Hæstiréttur íslands

Mál nr. 161/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Erfðaskrá


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. maí 2003.

Nr. 161/2003.

Gunnar Ingibergsson

Gréta Þorbjörg Jónsdóttir

Ásdís Fjóla Gunnarsdóttir og

Gunnar Þór Gunnarsson

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Elísabetu Ingibergsdóttur

Kristni Ingibergssyni

Steinþóri Ingibergssyni

Öldu Ingibergsdóttur

Margréti G. Guðmundsdóttur

Ingibjörgu Bjarnadóttur

Pétri Jónssyni

Guðrúnu Helgu Jónsdóttur

Guðlaugi Jónssyni

Bjarna Þór Lúðvíkssyni

Skúla Bjarnasyni

Bjarna Bjarnasyni

Kristínu Ingunni Jónsdóttur

Ingibergi Gunnari Jónssyni

Kristni Friðrik Jónssyni og

Lilju Björk Jónsdóttur

(Skúli Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Erfðaskrá.

 

K hafði gert erfðaskrá árið 1990, þar sem sagði að íbúð hans skyldi að honum látnum falla í arf til E, en aðrar eignir, að undanskildum munum sem sérstaklega yrðu merktir öðrum, skyldu falla til systkina E, þeirra Á og G. E lést árið 1995, á undan K, sem lést í maí árið 2002. Deilt var um hvort umrædd íbúð, sem E skyldi fá samkvæmt erfðaskránni, ætti að renna til þeirra Á og G, eða lögerfingja K. Fyrir lá, að sá lögmaður, sem samið hafði erfðaskrá K, hafði átt samtal við K í janúar 2002 og bar hann að K hafi þá lýst þeim eindregna vilja sínum að þær eignir, sem hann hafði ætlað E, ættu að renna til lögerfingja hans. Í málinu var ekkert fram komið sem var til þess fallið að rýra gildi þessa vitnisburðar lögmannsins. Þá þótti ekki hafa verið sýnt fram á að K hafi verið þannig á sig kominn, er samtal þetta átti sér stað, að hann hafi ekki getað gert sér grein fyrir stöðu mála. Var ekki fallist á að fyrir hendi væri aðstaða sem að lögum gæti leitt til þeirrar niðurstöðu að umrædd eign skyldi renna til þeirra Á og G, né heldur til foreldra þeirra, svo sem varakrafa sóknaraðila í málinu laut að. Var því fallist á að íbúðin skyldi renna til lögerfingja K.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 23. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2003, þar sem kveðið var á um að eignir þær, sem tilgreindar eru í 1. tölulið erfðaskrár Kristjáns E. Kristinssonar frá 25. apríl 1990 skyldu renna til lögerfingja hans samkvæmt 3. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að undanskildum munum sem sérstaklega kunni að vera merktir öðrum. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og dæmt verði að sóknaraðilarnir Ásdís Fjóla Gunnarsdóttir og Gunnar Þór Gunnarsson taki allan arf eftir Kristján E. Kristinsson að undanteknum hlutum, sem sérstaklega kunni að vera merktir öðrum. Til vara er þess krafist að sóknaraðilar Gunnar Ingibergsson og Gréta Þorbjörg Jónsdóttir taki í arf eftir Kristján þær eignir, sem Eva Mary Gunnarsdóttir skyldi erfa eftir hann samkvæmt erfðaskrá 25. apríl 1990. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. apríl 2003.

                Mál þetta, sem varðar ágreining um rétt til arfs eftir Kristján E. Kristinsson, sem var fæddur 16. maí 1926 og lést 6. maí 2002, var tekið til úrskurðar 14. f.m.

                Sóknaraðilar eru Gunnar Ingibergsson og Gréta Þorbjörg Jónsdóttir, Álfaskeiði 56, Hafnarfirði, og Ásdís Fjóla Gunnarsdóttir og Gunnar Þór Gunnarsson, Hverfisgötu 49, Hafnarfirði.

