Hæstiréttur íslands
Mál nr. 266/2013
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2013. |
|
Nr. 266/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn Viktori Hrafni Einarssyni (Oddgeir Einarsson hrl.) (Sveinn Andri Sveinsson hrl. réttargæslumaður) |
Kynferðisbrot. Skaðabætur.
V var sakfelldur fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við A og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðnum sökum ölvunar og svefndrunga. Var framburður A, sem var á einn veg, talinn trúverðugur, auk þess sem hann fékk stoð í öðrum gögnum málsins og framburði vitna. Var brot V talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing V ákveðin fangelsi í tvö ár. Þá var honum var gert að greiða A 1.000.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. mars 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en til vara að ákvæði hins áfrýjaða dóms um kröfu hennar verði staðfest.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Viktor Hrafn Einarsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 742.026 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 13. febrúar 2013, er höfðað með ákæru, útgefinni af ríkissaksóknara 12. nóvember 2012, á hendur ákærða, Viktori Hrafni Einarssyni, kt. [...], [...], [...], fyrir nauðgun með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 29. október 2011, í herbergi [...] á Hótel [...], [...], [...], haft samræði við A og við það notfært sér að A gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að fjárhæð 3.000.000 króna, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. október 2011, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er þess aðallega krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði stórlega lækkaðar. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins sem greiðist úr ríkissjóði.
Málsatvik
Að morgni laugardagsins 29. október 2011, klukkan 6:15, hringdi A í Neyðarlínuna og óskaði aðstoðar lögreglu. Hún kvaðst vera stödd við Hótel [...] á [...] og hefði hún orðið fyrir nauðgun. Lögreglumenn fóru að hótelinu og ræddu við A. Kemur fram í skýrslu þeirra að hún hafi verið grátandi og í nokkru uppnámi. Hún greindi frá því að hún hefði komið til [...] daginn áður ásamt ákærða, Viktori Hrafni Einarssyni. Þau ákærði hefðu lengi verið vinir og hefði hann boðið henni með sér á [...] á vegum [...]. Þau hefðu gist saman í herbergi á Hótel [...]. Þau hefðu farið út að skemmta sér um nóttina, en orðið viðskila. Kvaðst A hafa farið á hótelið eftir að skemmtistaðir lokuðu og hefði hún sofnað alklædd í rúmi í herbergi þeirra. Hún kvaðst hafa vaknað upp nokkru síðar við að ákærði var að hafa við hana samfarir og hefði þá verið búið að færa hana úr fötunum. Hún hefði ýtt ákærða frá sér, klætt sig, farið út af hótelinu og hringt til lögreglu. A var flutt á [...] á [...] þar sem hún gekkst undir réttarlæknisfræðilega skoðun. Ákærði var handtekinn á hótelherberginu klukkan 7:07. Kemur fram í skýrslu að hann hafi verið lítilsháttar ölvaður og sagst hafa verið að leita að vinkonu sinni.
Við rannsókn lögreglu á hótelherberginu, sem ákærði og A deildu, fundust verjur í umbúðum í ferðatösku ákærða. Taskan var opin og í henni fannst jafnframt verja sem hafði verið tekin úr umbúðunum og var sýnilega notuð.
Þá liggur fyrir í málinu upptaka úr öryggismyndavél hótelsins þar sem A sést koma á hótelið klukkan 4:29 um nóttina og sést næturvörður fylgja henni inn á gang á 4. hæð í átt að herbergi þeirra ákærða. Klukkan 4:44 sést ákærði koma á hótelið og fara inn ganginn að herberginu. Klukkan 6:10 sést A koma fram herbergisganginn. Er greinilegt af upptökunni að hún er þá grátandi og talar í farsíma.
