Hæstiréttur íslands

Mál nr. 613/2010


Lykilorð

  • Frávísun frá Hæstarétti
  • Kærufrestur
  • Kærumál


 

Miðvikudaginn 27. október 2010.

Nr. 613/2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Einar Hugi Bjarnason hdl.)

 

Kærumál. Kærufrestur. Gæsluvarðhald. Frávísun máls frá Hæstarétti.

 

Kæra barst ekki héraðsdómi fyrr en að liðnum kærufresti og samkvæmt því var málinu vísað frá Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru dagsettri 22. október 2010 en stimplaðri um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 26. október 2010. Kæran barst Hæstarétti  ásamt kærumálsgögnum síðast nefndan dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. nóvember 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi hans verði markaður skemmri tími og honum verði ekki gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili var viðstaddur uppsögu hins kærða úrskurðar og var þá bókað að hann tæki sér lögboðinn frest til þess að ákveða hvort hann kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Þegar kæra á úrskurðinum barst Héraðsdómi Reykjavíkur var liðinn sá frestur sem kveðið er á um í 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti.

Dómsorð:

      Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að A, fd. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. nóvember nk. kl. 16.  Þá er þess krafist að kærða verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að ávana- og fíkniefnabrotadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi ítrekað borist upplýsingar um að brotastarfsemi, sem talin sé varða innflutning, sölu og framleiðslu á fíkniefnum, fari fram undir stjórn meðkærða A. Fram hafi komið að A hafi verið með menn á sínum snærum sem sjái m.a. um sölu og dreifingu á fíkniefnum auk innheimtuaðgerða.  Sé helsti samstafsmaður A sagður vera B.

Lögreglu hafi svo borist upplýsingar um að í lok maí sl. hafi karlmenn sem hafi talað bjagaða íslensku komið til fyrirtækis í Reykjavík sem framleiðir loftræstikerfi. Samkvæmt upplýsingunum hafi þeir keypt tvo hitablásara sem þeir hafi viljað að tækju eingöngu inn á sig kalt vatn til að kæla. Talið hafi verið að tilgangur þessa kaupa hafi verið að kæla óþekkt rými þar sem fram fari framleiðsla á fíkniefnum, líklega amfetamíni. Karlmennirnir hafi komið á bifreiðinni [...], en bifreiðin sé skráð á fyrirtækið [...] ehf. sem A sé stofnandi að ásamt tveimur öðrum karlmönnum af erlendu bergi brotnu. Sömu menn skipi stjórn fyrirtækisins.

Þá hafi lögreglu og borist upplýsingar um að meðkærði A hafi tekið á leigu sumarbústaði, þar sem fram fari framleiðsla á fíkniefnum.

Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur 23. september í málinu nr. [...] hafi lögreglu verið veitt heimild til að koma fyrir eftirfararbúnaði í bifreiðinni [...] í því skyni að kanna með ferðir bifreiðarinnar.  Sú könnun hafi leitt í ljós að bifreiðinni var m.a. margsinnis ekið að geymsluhúsnæði að [...] í Keflavík.  Að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjaness í gær í málinu nr. R-529/2010 hafi lögregla framkvæmt húsrannsókn í geymslurýminu, þar sem lögregla hafi fundið og hald lagt á kannabisræktun.  Hafi ræktuninni verið mjög vel fyrir komið í húsnæðinu og ljóst að mikil vinna og skipulagning hafi farið í að útbúa húsnæðið.

Að kvöldi mánudagsins 18. október sl. hafi lögregla orðið þess áskynja að bifreiðinni [...] hafi verið ekið frá heimili meðkærða A að sumarhúsi við [...] í [...], nánar tiltekið við [...], bústað nr. [...].   Síðar sama kvöld hafi bifreiðinni verið ekið aftur að heimili meðkærða A.

Að morgni 19. október sl. hafi lögregla ákveðið að athuga með umræddan bústað.  Er lögreglumenn hafi komið að bústaðnum hafi þeir séð hvar tveir menn, sjáanlega útlendingar, hafi hafst að í bústaðnum, en enginn bifreið hafi verið þar sjáanleg.  Hafi lögregla því hafið að fylgjast með bústaðnum.  Samhliða hafi verið ákveðið að fylgjast með húsnæði kærða.

Um kl. 12:11 hafi B komið að heimili meðkærða A, og hafi hann haft poka meðferðis.  Stuttu síðar hafi þeir A og B komið út úr íbúðinni og hafi A þá verið með poka þann sem B hafi komið með.  Hafi A sest upp í bifreið sína [...] og ekið henni að sumarbústaðnum.  Þar hafi hann sést fara inn með pokann sem hann áður hafi verið með.

Um kl. 14:12 hafi kærði C komið akandi á bifreiðinni [...] að bústaðnum og gengið þar inn.

Um kl. 16:00 hafi þeir A og C yfirgefið bústaðinn.  Hafi A ekið til síns heima, en ekki sé vitað hvert C hafi farið.  Hafi þeir ekkert haft meðferðis úr bústaðnum.

Hinir tveir útlendu menn, sem eftir hafi verið í bústaðnum, hafi verið vakandi alla nóttina, en ekki sé vitað hvað þeir hafi verið að gera.

Í gærmorgun hafi sést til meðkærða C aka á bifreið sinni [...] að heimili meðkærða A og fara inn í íbúð hans.

Um kl. 10:04 hafi A ekið bifreið sinni [...] frá heimili sínu að sumarbústaðnum.

Um kl. 12:00 hafi A sést aka frá bústaðnum austur að [...]vatni, þar sem hann stöðvaði bifreiðina stutta stund, ekið síðan aftur af stað og snúið bifreiðinni við og ekið henni að bústaðnum. Hafi hann haft poka meðferðis.