                Varnaraðilar eru Elísabet Ingibergsdóttir Hringbraut 78, Hafnarfirði, Kristinn Ingibergsson, Álfaskeiði 56, Hafnarfirði, Steinþór Ingibergsson, Melholti 6, Hafnarfirði, Alda Ingibergsdóttir, Hringbraut 52, Hafnarfirði, Margrét G. Guðmundsdóttir, Seiðakvísl 32, Reykjavík, Ingibjörg Bjarnadóttir, Hábæ 28, Reykjavík, Pétur Jónsson, Engjaseli 87, Reykjavík, Guðrún Helga Jónsdóttir, Engjaseli 87, Reykjavík, Guðlaugur Jónsson, Akraseli 37, Reykjavík, Bjarni Þór Lúðvíksson, Hraunbæ 18, Reykjavík, Skúli Bjarnason, Funafold 52, Reykjavík, Bjarni Bjarnason, Laugateigi 6, Reykjavík, Kristín Ingunn Jónsdóttir, Asparfelli 2, Reykjavík, Ingibergur Gunnar Jónsson, Víðivangi 11, Hafnarfirði, Kristinn Friðrik Jónsson, Túnhvammi 7, Hafnarfirði og Lilja Björk Jónsdóttir, Spítalastíg 5, Hvammstanga.

                Sóknaraðilar gera þá kröfu aðallega að sóknaraðilar Ásdís Fjóla og Gunnar Þór taki allan arf eftir Kristján E. Kristinsson að undanteknum hlutum, sem sérstaklega kunna að vera merktir öðrum. Til vara er þess krafist að sóknaraðilar Gunnar Ingibergsson og Gréta Þorbjörg taki í arf eftir Kristján þær eignir sem Eva Mary Gunnarsdóttir skyldi erfa eftir hann samkvæmt erfðaskrá 25. apríl 1990. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verið hrundið þannig að varnaraðilar taki arf þann sem tilgreindur er í 1. tölulið erfðaskrár Kristjáns E. Kristinssonar frá 25. apríl 1990, að teknu tilliti til lögerfðaréttar sóknaraðila Gunnars Ingibergssonar. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

Mál þetta varðar, svo sem fram er komið, ágreining um rétt til arfs eftir Kristján E. Kristinsson sem lést 6. maí 2002, en hann var fæddur 16. maí 1926 og síðast til heimilis að Sólvangi í Hafnarfirði. Sóknaraðili Gunnar Ingibergsson og varnaraðilar, að Pétri, Guðrúnu, Guðlaugi og Bjarna Þór undanskildum, eru börn systkina Kristjáns. Þá var Jóhanna Bjarnadóttir, sem nú er látin, skyld Kristjáni með sama hætti og eru þau Pétur, Guðrún, Guðlaugur og Bjarni Þór börn hennar. Sóknaraðilar Gunnar Þór og Ásdís Fjóla eru börn sóknaraðila Gunnars og Grétu Þorbjargar.

Kristján E. Kristinsson gerði erfðaskrá 25. apríl 1990. Í henni segir svo:

                „1. Íbúð mín að Reykjavíkurvegi 50, Hafnarfirði, skal falla í arf til Evu Mary Gunnarsdóttur, Ljósabergi 28, Hafnarfirði, f. 26.4.1982, dóttir hjónanna Gunnars Ingibergssonar og Grétu Þorbjargar Jónsdóttur. Ef ég skyldi selja íbúðina fyrir fráfall mitt, skal andvirðið með vöxtum og verðbótum eða hver önnur eign, sem kynni að koma í þess stað, falla í arf til ofangreindrar Evu Mary Gunnarsdóttur. Einnig skal hún fá í arf eftir mig allt innbú mitt nema hluti, sem sérstaklega kynnu að verða merktir öðrum. Allur arfurinn skal verða séreign hennar, ef hún stofnaði til hjúskapar.

                2. Allar aðrar eignir mínar en þær, sem taldar eru upp í 1. lið hér að framan, að undanskildum munum, sem sérstaklega yrðu merktir öðrum, skulu að jöfnum hluta falla í arf til Gunars Þórs Gunnarssonar, f. 18. jan. 1983, og Ásdísar Fjólu Gunnarsdóttur, f. 8. júlí 1979, bæði að Ljósabergi 28, Hafnarfirði, en þau eru börn ofangreindra hjóna.“

                Lögbókandi í Hafnarfirði ritaði sama dag á erfðaskrána vottorð með þeim efnisatriðum, sem greinir í 1. mgr. 43. gr., sbr. 42. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

                Eva Mary Gunnarsdóttir lést 19. janúar 1995.

