Hæstiréttur íslands

Mál nr. 306/2003


Lykilorð

  • Þjófnaður
  • Reynslulausn


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. nóvember 2003.

Nr. 306/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Finnboga Erni Halldórssyni

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Þjófnaður. Reynslulausn.

F var ákærður fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa tvívegis brotist inn í sömu verslun. Að gögnum málsins virtum var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu F. Með brotum sínum rauf F skilorð reynslulausnar og var honum því gerð refsing í einu lagi, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 19/1940. Jafnframt var við ákvörðun refsingar litið til 77. gr. og 2. mgr. 70. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu og að virtu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um 14 mánaða fangelsisvist F.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. júlí 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu ákærða og að refsing verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að hann hljóti vægustu refsingu, sem lög leyfa.

Ákærða er gefið að sök að hafa í félagi við aðra menn tvívegis brotist inn í verslunina Tölvuvirkni í Kópavogi og stolið þaðan margs konar tölvuvörum, svo sem nánar greinir í ákæru. Fyrra innbrotið, sem um ræðir, var framið aðfaranótt 17. desember 2002, en hið síðara næstu nótt á eftir. Grunur féll strax á ákærða og við skýrslutöku hjá lögreglu 22. sama mánaðar gat hann enga grein gert fyrir því hvar hann var staddur á þeim tíma, sem innbrotin voru framin. Þá er fram komið að um tveimur tímum áður en fyrra innbrotið var framið stöðvuðu lögreglumenn ákærða á Breiðholtsbraut í Reykjavík þar sem hann ók bifreiðinni, sem talið er að sjáist á myndbandsupptöku úr öryggismyndavél í Tölvuvirkni, og tekin var rétt áður en brotist var inn í verslunina aðfaranótt 18. desember 2002. Er bókun úr dagbók lögreglu um atvikið á Breiðholtsbraut meðal gagna málsins og gaf einn lögreglumannanna, sem höfðu þá afskipti af ákærða, skýrslu fyrir dómi. Kom fram að lögreglumennirnir þekktu ákærða, sem heimilaði þeim leit í bílnum og á honum sjálfum. Ber lýsingu lögreglumannsins á klæðnaði ákærða saman við klæðnað þess manns, sem sést á áðurnefndri myndbandsupptöku og er talinn vera ákærði. Við skýrslugjöf fyrir dómi kannaðist ákærði hins vegar ekkert við að atvikið á Breiðholtsbraut hafi átt sér stað. Neitun hans um það er haldlaus. Að virtu því, sem að framan er rakið, og að öðru leyti með vísun til forsendna héraðsdóms verður niðurstaða hans um sakfellingu ákærða staðfest.

Sakaferill ákærða er rakinn í héraðsdómi. Svo sem þar greinir rauf hann með brotum sínum skilorð reynslulausnar og ber að ákveða refsingu ákærða í einu lagi fyrir brot hans nú og með hliðsjón af hinni óafplánuðu refsingu. Verður refsingin jafnframt ákveðin með hliðsjón af 77. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt þessu og að virtu ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Finnbogi Örn Halldórsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 125.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2003.

                Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni 14. febrúar s.l. gegn Finnboga Erni Halldórssyni, kt. 210480-2939, Torfufelli 50, Reykjavík fyrir eftirtalin brot gegn almennum hegningarlögum

I.

"Fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt þriðjudagsins 17. desember 2002, í félagi við annann óþekktan aðila, brotist inn í verslunina Tölvuvirkni, Hlíðasmára 13, Kópavogi, og stolið þaðan eftirfarandi tölvuvörum: hátalara af gerðinni SoundWorks Digital, hátalara af gerðinni Inspire 2400, 21 stk. örgjörva af ýmsum gerðum, tölvuminni af gerðinni SDRAM 256 MB, tölvuminni af gerðinni DDR 512 MB, Windows stýrikerfi, tveimur skjákortum af gerðinni Sparkle GeForce4, hörðum diski af gerðinni Western Digital, tveimur móðurborðum af gerðinni Shuttle, prentara af gerðinni HP Deskjet 5550, prentara af gerðinni HP Deskjet 3820, geisladrifi af gerðinni Combo-Samsung, tveimur skjákortum af gerðinni ATI Radeon, og viftu fyrir örgjörva, samtals að veðmæti kr. 285.445,-

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

 

Í málinu gerir B [ . . . ], þá kröfu f.h. Tölvuvirkni ehf., [ . . . ], að ákærði verði dæmdur til að greiða Tölvuvirkni ehf. bætur að fjárhæð kr. 285.445,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi 17. desember 2002, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

II.

