Hæstiréttur íslands
Mál nr. 185/2010
Lykilorð
- Verksamningur
- Galli
- Skuldajöfnuður
|
|
Fimmtudaginn 2. desember 2010. |
|
Nr. 185/2010. |
Jón Bergsson ehf. og Goddi ehf. (Marteinn Másson hrl.) gegn þrotabúi Suðulistar-Reisis ehf. (enginn) Bjarna Guðjóni Bjarnasyni og Verði tryggingum hf. (Björn L. Bergsson hrl.) |
Verksamningur. Galli. Skuldajöfnuður.
J og G ehf. gerðu verksamning við þb. S ehf., um að hinn síðastnefndi tæki að sér framkvæmdir við stálgrindahús að Kletthálsi 15 í Reykjavík. J og G ehf. höfðuðu mál þetta gegn þb. S ehf., byggingarstjóra verksins, B, og tryggingafélaginu V hf. til heimtu skaðabóta vegna meintra galla á verkinu. J og G ehf. lögðu fram matsgerðir dómkvaddra matsmanna, dags. 28. maí 2006 og 18. apríl 2007, og héraðsdómur, skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, tók til greina kröfu þeirra vegna galla og ofgreiðslu verklauna. Þb. S ehf. lagði fram matsgerð dómkvadds manns, dags. 11. mars 2009, þess efnis að þrotabúið ætti kröfu á hendur J og G ehf. vegna aukaverka og tafa á verkinu af þeirra völdum. Héraðsdómur sýknaði þb. S ehf., B og V hf. af kröfum J og G ehf. þar sem krafa þrotabúsins til skuldajöfnuðar mætti að fullu kröfum stefndu. Hæstiréttur féllst á tvær kröfur J og G ehf. og hækkaði bótakröfu þeirra sem því nam, en í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að J og G ehf. hefðu hvorki með yfirmatsgerð né á annan hátt lagt grundvöll að því að úrlausn héraðsdóms um aðra kröfuliði en þegar hefði verið vikið að yrði hnekkt fyrir Hæstarétti. Var héraðsdómur því staðfestur um aðra kröfuliði J og G ehf. Þá var niðurstaða héraðsdóms, um sýknu þb. S ehf., staðfest þar sem gagnkröfur þrotabúsins mættu að fullu kröfum J og G ehf. miðað við fyrirliggjandi útreikninga. Í dómi Hæstaréttar segir um hið síðastnefnda að þar sem gagnkröfur þb. S ehf. væru samrættar kröfum J og G ehf. hefði yfirlýsing þrotabúsins um skuldajöfnuð afturvirk réttaráhrif þannig að kröfurnar féllu niður um leið og þær væru hæfar til að mætast. Væru því ekki efni til að dæma J og G ehf. dráttarvexti. Fyrir Hæstarétti höfðu J og G ehf. uppi efnisleg mótmæli við gagnkröfu þb. S ehf. til skuldajöfnuðar sem ekki var byggt á í héraði. Komu málsástæður þessar ekki til álita við úrlausn málsins, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. mars 2010 og krefjast þess nú að stefndu verði gert að greiða sér óskipt 4.722.085 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.018.000 krónum frá 22. júlí 2006 til 18. júlí 2007, en af 4.722.085 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir þess að stefnda, þrotabúi Suðulistar-Reisis ehf., verði gert að greiða þeim sameiginlega 3.454.590 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 2.923.000 krónum frá 22. júlí 2006 til 25. janúar 2008, en af 3.454.590 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu, Bjarni Guðjón Bjarnason og Vörður tryggingar hf., krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. mars 2010 var bú Suðurlistar-Reisis ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Samkvæmt 3. mgr. 23. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála tók þrotabúið þá við aðild málsins, sbr. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þrotabú Suðulistar-Reisis ehf. hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti og fer því um kröfugerð og rekstur málsins varðandi þrotabúið eftir ákvæðum 3. mgr. 158. gr. laga nr. 91/1991.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu áfrýjendur og stefndi þrotabú Suðulistar-Reisis ehf. verksamning um að síðastnefnda fyrirtækið tæki að sér að reisa 1220 fermetra stálgrindarhús við Klettháls 15 í Reykjavík fyrir áfrýjendur.