                Í málinu liggur frammi yfirlýsing Árna Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, sem hann ritaði 1. júní 2002. Í henni kemur fram að lögmaðurinn hafi að beiðni Kristjáns E. Kristinssonar samið erfðaskrána frá 25. apríl 1990. Þar segir ennfremur svo: „Eftir að ég fékk hugboð um að kanna viðhorf Kristjáns í þessu máli eftir fráfall Evu Maryar, fór ég ótilkvaddur á fund hans á Sólvangi í janúar á þessu ári. Tjáði ég honum þá skoðun mína, að búast mætti við, að eignir þær, sem Evu Maryu voru ætlaðar í erfðaskránni, myndu falla í arf til lögerfingja hans, þar sem Eva Mary væri látin, nema annað kæmi fram við breytingu á erfðaskránni. Lýsti Kristján þá skýrt yfir með berum orðum, að hann vildi, að eignir þær, sem Eva Mary átti að erfa, skyldu renna til lögerfingja hans, þ.e. systkinabarna.“

                Stuttu eftir andlát Kristjáns kom upp ágreiningur um hverjir skuli taka arf eftir hann. Varð sá ágreiningur til þess að sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði um það kröfu til dómsins að dánarbú Kristjáns yrði tekið til opinberra skipta. Varð héraðsdómur við þeirri kröfu með úrskurði 11. október 2002. Var Guðmundur Örn Guðmundsson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri. Hélt hann skiptafund 4. nóvember 2002. Til þess fundar mættu sóknaraðilar þessa máls og 8 af 16 varnaraðilum þess. Í fundargerð er vísað til erfðaskrárinnar og efnis 1. töluliðar hennar. Þessu næst segir svo í fundargerðinni: „Eva Mary lést á undan arfleiðanda. Ekki var gerð ný erfðaskrá af hans hálfu eftir það. Í ljósi krafna erfingja taldi sýslumaður að kominn væri upp vafi um það hverjir gætu kallað til arfs úr búinu. Skiptastjóri leitaði svara mættu við því, hvort ágreiningur sé uppi um réttindi til arfs á hendur dánarbúinu. Mættu kváðu það vera.“ Að þessari afstöðu fenginni er bókuð í fundargerðina sú ákvörðun skiptastjóra að vísa málinu til héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 53. gr. laga nr. 20/1991. Beindi hann málinu þangað með bréfi 14. nóvember 2002.

II.

                Í greinargerð sóknaraðila er vísað til þess að mikið og náið samband hafi alla tíð verið á milli Kristjáns E. Kristinssonar og Evu Mary Gunnarsdóttur og fjölskyldu hennar. Kristján hafi verið afabróðir Evu. Þeir bræður hafi meðal annars byggt saman hús fyrir foreldra sína. Mjög mikill samgangur hafi verið á milli þeirra og hafi sonur Ingibergs, sóknaraðilinn Gunnar, verið í miklu uppáhaldi hjá Kristjáni. Hafi þeir verið mjög samrýmdir alla tíð. Kristján hafi ekki kvænst, en átt vinkonu og sambýliskonu, Fjólu Sigurðardóttur, sem sé móðir sóknaraðilans Grétu Þorbjargar. Þannig hafi það æxlast að mikill samgangur hafi orðið á milli Kristjáns og fjölskyldu Gunnars Ingibergssonar. Allt frá því að Eva Mary fæddist hafi Kristjáni verið mjög umhugað um hana og tekið miklu ástfóstri við hana. Á 8 ára afmælisdegi Evu Mary hafi Kristján tilkynnt henni að nú ætti hún íbúðina hans og að þau syskinin þrjú, það er Eva Mary, Gunnar Þór og Ásdís Fjóla, ættu að fá allar hans eignir. Andlát Evu Mary hafi orðið Kristjáni mikið áfall. Heilsu hans hafi stöðugt hrakað og hafi hann að endingu verið lagður inn á Sólvang í Hafnarfirði til langtímavistunar. Hann hafi meðal annars fengið heilablæðingu. Eftir það hafi minni hans verið mjög stopult og hann hafi oft verið illa áttaður. Þannig hafi hann ekki alltaf þekkt nánustu ættingja sína.

