Hæstiréttur íslands

Mál nr. 18/2015


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skilorð
  • Skaðabætur
  • Ómerking héraðsdóms
  • Sératkvæði


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 17. september 2015.

Nr. 18/2015.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

(Páll Arnór Pálsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skilorð. Skaðabætur. Ómerkingu héraðsdóms hafnað. Sératkvæði.

X var sakfelldur fyrir brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa í samskiptum við A, er hún var 15 og 16 ára, áreitt hana með kynferðislegu orðbragði. Að virtu orðalagi umræddra skilaboða og því samhengi sem þau voru sett fram í, var talið að ekkert benti til annars en að þau hefðu öll verið af kynferðislegum toga. Hefðu þau verið ítrekuð og til þess fallin að vekja ótta hjá A. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að ásetningur hans hefði verið einbeittur og hann hefði ekki látið af háttseminni þó svo að hann hefði vitað að A liði illa vegna hennar. A hefði tengst X fjölskylduböndum og borið til hans trúnaðartraust. Þá mætti ráða af gögnum málsins að afleiðingar brota X hefðu verið mjög alvarlegar. Var refsing X ákveðin fangelsi í sex mánuði, en fullnustu hennar frestað og skyldi hún falla niður að liðnum tveimur árum héldi hann almennt skilorð. Þá var X gert að greiða A 600.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist sakfellingar samkvæmt ákæru og að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en að því frágengnu að refsing verði milduð og „miskabætur og dæmd þóknun til réttargæslumanns brotaþola verði lækkuð verulega.“

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. janúar 2012 til 13. júlí 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

I

Ákærða eru í máli þessu gefin að sök kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum nr. 80/2002 með því að hafa á árinu 2012 ítrekað í samskiptum við brotaþola áreitt hana með kynferðislegu orðbragði, en tildrög máls þessa má rekja til kæru barnaverndarnefndar [...] 22. nóvember 2012, sem undirrituð er af E yfirfélagsráðgjafa. Þar var greint frá grun um kynferðislega áreitni ákærða í garð brotaþola, sem þá var sextán ára gömul, en ákærði er kvæntur móðursystur hennar. Þar kom fram að málið hefði fyrst komið til athugunar hjá starfsmönnum barnaverndarnefndar í janúar 2012 vegna myndatöku sem brotaþoli fór í til ákærða. Taldi brotaþoli ákærða hafa tekið af sér myndband á meðan hún skipti um föt en við athugun á myndavélinni mun hafa komið í ljós að svo hafi ekki verið. Í kærunni var einnig greint frá því að í viðtölum brotaþola við sálfræðing sumarið 2012 hefði brotaþoli sagt ákærða hafa sent henni smáskilaboð sem henni hafi þótt óþægileg og hefði sálfræðingur talið skilaboðin vera af kynferðislegum toga. Hafi brotaþoli greint frá versnandi líðan, en auk þess hafi farið að bera á áhættuhegðun hjá henni. Ekki var lögð fram kæra til lögreglu á þessu tímamarki, þar sem brotaþoli og foreldrar hennar lögðust gegn því. Af hálfu barnaverndarnefndar hafi verið gerð áætlun um meðferð máls samkvæmt barnaverndarlögum og hafi foreldrar brotaþola ábyrgst að brotaþoli hefði engin samskipti við ákærða ein síns liðs. Hafi í kjölfarið mátt greina bætta líðan hjá brotaþola. Í október sama ár hafi farið að bera aftur á vanlíðan brotaþola. Einkennin hafi verið alvarlegri en áður og hafi hún verið farin að beita sjálfskaðandi hegðun með því að skera sig í hendur og fætur. Komið hafi í ljós að samskipti við ákærða voru enn til staðar og hafi brotaþoli gefið sálfræðingi leyfi til að skoða Facebook samskipti sín og ákærða, sem að mati starfsmanns barnaverndarnefndar hafi falið í sér kynferðislega áreitni. Í kærunni kom fram að samskiptin hvíldu þungt á brotaþola og væru þau ávallt ofarlega í huga hennar, þegar rætt væri við hana um líðan hennar. Jafnframt sagði þar að það væri mat starfsmanna barnaverndar og sálfræðings brotaþola að kynferðisleg áreitni ákærða gagnvart henni skýrði að verulegum hluta vanlíðan hennar, þótt vissulega hafi fleira komið til. Brotaþoli hafi verið lögð inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítala vegna mikillar andlegrar vanlíðunar, sjálfskaðandi hegðunar og sjálfsvígshættu.

Ákærði bar fyrir dómi að hann hefði fengið vitneskju um það í janúar 2012 að brotaþoli teldi hann hafa tekið af sér myndband þegar hún var að skipta um föt í myndatöku hjá honum. Spurður um viðbrögð brotaþola við því sagði ákærði ,,eflaust hefur verið talað um að henni liði illa yfir þessu“, en brotaþola hefði verið gerð grein fyrir því að ákærði hefði ekki tekið af henni myndband umrætt sinn og ,,málið er klárað“.  Þá skýrði eiginkona ákærða frá því fyrir dómi að henni hafi verið kunnugt um í lok ágúst 2012 að ákærði hefði verið sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart  brotaþola.

Móðir brotaþola bar fyrir dómi að sumarið 2012 hafi sálfræðingur sá sem brotaþoli gekk til, greint sér frá því að ákærði hefði þá verið að senda brotaþola smáskilaboð eða skilaboð á Facebook. Hafi hún í kjölfarið rætt við ákærða og beðið hann að hætta þessum samskiptum og hafi ákærði tekið því vel. Síðar um haustið hafi sálfræðingurinn aftur kallað sig á fund og sagt að ,,þetta sé verra heldur en það hafði verið ... nú ætla þær að gera eitthvað í þessu“. Brotaþoli hafi verið farin að skera sig og hafi hún í kjölfarið verið lögð inn á Barna- og unglingageðdeild Landspítala.