Áfrýjendur reisa kröfur sínar á því að gallar hafi verið á verkinu og krefjast annars vegar bóta af stefnda þrotabúi Suðulistar-Reisis ehf. vegna vanefnda félagsins sem verksala og hins vegar bóta af stefnda Bjarna Guðjóni Bjarnasyni sem byggingarstjóra svo og stefnda Verði tryggingum hf. sem hann var tryggður hjá.
Í greinargerð stefnda í héraði var krafist sýknu en til vara verulegrar lækkunar á kröfum áfrýjenda. Byggt var á því annars vegar að kröfur áfrýjenda væru ýmist tilhæfulausar með öllu eða allt of háar og hins vegar að stefndi þrotabú Suðulistar-Reisis ehf. hefði lýst yfir skuldajöfnuði á móti kröfum áfrýjenda með kröfu um skaðabætur á hendur þeim, aðallega fyrir tafir á framkvæmd verksins sem áfrýjendur bæru ábyrgð á, svo og fyrir aukaverk sem unnin hefðu verið fyrir þá.
Áfrýjendur lögðu fram matsgerð dómkvadds manns 28. maí 2006 þar sem lagt var til grundvallar að gallar væru á ákveðnum verkþáttum á verki stefnda þrotabúi Suðulistar-Reisis ehf. Þá lögðu þeir fram matsgerð dómkvadds manns 18. apríl 2007 þar sem metinn var kostnaður við að yfirfara og herða upp bolta í burðarvirki hússins. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, tók til greina kröfu áfrýjenda vegna gallanna og ofgreiðslu verklauna samtals að fjárhæð 7.600.675 krónur.
Suðulist-Reisir ehf. lagði fram matsgerð dómkvadds manns 11. mars 2009 þar sem á því var byggt að fyrirtækið ætti kröfur á hendur áfrýjendum meðal annars fyrir aukaverk og tafir á verkinu sem áfrýjendur bæru ábyrgð á. Héraðsdómur sýknaði stefndu af kröfum áfrýjenda þar sem krafa stefnda þrotabús Suðulistar-Reisis ehf. til skuldajöfnuðar mætti að fullu kröfum stefndu.
II
Áfrýjendur krefjast þess að þeir kröfuliðir, að frátöldum lið A-1, sem héraðsdómur tók ekki til greina eða lækkaði verði dæmdir samkvæmt kröfum þeirra með dráttarvöxtum. Þeir andmæla einnig þeim kröfum stefnda þrotabús Suðulistar-Reisis ehf. sem teknar voru til greina í hinum áfrýjaða dómi til skuldajöfnuðar. Enn fremur telja þeir að aðeins beri að taka til greina kröfu stefnda þrotabús Suðulistar-Reisis ehf. um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 90.960 krónur en ekki að fjárhæð 443.831 krónu svo sem gert var í hinum áfrýjaða dómi. Loks krefja þeir stefnda Bjarna Guðjón Bjarnason skaðabóta vegna galla á verkinu, er hann beri ábyrgð á, sem byggingarstjóri þess samkvæmt 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo og Vörð tryggingar hf. sem hann var ábyrgðartryggður hjá.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti viðurkenndu stefndu, Bjarni Guðjón Bjarnason og Vörður tryggingar hf., bótaskyldu Bjarna Guðjóns á verkliðum A-3, A-4, B og C-1 til C-5 samtals að fjárhæð 4.261.085 krónur. Þessir stefndu krefjast eigi að síður sýknu þar sem bótakrafan hafi þegar verið greidd með skuldajöfnuði við kröfur sem stefndi þrotabú Suðulistar-Reisis ehf. hafi átt á hendur áfrýjendum.