                Aðalkröfu sína í málinu segja sóknaraðilar byggða á þeirri almennu túlkunarreglu erfðalaga nr. 8/1962 að sé sú tilhögun valin í erfðaskrá að tilteknir aðilar skuli taka eftirstöðvar arfs eignist þeir svokallaðan aukningarrétt, það er taki fjárhlut sem losnað hefur við fráfall eins bréferfingja. Í 2. lið erfðaskrár Kristjáns E. Kristinssonar frá 25. apríl 1990 sé kveðið á um það að allar aðrar eignir hans en þær sem taldar eru upp í 1. lið hennar skuli, að undanskildum munum sem sérstaklega séu merktir öðrum, falla í arf til Gunnars Þórs Gunnarssonar og Ásdísar Fjólu Gunnarsdóttur. Samkvæmt þessu eigi sóknaraðilarnir Gunnar Þór og Ásdís Fjóla að jöfnu rétt á þeim arfi sem ætlaður hafi verið systur þeirra, Evu Mary, samkvæmt 1. lið erfðaskrárinnar. Þau Gunnar Þór og Ásdís Fjóla séu samkvæmt þessu svokallaðir residualerfingjar og taki þar af leiðandi að jöfnu þann arf sem koma skyldi samkvæmt erfðaskránni í hlut systur þeirra. Útrými þau þannig rétti lögerfingja til arfs, sem að öðrum kosti hefðu átt tilkall til hans á grundvelli lögerfðaréttar.

                Varakrafa sóknaraðila Gunnars og Grétu Þorbjargar er byggð á því að þau hafi verið skylduerfingjar dóttur sinnar, Evu Mary, samkvæmt 2. mgr. 3. gr. erfðalaga. Ennfremur er byggt á því að eðlilegt sé að skýra erfðaskrána þannig að hluti Evu Mary samkvæmt henni gangi til foreldra hennar í ljósi þess nána fjölskyldusambands sem alla tíð hafi verið á milli Kristjáns og Gunnars og síðar Grétu. Þótt almennt sé litið svo á að við andlát bréferfingja renni hlutur þess sem deyr til skylduerfingja séu á þessu mikilvægar undantekningar. Vísa sóknaraðilar þessu til stuðnings meðal annars til H.1989.682. Það hafi verið vilji Kristjáns að eignir hans rynnu til Evu Mary og systkina hennar, þannig að fjölskylda hennar nyti góðs af eignum hans og útarfar færu ekki að rífast innbyrðis um reyturnar.

                Í greinargerð mótmæla sóknaraðilar sérstaklega fyrirliggjandi yfirlýsingu Árna Gunnlaugssonar hæstaréttarlögmanns, sem gerð er grein fyrir í kafla I hér að framan. Geti hún enga þýðingu haft við úrlausn málsins. Er meðal annars tekið fram í þessu sambandi að Kristján hafi á þeim tíma sem hér um ræðir verið orðinn andlega heilsuveill og alls ekki fær um að taka ákvarðanir varðandi erfðamál sín.

III.

Varnaraðilar telja að með yfirlýsingu arfleifanda í janúar 2002 fyrir Árna Gunnlaugssyni hæstaréttarlögmanni, lögmanni hins látna til margra áratuga, hafi í raun verið um að ræða afturköllun erfðaskrárinnar að hluta, það er að því er varðar umþrættan 1. tölulið hennar, en afturköllun erfðaskrár sé ekki formbundinn gerningur. Í yfirlýsingu lögmannsins um tilgreindan fund komi fram að arfleifandi hafi skýrlega lýst því yfir „að eignir þær sem Eva Mary átti að erfa, skyldu renna til lögerfingja hans, þ.e. systkinabarna“. Þessi yfirlýsing lögmannsins, sem hafi þekkt mjög vel til arfleifanda í gegnum tíðina, meðal annars vegna frændsemi, verði að teljast trúverðug vegna kynna þeirra sem og vegna stöðu hans sem lögmanns hins látna. Trúverðugleiki lögmannsins, sem sé virtur hæstaréttarlögmaður í Hafnarfirði, hafi aldrei beðið hnekki og hljóti því vætti hans að vega afar þungt í máli þessu. Þá er því sérstaklega mótmælt að arfleifandi hafi verið ófær um að fjalla um þá hluti sem um var rætt á fundinum sökum heilsubrests.