A gaf skýrslu hjá lögreglu að morgni sunnudagsins 30. október 2011. Hún kvað þau ákærða hafa farið út að borða á föstudagskvöldinu og hefði hún eftir það farið í sturtu á hótelherberginu. Hún hefði síðan lagst upp í rúm og haft handklæði utan um sig. Ákærði hefði þá komið og lagst hjá henni, reynt að taka utan um hana og farið að gera sig til við hana. Hún kvaðst hafa sagt honum að láta sig í friði og beðið hann um að fara og hefði hann hlýtt því. Þau hefðu síðan farið í samkvæmi til vinar ákærða, en hún hefði yfirgefið það og farið að hitta vinkonu sína. Þær hefðu farið á milli skemmtistaða og kvaðst A hafa drukkið mikið áfengi. Hún hefði síðan farið á hótelherbergið og lagst upp í rúm í öllum fötunum. Hún hefði ákveðið að afklæðast ekki, m.a. vegna þess að ákærði hefði áður reynt við hana þegar þau voru saman á ferðalagi í [...]. Hún hefði verið íklædd tvennum sokkabuxum, þremur bolum og brjóstahaldara þegar hún sofnaði. Hún kvaðst síðan hafa vaknað liggjandi á bakinu með fætur í sundur og hefði ákærði legið ofan á henni og verið að hafa við hana samfarir. Hún hefði þóst vera sofandi í fyrstu, en síðan fært sig til hliðar. Hann hefði byrjað aftur að hafa við hana samfarir, en hún þá lagst á magann, ýtt honum í burtu, muldrað „farðu af mér“ og vafið sig inn í sængina. Ákærði hefði hlýtt því. A kvaðst hafa legið kyrr um stund, en þegar hún taldi ákærða vera sofnaðan hefði hún farið á fætur og út úr herberginu. Hún hefði tekið eftir því þegar hún reis upp úr rúminu að ákærði hefði dregið niður um hana sokkabuxurnar. Hún kvaðst hafa hringt til bróður síns og sagt honum hvað hefði gerst, en síðan hringt til lögreglu.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu sama dag. Hann kvaðst hafa komið á hótelið eftir að hafa verið að skemmta sér um nóttina og hefði hann verið drukkinn. Hann hefði farið inn í herbergið sem þau A deildu, afklæðst svo að hann var í nærbuxum einum fata, lagst upp í rúm og sofnað. Þegar hann vaknaði hefði A ekki verið í herberginu og kvaðst hann hafa verið að leita að henni þegar lögreglumenn komu og handtóku hann. Ákærði kannaðist við að hafa á föstudagskvöldinu lagst við hlið A og reynt að taka utan um hana þar sem hún lá í rúminu aðeins með handklæði utan um sig. Hann hefði hins vegar látið af því þegar A hefði sagt honum að hún vildi þetta ekki. Hann kannaðist við að A hefði síðar um kvöldið beðið hann um að hætta að gera sig til við hana. Hann kvað þau A hafa haft kynferðismök í eitt skipti á fyrra ári þegar þau voru á ferðalagi í [...], en þau hefðu þá bæði verið ölvuð. Að öðru leyti hefði ekkert kynferðislegt verið á milli þeirra. Ákærða voru sýndar ljósmyndir sem lögregla tók á hótelherberginu og sagðist hann eiga verjur sem þar fundust. Hann kvaðst ekki geta skýrt hvers vegna ein þeirra hefði verið rifin úr umbúðum. Hann kvaðst hafa drukkið um 10 bjóra um kvöldið og nóttina og hefði hann verið svo ölvaður að hann hefði vart vitað hvað hann var að gera. Þá hefði hann verið þreyttur og illa fyrir kallaður er hann fór út að skemmta sér.
Meðal rannsóknargagna málsins er skýrsla um réttarlæknisfræðilega skoðun á A á [...] á [...] að morgni 29. október 2011. Í skýrslunni er að finna frásögn A af atvikum og áfengisneyslu sinni um nóttina. Þar kemur einnig fram að tekin hafi verið blóð- og þvagsýni til alkóhól- og eiturefnarannsóknar, en við aðalmeðferð málsins upplýsti sækjandi að þau sýni hefðu glatast og rannsókn því ekki farið fram.
