Hæstiréttur íslands
Mál nr. 630/2006
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Líkamsárás
- Húsbrot
- Frelsissvipting
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 26. apríl 2007. |
|
Nr. 630/2006. |
Ákæruvaldið(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Jóni Péturssyni (Hilmar Ingimundarson hrl. Magnús Björn Brynjólfsson hdl.) |
Kynferðisbrot. Líkamsárás. Húsbrot. Frelsissvipting. Miskabætur.
J var sakfelldur fyrir þrjár líkamsárásir á hendur fyrrverandi sambúðarkonu sinni Y og húsbrot þegar hann ruddist í heimildarleysi inn í húsnæði þar sem hún var stödd. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir frelsissviptingu og kynferðisbrot gagnvart fyrrverandi unnustu sinni Z. Þótti refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár og var hann jafnframt dæmdur til að greiða Y og Z miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 27. nóvember 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða Y 1.400.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 800.000 krónum frá 27. júlí til 18. ágúst 2005, af 1.400.000 krónum frá þeim degi til 29. október sama ár og af 600.000 krónum frá þeim degi til 30. sama mánaðar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 800.000 krónum frá 29. október 2005 til 30. sama mánaðar og af 1.400.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða Z 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. febrúar 2006 til 11. apríl sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing samkvæmt héraðsdómi verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að kröfum Y og Z verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að kröfurnar verði lækkaðar.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða og refsingu. Þá verður jafnframt staðfest niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð skaðabóta úr hendi ákærða til Y og Z, en um vexti af þeim bótum fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Niðurstaða héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Jóns Péturssonar, og um sakarkostnað.
Ákærði greiði Y 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 400.000 krónum frá 27. júlí til 18. ágúst 2005, af 800.000 krónum frá þeim degi til 29. október sama ár og af 400.000 krónum frá þeim degi til 30. sama mánaðar, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga af 400.000 krónum frá 29. október 2005 til 30. sama mánaðar og af 800.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá greiði ákærði Z 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 11. febrúar 2006 til 11. apríl sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 602.369 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Ásu Ólafsdóttur hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2006.
Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 2. júní sl., á hendur ákærða, Jóni Péturssyni, kt. 180551-2719, Ásabraut 6, Grindavík, “fyrir hegningarlagabrot eins og hér greinir;
A.
Líkamsárásir í júlí 2005 gagnvart Y, [kennitala], fyrrverandi sambýliskonu ákærða, á heimili þeirra að A, Reykjavík, eins og hér er rakið:
1. Aðfaranótt þriðjudagsins 26. júlí, slegið Y mörg högg í upphandlegg, bak, kvið, brjóstkassa og sitjanda, og sparkað í bak hennar.
2. Miðvikudaginn 27. júlí, gripið í hálsmál á sloppi sem hún klæddist, dregið hana inn í svefnherbergi þar sem ákærði fleygði henni í rúm, gripið í hár hennar, sest klofvega ofan á hana og þrýst kodda fyrir vit hennar uns hún átti erfitt með andardrátt.
Við þetta hlaut Y mar á öxlum og upphandleggjum, mar á búk, mar og yfirborðsáverka á hné og fótleggi, og rispur á vinstra gagnauga.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt 1. ákærulið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sbr. lög nr. 20/1981, en samkvæmt 2. ákærulið við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.
B.
Húsbrot og líkamsárás, fimmtudaginn 18. ágúst 2005, að B, Reykjavík, sem hér greinir:
3. Húsbrot með því að ryðjast í heimildarleysi inn um opnar dyr íbúðarhússins.
4. Líkamsárás með því að hafa eftir að inn var komið slegið Y, sem þar var við vinnu, mörg hnefahögg í andlit og líkama, sparkað í líkama hennar og beitt hana líkamlegu ofbeldi með öðrum hætti með þeim afleiðingum að Y hlaut mar og yfirborðsáverka á andlit, brjóst og bak, og sár á fingrum.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt 3. ákærulið varða við 231. gr. almennra hegningarlaga en samkvæmt 4. ákærulið við 1. mgr. 217. gr. sömu laga.
C.
Fyrir eftirgreind brot gagnvart Z, [kennitala], fyrrverandi unnustu ákærða, framin aðfaranótt og fyrri hluta laugardagsins 11. febrúar 2006, á heimili ákærða að A, Reykjavík:
5. Frelsissviptingu, með því að hafa haldið Z nauðugri í íbúðinni frá því um klukkan 05.00 um nóttina til klukkan 13.25 þegar lögregla kom á vettvang. Ákærði læsti hurðum íbúðarinnar svo að Z kæmist ekki á brott og faldi þá síma sem voru í íbúðinni.
Telst þetta varða við 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga.
6. Kynferðisbrot og líkamsárás með því að hafa í íbúðinni á ofangreindu tímabili þrívegis þröngvað Z með ofbeldi til samræðis, sem hér er rakið:
a. Nauðgun, með því að hafa ráðist að Z þar sem hún var stödd í stofu íbúðarinnar, rifið í hár hennar, slegið andliti hennar í gólfið og dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi þar sem ákærði barði Z ítrekað í höfuðið, sparkaði í hana, reif úr fötum og þröngvað til holdlegs samræðis.
b. Nauðgun og stórfellda líkamsárás, með því að hafa dregið Z frá baðherbergi íbúðarinnar og inn í svefnherbergi og þröngvað henni til holdlegs samræðis og þegar Z öskraði á ákærða barið hana hnefahögg í andlit og þrýst kodda fyrir vit hennar þar til hún átti erfitt með andardrátt.
c. Nauðgun, með því að hafa ráðist á Z í eldhúsi íbúðarinnar og dregið hana inn í svefnherbergi þar sem hann þuklaði líkama Z og þegar hún grátbað ákærða að hætta, rifið í handlegg og öxl hennar og þröngvað henni til holdlegs samræðis.
Við þetta hlaut Z skurði, rispur og marbletti á enni og fyrir neðan hægra auga, rof í húð auk bólgu og mars ofan við efri vör vinstra megin, og fjölda marbletta á hand- og fótleggjum.
Telst háttsemi ákærða samkvæmt ákæruliðum a, b og c varða við 194. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992, og háttsemi ákærða samkvæmt ákærulið b að auki við 2. mgr. 218. gr. sömu laga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur:
Af hálfu Y er þess krafist að ákærði verði dæmdur, vegna líkamsárása 26. og 27. júlí 2005, til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 800.000, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu auk kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Af hálfu Y er þess krafist að ákærði verði dæmdur, vegna líkamsárásar þann 18. ágúst 2005, til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 600.000, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu auk kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að viðbættum virðisaukaskatti.
Af hálfu Z er þess krafist að ákærði verði dæmdur, vegna frelsissviptingar, kynferðisbrota og líkamsárásar, þann 11. febrúar 2006, til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000, auk vaxta og dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu auk kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar að viðbættum virðisaukaskatti.”
Málavextir
A-kafli ákæru.
Miðvikudaginn 10. ágúst 2005, kl. 13:01, kom Y til lögreglu til að leggja fram kæru á hendur ákærða, Jóni Péturssyni, fyrir ofbeldi. Lýsti hún því hvernig þau kynntust og sambúð þeirra hófst að A. Kvað hún sambúðarörðugleika hafa byrjað fljótlega eftir það og þá í tengslum við drykkju ákærða. Greindi hún frá ofbeldi sem hún hafi mátt sæta af hans hálfu og hvernig hann hafi ítrekað átt við hana kynmök gegn hennar vilja. Að kvöldi hins 25. júlí 2005 hefði hún farið í kvikmyndahús og fengið far heim með manni, sem þar var staddur. Þegar heim kom og hún sagði ákærða frá því, hefði hann reiðst og kýlt hana í upphandlegginn og sparkað í bak hennar. Hann hefði tekið af henni gsm-síma hennar og hefði hún þá klórað hann til blóðs á kvið, handleggjum og andliti. Við það hefði hann reiðst heiftarlega og barið hana í upphandleggina, brjóstkassann og kviðinn. Þegar hún hefði snúið sér við hefði hann barið hana í bakið eða rassinn. Hinn 27. júlí 2005 hefði hún verið að þrífa hjá C, sem hefði veitt áverkum hennar eftirtekt. Hefði hún greint C frá því sem gerst hafði. Þegar heim kom hefði ákærði byrjað að berja hana aftur. Hann hefði gripið í hálsmáls á sloppi sem hún klæddist, dregið hana inn í hjónaherbergi og fleygt henni á rúmið. Við það hefðu báðir sköflungar hennar rekist í rúmbríkina. Hann hefði svo gripið í hár hennar, fellt hana aftur í rúmið og þrýst kodda yfir andlit hennar svo að hún átti erfitt með andardrátt og fann blóðbragð í munni. Ákærði hafi svo tekið koddann af andliti hennar og hún reynt að róa hann og rætt við hann langt fram á nótt. Kvaðst hún hafa leitað sér aðhlynningar á slysadeild 29. júlí og eftir það búið hjá vinkonu sinni. Hefði hún ætlað fyrr á slysadeild en ákærði hafi komið í veg fyrir það. Þá hefði ákærði ítrekað ónáðað hana eftir að hún fór frá honum.
Ákærði var yfirheyrður vegna málsins 5. september 2005. Vísaði hann á bug ásökunum um kynferðislegt ofbeldi, enda hefði Y verið sambýliskona hans og þau lifað kynlífi saman. Kannaðist hann við tilvikið þegar Y fór í kvikmyndahúsið og maðurinn fylgdi henni heim. Kvaðst hann hafa upplifað það sem framhjáhald, enda hafi hún verið í burtu frá kl. 18:00-00:30. Hefðu þau slegist og hún klórað hann en hann slegið hana svo að sá á þeim báðum. Þau hefðu sæst og Y búið hjá honum í 2-3 daga á eftir. Hefði hann hvatt hana til að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi enda hefði hún kvartað undan eymslum. Hún hefði ekki komið heim til hans eftir það og sagt að sér væri ráðlagt að fara ekki aftur til hans. Ákærði kvaðst ekki kannast við átök við Y hinn 27. júlí 2005. Hann var yfirheyrður að nýju 29. september 2005 og hélt hann sig þá við sinn fyrri framburð.
Í málinu liggur fyrir vottorð Kristínar Sigurðardóttur læknis um skoðun á Y 29. júlí 2005 en þann dag leitaði hún til slysadeildar. Er þar haft eftir henni að fyrrverandi kærasti hennar hefði barið hana. Hafi þetta byrjað um kl. 00:30 aðfaranótt þriðjudagsins (26. júlí) og endurtekið sig á miðvikudagskvöldið. Kvaðst Y búa hjá ákærða, sem væri fyrrverandi kærasti hennar og jafnframt atvinnurekandi. Kvartaði hún undan eymslum efst í kviði, neðst á brjósti framanverðu og á baki, aðallega hægra megin neðst yfir utanverðan brjóstkassann. Lýsti hún því að áverkarnir hefðu hlotist af því að ákærði kýldi hana í líkamann, þrívegis í höfuð hennar og einnig með því að halda utan um háls hennar. Hann hefði setið á henni og sett kodda yfir höfuð hennar í rúminu þar til hún fékk blóðbragð í munninn. Einnig hefði hann hrint henni í rúmið en við það hefði hún fengið áverka framan á sköflung. Þá sagði í vottorðinu að við skoðun hafi Y verið vel áttuð, komið vel fyrir og verið skýr í frásögn. Á upphandleggjum hennar hefðu komið í ljós augljósir marblettir, sérstaklega hægra megin og einnig nokkrir framanvert á upphandlegg, ca 4x6 cm bæði neðarlega og ofarlega á framhandlegg. Einnig hefði mátt sjá verulegt roða- og þrotasvæði yfir fremri “deltoid”-bungu, þar hafi verið roði og þroti, þanið og aumt. Einnig hliðlægt, ca 4-5x6 cm marblettur og aftanvert á hægri upphandlegg. Á vinstri upphandlegg hafi verið ca 4-5 cm marblettur framan og utanvert og síðan 2 1x1 cm aftanvert. Kvaðst Y hafa fengið þessa áverka þegar ákærði kýldi hana og eins við það að hún notað öxlina og upphandlegginn til þess að skýla sér fyrir höggum í brjóstið. Þreifieymsli hefðu verið í kringum hálsinn og svolítil neðst yfir brjóstbeini. Marblettir hefðu verið framan á sköflunginum, stór marblettur, 4x5 cm, um miðjan framanverðan sköflunginn og sár hægra megin á hægri sköflung ca 1x1 fyrir miðjum sköflungi eftir höggið í rúmið.
Gerð var réttarlæknisfræðileg skoðun á Y 29. júlí 2005 af Jóhönnu Jónasdóttur lækni. Í skýrslu læknisins er rakin frásögn konunnar af því sem gerst hafði og samræmist hún fyrri frásögnum hennar af atvikum. Um ástand hennar við skoðun segir að hún hafi virst yfirveguð, en þegar ákærði hafi hringt í gsm-síma hennar hafi sést á henni að henni liði ekki vel. Um tilfinningalegt ástand Y við skoðun er merkt við; í losti, fjarræn, óraunveruleikakennd, í tilfinningalegu jafnvægi, yfirveguð, skýr frásögn og óttaslegin, kreppuviðbrögð.
Þá er áverkum Y lýst svo að hægri upphandleggur og öxl séu alsett bláum og rauðum blettum sem hafi verið helaumir. Þeir stærstu hafi verið framan á upphandleggnum og upp á öxlina, 8x12 cm, 7x12 cm og 6x4 cm að stærð. Hafi þeir runnið saman. Hægri upphandleggurinn hafi verið 2 cm sverari enn sá vinstri vegna bólgu. Á vinstri upphandlegg og öxl framanvert hafi verið 10x4 cm blárauður blettur framan á upphandlegg sem hafi náð upp á öxlina. Hægra megin á bringusvæði hafi verið hringlaga 3x3 cm bláleitur blettur. Á vinstra gagnauga hafi verið rauðleitt strik í undirhúð 2x3 cm. Framan á vinstri sköflung hafi verið marblettur og afrifa í húð með hrúðri ofan á, sennilega 2-3 daga gamalt. Á hægri sköflungi hafi verið sár með storknuðu blóði. Mikil eymsli hafi verið við þreifingu á brjóstkassa, sérstaklega hafi hægri síða og svæði aftur á bak verið aumt. Þá hafi verið eymsli við þreifingu á kvið sérstaklega áberandi yfir hægri hluta kviðar. Í niðurstöðu skýrslunnar segir m.a. að konan hafi verið öll blá, marin og bólgin. Sérstaklega á hægri upphandlegg. Áverkar hennar hafi komið heim og saman við lýsingu hennar á barsmíðunum sem áttu sér stað dagana á undan.
Teknar voru ljósmyndir af áverkum Y og liggja þær fyrir í málinu.