                Varnaraðilar telja einnig að vilji arfleifanda hafi ótvírætt staðið til þess að haga hlutunum með framangreindum hætti. Hvað sem líði umhyggju hans fyrir Evu Mary Gunnarsdóttur, sem ekki eru bornar brigður á, sé af og frá að foreldrar hennar hafi notið sömu velvildar. Einnig hafi gliðnað á tengslunum við sóknaraðilana Gunnar Þór og Ásdísi Fjólu. Þótt varnaraðilar kjósi að sneiða hjá því að ágreiningsmál þetta fari í þann farveg að karpað verði með vitnum til og frá um sætti/ósætti, illindi og deilur milli aðila og hins látna í einhvers konar sápuóperustíl“, verði ekki undan því vikist að geta þess að ekki hafi allt á þeim bænum verið eins og skyldi hin síðari árin. Þannig megi jafnvel ganga svo langt að halda því fram að hinn látni hafi lagt fæð á sóknaraðila Grétu mörg undangengin ár, en um gagnkvæmt afskiptaleysi hafi verið að ræða milli hans og Gunnars Ingibergssonar og barna hans. Þannig megi meðal annars nefna að sóknaraðilar hafi nánast aldrei heimsótt Kristján þau 6-7 ár sem hann dvaldi á Sólvangi. Þá eigi Kristján margsinnis að hafa lýst því sérstaklega yfir að ekki kæmi til greina að sóknaraðili Gréta fengi einhvern hluta eigna hans að honum látnum. Því þyki varnaraðilum flestu snúið á haus í málatilbúnaði sóknaraðila að því er þessa þætti varðar.

                Af framansögðu leiðir að mati varnaraðila að svokallaður „aukningaréttur“ eigi alls ekki við, þegar af þeirri ástæðu að 1. töluliður margtilvitnaðrar erfðaskrár sé fallinn niður og geti þar greindar eignir því ekki eðli málsins samkvæmt flust til annarra bréferfingja. Fallist dómurinn ekki á þessi rök halda varnaraðilar því fram að skilyrði aukningaréttar skorti eins og hér stendur á. Þá verði sérstaklega að hafa í huga að Evu Mary voru ætlaðar nánast allar eignir Kristjáns, þar sem eignir hans á dánardægri, sem og við gerð erfðaskrárinnar, hafi fyrst og fremst samanstaðið af íbúðinni og innanstokksmunum. Arfleifandi hafi aldrei átt umtalsverða fjármuni þar fyrir utan, enda alla tíð verið á verkamannalaunum og ekki sýnt um auðsöfnun. Því hafi staðan verið sú að Eva Mary hafi átt að fá nánast allar eignir Kristjáns, en hinir bréferfingjarnir aðeins lítilræði. Það sé því ekki í samræmi við aukningarrétt eins og hann hafi verið skilinn og framkvæmdur til þessa ef hann eigi að leiða til þess að allur arfur flytjist til þeirra bréferfingja sem sé nánast ekkert ætlað samkvæmt erfðaskrá. Til þess skorti bæði efnisrök og ótvíræða réttarreglu, en að auki og fyrst og fremst skorti upp á huglæg skilyrði og þá einkum að því er varðar forsendur og vilja arfleifandans. Þá sé einnig síðast en ekki síst til þess að líta að sjálft orðalag erfðaskrárinnar, það er „[allar] aðrar eignir mínar en þær sem taldar eru upp í 1. lið hér að framan“, útiloki beinlínis samkvæmt orðanna hljóðan að tilgreindar eignir geti flust innan erfðaskrárinnar yfir til annarra erfingja, það er þeirra sem einungis eigi að taka óskilgreint það sem út af stendur.