Ákærði gekkst einnig undir réttarlæknisfræðilega skoðun í kjölfar handtöku. Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dagsettri 1. desember 2011, reyndist blóðsýni sem tekið var frá ákærða við læknisskoðun klukkan 9:10 innihalda 0,70 etanóls, en 1,07 í þvagsýni, sem tekið var klukkan 8:47. Í málinu er einnig greinargerð rannsóknastofunnar, dagsett 12. febrúar 2013, um mat á áfengismagni í blóði ákærða klukkan 5 um morguninn. Kemur fram að þar sem aðeins var tekið eitt blóðsýni sé ekki hægt að reikna brotthvarfshraða etanóls úr blóði. Ef brotthvarfshraði sé miðaður við 0,12 á klukkustund hafi etanólstyrkur í blóði verið 1,2 um klukkan 5, miðað við að áfengisdrykkju hafi lokið klukkan 4 um nóttina, en allt að 1,7 ef miðað er við 0,25 á klukkustund.
Þá liggur fyrir skýrsla tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 23. nóvember 2011, þar sem kemur fram að rannsókn á verjunni sem fannst í hótelherberginu hafi leitt í ljós að í henni voru lífsýni sem gáfu jákvæða svörun við prófun sem sæði. Smásjárrannsókn sýndi enn fremur að sáðfrumur voru til staðar í sýni sem skoðað var. Verjan var send til DNA-greiningar hjá Statens Kriminalteknisk Laboratorium í Svíþjóð, ásamt samanburðarsýnum frá ákærða og brotaþola. Samkvæmt skýrslu rannsóknastofunnar, dagsettri 1. desember 2012, leiddi rannsókn á verjunni í ljós að lífsýni voru á innan- og utanverðri verjunni. Niðurstaða DNA-greiningar var sú að lífsýni frá báðum hliðum verjunnar höfðu sama DNA-snið og var það snið eins og DNA-snið brotaþola, A.
Í málinu er vottorð Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings, dagsett 16. desember 2012, þar sem kemur fram að A hafi sótt viðtöl hjá sálfræðingnum frá 29. nóvember 2011. Allt viðmót hennar bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn og bjargarleysi þegar meint kynferðisbrot hafi átt sér stað. Niðurstöður greiningarmats sýni að hún þjáist af áfallastreituröskun og alvarlegu þunglyndi í kjölfar atburðarins. Þau sálrænu einkenni sem hún hafi upplifað í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem séu vel þekkt hjá fólki sem hafi upplifað alvarleg áföll eins og stórslys, líkamsárás, nauðgun eða hamfarir. Niðurstöður sjáfsmatskvarða samsvari vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér. Þá kemur fram að meðferðarvinna sé á frumstigi.
Loks liggur fyrir vottorð Önnu Maríu Jónsdóttur geðlæknis, dagsett 15. janúar 2013, þar sem kemur fram að A hafi leitað til hennar í nóvember 2011 í kjölfar atburðarins og sótt þrjú viðtöl, síðast í maí 2012. Kemur fram að hún hafi verið í miklu uppnámi og mjög brugðið yfir árás sem hún hefði orðið fyrir af hálfu vinar síns sem hún hefði treyst. Hafi atburðurinn haft víðtæk áhrif á líf hennar, hún hefði flosnað upp úr námi, sjálfsmynd hennar hafi beðið hnekki og hún eigi erfitt með að treysta fólki. Hún hafi glímt við þunglyndi, kvíða og martraðir vegna atburðarins.
Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna við aðalmeðferð málsins.
