Hæstiréttur íslands

Mál nr. 9/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hald
  • Upptaka
  • Áfengislög
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 7

 

Miðvikudaginn 7. febrúar 2001.

Nr. 9/2001.

Heilsa ehf.

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

tollstjóranum í Reykjavík

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

                                                   

Kærumál. Hald. Upptaka. Áfengislög. Einkamál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

H kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem máli hans á hendur T var vísað frá dómi. Í málinu krafðist H ógildingar á haldlagningu og síðari upptöku tollstjóra á vökva sem notaður er til matargerðar, en inniheldur nokkurt áfengi. Krafðist H einnig skila á vökvanum. Talið var að H bæri réttur til þess að fá úrlausn um réttindi þau, er kröfugerð hans lyti að. Ekki var fallist á að með mál, er höfðað væri af einkaaðila til ógildingar á haldlagningu og upptöku eigna og skila á þeim, með þeim hætti sem gert væri í málinu, bæri að fara eftir lögum um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Talið var að með mál H ætti þess í stað að fara eftir reglum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. janúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2000, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurði héraðsdómara verði hrundið og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðili dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

I.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta til ógildingar á haldlagningu og upptöku varnaraðila á 483 flöskum af vörunni Mirin Sweetened Sake og til þess að viðurkennd verði skylda hans til þess að afhenda sóknaraðila muni þessa á ný. Ágreiningslaust er að þeir höfðu verið tollafgreiddir réttilega. Lagt var hald á þá og þeir síðar gerðir upptækir á þeim grundvelli að vökvinn væri áfengi samkvæmt skilgreiningu 2. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Haldlagningin fór fram 19. nóvember 1999. Hinn 21. sama mánaðar var einnig lagt hald á 8 flöskur af sama vökva hjá öðrum seljanda, en sú aðgerð er ekki til úrlausnar hér eða síðari upptaka. Með bréfi varnaraðila 16. júní 2000 var sóknaraðila um síðir tilkynnt að flöskurnar væru gerðar upptækar. Lauk þar með meðferð málsins af hálfu tollyfirvalda. Varnaraðili hafði áður með bréfi 21. janúar 2000 einnig tilkynnt að sömu flöskur væru gerðar upptækar, en sóknaraðila þó ekki gert að greiða sekt samkvæmt 5. mgr. 136. gr. tollalaga nr. 55/1987, eins og segir í bréfinu.

II.

Sóknaraðila ber réttur til þess að fá úrlausn fyrir dómi um réttindi þau, er kröfugerð hans lýtur að. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 91/1991 taka þau til dómsmála, sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir fyrirmælum annarra laga né eiga undir sérdómstóla lögum samkvæmt. Í 1. til 3. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er mælt fyrir um það, hvaða mál skuli sæta meðferð samkvæmt þeim lögum. Mál, sem höfðað er af einkaaðila til ógildingar á haldlagningu og upptöku eigna og skila á þeim, með þeim hætti sem gert er í þessu máli, fellur ekki undir síðast nefnd lagaákvæði. Ákvæði 1. mgr. 139. gr. tollalaga, sem mælir fyrir um að með mál vegna brota á þeim skuli farið að hætti opinberra mála, breyta ekki þessari niðurstöðu. Ber því að fara með mál sóknaraðila eftir reglum laga um meðferð einkamála. Verður hinn kærði úrskurður því úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.  Varnaraðili verður dæmdur til að greiða kærumálskostnað eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Varnaraðili, tollstjórinn í Reykjavík, greiði sóknaraðila, Heilsu ehf., 60.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. desember 2000.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 19. desember s.l., er höfðað með stefnu birtri 20. september s.l.

Stefnandi er Heilsa ehf., kt. 680188-1229, Sundaborg 1, Reykjavík.

Stefndi er Tollstjóraembættið, kt. 650269-7649, Tryggvagötu 19, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að ógilt verði haldlagning og upptaka stefnda á 483 flöskum af vörunni Mirin Sweetened Sake og að viðurkennd verði skylda stefnda til að afhenda stefnanda þær 483 flöskur af Mirin Sweetened Sake sem upptækar voru gerðar.  Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.

