Hæstiréttur íslands

Mál nr. 407/2005


Lykilorð

  • Dánarbú
  • Dánarbeðsgjöf
  • Lífsgjöf


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2006.

Nr. 407/2005.

Dánarbú Þórarins Gunnlaugssonar

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

gegn

Grétari Þórarinssyni

Jónu Guðjónsdóttur

Guðjóni Grétarssyni

Elísabetu Þórarinsdóttur og

(Björgvin Þorsteinsson hrl.)

Sparisjóði Vestmannaeyja

(Sigurður Jónsson hrl.)

og

Grétar Þórarinsson

Jóna Guðjónsdóttir

Guðjón Grétarsson og

Elísabet Þórarinsdóttir

gegn

dánarbúi Þórarins Gunnlaugssonar

 

Dánarbú. Dánarbeðsgjöf. Lífsgjöf.

Dánarbú Þ krafðist greiðslu úr hendi nokkurra erfingja Þ vegna nánar tilgreindra ráðstafana Þ. Sýknað var vegna fjárhæða sem Þ tók sjálfur út af reikningi sínum með aðstoð J, og ráðstafaði til GÞ, GG og E, enda átti sú úttekt sér stað meira en tveimur árum áður en Þ lést og var sannað að hann hafi þá verið heill heilsu og vel áttaður og úttektin verið að hans vilja. Einnig var sýknað af úttektum sem áttu sér stað af reikningi Þ árið 2000 og 2001. D krafðist jafnframt greiðslu á fjárhæð sem GÞ tók út af reikningi Þ í febrúar 2002, þegar Þ lá banaleguna um þremur vikum fyrir andlát hans. Krafan var hvorki á því byggð að Þ hafi á þessum tíma verið orðinn ófær um að taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna sinna, né heldur á því að um væri að ræða dánarbeðsgjöf í skilningi niðurlagsákvæðis 54. gr. erfðalaga. Talið var, að ekki yrði með vissu ráðið af gögnum málsins að þessi ráðstöfun hafi byggst á ákvörðun Þ sjálfs eða að hann hafi vitað um hana og verið samþykkur henni. GÞ hafi við þessar aðstæður borið að tryggja sönnun fyrir því að svo hafi verið. Var umræddur kröfuliður dánarbúsins því tekinn til greina. Þá krafðist dánarbúið greiðslu á fjárhæð vegna innleggs Þ á óbundinn innlánsreikning á nafni GG í febrúar 1999. Í dómi Hæstaréttar er tekið fram að ráðstöfunin hafi komið að fullu til framkvæmda strax þannig að eignarráðin yfir fénu hafi færst til GG með óafturkallanlegum hætti. Var ekki fallist á að um dánargjöf hafi verið að ræða og var sýknað af þessari kröfu búsins.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. september 2005. Hann krefst greiðslu á samtals 9.597.212 krónum úr hendi gagnáfrýjenda og stefnda á eftirfarandi hátt:

1. Gagnáfrýjandanum Jónu Guðjónsdóttur og stefnda, Sparisjóði Vestmannaeyja, verði gert að greiða óskipt aðaláfrýjanda 5.000.000 krónur, þar af 4.000.000 krónur óskipt með gagnáfrýjandanum Guðjóni Grétarssyni, 500.000 krónur óskipt með gagnáfrýjandanum Grétari Þórarinssyni og 500.000 krónur óskipt með gagnáfrýjandanum Elísabetu Þórarinsdóttur, með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og síðar samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2000 til 30. apríl 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

2. Gagnáfrýjandanum Grétari verði gert að greiða aðaláfrýjanda 2.950.000 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 og síðar samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 2.000.000 krónum frá 25. ágúst 2000 til 6. september 2001, af 2.600.000 krónum frá þeim degi til 12. febrúar 2002 og af 2.950.000 krónum frá þeim degi til 30. apríl 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

3. Loks verði gagnáfrýjandanum Guðjóni gert að greiða aðaláfrýjanda 1.647.212 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2004 til greiðsludags.

Þá krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. nóvember 2005. Gagnáfrýjendurnir Elísabet og Jóna krefjast staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þær krefjast málskostnaðar úr hendi aðaláfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnáfrýjendurnir Grétar og Guðjón krefjast sýknu af kröfum aðaláfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi, Sparisjóður Vestmannaeyja, krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í héraðsdómi er gerð grein fyrir ofangreindum þremur kröfuliðum aðaláfrýjanda, sundurliðun þeirra og grundvelli. Fyrri kröfuliðirnir tveir eru, svo sem þar greinir, ýmist á því byggðir að tekið hafi verið fé út af bankareikningi í eigu Þórarins Gunnlaugssonar án fullnægjandi umboðs frá honum eða að heimild hans hafi skort til að ráðstafa fénu til gagnáfrýjenda á þann hátt sem ágreiningslaust er að gert hafi verið. Í engu tilvikanna er byggt á því að Þórarinn hafi vegna aldurs eða veikinda ekki verið hæfur til að ráðstafa fé sínu. Þriðji kröfuliðurinn er svo á því byggður að um hafi verið að ræða dánargjöf og með því að ekki hafi verið gætt ákvæðis 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962 beri að dæma gagnáfrýjandann Guðjón til greiðslu þeirrar fjárhæðar sem þar greinir.

Í héraðsdómi voru gagnáfrýjendur og stefndi sýknaðir af kröfum þeim sem greinir í 1. kröfulið og þeirra hluta 2. kröfuliðar sem gerð er grein fyrir í héraðsdómi undir stafliðunum a. og b. Verða þessar úrlausnir staðfestar með vísan til forsendna héraðsdóms.

Með 2. kröfulið, staflið c. í héraðsdómi, krefst aðaláfrýjandi greiðslu á 350.000 krónum, sem gagnáfrýjandinn Grétar tók út af bankareikningi föður síns 12. febrúar 2002. Krafa þessi er sem fyrr segir ekki á því byggð að Þórarinn heitinn hafi á þessum tíma verið orðinn ófær um að taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna sinna. Hún er heldur ekki reist á því að um sé að ræða dánarbeðsgjöf í skilningi niðurlagsákvæðis 54. gr. erfðalaga, en ráðstöfun þessi var gerð þegar Þórarinn lá banaleguna á sjúkrahúsi tæpum þremur vikum fyrir andlát sitt. Hvað sem þessu líður verður ekki með vissu ráðið af gögnum málsins að þessi ráðstöfun hafi byggst á ákvörðun Þórarins sjálfs eða að hann hafi vitað um hana og verið samþykkur henni. Verður fallist á með héraðsdómi að við þessar aðstæður hafi gagnáfrýjandanum Grétari borið að tryggja sönnun fyrir því að svo hafi verið. Það gerði hann ekki og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um þennan lið í kröfum aðaláfrýjanda.

Með þriðja kröfulið gerir aðaláfrýjandi kröfu um greiðslu á fjárhæð sem sögð er svara til innistæðu á bankareikningi í eigu gagnáfrýjandans Guðjóns, miðað við greiðslu Þórarins heitins inn á þennan reikning 25. febrúar 1999, 1.378.021 krónu, eftir að sú fjárhæð hefur verið framreikuð til jafns við breytingar á vísitölu neysluverðs frá febrúar 1999 til mars 2002, er Þórarinn andaðist. Var í héraðsdómi fallist á með aðaláfrýjanda að um væri að ræða dánargjöf í skilningi 54. gr. erfðalaga og með því að ekki hefði verið gætt formkrafna ákvæðisins var gagnáfrýjandinn Guðjón dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda umkrafða fjárhæð.