Um kl. 15:00 hafi A sést yfirgefa bústaðinn.  Hafi hann haft meðferðis íþróttatösku.  Hafi hann ekið bifreiðinni til Reykjavíkur þar sem hann hafi verið handtekinn um kl. 16:09.  Jafnframt hafi þeir D og X verið handteknir um kl. 16:30 þar sem þeir hafi verið á gangi frá bústaðnum.

Um kl. 16:40 hafi kærði C verið handtekinn við heimili kærða A að [...] í Reykjavík.

Framkvæmd hafi verið leit í bústaðnum, en þar inni hafi fundist mikil og sterk efnalykt.  Inni á salerni hafi fundust margir asintonbrúsar.  Þá hafi fundist vog, falin undir rúmi, glerkrukka með hvítu efni og hvítar efnaleifar.  Munir þessir hafi nú verið sendir tæknideild lögreglu til frekari rannsóknar.

Þar sem það hafi verið mat lögreglu að í bústaðnum hafi farið fram framleiðsla á fíkniefnum hafi verið ákveðið að fá Má Másson prófessor í lyfjafræði svo og tæknideild lögreglu á vettvang.  Beðið sé nú niðurstaðna tæknideildar og prófessorsins.

Í viðræðum við umsjónamann bústaðarins hafi komið fram að maður sem sagst hafi heita E, s: [...], hafi leigt sumarbústaðinn 13. október sl.  E þessi hafi komið á bifreiðinni [...] og greitt fyrir ellefu daga leigu.  Með honum hafi verið tveir menn.  Umsjónamaðurinn kvaðst hafa komið að bústaðnum eitt kvöldið og bankað upp á.  Mennirnir tveir hafi verið lengi að koma til dyra og þeir hafi rætt við hann utandyra, líkt og þeir hafi ekki viljað fá hann inn.  Umsjónamaðurinn kvað allt háttarlag þessara manna hafa verið mjög undarlegt.  Þeir hafi ekki verið á neinu ökutæki og fengið til sín tíðar heimsóknir frá mönnum á ökutækjunum [...] og [...].  Í ljós hafi komið að kærði C sé með símanúmerið [...], sem og að hann sé umráðamaður ökutækisins [...]. 

Við handtöku kærða A hafi fundist ofangreind íþróttataska.  Í töskunni hafi mátt finna skálar og bakka úr stáli.  Mikil olíulykt hafi lagt upp úr töskunni.  Sé það ætlun lögreglu að umrædd stáláhöld hafi verið notuð við fíkniefnaframleiðslu.  Þá hafi fundist og sprautur og plasthanskar.

Í þágu rannsóknar málsins hafi verið framkvæmd húsleit á heimili kærða A, þar sem lögregla hafi fundið og lagt hald á m.a. 730.000 krónur í reiðufé, en kærði A hefur verið án atvinnu um nokkra mánaða skeið.  Kærði sé skráður eigandi tveggja bifreiða af gerðinni Range Rover og Lexus.

Sömuleiðis hafi verið framkvæmd húsleit á heimili kærða B, að [...] í Hafnarfirði, þar sem lögregla hafi fundið tæp tvö kíló af marihúana, rúm 200 gr. af amfetamíni, rúmar 5 milljónir króna í reiðufé og húslykil, merktu ofangreindu húsnæði að [...].  Kærði B sé án atvinnu.  Lögregla leiti nú B.

Kærði X sé undir rökstuddum grun um að eiga aðild að framleiðslu fíkniefna í umræddum sumarbústað.  Í málinu liggi fyrir að kærði C hafi leigt umræddan bústað undir fölsku nafni og flutt kærða X og D í bústaðinn.  X hafi ekki getað gefið neina haldbæra skýringu á veru sinni í bústaðnum.

Rannsókn málsins sé á algjöru frumstigi, en málið sé talið tengjast vel skipulagðri framleiðslu og dreifingu fíkniefna, sem virðist teygja anga sína til útlanda. 

Ljóst sé að taka þurfi frekari skýrslur af kærða, meðkærðu og hugsanlegum vitnum málsins og öðrum sem kunni að tengjast málinu.   Þá sé nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins að hafa uppi á B, en hann fari nú huldu höfði.  Beðið sé niðurstaðna tæknideildar og áliti Más Mássonar prófessors.  Málið sé mjög umfangsmikið og hafi lögregla nú á tæpum sólarhring handtekið og yfirheyrt fjóra aðila málsins og framkvæmt alls fjórar húsrannsóknir.

Í ljósi þess að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi sé afar brýnt að krafa lögreglustjóra verði tekin til greina, þannig að kærði fái ekki tækifæri til að  torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt framansögðu er kærði undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað getur allt að 12 ára fangelsi. Um er að ræða umfangsmikið brot á fíkniefnalöggjöfinni og er rannsókn þess á byrjunarstigi.  Er fallist á með lögreglu að brýnir hagsmunir séu fyrir því að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar, enda verður að telja hættu á að hann geti spillt rannsókn málsins gangi hann laus svo sem með því að hafa áhrif á vitni eða samseka.  Þá liggur fyrir að enn er eftir að taka skýrslur af nánar tilgreindum aðila sem grunur leikur á að tengist málinu.  Samkvæmt framansögðu þykir verða að fallast á kröfu lögreglustjórans í Reykjavík, eins og hún er sett fram, með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en ekki þykir ástæða til að marka varðhaldinu skemmri tíma.

Í ljósi rannsóknarhagsmuna og alvarleika brots sem kærði er grunaður um að hafa framið í félagi við aðra er fallist á að hann sæti takmörkunum á gæslunni samkvæmt c-, og d- liðum 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. 

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði X, fd. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 4. nóvember nk. kl. 16.00  Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.