Fyrir þjófnað með því að hafa aðfaranótt miðvikudagsins 18. desember 2002, í félagi við tvo óþekkta aðila, brotist inn í verslunina Tölvuvirkni, Hlíðasmára 13, Kópavogi, og stolið þaðan eftirfarandi tölvuvörum: örgjörva af gerðinni CPU AMD, hátalara af gerðinni Speakers Inspire, tölvuminni af gerðinni DDR 256 MB, mús af gerðinni Logitech Wheel Optic Bulk, lyklaborð af gerðinni MITS Millennium Icelandic, 17” tölvuskjá af gerðinni Samtron, skjákorti af gerðinni Sparkle Geforce4, hörðum diski af gerðinni Western Digital, tveimur móðurborðum af gerðinni Shuttle, tveimur myndlesurum af gerðinni HP ScanJet, skjákorti af gerðinni ATI Radeon, netbúnaði af gerðinni Wireless Access Point Router,  netbúnaði af gerðinni Wireless Access Point, netbúnaði af gerðinni Wireless USB Ethernet, geisladrifi, og móðurborði af gerðinni Shuttle, samtals að veðmæti kr. 256.991,-

 

Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940."

 

Í málinu gerir B, þá kröfu f.h. Tölvuvirkni ehf., [ . . . ], að ákærði verði dæmdur til að greiða Tölvuvirkni ehf. bætur að fjárhæð kr. 256.991,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001, frá tjónsdegi 18. desember 2002, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.

 

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar"

 

                Af hálfu ákærða er haldið uppi vörnum í málinu og er aðallega krafist sýknu af kröfum ákæruvaldsins, en til vara er þess krafist að ákærða verði einungis gerð vægasta refsing sem lög leyfa og að hún verði skilorðsbundin.  Þá er krafist hæfilegra málsvarnarlauna til skipaðs verjanda hans hrl. Hilmars Ingimundarsonar.

               

                I.  Málavextir.

                1.             Aðfaranótt þriðjudagsins 17. september 2002 barst lögreglunni í Kópavogi tilkynning um að verið væri að brjótast inn í verslunina Tölvuvirkni að Hlíðarsmára 13, Kópavogi.  Lögreglumenn fóru strax á staðinn og kom í ljós að búið var að brjóta rúðuna í hurðinni í anddyri verslunarinnar, en verslunin var mannlaus.  Á borði sem stendur fremst í versluninni var geymdur ýmiskonar tölvubúnaður, réðu lögreglumennirnir af því hve margar snúrur voru ótengdar að þarna hafi verið tekinn tölvubúnaður og var haft samband við Inga Hrafn starfsmann verslunarinnar, sem kom á staðinn og staðfesti að þarna hefði verið tekinn tölvubúnaður og sérstaklega taldi hann sig vissan um, að þarna hefði verið tekin tölva af gerðinni Shuttle X og væri verðmæti hennar um 100.000 krónur.  Ekki liggur fyrir lýsing eiganda verslunarinnar á því hvað hafi átt að vera á borðinu og hvað hafi horfið úr versluninni, en í bótakröfu sem dagsett er 20. desember 2002 er talinn upp ýmis tölvubúnaður, sem saknað var, alls 18 munir að verðmæti 285.445 krónur.  Ekkert á vettvangi gaf til kynna hver hefði verið að verki, en líklegt var talið að verknaðurinn hefði verið tekinn upp á myndband í öryggismyndavél verslunarinnar.  Lögreglan gerði ráðstafanir til þess, að gert yrði við hurðina, sem rúðan var brotin í.