Vitnið J, félagsráðgjafi á Barna- og unglingageðdeild Landspítala, kvað brotaþola hafa komið í bráðainnlögn 16. nóvember 2012.  Hafi hún þá verið með sjálfskaðandi hegðun og sjálfsvígshugsanir vegna ,,langvarandi kynferðislegs ofbeldis“.  Spurð um hvort eitthvað annað hefði getað skýrt þessa vanlíðan brotaþola kvað vitnið að það hafi verið þessi langvarandi kynferðislega áreitni sem og vöntun á stuðningi sem hafi staðið í vegi fyrir að bataferli brotaþola gæti hafist.  

Af gögnum málsins má ráða að brotaþoli hafði átt við erfiðleika að stríða áður en atvik þau urðu sem ákæra lýtur að og hafði meðal annars glímt við námsvanda og verið í viðtölum hjá skólasálfræðingi. Var ákærða kunnugt um það og kvað hana hafa átt ,,mjög erfitt“ í sínum uppvexti.  

II

Kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms hefur ákærði í fyrsta lagi byggt á að því að tengsl milli réttargæslumanns brotaþola og saksóknara málsins séu með þeim hætti að draga megi óhlutdrægni saksóknara í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 26. gr. laganna.

Samkvæmt g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 er dómari vanhæfur til að fara með mál ef fyrir eru hendi atvik eða aðstæður sem fallnar eru til þess að draga megi óhlutdrægni hans með réttu í efa. Í 1. mgr. 26. gr. laganna segir að sömu kröfur séu gerðar til saksóknara um sérstakt hæfi þeirra og gerðar eru til dómara. Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna skjólstæðings síns og veita honum aðstoð í málinu, þar á meðal að setja fram einkaréttarkröfur samkvæmt XXVI. kafla laga nr. 88/2008, sbr. 45. gr. laganna. Ágreiningslaust er að saksóknari og réttargæslumaður brotaþola hafa þekkst lengi og á milli þeirra eru vinatengsl, en slík tengsl valda ekki vanhæfi saksóknara, nema sýnt sé fram á að vinatengslin séu með þeim hætti að hætta sé á að saksóknari geti ekki talist óhlutdrægur, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2007 í máli nr. 57/2007. Ekkert hefur komið fram í málinu sem hnígur í þá átt og ekki hefur verið sýnt fram á að fyrir hendi séu aðrar aðstæður eða atvik sem valda því að með réttu hafi mátt draga óhlutdrægni saksóknara í efa.

Í annan stað hefur ákærði byggt kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að vina- og hagsmunatengsl séu milli réttargæslumanns brotaþola og vitnisins D sálfræðings og af þeim sökum geti skýrsla hennar og framburður fyrir dómi ekki talist óhlutdræg í garð ákærða. Í 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 segir að ekki megi skipa eða tilnefna þann verjanda sem gegnt hafi starfi matsmanns, eða kunni að verða kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í máli ellegar sé að öðru leyti svo viðriðinn mál eða aðila að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna sakbornings sem skyldi. Í 44. gr. laga nr. 88/2008 kemur fram að ákvæði 33. gr. laganna gildi um tilnefningu, skipun og hæfi réttargæslumanns. Þannig verður stöðu verjanda sakbornings og réttargæslumanns brotaþola að nokkru leyti jafnað saman, en ekkert þeirra atriða sem greinir í 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008, getur átt við um réttargæslumann brotaþola í máli þessu.

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn. Dómurinn metur því, með hliðsjón af atvikum öllum, hvert sé sönnunargildi skýrslu og framburðar ofangreinds vitnis, en ætluð vina- og hagsmunatengsl vitnisins og réttargæslumanns brotaþola varða með vísan til framangreinds ekki ómerkingu hins áfrýjaða dóms.

Samkvæmt þessu verður kröfu ákærða um ómerkingu og frávísun málsins frá héraðsdómi hafnað.

III

Ákærði hefur játað að hafa sent brotaþola þau skilaboð sem í ákæru greinir, en kvað að um grín hafi verið að ræða. Að virtu orðalagi þeirra og í því samhengi sem þau voru sett fram, er ekkert sem bendir til annars en að þau hafi öll verið af kynferðislegum toga og á það einnig við um þau skilaboð sem 5. liður ákæru lýtur að. Skilaboðin voru ítrekuð og til þess fallin að vekja ótta hjá brotaþola. Ákærði er því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem í ákæru greinir sem varðar við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að ásetningur ákærða var einbeittur og hann lét ekki af þeirri háttsemi sem ákært er fyrir þótt hann vissi að brotaþola liði illa vegna hennar. Brotaþoli tengist ákærða fjölskylduböndum og bar til hans trúnaðartraust. Ákærða var kunnugt um að brotaþoli hafði glímt við margvíslega erfiðleika í sínum uppvexti og stóð því höllum fæti. Af gögnum málsins verður ráðið að afleiðingar brota ákærða voru mjög alvarlegar. Með vísan til 1., 2. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 gr. og 3. mgr. 70. gr. laganna, verður staðfest sú refsing sem ákærða var gerð með hinum áfrýjaða dómi.