Þá er skýrsla tæknideildar á meðal gagna málsins en tekin voru sýni úr blettum í nærbuxum Y. Jákvæð svörun fékkst við AP sæðisprófi en við frekari prófun með ABA p30 staðfestingarprófi fékkst engin svörun. Voru blettirnir þá ekki prófaðir frekar.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram er komið í málinu fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kveður þau Y hafa búið saman í átta mánuði og þau verið í sambúð þegar atvik málsins urðu. Hún hefði þó sofið ein vegna þess hve mikið hann hraut. Hann segir Y hafa sagt við sig að hún ætlaði í bíó þriðjudaginn 26. júlí og vildi fara ein. Hún hafi farið um sexleytið og komið heim um hálfeitt um nóttina. Hafi hann haft af þessu miklar áhyggjur og hringt á lögreglu til að grennslast fyrir um hvort hún hefði orðið fyrir slysi. Hann kveðst hafa drukkið 3-4 bjóra til þess að róa sig meðan hann beið konunnar. Hann hafi svo séð hana koma heim í bíl með karlmanni og hann komist í uppnám af því. Hafi orðið með þeim orðaskak út af þessu og stympingar, sem hefðu endað í slagsmálum milli þeirra. Hafi hann ekki verið einn um að slá því hún hafi bæði slegist, klórað og sparkað. Hann kveðst hafa slegið Y með krepptum hnefa og hefðu slagsmálin borist úr ganginum inn í herbergi hennar. Hann kveðst hafa fengið af þessum átökum smávægilegar skrámur og marbletti. Hann kveður Y hafa kvartað undan því tveim dögum síðar að hún ætti erfitt með andardrátt og þyrfti að komast til læknis. Hafi hann boðist til þess að aka henni en hún ekki þegið það og farið til læknis með strætisvagni. Hafi hún svo hringt í hann og sagt að henni hefði verið ráðlagt að snúa ekki heim til hans aftur og hún ekki komið eftir það, nema einu sinni til þess að þrífa hjá honum gegn greiðslu meðan hann var úti á landi að vinna. Hafi samband þeirra verið vinsamlegt eftir þennan atburð. Ákærði segist ekki vefengja að áverkar á konunni, sem lýst er í læknisvottorðinu, séu af hans völdum, enda engum öðrum til að dreifa og þau hafi slegist. Hann neitar því aftur á móti að hafa sparkað í bakið á konunni, eins og lýst er í 1. tl. ákæru. Hafi aðeins verið um handalögmál að ræða á milli þeirra og engin spörk hafi gengið á milli þeirra.
Um atvikið daginn eftir, sbr. 2. tl. Ákærunnar, segir ákærði að hann kannist ekki við nein átök við Y þann dag. Muni hann ekki annað en að það hafi verið viðburðalaus dagur, venjulegur vinnudagur. Líklega hafi hann því ekið Y í vinnu um morguninn, eins og vant var þá daga sem hún vann. Sé það alrangt í ákærunni að hann hafi veist að konunni eins og segi í þessum ákærulið.
Um það hvort hann hafi eyðilagt ljósmyndir fyrir Y, sbr. hér að neðan, segist hann hafa tekið dót hennar saman og sett í poka. Geti verið að eitthvað hafi “farið á skjön þar” og myndir og eitthvað fleira hafi eyðilagst. Það hafi þó ekki verið viljandi af hans hálfu heldur gerst í flutningunum. Þá gæti það einnig hafa gerst eftir að hann skilaði af sér dótinu hennar fyrir utan hjá henni, við það að hún og vinir hennar fluttu það inn til hennar.
Y hefur skýrt frá því að hún hafi komið hingað til lands í mars 2004 í atvinnuleit. Hafi hún kynnst ákærða og vinátta hafi tekist með þeim og eftir að hún fór úr landi aftur hafi þau haldið sambandi. Hún hafi svo komið aftur um haustið og þau ákærði þá tekið upp sambúð. Þau hafi sofið saman þann tíma sem sambúðin varði og sé það rangt sem hann hafi sagt, að hún hafi sofið út af fyrir sig vegna þess að hann hraut. Rétt sé að hann hafi hrotið en hún hafi sofið þrátt fyrir það. Þau hafi hins vegar slitið sambúðinni í mars 2005 en hún sagt að hún vildi halda áfram að vinna fyrir hann og þau gætu verið vinir áfram. Hún hafi fengið herbergi í íbúð hans til afnota, enda hafi dvalarleyfi hennar hér á landi kveðið á um það að ákærði sæi henni fyrir húsnæði. Ákærði hafi enda sagt við hana, þegar þau slitu sambúðinni, að hún gæti búið hjá honum. Hinn 25. júlí hafi hún verið nýbúin að fá ökuskírteini og hugðist halda upp á það með því að fara í bíó. Á þessum tíma hafi þau ákærði ekki verið í ástarsambandi eftir að hún sleit því í mars. Hún hafi hins vegar unnið hjá ákærða en fengið að dvelja í íbúð ákærða og haft herbergi sonar hans til afnota. Hún kveðst ekki vita hvort eða hvernig megi læsa herbergjum íbúðarinnar. Ákærði hafi viljað fara með henni á föstudeginum en þar sem dóttir hans var væntanleg þá um helgina kveðst hún hafa sagt við hann að betra væri að hann væri með dóttur sinni og hún færi ein á bíó. Hafi hún farið í strætisvagni í bíó Smáralind og myndin hafi byrjað kl. 18. Í hléi á myndinni hafi hún farið að tala við karlmann sem sat við hlið hennar og eftir myndina hafi þau haldið áfram að spjalla. Hún hafi svo þegið af honum bolla af heitu súkkulaði í nálægum veitingastað. Hafi þau spjallað um hitt og þetta og að lokum hafi maðurinn ekið henni heim. Hún hafi ekki gert sér grein fyrir því að ákærði stæði við gluggann og fylgdist með henni. Þegar hún kom inn hafi hann beðið hennar við dyrnar og spurt hvaða maður þetta væri, hvort hún hefði haft mök við hann og margt annað en hún sagt ákærða allt satt um kynni sín af manninum. Hafi ákærði þá sagt að hann hefði haft áhyggjur af henni og hringt í móður hennar og D, vinkonu hennar. Kveðst Y þá hafa sent D sms-skilaboð um að allt væri í lagi en þegar hún hugðist hringja í móður sína hafi ákærði þrifið í símann og farið að slá hana, tekið símann af henni og reynt að brjóta hann. Kveðst hún hafa gripið í buxnastreng ákærða og teygt sig eftir símanum. Hann sé mun stærri en hún og hafi haldið símanum utan seilingar hennar. Í þessum átökum hafi hún óvart klórað ákærða í mittisstað og andlit þegar hún teygði sig eftir símanum. Hafi hann orðið mjög reiður og æstur og slegið hana. Hafi barsmíðarnar haldið áfram fram undir morgun, 26. júlí. Þegar hann hætti barsmíðunum hafi hún farið inn til sín og skipt um föt því hún ætlaði í sturtu. Hann hafi hins vegar komið inn í baðherbergið á eftir henni og haldið áfram að berja hana. Næst hafi hann dregið hana fram á gang og ýtt henni inn í svefnherbergi sitt svo að hún datt fram yfir sig á rúmið og rakst með sköflungana á rúmbríkina. Vegna frásagnar hennar hjá lögreglu segir hún aðspurð að það hafi verið 26. júlí, sem hún meiddi sig þannig á sköflungunum. Ákærði hafi komið henni ofan í rúmið og nauðgað henni þar. Eftir það hafi hann sagt að hún hefði verið slæm að koma með mann inn á heimilið og röflað áfram. Hafi hún sagt að maðurinn hefði einungis ekið henni heim úr bíó. Hann hafi orðið enn reiðari og gengið fram og aftur um íbúðina og skipaði henni að vera kyrri í herberginu. Hún hafi verið hrædd og því ekkert aðhafst fyrr en hún þurfti að fara til vinnu um morguninn.
Eftir vinnu þennan dag, miðvikudaginn 27. júlí, kveðst Y hafi haldið heim fótgangandi að A. Ákærði hafi verið þar fyrir við drykkju og æstur í skapi. Þegar hún sagði honum að hún vildi flytja úr íbúð hans hafi hann orðið reiður og farið að spyrja hana út úr um það hvort hún hefði sagt frá því sem gerst hafði. Hafi hann gerst æstari og farið að berja hana. Hafi hún farið inn til sín, lokað dyrunum og sest þar á flatsæng, sem hún hafði útbúið sér, og svo farið að lesa. Hann hafi hins vegar opnað dyrnar með látum þar sem hann vildi ekki hafa lokað. Móðir hennar hafi hringt síðdegis þennan dag til þess að fregna af henni. Kveðst hún hafa sagt móður sinni að hún gæti ekki talað við hana en hún myndi hafa samband síðar. Jafnframt hafði hún sent sms-skeyti til vinkonu sinnar í London og sagt henni frá því sem gerst hafði. Vinkonan hafi hringt og að því samtali loknu hafi ákærði spurt hvað þær hefðu talað. Hafi hún sagt ákærða að það kæmi honum ekki við. Hafi hann orðið æstari og æstari og tönnlast á þessu. Að endingu hafi hann sagt að það væri gott að sannleikurinn væri kominn í ljós og nú gæti hann varið sig. Hann hafi svo orðið drukknari og enn æstari og komið inn til hennar, slegið hana og kýlt og sparkað í hana, svo fast að höfuð hennar slóst utan í vegginn. Hún ítrekar, aðspurð, að þetta hafi ákærði gert henni 27. júlí. Hafi þetta gengið svona með hléum en að endingu hafi hann tekið í hálsmálið á sloppnum sem hún var í og dregið hana inn í svefnherbergi sitt. Hafi hún farið yfir rúmið í þeirri von að geta þannig komist út úr herberginu. Hafi hún einnig barið í gluggann til þess að gera viðvart um árásina. Hafi hann fellt hana á rúmið og hann haldið henni fastri á hárfléttunum en hún barist á móti og reynt að komast frá honum. Hafi hann sest klofvega ofan á hana og haldið henni þannig niðri. Hafi hún marghrópað á hjálp en hann þá tekið kodda og sett yfir andlit henni. Hún hafi reynt að grípa í eitthvað með höndunum en hann haldið henni niðri með annarri hendi. Hann hafi hert tökin eftir því sem hún barðist meira um. Hafi hann þrýst koddanum svo fast að vitum hennar að hún hætti að geta andað. Hafi hún fundið fyrir doða í höfði og blóðbragði í munni. Þegar hún hætti að berjast um hafi hann tekið koddann af andliti hennar og nauðgað henni. Hafi hún grátið meðan á þessu gekk. Að þessum verknaði loknum hafi hann farið fram úr rúminu og skipað henni að halda sér inni í herberginu. Hafi hann haldið áfram drykkjunni langt fram á nótt.
Daginn eftir, fimmtudaginn 28. júlí, þegar hún fór að vinna hafi hún fundið fyrir öndunarerfiðleikum og verkjum í brjóstkassa og kviði. Hafi ákærði komið til þess að sækja hana á vinnustað í Árbæjarhverfi en áður en það varð hafði hún farið út á strætisvagnabiðstöð til þess að fara á sjúkrahús. Hafi ákærði séð hana þar og hún farið í bílinn til hans. Hafi hann verið sýnilega ölvaður og hún því tekið að sér að aka. Eftir að heim kom hafi hún sagt honum að hún þyrfti að komast á spítala en hann ekki viljað það og sagst mundu fara með hana þangað ef henni versnaði. Hafi hún farið inn til sín og sest þar en hann hafi haldið áfram drykkjunni. Hafi hann farið með blótsyrði og sagt að hún hefði verið vond við hann með því að koma með karlmann á heimilið. Hann hafi ekki slegið hana en komið inn í herbergi hennar, látið hana leggjast með sér á fletið. Tók hann utan um hana og sagðist elska hana en klifaði áfram á því að það hefði verið ljótt af henni að koma með karlmann með sér heim. Á föstudeginum 29. júlí hafi hún farið til vinnu en einnig haft með sér vegabréf sitt og nauðsynjar. Hafi hún flýtt sér með hreingerningarstörfin og farið áður en ákærði kom til þess að sækja hana. Hafi hún farið á neyðarmóttökuna í Fossvogsspítala. Þar hafi hún sætt læknisrannsókn og hún skýrt starfsfólkinu frá atvikunum. Hafi hún verið marin á handleggjum og með sár á fótleggjum. Þá hafi verið töluvert innvortis mar í brjóst- og kviðarholi. Hún kveður ákærða eftir þetta hafa kært hana til útlendingaeftirlitsins fyrir það vinna hér ólöglega við ræstingar. Hún kannast við að hafa verið í símsambandi við ákærða eftir þetta en það hafi eingöngu verið til þess að fá hjá honum gögn vegna framlengingar á dvalarleyfi hennar hér. Ekki muni hún hversu oft hún hringdi en hún hafi oft þurft að minna hann á þetta. Ákærði hafi hins vegar eftir þetta sífellt áreitt hana og vinkonu hennar, D, sem hún dvaldist þá hjá, með símhringingum í heimasíma og farsíma vinkonunnar því ákærði hafi ekki vitað um númer hennar sjálfrar. Hafi þær kvartað til lögreglu yfir þessum hringingum hans. Hún kveðst hafa fengið húslykil hjá ákærða til þess að ræsta hjá honum. Hafi þetta verið að beiðni ákærða og vegna þess að dóttir hans var væntanleg í heimsókn. Hafi ákærði sett lykilinn í póstkassann og sagst ekki mundu verða heima, sem hafi gengið eftir.
Y segir ákærða hafa skemmt persónulega muni hennar, geislaspilara með hátölurum og það sem meira sé um vert; hann hafi eyðilagt ljósmyndir af henni á ýmsum aldursskeiðum sem móðir hennar hafði gefið henni. Jóhanna Jónasdóttir læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest læknisvottorð sitt í málinu. Hún skoðaði Y 29. júlí 2005 á neyðarmóttökunni í Fossvogsspítala. Hún segir að konan hafi verið illa útleikin, skelfd og miður sín. Hafi hún verið með marbletti, eins og komi fram í vottorðinu um þessa skoðun. Minnir hana að konan hafi sagt að undanfarna þrjá daga hefði maður sem hún hafði búið með áður lúbarið hana eftir að hún kom heim úr bíó. Hefði hún talað við vinkonu sína sem hefði hvatt hana til þess að fara í skoðun, enda hefði hún verið með innantökur og liðið illa eftir meðferðina. Greinilegt hafi verið af marblettum á handleggjum hennar að hún hafði borið þá fyrir andlitið til þess að verjast höggum. Ekki hafi sést merki um það að koddi hefði verið settur fyrir vit konunni, enda sé erfitt að greina merki eftir slíkt. Aftur á móti hafi konan sagt manninn hafa hótað því að láta hana hverfa og hún verið hrædd um að kafna við þetta. Þá geti komið erting í öndunarfærin eftir slíkt og hún valdið hósta. Blóðbragð í munni geti verið merki um áreynslu.
