Hæstiréttur íslands
Mál nr. 193/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Upplýsingaskylda
- Fjarskipti
|
|
Miðvikudaginn 13. júní 2001. |
|
Nr. 193/2001. |
Sýslumaðurinn á Ísafirði(Daði Kristjánsson fulltrúi) gegn Margmiðlun Internet ehf. (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Upplýsingaskylda. Fjarskipti.
S kærði úrskurð héraðsdóms þess efnis að hafna kröfu um að gera M að láta sér í té upplýsingar um það hvaða skráði notandi internetþjónustu M kynni að hafa notað tiltekið dulnefni undir efni, sem birtist á netspjalli vefs héraðsfréttablaðs Ísfirðinga. Taldi S ríka rannsóknarhagsmuni krefjast þess, að aflað yrði þeirra sönnunargagna, sem krafa hans lyti að. Hæstiréttur féllst á það með S að beita mætti b. lið 86. gr. laga nr. 19/1991 með lögjöfnun, þannig að til greina kæmi að leggja á M skyldu til að veita umdeildar upplýsingar. Að virtum ummælunum og umræðunum, sem á eftir fylgdu, þóttu ekki vera efni til að fallast á, að svo ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 87. gr. nefndra laga, krefðust þess að beitt yrði þeim aðgerðum sem S leitaði heimildar fyrir. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 22. maí 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að láta sér í té upplýsingar um hvaða skráði notandi þjónustu varnaraðila kunni að hafa notað nafnið „Stebbi Dan“ undir efni, sem birtist kl. 1.56 aðfaranótt 28. janúar 2001 á svokölluðu netspjalli vefs héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta á Ísafirði. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa hans verði tekin til greina.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
I.
Eins og ráðið verður af áðursögðu er mál þetta sprottið af ummælum, sem birtust undir nafninu „Stebbi Dan“ á spjallvef blaðsins Bæjarins besta á Ísafirði. Var þar farið niðrandi orðum um störf nafngreinds manns og líkamsvöxt, auk þess sem skrif hans á sama vettvangi voru sögð aumkunarverð. Sóknaraðili kveður Stefán Dan Óskarsson hafa gefið sig fram við lögreglu 1. febrúar 2001 og borið fram kæru á hendur „óþekktum aðila“, sem hafi ritað þetta efni í sínu nafni, enda væri Stefán sá eini, sem gegni því. Telur sóknaraðili mikla hagsmuni tengjast því að aflað verði þeirra sönnunargagna, sem krafa hans lýtur að, enda ráði þau kosti lögreglunnar á að færa sönnur um refsivert brot, sem framið hafi verið, og komast að raun um hver sá seki sé. Rannsóknarhagsmunir vegi hér þyngra en þeir hagsmunir, sem tengdir séu þagnarskyldu starfsmanna varnaraðila samkvæmt 43. gr. laga nr. 107/1999 um fjarskipti.
II.
Fallist er á með sóknaraðila að beita megi ákvæði b. liðar 86. gr. laga nr. 19/1991 með lögjöfnun, þannig að til greina komi að leggja á varnaraðila skyldu til að veita þær upplýsingar, sem krafa sóknaraðila tekur til, sbr. dóm Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 3740.
Samkvæmt 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 verður ekki gripið til aðgerða, sem 86. gr. laganna tekur til, nema að fullnægðum þeim skilyrðum, sem greinir í fyrrnefnda lagaákvæðinu. Fyrir liggur að sóknaraðili telur brotið, sem hann hefur til rannsóknar, geta varðað við 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum. Refsing við slíku broti getur mest orðið fangelsi í eitt ár. Hún nær þannig ekki því lágmarki, sem mælt er fyrir um í b. lið 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991. Reisir sóknaraðili kröfu sína þess í stað á undanþáguheimild ákvæðisins, sem tekur til þess þegar ríkir almannahagsmunir eða einkahagsmunir krefjist þess að beitt verði aðgerðum samkvæmt 86. gr. laganna.
Meðal gagna málsins er endurrit þeirra skoðanaskipta, sem fóru fram á spjallvef Bæjarins besta í umrætt sinn. Eftir að ummælin, sem málið varðar, birtust þar snerust ýmsir til varnar manninum, sem þau beindust að, auk þess sem þá kom fram, meðal annars frá ritstjóra netútgáfu blaðsins, að þau stöfuðu ekki frá þeim, sem „í daglegu tali er ævinlega nefndur Stebbi Dan“. Þegar ummælin og umræðurnar, sem á eftir fylgdu, eru virtar í heild eru ekki efni til að fallast á að þeir ríku almannahagsmunir eða einstaklingshagsmunir, sem um ræðir í b. lið 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991, krefjist þess að beitt verði þeim aðgerðum, sem sóknaraðili leitar heimildar fyrir. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.