Eins og að framan er rakið var háttsemi ákærða ófyrirleitin og til þess fallin að valda brotaþola miklum miska, en hún var fimmtán og sextán ára þegar brot ákærða áttu sér stað. Að því virtu og að teknu tilliti til gagna málsins um afleiðingar háttsemi ákærða verður staðfest ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu brotaþola. Ákvæði héraðsdóms um málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði verður staðfest.

Ákærði hefur krafist lækkunar á þeirri þóknun er réttargæslumanni brotaþola var dæmd með hinum áfrýjaða dómi. Við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns verður að líta til hlutverks réttargæslumanns brotaþola og umfangs málsins í þágu hennar, svo sem mótun og framsetningu kröfugerðar um bætur, sbr. dóm Hæstaréttar 9. nóvember 2000 í máli nr. 290/2000. Kröfugerð réttargæslumanns í héraði varð óþarflega umfangsmikil, þegar tekið er mið af sakargiftum og umfangi málsins. Framangreind sjónarmið verða höfð í huga við ákvörðun þóknunar réttargæslumanns í héraði, svo sem hún verður nánar ákveðin í dómsorði, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, X, og einkaréttarkröfu A.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að þóknun réttargæslumanns brotaþola í héraði, Páleyjar Borgþórsdóttur héraðsdómslögmanns, skal vera 744.000 krónur.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 908.506 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 248.000 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Ég er samþykkur niðurstöðu meirihluta dómenda að ekki séu komin fram næg atriði um vanhæfi saksóknara eða réttargæslumanns þannig að fallast beri á kröfu ákærða um frávísun málsins frá héraði.

Eins og greinir í atkvæði meirihluta dómenda er sannað að ákærði viðhafði þau samskipti við brotaþola sem um ræðir í ákæru.

Samkvæmt 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 skal sá sem gerist sekur um kynferðislega áreitni sæta fangelsi allt að 2 árum. Í ákvæðinu segir að slík áreitni felist „m.a. í því að strjúka, þukla eða káfa á kynfærum eða brjóstum annars manns innan klæða sem utan, enn fremur í táknrænni hegðun eða orðbragði sem er mjög meiðandi, ítrekað eða til þess fallið að valda ótta.“ Samkvæmt ákvæðinu er nægilegt til sakfellingar að háttsemi hafi hlutrænt séð verið til þess fallin að valda brotaþola, sem var barn að aldri, ótta. Verður háttsemi ákærða því felld undir ákvæðið, en um er að ræða samhverft brot. Samkvæmt þessu og að virtum atvikum máls tel ég refsingu ákærða eiga að vera fangelsi í tvo mánuði, sem binda skal skilorði líkt og gert er í atkvæði meirihlutans.

Þá er ég sammála meirihlutanum um fjárhæð miskabóta og sakarkostnað, en samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er þó rétt að fjórðungur sakarkostnaðar vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti falli á ríkissjóð.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 12. nóvember 2014.

                Mál þetta, sem tekið var til dóms þann 17. september sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 8. apríl 2014, á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...]

„fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa á árinu 2012 ítrekað í samskiptum við A, kennitala [...], áreitt hana með kynferðislegu orðbragði sem hér greinir:

1.       Um sumarið ítrekað haft á orði við hana, m.a. með smáskilaboðum þann 27. júní, að færi hún úr að ofan fengi hún að aka bifreið hans, en ákærði var [...].

2.       Þann 3. janúar á samskiptasíðunni Facebook skrifað: „Ég skal kyssa þig á  kinnina fyrir“, „rasskinnina“ og „Það gildir ekki þegar þú fórst úr að ofan og það leið yfir mig.“

3.       Þann 10. janúar á samskiptasíðunni Facebook skrifað: „Ég nudda þig þá bara í sturtunni“.

4.       Þann 16. janúar á samskiptasíðunni Facebook skrifað: „og ég er mjög glaður“, „graður átti þetta að vera“. Einnig skrifað „Þú ert lítil greddupadda“.

5.       Þann 5. júní á samskiptasíðunni Facebook skrifað: „Nema þú verðir ber að ofan“.

6.       Þann 12. júlí sent henni smáskilaboðin „Ok ég verd ta bara ad sætta mig flass i stadinnog Tu ert bara svo sjodandi heit...“.

7.       Þann 16. október á samskiptasíðunni Facebook spurt hvort hún væri í fötum, sagt að hún sé „svo hott, hvort hún myndi vilja byrja með honum og að hún hefði skyldum að gegna sem kærasta hans. Einnig að hann myndi gera allt fyrir hana ef hún færi úr fötum, skipað henni að fara úr að ofan og neðan og spurt hvort hann mætti sjá rassinn.

Telst háttsemi ákærða varða við 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 88/2000 (svo).

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kennitala [...] og C, kennitala [...], f.h. ólögráða dóttur sinnar A, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. janúar 2012 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun vegna réttargæslu úr hendi ákærða samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun“.

             Ákærði gerir þá kröfu aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins og jafnframt að bótakröfu verði vísað frá dómi. Til þrautavara er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og bætur verði í því tilviki lækkaðar. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna úr ríkissjóði.

Málavextir.