Í málinu liggur fyrir að féð var samkvæmt beiðni Þórarins heitins lagt inn á óbundinn innlánsreikning á nafni gagnáfrýjandans Guðjóns í Sparisjóði Vestmannaeyja á árinu 1999. Þessi ráðstöfun kom að fullu til framkvæmda strax þannig að eignarráðin yfir fénu færðust til Guðjóns með óafturkallanlegum hætti. Gat hann þá þegar og án samþykkis Þórarins heitins ráðstafað því að vild. Með vísan til þessa verður ekki fallist á þá úrlausn héraðsdóms að um dánargjöf hafi verið að ræða í skilningi 54. gr. erfðalaga. Verður gagnáfrýjandinn Guðjón því sýknaður af þessari kröfu.

Aðaláfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda, Sparisjóði Vestmannaeyja, málskostnað fyrir Hæstarétti og gagnáfrýjanda, Guðjóni Grétarssyni, málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði greinir. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður málskostnaður milli aðaláfrýjanda og annarra gagnáfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður.

Dómsorð:

Gagnáfrýjandi, Guðjón  Grétarsson, er sýkn af kröfu aðaláfrýjanda, dánarbús Þórarins Gunnlaugssonar, um greiðslu á 1.647.212 krónum með tilgreindum vöxtum. Að öðru leyti er hinn áfrýjaði dómur óraskaður um annað en málskostnað. 

Aðaláfrýjandi greiði stefnda, Sparisjóði Vestmannaeyja, 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda, Guðjóni Grétarssyni, samtals 250.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur að öðru leyti niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. júní 2005.

Mál þetta sem dómtekið var 3. júní sl. var höfðað með birtingu stefnu 1. og 5. júlí 2004.

Stefnandi er Dánarbú Þórarins Gunnlaugssonar, kt. 240613-3289, Skeifunni 11a, Reykjavík.

Stefndu eru Grétar Þórarinsson, kt. 140841-3159, Jóna Guðjónsdóttir, kt. 260944-3049, og Guðjón Grétarsson, kt. 040168-5599, öll til heimilis að Heiðarvegi 45, Vestmannaeyjum, Elísabet Þórarinsdóttir, kt. 271136-3159, Engihjalla 17, Kópavogi, og Sparisjóður Vestmannaeyja, kt. 610269-5839, Bárustíg 15, Vestmannaeyjum.

 

Stefnandi krefst greiðslu á samtals 9.597.212 krónum úr hendi stefndu ásamt vöxtum, endanlega þannig:

 

1.                    Þess er krafist að stefnda, Jóna Guðjónsdóttir og Sparisjóður Vestmannaeyja, verði dæmd til að greiða stefnanda óskipt 5.000.000 krónur, þar af 4.000.000 krónur óskipt með stefnda, Guðjóni Grétarssyni, 500.000 krónur óskipt með stefnda, Grétari Þórarinssyni og 500.000 krónur óskipt með stefndu, Elísabetu Þórarinsdóttur, með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og síðar skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2000 til 30. apríl 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

2.                    Auk ofangreinds er þess krafist að Grétari Þórarinssyni, verði gert að endurgreiða stefnanda 2.950.000 krónur með vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og síðar skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 25. ágúst 2000 til 6. september 2001, en frá þeim degi af 2.600.000 krónum til 12. febrúar 2002, en frá þeim degi af 2.950.000 krónum til 30. apríl 2004, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

3.                    Auk ofangreinds, sbr. 1. lið, er þess krafist að Guðjóni Grétarssyni, verði gert að endurgreiða stefnanda 1.647.212 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2004 til greiðsludags.

 

Þá krefst stefnandi málskostnaðar, þ.m.t. virðisaukaskatts, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. 

 

Stefndu, Grétar Þórarinsson, Elísabet Þórarinsdóttir, Jóna Guðjónsdóttir og Guðjón Grétarsson, krefjast sýknu af öllum kröfum stefndanda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts á dæmdan málskostnað.

Stefndi, Sparisjóður Vestmannaeyja, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst stefndi málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

 

Málsatvik.

             Málavextir eru þeir að 3. mars 2002 andaðist Þórarinn Gunnlaugsson, sem fæddur var 24. júní 1913. Erfingjar hans og konu hans, Jóhönnu Guðrúnar Sigurðardóttur, eru eftirlifandi fjögur börn þeirra, þau stefndu, Elísabet og Grétar, og Sigurður og Þórey. Þórarinn sat í óskiptu búi eftir konu sína, sem lést 14. maí 1987. Fengu Sigurður og Þórey þó móðurarf sinn greiddan á árinu 1995.

Dánarbú Þórarins Gunnlaugssonar var tekið til opinberra skipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 28. nóvember 2002. Við skiptin kom upp ágreiningur á milli erfingja, það er annars vegar Grétars og Elísabetar og hins vegar Sigurðar og Þóreyjar. Var deilt um ráðstafanir hins látna í þágu barnabarns síns, stefnda Guðjóns Grétarssonar, svo og úttektir stefndu Grétars Þórarinssonar og Jónu Guðjónsdóttur, eiginkonu stefnda Grétars, af reikningi Þórarins heitins nr. 1167-05-5001 í Sparisjóði Vestmannaeyja, sem ráðstafað var inn á reikninga stefndu, Grétars, Elísabetar og Guðjóns. Skiptastjóri reyndi að jafna ágreininginn án árangurs.

Í stefnu segir, að frá árinu 1994 hafi nær allir fjármunir hins óskipta bús eða samtals 19.390.257 krónur runnið til stefndu, Grétars, Elísabetar og Guðjóns. Í máli þessu sé krafist greiðslu á u.þ.b. helmingi þeirrar fjárhæðar eða 9.597.212 krónum. Nánar sé um að ræða 3.450.000 krónur sem hafi runnið til stefnda Grétars, 500.000 krónur sem runnið hafi til stefndu Elísabetar og 5.647.212 krónur sem hafi runnið til stefnda Guðjóns.

Samkvæmt málsgögnum og kröfugerð var nánar um eftirfarandi úttektir að ræða og deila aðilar um réttmæti greindra ráðstafana fjárins.

1. Hinn 17. janúar árið 2000 voru teknar 5.000.000 króna út af reikningi Þórarins Gunnlaugssonar, nr. 1167-05-5001. Var úttektinni ráðstafað þannig að 4.000.000 króna voru lagðar inn á reikning í eigu stefnda Guðjóns, 500.000 krónur inn á reikning í eigu stefnda Grétars, og 500.000 krónur inn á reikning í eigu stefndu Elísabetar. Stefnda, Jóna, er tilgreind sem viðskiptamaður á viðskiptakvittun sparisjóðsins og þar kvittar hún fyrir ofangreindar færslur með nafnritun sinni. Á meðfylgjandi útborgunarseðil hefur verið ritað reikningsnúmer, nafn, heimili og kennitala reikningseiganda, svo og úttektarfjárhæð. Seðillinn hefur hins vegar ekki verið undirritaður. Í greinargerð stefndu Grétars, Elísabetar, Jónu og Guðjóns kemur fram að Þórarinn hafi sjálfur fyllt út úttektarseðil en fengið aðstoð Jónu við að fara í bankann og taka út féð þar sem hægri hönd hans var máttlítil, og þar sem hann ók ekki bifreið. Í greinargerð stefnda Sparisjóðs Vestmannaeyja kemur fram að Þórarinn hafi sjálfur komið í afgreiðslu Sparisjóðsins umrætt sinn með úttektarseðil og beðið um að fénu yrði ráðstafað svo sem að ofan greinir. Jóna hafði ekki umboð til að taka út af reikningi Þórarins. Fram kemur í stefnu að Grétar og Elísabet hafi tjáð skiptastjóra að faðir þeirra hafi gefið þeim umrædda fjármuni. Úttektarseðill og viðskiptakvittun úr rafrænu afgreiðslukerfi bankans hafa verið lögð fram í málinu.