                Loks vísa varnaraðilar til eftirfarandi sjónarmiða til stuðnings dómkröfum sínum í málinu. Í erfðalögum nr. 8/1962 séu erfingjar taldir upp með tæmandi hætti. Annars vegar sé um svokallaða lögerfingja að ræða og hins vegar þá sem taki arf eftir öðrum leiðum, það er svokallaða bréferfingja. Lögerfingjar geti í vissum tilvikum tekið arf í gegnum látinn ættingja. Þar búi vitaskuld að baki þau sjónarmið að við lát einhvers í erfðakeðjunni, sem stendur nær arfláta, flytjist arfurinn áfram eftir þeim legg, tíðast til barna þess látna. Eðlileg rök búi að baki þeirri réttarskipan, svo sem þau að jafna hlut milli barna-/afkomendahópa hins látna, óháð því hvort barn eða foreldri falli frá á undan. Ekki eigi að þurfa að fjölyrða um þessi rök. Engu slíku sé hins vegar til að dreifa varðandi þá sem taka arf samkvæmt erfðaskrá. Þar sé oft um algerlega óskylda aðila að ræða. Því eigi framangreind rök ekki við, enda geri engin „pósitív“ lagaregla ráð fyrir slíkum erfðaflutningi. Almenna reglan sé auðvitað sú að „látnir [geti] ekki flutt réttindi milli lifenda eftir dauða sinn“. Þar þurfi til að koma sérstök lagaheimild, sem eins og fyrr segir sé ekki fyrir hendi. Því sé það viðurkennd meginregla í erfðarétti að erfðaréttur bréferfingja sem deyr á undan arfláta falli sjálfkrafa niður við andlát hans.

IV.

                Við aðalmeðferð málsins komi fyrir dóminn sem vitni þau Árni Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður og Ingigerður Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Sólvangi í Hafnarfirði. Þá gáfu Ásdís Fjóla Gunnarsdóttir og Kristín Ingunn Jónsdóttir aðilaskýrslu.

                Árni Gunnlaugsson staðfesti efni yfirlýsingar sinnar frá 1. júní 2002, sem áður er gerð grein fyrir. Í vitnisburði hans kom fram að hann og Kristján E. Kristinsson hefðu átt náin og góð samskipti í mörg ár. Hafi Kristján leitað til vitnisins með öll sín helstu mál. Af ástæðum, sem vitnið gerði nánari grein fyrir, hafi rifjast upp fyrir því að það hafi á sínum tíma gert erfðaskrá fyrir Kristján. Hafi vitninu orðið það ljóst að aðstæður hefðu breyst frá gerð erfðaskrárinnar þar sem Eva Mary væri látin. Vitnið hafi þess vegna talið það skyldu sína að kanna viðhorf Kristjáns til þessarar breyttu aðstæðna. Hafi vitnið heimsótt Kristján á Sólvang og þar átt við hann einkasamtal. Þessu næst skýrði vitnið svo frá: „Hann var mjög vel fyrir kallaður þennan dag og gerði sér glögga grein fyrir öllu sem ég sagði honum. Og þar vakti ég athygli hans á þessu, að Eva María væri látin og það væri eindregin skoðun mín og álit að það mætti búast við því að ef að ekki yrðu gerðar breytingar á erfðaskránni, þá mundi arfurinn falla til hans lögerfingja eða systkinabarna. Og þá kom skýrt fram hjá honum að hann vildi það eindregið og ég ítrekaði þetta við hann þannig að það fór ekkert á milli mála með það þannig að ég taldi enga ástæðu til þess að gera neinar breytingar á erfðaskránni [...].“ Sérstaklega aðspurt lýsti vitnið því mati sínu að fram hafi komið hjá Kristjáni skýr, afdráttarlaus og sjálfstæður vilji til þess að umræddur erfðahlutur rynni til lögerfingja. Þá hafi Kristján að mati vitnisins verið algjörlega áttaður á stað og stund. Kom fram hjá vitninu að það hafi heimsótt Kristján þó nokkrum sinnum fram að þessum tíma og hafi alltaf verið hægt að halda uppi eðlilegum viðræðum við hann. Um aðdraganda þess að vitnið samdi yfirlýsingu sína skýrði það svo frá að því hafi skömmu áður borist um það vitneskja að búið væri að óska eftir því að dánarbú Kristjáns yrði tekið til opinberra skipta. Hafi yfirlýsingin verið samin strax í kjölfarið. Loks er vert að geta þess hér að fram kom hjá vitninu að auk íbúðarinnar að Reykjavíkurvegi 50 í Hafnarfirði hafi Kristján átt innstæður á tveimur bankareikningum sem numið hafi að því er vitnið taldi töluvert á aðra milljón króna, en gagna nýtur ekki við í málinu að þessu leyti. Hluta þeirrar fjárhæðar hafi verið varið til greiðslu á útfararkostnaði, en hann nam samkvæmt framlögðum gögnum 426.348 krónum.

