Hæstiréttur íslands

Mál nr. 81/2011


Lykilorð

  • Lánssamningur
  • Hlutabréf
  • Svik
  • Brostnar forsendur


                                                                                              

Fimmtudaginn 13. október 2011.

Nr. 81/2011.

IceCapital ehf.

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.

Eiríkur S. Svavarsson hdl.)               

gegn

Arion banka hf.

(Stefán A. Svensson hrl.

Karl Óttar Pétursson hdl.)

Lánssamningur. Hlutabréf. Svik. Brostnar forsendur.

A hf. höfðaði mál gegn I ehf. til innheimtu á þriggja milljarða króna láni sem K hf. hafði veitt I ehf. til kaupa á hlutabréfum í K hf. Skilanefnd var sett yfir K hf. 9. október 2008 og í kjölfarið var skuld I ehf. við bankann ráðstafað til A hf. Talið var að I ehf. ekki náð að sýna fram á að félaginu hefði verið veitt hið umdeilda lán í blekkingarskyni til að hafa áhrif á verðmyndum hluta í bankanum en I ehf. hafði í þessu skyni lagt fram tölvupósta með samskiptum aðila en auk þess vísað til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem starfaði hafði á grundvelli laga nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Ekki var fallist á að forsendur lánssamningsins hefðu brostið, enda fylgdi því áhætta að eiga viðskipti með hlutabréf og I ehf. hefði ekki getað treyst því að bréfin myndu einungis hækka í verði. Í þessu sambandi var talið að fyrirsvarsmenn félagsins hefðu haft sérþekkingu á sviði viðskipta með hlutabréf. Ekki var fallist á með I ehf. að hrun bankanna í október 2008 hefði eitt og sér getað orðið til þess að losa félagið undan skuldbindingum sínum. Ekki var talið að I ehf. hefði sýnt fram á fullyrðingar um að rekstur K hf. hefði í heild sinni verið blekkingarleikur. Loks var ekki fallist á með I ehf. að beita bæri 36. gr. samningalaga nr. 7/1936, enda hafði félagið ekki rökstudd hvernig það ákvæði ætti við í málinu. Var því fallist á aðalkröfu A hf.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson. 

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. febrúar 2011. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, IceCapital ehf., greiði stefnda, Arion banka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. nóvember 2010.

Mál þetta, sem var dómtekið 1. nóvember 2010 sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Arion banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík á hendur IceCapital ehf., Kringlunni 4, Reykjavík, með stefnu birtri 18. febrúar 2010.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 3.465.042.000 kr. og bankakostnað, 1.845 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 3.465.042.000 kr. frá 2. febrúar 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að upphæð 325.631.406 kr. hinn 7. desember 2009. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar auk virðisaukaskatts.

Málavextir

Stefndi hét upphaflega Sund ehf. Hinn 12. maí 2004 gerði Sund ehf. samning við Kaupþing um eignastýringu. Honum var breytt í mars 2005 og gilti hann til 20. október 2005 er gengið var frá nýjum samningi.

Hinn 24. janúar 2006 gengu Kaupþing og stefndi frá lánasamningi þeim, sem mál þetta snýst um. Í gr. 2.1 í lánasamningnum segir: „Lántaki lofar að taka lán og bankinn lofar að lána jafnvirði íslenskar krónur 3.000.000.000, - segi og skrifa þrjá milljarða 00/100 í eftirfarandi myntum: ISK 100%.“ Sama dag óskaði stefndi eftir útborgun að fjárhæð 2.000.000.000 kr. á grundvelli lánasamningsins

                Samkvæmt 3.3 gr. bar stefnda að greiða vexti af láninu á sérstökum vaxtagjalddögum. Fyrsti vaxtagjalddagi var 2. febrúar 2007. Vaxtagjalddagar 2007 og 2008 voru greiddir með skuldfærslum af bankareikningi tengdum vörslureikningi stefnda hjá Kaupþingi nr. 329-26-468888. Vörslureikningurinn var veðsettur Kaupþingi.

                Samkvæmt 2.4 gr. bar stefnda að greiða höfuðstól lánsins hinn 1. febrúar 2009.

Skv. 2.3 gr. var tilgangur lánsins fjármögnun á hlutabréfum í Kaupþingi. Þá skuldbatt stefndi sig til þess að ráðstafa öllu láninu í það verkefni.

Skv. i lið 5.1 gr. setti stefndi öll hlutabréfin sem keypt voru fyrir lánsféð bankanum að veði. Handveðssamningur stefnda og Kaupþings var gerður 13. apríl 2007. Samkvæmt handveðssamningnum náði veðið einnig til arðs af veðsettum hlutum.