                 Með bréfi dagsettu 22. nóvember 2012 sendi fjölskyldu- og fræðslusvið [...] kæru til lögreglu vegna gruns um að ákærði hefði áreitt A, brotaþola í máli þessu, með kynferðislegum hætti, en hún er fædd 30. ágúst 1996. Kemur fram í kærunni að málið hafi fyrst komið til athugun barnaverndarnefndar í janúar 2012 þegar brotaþoli hafi greint frá því að ákærði, sem giftur sé móðursystur hennar, hafi í desember árið 2011 fengið óþægilega tilfinningu varðandi samskipti sín við ákærða. Hafi brotaþoli heimsótt ákærða í 2-3 skipti á vinnustað hans og í eitt skiptið hafi hann boðist til að taka af henni myndir og hafi hún samþykkt það. Undir lok myndatökunnar hafi hann farið að nudda á henni axlir og fætur. Hafi brotaþola fundist það óþægilegt og næsta dag hafi ákærði leyft henni að keyra og beðið hana um að segja ekki frá nuddinu þar sem það gæti misskilist. Þann 19. janúar 2012 hafi ákærði boðið brotaþola í myndatöku á heimili sínu og þegar hún hafi haft fataskipti hafi henni fundist myndbandsupptökuvél vera í gangi. Hún kvaðst eftir myndatökuna hafa tekið minniskortið úr vélinni og skoðað það en þar hafi ekkert verið nema gamalt efni. Hafi ákærði haft samband við hana næsta dag og sagt henni að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að hann tæki hana upp. Faðir ákærðu hafi skoðað myndavél ákærða og hafi hann talið hana bilaða og ekki mögulegt að nota hana til upptöku. Brotaþoli hafi þó verið sannfærð um að ákærði hefði tekið upp myndband af henni og hafi henni liðið illa yfir því. Þann 7. júlí 2012 hafi brotaþoli skýrt sálfræðingi frá því að ákærði væri að leyfa henni að keyra og hefði í einhver skipti beðið hana um að sýna sér brjóstin í staðinn. Hafi brotaþoli tekið þessu sem gríni en fundist þetta óþægilegt og alltaf neitað beiðninni. Móðir brotaþola hafi sagt ákærða oft láta svona, systir brotaþola hefði einnig upplifað þetta og tækju þær hann ekki alvarlega. Hafi móðir brotaþola ekki viljað gera meira úr málinu. Í viðtali þann 13. júlí sama ár hafi brotaþoli sýnt sálfræðingi SMS skilaboð frá ákærða sem talin voru af kynferðislegum toga. Hafi brotaþoli skýrt frá versnandi líðan og þá hafi farið að bera á áhættuhegðun. Hafi starfsmenn barnaverndaryfirvalda lagt til að málið yrði kært til lögreglu og farið yrði í könnunarviðtal í Barnahúsi en brotaþoli og foreldrar hennar hafi lagst gegn því. Hafi verið gerð áætlun þar sem gert yrði ráð fyrir áframhaldandi viðtölum sálfræðings við brotaþola og myndu foreldrar brotaþola taka ábyrgð á því að hún hefði engin samskipti við ákærða ein síns liðs. Héldi ákærði áfram að áreita brotaþola yrði málið kært til lögreglu. Hafi mátt greina bætta líðan hjá brotaþola undir haust en í október sama ár hafi aftur farið að bera á vanlíðan hjá henni. Hafi einkennin reynst alvarlegri en áður, hún hafi skorið sig í hendur og fætur, sofið illa, matarlyst hafi  minnkað og hafi hún grennst talsvert. Þann 7. nóvember sama ár hafi brotaþoli sýnt sálfræðingi Facebook samskipti sín við ákærða og að mati starfsmanna barnaverndar komi fram upplýsingar sem bendi til þess að um grófa kynferðisleg áreitni sé að ræða og jafnvel tilraunir til tælingar.

                Brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi þann 4. desember 2012 og skýrði svo frá að ákærði hefði í samskiptum við hana á Facebook talað um að hún ætti að fara úr fötunum og þá hafi hann alltaf verið að segja henni að hún væri alltaf að fróa sér. Þá hafi hann spurt hvort hann mætti „joina“ og einnig spurt hvort hún vildi verða kærastan hans. Hún kvaðst eftir þetta hafa lokað á samskiptin við hann en opnað fyrir þau aftur eftir að talað hefði verið við hann tvisvar og hann lofað öllu fögru og hafi hún haldið að hann væri hættur að vera svona dónalegur. Þá hafi ákærði verið að reyna að fá hana á rúntinn og leyfa henni að keyra ef hún sýndi honum brjóstin. Hún kvaðst ekki hafa gert það en samt fengið að keyra. Brotaþoli kvaðst hafa verið pirruð út í ákærða en ekki beint hrædd við hann.

                Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu þann 22. febrúar 2013 og kannaðist við að hafa átt þau samskipti við brotaþola sem mál þetta snýst um. Um hafi verið að ræða ákveðið samskiptamál þeirra á milli sem þróast hafi á rangan hátt. Hafi hann gert sér fulla grein fyrir því að hann hafi verið að biðja brotaþola um að gera hluti sem ekki hafi átt að gera. Hann kvað þessi samskipti ekki hafa verið af kynferðislegum toga og hafi hann verið að grínast.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