Niðurstaða
Y hefur verið staðföst í skýrslum sínum um málsatvikin, sérlega greinargóð og nákvæm. Álítur dómurinn hana vera trúverðugt vitni. Læknisvottorð og vætti Jóhönnu Jónasdóttur, svo og læknisvottorð og vætti Kristínar Sigurðardóttur, þykja renna styrkum stoðum undir frásögn konunnar. Hið sama er að segja um vætti Eyrúnar Bjargar Jónsdóttur hjúkrunarfræðings (sjá hér að neðan) og um vottorð og vætti Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings (einnig hér að neðan). Loks styðja frásögn konunnar ljósmyndir af áverkum sem teknar voru þegar hún kom á slysadeild.
1. Ákærði kannast við að hafa lent í átökum við konuna aðfaranótt þriðjudagsins 26. júlí og segir þetta hafa verið slagsmál þar sem hún hafi beitt sér ekki síður en hann. Hann kveður áverkana á henni hljóta að vera eftir þessi átök, enda engum öðrum til að dreifa en honum. Mikill munur er á líkamsburðum ákærða og Y og þykir dóminum óhætt að leggja frásögn hennar til grundvallar og slá því föstu að ákærði hafi ráðist á hana og slegið hana margsinnis í upphandlegg, bak, kvið og sitjanda og sparkað í bak hennar, eins og honum er gefið að sök í 1. tl. A-kafla ákæru. Hefur hann með þessu orðið sannur að broti gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
2. Skilja verður ákæruna þannig að í 2. tölulið A-kafla sé ákærða gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, einkum með því að þrýsta kodda fyrir vit Y svo að hún átti erfitt um andardrátt. Ákærði neitar því að nokkur átök hafi orðið milli þeirra Y miðvikudaginn 27. júlí. Áverkar á sköflungum hennar samrýmast því að henni hafi verið hrint eða fleygt í rúmið og þá kvartaði hún um eymsli í hálsi við læknisskoðun sem samrýmist því að hert hafi verið að hálsi hennar, eins og hún hefur sagt (en ekki er ákært fyrir). Þykir þetta styrkja frásögn konunnar um þetta atvik. Þá þykir það styrkja frásögn konunnar um það að ákærði hafi sest ofan á hana í rúminu að hún kvartaði við læknana um eymsli í brjóst- og kviðarholi. Þykir vera sannað með framburði hennar og læknisvottorðunum að ákærði hafi hrint konunni í rúmið og sest ofan á hana. Varðar þetta athæfi hans við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en málið hefur verið reifað að þessu leyti, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.
Þar sem ekki fundust merki við læknisskoðun um það að kodda hafi verið þrýst fyrir vit Y svo að hún átti erfitt með að anda, verður gegn neitun ákærða að telja það ósannað og sýkna ákærða af líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
B-kafli ákæru.
Hinn 18. ágúst 2005, kl. 9.47, bárust boð frá fjarskiptamiðstöð lögreglunnar, um að barn hefði hringt í mikilli geðshræringu frá B og tilkynnt um líkamsárás. Þegar lögreglan kom á vettvang skömmu síðar reyndist árásarmaðurinn vera farinn af vettvangi en fyrrnefnd Y, sem fyrir árásinni varð, kvað hann vera fyrrverandi sambýlismann sinn, ákærða Jón Pétursson. Kvað hún árásina hafa borið að með þeim hætti að hann hefði knúið dyra í B, þar sem hún var að vinna við þrif, og hefði E, sonur húsráðanda, opnað dyrnar. Hefði ákærði ruðst inn og ráðist að henni en hún hafi náð að verjast honum og hann hafi að lokum horfið á braut. Í skýrslu lögreglu segir að Y hafi verið með nýkomna áverka á öxl og hægri hönd og var hún flutt á slysadeild til aðhlynningar.
Daginn eftir, 19. ágúst 2005, kom F á lögreglustöðina og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir húsbrot í íbúð hennar að B. Kvað hún son hennar hafa opnað dyrnar fyrir ákærða og orðið vitni að því þegar hann réðst á Y. Drengurinn hefði hlaupið inn á baðherbergi, skriðið út um þakglugga og þannig komist inn í næstu íbúð. Kvað hún hann hafa orðið fyrir áfalli eftir atburðinn. Y kom á lögreglustöðina hinn 29. ágúst 2005 og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir þessa líkamsárás. Þá krafðist hún þess að sett yrði nálgunarbann á ákærða, sem hefði ítrekað ógnað henni. Lýsti hún atvikum, hinn 18. ágúst 2005, svo að ákærði hefði komið inn í íbúðina að B, þegar E hafði opnað dyrnar fyrir honum. Ákærði hefði kallað nafn hennar og þegar hún kom fram í inngang íbúðarinnar, þar sem hann stóð, hefði hann ráðist að henni, náð á henni taki og kýlt hana með krepptum hnefa í líkamann og höfuðið. Þá hefði hann reynt að draga hana út úr húsinu en hún kallað til E og sagt honum að hringja á lögregluna. Lýsti hún því hvernig hún streittist á móti ákærða og spyrnti fótum í vegg við dyrnar svo að honum tækist ekki að draga hana út úr húsinu. Hefði ákærði sparkað í klof hennar þar sem hún lá á gólfinu og traðkað á henni. Þá hefði hann gripið í hárið á henni og dregið hana þannig á fætur, sparkað í hana og kýlt hana í höfuð og líkama um leið og hann dró hana áfram í átt að útidyrunum. Hefði honum tekist að draga hana út og ýta henni inn í bíl sinn, sem lagt var fyrir utan húsið, en henni tekist að komast út úr honum og hlaupa inn í íbúðina.
Ákærði var yfirheyrður hinn 5. september 2005. Kannaðist hann við að hafa komið að B til að ná tali af Y og einnig að til einhverra ryskinga hefði komið, en átök hefðu það ekki verið. Kvaðst hann hafa togað í Y og ýtt við henni í tröppunum í húsinu og þá hefði hún oltið niður nokkrar tröppur. Hún hefði farið sjálfviljug inn í bíl hans en svo skyndilega hlaupið út. Ákærði var yfirheyrður að nýju hinn 30. september 2005 og hélt hann sig við sinn fyrri framburð.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð Kristínar Sigurðardóttur, læknis á slysa- og bráðadeild Fossvogspítala, dagsett 21. ágúst 2005, þar sem segir að hinn 18. s.m., kl. 10:28, hafi Y leitað á slysadeild á ný vegna áverka sem hún kvað ákærða hafa veitt sér. Kvaðst hún hafa flutt til vinkonu sinnar 29. júlí 2005 eftir að ákærði hefði ráðist á hana. Hann hefði ítrekað ónáðað hana eftir það en látið til skarar skríða að morgni 18. ágúst er hún var við störf sín í heimahúsi. Hefði hann knúið þar dyra og verið hleypt inn af dreng sem þar átti heima. Hefði ákærði barið hana í höfuðið og dregið hana niður stiga á hárinu þegar hún reyndi að komast undan. Þá hefði hún spyrnt á móti en ákærði þá sparkað nokkrum sinnum í hana á milli fóta henni. Einnig hefði hann sparkað í kvið hennar og bak. Að því búnu hefði hann dregið hana út úr húsinu og sett hana inn í farþegasæti á bíl sínum, en hún getað forðað sér á hlaupum. Um ástand konunnar segir í vottorðinu að hún hefði verið vel áttuð, allsgáð og greinargóð í frásögn. Sjáanlegt og þreifanlegt mar hafi verið utanvert við augabrún, ca 1x1,5 cm. Einnig hafi verið þrotasvæði, ca 1x1 cm yfir kinnbeini og aftur með og þroti framanvert við hársvörðinn framan við vinstra eyra á ca 1x1 cm svæði. Hafi þessir staðir allir verið aumir við þreifingu. Hún hafi verið með mjög þétt, fléttað hár og því hafi áverkar í hársverði ekki verið eins áberandi þrátt fyrir að hún hafi verið dregin á hárinu. Á bakinu hafi hún verið með mar og roða neðan við viðbein og einnig á bakinu vinstra megin sem hafi verið með roða og þrota og hrufl alveg frá miðlínu, nánast yfir allan lendarhrygginn, sem hafi teygt sig alveg út að síðu. Framan á búk hafi mátt sjá roða og rák hægra megin framan á hægri öxl. Neðan við vinstra brjóst, frá svæði á bringubeini og alveg út á hlið, hafi verið roði, þroti og rispur sem hafi verið 5-6 cm í þvermál. Á fótlimum hafi einungis verið að sjá merki eftir eldri áverka, gróandi sár og mar. Á fingurgómum baugs- og litlafingurs hafi verið skurðir og hrufl ofan á fingrum, sérstaklega litlafingri. Þá segir að áverkar, eins og hér hafi verið lýst, gætu vissulega hafa hlotist af ofbeldi eins og því sem Y hafi skýrt frá.
Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir teknar á Neyðarmóttöku, þar sem sjá má áverka á Y víðs vegar um líkamann.
Skýrsla var tekin af E, [kennitala], 8. september 2005. Greindi hann svo frá atvikum hinn 18. ágúst 2005 að um kl. 9:00 eða 10:00 um morguninn hefði dyrabjallan hringt og hann farið til dyra. Þar hefði verið maður og hefði hann öskrað að hann vildi fá að tala við Y. Kvaðst drengurinn hafa kallað á hana, en hún þá verið stödd á efri hæðinni. Þegar hann hefði verið að ganga burt og ætlað upp stigann hefði hann heyrt hana hrópa að hann skyldi hringja í neyðarlínuna og flýja svo. Hann hefði þá séð manninn ráðast á hana í miðri forstofunni. Kvaðst hann hafa séð vel hvað fór fram í anddyrinu. Hefði Y reynt að flýja en maðurinn haldið í hana. Kvaðst hann hafa orðið mjög skelkaður og flúið upp. Hann hefði hringt í neyðarlínuna en ekki komið upp orði og slitið sambandinu. Kvaðst hann þá hafa séð, þaðan sem hann stóð uppi, að slagsmálin voru komin á stigapall í miðjum stiganum og ákærði þá verið búinn að fella Y og slegið hana og sparkað í hana þar sem hún lá. Aðspurður kvaðst hann hafa séð manninn slá hana og hún hafi öskrað. Kvaðst E þá hafa orðið skelfdur og haldið að maðurinn ætlaði að ráðast á sig. Hann hefði því læst sig inni á baðherbergi en áttaði sig þá á því að hann hafði skilið símann eftir frammi. Hann hefði heyrt að þau voru komin upp á hæðina og voru fyrir framan baðherbergisdyrnar og mjög margir dynkir heyrðust þaðan. Þá hefði hann heyrt manninn öskra á Y að hún væri tík. Hefði honum hugkvæmst að klifra eftir þakinu og yfir til nágrannana og þaðan hefði hann hringt á neyðarlínuna og móður sína. Hann kvaðst ekki fyrr hafa hitt ákærða og Y hefði ekki nefnt nafn hans, Jón Pétursson, fyrr en eftir þetta. Lýsti hann manninum svo að hann hefði verið nokkuð stór, um 180 cm, með svarta skeggbrodda, og með “svart/hvítt” hár. Þá hefði hann verið klæddur jakkafötum og verið á bláum Land Rover-bíl.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram er komið um þetta sakarefni fyrir dómi.
Ákærði kveðst hafa komið í B daginn eftir að Y hafði hringt í hann og sagt að hún vissi hver maðurinn væri sem hefði ekið henni heim úr bíó. Hafi þetta og annað sem hún sagði hleypt honum í uppnám og hann byrjað að drekka. Hafi hann fundið hjá sér þörf að hitta konuna aftur og fara yfir það sem hún hafði sagt honum. Um hádegisbilið hefði hann ekið þangað sem hún var að vinna. Hafi ungur drengur komið þar til dyra. Kveðst hann hafa spurt eftir Y og drengurinn farið inn fyrir og kallað á konuna. Hafi hún svo birst og kveðst ákærði þá hafa farið inn fyrir anddyrið, inn í forstofuna, og beðið hana að tala við sig. Ákærði segist hafa verið undir áhrifum áfengis. Hafi hún verið ófús að tala við hann og hann því togað hana út úr íbúðinni. Hann kveðst óvart hafa ýtt við henni þegar hún streittist á móti og hún hrasað við það efst í tröppunum að húsinu. Hafi þau gengið að jeppanum og hún sest inn farþegamegin en hann sest undir stýri. Í því hafi hún farið aftur út úr bílnum og hlaupið inn. Hafi hann þá látið þar við sitja og farið á brott. Hann kveðst ekki geta fullyrt hvort átök hafi átt sér stað á milli þeirra inni í íbúðinni, enda hafi hann verið undir áhrifum áfengis. Kveðst hann ekki kannast við að hafa ráðist mikið á hana eða slegist við hana í anddyrinu. Hann segir aðspurður að honum hafi ekki verið boðið inn. Hann neitar því hins vegar að hafa ruðst inn og segist ekki hafa gert annað en það sem alsiða sé, að ganga inn þegar lokið sé upp. Hafi hann heldur ekki farið inn fyrr en hann sá Y þar inni. Ákærði neitar því að vera sekur um húsbrot, eins og greini í 3. tl. ákærunnar, enda hafi hann aðeins gengið inn þegar Y birtist og sé það eðlileg hegðun. Hann segir líklegt að hann hafi beðið hana að koma út en þegar hún hafi neitað muni hann hafa togað hana út. Hann kannast ekki við að hafa beitt Y ofbeldi með þeim hætti sem lýst er í 4. tl. ákærunnar. Hann kannast ekki við að hafa veitt henni þá áverka sem lýst er í læknisvottorði Kristínar Sigurðardóttur læknis.
Ákærði kveðst vera 182 cm á hæð og um 90 kg að þyngd.
Y hefur skýrt frá því að um níuleytið hafi hún byrjað að ræsta íbúðina og ungur drengur hafi verið heima. Hún hafi verið að hengja upp þvott á efri hæðinni þegar hún heyrði dyrabjöllunni hringt. Hafi hún heyrt að opnað var og raddir. Hafi hún verið á leið niður og drengurinn sagt að spurt væri eftir henni. Kveðst hún ekki hafa heyrt að hann byði gestinum inn. Þegar hún kom fram að anddyrinu hafi hún séð að ákærði var þar á ferð og hún þá reynt að loka innri dyrunum. Hann hafi sett fótinn á milli stafs og hurðar og ýtt upp hurðinni og farið að berja hana. Hann hafi gripið í hárið á henni og kýlt hana og sagst vilja tala við hana þegar í stað. Hafi hann haldið áfram að kýla hana en hún hafi kallað til drengsins að hann tæki símann og færi með hann upp og hringdi á lögregluna. Drengurinn hafi hins vegar hvorki getað hreyft legg né lið og hafi hún séð tár renna úr augum hans. Hún hafi endurtekið þetta hærri og hvassari rómi og hafi drengurinn hlaupið upp stigann í skelfingu en ákærði haldið áfram að berja hana og sparka í hana. Hún hafi haldið áfram að kalla til drengsins að hann hringdi á lögregluna. Ákærði hafi reynt að draga hana út úr íbúðinni og sagst þurfa að tala við hana. Hún hafi spyrnt fótunum í dyrastafina en þá hafi ákærði sparkað á milli fóta henni. Hafi hann haldið henni fastri á hárinu og látið höggin dynja á henni þar sem hún var beygð í kút eftir sparkið. Henni hafi tekist að losa sig og hlaupa upp stigann og komist að raun um að drengurinn hafði lokað sig inni á baðherbergi. Ákærði hafi elt hana uppi og náð henni á stigapallinum og farið að draga hana á hárinu niður aftur. Hún hafi haldið áfram að kalla til drengsins og sífellt reynt að streitast á móti og losna frá ákærða en hann haldið henni á hárinu. Hún hafi svo dottið í tröppunum og ákærði þá farið að troða á henni. Hann hafi dregið hana áfram og kýlt hana og dregið að dyrunum. Hún hafi gripið um dyrastafinn með annarri hendi en ekki haft afl á móti ákærða. Hann hafi dregið hana út úr íbúðinni og út á svalir sem gengið er inn af í íbúðina. Hafi hann farið með hana að bíl sínum sem hafði verið lagt úr augsýn frá íbúðinni. Hafi hann ýtt henni inn farþegamegin og lokað. Henni hafi svo tekist að opna þegar hann var að setjast inn í bílinn hinum megin og stokkið út og forðað sér á hlaupum inn í íbúðina aftur. Hafi hann elt hana en hún verið fljótari en hann. Hafi hún skellt í lás og hringt á lögregluna sem hafi komið á vettvang.