Hinn 9. október 2008, og með heimild í lögum nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., kt. 560882-0419, og víkja stjórn bankans og skipa skilanefnd yfir hann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. október 2008 var ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Arion banka hf. ákveðin.

Hinn 20. apríl 2009 var stefnda tilkynnt um vanskilin með innheimtuviðvörun og innheimtubréfi, dags. 2. nóvember 2009.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Dómkrafan er byggð á lánssamningi milli Sunds ehf., nú stefndi, sem lántaka og Kaupþings banka hf., nú Arion banki hf., sem lánveitanda, dags. 24. janúar 2006, þar sem lánveitandi lánaði stefnda 3.000.000.000 kr. Lánið skyldi endurgreiðast með einni greiðslu hinn 1. febrúar 2009. Vextir skyldu reiknast frá útborgunardegi og greiðast árlega, í fyrsta sinn 2. febrúar 2007. Lánið skyldi bera breytilega vexti sem eru REIBOR-vextir eins og þeir ákvarðast hverju sinni fyrir viðkomandi vaxtatímabil, tveimur bankadögum fyrir upphaf hvers vaxtatímabils að viðbættu 1,50% vaxtaálagi.

Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar skv. ofangreindum lánssamningi setur stefndi bankanum að handveði öll verðmæti, hverju nafni sem nefnast, þ.m.t. alla fjármálagerninga og innistæður, sem eru inni á eignastýringarsafni hjá veðhafa, þ.e. fjárvörslusafn veðsala, Eignastýring nr. 468888, þar með talið innistæðu á vörslureikningi nr. 0329-26-468888 og alla innistæðu þess eins og hún er á hverjum tíma, sbr. handveðssamningur nr. 358-63-941.

Gjalddagi lánsins 2. febrúar 2009 hefur ekki verið greiddur. Gjaldfallin skuld hinn 2. febrúar 2009 var 3.000.000.000 kr., auk vaxta, 465.042.000 kr., eða samtals 3.465.042.000 kr. sem er stefnufjárhæð máls þessa.

Samkvæmt handveðssamningi, dags. 13. apríl 2007, sem settur var til tryggingar greiðslu lánssamningsins, var stefnda birt greiðsluáskorun hinn 2. nóvember 2009, og í samræmi við ákvæði láns og tryggingarskjala hefur stefnandi notað andvirði veðandlagsins og greitt þessar innborganir inná skuldina 7. desember 2009, 325.631.406 kr., og verður tekið tillit til hennar við uppgjör kröfunnar.

Um lagarök er vísað til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, en reglur þessar fá m.a. stoð í lögum nr. 7/1936. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Um aðild vísast til 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveður að hinn 12. maí 2004 hafi verið gerður samningur við Kaupþing um eignastýringu. Í honum fólst að bankinn tók við fjármunum stefnda til fjárfestinga í fjármálagerningum eða öðrum verðmætum fyrir reikning stefnda samkvæmt fyrir fram markaðri fjárfestingarstefnu.

Stefndi kveður að samkvæmt fyrsta eignastýringarsamningnum hafi verið valin fjárfestingarstefna B. Samkvæmt henni var Kaupþingi heimilt að fjárfesta fyrir allt að 25% í hlutabréfum eða verðbréfasjóðum /fjárfestingarsjóðum sem fjárfesta einkum í hlutabréfum. Í mars 2005 hafi Kaupþing lagt til breytingu á fjárfestingarstefnu stefnda úr B í E. Samkvæmt E-stefnunni var Kaupþingi heimilt að fjárfesta fyrir allt að 100% í hlutabréfum eða verðbréfasjóðum/fjárfestingarsjóðum sem fjárfesta einkum í hlutabréfum. Stefndi kveður að Þorlákur Runólfsson hafi gengið frá þessum samningi fyrir hönd Kaupþings, og verið helsti tengiliður Kaupþings við stefnda eftir það. Samningur þessi gilti þar til gengið var frá nýjum samningi 20. október 2005. Stefndi kveður að eftir að fjárfestingarstefnu stefnda hafi verið breytt hafi Kaupþing aukið hlutabréfakaup stefnda fyrir lánsfé frá bankanum. Mest hafi verið keypt í bankanum sjálfum, eða 50%, auk þess sem fjárfest hafi verið í lögaðilum, sem áttu beint eða óbeint stóra hluti í Kaupþingi eða Kaupþing hafði að öðrum ástæðum hagsmuni af að selja hluti í.