2. Hinn 25. ágúst 2000 voru 2.000.000 króna teknar út af reikningi Þórarins Gunnlaugssonar nr. 1167-05-5001, hinn 6. september 2001 600.000 krónur, og hinn 12. febrúar 2002 350.000 krónur.  Þessar fjárhæðir voru allar lagðar inn á reikninga í eigu stefnda Grétars í beinu framhaldi af úttekt. Að því er varðar fyrstu úttektina kvittar stefndi Grétar fyrir úttekt á úttektarseðli sparisjóðsins, sem að öðru leyti virðist útfylltur af Þórarni. Á viðskiptakvittun er hann tilgreindur sem viðskiptamaður. Að því er varðar aðra úttektina kvittar stefndi Grétar fyrir úttekt á viðskiptakvittun, en Þórarinn heitinn er þar tilgreindur sem viðskiptamaður. Þórarinn skrifar aftur á móti undir úttektarseðil, sem að öðru leyti virðist útfylltur af öðrum. Á þriðju viðskiptakvittuninni er Þórarinn tilgreindur sem viðskiptamaður og Grétar skrifar undir, en enginn úttektarseðill liggur frammi. Á þeim tíma sem síðasta úttektin fór fram lá Þórarinn á sjúkrahúsi, en hann lést um þremur vikum síðar. Lagt hefur verið fram umboð Þórarins til Grétars, dagsett 20. ágúst 2000, til þess að taka út af reikningnum, en hann mun ekki hafa haft prókúru á reikninginn. Í greinargerð stefndu er fullyrt að Þórarinn hafi aldrei gert athugasemdir við ráðstafanir á fjármununum. Samkvæmt stefnu tjáði stefndi Grétar skiptastjóra að úttektirnar frá 25. ágúst 2000 og 6. september 2001 hefðu verið gjafir til hans frá Þórarni sem umbun fyrir umönnun í veikindum og ferðir með hann til læknis í Reykjavík.

3. Hinn 25. febrúar 1999 tók Þórarinn Gunnlaugsson sjálfur út 1.378.021 krónu af ofangreindum reikningi sínum og lagði sama dag inn á reikning í nafni stefnda Guðjóns. Að sögn stefnanda var um að ræða sérstakan húsnæðisreikning vegna íbúðar Þórarins að Kleifahrauni 2c. Samkvæmt sérstöku samkomulagi Sparisjóðs Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæjar hafi sparisjóðurinn lánað bæjarsjóði fé til byggingar umræddra íbúða og var um það samið að það yrði sett að skilyrði að viðkomandi legði ákveðna grunnupphæð inn á bundinn reikning hjá sparisjóðnum til að fá úthlutað íbúð. Fjárhæðin hafi átt að vera bundin á meðan viðkomandi íbúi hafði íbúðina til afnota en laus til útborgunar þegar Vestmannaeyjabær leysti íbúðina til sín. Samkvæmt gögnum málsins hafi Vestmannaeyjabær leyst íbúð Þórarins til sín eftir andlát hans. Miðað við breytingar á vísitölu neysluverðs frá febrúar 1999 til mars 2002, þegar fjárhæðin hafi átt að vera laus til útborgunar, hafi hún þá numið 1.647.212 krónum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í málinu var reikningur stefnda Guðjóns ekki bundinn, en hafði þó ekki verið hreyfður.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Af hálfu stefnanda er byggt á eftirfarandi málsástæðum:

1. kröfuliður.

             Að því er varðar kröfu stefnanda á hendur stefndu Jónu byggir stefnandi á því að ósannað sé að stefnda hafi haft heimild tengdaföður síns til að taka 5.000.000 krónur út af reikningi hans hinn 17. janúar 2000 og ráðstafa með þeim hætti sem hún hafi gert. Ljóst sé að stefnda hafi hvorki verið með prókúru á reikninginn né hafi hún getað framvísað skriflegu umboði frá Þórarni til úttekta af reikningnum. Jafnvel þótt stefnda hefði getað framvísað slíku umboði hefði henni borið að sanna að hún hefði haft heimild til að ráðstafa fjármunum tengdaföður síns með áðurgreindum hætti. Telja verði að stefndu hafi verið í lófa lagið að afla sér nauðsynlegra sannana um heimild sína til að ráðstafa fé af reikningnum. Ekkert skjalfest sé til um þessar ráðstafanir og á skattframtölum hins látna sé ekki skýrt frá gjafagerningum, sem skýrt geti ráðstöfun á þessum fjármunum. Verði því að telja með öllu ósannað að Þórarinn heitinn hafi gefið stefndu, Grétari og Elísabetu, umrædda fjármuni, svo sem þau hafi haldið fram. Með ráðstöfunum þessum hafi stefnda valdið Þórarni heitnum tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti og beri henni að bæta dánarbúi hans tjónið. Stefnandi vísar að því er þetta varðar til hæstaréttarmála 296/1998 og 328/1999.

Að því er varðar kröfu stefnanda á hendur stefnda, Sparisjóði Vestmannaeyja, vegna sama atviks, byggir stefnandi sömuleiðis á því að Sparisjóðurinn hafi valdið Þórarni Gunnlaugssyni tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti með því að heimila stefndu Jónu að taka út fjármuni af reikningi hans, án þess að hún hefði til þess umboð frá reikningseiganda.  Stefndi hafi sjálfur upplýst að Þórarinn einn hafi haft prókúru á reikninginn og að handhöfn bókar væri ekki næg til úttektar nema með sérstöku leyfi reikningseiganda.  Slík heimild hafi hins vegar ekki legið til grundvallar umræddri úttekt stefndu Jónu af reikningnum. Sé þess því krafist með vísan til framangreinds að stefndi Sparisjóður Vestmannaeyja bæti stefnanda umrætt tjón. Vísað er til hæstaréttarmáls nr. 328/1999.

Ljóst sé að fyrrgreindir fjármunir hafi allir runnið inn á reikninga í eigu stefndu, Grétars, Guðjóns og Elísabetar. Eins og áður greinir sé ekkert skjalfest til um þessar ráðstafanir og engin grein gerð fyrir ráðstöfunum þessum á skattframtölum hins látna. Með vísan til þessa alls, sérstaklega með hliðsjón af því hvernig umræddir fjármunir komu í hendur stefndu, sé með öllu ósannað að Þórarinn heitinn hafi gefið stefndu umrædda fjármuni. Sé þess því krafist að stefndu, Grétari, Guðjóni og Elísabetu, verði með vísan til almennra reglna samninga- og kröfuréttar gert að endurgreiða stefnanda fjármuni þessa. Til stuðnings kröfunni er vísað til hæstaréttarmála nr. 296/1998 og 328/1999.

 

2. kröfuliður.

             Að því er varðar fyrrgreindar úttektir stefnda Grétars af reikningi föður hans á árunum 2000 til 2002 segir stefnandi, að svo virðist sem stefndi hafi haft umboð föður síns til að taka út af reikningnum. Hins vegar liggi ekkert fyrir um það að hann hafi haft heimild til að ráðstafa fjármunum þessum í eigin þágu. Ekkert skjalfest liggi fyrir um þessar ráðstafanir og engin grein sé gerð fyrir þeim á skattframtölum hins látna. Telja verði að stefnda hafi verið í lófa lagið að afla sér nauðsynlegra sannana um heimild sína til að ráðstafa fé af reikningnum í eigin þágu. Það hafi stefndi ekki gert og verði því að telja að hann verði að bera hallann af því að hafa látið hjá líða að gera það. Stefnandi krefst þess að stefnda verði með vísan til almennra reglna samninga- og kröfuréttar gert að endurgreiða stefnanda umrædda fjármuni. Stefnandi vísar til hæstaréttarmála nr. 296/1998 og 328/1999.