Ákærði greindi frá því að hann hefði boðið A með sér til [...] í skemmtiferð á vegum vinnuveitanda síns. Þau hefðu farið út að borða kvöldið sem þau komu og síðan farið upp á hótel. Ákærði kvaðst hafa staldrað við á hótelbarnum, en A hefði farið upp í herbergi og farið í sturtu. Hann hefði verið kominn í herbergið þegar hún kom fram úr sturtunni, en hún hefði þá haft handklæði um sig og lagst undir sæng. Ákærði kvaðst hafa lagst við hlið hennar og tekið utan um hana, en hún hefði beðið hann um að hætta því, sem hann hefði gert. Þau hefðu síðan farið saman í samkvæmi, en þar hefðu leiðir skilið og hann farið með félögum sínum í bæinn. Þau hefðu hist á bar um nóttina, en leiðir skilið á ný. Hann hefði síðan haldið aftur á hótelið eftir að barir lokuðu. A hefði verið komin upp í rúm og hefði hann talið að hún væri sofandi. Hann hefði klætt sig úr öllu nema nærbuxum, lagst upp í rúmið og farið að sofa. Ákærði kvaðst síðan hafa vaknað „skringilega“ um klukkan 7. Þá hefði A ekki verið við hlið hans. Honum hefði fundist það undarlegt og farið að svipast um eftir henni. Hann hefði litið fram á gang, en þá mætt tveimur lögreglumönnum sem hefðu tilkynnt honum að A hefði kært hann fyrir nauðgun. Hann kvað verjuna sem fannst í herberginu hafa verið í sinni eigu, en ekki geta skýrt af hverju hún hefði verið tekin úr umbúðum og notuð. Hann kvaðst hafa verið mjög ölvaður þessa nótt, auk þess sem hann hefði verið ósofinn. Hann kvað þau A hafa verið vini, en hann hefði þó verið hrifinn af henni. Þá greindi hann frá því að A hefði áður farið með honum í svipaða ferð [...] og hefðu þau þá dvalist á [...]. Þau hefðu haft samfarir í þessari ferð og hefði hann því talið að hún hefði áhuga á honum.
A lýsti atvikum kvöldsins með líkum hætti og ákærði. Hún kvaðst hafa farið í sturtu á hótelherberginu, en ákærði hefði þá ekki verið í herberginu. Hann hefði verið kominn þegar hún kom fram, en hún hefði þá verið með handklæði utan um sig og lagst upp í rúm. Þá hefði ákærði komið og tekið utan um hana, en hún hefði beðið hann um að hætta því, sem hann hefði gert. Þau hefðu síðan farið í samkvæmi, en hún yfirgefið það og farið að skemmta sér með vinkonu sinni. Hún hefði rætt um það við vini sína sem hún hitti um nóttina að henni fyndist ákærði hafa verið eitthvað skrítinn. Hún hefði síðan séð ákærða og félaga hans á bar og hefði hún þá beðið B, vin sinn, um að taka utan um sig, í því skyni að ákærði héldi að hann væri að reyna við hana. Hún hefði síðan farið á hótelið og fengið starfsmann í móttöku til að hleypa sér inn í herbergið. Þar hefði hún sofnað í fötunum, en hún hefði verið íklædd tvennum sokkabuxum, tveimur bolum og pilsi. A kvaðst hafa vaknað við að ákærði lá ofan á henni og var að hafa við hana samfarir. Hún hefði frosið við þetta, ekki vitað hvað hún ætti að gera og því látist sofa, en síðan snúið sér á hliðina. Þá hefði ákærði komið aftur og byrjað að hafa við hana samfarir aftan frá. Hún hefði þá lagst á magann og sagt ákærða að fara af sér, sem hann hefði gert. Hún hefði enn verið í öllum fötunum, en sokkabuxurnar hefðu verið dregnar niður á hæla. Hún kvaðst hafa beðið eftir því að ákærði sofnaði, en þá yfirgefið herbergið og hringt til lögreglu.
