Hæstiréttur íslands
Mál nr. 803/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Fimmtudaginn 8. janúar 2015 |
|
Nr. 803/2014. |
Vátryggingafélag Íslands hf. (Ólafur Eiríksson hrl.) gegn Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. (Hlynur Jónsson hrl.) |
Kærumál. Frestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu S hf. um að fresta máli V hf. á hendur S hf. þar til niðurstaða héraðsdóms, eða eftir atvikum Hæstaréttar, lægi fyrir í sakamáli sem höfðað hafði verið gegn fyrrverandi forstjóra og stjórnarmönnum S hf. og varðaði tilgreinda lánveitingu S hf. til E hf. sem var móðurfélag V hf. Í dómi Hæstaréttar sagði m.a. að þegar annars vegar væri litið til röksemda í ákæru og hins vegar þess sem V hf. byggði málatilbúnað sinn á gætu atriði sem kynnu að verða leidd í ljós eða slegið föstu við meðferð sakamálsins og í niðurstöðu þess haft verulega þýðingu fyrir málið. Féllst Hæstiréttur á með héraðsdómi að af þessum sökum væri rétt að fresta málinu, en þar sem um væri að ræða frávik frá meginreglu réttarfars um hraða málsmeðferð yrði því þó ekki frestað lengur en þar til niðurstaða héraðsdóms í sakamálinu lægi fyrir.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Helgi I. Jónsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. desember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2014, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að fresta málinu þar til niðurstaða liggur fyrir í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-807/2014 eða eftir atvikum dómur Hæstaréttar í því máli, verði því áfrýjað. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri kröfu varnaraðila verði hafnað. Að auki krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Í málinu, sem þingfest var 4. október 2012, krefst varnaraðili þess aðallega að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu 2.000.000.000 króna með dráttarvöxtum, en til vara að rift verði þeirri ráðstöfun sem fólst í greiðslu sömu fjárhæðar inn á innlánsreikning sóknaraðila hjá varnaraðila 30. september 2008 og að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu þeirrar fjárhæðar með dráttarvöxtum. Að því frágengnu krefst varnaraðili þess að rift verði þeirri ráðstöfun að ,,aflétta bindingu tékkareiknings [sóknaraðila] hjá [varnaraðila] ... 9. janúar 2009 og eftirfarandi útgreiðslu af reikningnum sem þá hafði verið færður til Nýja Kaupþings banka hf. ... að fjárhæð 2.000.000.0000.- kr. þann 23. mars 2009“ og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila þá fjárhæð ásamt dráttarvöxtum.
Máli þessu var með dómi Hæstaréttar 11. desember 2013 í máli nr. 753/2013 frestað þar til rannsókn sérstaks saksóknara lyki á ,,ætlaðri refsiverðri háttsemi í tengslum við lán sóknaraðila, Vátryggingafélags Íslands hf., til varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf., 30. september 2008 og lán varnaraðila til Exista hf. sama dag“. Tekið var fram í dóminum að málinu yrði á þessu stigi ekki frestað lengur en þar til fyrrgreindri rannsókn sérstaks saksóknara lyki. Er málið var tekið fyrir í héraðsdómi að rannsókn lokinni var lögð fram ákæra sérstaks saksóknara, 2. október 2014. Samkvæmt henni voru fyrrverandi forstjóri og fyrrverandi stjórnarmenn varnaraðila ákærðir fyrir umboðssvik með því ,,að hafa 30. september 2008, misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í verulega hættu, með því að fara út fyrir heimildir til lánveitinga, er þau í sameiningu ... veittu hlutafélaginu Existu, tveggja milljarða króna peningamarkaðslán ... án trygginga fyrir endurgreiðslu lánsins“. Í ákærunni segir um röksemdir sem málsóknin er byggð á að á fundi stjórnar varnaraðila 30. september 2008 hafi verið tekin til meðferðar ósk hlutafélagsins Exista um skammtímalán án sérstakra trygginga, að fjárhæð 2.000.000.000 krónur í formi peningamarkaðsláns, en aðdragandi þess hafi verið sá að 18. september 2008 hafi varnaraðili veitt Exista hf. peningamarkaðslán að fjárhæð 4.000.000.000 krónur til 22. september 2008. Þann dag hafi láninu verið framlengt til 29. september sama ár og síðan enn framlengt um einn dag til 30. september. Exista hf. hafi endurgreitt varnaraðila lánið þann dag. Sú endurgreiðsla hafi að helmingi verið fjármögnuð með því láni varnaraðila til Exista hf. sem ákæran lúti að. Sama dag hafi sóknaraðili veitt varnaraðila peningamarkaðslán að fjárhæð 2.000.000.000 krónur. Þeir fjármunir hafi aftur verið notaðir af hálfu varnaraðila til að fjármagna áðurgreint lán til Exista hf. sem ákæran lúti að, en engar tryggingar hafi verið teknar af hálfu varnaraðila til tryggingar endurgreiðslu á láninu til Exista hf.
Í greinargerð varnaraðila í þeim hluta málsins sem hér er til úrlausnar kemur fram að málatilbúnaður hans í því máli sem hann hefur höfðað á hendur sóknaraðila sé byggður á því að varnaraðili hafi verið ,,notaður sem milliliður í fjármögnun sóknaraðila til móðurfélags síns, Exista hf., svokallaðri skuggafjármögnun“ en ekki hafi verið um eiginleg viðskipti milli málsaðila að ræða og þátttaka varnaraðila hafi aðeins verið til málamynda. Aðalkrafan sé meðal annars byggð á meginreglum kröfuréttar um endurheimtu ofgreidds fjár og óréttmæta auðgun. Einnig sé á því byggt að lán sóknaraðila til varnaraðila hafi verið bundið því skilyrði að fjármunirnir yrðu lánaðir Exista hf. samdægurs. Þá sé á því byggt að þátttaka varnaraðila í viðskiptunum hafi verið bundin því skilyrði að Exista hf. endurgreiddi lánið til varnaraðila. Af málatilbúnaði sóknaraðila verður ráðið að hann hafni því að hafa haft vitneskju um að stjórn varnaraðila hafi veitt Exista hf. lán sama dag og hann veitti varnaraðila lán sömu fjárhæðar. Þá er því hafnað að ,,í huga starfsmanna [sóknaraðila] hafi ... verið um tengda gerninga að ræða“.