 

3. kröfuliður.

             Að því er varðar kröfu stefnanda á hendur stefnda Guðjóni Grétarssyni um að hann endurgreiði stefnanda 1.647.212 krónur byggir stefnandi á því að um dánargjöf sé að ræða, sbr. 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962.  Stefndi Sparisjóður Vestmannaeyja hafi upplýst að innistæðan á reikningnum hafi verið bundin þar til Vestmannaeyjabær leysti íbúðina til sín. Fjárhæðin, sem Þórarinn heitinn hafi lagt inn á umræddan húsnæðisreikning í febrúar 1999, svari til þeirrar fjárhæðar, sem greinir í framlögðu bréfi sparisjóðsins dagsettu 2. desember 2003 að lögð hafi verið inn á húsnæðisreikninga vegna Kleifahraunsíbúða, það er 875.000 krónur, uppfærðar miðað við breytingar á lánskjaravísitölu og grunnvísitölu í febrúar 1989. Um hafi verið að ræða íbúð í eigu Vestmannaeyjabæjar, ætlaða eldri borgurum, og megi leiða að því líkum að þar hafi Þórarinn ætlað að búa þar til yfir lyki. Íbúðin hafi verið innleyst af Vestmannaeyjabæ eftir andlát Þórarins. Með hliðsjón af framangreindu sé augljóst að ekki hafi verið ætlast til að gjafaloforðið kæmi til framkvæmdar fyrr en að gefandanum látnum. Þar sem ekki hafi verið gætt ákvæða erfðalaga um erfðaskrár varðandi gjafagerning þennan beri Guðjóni að endurgreiða dánarbúinu fjárhæðina. Stefnandi vísar þessu til stuðnings til hæstaréttarmáls nr. 263/2000.

 

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og almennra reglna skaðabótaréttar um greiðslu skaðabóta utan samninga. Þá vísar hann til VII. kafla, sbr. VI. kafla erfðalaga nr. 8/1962, sérstaklega til 54. gr. þeirra laga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 og lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað er studd við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um varnarþing er vísað til 32. gr., sbr. 42. gr. sömu laga. Um virðisaukaskatt vísar stefnandi til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þess er krafist að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tilllit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili.

 

Málsástæður og lagarök stefndu Grétars Þórarinssonar, Jónu Guðjónsdóttur, Elísabetar Þórarinsdóttur og Guðjóns Grétarssonar.

             Af hálfu stefndu Grétars, Jónu, Elísabetar og Guðjóns er byggt á eftirfarandi málsástæðum:

 

1. kröfuliður.

             Stefndu halda því fram að úttekt hinn 17. janúar 2000 hafi alfarið verið framkvæmd af Þórarni sjálfum. Aðstoð Jónu Guðjónsdóttur hafi helgast af því að Þórarinn hafi átt erfitt með skrift. Jóna hafi ekki haft sjálfstætt umboð til úttektar og engan veginn getað staðið að úttekt sjálf eða ráðstöfun fjárins. Þórarinn hafi því alfarið staðið að þessari ráðstöfun sjálfur. 

Ráðstöfun þessi hafi átt sér stað rúmum tveimur árum fyrir andlát Þórarins. Ráðstöfunin hafi verið endanleg og fullur eignar- og ráðstöfunarréttur yfir fénu hafi færst til þeirra sem fénu var ráðstafað til. Engin rök hafi verið til þess að ætla að Jóna hefði staðið að þessari úttekt og ráðstöfun fjárins á eigin spýtur. Þessi ráðstöfun hafi alfarið verið að vilja Þórarins sjálfs. Tilvísanir stefnanda til hæstaréttardóma nr. 296/1998 og 328/1999 eigi ekki við í þessu tilviki, þar sem báðir dómarnir taki til ráðstafana samkvæmt umboðum. Hér liggi fyrir að Þórarinn hafi annast úttekt þessa sjálfur. Stefndu benda á að í skattframtölum vegna áranna 1999 og 2000, komi skýrt fram að innistæða Þórarins á umræddum reikningi hafi lækkað um sem næst hinni útteknu fjárhæð. Þórarinn hafi fylgst mjög vel með fjármálum sínum alla tíð og aldrei gert neinar athugasemdir við þessar ráðstafanir. 

 

2. kröfuliður.

             Stefndu fullyrða að úttektir Grétars hafi í greindum tilvikum verið samkvæmt skýrri heimild, þ.e. umboði frá 20. ágúst 2000. Þórarinn hafi treyst Grétari fyrir því að fara með slíkt umboð. Úttektir Grétars séu að langmestu leyti framkvæmdar löngu fyrir andlát Þórarins eða tæpum tveimur árum, hálfu ári og síðasta úttektin um hálfum mánuði fyrir andlát Þórarins. Allar þessar úttektir og ráðstöfun fjárins hafi verið endanlegar og eignar- og ráðstöfunarréttur fjárins hafi færst alfarið yfir á gjafþega. Þó skuli tekið fram að úttekt á 350.000 krónum og ráðstöfun þess hafi verið endurgjald fyrir veitta aðstoð Grétars í veikindum Þórarins. Hafnar stefndi því að tilvísanir stefnanda til hæstaréttardóma eigi við hér. Grétar hafi aðeins framkvæmt skýran vilja Þórarins sem fram komi í ýmsum ráðstöfunum Þórarins sjálfs á fjölmörgum árum.

 

3. kröfuliður.

             Óumdeilt sé að Þórarinn hafi annast það sjálfur að færa kr. 1.647.212.- á reikning Guðjóns Grétarssonar, nr. 1167-18-65008. Ef þessi fjárhæð hafi verið tekin af bundnum reikningi, samkvæmt samkomulagi milli Sparisjóðs Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæjar, þá sé það mál á milli þeirra aðila. Dánarbú Þórarins geti hins vegar ekki öðlast betri rétt en Þórarinn sjálfur hafði í máli þessu og sé að sjálfsögðu bundið við gerðir hans og athafnir. Innlagningarreikningur hafi verið algerlega óbundinn reikningur fyrir Guðjón og honum heimilt að ráðstafa fénu að eigin vild.  Vestmannaeyjabær hafi ekki gert neinar kröfur á hendur dánarbúinu vegna þessarar ráðstöfunar. Ráðstöfun Þórarins á þessu fé sínu hafi verið endanleg og hafi eignar- og ráðstöfunarréttur yfir fénu færst alfarið til Guðjóns við þessa ráðstöfun. Tilvísun í hæstaréttardóm 263/2000 eigi engan veginn við í þessu tilviki, þar sem meginatriðið í þeim dómi hafi verið það að sannað hafi verið að um endurgreiðsluskuldbindingu var að ræða. Þvert á móti hafi umrædd gjöf Þórarins til Guðjóns alfarið verið án endurgreiðsluskuldbindingar.

 

Almennt um dómkröfurnar taka stefndu fram að meginatriðið í málinu sé það að Þórarinn Gunnlaugsson hafi alltaf verið andlega frískur. Hann hafi verið viljasterkur einstaklingur sem hafi ávallt fylgst mjög vel með sínum fjármálum, allt fram á dánardag. Þórarinn hafi veikst í júnímánuði 2001 en engu að síður verið fullfrískur andlega, stálminnugur og fylgst mjög vel með sínum persónulegu högum, ekki síst fjármálum.

Þórarinn hafi verið fullráða. Hann hafi haft fulla heimild til að ráðstafa eignum sínum. Hafi hann aðeins setið í óskiptu búi gagnvart erfingjum sínum Grétari og Elísabetu sem hafi ekki gert neinar athugasemdir við ráðstafanir hans.