                Hinn 24. janúar 2006 var gengið frá lánssamningi sem mál þetta snýst um.

Stefndi tekur fram að þegar Kaupþing veitti stefnda lánið með skilyrði um kaup á hlutum í bankanum hafði myndast mikill söluþrýstingur á hluti í viðskiptabönkunum íslensku vegna neikvæðrar umfjöllunar um þá af hálfu erlendra aðila, sbr. bls. 23. í 4. hefti rannsóknarskýrslu Alþingis. Stefndi kveður að Kaupþing hafi veitt lánið til að tryggja viðskipti með hluti í bankanum og hafa áhrif á verð þeirra.

Stefndi kveðst hafa notið ávöxtunar af eignum sínum hjá Kaupþingi um tíma. Hann hafi hins vegar haft takmarkaðan ráðstöfunarrétt yfir þeim. Sérstaklega hafi óformlegar hömlur verið settar við ráðstöfun hluta í Kaupþingi.

Stefndi kveður að starfsmenn Kaupþings hafi verið óþreytandi að halda fréttum að stefnda um velgengni Kaupþings og félaga þeim tengdum allt til október 2008. Þannig hafi Ingólfur Helgason, yfirmaður Kaupþing á Íslandi, sent forsvarsmanni stefnda tölvupóst hinn 22. september 2008 um kaup Sheik Mohammed Bin Khalifa Al –Thani á 5% hlut í Kaupþingi. Kaup þessi hafi átt að sýna alþjóðlega velgengni Kaupþings og sterkan hluthafahóp. Stefndi segir að kaupin séu nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara sem liður í meintri markaðsmisnotkun forsvarsmanna Kaupþings.

Stefndi kveður að þegar Kaupþing hafi lánað stefnda fé til kaupa á hlutum í bankanum hafi rekstur bankans verið sagður blómlegur og víst sé að verð hluta í Kaupþingi hækkaði eftir að stefndi keypti hluti fyrir lánsféð á árinu 2006. Ekki hafi hins vegar verið allt sem sýndist og því hafi stefndi fengið að kynnast haustið 2008, en hinn 2. október 2008 hafi Bjarki H. Diego, starfsmaður Kaupþings, tilkynnt stefnda að verðmæti veða fyrir skuldum hans hjá Kaupþingi væri komið niður í 72,46% af eftirstöðvum skuldbindinga hans við bankann.

Stefndi segir að það hafi ekki bara verið veðin sem hafi rýrnað á þessum tíma heldur sýni skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis að íslenska viðskiptabankakerfið hafi allt verið komið að fótum fram og flestar ef ekki allar bjargir bannaðar þegar á árinu 2006.

Stefndi kveður að stjórnendur viðskiptabankanna hafi verið studdir af íslenskum stjórnvöldum og ýmsum öðrum málsmetandi aðilum hérlendum sem báru sig vel og töldu erlenda fræðimenn og starfsmenn erlendra banka ekki skilja íslenska bankamódelið. Stefndi telur að stjórnendur Kaupþings hafi farið fremstir í flokki auk þess sem þeir hafi farið mikinn í fjárfestingum, m.a. erlendis. Þannig hafi þeir skuldbundið Kaupþing til að kaupa hollenskan banka NIBC haustið 2007. Um áramót 2007/ 2008 hafi orðið ljóst að Kaupþing gat ekki efnt kaupin. Hafi þá verið leitað allra ráða til að losa bankann undan þeim án mikilla fjárhagslegra fórna. Að lokum hafi svo farið að Fjármálaeftirlitið hafi komið bankanum til bjargar og neitað að samþykkja kaupin á NIBC, sbr. t.d. bls. 110 og áfram í 6. hefti rannsóknarskýrslu Alþingis. Hafi Kaupþing hinn 30. janúar 2008 tilkynnt að fallið hefði verið frá kaupum á NIBC. Stefndi telur að til að breiða yfir þessi vandræði hafi Kaupþing sent frá sér frétt hinn 3. febrúar 2008 um opnun skrifstofu í Miðausturlöndum.

Í lok apríl 2008 bárust fréttir af fyrsta ársfjórungs uppgjöri Kaupþings og gaf tilkynningin til kynna að Kaupþing væri traustur fjárfestingarkostur, er skila myndi eigendum sínum ríkulegum arði. Stefndi kveður að raunin hafi orðið önnur. Hinn 8. október 2008 hafi Kaupþing farið í greiðsluþrot, þó að Seðlabanki Íslands hefði lánað bankanum fé skömmu áður.