                 Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann kannaðist við að hafa sent brotaþola þau skilaboð er í ákæru greinir, annars vegar með smáskilaboðum og hins vegar á Facebook. Ákærði kvað ekki um kynferðislega áreitni að ræða, um væri að ræða málfar sem þekkist innan fjölskyldu brotaþola, m.a. tali móðir hennar á þessum nótum og sé um grín að ræða. Hann kvað brotaþola ekki hafa látið í ljós að henni liði illa út af þessu enda hafi hún þekkt slíkan húmor. Þá hafi hún að einhverju leyti tekið þátt í samskiptum af þessu tagi, bæði á Facebook og þeirra á milli. Þá ætti hún til að grípa um brjóstin á sér án þess að vera beðin um það. Ákærði kvað nú hugsanlegt að ekki hafi verið um viðeigandi háttsemi af hans hálfu að ræða en á þessum tíma hafi honum ekki fundist neitt athugavert við þessi samskipti. Ákærði kvaðst ekki hafa litið á brotaþola sem kynveru. Ákærði kvað það hafa verið nefnt við sig í janúar 2012 að hann hafi verið að taka af henni myndband er hún hafi verið að skipta um föt. Þarna hafi verið um misskilning að ræða, myndavélin hafi ekki verið í gangi. Ákærði mundi ekki hver nefndi þetta við hann, en hann mundi ekki eftir því að hafa rætt þetta við brotaþola. Hann kvað málið hafa verið klárað á þann hátt að henni hafi verið gerð grein fyrir því að myndavélin hafi ekki verið stillt á upptöku. Hann kvað ekki hafa verið rætt við sig um brotaþola fyrr en í október eða nóvember 2012 og hann kannaðist ekki við að talað hafi verið við hann þá um sumarið um líðan brotaþola. Hann kvað það ekki hafa hvarflað að sér fyrr að um óviðeigandi samskipti af hans hálfu gagnvart brotaþola hafi verið að ræða. Ákærði skýrði skilaboðin sem rakin eru í 5. tölulið ákærunnar þannig að brotaþoli hafi verið á leið í myndatöku til hans og hafi hann átt við að myndatakan yrði í lagi, nema hún yrði ber að ofan. Ákærði ítrekaði að aldrei hafi fylgt hugur máli þegar hann hafi beðið brotaþola um að fara úr að ofan.

                Brotaþoli skýrði svo frá fyrir dómi að 19. janúar 2012 hafi málið byrjað með myndbandsupptöku ákærða af henni, en það mál hafi verið klárað strax. Samskiptin sem verið hafi fyrr í janúar hafi hún talið að væri fíflagangur í ákærða. Seinna hafi ákærði beðið hana um að flassa þegar þau hafi verið að keyra, hún hafi átt að sýna honum brjóstin gegn því að fá að keyra. Reynt hafi verið að stöðva ákærða en það ekki tekist. Í þriðja skiptið hafi þetta byrjað aftur og farið versnandi. Hafi hann talað um hvað hann væri góður í rúminu og þá hafi hann talað um að hún væri alltaf að fróa sér. Henni hafi fundist ákærði tala við hana á kynferðislegum nótum og kvaðst hún hafa beðið hann um að hætta því. Vitnið mundi ekki hvenær það var. Hún kvað sér hafa liðið mjög illa meðan á þessu stóð og hefði hún verið í sjálfsvígshættu og verið lögð inn á BUGL (barna- og unglingageðdeild). Þá kvaðst hún ekki hafa fengið stuðning frá fjölskyldu sinni. Hún kvað sér hafa liðið illa áður en þetta kom til, faðir hennar hafi ekki staðið sig og einnig hafi kennarar lagt hana í einelti. Hún kvaðst hafa litið á ákærða sem föðurímynd en hann hafi meira verið til staðar en faðir  hennar. Hún kvað ákærða oft hafa komið að [...] þar sem hún hafi verið að vinna og hafi henni verið sagt að hann kæmi þangað oftar eftir að hún hafi byrjað þar. Borin voru undir brotaþola þau samskipti sem lýst er í 7. tölulið ákærunnar og kvað hún sér hafa fundist þau ógeðsleg og taldi hún tilgang ákærða með þeim hafa verið að ná sér í rúmið og halda fram hjá frænku hennar í leiðinni.

                Vitnið D sálfræðingur skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hafi greint frá samskiptum sínum við ákærða í lok janúar 2012. Hún hafi verið þess fullviss að ákærði hefði tekið af henni myndband þegar hún hafi verið að skipta um föt. Hafi henni ekki liðið vel með þetta. Henni hafi farið að líða betur undir vorið en í júlí sama ár hafi hún komið aftur og skýrt frá því að hún væri að fara í bíltúra með ákærða og væri hann að biðja hana um að fara úr að ofan gegn því að fá að keyra. Stuttu seinna hafi hún sýnt vitninu SMS skilaboð sem farið hefðu á milli hennar og ákærða. Í september sama ár hafi líðan hennar versnað, hún hafi farið að skera sig og hafi henni þá verið vísað á BUGL. Stuttu eftir þetta hafi hún skýrt frá því að hún væri enn í samskiptum við ákærða og liði henni illa með það. Eftir að Facebook samskiptin við ákærða hafi komið upp hafi hún haft verulegar áhyggjur af brotaþola, hún hafi verið í verulegri sjálfsvígshættu og hafi verið óskað eftir neyðarvistun á BUGL fyrir hana. Hún kvað brotaþola hafa verið í meðferð hjá sér eftir þetta og allt árið 2013. Vitnið kvað engan vafa leika á því að vanlíðan brotaþola mætti rekja til samskiptanna við ákærða. Brotaþoli hafi verið í stöðugu álagi frá fjölskyldu sinni, átt hafi að leiða hana og ákærða saman og hafi hún átt að fyrirgefa honum. Vitnið kvað brotaþola líða betur nú og hafi hún farið í fóstur og fljótlega eftir það hafi líðan hennar batnað. Vitnið kvaðst hafa komið að máli þessu sem skólasálfræðingur, þar sem brotaþoli hafi verið í greiningu  hjá henni, en ekki sem starfsmaður barnaverndarnefndar. Vitnið kvaðst hafa fengið þær upplýsingar frá móður brotaþola að hún hefði rætt við ákærða og látið hann vita um líðan brotaþola. Aðspurð af verjanda ákærða kvaðst vitnið vera góð vinkona réttargæslumanns brotaþola.