Samskipti Þórarins við börn sín Sigurð og Þóreyju hafi hins vegar verið með þeim hætti, að meðal annars þess vegna hafi hann kosið að gefa fjármuni sína eins og hann gerði. Til þess hafi hann haft fulla heimild. Guðjón Grétarsson og Þórarinn hafi verið mjög nánir og skýri það án efa hvers vegna Þórarinn hafi kosið að gefa honum fé. Þetta hafi Þórarni verið heimilt. Langflestar af þessum ráðstöfunum eigi sér stað löngu fyrir andlát Þórarins og sýni skýran vilja hans. Skiptastjóri leggi mikið upp úr því að ekki komi fram á skattaskýrslum aðila að umræddar gjafir hafi verið gefnar. Rétt sé þó að taka fram að í skattskýrslum Þórarins vegna áranna 1999 og 2000 komi fram lækkun á innistæðum rétt um kr. 5.000.000.- sem sýni svo ekki verði um villst að Þórarinn hafi fylgst vel með fjármálum sínum. Á bak við kröfu skiptastjóra hljóti að liggja sú fullyrðing að ráðstafanir þær, sem stefnt sé vegna, hafi verið gegn vilja Þórarins. Engar slíkar vísbendingar liggi hins vegar fyrir í málinu, þvert á móti hnígi öll rök til þess að ætla að allar þessar ráðstafanir hafi verið samkvæmt skýrum vilja Þórarins. Þær taki yfir langt tímabil eða allt frá árinu 1994 þar til stuttu fyrir andlát Þórarins en að langmestu leyti gerist þær löngu fyrir lát hans.

Stefndu segja það rétt að í skattskýrslum aðila sé gjafanna ekki getið. Helgist það af því að aðilar séu ólöglærðir og hafi ekki talið að gjafir væru skattskyldar. Með bréfi lögmanns stefndu til skiptastjóra, dagsettu 30. mars 2004, sé farið fram á samráð við skiptastjóra við að ganga frá skattskilum vegna þessara gjafa, að því leyti sem þær séu skattskyldar.

Stefndu mótmæla kröfum stefnanda um dráttarvexti.

 

Stefndu vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar og almennra reglna skaðabótaréttar um greiðslu skaðabóta utan samninga. Þá er vísað til erfðalaga nr. 8/1962, sérstaklega 54. gr. þeirra laga. Kröfu um málskostnað styðja stefndu við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt vísa stefndu til laga nr. 50/1988 og krefjast þess að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tilllit til þess að stefndu eru ekki virðisaukaskyldir aðilar. 

 

Málsástæður og lagarök stefnda Sparisjóðs Vestmannaeyja.

1. kröfuliður.

Sparisjóður Vestmannaeyja byggir sýknukröfu sína á því að hann hafi verið í fullum rétti og efnt skyldu sína gagnvart sparifjáreiganda sem vildi taka út af reikningi sínum, þegar hann, að beiðni reikningseigandans Þórarins, millifærði 5.000.000 krónur af sparisjóðsbók hans nr. 1167-05-5001 hinn 17. janúar árið 2000. Þórarinn hafi verið þekktur viðskiptamaður stefnda og margsinnis komið í afgreiðslu hans. Þórarinn hafi sjálfur útfyllt úttektarseðil með beiðni um úttektina á eyðublað sem hann hafði meðferðis, sjálfsagt að heiman. Hvers vegna Þórarinn hafi ekki kvittað sjálfur fyrir úttektinni heldur tengdadóttir hans sem var með honum sé ekki fullljóst. Þórarinn hafi á þessum tíma verið gamall maður og trúlegt sé að undirritunin hafi átt sér stað með tölvupenna á tölvuskjá, en það hafi þá verið nýupptekinn háttur í bankanum, sem Þórarinn hafi ekki þekkt, auk þess sem hann hafi átt í erfiðleikum með skrift. Það hafi auk þess verið óþarfi að kvitta sérstaklega fyrir úttektina vegna þess að Þórarinn hafi þegar verið búinn að biðja um hana með því að leggja fram úttektarseðil.

Kvittun tengdadóttur Þórarins, stefndu Jónu, á tölvuskjáinn hafi þannig verið óþörf. Tölvuútskrift úr tölvukerfi bankans hafi sjálfsagt verið gefin út til þess að skrásetja ráðstöfun fjárins og jafnframt til þess að tímasetja greiðsluna í samræmi við lög um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, sbr. lög nr. 90/1999, 3. mgr. 4. gr. Útilokað sé að telja að í þessari undirritun tengdadótturinnar með tölvupennanum hafi getað falist einhvers konar umboðsskortur þegar Þórarinn hafi falið henni að rita á tölvuskjáinn, fyrir framan gjaldkerann.

Stefndi segir þennan hátt Þórarins við úttektir hafa verið starfsmönnum stefnda kunnan og hafi Þórarinn tjáð þeim vilja sinn með skýrum og afdráttarlausum hætti. Stefndi mótmælir staðhæfingu um að stefndi hafi valdið Þórarni tjóni með ólögmætum og saknæmum hætti. Reikningseigandinn hafi sjálfur tekið út af reikningnum og falið tengdadóttur sinni, sem með honum var, að undirrita á tölvuskjá.

Stefndi segir það ekki hafa komið sér við hvernig Þórarinn ráðstafaði fjármunum sínum enda hafi hann verið með fullu ráði og rænu og að öllu leyti fær um að fara með fjármuni sína og hafi úttekt þessi komið fram á yfirlitum sem send hafi verið til Þórarins. Hann hafi verið peningamaður og fylgst vel með sínum málum.

Séu skattframtöl 2000 (vegna 1999) og 2001 (vegna 2000) borin saman, en Þórarinn hafi undirritað bæði skattframtölin sjálfur, sjáist að Þórarinn taldi fram 5.866.093 á reikningi nr. 5001 árið 2000 en einungis 877.095 árið 2001. Það hafi því verið með fullri vitund og vilja Þórarins að hann tók 5.000.000 krónur út af reikningnum hinn 17. janúar 2000.

Stefndi mótmælir tilvísun til hæstaréttardóma nr. 296/1998 og 328/1999. Þessir dómar séu fráleitt sambærilegir. Í þeim málum hafi verið um að ræða umboðsskort, skort á sönnun og aðila sem hafi verið taldir andlega vanheilir. Stefndi vísar til hæstaréttardóms 262/2001. Þar hafi ekki þótti sýnt fram á að arfláti hefði verið ófær um að fara með fjármuni sína á þeim tíma sem hann ráðstafaði þeim til tiltekinna ættingja sinna og talið hafi verið að honum hafi verið slík ráðstöfun heimil.

Loks mótmælir stefndi dráttarvaxtakröfu stefnanda.

Stefndi vísar til laga um viðskiptabanka og sparisjóði nr. 113/1996, sbr. núgildandi lög um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þá vísar hann til laga um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum nr. 90/1999. Stefndi vísar til almennra reglna kröfuréttar um sönnun og sönnunargögn. Málskostnaðarkröfu sína styður hann við 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála í héraði nr. 91/1991. Um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun vísar hann til laga nr. 50/1988.

 

Niðurstaða.

             Fyrir dóminn mættu til skýrslutöku stefndu Grétar Þórarinsson, Jóna Guðjónsdóttir, Guðjón Grétarsson og Elísabet Þórarinsdóttir. Einnig mættu sem vitni Þórey Þórarinsdóttir, systir Grétars og Elísabetar, Guðný Gunnlaugsdóttir, systir Þórarins Gunnlaugssonar, Ólöf Jóna Þórarinsdóttir, skrifstofustjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja, Hlynur Sigmarsson, starfsmaður hjá Sparisjóði Vestmannaeyja, Hildur Jónasdóttir, sem starfaði sem gjaldkeri við Sparisjóðinn, Elísabet Arnoddsdóttir, hjúkrunarfræðingur og bróðurdóttir Þórarins Gunnlaugssonar, og Sigurður Hjörtur Kristjánsson, læknir við Heilsugæsluna í Vestmannaeyjum.

