Hæstiréttur íslands
Mál nr. 135/2002
Lykilorð
- Sjómaður
- Ráðningarsamningur
- Uppsögn
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2002. |
|
Nr. 135/2002. |
Básafell hf. (Sigurbjörn Magnússon hrl.) gegn Agnari Ásgrímssyni (Jónas Haraldsson hrl.) |
Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn. Tómlæti.
A var í maí 1998 ráðinn í skiprúm á skipi sem B leigði og gerði út. B skilaði skipinu til leigusala í ágúst 1998 og missti A við það skiprúm sitt. B hélt því fram gegn mótmælum A að hann hafi verið ráðinn tímabundið og ætti því ekki rétt til launa í uppsagnarfresti samkvæmt 25. gr. sjómannalaga. Skriflegur ráðningarsamningur hafði ekki verið gerður, líkt og útgerðarmanni ber skylda til samkvæmt 6. gr. sjómannalaga. Var B því látinn bera hallann af vanrækslu þeirrar skyldu sinnar og talið ósannað að um tímabundna ráðningu hafi verið að ræða. Ekki var um það deilt að A hafi ekki átt kost á því að halda skiprúminu er B afhenti skipið eigandanum. Því hafi ekki annað legið fyrir en að A hafi verið vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans var liðinn og án þess að heimild væri til þess í 23. eða 24. gr. sjómannalaga. Samkvæmt 25. gr. þeirra laga hafi hann því átt rétt á kaupi í þrjá mánuði, sbr. 9. gr. sömu laga. Þá var ekki fallist á að A hafi fyrirgert kröfu sinni með tómlæti en tæplega 29 mánuðir liðu frá uppsögninni þangað til A hafði uppi kröfu um laun í uppsagnarfresti. Í héraðsdómi voru áætluð laun A vegna veiðiferðar, sem hann fór í á öðru skipi B eftir uppsögnina, dregin frá kröfu hans. Þar sem A hafði ekki gagnáfrýjað dóminum kom þetta atriði ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti. Með þessari athugasemd var niðurstaða héraðsdóms um greiðsluskyldu B staðfest með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. mars 2002. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eins og rakið er í héraðsdómi réð stefndi sig í eina veiðiferð á öðru skipi, er áfrýjandi gerði út, skömmu eftir að ráðningu hans í skiprúm á Sólbak EA 307 lauk.
Með hinum áfrýjaða dómi voru áætluð laun stefnda vegna þeirrar veiðiferðar dregin frá kröfu hans um laun samkvæmt 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 á uppsagnarfresti samkvæmt 9. gr. laganna. Þar sem stefndi hefur ekki gagnáfrýjað dóminum kemur þetta atriði ekki til umfjöllunar fyrir Hæstarétti. Með þessari athugasemd verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Básafell hf., greiði stefnda, Agnari Ásgrímssyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 21. desember 2001.
Mál þetta, sem var dómtekið 28. nóvember sl., höfðaði Agnar Ásgrímsson, Flúðaseli 60, Reykjavík, hér fyrir dómi hinn 21. maí sl. gegn Básafelli hf., Sindragötu 1, Ísafirði.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða sér 1.414.440 kr. auk almennra vaxta frá 1. september 1998 til 10. febrúar 2001 samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, dráttarvaxta samkvæmt III. kafla sömu laga frá 11. febrúar 2001 af samtölu höfuðstóls og vaxta til 1. júlí 2001 en af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefnda krefst aðallega sýknu en til vara að kröfur stefnanda verði verulega lækkaðar og málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Stefnandi kveðst hafa verið ráðinn í skiprúm á bv. Sólbak EA 307, sknr. 1276, eign Útgerðarfélags Akureyringa hf., sem stefnda hafi leigt og gert út. Hafi hann verið ráðinn í skiprúmið 8. maí 1998 til óákveðins tíma, en skriflegur skiprúmssamningur hafi ekki verið gerður. Stefnda hafi skilað skipinu til leigusala 20. ágúst 1998 og tilkynnt stefnanda þá ráðstöfun daginn áður. Hann hafi misst skiprúm sitt er skipinu var skilað enda hafi því verið lagt á Akureyri.