                Vitnið E yfirfélagsráðgjafi skýrði svo frá fyrir dómi að mál brotaþola hafi fyrst komið til barnaverndarnefndar vegna hugsanlegrar myndbandsupptöku ákærða af brotaþola í janúar 2012. Því máli hafi lokið fljótlega þar sem talið hafi verið að um misskilning hafi verið að ræða. Um sumarið eftir hafi hafi komið í ljós SMS samskipti ákærða við brotaþola og hafi málið þá verið opnað. Vegna afstöðu brotaþola og móður hennar hafi þá verið fallið frá því að kæra til lögreglu. Í október og nóvember hafi Facebook samskipti ákærða við brotaþola komið í ljós og hafi þá verið ákveðið að kæra málið til lögreglu. Hún kvað móður brotaþola hafa sagt að hún hafi rætt við ákærða um þetta í janúar 2012 og aftur um sumarið en hún hafi tekið fram að hún hafi ekki sagt honum þá að málið væri komið aftur til barnarverndarnefndar og þá hafi brotaþola fundist erfitt að ræða málið við foreldra sína þar sem málið hefði valdið uppnámi í fjölskyldunni. Hafi ákærði þá lofað að hætta þessum samskiptum.

                Vitnið B, faðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hann hafi fengið vitneskju um málið um mitt sumar 2012 og kvað hann móður brotaþola hafa tjáð sér að hún hefði talað við ákærða og hefðu samskiptin þá hætt. Um haustið hefði þetta byrjað aftur og þá hefðu það verið Facebook samskipti. Hann kvaðst hafa rætt við ákærða eftir að brotaþoli  hefði farið á BUGL og hefði ákærði sagt að hann sæi eftir þessu og gætu þau kært ef þau vildu og hafi ákærði viljað að þetta gengi hratt fyrir sig. Hann kvað brotaþola hafa verið langt niðri um haustið og hafi lítið mátt tala við hana. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um hugsanlega myndatöku ákærða af brotaþola í janúar fyrr en honum hafi verið sagt frá því síðar. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í miklum samskiptum við brotaþola áður en mál þetta kom upp, en hann hefði verið í miklum samskiptum við hana eftir það. Hann kvað líðan hennar miklu betri eftir að hún hafi flutt upp á land.

                Vitnið F skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi unnið með brotaþola í versluninni [...] í [...]. Hún kvað ákærða eitt sinn haustið 2012 hafa gengið inn í verslunina og hafi brotaþoli þá stífnað upp, frosið og fölnað í framan. Hún kvað brotaþola hafa sagt henni hluta af því sem hefði verið í gangi, ákærði hefði verið að áreita hana. Hafi verið greinilegt að brotaþola liði mjög illa. Hann væri að hennar sögn oft að mæta í vinnuna til hennar og liði henni illa útaf af því. Hún kvaðst hafa orðið vör við að brotaþoli væri að skaða sjálfa sig og kvaðst hún hafa þurft að gera ráðstafanir til að fela blöð í sköfur sem talið var að brotaþoli væri að taka.

                Vitnið C, móðir brotaþola, skýrði svo frá fyrir dómi að hún hafi fyrst vitað af máli þessu í janúar 2012 þegar haldið var að ákærði hefði tekið myndband af brotaþola. Kvað hún D hafa sagt sér frá þessu og hefði faðir vitnisins athugað myndavélina og sagt að hún væri ónýt. Brotaþoli hafi hins vegar verið alveg viss um að ákærði hefði tekið myndband af henni á meðan hún skipti um föt. Vitnið hélt að hún hefði ekki rætt við ákærða um þetta, en hélt að faðir vitnisins hefði gert það. Um sumarið hefði komið í ljós að ákærði hefði verið í SMS samskiptum við brotaþola og væri hún farin að skera sig. Hún kvaðst ekki hafa verið tilbúin til að kæra ákærða en kvaðst hafa rætt við hann og spurt hvort hann væri ekki til í að hætta þessu. Hafi hann tekið því vel og sagt það ekkert mál og hafi hún þá haldið að þetta væri búið. Vitnið kvaðst hafa séð einhver Facebook eða SMS samskipti brotaþola við ákærða og hafi henni fundist ákærði hafa farið yfir strikið. Hún kvað brotaþola hafa falið fyrir sér að hún væri farin að skera sig en hún hefði komist að því um haustið. Um haustið hafi D kallað á hana á fund og hafi hún þá séð samskiptin á milli ákærða og brotaþola sem henni hafi fundist heldur gróf og í framhaldi af því hafi brotaþoli verið lögð inn á BUGL og lögð hafi verið fram kæra á hendur ákærða.  Vitnið kannaðist ekki við að samskiptamátinn í fjölskyldunni væri klúr eða á kynferðislegum nótum. Hún kvað talsmáta ákærða í samskiptunum við brotaþola hafa komið sér á óvart, hann hafi aldrei talað á þessum nótum við fólk.

                Vitnið G skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði komið í fóstur til hennar að [...] í [...] í október eða nóvember 2013. Hafi henni verið sagt að um væri að ræða stúlku sem orðið hefði fyrir kynferðislegri áreitni og hefði ekki stuðning heima fyrir. Hafi verið bent á það að brotaþoli hafi verið að skaða sig og hafi þurft að fylgjast með því. Engin vandræði hafi fylgt brotaþola og eftir áramót hafi hún farið í skóla. Hún kvaðst fyrst hafa merkt stress hjá henni og þá hafi hún talað um að hún vildi ekki fara til [...], en faðir hennar hafi staðið með henni. Hún hafi rætt um að hún hafi viljað taka líf sitt og þá hafi hún smátt og smátt lýst áreitni af hálfu ákærða í hennar garð.

