Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 29. mars 2011.

Nr. 195/2011.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Óli Ásgeir Hermannsson fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. mars 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. mars 2011, klukkan 16 og  einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 23. mars 2011.

                Lögreglustjórinn á Suðurnesjum krafðist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði með úrskurði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 6. apríl 2011, kl. 16.00.

                Kærða krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður styttri tími.

                Krafan er reist á því að kærða sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Í kröfu lögreglustjórans og öðrum gögnum málsins kemur m.a. fram að kærða var í gær stöðvuð við tollhlið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt ferðafélaga sínum, Y, íslenskum ríkisborgara, vegna gruns var um að þau væru með fíkniefni í fórum sínum. Fyrir liggur að þau fóru út saman og komu heim með sömu vél frá Las Palmas. Í lögregluskýrslu segir að í fyrstu hafi ekkert saknæmt fundist í farangri þeirra og ekki heldur við líkamsleit. Þegar farangur hafi verið tekinn upp úr tveimur töskum þeirra hafi komið í ljós falskur botn í töskunum. Hafi þá fundist meint fíkniefni í miklu mæli. Við leit í yfirhöfn kærðu á lögreglustöðinni í Keflavík hafi fundist meint kannabisefni. Mikið magn meintra E taflna og LSD-skammta hafi fundist í töskunum og við prófun tæknideildar lögreglunnar hafi töflurnar reynst innihalda efnið MDMA.

                Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst kærða ekki kannast við fíkniefnin en kvað samferðamann sinn hafa boðið sér í þessa utanlandsferð án þess að hún vissi hvað til stæði. Í skýrslu sinni hjá lögreglu játaði Y að hafa reynt að flytja inn fíkniefnin til landsins en dró þá játningu til baka í skýrslu sinni fyrir dómi.

                Lögreglustjóri kveður rannsókn málsins á algeru frumstigi en ljóst sé að um mikið magn fíkniefna sé að ræða. Verið sé að rannsaka aðdraganda að ferð kærðu til landsins og tengsl kærðu við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og erlendis. Telur lögreglan að þau meintu fíkniefni, sem komu með kærðu til landsins, bendi eindregið til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og að háttsemi kærðu kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk ákvæða laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telur að kærða kunni að torvelda rannsókn málsins gangi hún laus.

                Rannsókn máls þessa er á algjöru frumstigi en ljóst er að um mikið magn fíkniefna er að ræða. Fallist verður á með lögreglu að haldi kærða óskertu frelsi sínu gæti hún hugsanlega torveldað rannsókn málsins með því að hafa áhrif á framburð vitorðsmanna eða vitna. Fallist verður á með lögreglu að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa brotið gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og hugsanlega gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en rannsókn á meintum fíkniefnum hefur ekki farið fram

Það er því mat dómsins að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og verður því krafa lögreglustjórans um að kærða sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina. Rétt þykir þó að gæsluvarðhaldið vari aðeins til 30. mars 2011 kl. 16:00. Fallist er á kröfu lögreglustjóra um að kærða sæti einangrun  meðan á gæsluvarðhaldsvist hennar stendur.

                Úrskurð þennan kveður upp Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

                Kærðu, X, er gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 30. mars 2011, kl. 16.00.

                Kærða sæti einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist hennar stendur.