Y kveðst vera 165 cm á hæð. Hún kveðst hafa orðið fyrir áfalli vegna þess sem hún hefur mátt þola af ákærða og fái hún reiði- og þjáningaköst. Þá hafi hún fundið mjög til með drengnum E þar sem henni finnist hún, með því að hafa vera stödd á heimili drengsins, bera ábyrgð á því áfalli sem hann hefur orðið fyrir og þeirri hættu sem hann komst í þegar hann forðaði sér út um baðherbergisglugga og með þakbrún yfir í næstu íbúð.
D, vinkona og samlanda Y, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að Y hefði hringt í sig af spítala því hún hefði verið barin. Hún hafi farið á spítalann til hennar og þá fengið að sjá marbletti sem hún var með. Hafi Y sagt að kærastinn hennar hefði gert henni þetta. Hefði hún sagt henni að kvöldið áður hefði hún farið á bíó en kærastinn hringt þangað í hana í sífellu og hún því slökkt á farsímanum. Hún hefði komið heim seinna en hún var vön þegar hún fór í bíó og karlmaður ekið henni heim. Þegar hún kom inn hefði kærastinn barið hana. Minnir vitnið að Y hafa sagt að sum höggin hefðu verið hnefahögg. Undir vitnið er borin skýrsla hennar hjá lögreglu og segir hún að þá rifjist upp fyrir henni frásögn Y og sé rétt eftir henni haft í skýrslunni. Hún kveður Y hafa flutt inn til sín eftir atburðinn. Hafi ákærði hringt oft til þeirra í heimilissímann. Hún kveður Y hafa sagt sér að ákærði hafi verið með hótanir við hana í símann.
Kristín Sigurðardóttir læknir hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt. Hún kveður Y hafa verið mjög leiða í bragði þegar hún kom fyrst en yfirvegaða. Hefði hún sagt að fyrrverandi kærasti hennar héldi því fram að hann ætti rétt á kynlífi meðan hún byggi hjá honum og þótt hún neitaði hefði hann neytt hana til samfara. Hún hafi sagst vera aum í kviði og brjóstkassa, bæði að framan og á baki, eymsli og særindi um hálsinn og óþægindi í sköflungum. Um blóðbragð í munni konunnar sé það að segja að það geti verið af samverkandi ástæðum, því að þrengt hafi verið að hálsi hennar, koddinn lokað fyrir loft í öndunarveg og að slímhúð í munni merjist við tennur. Sé ljóst að atlagan að konunni hafi verið mjög alvarleg, jafnvel lífshættuleg. Í seinna skiptið sem hún kom hafi hún einnig verið yfirveguð og skýrt frá hótunum ákærða í sinn garð og vinkonunnar sem hún þá bjó hjá. Þá hefði hann hringt í móður hennar og sagt að hún skyldi kveðja dóttur sína endanlega. Þá hafi hún skýrt frá atburðinum í B og áverkar sem sáust þá á henni hafi samrýmst frásögn hennar af þeirri heimsókn, svo sem áverkar á höfði eftir högg og víða á baki eftir að hafa verið dregin niður stiga, þroti og mar á brjóstkassa, áverki ofan á fingrum. Þá hafi sést þroti í hársverði, á enni og við eyra og almenn eymsli um höfuðið. Konan hafi komið í þriðja skiptið í nóvember, þá kvartað um höfuðverk og hafði þá grennst mjög.
Eyrún Björg Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur á neyðarmóttöku, sem sinnti Y þegar hún kom á slysadeild, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að konan hafi verið miður sín og öll mjög aum viðkomu og átt erfitt með hreyfingar. Hún hafi verið marin og átt erfitt með að lyfta handlegg og verið aum, bólgin og marin á upphandleggjum og á bringu. Hafi hún sagst vera hrædd um að hún hefði hlotið innvortis áverka því hún væri með verki í kviði og brjóstkassa. Hafi hún sagt að hún hefði mátt þola ofbeldi næstu daga á undan. Hefði hún verið lamin á mánudegi og á miðvikudagskvöldi. Hefði hún borið handleggina fyrir sig til þess að verjast höggum og þá hefði henni verið fleygt upp í rúm og við það rekið sig í rúmstokkinn. Koddi hefði verið settur fyrir andlit henni og haldið. Hefði hún fengið blóðbragð í munn og óttast um líf sitt. Hafi hún sagt að hún hefði sagt gerandanum að hún þyrfti að komast á sjúkrahús og hann þá boðist til þess að aka henni þangað. Það hefði hún ekki viljað og komið sér þangað sjálf daginn eftir. Konan hafi lýst sambúð sinni við manninn, vaxandi ofbeldi og að hún hefði verið neydd til samfara. Í desember hefði hún verið barin illa. Sumir áverkarnir hafi borið með sér að vera nokkurra daga gamlir en önnur ummerki hafi virst nýrri og verið að koma fram eins og sýnt hafi sig þegar konan kom aftur seinna til frekari skoðunar. Þá hafi konan verið komin með streitueinkenni, viðvarandi höfuðverk vinstra megin og hún megrast um 5 kíló frá því hún kom fyrst. Hafi hún sagst vera lystarlaus og ekki halda niðri mat.
F hefur skýrt frá því að E, sonur hennar, hafi sagt henni frá atburðinum sem um ræðir. Hann hefði opnað þegar hringt var dyrabjöllunni og ákærði verið þar. Hefði ákærði spurt um Y og hann kallað á hana. Hann hefði svo gengið inn en þá heyrt mikil læti frá forstofunni. Hefði Y kallað á hann og sagt honum að hringja á neyðarlínuna. Hann hefði hins vegar “frosið” og ekkert getað gert. Ákærði hefði haldið áfram að berja Y í forstofunni og hefði leikurinn einnig borist innar í íbúðina. Hefði hann farið upp á efri hæðina og þar inn í baðherbergi og læst að sér. Segist F hafa séð greinileg ummerki um það þegar hún kom heim að átök höfðu orðið í forstofu og víðar í íbúðinni og að þau höfðu borist upp stigann á 2. hæð. Hún kveðst hafa það eftir drengnum að hann hefði skriðið út á þak úr baðherberginu og þaðan yfir í næstu íbúð þar sem hann hefði hringt á hjálp. Hún kveður drenginn hafa orðið fyrir miklu áfalli við þessa atburði.
Pétur Guðmundsson lögregluvarðstjóri, kveðst hafa komið á vettvang í B eftir kvaðningu. Hafi þar verið fyrir erlend kona og ungur piltur. Hafi verið greinilegt að eitthvað hafði átt sér stað. Hafi komið fram að drengurinn hefði opnað þegar kvatt var dyra. Hafi verið ruðst inn og ráðist á konuna. Ekki muni hann sérstaklega eftir áverkum en konan hafi verið flutt á slysadeild. Þá muni hann ekki eftir því hvort ummerki hafi verið þarna eftir átök, en þau hafi að minnsta kosti ekki verið mikil því þá hefði hann getið þeirra í skýrslunni sem hann gerði um þetta.
E hefur skýrt svo frá að umræddan morgun hafi klukkan verið um níu þegar hann fór á kreik og fór niður á neðri hæð íbúðarinnar. Um hálftíma síðar hafi maður hringt dyrabjöllunni og þegar E opnaði hafi maðurinn spurt eftir Y. Hann kveðst ekki hafa boðið manninum inn en hafa skilið eftir opnar dyrnar og gengið inn aftur. Hafi hann kallað á Y og farið inn og ætlað að setjast í sófa. Y hafi komið niður að sinna þessu en hann kveðst svo hafa heyrt hana kalla að hann skyldi hringja í neyðarlínuna. Hann hafi þá aðgætt hvað um væri að vera og séð að maðurinn hélt Y og að hún féll í gólfið. Hafi ákærði þá farið að berja hana þarna í forstofunni en vitnið kveðst ekki muna lengur hvar höggin lentu á henni. Hafi ákærði haldið í hnakkahárið á henni meðan á þessu gekk. Y hafi sagt honum að flýja. Kveðst hann hafa tekið síma og ætlað að hringja en þá orðið þess áskynja að hann gat ekki komið upp orði. Hann hafi þá farið upp í miðjan stigann á pall sem þar er og jafnframt hefðu maðurinn og Y verið komin upp í stigann. Hann hafi haldið alveg upp á aðra hæð og ætlað að hringja þaðan en þá áttað sig á því að hann hafði skilið símann eftir niðri. Hafi þau Y og maðurinn verið komin upp á stigapall á milli hæðanna og þar hafi maðurinn haldið áfram að berja hana. Hafi hún verið á hnjánum að reyna að komast upp stigann og sleppa frá honum. Hann kveðst þá hafa farið inn á baðherbergið á efri hæðinni og læst að sér. Þaðan hafi hann farið út á þak og komist inn hjá nágrönnunum.
E segist vera búinn að jafna sig að nokkru leyti eftir þetta en þó hvergi nærri að fullu. Þá hafi þetta komið dálítið niður á skólalærdómi. Einnig kveðst hann í fyrstu ekki hafa getað verið einn heima. Hann segist hafa óttast það að maðurinn réðist á hann meðan á þessu gekk.
Þórunn Finnsdóttir sálfræðingur hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sem lagt hefur verið fram í aðalmeðferð málsins. Í vottorðinu segir að þegar Y ræði atburðarásina sjáist að hún hafi upplifað mikla skelfingu og ógn. Skjálfi hún þá og gráti, sé óttaslegin og viðbrigðin. Hún finni fyrir mikilli skömm og niðurlægingu en jafnframt segist hún vera ákveðin í að vinna úr þessari reynslu með því að finna sinn innri styrk, sem henni finnist hún hafa glatað. Hún vilji ekki upplifa sig sem fórnarlamb og sé mikið í mun að leita réttar síns og finna til öryggis og sjálfstjórnar á ný. Hún hafi álitið sig vera í lífshættu og upplifað mikla ógn og bjargarleysi, sem grunnur að fyrsta viðmiði í greiningu áfallastreituröskunar. Þá hafi hún jafnframt önnur einkenni áfallastreituröskunar. Í fyrsta lagi þau að atburðurinn leiti stöðugt á hana og allt sem á hann minni valdi slæmum tilfinningum og líkamlegum streituviðbrögðum. Fyrstu vikurnar hafi henni fundist hún stöðugt vera skítug og sífellt verið að þvo sér. Þá hræðist hún kodda, sem veki hjá henni þá skelfingu sem hún upplifði þegar ákærði hélt kodda yfir andliti hennar. Í lok ágúst, þegar hún sá ákærða, hafi hún fengið ofsakvíðakast og á nóttunni hafi hún fengið endurteknar martraðir.
Í öðru lagi komi fram hjá henni endurtekin hliðrunarviðbrögð við áreitum sem tengist áfallinu og/eða deyfð í almennum tilfinningaviðbrögðum. Hún hafi í byrjun verið upptekin af því að vera ekki fórnarlamb og vilji ekki að ákærði stjórni lífi hennar. Þegar á leið og ótti hafi magnast vegna endurtekinna hótana, hafi hliðrunarviðbrögð Y aukist. Hún hafi gengið mismunandi leiðir í vinnu og heim aftur af ótta við að ákærði sæti fyrir henni. Hún hafi farið að forðast það að hitta vini sína, hætt að fara á mannamót og einangrað sig. Hún finni fyrir auknum tilfinningadoða og finnist hún missa hæfileikann til að gleðjast. Hún forðist alla árekstra við fólk, dragi sig út úr samræðum og hætti að tjá skoðanir sínar af ótta við að reita einhvern til reiði. Í samræðum komi hún í auknum mæli fyrir sem tilfinningalega flöt, lágstemmd og svipbrigðarlaus.
Í þriðja lagi finnist hjá henni viðvarandi einkenni aukinnar örvunar á viðbragðskerfi líkamans, hún sé í stöðugri viðbragðsstöðu og sífellt óttaslegin. Þegar hún sé heima dragi hún fyrir alla glugga og fyrstu vikurnar hafi hún aldrei farið ein út á kvöldin. Í fyrstu hafi hún getað sofið á næturnar en þegar á leið og ógnin hafi orðið viðvarandi hafi hún hætt að geta sofið. Hún læsi að sér, en hrökkvi stöðugt upp til að taka í hurðina til að athuga hvort hún sé læst. Þegar hún fari út sé hún stöðugt á varðbergi og óörugg í vinnunni. Í viðtali 6. febrúar hafi mátt sjá að þetta ástand hafi verið farið að ganga á andlegt og líkamlegt þrek hennar. Þá hafi bæst við vonbrigði vegna málarekstursins: nauðgunarkæran ekki tekin til greina og synjað um nálgunarbann, sem auki á tilfinningu hennar um varnarleysi og einmanaleika.
Próf á svokallaðan sjálfsmatskvarða hafi verið lagt fyrir Y en kvarðinn mæli neðangreindar þrjár víddir áfallastreituröskunar: endurupplifanir, hliðrunareinkenni og örvað viðvörunarkerfi. Niðurstöður kvarðans samsvari öðru klínísku mati.
Sálfræðingurinn hefur auk þess sagt frá því fyrir dóminum að Y hafi verið mjög miður sín og grátið mjög í viðtölunum. Hún hafi hins vegar sýnt það að hún sé mjög viljasterk kona og ætli sér ekki að verða fórnarlamb en hún hafi þó ekki komist úr þeirri stöðu að finna fyrir afleiðingum þessara atburða og hætt að geta sofið á nóttunni. Hafi þessi reynsla haft mikil áhrif á hana, breytt persónuleika hennar, gert hana kjarkminni og rýrt mjög sjálfstraust hennar. Flest fólk nái sér eftir áfallaröskun en hvað Y varðar sé víst að hún þurfi sálfræðimeðferð til þess að hún fái aftur traust á umhverfinu og á sjálfri sér. Hafi komið fram hjá henni að hún hræðist það að vera innan um fólk og reyni hún að snúa baki í vegg, sífellt í viðbragðsstöðu, líkast dýri í skógi.