             Í málinu liggur frammi vottorð Sigurðar Hjartar Kristjánssonar læknis á Heilbrigðisstofnunni í Vestmannaeyjum, dagsett 4. mars 2005, varðandi Þórarin Gunnlaugsson.

 

Um 1. kröfulið.

             Hinn 17. janúar 2000 voru 5.000.000 krónur teknar út af reikningi Þórarins Gunnlaugssonar hjá Sparisjóði Vestmannaeyja.

             Það telst vera sannað að Þórarinn Gunnlaugsson hafi sjálfur fyllt út úttektarseðil vegna þessa, með nafni sínu, heimilisfangi, kennitölu, reikningsnúmeri og úttektarfjárhæð, og að seðli þessum hafi verið framvísað í sparisjóðnum. Seðillinn var hins vegar ekki undirritaður.

Jóna Guðjónsdóttir bar fyrir dómi, að hún hefði oft farið með Þórarni í Sparisjóðinn, en kvaðst aldrei hafa farið ein til þess að taka út af reikningum tengdaföður síns. Hún kvaðst hafa verið með Þórarni þegar umrædd úttekt fór fram. Hún kvað hann hafa sagst vera að leggja inn á reikninga hjá Ellu og Guðjóni, en hún hefði ekki fylgst frekar með því, aðeins kvittað undir. Hildur Jónasdóttir, sem var sá gjaldkeri sem annaðist ofangreind viðskipti, kvaðst ekki muna eftir þessu tilviki, en bar að Þórarinn hlyti að hafa verið sjálfur í bankanum, ella hefði hún ekki afgreitt svo háa fjárhæð. Hún kvað strangar reglur vera um færslur. Ef Þórarinn hefði ekki verið sjálfur á staðnum myndi hún hafa ráðfært sig við yfirmann, en það hafi hún ekki gert þar sem kvittun yfirmanns sé ekki á úttektarmiðanum. Hún kvað það vera aukaatriði að Jóna væri skráður viðskiptamaður vegna þess að Þórarinn hefði komið með útfylltan útektarmiða. Hún kvað annan aðila oft kvitta á skjáinn og algengt að eldra fólk veigraði sér við því. Rafræna kerfið hefði verið nýtt á þessum tíma. Ólöf Jóna Þórarinsdóttir, skrifstofustjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja, kvaðst hafa þekkt Þórarin, og hefði hann fylgst með sínum fjármálum. Hún bar einnig að strangar reglur væru um úttektir og það þyrfti leyfi reikningseiganda fyrir háum úttektum. Kvað hún Hildi Jónasdóttur vera traustan starfsmann. Kvað hún það mjög ótrúlegt að Jóna hefði getað tekið þetta út. Samkvæmt almennum reglum hafi Þórarinn verið þarna viðstaddur. Hún kvaðst ekki kannast við að hann hafi gert athugasemdir við millifærslur á reikningi sínum. Hún kvað rafrænar færslur hafa verið nýkomnar á þessum tíma, og hafi eldra fólk verið hrætt við að skrifa undir á þennan hátt.

Með vætti þeirra vitna, sem hér hefur verið rakið, þykir hafa verið sýnt fram á að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því, að Þórarinn Gunnlaugsson hafi sjálfur komið í bankann í umrætt sinn með Jónu Guðjónsdóttur, eins og hún heldur fram, og afhent þar úttektarmiðann og mælt fyrir um þær millifærslur sem þar áttu sér stað, en notið aðstoðar Jónu.

Jóna Guðjónsdóttir skrifaði undir viðskiptakvittun í bankanum á skjá sem til þess er ætlaður. Af framburði starfsmanna bankans verður ráðið að það hafi ekki verið einsdæmi að annar kvittaði á skjáinn, einkum þegar eldra fólk átti í hlut. Einnig er ljóst af læknisvottorði, og framburði vitnisins Elísabetar Arnoddsdóttur, sem kemur heim og saman við vitnisburð Grétars og Elísabetar Þórarinsbarna, Guðnýjar Gunnlaugsdóttur og Jónu Guðjónsdóttur, að Þórarinn hafi átt erfitt með að beita hægri handlegg. Samkvæmt vætti Hildar Jónasdóttur var undirskrift á viðskiptakvittun þessa hins vegar óþörf, þar sem framvísun úttektarmiða hafi verið fullnægjandi til úttektar fjár í bankanum. Þykir þessi rafræna undirskrift Jónu, ein og sér, ekki hafa afgerandi áhrif í málinu.

Það var samdóma álit allra vitna að Þórarinn hefði verið vel áttaður alla tíð og fylgst vel með fjármálum sínum. Í vottorði Hjartar Kristjánssonar segir: „Undirritaður hafði mikið með sjúkling að gera frá 30.07.’01 fram að andláti og var sjúklingur að mínu mati andlega skýr og fær um að taka ákvarðanir í sínum persónulegu málum. Hann var full áttaður, hafði ekki ranghugmyndir eða ofskynjanir. Ekki komu fram merki um marktækar truflanir á minni eða vitrænni starfsemi. Frá 31.12’01 fékk sjúklingur sterk verkjalyf í vaxandi skömmtum. Hugsanlegt er að það hafi haft einhver áhrif á dómgreind og vitræna starfsemi síðustu vikurnar fyrir andlátið og þá sérstaklega síðustu 2 vikurnar.“ Ólöf  Jóna Þórarinsdóttir bar að Þórarinn hefði ávallt fengið reikningsyfirlit send frá bankanum og ekki gert athugasemd.

Þóreyju og Grétari Þórarinsbörnum bar saman um að Þórarinn hefði ekki fyllt út skattframtöl sín sjálfur. Hins vegar er óumdeilt að hann hafi sjálfur undirritað þau. Á skattframtali fyrir árið 2000 kemur fram að innistæður í bönkum og sparisjóðum eru tæpum 5.000.000 krónum lægri en árið áður. Ekki kemur þar fram að Þórarinn hafi gefið þetta fé. Þykir það hins vegar ekki sanna að hann hafi ekki sjálfur ráðstafað fénu. Upplýst er í málinu að hlýtt var með Þórarni og sonarsyni hans Guðjóni, og samkomulag gott við börn hans Grétar og Elísabetu, hins vegar hafði komið upp ósætti við börn hans Þóreyju og Sigurð.

Úttekt sú sem hér er deilt um átti sér stað meira en tveimur árum áður en Þórarinn lést. Sannað er að hann hafi þá verið heill heilsu og vel áttaður og fylgst með fjármálum sínum, verið fullfær um það, sem og að taka ákvarðanir. Þykir ekki varhugavert að byggja á því að hann hafi gert sér fulla grein fyrir því hvað í umdeildri gerð fólst og að hún hafi verið í samræmi við hans vilja.

Það er niðurstaða dómsins varðandi þetta atriði, að nægar líkur hafi verið leiddar að því, að Þórarinn Gunnlaugsson hafi sjálfur staðið að úttekt þeirri sem að ofan greinir og að ráðstöfun fjárins, en notið við það aðstoðar tengdadóttur sinnar, stefndu Jónu Guðjónsdóttur. Sannað þykir að hann hafi fylgst vel með og gert sér góða grein fyrir fjárhagsstöðu sinni, og verið fullfær um að taka ákvarðanir um fjármál sín. Þar sem engin athugasemd kom fram varðandi greinda ráðstöfun, verður að telja sannað að hún hafi verið að hans vilja. Skulu stefndu því vera sýkn af kröfu stefnanda í þessum lið.

 

Um 2. kröfulið.