                Í vitnisburði sínum staðfesti Ingigerður Ólafsdóttir að Árni Gunnlaugsson hefði komið á Sólvang í janúar 2002 og átt þar fund með Kristjáni E. Kristinssyni. Árni hafi fyrir þennan tíma margsinnis heimsótt Kristján. Eftir fundinn hafi Árni skýrt vitninu frá því hvaða erindi hann hafi átt við Kristján og jafnframt haft orð á því að honum hefði fundist að hann hefði náð góðu sambandi við hann. Þá lýsti vitnið því mati sínu að Kristján hafi á þessum tíma verið „vel áttaður og skýr“. Þegar Árni var farinn hafi vitnið rætt við Kristján og hafi hann svaraði því játandi þegar vitnið hafi spurt hann að því „hvort þetta hafi allt gengið vel hjá honum og Árna“ og „hvort hann væri sáttur“. Loks kom fram hjá vitninu að varnaraðili Margrét hafi í skjölum Sólvangs verið skráð sem næsti aðstandandi Kristjáns og að hún hafi heimsótt hann reglulega og meðal annars farið með hann heim í íbúð hans. Kvaðst vitnið ekki vita til þess að aðrir aðstandendur hafi heimsótt Kristján á Sólvang hin seinni ár.

                Ekki þykir ástæða til að gera hér grein fyrir því sem fram kom í aðilaskýrslum við aðalmeðferð málsins.

V.

Svo sem fram er komið lést Kristján E. Kristinsson, sem var fæddur 16. maí 1926, 6. maí 2002. Hann lét ekki eftir sig skylduerfingja. Eru varnaraðilar og sóknaraðili Gunnar Ingibergsson lögerfingjar Kristjáns samkvæmt 3. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Með erfðaskrá 25. apríl 1990 ráðstafaði Kristján öllum eignum sínum, að undanskildum munum sem sérstaklega kynnu að vera merktir öðrum, til sóknaraðila Ásdísar Fjólu og Gunnars Þórs og systur þeirra, Evu Mary. Var þetta eina erfðaskráin sem Kristján gerði og hann hafði ekki gert breytingar á henni þegar hann lést. Eva Mary lést 19. janúar 1995. Aðalkröfu sína í málinu byggja sóknaraðilar á því að þau Ásdís Fjóla og Gunnar Þór eigi á grundvelli þess sem kallað hefur verið aukningarréttur réttmætt tilkall til þeirra eigna Kristjáns sem hann hafi ætlað systur þeirra. Þar með eigi allar eignir Kristjáns, þó með þeirri undantekningu sem erfðaskráin kveður á um samkvæmt framansögðu, að renna til þeirra.

Í erfðalögum eru ekki ákvæði sem lúta beinlínis að þeirri aðstöðu sem uppi er þegar bréferfingi andast á undan arfleifanda og erfðaskrá hefur ekki verið breytt af því tilefni, sbr. 1. mgr. 48. gr. laganna. Sú almenna regla hefur þó verið talin gilda um tilvik af þessum toga, að sá fjárhlutur sem ætlaður var bréferfingja eigi að renna til lögerfingja arfleifanda. Í þessu felst meðal annars að lögerfingjar látins bréferfingja samkvæmt lögerfðareglum taki ekki þann arf sem honum var ætlaður. Erfðaskráin sjálf og önnur gögn um vilja arfleifanda kunna þó að leiða til annarrar niðurstöðu.