Varnaraðila verður dæmdur kærumálskostnaður úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Allur kostnaður af kærumáli þessu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns varnaraðila, 50.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 22. maí 2001.
Mál þetta barst dómnum þann 29. mars sl., en var tekið til úrskurðar þann 16. maí sl. Sóknaraðili, sýslumaðurinn á Ísafirði, krefst þess að fyrirsvarsmönnum varnaraðila, Margmiðlunar Internet ehf., Suðurlandsbraut 4, Reykjavík, „verði með úrskurði lýst rétt og skylt að láta lögreglunni á Ísafirði í té allar upplýsingar um skrár þeirra, úr vélrænni skráningu vefþjóna internetsþjónustu Margmiðlunar hf., sem hafa að geyma upplýsingar um hvaða skráði notandi internetsþjónustu Margmiðlunar hf. kann að hafa notað nafnið „Stebbi Dan“ á netspjalli vefs héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta á Ísafirði sem birtist kl. 01:56 þann 28. janúar 2001 skv. skráðri tímasetningu tölvukerfis Snerpu ehf. (loggskrár).“
Dómurinn gaf varnaraðila kost á því að tjá sig um kröfuna og skilaði hann greinargerð af sinni hálfu. Krefst hann þess að kröfu sóknaraðila verði synjað. Aðilum var gefinn kostur á að tjá sig munnlega um ágreiningsefnið, en varnaraðili tilkynnti að hann teldi sér þess ekki þörf.
Málavextir eru þeir að 28. janúar kl. 01:56 birtist eftirfarandi texti á svokallaðri netspjallsíðu héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta:
„Gaui, Real Madrid er í miklum fjárhagsvanda og á ég að segja þeim frá þér, út af því að þú ert svo ráðagóður!!!
Þú virðist vera svo góður að finna góða kalla í KFÍ (allavega miðað við gengið í vetur. Þú gætir örugglega reddað öryrkjum með vandamál sín vegna allra góðu ákvarðananna sem þú hefur tekið fyrir KFÍ. Það er ekki skrítið hvað KFÍ er lélegt, þegar mennirnir koma á æfingu komast þeir ekki inní salinn vegna þess að þú fyllir hann út.
Gaui við höfum þekkst lengi en álit mitt á þér hefur snarlega minnkað vegna aumkunarverðra skrifa þinna á þessu spjallborði.“
Höfundur greinarinnar er tilgreindur „Stebbi Dan (---.mmedia.is)“
Í beiðni varnaraðila er frá því greint að efni greinarinnar beri með sér að Gaui sem þar er ávarpaður sé Guðjón Már Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Körfuknattleiksfélags Ísfirðinga.
Að kröfu Stefáns Dans Óskarssonar, sem mun vera þekktur undir nafninu Stebbi Dan, hóf lögregla opinbera rannsókn á því hver raunverulegur höfundur greinarinnar sé. Telur sóknaraðili að háttsemi höfundar kunni að varða við 234. gr. eða 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ekki verður ráðið af rannsóknargögnum að skýrslur hafi verið teknar af ritstjóra eða ritstjórum héraðsfréttablaðsins sem birti greinina á spjallsíðu sinni. Virðist vera byggt á því að þeim sé ókunnugt um raunverulegan höfund. Sóknaraðili telur að greinin kunni að hafa verið rituð af skráðum notanda hjá varnaraðila og er því ekki sérstaklega mótmælt af varnaraðila. Segir sóknaraðili ekki verða upplýst hver hafi ritað greinina, nema varnaraðili láti af hendi þau gögn sem krafist er. Vísar sóknaraðili til 1. mgr. 87. gr., sbr. b-lið 86. gr., laga nr. 19/1991 sem hann segir að beita eigi með lögjöfnun, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands 1998:3741. Kveður hann mikla rannsóknarhagsmuni vera því tengda að á kröfuna verði fallist, enda sé ómögulegt að upplýsa málið án þess. Þá álítur hann uppfyllt skilyrði b-liðar 2. mgr. 87. gr. laga nr. 19/1991 um ríka almanna- og einkahagsmuni. Færist mjög í aukana að brot séu framin með tölvum um svokallað internet og meðal annars vegna friðhelgi einkalífs manna sé nauðsynlegt að stemma stigu við slíkri brotastarfsemi. Hafi verið vegið á lágkúrulegan hátt að friðhelgi einkalífs kæranda, sem hafi búið lengi á Ísafirði, sé vel þekktur af samborgurum sínum og hafi ávallt getið sér góðan orðstír. Vitnar sóknaraðili til þess að kærandi segist hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna málsins. Álítur sóknaraðili að almennt megi telja að vegið hafi verið gegn friðhelgi einkalífs kæranda í formi ærumeiðinga eða aðdróttana með framangreindum skrifum. Vísar sóknaraðili í þessu sambandi meðal annars til 71. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Varnaraðili kveðst telja að það hafi aðeins verið hrekkur að birta greinina í nafni kæranda. Þegar kl. 13:14, sama dag og hún birtist, hafi birst á sömu netspjallsíðu orðsending frá lesanda þess efnis að sá sem hafi ritað greinina eigi að koma fram undir réttu nafni, enda megi allir vita að sá sem fyrir henni sé ritaður geti ekki hafa viðhaft þau ummæli sem þar eru. Þegar af þessari ástæðu og vegna efnis greinarinnar verði ekki talið að um alvarlega eða refsiverða háttsemi sé að ræða, enda hafi ekki verið farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis með ummælunum. Telur varnaraðili ekki að ríkir almanna- eða einkahagsmunir standi til þess að hann verði skyldaður til að veita umbeðnar upplýsingar. Séu ummælin ekki svo alvarleg að það geti talist ærumeiðing eða aðdróttun að æru kæranda þótt þau væru kennd honum. Þá varði krafa sóknaraðila upplýsingar um einkahagi ótilgreindra manna, sem ekki tengist málinu. Réttlæti rannsóknarhagsmunir ekki að friðhelgi þeirra sé rofin. Beri einnig af þeirri ástæðu að synja kröfu sóknaraðila.
Þá segir varnaraðili að öflun þeirra upplýsinga sem sóknaraðili krefst myndi útheimta töluverða tölvuvinnslu í skrám sínum. Sé um að ræða vinnslu persónuupplýsinga í skilningi 2. gr. laga nr. 77/2000. Verði ekki séð að skilyrði 8. gr. laganna séu fyrir hendi til að slík vinnsla gæti farið fram. Í bréfi frá varnaraðila til lögreglunnar á Ísafirði dagsettu 26. febrúar sl. segir að úrvinnsla þeirra upplýsinga sem farið er fram á sé mjög tímafrek og í henni felist mikil vinna, en þrátt fyrir það sé ekki hægt að ábyrgjast að nákvæmar upplýsingar fáist.
Samkvæmt 234. gr. almennra hegningarlaga skal hver sem meiðir æru annars með móðgun í orðum eða athöfnum og hver sem ber slíkt út sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári. Samkvæmt 235. gr. sömu laga varðar það sömu refsingu ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis eða ber slíka aðdróttun út. Rannsókn lögreglu beinist að meintu broti gegn þessum ákvæðum. Samkvæmt c-lið 2. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga sætir ærumeiðandi aðdróttun opinberri ákæru ef hún er borin fram skriflega en nafnlaust eða með rangri eða tilbúinni undirskrift, en þó því aðeins að þess sé krafist af þeim sem misgert er við.
Meintri aðdróttun í ofangreindri netspjallsgrein er beint gegn öðrum manni en kæranda. Verður ekki fallist á það með sóknaraðila að kærandi sé sá sem misgert er við í skilningi nefnds ákvæðis c-liðar 2. tl. 242. gr. almennra hegningarlaga. Sá sem varð fyrir meintri aðdróttun hefur ekki krafist opinberrar ákæru svo séð verði. Þegar af þeirri ástæðu ber að hafna kröfu sóknaraðila.
Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, sýslumannsins á Ísafirði, um að skylda varnaraðila, Margmiðlun Internet ehf., til að láta lögreglunni á Ísafirði í té allar upplýsingar um skrár þeirra úr vélrænni skráningu vefþjóna internetsþjónustu varnaraðila sem hafa að geyma upplýsingar um hvaða skráði notandi kann að hafa notað nafnið „Stebbi Dan“ á netspjalli vefs héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta á Ísafirði sem birtist kl. 01:56 þann 28. janúar 2001 skv. skráðri tímasetningu tölvukerfis Snerpu ehf.