Niðurstaða.
Ákærði neitar sök um húsbrot og líkamsárás. Fyrir liggur að ákærði fór inn í íbúðina óboðinn og hann hefur kannast við að hafa lent í ryskingum þar inni við Y. Í greinargóðum skýrslum sínum í málinu hefur Y lýst því hvernig ákærði réðist á hana með höggum og spörkum og dró hana um á hárinu. Sem fyrr segir álítur dómurinn konuna vera öruggt vitni og frásögn hennar nýtur stuðnings af skýrslum drengsins, E, sem dómurinn álítur einnig vera traust vitni. Þá fá skýrslur þeirra tveggja stuðning í vætti F sem hlýddi á frásögn drengsins strax eftir atburðinn og sá ummerki eftir átök í íbúðinni. Loks renna vottorð og vætti Kristínar Sigurðardóttur læknis og Þórunnar Finnsdóttur sálfræðings styrkum stoðum undir frásögn Y og E. Telst ákærði vera sannur að því að hafa ruðst í heimildarleysi inn í íbúðina í B og að hafa þar ráðist á Y, eins og lýst er í ákærunni. Hefur hann með því orðið sekur um brot gegn 231. gr. og 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.
C-kafli ákæru.
Laugardaginn 11. febrúar 2005, kl. 13:25, var lögreglan kvödd að A. Tilefnið var það að maður að nafni G hafði fengið sms-skilaboð frá vinkonu sinni, Z, um að henni hefði verið misþyrmt þar og nauðgað. Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar á vettvang var komið hafi ekki verið svarað í dyrasíma íbúðarinnar á 3. hæð og þegar lögreglumenn hugðust hverfa á braut hafi þeir veitt því eftirtekt að einhver í glugga þar á hæðinni veifaði til þeirra. Komst lögreglan upp á hæðina þegar íbúi í húsinu opnaði útidyr. Þegar upp að íbúðinni var komið hleypti Z lögreglumönnunum inn. Segir í skýrslunni að lögreglan hafi strax veitt athygli áverkum á andliti hennar og blóðkámi á fötum. Ákærði lá á sófa í íbúðinni og sagði konan hann hafa nauðgað sér. Kvað hún hann hafa neytt töluverðs magns af áfengi um nóttina og hefði hann átt í ryskingum við hana frá kl. fimm til sex um morguninn. Hefði hann dregið hana um íbúðina, slegið til hennar og sparkað í hana. Einnig hefði hann hárreitt hana og lægju hárlufsur á eldhúsgólfinu. Hann hefði svo þvingað hana inn í svefnherbergið þar sem hann lagði hana á rúmið, hélt henni niðri og klæddi hana úr fötunum. Hann hefði að því búnu þvingað hana til samfara í þrjú skipti áður en yfir lauk.
Í skýrslunni segir jafnframt að blóðkám hafi verið víða á rúmfötum í svefnherberginu. Teknar voru ljósmyndir á vettvangi og liggja þær fyrir í málinu. Á þeim má m.a. sjá blóðslettur á skjölum sem lágu á stofuborði, blóðslettu á ofni í stofu og á gólfi við ofninn. Þá má sjá blóð á laki í hjónarúmi, svo og á undirdýnu og talsvert blóð á tveimur koddum í rúminu. Þá er komið fram að blóðugt handklæði hafi legið á náttborði við rúmið. Þá fundust tvær tómar freyðivínsflöskur í eldhúsi.
Ákærði var tekinn tali á vettvangi og kvaðst hann hafa verið með Z frá kl. 04.00 um morguninn. Þau hefðu lent í smávægilegu rifrildi sem endaði með því að hún réðist að honum með kampavínsflösku. Kvaðst hann hafa varist árásinni en ekki átt í átökum að neinu ráði við hana. Fram kemur að á ákærða voru litlir marblettir ofan við úlnlið vinstri handar, bólga á handarbaki hægri handar og sár ofan við löngutöng sömu handar. Þá hafi blóðkám virst vera á skyrtu hans. Ákærði var í framhaldinu fluttur á lögreglustöðina til yfirheyrslu.
Í málinu liggur fyrir staðfest skýrsla Kristjáns Friðþjófssonar rannsóknarlögreglumanns um vettvangsrannsókn á heimili ákærða 11. febrúar sl. ásamt ljósmyndum úr húsnæðinu og af ákærða, svo og vettvangsuppdrætti. Segir þar að gengið sé inn í húsið af bílastæði og inn á stigagang. Dyrnar að honum séu læstar með símalæsingu. Íbúð ákærða sé á 3. hæð og séu þrjár íbúðir á hverri hæð. Gengið sé inn í anddyri úr stigagangi og þaðan inn í skála og sést af myndum og uppdrætti að þar á milli eru dyr. Þá segir að herbergin séu á hægri hönd þegar horft er inn í skálann, baðherbergi öndvert við anddyrið og á vinstri hönd séu stofa og eldhús. Allar hurðir í íbúðinni séu með læsanlegum skrám og hafi lyklar staðið í tveimur hurðum, baðherbergishurð og hurð að öðru barnaherberginu. Þá kemur fram í skýrslunni að á laki í hjónarúmi hafi verið blóðkám og einnig á tveimur koddum þar og yfirdýnu.
Z kom á lögreglustöðina kl. 23:09 hinn 11. febrúar og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir nauðgun næstliðna nótt. Kvaðst hún hafa verið unnusta ákærða um tíma í desember 2005 en eftir að því sambandi lauk hefði hún fengið inni hjá honum og verið í sér herbergi. Ákærði hefði átt við áfengisvanda að stríða og hefðu snemma komið í ljós persónubreytingar drykkjunni samfara. Um atvik næturinnar fram á morguninn sagði hún það að ákærði hefði ráðist að henni, er hún var að tala í símann til Filippseyja, með því að taka í hár hennar og slá andliti hennar í gólfið. Að því búnu hefði hann dregið hana á hárinu inn í svefnherbergið þar sem hann læsti hurðinni og reif hana úr öllum fötum. Hefði hann haldið henni og nauðgað henni þar. Að því búnu hefði hann fylgt henni á salernið og síðan dregið hana að nýju inn í svefnherbergið og læst. Hann hefði rifið í handlegg hennar og öxl og haldið henni niðri með því að leggjast á hana. Hann hafi svo nauðgað henni á sama hátt og áður. Hefði hann lamið hana þegar hún hrópaði og þrýst kodda fyrir vit hennar. Hún kvaðst svo hafa náð að senda sms-skilaboð til vinar síns eftir þetta, en ákærði hefði falið alla aðra síma í íbúðinni. Skömmu síðar hefði hann dregið hana inn í svefnherbergið á ný og nauðgað henni þar í þriðja sinn. Þegar lögreglan hefði hringt dyrabjöllunni hefði ákærði bannað henni að hleypa þeim inn en hún svo náð athygli þeirra með því að veifa til þeirra úr glugga.
Hinn 14. febrúar kom Z aftur á lögreglustöðina og skýrði ítarlegar frá atvikum. Kvað hún ákærða ekki aðeins hafa læst svefnherberginu heldur að auki millihurð fyrir framan forstofuna og stungið lyklinum í buxnavasa sinn. Þegar lögregluna bar að garði hefði hann aflæst millihurðinni. Þá greindi Z svo frá að hún hafi sagt við ákærða, er hann spurði hana hvort hún ætlaði að kæra hann, að hún hefði fyrirgefið honum. Kvaðst ákærði geta komið sér úr landi ef hún myndi kæra hann. Sýndi hún lögreglunni sms-skilaboð þau sem hún sendi hinn 11. febrúar til vinar síns og bað um hjálp. Þá sýndi hún lögreglunni sms-skilaboð sem ákærði sendi henni í tvo farsíma hennar, bæði fyrir og eftir að atvik þessi áttu sér stað.
Þau skilaboð sem ákærði sendi Z fyrir 11. febrúar eru eftirfarandi:
-kl. 10:37:12, 5. febrúar sl. “I was at njalsgotu and you where not there you hore who did you fuck to night you ugly soul.”
-kl. 01:36:56, 5. febrúar sl. “I know what you are doing i will never talk to you again.”
-kl. 11:53:35, 22. janúar sl. “Call me you hore”.
-kl. 09:42:02, 22. janúar “Keep on fucking at [...] you have black soul”.
-kl. 09:23:43, 22. janúar sl. “Fuck you i will not see you again you are hore”
-kl. 22:37:07, 21. janúar sl. “It is easy four your hore”.
-kl. 20:36:01, 21. janúar sl. “You are dirty after last night you hore”.
-kl. 07:02:06, 21. janúar sl. “I hope you got good fuck now i am telling your family how you get money you pussy ugly woman”.
Þau skilaboð sem ákærði sendi henni eftir atvikið voru eftirfarandi:
-kl. 09:57:20, 13. febrúar sl. “Darling pls call me at [...] Lets talk I will be sober so I talk to you with reason. love jon”
-kl. 10:16:50, 13. febrúar sl. “I Darling no one need to know if we meet now so soon after our nightmare last weekend.(more come)”
-kl. 10:19:10, 13. febrúar sl. “2 I am so deeply sorry over. But we need to keep on. I will be sober for rest of my life (more)”
-kl. 12:56:10, 13. febrúar sl.”2 I will go to [...] and I want you to go thereto. I can stay at hotel if you want that. more”
-kl. 11:18:59, 14. febrúar sl. “8. could be at [...] before 1. mars and you will meet your family and help them like you more”
-kl. 11:24:39, 14. febrúar sl. “10 you or with but you. I think it is good for us to go there and recover from las bad weekend. Jon”
Skýrsla var tekin af Z að nýju 14. mars 2006 og bar hún þá á sama veg um upphaf átakanna við ákærða. Hún kvað ákærða hafa læst á eftir sér inn í svefnherbergið í öll þrjú skiptin sem hann nauðgaði henni. Hann hefði tekið farsímana af henni þegar hún náði til þeirra en þó hefði henni tekist að senda sms-boð úr einum þeirra og að því búnu hefði hún falið símann í rusli undir vaskinum. Þá hefði hún tvívegs náð að hringja úr heimilissímanum í H vinkonu sína. Í fyrra skiptið hefði ákærði setið fyrir framan hana en í seinna skiptið hefði hún ætlað að athuga hvort hún hefði fengið frá henni skilaboðin. H hefði hringt skömmu síðar en þá hefði ákærði svarað. Z kvaðst einnig hafa hringt til Filippseyja um kl. 12:14 en þá hefði hún verið að bíða eftir lögreglunni og látið sem ekkert væri. Hún kannaðist ekki við fleiri símtöl af sinni hálfu og kvað ákærða einnig hafa hringt nokkrum sinnum. Einnig kannaðist hún við að ákærði hefði reynt að hringja þrisvar sinnum í Landsbankann til að millifæra peninga til Filippseyja að hennar beiðni.
Á meðal gagna málsins er skýrsla Jóhönnu Jónasdóttur læknis, um réttarlæknislega skoðun sem fram fór á Z á neyðarmóttöku hinn 11. febrúar. Rakin er frásögn hennar á atburðum sem er í öllum meginatriðum á sama veg og hjá lögreglu. Um tilfinningalegt ástand Z við skoðun kemur þar fram að hún hafi virst vera í losti, fjarræn og fengið grátköst, en frásögn hennar verið skýr. Fatnaði hennar er lýst svo að leðurbuxur og kápa hennar hafi verið útötuð í blóði. Áverkum er svo lýst að vinstra megin á enni hafi verið skurður í húð, rispur, marblettur og eymsli. Fyrir neðan hægra auga hafi verið skurður, rispur, marblettir og eymsli, ofan við efri vör vinstra megin hafi verið tvö rof í húð og mikil bólga og mar á efri vör. Slímhúðarrof hafi verið þar undir. Báðir handleggir og fótleggir hafi verið með óteljandi nýlegum rauðbláum marblettum. Þá hafi hún verið með stórar kúlur á höfðinu. Teknar voru ljósmyndir af áverkum Z og liggja þær frammi í málinu. Einnig voru teknar myndir af kápu sem hún kvaðst hafa klæðst er árásin var gerð og var kraginn blóðugur. Þá voru teknar ljósmyndir af áverkum Z að nýju hinn 14. febrúar og liggja þær einnig fyrir í málinu.
Þá er í málinu skýrsla tæknideildar lögreglu, dagsett 6. mars 2006, vegna rannsóknar á gögnum sem safnað var á neyðarmóttöku. Í niðurstöðu skýrslunnar segir að á sýnum úr leggöngum konunnar hafi fundist sæði og hafi það verið staðfest með for- og staðfestingarprófum. Þá segir að þótt ekki hafi fundist sáðfrumur í smásjársýnum sem hafi verið útbúin með útfalli frá þeim litlu sýnum, sem tekin voru af sýnispinnunum, þá sé ekki hægt að útiloka að á pinnunum hafi verið til staðar sáðfrumur sem nothæfar hafi verið til DNA-rannsóknar í málinu.
Einnig var framkvæmd rannsókn á þeim gögnum sem hald var lagt á við vettvangsrannsókn að A 15 og segir í niðurstöðu að á öllum munum, sem afhentir hafi verið til rannsóknar, hafi fundist blettir sem hafi gefið jákvæða svörun við LMG-blóðprófi og ABA-hematrace staðfestingarprófi, sem sé sértækt fyrir mannsblóð.
Ákærði var yfirheyrður vegna málsins hinn 12. febrúar 2006. Hann neitaði því að hafa nauðgað Z en kannaðist við að átök hafi orðið þeirra á milli. Upphaf þeirra hefði mátt rekja til þess að Z hafi verið að tala í símann til Filippseyja og hann gert athugasemd við það. Hefði hún þá gripið kampavínsflösku og ætlað að slá hann með henni. Hann hefði þá náð flöskunni af henni og haldið um hálsmál hennar en þá hefði hún fallið í gólfið innst inni í stofunni við svalahurðina og hlotið áverka í andliti. Vera kynni að hann hefði rifið í hár hennar þegar hann skellti henni í gólfið. Hefði hann ætlað að huga að henni en hún þá ráðist á hann. Þá hefði hann slegið frá sér í hálfgerðri sjálfsvörn en sá ekki hvar höggið lenti. Þau hefðu síðan róað sig og farið saman inn í svefnherbergi þar sem þau hefðu elskast tvisvar eða þrisvar og sofnað að því búnu. Hefðu þau rætt saman þegar þau vöknuðu um hádegisbilið og hann þá orðið áhyggjufullur vegna áverkanna sem hún bar. Hún hefði hins vegar sagt að hann skyldi ekki hafa af því áhyggjur og hún myndi ekki segja neinum frá því sem gerst hefði. Hann hefði hringt í Landsbankann fyrir hana og vinur hennar G, hefði hringt. Lögreglan hefði svo skyndilega komið en hann ekki viljað svara þegar hringt var á bjöllunni vegna þess hvernig umhorfs var á heimilinu.