                Vitnið H, eiginkona ákærða, skýrði svo frá fyrir dómi að tekin hafi verið mynd af ákærða, tveimur börnum þeirra og brotaþola þegar verið var að bera út blað og hafi brotaþoli verið ánægð með það og sett hana á Facebook. Vitnið kannaðist ekki við að hafa beðið brotaþola að sitja fyrir á þessari mynd. Vitnið kvað ákærða hafa sérstakan húmor, klámfenginn aulahúmor. Þá væru brotaþoli og móðir hennar klámfengnar. Hún kvað enga alvöru á bak við þennan talsmáta ákærða. Hún kannaðist ekki við að brotaþoli hefði litið á ákærða sem föðurímynd en hún hefði sótt mikið í hann.

                Vitnið I skýrði svo frá fyrir dómi að brotaþoli hefði nánast engin samskipti haft við föður sinn og hafi hún verið reið út í hann. Hún hafi verið kát stelpa en alltaf átt erfitt í skóla og átt erfiða ævi. Vitnið mundi eftir grunsemdum um að ákærði hefði tekið myndband af brotaþola meðan hún hafi verið að skipta um föt. Hún kvað hafa verið gengið úr skugga um að engar myndir hefðu verið teknar. Vitnið kvað C systur sína oft blóta og vera með kjaft og væri brotaþoli vön þessu. Þá kvaðst hún ekki hafa orðið vör við klámfengið tal af hálfu ákærða. Hún kannaðist ekki við að brotaþoli hafi litið á ákærða sem föðurímynd, það ætti frekar við um eiginmann vitnisins. Hún kvað brotaþola ekki hafa rætt við vitnið um samskipti sín við ákærða og ekki hafa rætt um að henni liði illa af þeim sökum, en hún hafi talað um að henni liði illa út af föður sínum.

                Vitnið J, félagsráðgjafi, skýrði svo frá í símaskýrslu fyrir dómi að brotaþoli hafi verið á BUGL frá 16. nóvember 2012 til 4. desember sama ár. Frá 21. mars 2013 hafi hún komið á göngudeildina. Ástæða komu hennar hafi verið mjög mikil vanlíðan, sjálfskaðahætta og áfallaeinkenni vegna langvarandi kynferðislegs ofbeldis. Þá hafi hún verið stanslaust í aðstæðum þar sem þess hafi verið krafist að hún væri í samskiptum við geranda. Hún kvað hafa komið fram hjá brotaþola að hinn ætlaði gerandi væri mágur móður brotaþola. 

Niðurstaða.         

                Verjandi ákærða krafðist þess við upphaf munnlegs málflutnings að máli þessu yrði vísað frá dómi. Byggir verjandi þessa kröfu á því að saksóknari í máli þessu hafi verið vanhæfur til að gefa út ákæru í málinu og er sú krafa byggð á 1. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. g-lið 1. mgr. 6. gr. laganna og 5. mgr. 26. gr. laganna. Telur verjandinn vinatengsl vera milli sækjanda og réttargæslumanns brotaþola, hann hafi t.d. upplýsingar um að þær gisti hvor hjá annarri. Þá telur verjandi tímaskýrslu réttargæslumanns benda til óeðlilega mikilla samskipta við sækjanda. Hafi sækjandinn, vinkona réttargæslumannsins, látið undan og gefið út ákæru í málinu. Þá hafi vitnið D ekki verið hæf til að bera vitni í málinu vegna vinskapar við réttargæslumann, en hún sé æðsti yfirmaður D sem formaður [...].

                Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 skal ríkissaksóknari víkja sæti ef hann er vanhæfur til að fara með mál sem dómari skv. 6. gr. laganna. Í þeirri lagagrein eru talin upp þau tilvik þar sem dómari er vanhæfur til að fara með mál og samkvæmt g-lið lagagreinarinnar skal dómari víkja sæti ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa. Samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laganna skal dómari, eftir að ákæra hefur verið gefin út, annaðhvort að eigin frumkvæði eða samkvæmt kröfu aðila, vísa máli frá dómi ef hann telur að ákærandi hafi verið vanhæfur til að höfða málið. 

                Þau tengsl sem upplýst er í máli þessu að eru á milli réttargæslumanns brotaþola og sækjanda og vitnisins D eru fjarri því að mati dómsins að vera þess eðlis að draga megi óhlutdrægni sækjanda í efa og verður frávísunarkröfu verjanda ákærða því hafnað.

                Óumdeilt er í máli þessu að ákærði átti þau samskipti við brotaþola á samskiptasíðunni Facebook og með smáskilaboðum á árinu 2012 svo sem greinir í ákæru, en á þessum tíma var brotaþoli 15 og 16 ára.  Ákærði kvað ekki um kynferðislega áreitni að ræða, um væri að ræða málfar sem þekkist innan fjölskyldu brotaþola og sé um grín að ræða. Brotaþoli hafi ekki látið í ljós að henni liði illa út af þessu enda hafi hún þekkt slíkan húmor. Brotaþoli hefur lýst því að í fyrstu hafi hún talið að um fíflagang í ákærða hafi verið að ræða en síðar hafi henni fundist ákærði tala við hana á kynferðislegum nótum og kvaðst hún hafa beðið hann um að hætta því. Henni hafi liðið mjög illa meðan á þessu stóð, hún hefði verið í sjálfsvígshættu og verið lögð inn á barna- og unglingageðdeild. Vitnið D kvað engan vafa leika á því að vanlíðan brotaþola mætti rekja til samskiptanna við ákærða. Hún hafi verið í stöðugu álagi frá fjölskyldu sinni og hafi átt að leiða hana og ákærða saman og hafi hún átt að fyrirgefa honum. Brotaþoli hefur verið í fóstri að [...] í [...] undanfarið ár og hefur komið fram að henni líði mun betur nú.