III
Fyrir Hæstarétti hafa áfrýjendur uppi efnisleg mótmæli við gagnkröfu stefnda þrotabús Suðurlistar-Reisis ehf. til skuldajöfnuðar um fjártjón vegna verktafa og umframkostnaðar vegna grúspúða og stálvinkla. Þá byggja áfrýjendur á því að stefndi hafi sýnt af sér tómlæti við að halda fram gagnkröfum sínum til skuldajöfnuðar.
Ekki verður séð að á þessu hafi verið byggt í héraði og er því um að ræða nýjar málsástæður sem eru of seint fram komnar, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Koma þær því ekki til álita við úrlausn málsins.
Fallist er á með áfrýjendum að skýra beri verksamning, sem þeir gerðu við stefnda þrotabú Suðulistar-Reisis ehf., svo að stefndi hafi tekið að sér tengingar þakniðurfalla við regnvatnslagnir og er því fallist á kröfu áfrýjenda samkvæmt lið A-6 um greiðslu að fjárhæð 115.000 krónur sem er í samræmi við niðurstöðu matsgerðar þar um.
Einnig er fallist á með áfrýjendum að stefndi þrotabú Suðulistar-Reisis ehf. eigi eingöngu rétt á endurgreiðslu kostnaðar við hönnun á sökkulskautum og kostnaðar vegna fjögurra reikninga byggingarfulltrúa samtals að fjárhæð 90.960 krónur. Annan kostnað að fjárhæð 352.871 krónu vegna kaupa á rafmagni svo og leigu og losun á sorpgámum bar stefnda þrotabúi Suðulistar-Reisis ehf. að bera á grundvelli greinar 19.2 í ÍST 30 sem var hluti af verksamningi aðila. Lækkar krafa stefndu til skuldajöfnuðar sem því nemur.
Héraðsdómur var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, byggingarverkfræðingi og byggingartæknifræðingi. Áfrýjendur hafa hvorki með yfirmatsgerð né á annan hátt lagt grundvöll að því að úrlausn héraðsdóms um aðra kröfuliði, en hér að framan var að vikið, verði hnekkt fyrir Hæstarétti og verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur um þá með vísan til forsendna hans.
Í hinum áfrýjaða dómi var fallist á kröfur áfrýjenda að fjárhæð 7.600.675 krónur. Að viðbættum þeim kröfum, sem fallist var á hér að framan, verða kröfur áfrýjenda að fjárhæð 7.715.675 krónur því teknar til greina.
Staðfest verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að sýkna stefnda þrotabú Suðulistar-Reisis ehf. þar sem gagnkröfur þrotabúsins mæta að fullu kröfum áfrýjenda miðað við þá útreikninga sem fyrir liggja í málinu.
Þar sem gagnkröfur stefnda, þrotabús Suðulistar-Reisis ehf., voru samrættar kröfum áfrýjenda hafði yfirlýsing stefnda um skuldajöfnuð afturvirk réttaráhrif þannig að kröfurnar féllu niður um leið og þær voru hæfar til að mætast. Eru því ekki efni til þess að dæma áfrýjendum dráttarvexti.
Krafa áfrýjenda á hendur stefndu er um greiðslu þeirra óskipt af stefnufjárhæðinni. Af hálfu áfrýjenda er málið lagt þannig fyrir að ákveðnir liðir í kröfu eigi jafnt við um alla stefndu þótt byggt sé á ólíkum bótagrundvelli. Þar sem krafa áfrýjenda er samkvæmt framansögðu niður fallin fyrir greiðslu með skuldajöfnuði við kröfu stefnda Suðulistar-Reisis ehf., verður krafa annarra stefndu, Bjarna Guðjóns Bjarnasonar og Varðar trygginga hf., um sýknu tekin til greina.