Ákærði var yfirheyrður að nýju 17. febrúar 2006. Lýsti hann upphafi að átökum þeirra á milli á sama veg og áður. Kvað hann átökin hafa hætt snögglega eftir að hann vék sér undan höggi hennar og sló hana. Muni höggið hafa komið í andlit hennar því hún hefði verið stokkbólgin á eftir. Hann hefði fært henni blautan þvottapoka fyrir hana inn í svefnherbergi til að strjúka framan úr sér. Einnig hefði hann þrifið megnið af blóðinu sem hafi verið á stofugólfinu. Z hefði fundið mikið til og ekki viljað láta koma við sig. Þá kvað hann þau hafa haft samfarir þrisvar sinnum eftir átökin með hennar samþykki og kvaðst hann hvorki hafa læst svefnherbergisdyrunum né millihurðinni. Væru enda engir lyklar í skrám þessara hurða og auk þess væri ómögulegt að loka millihurðinni fyrir rafmagnssnúrum sem þar lægju um dyrnar.
Fram kemur í upplýsingaskýrslu lögreglu dagsettri 17. febrúar 2006 að ákærða hafi verið fylgt heim og hann þar framvísað þvottapoka úr körfu sem hann kvaðst hafa notað til þess að þurrka upp blóð af stofugólfi. Þá segir að lykill hafi aðeins staðið í svefnherbergishurð en sá lykill gengið að öllum hinum hurðunum. Rafmagnsnúrur hafi legið milli stafs og hurðar í millidyrunum en þeim hafi samt mátt loka.
Framkvæmd var réttarlæknisskoðun á ákærða hinn 20. febrúar 2006, þar sem tekin voru úr honum lífsýni og hann ljósmyndaður. Liggja ljósmyndir þessar frammi í málinu svo og skýrsla læknis. Þar segir að áberandi áfengisþefur hafi verið úr vitum ákærða. Hann hafi verið með húðrispu yfir bringubeini frá hálsi og niður á móts við geirvörtur. Þá hafi verið rispur á húð aftan á vinstri öxl og mar framan á vinstri upphandlegg. Enn fremur hafi verið roðablettur á húðinni efst hægra megin á kviði eins og eftir nudd.
Fram kemur í skýrslu tæknideildar, dagsettri 26. mars 2006, að við rannsókn á fatnaði ákærða hafi fundist blóðkám á buxum sem nothæft gæti talist til DNA-kennslagreiningar.
Hinn 11. mars 2006 var ákærði handtekinn á Keflavíkurflugvelli á leið úr landi. Hafði lögreglan fengið upplýsingar um að hann væri á leið til Tælands. Í skýrslu lögreglu um þetta er haft eftir honum að hann hafi ekki ætlað að flýja réttvísina heldur hafi hann viljað komast í annað umhverfi þar sem mál þetta hefði hvílt þungt á honum. Kvaðst hann hafa ætlað sér að koma aftur til landsins yrði ákæra gefin út á hendur honum. Kannaðist hann við að lögreglan hafi daginn áður krafist þess að hann frestaði för sinni til útlanda vegna rannsóknar málsins og kvaðst hann ekki hafa verið sáttur við að vera sviptur ferðafrelsi.
Af hálfu lögreglunnar var krafist farbanns þennan sama dag og féllst héraðsdómur á kröfuna. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar og niðurstaða hans staðfest.
Við yfirheyrslu hinn 31. mars 2006 var ákærði inntur eftir því hvort hann hefði hringt til Filippseyja hinn 11. febrúar sl. en hann þvertók fyrir það.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram er komið fyrir dómi um þetta sakarefni.
Ákærði kveður 5. tl. ákærunnar vera alrangan og neitar því að hafa svipt Z frelsi. Hafi hann ekki heyrt um slíkt fyrr en við yfirheyrslu hjá lögreglunni. Hann kveður þau hafa verið í sambúð þegar þetta var og kveðst hann hafa setið og verið að drekka kaffi og horfa á sjónvarp. Hann hafi ekki læst hurðum til þess að hindra för hennar út og hefði hún hæglega getað komist út ef hún hefði viljað. Hafi hann ekki einu sinni vitað að til væri lykill að hjónaherberginu og ekki komið í ljós fyrr en lögreglan kom þar heim að lykill að barnaherbergi hafi gengið að öðrum skrám í íbúðinni. Þá hafi verið fjórir símar í íbúðinni þegar þetta gerðist, tveir farsímar Z, heimilissíminn og farsími ákærða. Hafi hún haft aðgang að þessum símum, enda hafi hún þá líka hringt öll þessi símtöl.
Um 6. tl. ákærunnar segir ákærði að það sé tilhæfulaust að hann hafi nauðgað konunni og hann hafi engu ofbeldi beitt hana. Hann segir að þau hafi komið heim saman kvöldið áður eftir að hafi verið úti, eins og oft hafi borið við. Hún hafi hringt til Filippseyja eins og venja var þegar þannig stóð á. Hafi hún talað lengi í símann en hann hafi hins vegar farið að hátta, lagst í sófann og sofnað. Hafi hann sofið í klukkutíma eða svo. Þegar hann vaknaði eftir um klukkutíma hafi hann spurt hana brosandi hvort hún væri enn að tala við fjölskyldu sína. Hafi hún þá sagt snögglega að hann skyldi ekki reita hana til reiði. Segir ákærði að Z sé ofboðslega skapmikil kona og hafi þetta verið viðkvæði hennar þegar hún var að missa stjórn á sér. Hafi hann sagt að hann myndi reita hana til reiði ef hann kærði sig um en hann langaði ekki til þess. Hafi hún þá rokið upp, gripið freyðivínsflösku sem hún var að drekka úr og reitt hana til höggs og stefnt högginu að höfði hans. Hafi hann þá rokið á fætur, gripið í hönd hennar og hrist flöskuna úr greip hennar. Hafi Z haldið áfram að slást við hann en hann ekki gert annað en að halda konunni frá sér. Hún hafi samt hamast áfram og við þau átök hafi hún fljótlega dottið furðu harkalega á parketgólfið. Hafi hann þá séð að fossblæddi úr skurði á enni hennar. Þrátt fyrir þetta hafi konan haldið áfram og stokkið á hann aftur, alveg stjórnlaus. Í þeim átökum hafi hún dottið aftur á gólfið og kunni hún að hafa fengið marið við gagnaugað af því, allt eins og að það hafi gerst við högg frá honum. Hafi hann reyndar ekki gert annað en að ýta henni frá sér til þess að komast hjá slagsmálum við hana. Hafi honum enda tekist það. Hann segir þó hugsanlegt að konan hafi fengið óviljandi högg frá sér, þegar hann hrinti henni frá sér. Sjálfur kveðst hann enga áverka hafa hlotið við þessar árásir konunnar. Um áverka á honum sjálfum, sem lýst er í læknisvottorði segir, hann að þeir séu ekki eftir átök við Z. Geti bæði verið um gamla áverka að ræða og eins geti eitthvað af þessu verið eftir það að hann hjálpaði bróður sínum í timburvinnu. Um áverka á konunni, sem lýst er í læknisvottorðinu, segir ákærði að þeir séu allir komnir til í stofunni, enda sé hún fyrrverandi fimleikakona sem hafi sparkað í allar áttir og gæti alveg eins hafa fengið marbletti á fótleggina þegar hún var að sparka í hann. Hafi engin átök orðið inni í hjónaherberginu. Mjög fljótlega eftir átökin, sem staðið hafi í mjög stutta stund, hafi þau haft samfarir og hafi þau í allt haft samfarir þrisvar sinnum með vilja hennar. Hafi þetta allt verið eftir að átökin í stofunni voru um garð gengin. Hann kveður blóð sem sjáist í rúmfötum á ljósmyndum vera frá Z komið enda hafi henni blætt stanslaust og gríðarmikið. Þá sé það rangt að hann hafi þrýst kodda að vitum konunnar eins og í ákærunni standi. Hann kveður það vera rangt hjá Z að hann hafi farið í sturtu þarna um nóttina. Ákærði kannast við að hafa hringt í Landsbankann að beiðni Z en önnur símtöl séu hennar. Hann kveður vin Z, G, hafa hringt og spurt eftir henni og segist ákærði þá hafa rétt henni símann og þau G talast við. Hann kveðst hafa verið aðeins timbraður þegar þetta gerðist eftir að hafa drukkið bjór en Z hafi drukkið hvítvín.
Hann kveðst aðspurður ekki hafa farið til dyra þegar hringt var þarna um morguninn, enda haldið að þar væru kunningjar eða vinir á ferð og hann ekki viljað opna vegna þess hvernig Z var útlits. Hafi hann ekki vitað að lögreglan væri þarna á ferð. Hann segir að þau hafi ætlað að fara saman til Filippseyja og stofnsetja þar fyrirtæki. Séu sms-skeytin frá honum til hennar eftir atburðinn því viðvíkjandi. Um skeytin sem hann sendi henni fyrir atburðinn tekur hann fram að þau séu út af atviki sem varð þegar þau fóru út að skemmta sér saman. Hefði hann farið heim en hún orðið eftir á skemmtistaðnum og farið þaðan heim með öðrum karlmanni í [...]. Hefði þetta reitt hann til reiði og hann sent henni þessi dónaskeyti.
Z hefur skýrt frá því að sambandi þeirra ákærða hefði lokið fyrir síðustu áramót og þau því ekki verið í sambúð þegar atburðurinn gerðist. Hafi hún ekki búið á A en stundum verið þar þegar hann bað hana að koma og hjálpa sér við að pakka niður og þess háttar. Í umrætt sinn hafi þau ákærði komið heim klukkan rúmlega fjögur um nóttina á A. Hafi hann sagst vera svangur og hún farið að hita upp mat handa honum. Hafi hann læst íbúðardyrunum fljótlega eftir að þau komu heim. Hún hafi spurt ákærða hvort hún mætti hringja úr heimilissímanum til mágkonu sinnar í Filippseyjum þar sem hún hafi ekki átt næga símainneign fyrir slíku símtali. Hafi hann samþykkt það og hún hringt en ákærði setið á meðan í sófa en hún í stól þar rétt við. Hafi henni verið litið framan í ákærða og þá séð að hann var með ygglibrún og sagt henni að fara til fjandans. Hafi hún sagt við ákærða að hún væri enn að tala í símann og hefði ekki sagt neitt misjafnt við hann. Væri réttast fyrir hann að sofna, enda væri hann drukkinn og hana langaði ekki til þess að rífast við hann. Hafi þau skipst frekar á orðum um þetta og hann orðið reiður. Skyndilega hafi hún fundið að hann var kominn að henni, þreif af henni símann og fleygði honum eitthvað afsíðis, án þess að hún sliti sambandinu, reif í hár hennar og sló höfði hennar við gólfið. Giskar hún á að klukkan hafi verið á milli fimm og sex þegar þetta gerðist. Hún hafi fundið að henni blæddi úr höfðinu og hún reyndi að losa tak hans á hárinu, þar sem hún lá á gólfinu. Hann sé mjög sterkur og hafi hann haldið fast í hár hennar og dregið hana eftir gólfinu, inn í svefnherbergi þar sem hann læsti hana inni. Hafi hann skipað henni að afklæðast þar sem hún húkti inni í horni. Hún hafi neitað en hann endurtekið skipunina. Þannig hafi þetta gengið tvisvar og hann farið að afklæða sig. Hann hafi svo gengið að henni í horninu og sparkað í síðuna á henni og kýlt hana í höfuðið. Hafi hún reynt að hringja í farsíma sinn en hann tekið af henni símann og falið hann einhvers staðar í herberginu. Hann hafi skipað henni aftur að afklæðast en hún neitað. Hann hafi þá þrifið í hana og hent henni á rúmið. Hafi hann haldið báðum höndum hennar með annarri hendi sinni og setið klofvega á henni og rifið hana úr fötunum með hinni hendinni. Hún hafi beðist vægðar en hann hafi sett lim sinn í leggöng hennar. Eftir nauðgunina hafi hann legið í rúminu og virst sofa. Þegar hún svo ætlaði á fætur til þess að komast á brott hafi hann spurt höstuglega (sem vitnið gefur til kynna með því herma eftir ákærða) hvert hún ætlaði og hún þá sagt að hún ætlaði á salernið. Hafi hann staðið upp, tekið í hönd hennar og sagst mundu fylgja henni þangað, sem hann og gerði. Hafi hann svo dregið hana inn í herbergi og læst á eftir þegar þangað var komið og sett lykilinn í vasann á buxunum sem hann hafði farið úr. Þá segir hún að hann hafi sagt sér höstuglega (einnig leikið eftir) að koma og leggjast niður hjá sér en hún færst undan en hann ítrekað skipunina. Hafi hann gengið að henni og ýtt henni niður í rúmið. Hafi hann lagst niður við hlið hennar tekið í hana og látið hana leggjast á bakið. Hafi hann sagt henni að færa fæturna í sundur en hún neitað og beðið hann að gera henni þetta ekki. Hafi hann tekið hendur hennar og haldið þeim föstum en hún æpt upp. Hann hafi tekið kodda og sett hann fyrir andlit henni og skipað henni að hætta að æpa. Hún hafi ekki getað andað fyrir koddanum og hætt að æpa til þess að bjarga lífinu. Þegar hann tók koddann frá vitum hennar hafi hún látið hann koma fram vilja sínum. Eftir þessa nauðgun hafi hann farið fram á salerni og skilið eftir opið á meðan. Hafi hún þá leitað að farsímanum og fundið annan síma af tveimur sem hún átti og var í jakkavasa hennar. Hafi ákærði ekki vitað um þann síma. Hafi hún hlaupið út úr herberginu en jafnframt fylgst með salerninu. Hafi hún reynt að sleppa út úr íbúðinni til þess að fá hjálp en innri dyrnar út hafi þá verið læstar og lykillinn ekki í skránni. Hún hafi þá sent sms-skeyti til H, vinkonu sinnar, og einnig til G, vinar síns. Hún hafi svo heyrt til ákærða koma af salerninu og hún þá falið farsímann í ruslafötunni. Sé ónákvæmlega skráð um þetta eftir henni í skýrslu hennar hjá lögreglu. Hafi hann spurt höstuglega (leikið eftir) hvað hún væri að gera en hún þá sagt að hún væri að laga kaffi og boðið honum, sem hann neitaði reiðilega (sama aðferð vitnis). Hafi hann tekið í hönd hennar og sagt að þau skyldu fara inn aftur. Hafi hann dregið hana inn með sér og ýtt henni niður í rúmið aftur og nauðgað henni í þriðja sinn. Í þetta sinn hafi hann ekki læst herbergisdyrunum. Hafi hún þá heldur ekki veitt neitt viðnám, heldur aðeins beðist vægðar, enda hafi hún þá óttast um líf sitt. Hafi þá verið liðið fram undir hádegi. Eftir það hafi hún sest upp, gengið að glugganum og horft út. Þá hafi hann spurt höstuglega (sama aðferð vitnis) hvað hún væri að horfa á út um gluggann og sagt henni að koma og setjast hjá sér, sem hún gerði. Hún hafi ekki þorað að kalla á hjálp út um gluggann þar sem hún óttaðist að hann myndi þá drepa hana. Hann hafi svo farið í sturtu og hún þá notað tækifærið og hringt í vinkonu sína og hvíslað í símann hvort hún