A lýsti sambandi þeirra ákærða sem vinasambandi. Hún kvaðst þó hafa skynjað að ákærði væri hrifinn af henni, en taldi sig hafa gefið honum skýrt til kynna að hún hefði ekki áhuga á honum. Hún kvaðst hafa drukkið mikið áfengi um nóttina og hafa verið mjög ölvuð þegar hún kom á hótelið. Þá kvaðst hún einnig hafa verið mjög ölvuð nóttina sem þau dvöldust á [...] og ekki muna hvað gerðist þar. Hún hefði vaknað um morguninn í nærbuxum einum fata og ekki geta útilokað að ákærði hefði haft við hana samfarir þó að hún myndi ekki eftir því.
Þá greindi A frá því að henni hefði liðið mjög illa eftir atburðinn á [...] og hefði vanlíðan hennar leitt til þess að hún flosnaði upp úr námi. Hún hefði greinst með áfallastreituröskun eftir atburðinn og þjáðist af kvíða. Hún hefði átt erfitt með svefn og þyrfti að nota þunglyndislyf og svefnlyf.
C, bróðir A, kvað systur sína hafa hringt til sín morguninn sem um ræðir og sagt sér hvað hefði gerst. Hún hefði verið í miklu uppnámi og hágrátandi.
D kvað þær A hafa mælt sér mót um nóttina og hefðu þær verið að skemmta sér saman. Þær hefðu báðar verið frekar ölvaðar. D kvað A hafa hringt til sín morguninn eftir og sagt sér hvað hefði gerst. Hún hefði verið grátandi þegar hún hringdi og sagst vera á sjúkrahúsi þar sem hún ætti að gangast undir læknisskoðun.
E kvaðst hafa verið að vinna á bar í miðbæ [...] og hefði A komið þangað um nóttina. Hefði A nokkrum sinnum komið til hennar og sagt henni að hún væri að reyna að losna frá manni, sem henni fyndist óþægilegt að vera nálægt. Síðar hefði A sagt henni að þetta hefði verið maðurinn sem hefði nauðgað henni þessa nótt.
B var dyravörður á sama bar og kvað hann A hafa kvartað undan því við sig að ákærði hefði verið ágengur við hana um kvöldið. A hefði beðið hann um að vera við hlið sér svo að virtist sem þau væru saman, en með því vildi hún gefa ákærða til kynna að hún væri ekki að gefa honum undir fótinn.
F, [...], kvaðst hafa verið í fyrrnefndri ferð til [...] og hefði A þá verið þar í fylgd ákærða. Vitnið kvað ákærða hafa sagt sér að hann væri hrifinn af þessari stúlku og hefði komið fram hjá honum að þau hefðu sofið saman í ferðinni til [...].
Ragnheiður Baldursdóttir, læknir [...], og Katrín Þorláksdóttir hjúkrunarfræðingur, gerðu grein fyrir réttarlæknisfræðilegri skoðun sem brotaþoli gekkst undir. Þá gerði Kristín Magnúsdóttir, deildarstjóri Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, grein fyrir rannsókn á blóðsýni sem tekið var frá ákærða við læknisskoðun.
Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, gerði grein fyrir rannsókn á notaðri verju, sem fannst á hótelherberginu. Hann kvað stroksýni sem tekið var innan úr verjunni hafa gefið jákvæða svörun sem sæði. Þá hefði sést við smásjárrannsókn að sáðfrumur voru í sýninu, en þær hefðu ekki verið fleiri en 5 talsins. Ekki hefði hins vegar greinst DNA í sýninu við frekari rannsókn, en um mjög lítið sýni hefði verið að ræða. Rannsóknin hefði því leitt í ljós að sæði var í verjunni, en ekki hefði verið hægt að rekja frá hverjum það stafaði. Vitnið kvað mögulega skýringu á því að DNA úr brotaþola fannst bæði á utanverðri og innanverðri verjunni vera að samfarir hefðu hafist án þess að verja væri notuð og þekjufrumur þannig borist yfir á getnaðarlim, sem verjan hefði síðan verið sett yfir.
