Hæstiréttur íslands
Mál nr. 455/2004
Lykilorð
- Fiskveiðibrot
- Veiðiheimildir
- Friðhelgi eignarréttar
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 28. apríl 2005. |
|
Nr. 455/2004. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Birni Guðna Guðjónssyni (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) |
Fiskveiðibrot. Veiðiheimildir. Friðhelgi eignaréttar. Upptaka.
B var sakfelldur fyrir fiskveiðibrot, með því að hafa veitt grásleppu á óskráðum báti sínum í fiskveiðilandhelgi Íslands, án almenns leyfis til veiða í atvinnuskyni og leyfis til grásleppuveiða. Bar B fyrir sig að hafa róið í netlögum jarðarinnar B, en til þess hafi hann haft leyfi landeigenda. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að löggjafanum væri heimilt að vernda nytjastofna í fiskveiðilandhelginni og stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra, með því að banna landeigendum veiðar úr þeim innan netlaga sem utan nema með sérstöku leyfi. Var B gert að greiða 400.000 króna sekt í ríkissjóð og sæta upptöku á jafnvirði þeirra grásleppuhrogna sem hann hafði selt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 8. nóvember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvaldsins.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Björn Guðni Guðjónsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 250.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 28. september 2004.
Mál þetta, sem var dómtekið í gær, höfðaði sýslumaðurinn á Hólmavík þann 8. mars sl. gegn Birni Guðna Guðjónssyni, [...],
„fyrir fiskveiðibrot, með því að hafa hinn 7., 10., 11., 12., 14., 16., 17., 24., 26. apríl og 5., 6., 7., 8., 14., 16., 17., 22. og 23. maí 2003, veitt grásleppu á óskráðum báti sínum, sem er 5,6 metrar að lengd, í fiskveiðilandhelgi Íslands, án almenns leyfis til að veiða í atvinnuskyni og án leyfis til grásleppuveiða, grásleppa þessi gaf af sér 1880,5 kg. af grásleppuhrognum, en hrognin seldi hann Fiskvinnslunni Drangi ehf. á Drangsnesi, Kaldrananeshreppi.
Telst þetta varða við 4. gr., sbr. 25. gr. laga nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða, sbr. 195. gr. laga nr. 82/1998, 27. gr. laga nr. 57/1996 og 12. gr. laga nr. 85/2002 og 7. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Ísalnds og 1. gr. reglugerðar nr. 129/2002 um hrognkelsaveiðar, sbr. 17. gr. laga nr. 79/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar fyrir framangreind brot.
Þess er krafist, með vísan til 3. tl. 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1949, að ákærða verði gert að þola upptöku ávinnings af brotum sínum.“
Ákærði krefst sýknu.
Ákærði kannast við að hafa veitt grásleppu þá daga sem ákæra greinir og fyrir liggur að hann seldi afurðina eins og þar er lýst. Með játningu hans, sem ekki er ástæða til að draga í efa, telst háttsemi hans nægilega sönnuð.
Ákærði kveðst hafa veitt greinda grásleppu í netlögum jarðarinnar Bjarnarness í Kaldrananesshreppi og hefur lagt fram yfirlýsingar landeigenda um að þeir hafi heimilað honum veiðina. Telur hann sér refsilaust að veiða í netlögum án almenns eða sérstaks veiðileyfis.
Með því að ekki er annað sannað, verður staðhæfing ákærða um að hann hafi veitt alla grásleppuna í netlögum greindrar jarðar lögð til grundvallar.
Frá fornu fari hefur verið kveðið á um rétt landeigenda til veiði í netlögum hér á landi. Í Grágás er tekið fram að allir menn eigi að veiða fyrir utan netlög að ósekju ef vilja og þar séu netlög utast í sæ er selnet standi grunn, tuttugu möskva djúpt, af landi eða af skeri og komi flár upp úr sjónum að fjöru þá er þinur stendur grunn. Í 2. kapítula rekabálks Jónsbókar var tekið fram að allir menn ættu að veiða fyrir utan netlög að ósekju, en það væru netlög yst, er selnót stæði grunn 20 möskva djúp að fjöru og kæmu þá flár upp úr sjó.
Nýjustu ákvæði í íslenskum lögum um netlög er að finna í lögum nr. 81/2004, en samkvæmt 2. gr. þeirra merkja netlög í þeim vatnsbotn 115 metra út frá bakka stöðuvatns sem landareign liggur að, svo og sjávarbotn 115 metra út frá stórstraumsfjöruborði landareignar. Netlög eru skilgreind á sama hátt í 1. gr. laga nr. 64/1994. Í 8. gr. þeirra laga er kveðið á um að landeigendur eigi einir rétt til dýraveiði á landareign sinni. Samkvæmt sömu grein eiga aðrir en landeigendur ekki rétt til dýraveiða í efnahagslögsögu Íslands nema utan netlaga.