Stefnandi kveðst ekki hafa fengið nein laun greidd í uppsagnarfresti og hafi hann ekki gert sér grein fyrir rétti sínum til þeirra fyrr en hann hafi frétt af niðurstöðu dóms hér í máli nr. E-175/1999, sem gekk 18. júlí 2000. Telur stefnandi sig eiga rétt til launa í 3 mánuði vegna riftunar á ráðningarsamningi, sbr. 9. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og vísar til 2. og 3. mgr. 22. gr. sömu laga. Tekur hann fram að sér hafi ekki staðið til boða að halda skiprúmi sínu, enda hafi útgerð skipsins verið hætt. Kveðst hann krefjast meðalhófslauna í uppsagnarfresti og miðar við tekjur sem hann hafi haft á ráðningartíma sínum. Heildarlaun hans frá 8. maí 1998 til 20. ágúst sama ár, eða þá 108 daga sem hann hafi starfað á skipinu, hafi numið samtals 1.697.295 kr., eða 15.760 kr. fyrir hvern dag sem hann hafi verið ráðinn, sem á 90 daga uppsagnarfresti geri 1.414.440 kr.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að öll áhöfn Sólbaks EA-307 hafi verið ráðin munnlega, til einnar veiðiferðar í senn. Hafi skipverjum verið gert ljóst að skipið væri í tímabundinni leigu og gæti stefnda þurft að skila því með stuttum fyrirvara, sem hafi orðið raunin. Skipinu hafi verið skilað 20. ágúst 1998 og áhöfn þess verið tilkynnt það með nokkurra daga fyrirvara. Öllum áhafnarmönnum hafi verið boðið að starfa áfram hjá stefnda. Stefnandi hafi þegið það boð og tekið sams konar stöðu á öðru skipi stefnda, Stakfelli og farið með því eina veiðiferð, 27. ágúst til 3. september 1998. Eftir það hafi hann horfið frá störfum hjá stefnda, ráðið sig hjá öðru útgerðarfélagi 30. september 1998 og starfað hjá því frá þeim tíma, að minnsta kosti fram til 18. desember sama ár.
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi verið ráðinn tímabundið hjá stefnda til einnar veiðiferðar í senn. Ráðningartíma hans á skipið Sólbak hafi því lokið 20. ágúst 1998. Hann hafi einnig verið ráðinn tímabundið á skipið Stakfell. Í gögnum stefnda sé ekkert að finna um starfslok stefnanda, hvorki uppsagnarbréf né annað, sem bendi til þess að um munnlega tímabundna ráðningu hafi verið að ræða og stefnandi ekki kosið að koma til starfa eftir 3. september 1998. Launaseðlar bendi til þess að ráðning hafi verið tímabundin, því ætíð hafi verið gert upp fyrir hverja veiðiferð. Þá kveðst stefnda einnig byggja á því að stefnandi hafi tekið athugasemdalaust við nýju sambærilegu starfi á öðru skipi hjá stefnda, en síðan horfið frá því og ráðið sig öðru útgerðarfélagi síðar í sama mánuði. Hafi hann því glatað rétti til riftunar ráðningarsamnings. Hafi hann ekki sagt skiprúmi lausu eða lýst yfir riftun á ráðningasamningi um leið og hann hafi fengið vitneskju um að skila ætti skipinu til leigusala, heldur hafi hann starfað áfram í þágu stefnda í sams konar starfi á öðru skipi. Til að skipverji geti nýtt sér riftunarákvæði 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 verði hann að krefjast þess að nýta þann rétt um leið og hann fái vitneskju um að skipinu hafi verið skilað til leigusala. Verði ekki heldur fallist á að um riftun hafi verið að ræða á ráðningu stefnanda í skilningi 25. gr. sjómannalaga, sbr. 9. gr. sömu laga eins og haldið sé fram í stefnu.
Stefnda kveðst einnig byggja á því krafa stefnanda sé fallin niður vegna tómlætis. Hann hafi fyrst tilkynnt um að hann hyggðist bera fyrir sig riftunarreglu sjómannalaga með bréfi dagsettu 10. janúar 2001, eða tæplega tveimur og hálfu ári eftir að skipinu hafi verið skilað úr leigu. Áhrif tómlætis séu mikil í vinnurétti og gerðar ríkar kröfur til aðila um að þeir haldi fram rétti sínum. Verði að áskilja að kröfur séu hafðar uppi, að minnsta kosti áður en uppsagnafrestur sé liðinn og ótækt að útgerð þurfi að sæta því að sjómenn komi tveimur og hálfu ári eftir starfslok og hafi uppi kröfur vegna launa í uppsagnarfresti.