hefði hringt í lögregluna. Vinkonan hafi þá sagt að hún gæti það ekki og sagt að hún skyldi hringja í neyðarlínuna sjálf. Hún hafi svo heyrt að ákærði var að koma fram aftur og þá sagt vinkonunni það og lagt á. Hafi hann spurt hvort ekki væri allt í lagi með hana og það þótt blóðið lagaði úr henni. Hafi hún sagt svo vera en hann þá sagt að hann myndi fara með hana til læknis. Vandinn væri hvaða sögu þau ættu að segja lækninum. Hafi hún þá sagt að þau skyldu segja sannleikann. Hún kveðst hafa verið að bíða lögreglunnar, enda hafi hún sent G, vini sínum, sms-boð. Ákærði hafi þagað og lagst í sófann. Hafi hann tekið um höfuð sér og sagt að hann væri að eyðileggja sjálfan sig. Hann hafi svo litið til hennar og hrópað að hún skyldi koma og setjast hjá sér og tekið um hálsinn á henni með handleggnum. Síminn hafi svo hringt og hann svarað en hún kveðst hafa heyrt að vinkona hennar var í símanum að spyrja um hana. Hafi ákærði gert sig blíðlegan (sama aðferð vitnis) og sagt hana vera á snyrtingunni. Sjálf hafi hún ekki árætt að kalla á hjálp enda hafi ákærði verið með handlegginn um háls hennar. Hafi hún getað heyrt hvað ákærða og vinkonunni fór á milli. Seinna hafi G hringt en þá hafði hún gert sér upp það erindi fram í eldhús að laga kaffi meðan hún beið eftir lögreglunni. Ákærði hafi tekið símann og sagt henni að G væri í símanum. Hafi hann leyft henni að tala í símann en þó fylgst með henni. Hafi G spurt hvort lögreglan væri komin en hún neitað því og hann þá sagt að hún væri á leiðinni. Hún kveðst ekki hafa þorað annað vegna nærveru ákærða en að blaðra eitthvað við G, sem hafi verið að spyrja hana hvort lögreglan væri komin og hvort ákærði hefði ráðist á hana aftur. Hafi hún sagt að allt væri í lagi hjá sér en G sagt að hún skyldi reyna að róa ákærða og hann myndi hringja aftur í lögregluna. Ákærði hafi svo sagt höstugur (sama aðferð vitnis) að nú væri nóg komið og hún skyldi leggja á. Skyndilega hafi dyrabjöllunni verið hringt og ákærði þá litið út um gluggann og séð að lögreglan var komin. Hafi bjöllunni verið marghringt en ákærði bannað henni að opna því hann vildi ekki fá lögregluna upp. Hún hafi beðið hann um að opna og sagt að þau myndu segja lögreglunni að allt væri í lagi. Hann hafi þó setið við sinn keip. Þegar hringingarnar héldu áfram hafi ákærði opnað innri dyrnar með lykli en í sömu mund hafi hringingarnar þagnað. Hún hafi þá verið stödd í eldhúsinu og óttast það að lögreglan færi á brott. Hafi hún séð að ákærði var lagstur í sófann að horfa á sjónvarp. Hafi hún þá farið út í glugga og séð að lögreglan var að búast til að fara. Hafi hún með bendingum náð athygli lögreglumanns sem var á leiðinni út í bíl. Hafi ákærði skipað henni höstuglega (sama aðferð vitnis) að koma til sín. Hafi bjöllunni þá verið hringt aftur og ákærði þá sagt að lögreglan væri komin upp á hæðina. Hafi hann bannað henni að opna en eftir frekari hringingar og jag þeirra ákærða hvort ætti að opna hafi hún stokkið fram að dyrum og opnað fyrir lögreglunni. Kveðst hún hafa sýnt lögreglunni vegsummerki í íbúðinni. Hún hafi svo verið flutt á sjúkrahús. Hún kveðst vera um 46 kg að þyngd og 152 cm á hæð. Hún segist aldrei hafa átt möguleika á því að fara út á svalir enda hafi ákærði höfuðsetið hana allan tímann. Hún kveðst ekki geta gert sér nákvæma grein fyrir því hversu lengi hver nauðgun stóð en álítur að fyrsta og önnur nauðgun hafi aðeins varað í um tvær mínútur en sú þriðja eitthvað lengur. Þá viti hún ekki gjörla hve langur tími leið á milli þeirra. Segir hún að á milli fyrstu og annarrar hafi kannski liðið um 15 eða 20 mínútur og milli annarrar og þriðju e.t.v. allt að 45 mínútur. Hún leggur áherslu á að henni sé ómögulegt að tímasetja atburðina með nokkurri nákvæmni, enda hafi hún ekki fylgst með klukkunni. Hún segist aðspurð hafa beðið ákærða um þann greiða að hringja fyrir sig í Landsbankann vegna peningayfirfærslu. Hafi hún gert þetta til þess að róa hann niður (var ekki túlkað) og eins til þess að gefa honum til kynna að hún ætti með sig sjálf. Hún kannast við að hafa hringt í H kl. 10.19 og segir það hafa verið eftir aðra nauðgunina að þau ákærði voru í stofunni. Hafi hún þá spurt ákærða hvort hún mætti ekki hringja í H til þess að segja henni að þau gætu ekki komið að ná í hana til þess að þrífa geymsluna hennar, eins og ráðgert hafði verið. Hún segist hafa hringt í hana að fyrra bragði en H hafi svo hringt aftur. Ekki viti hún hvað klukkan var. Hún muni eftir því að hafa sent henni sms-boð um að hringja á lögregluna. Hún segist hafa hringt og hún spurt H hvort hún hefði fengið skilaboðin. Segir hún það geta komið heim og saman við símtal sem skráð er kl. 11.29. Hafi þetta verið eftir þriðju nauðgunina. Hún áréttar að hún hafi einnig sent sms-boð til H eftir aðra nauðgunina. Athygli hennar er vakin á því að þau boð sé hægt að tímasetja kl. 11.24 sem sé ekki í samræmi við tímasetningar sem hún hafi giskað á. Hún svarar því til að hún sé ekki viss um tímasetningarnar sem hún hefði gefið upp. Spurð um það hvar hún hafi verið meðan ákærði fór í sturtu segist hún hafa verið á neðri hæðinni. Aðspurð hvort hún hefði þá ekki átt að geta forðað sér út á svalir á meðan segir hún að aldrei hafi hvarflað að sér að það væri flóttaleið. Þá hafi hún álitið að nauðgununum væri lokið og rétt væri að bíða lögreglunnar til þess að skýra frá málavöxtunum og að ákærði gæti ekki sagt ósatt um þá.
Z kveðst hafa orðið fyrir svo miklu áfalli af þessu að hún hafi fengið reiði- og hræðsluköst og misst matarlyst. Þá eigi hún erfitt með svefn og fái martraðir. Hafi hún orðið óvinnufær vegna þessa. Hún kveðst hafa leitað sér aðstoðar sálfræðings og ganga í regluleg viðtöl. Þá segir hún að hún beri ör í andlitinu eftir sárin sem hún hlaut og vilji hún láta fjarlægja þau. Stundum sæki að henni sjálfsmorðshugsanir þegar hún sjái örin og atburðirnir rifjist upp.
Jón Aðalsteinn Jóhannsson, læknir á neyðarmóttöku Fossvogsspítala, sem skoðaði ákærða 11. febrúar sl. hefur skýrt frá því að hann hafi verið rólegur og samvinnuþýður en dálítið miður sín yfir þessum aðstæðum. Af honum hafi verið greinilegur áfengisþefur. Hann kveður áverkana sem lýst er í vottorðinu hafa verið nýja. Um áverka á handarbaki hægri handar, sem getið er um í lögregluskýrslu, segir hann að þeir hafi virst gamlir.
Þórður Geir Þorsteinsson lögreglumaður, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi þegar gert vettvangsrannsókn heima hjá ákærða á A ásamt starfsmanni úr tæknideild lögreglunnar eftir að málið kom upp 11. febrúar. Hann kveðst hafa athugað læsingar í hurðum í íbúðinni og hafi aðeins verið einn lykil að finna en hann hafi gengið að öllum millihurðum í íbúðinni. Hann muni eftir tölvusnúrum um millidyrnar og erfitt hafi verið að loka þeim af þeim sökum. Hann segir sig minna að lykillinn hafi gengið að þeirri hurðarskrá.
I, íbúi á A, segist hafa verið stödd fyrir utan húsið um kl. sex þennan morgun ásamt manni sínum, J. Segist hún hafa séð ljós í glugga hjá ákærða. Þá kveðst hún hafa heyrt konurödd hrópa en ekki vissi hún hvaðan það hljóð kom. Hún hafi svo séð skömmu seinna að ljósið hafði verið slökkt.
J hefur skýrt frá því að hann hafi verið staddur úti í umrætt sinn rétt fyrir kl. sex. Kveðst hann hafa heyrt dynk, eins og af húsgagni, en engin læti kveðst hann hafa heyrt. Hann kveðst hafa heyrt samræður fólks ofan af 3. hæð en ekki óp.
Nanna Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á neyðarmótöku Fossvogsspítala, hitti Z þegar komið var þangað með hana. Kveður hún hana hafa verið grátandi og illa til reika, skorna, blóðuga og bólgna. Hafi konan sagt að hún hefði verið heima hjá fyrrverandi kærasta sínum sem hefði ráðist á hana og nauðgað henni þrisvar sinnum. Fannst vitninu áverkarnir á konunni vera í samræmi við frásögn hennar.
K, íbúi á A, kveðst hafa heyrt hávaða og öskur frá íbúð ákærða þennan morgun, frá því um tvö, að hún heldur. Hafi þetta verið kvenmannsöskur og hark í húsgögnum. Hafi þetta verið hætt þegar hún fór á fætur um áttaleytið. Hugsanlega geti henni skjátlast um þessa tíma.
G hefur sagt frá því að hann hafi vaknað klukkan rúmlega 14, að hann heldur, umræddan dag og þá kveikt á farsíma sínum. Hann segir þó að honum geti skeikað um klukkustund varðandi tímann. Hafi þá verið skilaboð frá Z, kl. 11:11:26, um það að hann sendi lögregluna heim til ákærða því hann hefði barið hana og nauðgað henni. Væri hún innilokuð þar. Kvaðst hann hafa hringt í lögregluna og einnig í Z, sem hefði talað í einhverjum gátum í símann. Þegar svo lögreglan var ekki komin á staðinn eftir 20 mínútur hafi hann hringt aftur í lögregluna.
Jóhanna Jónasdóttir læknir, skoðaði Z 11. febrúar. Hún kveður konuna hafa verið í miklu uppnámi og með mikla áverka í andliti. Segir hún Z hafa skýrt frá því að hún hefði farið heim til manns sem hún hefði verið að hjálpa við flutninga. Hefði maðurinn lokað hana þar inni. Hefði hann rifið í hár hennar, keyrt höfuð hennar í gólfið, hent henni í rúmið, skipað henni úr fötunum en hún neitað. Maðurinn hefði þá afklætt hana og elt á röndum um alla íbúðina. Hefði maðurinn nauðgað henni einu sinni eða oftar. Hefði konan svo getað sent sms-skilaboð um að kallað yrði á lögregluna. Læknirinn kveður áverkana á Z, sem lýst er í læknisvottorðinu, samrýmast frásögn konunnar. Hún kveðst ekki minnast þess að hafa skoðað hársvörðinn á Z. Hún kveðst hafa hitt konuna aftur og hafi hún greinilega átt í andlegum erfiðleikum eftir þennan atburð.
Arnþór Davíðsson lögreglumaður, hefur skýrt frá því að þeir lögreglumennirnir hefðu hringt dyrabjöllunni heima hjá ákærða en ekki verið komið til dyra. Þegar þeir hefðu verið á förum hefði kona sést í glugga og veifaði til þeirra. Hefðu þeir þá snúið við, komist inn í stigaganginn fyrir atbeina annars íbúa og farið upp að íbúð ákærða. Þar hafi þeim verið hleypt inn og þá séð að eitthvað hafði gengið á þar inni. Hafi konan verið blóðug í andliti og sagt þeim að henni hefði verið nauðgað. Hefðu þá verið kvaddir til rannsóknarmenn sem tekið hafi við málinu.
Guðbjörg Ragna Ragnarsdóttir sálfræðingur, hefur komið fyrir dóm og staðfest vottorð sitt sem lagt hefur verið fram við aðalmeðferð málsins. Segir þar að Z hafi komið fyrst í viðtal í febrúar 2006 og viðtölin orðið alls 12. Hún hafi verið í miklu uppnámi í fyrstu viðtölunum vegna þess ofbeldis sem hún hafði mátt þola. Hún hefði upplifað mikla skelfingu og varnarleysi og verið hrædd um að deyja. Hún hafi verið mjög næm fyrir öllu sem við hana var sagt og tortryggin á allt og alla. Hún hafi verið reið og nýtt sér reiðina til að halda óttanum í skefjum og reyna að hafa stjórn á þeim aðstæðum sem hún var í hverju sinni. Henni hafi liðið mjög illa, átt fáar stundir þar sem ofbeldi var henni ekki efst í huga og tilfinningum, átt erfitt með að halda sjálfsstjórn í samskiptum við aðra, dreymt atburðinn og verið á flestan hátt í tilfinningalegu uppnámi. Hún hafi verið viðbrigðin og vör um sig. Hún hafi átt erfitt með að skilja og sætta sig við það að hafa verið svona illa leikin og að hún hefði orðið svona varnarlaus. Sjálfsmynd hennar hefði beðið hnekki. Hún sýndi þannig greinileg merki um að hafa orðið fyrir áfalli og þá einsemd sem fylgir slíku. Z hafi verið prófuð á sjálfsmatskvarða 3. mars. Í fyrsta prófinu hafi hún fengið einkunnina 69, en einkunnin 33 og þar yfir sé vísbending um að um alvarlegar og varanlegar afleiðingar af áfalli sé að ræða. Z hafi verið mjög kraftmikil á þessu tímabili við að finna leiðir til þess að verða sterkari og ná sér eftir áfallið. Hún hafi gert sér far um að fylgjast með málinu eins og hún hafi getað og verið sannfærð um að refsing meints geranda muni hafa afgerandi áhrif á eigin bata hennar. Í byrjun hafi henni fundist að hún væri ekki hrædd við geranda, sagst frekar óttast eigin reiði ef hún hitti hann. Þegar frá leið og reiðin fór að minnka hafi hún farið að finna fyrir óttanum, einkum þegar hún sá manninn á förnum vegi. Hún hafi gengist undir annað próf 19. júlí og fékk þá einkunnina 41, sem enn var yfir mörkum þess að hún væri komin yfir áfallið, en benti jafnframt til þess að hún væri á batavegi. Loks hafi hún verið prófuð 13. september og þá fengið einkunnina 36, sem enn sé yfir mörkunum. Hún segir að sig dreymi atburðinn, hún verði auðveldlega tortryggin og myndir af atburðinum komi upp í huga hennar, hún eigi stundum erfitt með einbeitingu og sé viðbrigðin. Fyrir dómi hefur sálfræðingurinn jafnframt skýrt frá því að Z hafi komið margsinnis í viðtöl hjá henni frá því í febrúar sl. eftir að atvik málsins urðu. Hún kveður Z hafa verið mjög reiða og æsta yfir því sem yfir hana hafði gengið. Hafi verið lagt sálfræðipróf fyrir hana nokkrum sinnum á þessum tíma. Á sjálfsmatskvarða hafi hún í byrjun fengið mjög háa niðurstöðu sem bendi til mikils áfalls, en eftir því sem á leið hafi gildið lækkað verulega. Það hafi þó verið yfir meðallagi á síðasta prófinu sem lagt var fyrir hana en horfur séu á frekari bata.