Stefndi kveður að við greiðsluþrot Kaupþings banka hafi hlutabréf þau í Kaupþingi sem Kaupþing hafði selt stefnda í byrjun árs 2006, og lánað honum fyrir gegn veði í hlutunum sjálfum og öðrum fjármálagerningum sem stefndi átti í vörslum Kaupþings, orðið verðlaus. Stefndi kveður að ástæða Kaupþings fyrir lánveitingunni hafi verið sú að bankinn vildi með henni tryggja að til væri kaupandi að fölum hlutum í bankanum, en mikill söluþrýstingur var þá á markaðnum, sem rýrði verðmæti bankans og dró úr bónusum og ofurlaunum stjórnenda hans. Stefndi kveður að Kaupþing hafi því í raun misnotað viðskiptavini sína til að hafa áhrif á verðmyndun hluta í bankanum. Lánið var því veitt í því skyni að blekkja stefnda og aðra aðila sem áttu viðskipti á hlutabréfamarkaði. Stefndi er því með öllu óbundinn af lánasamningnum.

Verði ekki fallist á framangreint telur stefndi ljóst, að allar forsendur stefnda fyrir lántökunni hafi brostið við fall Kaupþings í byrjun október 2008. Stjórnendur Kaupþings beri fyrst og síðast ábyrgð á fallinu. Það hafi verið þeir sem ráku bankann í þrot. Stefndi kveður að Kaupþing hafi aldrei getað, vegna aðstæðna og ástæðna sem stefndi hafði ekkert um að segja, skilað stefnda þeim hlutum sem bankinn hafði lofað þegar hann veitti stefnda hið skilyrta lán.

Stefndi kveður að skilyrt lánveiting Kaupþings til stefnda hafi verið byggð á þeim forsendum að Kaupþing væri traustur banki undir styrkri stjórn fagmanna. Þeirri mynd hafði verið haldið að stefnda og öðrum fjárfestum að bankinn væri traust fjármálastofnun er liti skilvirku eftirliti bæði Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands. Allt þetta hafi brugðist. Stefndi telur að rekstur bankans eftir 2006 hafi verið einn blekkingarleikur af hálfu stjórnenda bankans, sem íslensk stjórnvöld hafi átt drjúgan þátt í að styðja við, m.a. með marklausum yfirlýsingum um traust bankakerfi sem staðist hafi álagspróf og annað í þeim dúr. Stefndi telur að fjárfestar, eins og hann, hafi bæði verðið blekktir og beittir svikum. Stefndi telur að stefnandi, sem ríkið hafi stofnað til á grunni eigna Kaupþings banka, en síðar fært til erlendra kröfuhafa, lánveitenda bankans, eigi ekki að hagnast á þessum svikum og blekkingum.

Stefndi tekur fram að stjórnendur Kaupþings banka virðist auk þess hafa á árunum 2007 til 2008 unnið markvisst í þágu einstakra hluthafa sinna og tekið stöðu gegn íslensku krónunni með þeim afleiðingum að verðbólga hafi magnast hér á landi og verðtryggð lán hækkað langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

Verði ekki fallist á framangreint er á því byggt að dómstólnum beri með heimild í 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að víkja lánasamningi hans og Kaupþings frá 24. janúar 2006 til hliðar og færa skuld stefnda niður til jafns við þau verðmæti, sem stefndi átti á vörslureikningi sínum hjá stefnanda þegar stefnandi tók vörslurnar yfir fyrir atbeina Fjármálaeftirlitsins. Stefnandi hafi með því fengið meiri verðmæti en Kaupþing hafi afhent honum í kjölfar lánsveitingarinnar 24. janúar 2006.

Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda og krefst þess að dráttarvextir, ef dæmdir verði á einhverja fjárhæð, falli á frá og með einum mánuði eftir dómsuppsögu.

Stefndi byggir kröfur sínar í máli þessu á reglum kröfuréttar um brostnar forsendur og á reglum samningaréttar um svik, blekkingar og heimild til að víkja ósanngjörnum samningum til hliðar, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Varðandi dráttarvexti er vísað til 5. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 129. gr. 130. gr. og c liðar 1. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Varðandi kröfu um virðisaukaskatt er vísað til til laga nr. 50/1988.