Í málinu liggur frammi umboð Þórarins Gunnlaugssonar til sonar hans, stefnda Grétars Þórarinssonar, er það svohljóðandi: „Ég Þórarinn Gunnlaugsson, kt. 240613-3289, veiti hér með Grétari Þórarinssyni, kt. 140841-3159, fullt og ótakmarkað umboð mitt til að taka út af reikningi mínum no 1167-05-5001 við Sparisjóð Vestmannaeyja.“ Umboðið er dagsett 20. ágúst 2000, undirritað af Þórarni og vottað af Sigurlaugu og Guðjóni Grétarsbörnum. Grétar bar fyrir dóminum að Ólöf Jóna, skrifstofustjóri Sparisjóðsins, hefði haft samband og beðið um að Grétar hefði umboð frá Þórarni til að taka út af reikningi hans, ef hann tæki út einhverjar fjárhæðir. Hefði Ólöf Jóna útbúið umboðið, Þórarinn skrifað undir það og Grétar farið með það í Sparisjóðinn. Ólöf Jóna kvaðst ekki muna hvort hún hefði útbúið umboð það sem liggur frammi eða hvort það hefði verið gert af einhverju sérstöku tilefni, en sagði að svona myndi hún útbúa umboð. Kvaðst hún myndu líta svo á umboðið, að það veitti heimild til að taka fé út af reikningnum og ráðstafa því að vild, og væri þetta hefðbundið umboð til slíks. Ólöf Jóna kvað Þórarin hafa fylgst vel með fjármálum sínum og hafa haft samband við sig um þau, auk þess sem hann hefði fengið reikningsyfirlit og annað sent heim.

 

a)         Vegna úttektar Grétars Þórarinssonar að fjárhæð 2.000.000 krónur, hinn 25. ágúst 2000, hefur verið lagður fram úttektarmiði, útfylltur af Þórarni sjálfum að því er varðar fjárhæð, nafn reikningseiganda, kennitölu, heimilisfang og reikningsnúmer. Í reit sem merktur er undirskrift þess sem tekur út hefur Grétar hins vegar ritað nafn sitt og kennitölu. Á viðskiptakvittun er Grétar tilgreindur viðskiptamaður en kvittunin er ekki undirrituð í rafrænu kerfi bankans. Grétar greindi svo frá fyrir dómi að Þórarinn hefði beðið sig um að taka umrædda fjárhæð út af reikningnum vegna þess að hann ætlaði að gefa Grétari og Elísabetu þessa upphæð, og hefði Grétar ráðstafað helmingnum af fjárhæðinni til Elísabetar. Elísabet mundi þó ekki eftir því fyrir dómi að hafa fengið 1.000.000 króna frá föður sínum. Áður er fram komið að Þórarinn fylgdist vel með fjármálum sínum og var heill heilsu þegar þessi úttekt átti sér stað. Hann fyllti sjálfur út úttektarseðilinn og skrifaði undir umboð til Grétars, sem er dagsett fimm dögum áður en umrædd úttekt fór fram.

Með fyrirliggjandi gögnum, sem og með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið um hagi Þórarins, þykir mega leggja til grundvallar að Þórarinn hafi verið meðvitaður um þessa úttekt og hún hafi verið í samræmi við vilja hans. Sannað er að stefndi Grétar hafði fullgilt umboð til að taka út af greindum reikningi og atvikið átti sér stað ári áður en Þórarinn veiktist og einu og hálfu ári áður en hann lést. Þykir því verða að sýkna stefnda Grétar af kröfu dánarbúsins um endurgreiðslu þessa fjár.

 

b)         Hinn 6. september 2001 tók stefndi Grétar út 600.000 krónur. Vegna þeirrar úttektar liggur frammi úttektarseðill, sem virðist vera undirritaður af Þórarni sjálfum en að öðru leyti útfylltur af öðrum. Á rafræna viðskiptakvittun hefur Grétar Þórarinsson kvittað, en Þórarinn Gunnlaugsson er skráður viðskiptamaður. Samkvæmt framlögðu læknisvottorði lá Þórarinn á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja frá 30. júlí til 17. september þetta ár. Um úttekt þessa sagði Grétar Þórarinsson fyrir dómi: „hann gaf mér þessa peninga eða hann réttara sagt sagði mér að það sem að eftir væri á bókinni í Sparisjóðnum að það ætti ég að eiga.  Og ég tók þarna út þessa upphæð og þetta var að mig minnir eitthvað um 900 á þessari bók og þetta var svona hugsað bæði fyrir þær ferðir sem ég hafði farið með hann þegar hann var í krabbameinsmeðferðinni, þurfti náttúrulega að fara til Reykjavíkur, og vinnutap og hitt og annað og ég tók það líka svona að það ætti að borga ýmislegt þegar hann félli frá.“

Með vísan til þess sem að ofan greinir um hagi Þórarins Gunnlaugssonar, þess að Grétar hafði fullt umboð til úttekta af reikningi föður síns, þess að úttektarnótan er undirrituð af Þórarni sjálfum, og að ekki er ástæða til annars en að ætla að Þórarinn hafi verið fær um að fylgjast með hreyfingum á reikningi sínum á þessum tíma, þá er ósannað að greind úttekt hafi ekki verið í samræmi við ákvörðun og vilja Þórarins Gunnlaugssonar, skal stefndi Grétar því vera sýkn af kröfu stefnanda um endurgreiðslu þessa fjár.

 

c)         Loks tók stefndi Grétar út af sama reikningi föður síns 350.000 krónur hinn 12. febrúar 2002. Vegna þeirrar úttektar liggur frammi viðskiptakvittun þar sem Þórarinn Gunnlaugsson er tilgreindur viðskiptamaður en Grétar Þórarinsson skrifar undir. Samkvæmt læknisvottorði var Þórarinn lagður inn á Sjúkrahús Vestmannaeyja 31. desember 2001 og lá þar til hann lést 3. mars 2002. Í vottorðinu segir að hann hafi að mati læknisins verið andlega skýr og fær um að taka ákvarðanir í sínum persónulegu málum fram að andláti. Hafi hann verið full áttaður, og ekki haft ranghugmyndir eða ofskynjanir, ennfremur hafi ekki komið fram marktækar truflanir á minni eða vitrænni starfsemi. Frá 31. desember 2001 hafi hann fengið sterk verkjalyf í vaxandi skömmtum, og hugsanlegt sé að það hafi haft einhver áhrif á dómgreind og vitræna starfsemi Þórarins síðustu vikurnar fyrir andlátið og þá sérstaklega síðustu tvær vikurnar. Elísabet Arnoddsdóttir kvað Þórarinn alltaf hafa verið skýran í kollinum, hefði hún hitt hann síðustu tvær vikurnar áður en hann lést og hefði hann þá ennþá verið skýr, og skýrastur síðasta sólarhringinn. Kvaðst hún telja að hann hefði ávallt verið fær um að taka ákvarðanir.

Úttekt þessi átti sér stað tæpum þremur vikum fyrir andlát Þórarins, lá hann banaleguna og hafði verið á sterkum lyfjum í rúman mánuð. Grétar hafði fullgilt umboð frá honum til þess að taka út fé af reikningnum og sú skýring hans að Þórarinn hafi um hálfu ári fyrr gefið honum þetta fé virðist í samræmi við aðrar ráðstafanir Þórarins. Engu að síður verður ekki fram hjá því litið að Þórarinn hefur vegna veikindanna varla fylgst lengur með hreyfingum á bankareikningi sínum, þegar hér var komið. Ekki hefur verið sýnt fram á að fé þessu hafi verið ráðstafað í þágu Þórarins sjálfs. Við þessar aðstæður bar stefnda Grétari að tryggja sönnun þess að það væri í samræmi við vilja Þórarins að Grétar tæmdi bankabókina og nýtti féð í eigin þágu, eða að Þórarinn hefði áður gefið honum féð. Þetta gerði hann ekki og verður því að fallast á kröfur stefnanda að því er þennan kröfulið varðar og eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Um 3. kröfulið.