H, vinkona Z, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að þær Z hefðu ætlað sér að gera hreint í húsi nokkru á laugardeginum umrædda. Um morguninn hafi Z hringt í hana og sagst ekki geta farið í það með henni þar sem hún væri að sinna öðru. Klukkan ellefu kveðst hún hafa fengi sms-skeyti frá Z sem vitninu fannst einkennilegt. Þar hafi Z beðið vitnið um að hringja í lögregluna því ákærði hefði slegið hana og reynt að nauðga henni. Hún kveðst ekki hafa brugðist strax við þessum skilaboðum, þar sem hvarflað hafi að henni að þetta væri gabb og hún stödd fjarri. Þó hafi hún séð að þetta var úr síma Z og því hafi hún trúað því að skeytið væri frá henni. Hún hafi því hringt í heimasíma ákærða og hann svarað. Hafi hún kynnt sig og beðið um að fá að tala við Z vegna hreingerningarinnar sem stóð til. Ákærði hafi svarað því til að Z væri inni á snyrtingunni og virst eðlilegur í tali. Z hafi svo hringt í vitnið og beðið vitnið á filippseyskri tungu að hjálpa sér. Kveðst hún þá hafa spurt Z hvers vegna hún hringdi ekki sjálf í lögregluna. Hafi Z einnig virst eðlileg í tali, eins og hún eigi vanda til.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök að öllu leyti. Hann neitar því að hafa læst Z inni og að hafa falið fyrir henni síma. Þá neitar hann því að vera valdur að áverkunum á henni og segir þá vera af völdum hennar sjálfrar. Hann kannast aftur á móti við að hafa haft samræði við konuna þrisvar sinnum en kveður það hafa verið með samþykki hennar. Dómurinn álítur að frásögn ákærða í heild sé með ólíkindablæ og á köflum alveg fráleit. Á hinn bóginn hefur Z verið stöðug og greinargóð í skýrslum sínum um allt sem máli skiptir. Þeir sem hittu hana fyrst eftir atburðinn og hafa síðan haft með hana að gera vegna hans hafa einnig borið um það hversu miklu áfalli hún hafi orðið fyrir. Þá hafa þeir eftir henni lýsingu á atburðunum sem ber saman við skýrslur hennar í málinu. Þykir ónákvæmni hennar um tímasetningar atburðanna ekki rýra sönnunargildi framburðar hennar að neinu leyti. Metur dómurinn hana vera traust og greinargott vitni.
1. Engin ummerki eru um það að ákærði hafi svipt Z frelsi með því að læsa hana inni og fela fyrir henni símana. Á hinn bóginn liggur fyrir að konan sendi hjálparköll til vina sinna með símboðum á þessum tíma og einnig að dyrabjöllunni var ekki svarað þegar lögreglan hringdi henni. Þá liggur það fyrir að hún gaf lögreglu bendingar úr glugga íbúðarinnar, eins og fram er komið. Loks hefur vettvangsrannsókn lögreglu leitt það í ljós að auðvelt hefur verið að læsa íbúðinni. Þá er mikill munur á líkamsburðum ákærða og konunnar og álítur dómurinn að hann hafi vegna þess átt auðvelt með að hindra hana í því að reyna að komast út. Skýring konunnar á því hvers vegna hún reyndi ekki að fara út á svalir íbúðarinnar þykir vera eðlileg. Þykir þetta allt styðja frásögn konunnar um það að ákærði hafi haldið henni nauðugri í íbúðinni og þykir, gegn neitun hans, mega byggja á frásögn konunnar um þetta. Hefur ákærði orðið sannur að broti gegn 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga.
2. Z hefur lýst því skilmerkilega hvernig ákærði beitti hana ofbeldi í þremur hrinum á þeim tíma sem hér um ræðir. Ummerki á vettvangi og vottorð og vætti þeirra Jóhönnu Jónasdóttur læknis og Nönnu Ólafsdóttur hjúkrunarfræðings um áverkana á henni styðja þá frásögn, nema að því er tekur til þess að hann hafi lokað fyrir vit hennar með kodda, sbr. hér á eftir. Skýring ákærða á áverkunum á Z er fráleit og ber að hafna henni og telja sannað að þeir séu af völdum hans. Ákærði kannast við að hafa haft samræði við konuna þrisvar sinnum og segir það hafa gerst með samþykki hennar. Þessi viðbára er einnig fráleit. Verður að telja sannað að ákærði hafi þröngvað konunni til holdlegs samræðis þrisvar sinnum með því að sparka í hana og slá, draga um á hárinu, slá höfði hennar í gólfið og rífa í hana og taka á henni eins og lýst er í ákærunni. Hefur ákærði orðið sannur að broti gegn 194. gr. almennra hegningarlaga.
3. Skilja verður ákæruna þannig að sá verknaður ákærða að þrýsta kodda að vitum Z svo að hún átti erfitt um andardrátt sé talinn sérstaklega hættuleg líkamsárás svo að varði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Z hefur lýst þessu með sannfærandi hætti. Ákærði hefur á hinn bóginn neitað þessu, eins og öðru ofbeldi í garð konunnar. Engin ummerki um þetta fundust við læknisskoðun og þykir ekki óhætt gegn neitun ákærða að telja þetta sannað. Ber því að sýkna ákærða af þessu atriði í ákærunni.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Samkvæmt sakavottorði hefur ákærði ekki áður gerst sekur um hegningarlagabrot en honum hefur hins vegar margsinnis verið refsað fyrir ölvun og réttindaleysi við akstur. Brot ákærða gagnvart konunum voru sérlega hrottafengin og fór hann fram gegn þeim í krafti líkamsburða sinna. Þá voru árásirnar algjörlega tilefnislausar. Ákærði misnotaði sér aðstöðu sína gagnvart konunum og að þær voru honum háðar og þó einkum Y. Nýtti ákærði sér gróflega hversu hún var honum háð, að vandamenn hennar voru erlendis og hún ekki mælt á íslensku. Teljast árásir ákærða á hana vera sérstaklega svívirðilegar þar sem þær voru liður í því að kúga hana og undiroka. Ofbeldi ákærða gagnvart Z var langvinnt. Hélt hann henni nauðugri í íbúð sinni í margar klukkustundir og nauðgaði henni í þrígang. Bera gögn málsins með sér að brot þau, sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir í máli þessu, hafi haft miklar sállíkamlegar afleiðingar í för með sér fyrir báðar konurnar.
Ákærði á sér engar málsbætur. Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1., 2., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár.
Skipaður réttargæslumaður brotaþola, Y, hefur sett fram miskabótakröfu að fjárhæð 800.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 27. júlí 2005 til 29. október 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um greiðslu þóknunar vegna réttargæslu úr hendi sakbornings samkvæmt mati réttarins. Bótakrafan er studd þeim rökum að brotaþoli hafi orðið fyrir kynferðisbroti og ítrekuðum barsmíðum af hendi ákærða, sem hafi lagt ítrekað á hana hendur í júlí 2005 og komið fram vilja sínum án hennar samþykkis. Hann hafi haft við hana mök 25. júlí 2005 án hennar samþykkis að undangengnum barsmíðum og 26. og 27. júlí hafi ákærði lagt á hana hendur.
Brotaþoli kveður um vera að ræða kynferðisbrot sem ákærði beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt ákvæðum 26. gr. laga nr. 50, 1993, sbr. 170. gr. laga nr. 19, 1991. Um sé að ræða brot sem hafi valdið brotaþola umtalsverðum miska. Brotið hafi falist í kynferðislegri misnotkun þar sem ákærði nýtti sér að brotaþoli var honum háður. Brot ákærða sé mun alvarlegra fyrir þær sakir að brotaþoli hafði verið unnusta ákærða og hafi á þeim tíma sem brotin áttu sér stað, búið á heimili hans. Áverkum brotaþola sé lýst í áverkavottorði Kristínar Sigurðardóttur læknis, en auk þeirra líkamlegu áverka er þar komi fram hafi árásin orðið til þess að brotaþoli óttaðist um líf sitt og heilsu. Er á því byggt að ákærði hafi valdið brotaþola miklu líkamlegu og andlegu tjóni og að brotaþoli hafi orðið fyrir miska af ólögmætri meingerð ákærða gegn persónu hennar.
Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir líkamsárásir 26. og 27. júlí 2005 sem beindust gegn Y. Árásir ákærða voru hrottalegar og grófar og til þess fallnar að vekja mikla ógn og hræðslu hjá brotaþola, sem á þeim tíma bjó á heimili ákærða og hafði ekki í önnur hús að venda. Af sálfræðivottorði, sem lagt hefur verið fram í dóminum um brotaþola, má ráða að árásir ákærða hafa haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola og valdið henni andlegum þjáningum. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50,1993 þykir miski konunnar vegna þessara tveggja líkamsárása vera hæfilega metinn 400.000 krónur.
Þá hefur skipaður réttargæslumaður brotaþola, Y, einnig sett fram miskabótakröfu vegna árásarinnar 18. ágúst að fjárhæð 600.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 18. ágúst 2005 til 30. október 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um greiðslu þóknunar vegna réttargæslu úr hendi sakbornings samkvæmt mati réttarins. Bótakrafan er studd þeim rökum að 18. ágúst hafi konan orðið fyrir líkamsárás af hálfu ákærða er hún var við störf í heimahúsi í Reykjavík. Ákærði hafi ruðst inn á heimilið, þar sem hún var, og ítrekað gengið í skrokk á henni, dregið hana síðan út úr húsinu og inn í bifreið sína, en brotaþoli komist undan ákærða. Um sé að ræða alvarlegt brot sem valdið hafi umtalsverðum miska og líkamlegu tjóni. Hún hafi orðið fyrir töluverðu andlegu áfalli, en auk líkamlegra áverka hafi hún óttast um líf sitt og heilsu. Vísað er til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 til stuðnings kröfunum og XX. kafla laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, einkum 170. gr. laganna.
Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir líkamsárás 18. ágúst 2005 gegn Y. Brot ákærða var hrottalegt og gróft og til þess fallið að vekja mikla ógn og hræðslu hjá brotaþola, sem á þeim tíma er árás varð, var við störf í heimahúsi og gat litla björg sér veitt, er ákærði ruddist fyrirvaralaust inn á heimilið og veitti henni ítrekað högg og spörk. Af sálfræðivottorði, sem lagt hefur verið fram í dóminum um brotaþola, má ráða að árás ákærða hafi haft í för sér með sér alvarlegar afleiðingar fyrir brotaþola og valdið henni andlegum þjáningum. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga er miski konunnar hæfilega metinn 400.000 krónur.
Samkvæmt því sem rakið er ber að dæma ákærða til þess að greiða Y 800.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 18. ágúst 2005 en með dráttarvöxtum frá 30. september 2005 til greiðsludags.
Skipaður réttargæslumaður brotaþola, Z , hefur sett fram bótakröfu að fjárhæð 2.000.000 króna auk vaxta samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 11. febrúar 2006 til 11. apríl 2006 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags. Auk þess er gerð krafa um þóknun við réttargæslu úr hendi sakbornings samkvæmt mati réttarins.
Brotaþoli styður bótakröfu sína þeim rökum að ákærði hafi nauðgað henni þrisvar sinnum á heimili hans að A, Reykjavík, 11. febrúar 2006, og jafnframt hafi hann svipt hana frelsi í allt að 9 klst. Árásin hafi byrjað skyndilega og hafi ákærði rifið í hár brotaþola og skellt henni í gólfið, beint á andlitið. Hafi hún hlotið skurði í andliti og hafi ákærði síðan dregið hana á hárinu. Hún hafi hlotið margvíslega áverka af árás ákærða, nokkra skurði í andliti, bólgur, mar og eymsli um allan líkamann og sár í hársverði eftir hárreytingu. Mikill aflsmunur sé milli brotaþola og ákærða, en ákærði sé miklu stærri og sterkari en brotaþoli, sem er lítil og nett. Brotaþoli kveður að í kjölfar árásarinnar hafi henni liðið mjög illa andlega, enda hafi brotin verið gróf og til þess fallin að valda stórfelldum andlegum miska. Hún hafi átt erfitt með svefn, verið afar sár og reið út í ákærða og sé ekki fyrirséð hvort hún muni ná sér að fullu. Vísar brotaþoli til 26. gr. skaðabótalaga til stuðnings kröfum sínum og einnig til XX. kafla laga um meðferð opinberra mála.
Ákærði hefur í máli þessu verið sakfelldur fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og nauðganir á Z 11. febrúar 2006. Ofbeldi ákærða í garð brotaþola var einkar hrottalegt og gróft og til þess fallið að vekja mikla ógn og hræðslu hjá brotaþola, sem var svipt frelsi sínu á meðan á líkamsárásinni og nauðgunum ákærða stóð. Af sálfræðivottorði sem lagt hefur verið fram í dóminum um brotaþola, má ráða að brot ákærða hafi haft í för sér með sér alvarlegar afleiðingar fyrir hana og valdið henni andlegum þjáningum. Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga verða konunni því dæmdar 1.200.000 króna í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 11. febrúar 2006 en með dráttarvöxtum frá 11. mars 2006 til greiðsludags.
Dæma ber ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 570.000 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun til réttargæslumannanna Ásu Ólafsdóttur hrl., 150.000 krónur, og Helgu Leifsdóttur hdl., 300.000 krónur, hvor tveggja þóknunin að meðtöldum virðisaukaskatti. Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða 646.049 krónur í annan sakarkostnað.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari og dómsformaður, Helgi I. Jónsson dómstjóri og Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kváðu upp dóm þennan.
DÓMSORÐ
Ákærði, Jón Pétursson, sæti fangelsi í 5 ár.
Ákærði greiði Y 800.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 18. ágúst 2005 en með dráttarvöxtum frá 30. september 2005 til greiðsludags.
Ákærði greiði Z 1.200.000 krónur í miskabætur ásamt almennum vöxtum frá 11. febrúar 2006 en með dráttarvöxtum frá 11. mars 2006 til greiðsludags.
Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 570.000 krónur í málsvarnarlaun og þóknun til Ásu Ólafsdóttur hrl., 150.000 krónur, og Helgu Leifsdóttur hdl., 300.000 krónur. Ákærði greiði 646.049 krónur í annan sakarkostnað.