir hönd þess.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 3.525.577 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 689.096 krónum frá 1. júní 1995 til 1. júlí 1996, af 1.407.640 krónum frá þeim degi til 15. júlí 1997, af 2.133.958 krónum frá þeim degi til stefnubirtingardags, en af 3.525.577 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af dómkröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.
Upphaflegri aðalkröfu stefnda að málinu yrði vísað frá dómi var hafnað með úrskurði 14. október sl.
II
Stefnandi vísar til þess að ríkið hafi um langt árabil rekið héraðsskóla að Reykjanesi í Reykjafjarðarhreppi en í upphafi þessa áratugar hafi skólahaldið verið lagt af. Ríkisvaldið eigi hins vegar enn eftirtaldar fasteignir að Reykjanesi samkvæmt vottorðum Fasteignamats ríkisins:
a. Fasteign nr. 212-7419 á lóð 2 í Reykjanesi. Íbúð merkt 0101 (157,6 m²).
b. Fasteign nr. 212-7420 á lóð 3 í Reykjanesi. Jörð.
c. Fasteign nr. 212-7421 á lóð 3 í Reykjanesi. Ræktað land (3,7 ha).
d. Fasteign nr. 212-2422 á lóð 3 í Reykjanesi. Fasteignin er aðgreind í þrjá hluta; mannvirki reist sem skólabygging (772,8 m²), mannvirki reist sem skólabygging (947 m²) og geymsla (18,2 m²).
e. Fasteign nr. 212-7423 á lóð 3 í Reykjanesi. Íbúð merkt 0102 (141 m²).
f. Fasteign nr. 212-7424 á lóð 3 í Reykjanesi. Íbúð merkt 0201 (141 m²).
g. Fasteign nr. 212-7425 á lóð 3 í Reykjanesi. Íbúð merkt 0001 (119,5 m²).
h. Fasteign nr. 212-7427 á lóð 3 í Reykjanesi. Íbúð merkt 0102 (40,3 m²).
i. Fasteign nr. 212-7428 á lóð 3 í Reykjanesi. Íbúð merkt 0103 (115,6 m²).
j. Fasteign nr. 212-7429 á lóð 3 í Reykjanesi. Íbúð merkt 0202 (115,6 m²).
k. Fasteign nr. 212-7436 á lóð 3 í Reykjanesi. Mannvirki reist sem skólabygging (952,1 m²).
l. Fasteign nr. 212-7435 á lóð 3 í Reykjanesi. Frystigeymsla (81,5 m²).
Stefnandi kveður ferðaþjónustu hafa verið rekna í umræddu húsnæði undanfarin ár, fyrst aðeins um sumartímann en frá 1. júní 1997 hafi Ferðaþjónustan ehf. staðið fyrir rekstri þar árið um kring og ríkisvaldið leigt húsnæðið út í þeim tilgangi. Að því leyti sem fasteignirnar séu ekki leigðar út til Ferðaþjónustunnar ehf. standi þær auðar og séu ekki nýttar.
Í bréfi lögmanns stefnanda til menntamálaráðuneytisins 6. janúar 1998 segir að með sameiningu Reykjafjarðarhrepps og Súðavíkurhrepps um áramótin 1994 og 1995 hafi Súðavíkurhreppur yfirtekið réttindi og skyldur hins fyrrnefnda. Álagning fasteignaskatts vegna áðurnefnds húsnæðis sé því lögskylt verkefni stefnanda. Um árabil hafi ríkið sem eigandi húsnæðisins vanrækt greiðslu umkrafins fasteignaskatts til sveitarfélagsins. Þar sem ekki hafi verið rekinn skóli í húsnæðinu frá 1991 eigi ekki við undantekningarregla í 5. gr. laga nr. 4/1995, sbr. áður 5. gr. laga nr. 90/1990. Var þess því krafist að hinir vangoldnu skattar yrðu greiddir án tafar.
Kröfugerð í málinu styður stefnandi við lög nr. 4/1995, en samkvæmt 3. gr. þeirra beri árlega að leggja fasteignaskatt á allar fasteignir sem séu metnar af Fasteignamati ríkisins og skuli sveitarstjórn annast álagninguna samkvæmt 4. gr. laganna.
Af hálfu ríkisvaldsins hafi hvorki verið sett fram formleg mótmæli við gjaldskyldu né gjaldstofni og málinu hafi ekki verið af þess hálfu vísað til fasteigna- eða yfirfasteignamatsnefnda. Vegna vanskila sé málssókn þessi nauðsynleg.
Kröfufjárhæð er miðuð við álagningarseðla sem sendir hafa verið út fyrir árin 1995, 1996 og 1997. Álagning fyrir 1998 var hins vegar kynnt stefnda með fyrirvara um breytingar og er kröfugerð fyrir það ár ekki að fullu miðuð við álagninguna samkvæmt seðlunum. Um upphafsdaga dráttarvaxtakröfu er vísað til þess að fasteignaskattarnir hafi fallið í gjalddaga 1. júní hvert framantalið ár.