                Við rannsókn málsins voru fengnir hjá eiganda verslunarinnar geiskadiskar úr öryggismyndavél verslunarinnar með myndskeiðum frá þeim tíma er innbrotið var framið, sem lögreglumennirnir hafa skoðað ítarlega til að reyna að átta sig á hverjir gætu þar hafa verið að verki sbr. kafla II hér á eftir.

 

                2.  Aðfaranótt miðvikudagsins 18. desember 2002 kl. 04:53 barst lögreglunni í Kópavogi tilkynning um að öryggiskerfi verslunarinnar Tölvuvirkis að Hlíðasmára 13, Kópavogi, hefði farið í gang og fóru fjórir lögreglumenn á vettvang.  Þarna höfðu aðaldyr verslunarinnar verið opnaðar með því að spenna upp hurðina. Enginn reyndist vera í versluninni, en í afgreiðslurými hennar lágu vörupakkningar á gólfinu og rótað hafði verið í hillum.  Í afgreiðslurýminu voru ýmsar snúrur og tölvutenglar, en engar tölvur tengdar þeim.  Þótti ljóst að þarna hefði tölvur og tölvubúnaðar verið tekinn og var haft samband við Björgvin Þór Hólm, eiganda verslunarinnar sem taldi að tekin hefðu verið skjákort, 1 drif, 3 móðurborð, 2 skannar, sem hann tilgreindi nánar tegundarheiti og númer á, en auk þess saknaði hann Shuttle XPCKS 41C tölvu með hörðum diski, stýrikerfi, D.V.D. og skrifara sem hann taldi að verðmæti um 100.000 krónur og allt sem tekið var taldi hann að verðmæti 229.838 krónur.

                Lítil tölvuupptökuvél hafði verið í gangi í versluninni og voru upptökurnar skoðaðar þarna á staðnum og samkvæmt henni virðist blárri þriggja dyra bifreið hafa verið ekið að versluninni og stuttu síðar höfðu þrír menn komið að aðaldyrunum, einn þeirra spennti upp hurðina með einhverju verkfæri og þeir fara allir inn í verslunina. Eftir það má sjá, að þeir taka ýmsar vörur út úr versluninni.  Einn maðurinn var hvítur á hörund með rauða húfu, klæddur í bláa jogging peysu með hvítum röndum, ljósum gallabuxum og hvítum strigaskóm.  Hann virtist vera 20-25 ára gamall. Annar maðurinn var svartur á hörund og klæddur í ljósbrúnar buxur.  Hann var klæddur í svarta hettupeysu og var með hettuna á höfðinu og virtist á sama aldri  Þriðji maðurinn var hvítur á hörund, klæddur í svarta hettupeysu og í dökkum buxum.  Hann var einnig með hettuna á höfðinu og virtist á sama aldri og hinir.

                Ekki er fram komið að þarna hafi farið fram frekari rannsókn svo sem  fingrafararannsókn.

 

II.

                Við rannsókn málsins hefur aðallega verið stuðst við framangreindar upptökur úr tölvuupptökuvél verslunarinnar til að reyna að upplýsa málið.  Á fyrri upptökunni sáust við skoðun lögreglu á myndskeiðinu er fyrra innbrotið átti sér stað, tveir ungir menn að fara inn í verslunina með því að brjóta rúðu í aðaldyrum hennar og er annar blökkumaður en hinn hvítur maður og þegar síðari upptakan vegna innbrotsins aðfaranótt 18. desember 2002 er skoðuð, virðast þessir sömu menn vera þar að verki, en í því tilviki er blökkumaðurinn í dökkum víðum buxum.  Myndir þessar voru sendar í tölvupósti til lögreglumanna og komu ábendingar um að blökkumaðurinn væri M, en hvíti maðurinn sem var í báðum umbrotunum væri ákærður í máli þessu, en ekki voru vísbendingar um hver væri þriðji maðurinn í síðara innbrotinu.

                Við nánari skoðun á bifreiðinni, sem ekið er fram hjá glugga verslunarinnar við síðari innbrotið sést á upptökunum að hún er blágræn að lit og vinstra framljós hennar er daufara en það hægra.