Í málinu liggur fyrir afdráttarlaus og trúverðugur vitnisburður Árna Gunnlaugs-sonar hæstaréttarlögmanns, sem samdi framangreinda erfðaskrá, þess efnis, að í samtali við lögmanninn í janúar 2002 hafi Kristján E. Kristinsson lýst þeim eindregna vilja sínum að þær eignir sem hann hafði ætlað Evu Mary samkvæmt 1. tölulið erfðaskrárinnar ættu að renna til lögerfingja hans, það er systkinabarna. Í málinu er ekkert fram komið sem er til þess fallið að rýra gildi þessa vitnisburðar. Þá hafa sóknaraðilar ekki fært fram haldbær rök fyrir því að Kristján hafi verið þannig á sig kominn, þá er þetta samtal átti sér stað, að hann hafi ekki getað gert sér grein fyrir stöðu mála og efnislegu inntaki þess sem um var rætt. Þvert á móti verður af vitnisburði Árna Gunnlaugssonar og Ingigerðar Ólafsdóttir ráðið, að Kristján hafi á þessum tíma verið fyllilega fær um að taka ákvarðanir er lutu að ráðstöfun eigna hans.

Að framangreindu virtu og án þess að annað þurfi að koma til er ekki fallist á það með sóknaraðilum að fyrir hendi sé aðstaða sem að lögum geti leitt til þeirrar niðurstöðu sem þeir sækja til handa Ásdísi Fjólu og Gunnari Þór með aðalkröfu sinni í málinu. Er henni því hafnað. Á sama grunni standa engin rök til þess að sóknaraðilar Gunnar og Gréta Þorbjörg eigi kröfu til þess að fá í sinn hlut þær eignir sem Kristján hafði með erfðaskrá sinni ætlað dóttur þeirra, Evu Mary.

Samkvæmt framansögðu er kröfum sóknarðila í málinu hafnað, en fallist á það með varnaraðilum að eignir þær sem tilgreindar eru í 1. tölulið erfðaskrár Kristjáns E. Kristinssonar frá 25. apríl 1990, að undanskildum munum sem sérstaklega kunna að vera merktir öðrum, eigi að ganga til þeirra og sóknaraðila Gunnars Ingibergssonar, sbr. 3. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962.

Eftir framangreindum málsúrslitum verður sóknaraðilum sameiginlega gert að greiða varnaraðilum málskostnað eins og í úrskurðarorði greinir, en hann verður að úrskurða hverjum varnaraðila fyrir sig, sbr. 2. mgr. 132. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                                Eignir þær sem tilgreindar eru í 1. tölulið erfðaskrár Kristjáns E. Kristinssonar frá 25. apríl 1990 skulu renna til lögerfingja hans samkvæmt 3. mgr. 3. gr. erfðalaga nr. 8/1962, að undanskildum munum sem sérstaklega kunna að vera merktir öðrum.

                Sóknaraðilar, Gunnar Ingibergsson, Gréta Þorbjörg Jónsdóttir, Gunnar Þór Gunnarsson og Ásdís Fjóla Gunnarsdóttir, greiði sameiginlega hverjum varnaraðila, Elísabetu Ingibergsdóttur, Kristni Ingibergssyni, Steinþóri Ingibergssyni, Öldu Ingibergsdóttur, Margréti G. Guðmundsdóttur, Ingibjörgu Bjarnadóttur, Pétri Jónssyni, Guðrúnu Helgu Jónsdóttur, Guðlaugi Jónssyni, Bjarna Þór Lúðvíkssyni, Skúla Bjarnasyni, Bjarna Bjarnasyni, Kristínu Ingunni Jónsdóttur, Ingibergi Gunnari Jónssyni, Kristni Friðriki Jónssyni og Lilju Björk Jónsdóttur, 12.500 krónur í málskostnað.