Samkvæmt fyrri málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 getur dómari frestað einkamáli ef hann fær vitneskju um að sakamál hefur verið höfðað eða rannsókn standi yfir vegna refsiverðs athæfis þar til séð er fyrir enda sakamáls eða rannsóknar, enda megi telja að úrslit þess máls eða rannsóknar skipti verulegu máli um úrslit einkamálsins. Þegar annars vegar er litið til framangreindra röksemda í ákæru og hins vegar til þess sem varnaraðili byggir málatilbúnað sinn á geta atriði sem kunna að verða leidd í ljós eða slegið föstu við meðferð sakamálsins og í niðurstöðu þess haft verulega þýðingu fyrir mál þetta. Þar sem um er að ræða frávik frá þeirri meginreglu réttarfars að hraða skuli meðferð máls verður málinu þó ekki frestað lengur en þar til niðurstaða liggur fyrir í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-807/2014. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur á þann veg sem í dómsorði segir.
Varnaraðili krafðist ekki málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins og kemur krafa hans um málskostnað þar því ekki til álita, en rétt er að kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Máli þessu er frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í máli Héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-807/2014.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2014.
Til úrlausnar er framkomin krafa stefnanda um að dómari beiti heimild 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 til að fresta máli þessu þar til niðurstaða í sakamáli sem byggist á ákæru á dómsskjali nr. 185 er til lykta leitt. Málið hefur málsnúmerið 807/2014. Stefnandi vísar til sömu röksemda og fram komu í málflutningi hans fyrir fyrri kröfu hans um frestun málsins, sbr. úrskurð dómsins frá 13. nóvember 2013 og dóm Hæstaréttar í frá 11. desember sl., í máli nr. 753/2013. Stefndi mótmælir því að frekari frestir verði veittir á þessu stigi máls og vísar til forsendna niðurstöðu Hæstaréttar í framangreindum dómi.
Framangreind ákæra er á hendur fyrrum forstjóra og fjórum stjórnarmönnum stefnanda vegna tveggja milljarða króna peningamarkaðsláns sem stjórn stefnanda samþykkti að veita Exista þann 30. september 2008. Er lánveitingin í ákæru talin fela í sér umboðssvik og varða við 249. gr. almennra hegningarlaga. Í ákæru kemur m.a. fram að máli skiptir í því sambandi að ákærðu hafi ekki aflað trygginga fyrir umræddri lánveitingu og hvorki metið greiðslugetu né kannað eignastöðu lánþegans áður en lánið var veitt. Með þessu hafi þau brotið varúðarreglur stefnanda og skapað verulega fjártjónshættu fyrir stefnanda.
Ljóst er af efni ákæru að umrætt lán tengist kröfu stefnanda í þessu máli þannig að í stefnu er á því byggt að lánið til Exista hafi verið hluti af viðskiptafléttu sem fólst í því að stefnandi hafi í reynd verið milliliður í lánveitingu stefnda til Exista en stefndi lánaði stefnanda sömu fjárhæð sama dag og lánið var veitt Exista. Exista hefur ekki greitt lán sitt til baka en stefndi fékk hins vegar lánið endurgreitt frá stefnanda. Stefnandi heldur því fram að þetta hafi ekki átt að gerast heldur hafi það verið forsenda fyrir þátttöku stefnanda í gerningnum að hann yrði ekki fyrir tjóni. Aðalkrafa stefnanda byggir þannig m.a. á þeirri málsástæðu að aðkoma hans hafi verið til málamynda og lánveitingin í raun verið á milli stefnda og Exista. Stefndi andmælir öllum þessum staðhæfingum.
Heimild til að fresta einkamáli felur í sér undantekningu frá meginreglu réttarfars um að hraða skuli meðferð einkamáls. Heimildin er í 3. mgr. 102. gr. þar sem kemur fram að skilyrði þess að dómari geti ákveðið að fresta máli vegna sakamáls sé það að úrslit þess máls skipti verulegu máli varðandi niðurstöðu einkamálsins. Með hliðsjón af málatilbúnaði stefnanda sem rakinn er að framan verður að mati dómsins ekki hjá því komist að taka afstöðu í máli þessu til atvika sem tengjast nefndri lánveitingu til Exista og huglægrar afstöðu einstakra aðila til þeirra atvika. Af þeim sökum getur það haft verulega þýðingu við úrlausn þessa máls hver niðurstaða sakamálsins verður jafnvel þótt ákæran beinist ekki að stefnda í málinu.
Af þessum sökum telur dómurinn rétt að beita heimild 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 og fresta máli þessu þar til niðurstaða héraðsdóms liggur fyrir í máli S-807/2014 og eftir atvikum niðurstaða Hæstaréttar, verði málinu áfrýjað. Ekki er fallist á það með stefndu að niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 753/2013 varðandi túlkun nefndar lagagreinar eigi að leiða til annarrar niðurstöðu.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er frestað þar til niðurstaða liggur fyrir í máli héraðsdóms Reykjavíkur nr. S-807/2014 eða eftir atvikum dómur Hæstaréttar í því máli, verði því áfrýjað.