Ljóst má vera af því sem fram er komið í málinu að Þórarinn Gunnlaugsson hafði í hyggu að gefa sonarsyni sínum ofangreinda upphæð. Deilt er um það hvort um dánargjöf var að ræða. 

Vitnið Ólöf Jóna Þórarinsdóttir bar að samkomulag væri á milli Sparisjóðs Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæjar vegna byggingar Kleifahraunsíbúða, um að til að öðlast íbúð eða leigu á íbúð í Kleifahrauni, þyrfti hver íbúi að leggja ákveðna upphæð inn á reikning hjá Sparisjóðnum, sem væri verðtryggður og án vaxta. Hún kvað reikningana vera bundna á meðan hver og einn væri í íbúðinni. Kvað hún slíkan reikning ekki hafa verið útbúinn í tilviki Þórarins. Hefði hún rekið augun í það að hann hefði ekki lagt inn umrædda fjárhæð eftir að hann var fluttur að Kleifahrauni. Minnti hana að Þórarinn og Grétar hefðu komið í bankann og rætt við sig, og hefði hún fengið leyfi þáverandi sparisjóðsstjóra til að stofna reikninginn í nafni Guðjóns Grétarssonar. Hún kvað reikninginn í nafni Guðjóns hafa átt að vera bundinn en ekki hafa verið það „þannig lagað“. Ennfremur sagði hún, að ef innistæðan hefði verið tekin út, þá hefðu peningarnir verið rukkaðir inn aftur, vegna samkomulagsins við Vestmannaeyjabæ. Kvaðst hún ekki vita hvort Guðjóni hefði verið kunnugt um samkomulagið og að reikningurinn hefði átt að vera bundinn. Hlynur Sigmarsson, starfsmaður hjá Sparisjóði Vestmannaeyja, kom fyrir dóminn. Kvaðst hann kannast ágætlega við Guðjón Grétarsson. Hlynur sagði svo frá að Þórarinn og Grétar hefðu komið til sín á skrifstofuna þegar umræddur reikningur var stofnaður, en kvaðst ekki muna hvort Guðjón hefði einnig komið. Hann kvaðst ekki hafa vitað mikið um húsnæðisreikninga og kvað sér ekki hafa verið kunnugt um að þeir hefðu stofnað reikning umrætt sinn í tengslum við íbúð Þórarins á Kleifahrauni, enda hefðu þeir þá ekki lagt peningana inn á kennitölu annars manns. Hlynur kvaðst hafa lagt þann skilning í atburðina að þeir hefðu verið að millifæra peninga, en ekki stofna reikning. Hann kvaðst ekki mundu hafa séð um þessa færslu ef um hefði verið að ræða húsnæðisreikning sem átti að stofna, og þá ekki hafa heimilað að færa reikninginn á nafn einhvers annars einstaklings. Guðjón Grétarsson bar fyrir dóminum að hann hefði ekki vitað að reikningur þessi tengdist íbúðinni í Kleifahrauni og kvað hann ekki hafa verið bundinn. Hann kvaðst ekki muna hvort hann hefði tekið út af reikningnum, en almennt hefði hann ekki notað mikið af peningum þeim sem afi hans gaf honum.

Upplýst er að Þórarinn Gunnlaugsson fékk íbúð í Kleifahrauni og bjó þar til hann lagðist banaleguna. Ljóst er af framangreindu að honum bar að stofna bundinn reikning til þess að öðlast íbúðarrétt í Kleifahrauni. Einnig er upplýst að það gerði hann ekki. Hins vegar færði hann fjárhæð sambærilega þeirri sem honum bar af reikningi sínum og á reikning stefnda Guðjóns Grétarssonar hinn 25. febrúar 1999. Samkvæmt yfirlýsingum Ólafar Jónu Þórarinsdóttur, Sparisjóði Vestmannaeyja, dagsettum 30. maí og 6. október 2003, stofnaði Þórarinn með sérstöku samkomulagi við Sparisjóðinn reikning í nafni Guðjóns Grétarssonar, „þar sem innlegg vegna Kleifahraunsíbúða var lagt inná“. Samkomulag þetta var ekki skriflegt. Upplýst er að samkvæmt samkomulagi Sparisjóðsins við Vestmannaeyjabæ átti slíkur reikningur að vera bundinn, þannig að ekki væri unnt að taka út af honum fyrr en íbúðin að Kleifahrauni losnaði. Verður að ganga út frá því að Þórarni hafi verið fullkunnugt um þetta. Í 54. gr. erfðalaga nr. 8/1962 segir að dánargjafir séu þær gjafir „sem ekki er ætlast til að komi til framkvæmda“ fyrr en við andlát. Hér er þannig um hugræna viðmiðun að ræða. Þórarni hlaut að vera ljóst að reikningurinn átti að vera bundinn þar til íbúð hans að Kleifahrauni losnaði, og að þetta var skilyrði fyrir búsetu hans þar. Ólöf Jóna bar, að hefði innistæðan verið skert, þá hefði Þórarinn verið krafinn um þá fjárhæð.

Þegar allt framangreint er virt verður að líta svo á að Þórarinn hafi ekki haft ótakmarkaða heimild til að ráðstafa fé þessu, fyrr en hann flytti úr íbúðinni eða við andlát sitt. Það leyfi sem Sparisjóðurinn veitti honum til að leggja tryggingarféð inn á reikning í nafni annars manns, hlaut að lúta sömu skilyrðum. Raunin varð sú að Þórarinn átti heimili að Kleifahrauni til dauðadags. Af öllu þessu þykir vera ljóst, að ekki var ætlast til að gjöf þessi kæmi til framkvæmda fyrr en við andlát Þórarins og telst því hafa verið um dánargjöf að ræða í skilningi 54. gr. erfðalaga. Um dánargjafir gilda reglur um erfðaskrár. Þó telja megi upplýst að vilji Þórarins hafi staðið til þess að stefndi Guðjón eignaðist þetta fé, þá var ekki gengið frá dánargjöf þessari eins og formreglur áskilja. Er því fallist á kröfur stefnanda að því er þennan kröfulið varðar, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

 

Dráttarvextir miðast við þann dag er mánuður var liðinn frá svarbréfi lögmanns stefndu við kröfugerð stefnanda.

Stefndu, Grétar Þórarinsson og Guðjón Grétarsson, greiði stefnanda, dánarbúi Þórarins Gunnlaugssonar, sameiginlega 400.000 krónur í málskostnað. Hefur virðisaukaskattur þá ekki verið reiknaður. Að því er varðar málskostnað að öðru leyti verður ekki framhjá því litið, að hefðu stefndu gætt þess að allar ráðstafanir með fé Þórarins Gunnlaugssonar, sem orðinn var aldraður, væru skýrt skráðar og vottaðar og allra formsatriða gætt, þá hefði stefnandi ekki haft tilefni til þessarar málssóknar. Þykir því rétt að málskostnaður falli niður að öðru leyti.

Hjördís Hákonardóttir dómstjóri kveður upp dóm þennan.

 

D ó m s o r ð :

 

Stefndi, Grétar Þórarinsson, greiði stefnanda 350.000 krónur með með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. febrúar 2002 til 30. apríl 2004, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi, Guðjón Grétarsson, greiði stefnanda 1.647.212 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. apríl 2004 til greiðsludags.

Að öðru leyti skulu stefndu vera sýkn af kröfum stefnanda.

Stefndu, Grétar Þórarinsson og Guðjón Grétarsson, greiði sameiginlega stefnanda, dánarbúi Þórarins Gunnlaugssonar, 400.000 krónur í málskostnað. Að öðru leyti fellur málskostnaður niður.