Þá kveðst stefnda mótmæla kröfugerð stefnanda alfarið hvað varðar grundvöll og fjárhæð, einkum kröfu um meðallaun. Sé þess krafist, ef fallist verði á kröfur stefnanda að einhverju leyti, að miðað verði við kauptryggingu og til frádráttar komi laun stefnanda hjá stefnda frá 27. ágúst til 3. september 1998 og hjá öðru útgerðarfyrirtæki frá 30. september sama ár.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hvílir skylda á útgerðarmanni til að sjá um að gerður sé skriflegur ráðningarsamningur við skipverja, þar sem meðal annars skal greina ferð þá eða tímabil sem skipverjinn er ráðinn til, hvar ráðningu skuli slitið og uppsagnarfrest, sé um það samið. Verður stefnda að bera hallann af vanrækslu skyldu sinnar samkvæmt þessu ákvæði. Hefur stefnda ekki hnekkt staðhæfingu stefnanda um að hann hafi verið ráðinn ótímabundið í skiprúm á skipið Sólbak. Ekki er um það deilt að stefnandi átti ekki kost á því að halda skiprúminu er stefnda afhenti það eigandanum. Liggur því ekki annað fyrir en að stefnanda hafi verið vikið úr skiprúmi er útgerð skipsins var fyrirvaralaust hætt, áður en ráðningartími hans var liðinn og án þess að heimild væri til þess í 23. eða 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Samkvæmt 25. gr. þeirra laga átti hann því rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. laganna, en samkvæmt 2. mgr. þeirrar greinar, sem á við um stefnanda, átti uppsagnarfrestur hans að vera 3 mánuðir.
Í sjómannalögum er ekki að finna ákvæði er takmarki rétt sjómanna til að krefjast launa í uppsagnarfresti við ákveðinn tíma. Ekki liggur fyrir að stefnandi hafi með nokkrum hætti gefið til kynna að hann hafi haft í hyggju að afsala sér tilkalli til launa í uppsagnarfresti, þótt hann hefði átt að hafa kröfuna uppi mun fyrr en hann gerði. Þegar á allt er litið verður ekki á það fallist að hann hafi fyrirgert lögvarinni kröfu sinni með tómlæti.
Réttur skipverja til kaups samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 er óháður tekjum sem hann kann að afla sér annars staðar eftir að honum er vikið úr skiprúmi. Kaupið ber að miða við meðalkaup reiknað út frá aflareynslu skipsins áður en útgerð þess var hætt. Er ekki sýnt að sú viðmiðun sem stefnandi leggur til grundvallar sé ósanngjörn, þ.e. laun hans næstu 108 daga áður en útgerð var hætt. Við munnlegan málflutning kom fram að málsaðilar eru sammála um að stefnandi hafi ráðið sig hjá stefnda í eina veiðiferð á Stakfell. Er rétt að draga laun hans fyrir vinnu hjá stefnda í uppsagnarfrestinum frá kaupi sem hann á rétt til samkvæmt ofansögðu. Ekki liggur fyrir hvað hann fékk í laun fyrir þessa veiðiferð, en samkvæmt yfirliti um lögskráningu var stefnandi lögskráður á Stakfell í 8 daga. Samkvæmt þessu verða stefnanda dæmd laun sem svara 82 dögum, eða 1.288.687 kr. (1.697.295 kr. / 108 x (90-8)). Vegna seinlætis stefnanda við framsetningu kröfunnar verða aðeins dæmdir dráttarvextir frá 10. febrúar 2001, en þá var mánuður liðinn frá því að lögmaður stefnanda ritaði bréf til stefnda og hafði kröfuna uppi.
Málskostnaður ákveðst 300.000 kr.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
Dómsorð:
Stefnda, Básafell hf., greiði stefnanda, Agnari Ásgrímssyni, 1.288.687 kr. með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 10. febrúar 2001 til 1. júlí sama ár, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags og 300.000 kr. í málskostnað.