Niðurstaða

                Lánasamningur sá sem liggur til grundvallar í málinu er milli Kaupþings banka hf., sem lánaveitanda, og Sunds ehf., sem lántaka. Þá var einnig í gildi samningur um eignarstýringu á milli Sunds ehf. og Kaupþingsbanka hf. Ágreininglaust er með aðilum að málsaðilar hafi tekið við réttindum og skyldum samkvæmt samningunum. Samningurinn var gerður 24. janúar 2006. Samkvæmt honum lofar stefnandi að lána stefnda 3.000.000.000 kr. Lánið var greitt út að hluta þann sama dag og afgangurinn eða 1.000.000.000 kr. hinn 6. febrúar 2006. Samkvæmt 2.3 gr. var tilgangur lánsins að fjármagna kaup á hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. og skuldbatt stefndi sig til að ráðstafa öllu láninu til þess verkefnis.

Samkvæmt 5.1 gr. samnings frá 24. janúar 2006 setti stefndi til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar að handveði hluti í nánar tilgreindum félögum svo og öll verðmæti, hverju nafni sem nefndust, þ.m.t. alla fjármálagerninga og innistæður, sem voru inni á eignastýringarsafni hjá veðhafa, þ.e. fjárvörslusafn veðsala, Eignastýring nr. 468888, þar með talið innistæðu á vörslureikningi nr. 0329-26-468888 og alla innistæðu þess eins og hún er á hverjum tíma, sbr. handveðssamning nr. 358-63-941. Verðmæti tryggingar við stefnanda átti að vera a.m.k. 200% af höfuðstól lánsins.

Ágreiningslaust er að stefndi hefur greitt umkrafðar greiðslur vaxta í febrúar 2007 og 2008. Stefnukrafan er vegna síðustu vaxtagreiðslunnar, þ.e. febrúar 2009 sem og höfuðstóls lánsins.

Stefndi byggir á því að hann sé óbundinn af lánasamningnum þar sem stefnandi hafi misnotað viðskiptavini sína til að hafa áhrif á verðmyndun hluta í bankanum og lánið hafi verið veitt til að blekkja stefnda. Í öðru lagi telur stefndi að forsendur hans fyrir lántökunni hafi brostið við fall Kaupþings í byrjun októbermánaðar 2008. Í þriðja lagi byggir stefndi á 36. gr. samningalaganna nr. 7/1936 með síðari breytingum og að dómstólar eigi að víkja samningnum frá 24. janúar 2006 til hliðar.

Eins og að framan greinir hafði stefndi gert samning um eignarstýringu við stefnanda, síðast í október 2005, og átti samkvæmt honum að fjárfesta fyrir allt að 100% í hlutabréfum. Samkvæmt 11. gr. samningsins gat stefndi sagt honum upp, með sannanlegum hætti, hvenær sem honum hentaði. Hinn umdeildi lánasamningur er frá 24. janúar 2006. Þá var einnig gerður handveðssamningur milli aðila. Samkvæmt 2.6 gr. lánasamningsins gat stefndi greitt lánið hraðar eða að fullu áður en að samningsbundnum gjalddaga var komið, þ.e. 1. febrúar 2009, en þurfti þá að greiða uppgreiðslugjald. Stefndi gat þannig losnað undan skuldbindingum sínum teldi hann þær ekki hagfelldar fyrir sig.

Ljóst má vera að það fylgir almennt nokkur áhætta hlutafjárkaupum. Kaupandi hlutabréfa getur þannig almennt ekki gengið út frá því að ekki verði tap á slíkri fjárfestingu og því síður að hún skili hagnaði. Stefndi viðurkennir að hann hafi um tíma notið ávöxtunar af eignum sínum hjá stefnda vegna samninga þessara.

Stefndi byggir á því að lánið sem hann fékk hjá stefnanda hafi verið veitt til að blekkja hann og aðra sem áttu viðskipti á hlutabréfamarkaðnum. Stefnandi hafi viljað tryggja að til væri kaupandi að fölum hlutum í bankanum. Stefndi telur að mikill söluþrýstingur hafi verið á markaðnum, sem hafi rýrt verðmæti bankans. Þá telur stefndi að stefnandi hafi í raun misnotað viðskiptavini sína til að hafa áhrif á verðmyndun hluta í bankanum. Lánið hafi því verið veitt í því skyni að blekkja stefnda og aðra aðila sem áttu viðskipti á hlutabréfamarkaði. Þessar fullyrðingar stefnda eru ósannaðar en hann hefur sönnunarbyrði fyrir þeim. Þeir tölvupóstar sem stefndi hefur lagt fram máli sínu til stuðnings eru frá árinu 2008 og geta ekki verið stuðningur fyrir fullyrðingum hans. Tilvitnun stefnda til 4. heftis rannsóknarskýrslu Alþings á bls. 23 rennir ekki stoðum undir það að mikill söluþrýstingur hafi verið þegar stefndi tók lán það sem stefnandi er nú að innheimta. Þá viðurkennir stefndi í greinargerð sinni að hlutabréf hans hafi hækkað eftir að hann keypti hlutina fyrir lánsféð. Stefndi hefur því ekki sýnt fram á að hann hafi verið blekktur er hann tók lánið. 