                Margeir Sveinsson, rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði, sem hafði séð myndir af innbrotinu úr upptökuvél verslunarinnar sem honum höfðu verið sendar í rafpósti og taldi sig þekkja einn mannanna, sem fram komu á myndunum sem ákærða í máli þessu.  Þar sem honum þótti myndirnar óskýrar, fór hann til lögreglunnar í Kópavogi og fékk  spiluð af geiskadisknum, sem var í upptökuvél verslunarinnar, þau myndskeið er vörðuðu innbrotin og eftir að hafa skoðað þessi myndskeið var hann sannfærður um að þarna hafi ákærður verið á ferð, en hann hafði áður séð ákærða þann 22. desember 2002.  Margeir taldi líklegt að blökkumaðurinn á myndunum væri M, en fjórum til fimm dögum fyrir tímabilið taldi hann sig hafa séð M á bifreiðinni [ . . . ]  á ferðinni í Hafnarfirði og var vinstra framljós bifreiðarinnar mjög dauft, eins á bifreiðinni sem sést á síðari upptökunni aka fram hjá glugga verslunarinnar rétt fyrir innbrotið.  Við eftirgrennslan kom í ljós að bifreiðin [ . . . ], hafði aðfaranótt þriðjudagsins 17. desember 2002 kl. 02:29, verið stöðvuð í akstri af lögreglunni í Reykjavík á Breiðholtsbraut við Suðurfell og var ökumaðurinn ákærður í málinu.  Hann var klæddur í gallabuxur, svarta joggingpeysu með hettu og grænan hermannajakka, en hann var samkvæmt lýsingu Guðrúnar Árnadóttur, lögreglumanns, sem hafði afskipti af honum í greint sinn, ljóshærður með stutt hár.  Hann heimilaði leit í bifreiðinni og á sjálfum sér, en reyndist ekki vera með neitt ólöglegt.  Bigteiðin [ . . . ] er af gerðinni [ . . . ] árgerð 1993 og er blágræn að lit og við síðari athugun lögreglunnar á bifreiðinni kom í ljós, að hún hafði orðið fyrir tjóni að framan og gler á vinstra framljósi var brotið, en þrátt fyrir það logaði dauft ljós á því, en hægra framljósið var í lagi.

                Í framhaldi af þessu voru teknar skýrslur af M, ákærða og vini hans X, sem taldir voru geta verið viðriðnir málið.  Við þessar yfirheyrslur, kom í ljós að M og unnusta hans K voru eigendur að bifreiðinni [ . . . ] og kannaðist M við að hafa lánað ákærða bifreiðina nóttina 17. desember s.l. og hafi henni verið skilað morguninn eftir í bryggjuhverfinu þar sem þau gistu, þar eð bifreiðin hafi þá verið þar fyrir utan með lyklunum í.  Ákærður sagðist hafa verið á leið með bifreiðina að dvalarstað M, er hann var stöðvaður af lögreglubifreið aðfaranótt 17. desember s.l.   Ekkert kom fram um það hjá M hvort ákærður hafi og verið á bifreiðinni 18. desember s.l.

                M neitaði að hafa átt þátt í framangreindum innbrotum í verslun  Tölvuvirknis og kvaðst á þargreindum tímum hafa verið sofandi í húsnæði sem hann vildi ekki tilgreina, ásamt unnustu sinni.  Honum var sýnd upptakan af innbrotinu úr öryggismyndavél  verslunarinnar, en kannaðist ekki við sig né aðra á myndbandinu.

                Unnusta M hefur og borið að þau hafi verið sofandi á ótilgreindum gististað umræddar nætur.  X sem er bróðir K kvaðst hafa verið sofandi í greint skipti heima hjá sér og þar hafi K og verið er því er hann best minnti.