Þá gáfu skýrslu fyrir dóminum G, starfsmaður Hótel [...], og Geir Baldursson lögreglumaður, sem kom á vettvang í umrætt sinn og ritaði frumskýrslu málinu. Loks staðfestu Anna María Jónsdóttir geðlæknir og Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur sérfræðivottorð sín, sem liggja fyrir í málinu. Ekki eru efni til að rekja framburð vitnanna.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og kveðst ekki minnast þess að hafa haft samfarir við A í umrætt sinn. A hefur á hinn bóginn greint frá því að hún hafi vaknað við að ákærði var að hafa við hana samfarir. Í ferðatösku ákærða á hótelherberginu sem þau deildu fannst verja, sem hafði verið tekin úr umbúðum og leiddi rannsókn tæknideildar lögreglu í ljós að sæði var í verjunni. Þá var það niðurstaða DNA-greiningar að lífsýni væri til staðar á ytra og innra byrði verjunnar, sem samrýmdist DNA-sniði A. Ákærði hefur viðurkennt að verjan hafi verið í hans eigu, en ekki getað gefið skýringu á notkun hennar. Þá liggur fyrir upptaka úr öryggismyndavél hótelsins, þar sem A sést koma frá hótelherberginu undir morgun og er hún sýnilega í uppnámi. Hafa vitni jafnframt borið um að hún hafi verið í miklu uppnámi og grátandi eftir að hún yfirgaf hótelherbergið.
Framburður A er trúverðugur að mati dómsins. Hún hefur gefið greinargóða lýsingu á atvikum og hefur frásögn hennar verið á einn veg um atriði sem skipta máli. Framburður hennar fær jafnframt stoð í niðurstöðum tæknirannsóknar og DNA-greiningar, svo sem rakið hefur verið. Þá er framburður vitna og framangreind myndbandsupptaka til marks um að hún hafi orðið fyrir áfalli í umrætt sinn. Framburður ákærða um tiltekin atriði er á hinn bóginn í andstöðu við gögn málsins og telst ótrúverðugur. Er það niðurstaða dómsins að leggja beri frásögn A til grundvallar í málinu. A hefur borið um áfengisneyslu sína um nóttina og má ljóst vera að hún var ölvuð þegar hún lagðist til svefns í hótelherberginu. Hefur ákærði jafnframt borið að hún hafi virst vera sofandi þegar hann kom í herbergið skömmu síðar. Samkvæmt framansögðu þykir sannað að ákærði hafi haft samræði við stúlkuna og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og varðar háttsemi hans við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði er fæddur árið [...]. Sakaferill hans hefur ekki áhrif á refsingu. Ákærði er í máli þessu sakfelldur fyrir nauðgun. Með hliðsjón af því, sbr. og 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, er refsing ákærða ákveðin fangelsi í tvö ár.
Réttargæslumaður hefur fyrir hönd A krafist miskabóta að fjárhæð 3.000.000 króna auk vaxta. Um lagarök er vísað til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Með broti því sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir hefur hann bakað sér miskabótaábyrgð gagnvart brotaþola. Í málinu liggja fyrir vottorð geðlæknis og sálfræðings þar sem kemur fram að brotið hafi valdið brotaþola mikilli vanlíðan. Kom jafnframt fram í vitnisburði sálfræðingsins að brotaþoli þarfnaðist meðferðar vegna einkenna áfallastreituröskunar og þunglyndis og væri sú meðferð á byrjunarstigi. Með hliðsjón af framansögðu þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna, sem beri vexti sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 489.450 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Brynjars Níelssonar hrl., 251.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar lögmanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Ákærði greiði 446.202 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.
Ragnheiður Harðardóttir, Arngrímur Ísberg og Kristjana Jónsdóttir héraðsdómarar kváðu upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Viktor Hrafn Einarsson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærði greiði A 1.000.000 króna ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 29. október 2011 til 4. júní 2012, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Kormáks Friðrikssonar hdl., 489.450 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Brynjars Níelssonar hrl., 251.000 krónur. Ákærði greiði 446.202 krónur í annan sakarkostnað.