Málavextir eru þeir að föstudaginn 19. nóvember 1999 komu starfsmenn stefnda á skrifstofu og lager stefnanda og lögðu hald á samtals 483 flöskur af Mirin Sweetened Sake.  Segir í skýrslu um haldið að varan sé vökvi í 296 ml flöskum og innihaldi m.a. 8% áfengi.  Þá var lagt hald á 8 flöskur af sömu vöru í versluninni Blómavali 22. nóvember sama ár.  Stefnandi segir lagaheimild fyrir haldlagningunni aldrei hafa verið kynnta sér en gerir ráð fyrir að byggt sé á 3. mgr. 46. gr. tollalaga.  Með bréfi stefnda til stefnanda dagsettu 21. janúar 2000 var stefnanda tilkynnt að hin haldlagða vara væri gerð upptæk án sektar samkvæmt 5. mgr. 136. gr. tollalaga.  Stefnanda barst síðan annað bréf dagsett 7. mars s.l. þar sem tilkynnt er að hugsanlegt sé að til upptöku varningsins komi og var honum gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun yrði tekin.   Segir í bréfinu að það hafi þótt ástæða til að kanna hvort innflutningur vörunnar samrýmdist ákvæðum áfengislaga þar sem alkóhólinnihald vörunnar væri 8%.  Þá var vísað til þeirrar niðurstöðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að umrædd vara væri ekki matvara heldur áfengi í skilningi áfengislaga.  Lögmanður stefnanda sendi stefnda bréf 8. júní s.l. og krafðist þess að umræddum flöskum yrði skilað þegar í stað.  Með bréfi dagsettu 16. maí s.l., sem samkvæmt gögnum málsins á að vera 16. júní, var stefnanda tilkynnt að tekin hefði verið ákvörðun um að gera upptækar, samkvæmt 136. gr. tollalaga, 491 flösku af umræddri vöru sem lagt var hald á 19. og 22. nóvember 1999.  Er þetta sagt gert í samræmi við umsögn dóms- og kirkjumálaráðuneytis frá 18. janúar s.l. þar sem komist hefði verið að þeirri niðurstöðu að umrædd vara væri ekki matvara heldur áfengi í skilningi áfengislaga.

Stefnandi byggir á því að ranglega hafi verið staðið að eignaupptökunni.  Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að gæta lögmælts andmælaréttar eins og kveðið sé á um í 13. gr. stjórnsýslulaga.  Þá hafi stefnandi ekki verið upplýstur um laga­grundvöll haldlagningarinnar og langur tími hafi liðið frá haldlagningu þar til stefnandi fékk nokkrar upplýsingar um framvindu málsins.  Með þessu háttalagi hafi stefndi brotið leiðbeiningarskyldu og meginreglur stjórnsýsluréttar um málsmeðferð og málshraða.

Þá byggir stefnandi á því að ekki hafi verið forsendur fyrir haldlagningu og síðar upptöku.  Í 3. mgr. 46. gr. tollalaga sé tollgæslumönnum rétt að leggja hald á muni sem teljast til sakargagna eða ætla megi að hafi sönnunargildi í málum vegna tolla­laga­brota.  Umrædd vara hafi verið flutt löglega inn í landið, en samkvæmt 136. gr. tolla­laga sé heimilt að gera upptæka vöru sem flutt hefur verið ólöglega inn eða á annan hátt farið með andstætt ákvæðum tollalaga.  Hafi stefnandi þurft áfengisleyfi eða önnur leyfi á grundvelli áfengislaga heyri slíkt mál undir önnur stjórnvöld en stefnda.

Stefnandi mótmælir þeim skilningi dómsmálaráðuneytis að varan sé áfengi og bendir á að samkvæmt 2. gr. áfengislaga teljist áfengi hver sá neysluhæfur vökvi sem sé að rúmmáli meira en 2.25% af hreinum vínanda.  Stefnandi kveður um sósu að ræða og sé hún ódrykkjarhæf eins og áfengir kökudropar sem seldir séu í verslunum.  Stefnandi bendir einnig á fleiri vörur sem innihalda áfengi og séu seldar í mat­vöru­versl­unum.  Byggir stefnandi á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaganna, en sam­kvæmt þeirri reglu skuli vara hans ekki hljóta annars konar meðferð innan stjórn­sýsl­unnar en sambærileg matvara.