                Ákærður hefur hjá lögreglu og hér fyrir dómi neitað sök um það að hann hafi tekið þátt í framangreindum innbrotum.  Honum voru sýndar myndir úr upptökuvél verslunarinnar um þau myndskeið, er innbrotin stóðu yfir og kannaðist ekki við sig né þekkti aðra sem komu þar fram.  Hann gat ekki á neinn ákveðinn hátt gert grein fyrir ferðum sínum á þeim tímum sem innbrotin voru framin, né gat hann tilgreint ákveðna staði, sem hann hélt þá til á.

                Af tæknideild lögreglunnar í Reykjavík var farið yfir geisladiskinn með hreyfimyndum úr eftirlitskerfi verslunar Tölvuvirknis ehf. um innbrot í fyrirtækið 17. og 18. desember 2002, en hreyfimyndirnar voru í svokölluðu AVI formi, sem er sérstakur staðall fyrir hreyfimyndir á tölvutæku formi.

                Tæknideild vann með þessar myndir á forritinu "Video  Investigator”, sem sérstaklega er ætlað til vinnslu á hreyfimyndum, til að gera þær skýrari og ná í kyrrmyndir.  Var hluti hreyfimyndanna sem sýna innbrotin stækkuð og gerð skýrari.  Þá var reynt að skýra andlit þess, sem talinn er vera ákærði í málinu og voru notuð úrræði til að skýra og útbúa kyrrmyndir, sem sýna hlutaðeigandi staddan inni í versluninni.  Myndir þessar eru settar á ljósmyndapappír og hafa verið lagðar fram í málinu ásamt geisladiskum með stækkuðu hreyfimyndunum.  Einnig voru teknar ljósmyndir af ákærða sem sýna hann frá ýmsum sjónar- og áfallshornum og voru þær lagðar fram í málinu.

                Ekki var  tæknibúnaður til að fella þessar ljósmyndir að myndunum úr upptökuvél Tölvuvirknis í tölvuversluninni og athuga hvort þær féllu alveg saman um munstur andlits og líkamsgerð, enda munu myndirnar úr upptökuvélinn ekki hafa verið nægilega skýrar til þess, en við upptökuna þurfa að vera sérstakar aðstæður og búnaður til þess að unnt sé að ná þannig myndum.

 

III.

                Í málinu hafa borið vitni, Páll Sigurðsson, Haraldur Haraldsson og Þórir Steingrímsson rannsóknarlögreglumenn í Kópavogi, Margeir Sveinsson rannsóknarlögreglumaður í Hafnarfirði og B eigandi verslunarinnar Tölvuvirkni ehf.

                Vitnin Páll Sigurðsson, Haraldur Haraldsson, Þórir Steingrímsson og Margeir Sveinsson rannsóknarlögreglumenn, endurþekktu allir ákærða á þeim myndskeiðum á myndbandi úr upptökuvél verslunarinnar, þar sem innbrotin sjást og kvaðst vitnið Margeir þó þekkja hann betur á fyrra myndskeiðinu, þar sem hann væri með gleraugu.

                Vitnin Margeir og Þórir höfðu haft afskipti af ákærða nokkru áður.  Vitnið Margeir kvað útlit ákærða og langt andlit hafa verið það sem var sérstakt við hann, en vitnið Þórir kvað nef og kinnbein vera einkenni á ákærða sem væru sérstök til samanburðar.  Vitnin Páll og Haraldur höfðu verið með ákærða í skýrslutökum vegna þess máls og voru viss um er þau skoðuðu myndbandið eftir skýrslutökurnar, að ákærður væri hvíti maðurinn, sem sjáist á báðum myndskeiðunum.  Vitnin Páll og Haraldur höfðu og skoðað bifreiðina [ . . . ] og töldu að það vera sömu  bifreiðina  og sjáist við afspilun geisladiskins á myndbandinu  aka að versluninni rétt fyrir síðara innbrotið.

                Vitnið B eigandi verslunarinnar Tölvuvirkni, kvaðst hafa margskoðað myndbandið úr upptökuvél hennar um innbrotin og þekkti ákærða ekki, sem einn þeirra manna sem þar sjást fara inn í verslunina og um hana.

