Hæstiréttur íslands

Mál nr. 154/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sakarefni
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 5

 

Föstudaginn 5. apríl 2002.

Nr. 154/2002.

Carl J. Eiríksson

 

(sjálfur)

 

gegn

 

Skotíþróttasambandi Íslands

 

(enginn)

 

Kærumál. Sakarefni. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Með dómi héraðsdómstóls UMSK var Skotíþróttasambandi Íslands (S) gert að endurtaka keppni í greinum sem C hafði skráð sig til þátttöku í ársbyrjun 1997. S skaut málinu til dómstóls Skotíþróttasambands Íslands. Svo fór að sá dómstóll sýknaði S af kröfum C. Af þessu tilefni höfðaði C mál á hendur S þar sem hann krafðist þess að síðastgreindur dómur yrði felldur úr gildi. Með dómi héraðsdóms 11. febrúar 1999 var fallist á kröfu C. Um það bil tveimur árum síðar höfðaði C annað mál á hendur S þar sem hann krafðist þess að S yrði gert að endurtaka nánar tiltekin landsmót í samræmi við dóm héraðsdómstóls UMSK. Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að málið hafi ekki verið tekið fyrir að nýju af dómstóli Skotíþróttasambands Íslands eða öðrum þeim dómstóli innan Íþróttasambands Íslands sem málið geti heyrt undir. Að svo komnu verði ekki tekin afstaða til kröfu C. Beri því að vísa málinu frá dómi, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms með vísan til forsendna hans.

                                                             

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. apríl sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2002, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili, sem flytur mál sitt sjálfur fyrir Hæstarétti, gerir í kæru sinni kröfur, sem lúta eingöngu að efnishlið málsins, svo og kröfu um málskostnað. Verður að líta svo á að í raun kæri hann í því skyni að fá hinn kærða úrskurð felldan úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Sóknaraðili krefst málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

                                                                           

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. október 2001.

Mál þetta sem dómtekið var 19. júní sl. er höfðað fyrir dómþinginu af Carli J. Eiríkssyni, kt. 201229-2209, Skólagerði 49, Kópavogi, með stefnu birtri hinn 17. maí sl. á hendur Skotíþróttasambandi Íslands (áður Skotsamband Íslands eða STÍ), kt. 470483-1139, Engjavegi 6, Reykjavík.

Dómkröfur:  Þess er krafist:

1.   Að stefnda verði með dómi gert að endurtaka landsmót sem haldin voru 18. og

19. janúar 1997 og 15. og 16. febrúar sama ár samkvæmt dómsorði

Héraðsdóms UMSK frá  11. mars 1997 innan 30 daga frá uppkvaðningu dóms

í málinu, að viðlögðum dagsektum að fjárhæð kr. 5.000.00 á dag, þar til mótin

hafa verið haldin.

2.   Að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda málskostnað að mati

réttarins að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.

Málsatvik

Stefnandi kveður málavexti vera þá að stefnandi hafi viljað taka þátt í landsmóti STÍ þann 18. og 19. janúar 1997, en mótshaldarar hafi meinað honum þátttöku, þar sem þeir hafi fullyrt að hann hefði ekki keppnisrétt.  Synjunin hafi verið kærð til héraðsdóms UMSK, þar sem mótið hafi verið haldið í Kópavogi. Stefnanda hafi verið synjað um þátttöku í öðru móti og hafi sú synjun einnig verið kærð til dómstólsins. Niðurstaða héraðsdóms UMSK þann 11. mars 1997 hafi verið sú, að hegðun STÍ væri ámælisverð og hafi verið lagt fyrir stefnda að endurtaka umrædd mót. Dómsorðið sé svohljóðandi :  "Kærandi, Carl J. Eiríksson, hefur keppnisrétt á mótum Skotsambands Íslands á yfirstandandi keppnistímabili l. september 1996 til 1. júní 1997 í skammbyssu og riffli. Kærða, Skotsamband Íslands, ber að endurtaka keppni í þeim greinum, sem kærandi skráði sig til þátttöku í, á mótum STÍ í janúar 1997 og febrúar 1997."  Stefndi hafi ekki sætt sig við þessa niðurstöðu og hafi skotið málinu til Dómstóls Skotsambands Íslands þann 17. mars 1997 sem hafi kveðið upp dóm í málinu 16. apríl 1997, þar sem stefndi hafi verið sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þessum dómi hafi stefnandi skotið til dómstóls ÍSÍ sem hafi tekið málið til meðferðar 5. maí 1997 og hafi niðurstaða þess dómstóls verið á þann veg, að meðferð málsins fyrir dómstól stefnda skyldi vera ómerk og hafi málinu verið vísað þangað aftur til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju, þar sem andmælaréttur stefnanda hafi ekki verið virtur. Hafi dómstóll stefnda fengið málið aftur til meðferðar og hafi dómur verið kveðinn upp þann 19. janúar 1998 og hafi þessi síðari dómur verið nánast efnislega samhljóða fyrri dómi dómstóls STÍ. Stefnandi hafi áfrýjað dóminum til dómstóls ÍSÍ sem hafi vísað málinu frá 23. febrúar 1998 á þeirri forsendu að það ætti ekki efnislega undir dóminn, þar sem það varðaði ekki almenna hagsmuni íþróttahreyfingarinnar.