Þá bendir stefnandi á að varan hafi verið tollflokkuð sem sósa og sé því ótvírætt að hún flokkist undir matvöru og falli því utan skilgreiningar 1. mgr. 2. gr. áfeng­is­laga.  Verði vafi um túlkun ákvæðisins að túlkast stefnanda í hag með vísan til þeirra grund­vallarsjónarmiða sem meðalhófregla 12. gr. stjórnsýslulaga sé reist á.

Stefnandi vísar einnig til EES samningsins og meginreglna EES réttar auk þeirra megin­reglna sem fram komi í 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins og 1. gr. Samningsviðauka nr. 1 við samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis sem öðlast hafi lagagildi með lögum nr. 62/1994.

Stefnandi vísar um málskostnað til XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Stefndi rökstyður aðalkröfu sína um frávísun þannig að málið sé rekið sem einka­mál en ætti að vera rekið á grundvelli lagaheimilda laga nr. 19/1991 um meðferð opin­berra mála.  Samkvæmt 139. gr. tollalaga skuli fara með brot á tollalögum að hætti opin­berra mála.  Brot á áfengislögum varði sektum og fangelsi og þar með fari um þau að hætti opinberra mála.  Þá bendir stefnandi á að samkvæmt 2. tl. 1. gr. laga nr. 19/1991 skuli mál til upptöku eigna fara eftir ákvæðum þeirra laga.  Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. sömu laga skuli mál sæta meðferð laganna sé það ákveðið í öðrum lögum. Þá vísar stefnandi til ákvæða 75.gr., 78. gr. og 79. gr. laganna, en þar sé m.a. vísað til hald­lagningar og réttar vörsluhafa muna að bera ágreining undir dómara.  Þar sem beinlínis sé gert ráð fyrir því að álitamál varðandi haldlagningu og eignaupptöku skuli rekin á grundvelli laga um meðferð opinberra mála, beri að vísa málinu frá dómi.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 taka lögin til dóms­mála sem hvorki sæta sérstakri meðferð eftir fyrirmælum annarra laga né eiga undir sérdómstóla lögum samkvæmt.  Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu segir svo um 1. gr. að utan marka frumvarpsins falli opinber mál eins og þau eru skilgreind í 1.-3. gr. laga nr. 19/1991, en þau sæti meðferð eftir öðrum ákvæðum þeirra laga.  Í 1. mgr. 1. gr. síðargreindu laganna segir að þau mál öll, sem handhafar ríkisvaldsins höfði til refsingar lögum samkvæmt, skuli fara eftir ákvæðum laganna, nema þau sæti með­ferð sérdómstóla sem lögin taki ekki til.  Í 2. mgr. sömu lagagreinar segir að sama eigi við um mál til upptöku eigna eða sviptingar réttinda.

Samkvæmt 1. mgr. 139. gr. tollalaga skal farið með mál vegna brota á lögunum að hætti opinberra mála.  Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. áfengislaga varða brot á lögunum sektum eða fangelsi allt að sex árum og eru slík mál rekin að hætti opinberra mála.  Samkvæmt 78. gr. laga um meðferð opinberra mála skal leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í opinberu máli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir.  Ekki er gert ráð fyrir því að þörf sé úrskurðar dómara þegar tekin er ákvörðun um hald en samkvæmt 79. gr. lag­anna getur vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, borið ágreiningsefnið undir dómara vilji hann ekki hlíta haldlagningunni.

Dómkröfur stefnanda í máli þessu snúa að ógildingu haldlagningar og upptöku og viður­kenningu á skyldu stefnda til afhendingar á 483 flöskum af tilgreindri vöru sem gerð var upptæk.  Verður því að telja um opinbert mál að ræða í skilningi laga nr. 19/1991.  Af framangreindum lagaákvæðum er ljóst að ágreiningur um hald og upp­töku eigna fer að hætti þeirra laga.  Verður því ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari, kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ:

Máli þessu er vísað frá dómi.  Málskostnaður fellur niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson.

-------------------------------------------