 

                IV.           Niðurstöður.

                Í máli þessu verður fyrst og fremst að byggja á því, sem greint verður á upptökunum úr öryggismyndavél verslunarinnar, en ekki er til að dreifa að greinst hafi fingraför á vettvangi né verða skráningarmerki blágrænu bifreiðarinnar greind á upptökunum.

                Eftir að hafa skoðað upptökurnar á geisladisknum úr öryggismyndavélinni, og hinar unnu myndir frá tæknideild lögreglunnar í Reykjavík og borið þær saman við ákærða og ljósmyndirnar af honum, sem teknar voru af Tæknideildinni út frá mörgum sjónarhornum, er það mat réttarins að ákærða svipi mjög sterklega til þess hvíta manns, sem sést á báðum myndskeiðunum um innbrotin. 

                Þá kemur hér og til að rannsóknarlögreglumennirnir Páll Sigurðsson og Haraldur Haraldsson, skoðuðu bifreiðina XP-313 og telja víst, að þetta sé sama bifreiðin og var ekið að versluninni Tölvuvirkni rétt fyrir síðara innbrotið, en ákærður var stöðvaður í akstri hennar sömu nótt og fyrra inbrotið var framið og svarar lýsing lögreglumannsins, sem þá hafði afskipti af ákærða, á útlit og klæðaburði ákærða, til þess, sem fram kemur á upptökunum og tengir ákærða frekara þessum brotum.

                Þá hafa fjórir rannsóknarlögreglumenn sem áður hafa haft afskipti af ákærða, borið að þeir endurþekki ákærða við að grandskoða myndbandsupptökurnar og hinar unnu myndir.

                Framburð rannsóknarlögreglumannanna verður að meta í ljósi þess að þeir eru reyndir lögreglumenn með margra ára þjálfun sem lögreglumenn að baki.  Í starfi sínu verða þeir að sýna árverkni og það reynir iðulega á það að þeir beri kennsl á fólk og t.d. endurþekki þá, sem þeir hafa áður haft afskipti af og hafa því öðlast vissan næmleika í þessum efnum.

                Þegar þetta er allt virt saman þykir vera komin lögfull sönnun um að ákærður hafi ásamt öðrum staðið að þeim innbrotum sem hann er sakaður um í ákæru.

                Samkvæmt sakavottorði ákærða, hefur hann frá árinu 1998 hlotið fimm dóma, þar sem honum hefur verið ákveðin refsing fyrir brot á almennum hegningarlögum, umferðarlögum og brot á lögum nr. 65/1974, alls 15 mánaða fangelsi og 45.000 króna sekt.  Þá hlaut hann á árinu 1997 tvær skilorðsbundnar ákærufrestanir fyrir hegningarlagabrot.  29. apríl 2002 hlaut ákærður reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum fangelsisrefsingar, 225 dögum að tölu.

                Ákærður hefur með framangreindum brotum rofið skilorð reynslulausnarinnar og með vísan í 1. mgr. 42. gr. sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. lög nr. 22/1955, 82/1998 og 42/1985, ber að ákveða ákærða refsingu í einu lagi fyrir framangreind brot með hliðsjón af hinni óafplánuðu refsingu.

                Refsing ákærða þykir því nú með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga hæfilega ákveðin fangelsi í 14 mánuði. og þykja nú ekki skilyrði til að skilorðsbinda þá refsingu.

                Ákærður hefur mótmælt bótakröfunum í málinu, en þær eru ekki studdar neinum gögnum og er fallist á að þeim verði vísað frá dómi vegna vanreifunar.

                Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hrl. Hilmars Ingimundarsonar, sem ákveðast 114.000 krónur.

                Dráttur á dómsuppsögu er vegna veikindaforfalla og anna dómara.

                Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir, fulltrúi sýslumannsins í Kópavogi.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

                Ákærður, Finnbogi Örn Halldórsson, sæti fangelsi í 14 mánuði.

                Bótakröfum Tölvuvirknis ehf. að fjárhæð 285.225 krónur og 256.991 krónu er vísað frá dómi.

                Ákærður greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin 114.000 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hrl. Hilmars Ingimundarsonar.