                Ákærði hefur skýrt þau ummæli sem 5. liður ákæru lýtur að með þeim hætti að brotaþoli hafi verið á leið í myndatöku til hans og hafi hann átt við að myndatakan yrði í lagi, nema hún yrði ber að ofan. Fallast ber á það sjónarmið ákærða að í þessum ummælum hafi ekki falist kynferðisleg áreitni og verður hann sýknaður af þessum ákærulið.

                Önnur ummæli ákærða sem í ákæru greinir beindust gegn brotaþola sem var barn að aldri, þau voru ítrekuð og hlaut ákærða að vera ljóst að í þeim fólst kynferðislegt orðbragð sem var til þess fallið að valda brotaþola ótta. Sú vörn ákærða að um grín hafi verið að ræða leysir hann engan veginn undan sök. Hefur ákærði með þessari háttsemi sinni brotið gegn 199. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Samkvæmt framlögðu sakavottorði hefur ákærði ekki áður sætt refsingu.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber að hafa í huga að brot hans beindust gegn stúlkubarni sem tengdist honum fjölskylduböndum og brást hann trúnaðartrausti brotaþola, en hún hefur lýst því að ákærði hafi verið föðurímynd hennar. Þá verður af framburði vitna í máli þessu ráðið að brot ákærða höfðu alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola, hún var lögð inn á barna- og unglingageðdeild og í framhaldi af því hefur hún verið í fóstri.

Með hliðsjón af öllu framansögðu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Forráðamenn brotaþola lögðu fram bótakröfu í málinu en brotaþoli hefur nú náð 18 ára aldri og er því fjár síns ráðandi. Krafist er miskabóta að fjárhæð 1.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum og er krafan þannig rökstudd að um sé að ræða brot sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 50/1993. Þegar kynferðisbrot séu framin verði fórnarlömbin ávallt fyrir miskatjóni og beri að ákvarða bætur fyrir miskann eftir því sem sanngjarnt þykir. Við mat á fjárhæð beri að líta til þess hversu alvarlegt brotið sé, hvert sakarstig brotamanns sé, hver huglæg upplifun brotaþolans sé og loks til umfangs tjónsins. Um hafi verið að ræða kynferðislega áreitni þar sem ákærði hafi viðhaft orðbragð sem hafi verið mjög meiðandi, ítrekað og valdið brotaþola ótta. Ákærði hafi verið 36 ára þegar hann hafi brotið gegn 15 ára gamalli systurdóttur eiginkonu sinnar, en fjölskyldutengslin geri brotin enn alvarlegri en ella þar sem brotaþola hafi verið gert erfitt fyrir að útiloka ákærða úr lífi sínu. Ásetningur ákærða hafi verið mikill og einbeittur, brotin hafi verið framin á löngum tíma og hafi hann sýnt einbeittan vilja til að brjóta á brotaþola. Í vottorði sálfræðings komi fram að vaxandi depurð og kvíði, minnkuð félagsleg virkni, sjálfskaðandi hegðun og sjálfsvígshugsanir megi rekja til samskiptanna við ákærða og hafi veikt mótstöðu hennar gagnvart öðrum erfiðleikum.

Í vottorði D og E frá 7. maí sl. kemur fram að brotið sem brotaþoli hafi orðið fyrir og afleiðingar þess innan fjölskyldunnar hafi valdið henni miklu álagi og leitt til vanlíðanar. Það hafi haft verulega raskandi áhrif á félagslega stöðu hennar og orðið þess valdandi að nauðsynlegt hafi verið að vista hana fjarri fjölskyldu sinni. Það hafi jafnframt sýnt sig að með réttum úrræðum og stuðningi sýni brotaþoli miklar framfarir og mun betri líðan. Fyrirsjáanlegt sé að brotaþoli þurfi áframhaldandi stuðning í framtíðinni og hafi þegar verið rætt um möguleikann á framlengingu fósturs eftir 18 ára aldur.

Að mati dómsins leikur enginn vafi á því að ákærði hefur valdið brotaþola miska sem honum ber að bæta með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1993. Þykja bætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 600.000 krónur og bera þær vexti eins og í dómsorði greinir.

Þá ber með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 1.300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað lögmannsins, 79.312 krónur. Þá ber ákærða að greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl., vegna vinnu hennar í þágu brotaþola við rannsókn og dómsmeðferð málsins, sem samkvæmt tímaskýrslu lögmannsins nemur alls 94 og hálfri klukkustund, eða 1.148.325 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað lögmannsins, 51.000 krónur.

 Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.

Dómsorð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði en fullnustu refsingarinnar skal frestað og skal hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 Ákærði greiði A, kt. [...], 600.000 krónur ásamt vöxtum skv. 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 19. janúar 2012 til 13. júlí 2013, en með dráttarvöxtum frá þeim degi skv. 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Björgvins Þorsteinssonar hrl., 1.300.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað lögmannsins, 79.312 krónur og þá greiði ákærði einnig þóknun réttargæslumanns brotaþola, Páleyjar Borgþórsdóttur hdl., 1.148.325 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað lögmannsins, 51.000 krónur.