Stefndi byggir á því að hann sé óbundinn af samningnum vegna brostinna forsendna. Hér er áréttað að það fylgir því áhætta að eiga viðskipti með hlutabréf. Það er aldrei hægt að treysta því að þau einungis hækki í verði og skili hagnaði svo sem stefndi gerir í málatilbúnaði sínum. Stefndi er einkahlutafélag sem hefur meðal annars þann tilgang að eiga og hafa viðskipti  með verðbréf. Fyrirsvarsmenn hans hafa því sérþekkingu á því sviði. Gerður var eignarstýringarsamningur við stefnanda og tók stefndi að láni hina umkröfðu fjárhæð hjá stefnanda. Stefndi setti einnig að veði tilteknar eignir sínar og andvirði þess er hann keypti fyrir lánsfjárhæðina. Fyrirsvarsmenn stefnda skrifuðu undir alla þessa gerninga og skuldbundu stefnda. Það er ekki forsendubrestur að hlutabréf þau er stefndi keypti hafi ekki skilað hagnaði svo sem hann óskaði sér.

Hrun bankanna sem varð hér á landi í október 2008 getur eitt og sér ekki orðið til þess að losa stefnda undan því að standa við skuldbindingar sínar. Stefndi hefur ekki sannað það fyrir dómi að þær fullyrðingar sem hann byggir mál sitt á, svo sem að þeir sem ráku bankann hafi komið honum í þrot, að rekstur bankans eftir 2006 hafi verið einn blekkingarleikur af hálfu stjórnenda bankans, sem íslensk stjórnvöld hafi átt drjúgan þátt í að styðja við, að stjórnendur Kaupþings hafi virst hafa á árunum 2007 til 2008 unnið markvisst í þágu einstakra hluthafa sinna og tekið stöðu gegn íslensku krónunni með þeim afleiðingum að verðbólga hafi magnast hér á landi og verðtryggð lán hækkað langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Rannsókn bankahrunsins og háttsemi stjórnenda Kaupþings eru til meðferðar hjá sérstökum saksóknara. Það breytir því ekki að stefndi verður að standa við skuldbindingar sínar hver svo sem niðurstaða rannsóknarinnar verður.

Þá vísar stefndi til 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt því ákvæði má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Við það mat skal líta til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Stefndi rökstyður ekki hvernig það ákvæði eigi við heldur tekur fram að færa eigi skuld hans niður „til jafns við þau verðmæti, sem stefndi átti á vörslureikningi sínum hjá stefnanda þegar stefnandi tók vörslurnar yfir fyrir atbeina Fjármálaeftirlitsins. Stefnandi hafi með því fengið meiri verðmæti en Kaupþing hafi afhent honum í kjölfar lánveitingarinnar 24. janúar 2006“. Því er hafnað að samningurinn frá 26. janúar 2006 verði ógildur með vísan til þessa ákvæðis.

Með vísan til þess sem að framan greinir er sjónarmiðum stefnda hafnað. Stefnda ber að standa við skuldbindingar sínar og þann samning sem hann gerði við stefnanda. Verður því krafa stefnanda tekin til greina. Stefnda ber að greiða stefnanda 3.465.042.000 kr. og bankakostnað að fjárhæð 1.845 kr. Þá ber stefnda að greiða stefnanda dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 3.465.042.000 kr. frá gjalddaga skuldarinnar 2. febrúar 2009 til greiðsludags allt að frádregnum innborgunum að upphæð 325.631.406 kr. hinn 7. desember 2009. Ekki eru efni til þess, eins og mál þetta liggur fyrir, að verða við kröfu stefnda um upphaf dráttarvaxta einum mánuði frá dómsuppsögu.

                 Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, IceCapital ehf, greiði stefnanda, 3.465.043.845 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 3.465.042.000 kr. frá 2. febrúar 2009 til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum að upphæð 325.631.406 kr. hinn 7. desember 2009 og 400.000 kr. málskostnað.