Í forsendum dóms Hæstaréttar Íslands, sem er að finna á bls. 2518 í dómsafni réttarins 1996 er rakið að við setningu veiðitilskipunar 1849 hafi sagt svo í 1. gr. að á Íslandi skyldu þaðan í frá jarðeigendur einir eiga dýraveiði og fugla nema tilskipunin kvæði öðruvísi á. Þá hafi jafnframt verið tekið fram í 21. gr., að allar greinar laga um fiskveiðar og hvalveiðar, sem ekki væri breytt með tilskipuninni, skyldu fyrst um sinn standa óraskaðar. Ályktar rétturinn að ekki verði talið að ákvæði 3. gr. tilskipunarinnar um rétt landeiganda til veiði 60 faðma á haf út frá stórstraumsfjörumáli hafi falið í sér annan og rýmri rétt landeiganda til veiða en þann sem kveðið var á um í upphafsákvæði tilskipunarinnar.
Þá segir í forsendum sama dóms að af fornlögum verði ekki ráðið, að netlög í sjó hafi verið talin háð sömu eignarráðum fasteignareigenda og landið fyrir ofan. Með síðari tíma löggjöf hafi eigendum fasteigna ekki heldur verið veittar allar sömu eignarheimildir yfir netlögum í sjó, sem þeir njóta yfir fasteignum, er að þeim liggi. Með löggjöf eftir setningu nefndrar tilskipunar hafi fasteignareigendum ekki með ótvíræðum hætti verið veittur einkaréttur til veiði sjávarfiska í netlögum sem miðist við fjarlægð frá stórstraumsfjörumáli. Ákvæði 2. kapítula Jónsbókar um afmörkun netlaga sem miðist við sjávardýpi hafi ekki heldur verið felld úr gildi með ákvörðun löggjafans, þótt þau hafi ekki verið tekin upp í útgáfu lagasafns 1919 og eftir það.
Þótt þannig sé ekki skýrt í lögum hvort fasteignareigendur eigi allar sömu heimildir í netlögum og á landinu fyrir ofan og hvort réttur þeirra til veiði sjávarfiska skuli miðast við fjarlægð frá landi eða sjávardýpi, verður að líta til þess að ekki liggur fyrir að ákærði hafi veitt grásleppuna á meira dýpi en tekið er fram í 2. kapítula rekabálks Jónsbókar. Verður hér miðað við ákvæði kapítulans um að landeigandi eigi veiðar allar í netlögum og í fjörunni.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 79/1997 telst hafsvæðið frá fjöruborði að ytri mörkum efnahagslögsögu Íslands til fiskveiðilandhelgi þess. Falla netlög því innan fiskveiðilandhelginnar. Sömu skilgreiningu er að finna í 2. gr. laga nr. 38/1990.
Í 1. gr. laga nr. 79/1996 er tekið fram að tilgangur laganna sé að stuðla að viðgangi og hagkvæmri nýtingu nytjastofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Sama löggjafarmarkmið er að finna í 1. gr. laga nr. 38/1990, þar sem einnig er tekið fram að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar.
Þrátt fyrir framangreind réttindi landeigenda í netlögum og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 12/2000, sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á bls. 1534, verður ekki fallist á það að löggjafanum sé óheimilt að vernda nytjastofna í fiskveiðilandhelginni og stuðla að hagkvæmri nýtingu þeirra með því að banna landeigendum veiðar úr þeim innan netlaga sem utan nema með sérstöku leyfi. Ákærði, sem hafði leyfi landeiganda til grásleppuveiða innan netlaga, varð því samt sem áður að hlíta banni 1. mgr. 7. gr. laga nr. 79/1997 við grásleppuveiðum nema með sérstöku leyfi Fiskistofu. Í 2. gr. reglugerðar nr. 129/2002 um hrognkelsaveiðar er tekið fram að skilyrði til að fá slíkt leyfi sé að hafa einnig leyfi til veiða í atvinnuskyni.
Samkvæmt ofansögðu braut ákærði gegn ákvæði 4. gr. laga nr. 38/1990, sem bannar veiðar í atvinnuskyni við Ísland öðrum en þeim sem hafa fengið til þess almennt veiðileyfi og hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 25. gr. sömu laga, sbr. 12. gr. laga nr. 85/2002 og 27. gr. laga nr. 57/1996. Þá varðar háttsemi hans við 7. gr. laga nr. 79/1997 og 1. gr., sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 129/2002, sbr. 17. gr. laga nr. 79/1997.
Ákærði hefur ekki sætt refsingum. Refsing hans ákveðst 400.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi fangelsi í 45 daga í stað sektarinnar, verði hún eigi greidd innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja.
Fallast ber á kröfu ákæruvaldsins um upptöku ávinnings ákærða. Verður að miða við jafnvirði grásleppuhrognanna, sem samkvæmt framlögðum gögnum nam 399 kr/kg. með virðisaukaskatti eða 750.320 krónur fyrir það magn sem ákæra greinir.
Dæma ber ákærða til að greiða allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur, hdl., sem ákveðast 150.000 krónur, auk lögmælts virðisaukaskatts og ferðakostnaðar.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
Dómsorð:
Ákærði, Björn Guðni Guðjónsson, greiði 400.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu þessa dóms að telja, en sæti ella fangelsi í 45 daga.
Upptækt er jafnvirði 1880,5 kg af grásleppuhrognum, 750.320 krónur.
Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þ.m.t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigríðar Rutar Júlíusdóttur hdl., 150.000 krónur.