Stefnandi hafi höfðað mál á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur sem var þingfest 11. júní 1998. Dómur var kveðinn upp 11. febrúar 1999 og var niðurstaðan sú að dómur dómstóls stefnda, Skotíæþróttasambands Íslands hafi verið felldur úr gildi, þar sem einn dómarinn hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins. Stefndi hafi á engan hátt brugðist við þessum dómi, hvorki með því að skjóta málinu að nýju til dómstóls Skotíþróttasambands Íslands né heldur að beita sér fyrir því að endurtaka framangreint landsmót. Áður en ákvörðun hafi verið tekin um málsókn að þessu sinni hafi stefnandi freistað þess að ná sáttum við stefnda án árangurs.

Málsástæður og lagarök

Stefnanda sé nauðugur einn kostur að leita til almennra dómstóla til þess að fá stefnda til að endurtaka framangreind landsmót samkvæmt dómsniðurstöðu héraðsdóms UMSK.  Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 2938/1998, þar sem dómur dómstóls stefnda hafi verið felldur úr gildi standi dómur héraðsdóms UMSK eftir þess efnis að endurtaka skuli þau landsmót sem um sé deilt í málinu. Stefndi hafi ekki skotið málinu aftur til dómstóls STÍ eftir að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið felldur 11. febrúar 1999. Líta beri svo á, að stefndi hafi glatað rétti sínum til áfrýjunar bæði vegna tómlætis svo og að málskotsfrestur hans sé löngu liðinn. Sættir hafi ekki tekist í málinu og því ljóst að stefnandi muni ekki ná rétti sínum nema stefndi verði knúinn til þess að virða þann rétt með dómsvaldi. Á síðasta aðalfundi Skotíþróttasambandsins hafi ekki verið skipað í dómstól sambandsins og verði ekki betur séð en að hann hafi verið lagður niður. Stefnandi telji vafalaust að hann geti borið mál þetta undir dómstóla enda verði íþróttadómstólar að lúta sömu reglum og almennt gildi í samfélaginu. Almenna reglan sé sú, að dómstólar dæmi um hvert það sakarefni, sem lög og landsréttur nái til, nema það sé skilið undan lögsögu þeirra samkvæmt lögum, samningi, venju eða eðli máls. Samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 19. nóvember 1998 hafi kröfu stefnda um frávísun málsins á þeirri forsendu að það ætti ekki undir almenna dómstóla hrundið. Stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af því að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi úrlausnarvald um það álitaefni sem hér sé til umfjöllunar.

Niðurstaða

Af hálfu stefnda var ekki sótt þing þann 22. maí sl. og fékk hann frest til 19. júní sl. til að leggja fram greinargerð.  Ekki var sótt þing af hálfu stefnda þann 19. júní sl. og var málið því dómtekið að kröfu stefnanda.  Verður þá eftir 96. gr. laga nr. 91/1991 að dæma málið eftir framlögðum gögnum og skilríkjum.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-2938/1998 uppkveðnum 11. febrúar 1999 var dómur dómstóls stefnda, Skotíþróttasambands Íslands, uppkveðinn 19. janúar 1998 felldur úr gildi.  Eins og tekið er fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur leiðir sú niðurstaða dómsins til þess að skipa verður nýjan dóm í máli stefnandafyrir áfrýjunardómstóli stefnda og þar með að málsmeðferð fari fram að nýju, en ekki að eftir standi áðurnefndur dómur Héraðsdómstóls UMSK sem framfylgja beri þegar í stað.  Staða málsins er óbreytt að þessu leyti.  Málsmeðferð hefur ekki farið fram að nýju fyrir áfrýjunardómstóli stefnda eða öðrum þeim dómstóli innan Íþróttasambands Íslands sem málið getur heyrt undir.  Að svo komnu verður ekki tekin afstaða til kröfu stefnanda um endurtekningu landsmóta stefnda sem haldin voru 18. og 19. janúar og 15. og 16. febrúar 1997.  Ber því með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að vísa málinu frá dómi.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Málskostnaður verður felldur niður.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.