III
Af hálfu stefnda er skýrt svo frá að eftir að farið hafi verið að leggja fasteignaskatt á eignir Héraðsskólans í Reykjanesi hafi af menntamálaráðuneyti verið haft samband við sveitarstjóra og honum bent á að einungis hluti þeirra mannvirkja, sem sveitarstjórn lagði fasteignaskatt á, væri fasteignaskattskyldur en að öðru leyti féllu mannvirkin undir undanþáguheimild 1. mgr. 5. gr. Jafnfram hafi menntamálaráðuneytið farið fram á viðræður um málefni skólans. Af hálfu sveitarstjóra hafi ekki verið brugðist við þeirri ósk og hafi hún verið ítrekuð á hverju ári. Það hafi ekki verið fyrr en í byrjun þessa árs að fulltrúi sveitarstjóra hafi komið til fundar við fulltrúa menntamálaráðuneytis. Óskað hafi verið eftir frekari fundum um málefni skólans en ekki hafi verið orðið við því.
Árið 1997 hafi hluti skólahúsnæðisins verið leigður félaginu Ferðaþjónustan ehf. Tilgangur þessa félags sé að reka þjónustu við ferðamenn og stuðla að því að byggð leggist ekki með öllu af við Ísafjarðardjúp. Fjárhæð leigunnar hafi verið verulega stillt í hóf en leigugjaldið skyldi vera 1.800.000 krónur á ári og skyldu 900.000 krónur greiðast í peningum og 900.000 krónur í viðhaldi. Auk þess skyldi leigutaki greiða helming faseignagjalda af þeim hluta eignanna sem leigutaki hefði á leigu. Sá hluti fasteignanna, sem hafi ekki verið leigður út, hafi staðið auður og ónýttur.
Sýknukrafa stefnda er á því reist að stefnandi hafi ekki sýnt fram á svo óyggjandi sé að hann geti krafið stefnda um fasteignagjöld af fasteignum Héraðsskólans í Reykjanesi. Þó er viðurkennt að líklega þurfi stefndi að greiða fasteignagjöld af einhverjum fasteignum á svæðinu, en óljóst sé hverjar þær séu. Á því er byggt að stór hluti tilgreindra fasteigna í Reykjanesi sé undanþeginn álagningu fasteignagjalda, sbr. 1. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995. Í þessu sambandi skipti ekki máli hvort virk skólastarfsemi fari fram til þess að undanþáguheimildin sé virk. Leggja þurfi sérstakt mat á þær fasteignir sem falli undir undanþáguheimildir 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 og samspil 3. mgr., sbr.1. mgr., og sé það hlutverk stefnanda, sbr. aðallega ákvæði III. kafla laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna.
Varakrafa stefnda miðar að því að stefndi verði einungis dæmdur til að greiða stefnanda fasteignagjöld af þeim fasteignum sem njóti ekki undanþágu frá fasteignagjöldum og að leigunýting leigðra fasteigna verði metin hlutfallslega við útreikning á fasteignagjöldum.
IV
Eignir þær, sem mynda stofn til álagningar umkrafins fasteignaskatts, eru taldar í II. kafla dómsins. Efnisleg andmæli stefnda lúta einvörðungu að álagningu skattsins á skólabyggingarnar en verulegur hluti umkrafins skattgjalds er vegna þeirra.
Útreikningur skattsins sætir ekki andmælum. Greinist hann þannig eftir árum: Árið 1995 689.096 krónur, árið 1996 718.544 krónur, árið 1997 726.318 krónur og árið 1998 1.391.619 krónur. Upphafsdagar dráttarvaxtakröfu grundvallast á gjalddögum samkvæmt álagningarseðlum fyrir árin 1995, 1996 og 1997 en krafa vegna ársins 1998 var ekki sett fram fyrr en við birtingu stefnu þ. 30. apríl 1999 sem markar að því leyti upphafsdag dráttarvaxtakröfu.
Óumdeilt er að skólabyggingarnar hafi ekki verið nýttar til skólahalds þau ár sem um ræðir í málinu og raunar allt frá árinu 1991.
Skýra ber þröngt undanþágu að því er tekur til skóla frá álagningu fasteignaskatts, samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, frá þeirri meginreglu 3. gr. laganna að leggja skuli skatt á allar fasteignir til sveitarfélags þar sem fasteign er. Af ákvæðum 5. gr. laga nr. 4/1995, sbr. einnig 6. gr. s.l., er ljóst að undanþáguheimildir miðast einvörðungu við tiltekin afnot fasteigna og í því tilviki sem hér um ræðir við það að byggingar séu notaðar sem skólar.
Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að fallist er á kröfur stefnanda. Málskostnaður er ákveðinn 350.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Súðavíkurhreppi, 3.525.577 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 689.096 krónum frá 1. júní 1995 til 1. júlí 1996, af 1.407.640 krónum frá þeim degi til 15. júlí 1997, af 2.133.958 krónum frá þeim degi til 30. apríl 1999, en af 3.525.577 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.