Hæstiréttur íslands
Mál nr. 250/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 16. júní 2004. |
|
Nr. 250/2004. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X(Guðmundur Óli Björgvinsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. júní 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. júní sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. júní 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verður felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Samkvæmt gögnum málsins er varnaraðili grunaður um að eiga aðild að innflutningi á miklu magni af amfetamíni og kókaíni hingað til lands 24. maí 2004. Hefur meðal annars komið í ljós við rannsókn málsins að daginn áður dvaldi varnaraðili á sama hóteli erlendis og sá, sem handtekinn var við komu til landsins með fíkniefnin í fórum sínum. Við fyrstu yfirheyrslur hjá lögreglu neitaði varnaraðili hins vegar með öllu að hafa farið utan og kvaðst hafa verið hérlendis á þeim tíma. Þá liggur fyrir í málinu framburður manns þess efnis að varnaraðili eigi aðild að innflutningi fíkniefnanna. Er fallist á að rökstuddur grunur sé fram kominn um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum og að nauðsyn beri til vegna rannsóknarhagsmuna að hefta frelsi hans. Getur ætlað brot hans varðað hann fangelsi. Með vísan til þessa verður fallist á að fullnægt sé skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. júní 2004.
Ár 2004, föstudaginn 11. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er af Sigríði Ólafsdóttur, uppkveðinn úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X verði á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 25. júní nk. kl. 16.00.
[...]
Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins þykir komið fram rökstuddur grundur um aðild kærða að fíkniefnamisferli því sem nú er til rannsóknar hjá lögreglu, en rannsóknin er skammt á veg komin. Í ljósi rannsóknarhagsmuna og með hliðsjón af a lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er fallist á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík eins og hún er fram sett og greinir í úrskurðarorði.
ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 25. júní nk. kl. 16.00.