Í ljósi úrslita málsins verður áfrýjendum gert að greiða stefndu, Bjarna Guðjóni Bjarnasyni og Verði tryggingum hf., málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Jón Bergsson ehf. og Goddi ehf., greiði óskipt hvorum stefndu, Bjarna Guðjóni Bjarnasyni og Verði tryggingum hf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 22. desember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 27. október 2009, er höfðað með stefnu birtri 19. og 22. september 2008.
Stefnendur eru Jón Bergsson ehf., Lynghálsi 4 í Reykjavík, og Goddi ehf., Auðbrekku 19 í Kópavogi.
Stefndu er Suðulist-Reisir ehf., Lónsbraut 2, Hafnarfirði, Bjarni Guðjón Bjarnason, Hellubraut 8, Hafnarfirði og Vörður tryggingar hf.
Endanlegar dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði in solidum dæmdir til þess að greiða stefnendum 6.876.085 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 6.172.000 krónum frá 22. júlí 2006 til 18. júlí 2007, en af 6.876.085 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndi Suðulist-Reisir ehf., verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 2.316.590 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 1.785.000 krónum frá 22. júlí 2006 til 25. janúar 2008, en af 2.316.590 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndu hafa aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda. Til vara krefjast þeir þess að fjárkrafa stefnanda sæti verulegri lækkun Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda. Stefndu Bjarni og Vörður tryggingar hf. gera einnig til vara kröfu um að dráttarvextir verði einungis dæmdir frá dómsuppsögudegi og að málskostnaður verði látinn niður falla.
I.
Málavextir:
Með samningi dagsettum 23. desember 2003 gerðu stefnendur og stefndi Suðulist-Reisir ehf. með sér verksamning um byggingu stálgrindarhúss fyrir stefnendur. Um var að ræða reisingu á verslunar- og lagerhúsnæði á einni hæð að Kletthálsi 15 í Reykjavík. Stefndi Suðulist Reisir ehf. sá einnig um byggingu undirstöðu, sökkla og plötu. Húsið er um 1220 fm. stálgrindarhús á steyptri plötu. Stefndi Suðulist Reisir ehf. átti að leggja til allt efni til verksins. Verkið átti að vera fyrsta flokks og unnið samkvæmt gildandi stöðlum og reglugerðum og almennum góðum hefðum við byggingarframkvæmdir. Auk þess var íslenskur staðall ÍST-30 hluti verksamnings. Verkinu átti að vera að fullu lokið 1. apríl 2004. Fyrir verkið áttu stefnendur að greiða fast verð kr. 46.775.000 með virðisaukaskatti og óháð verðbreytingum á verktímanum. Stefndu bar að skrá byggingarstjóra og iðnmeistara á verkið að höfðu samráði við stefnendur og var þóknun byggingarstjóra innifalin í samningsverðinu. Við samningsgerðina vilja stefnendur meina legið hafi fyrir þær teikningar af húsinu, sem framkvæma átti eftir.
Eftir samningsgerð buðu stefnendur einnig út framkvæmdir við gerð púða, fyllingu, sökkla og plötu. Fulltrúi stefnda Suðulistar-Reisis ehf., Bjarni G. Bjarnason, tók þetta verk að sér þar og fékk undirverktaka Alefli ehf., til þess að framkvæma verkið að fyrir sama verð og boðið hafði verið og vann Bjarni G. Bjarnason sem byggingastjóri á þessum verkþætti eins og byggingu hússins. Var þessi verþáttur gerður upp með heildargreiðslu 11.964.850 króna að viðbættu 10% álagi 1.196.485 krónum eða samtals 13.161.335 krónum.
Frá undirritun samninga og fram að samþykki byggingarnefndateikninga voru gerðar nokkrar breytingar á húsinu, sem flestar voru útlitsbreytingar og fólust einkum í því að óskað var eftir lituðu gleri í hluta byggingarinnar og keyrsluhurðum breytt, auk þess sem opnanlegum gluggafögum var fækkað og smávægileg breyting á fjórum gluggum yfir inngönguhurðum á norður- og vesturhlið hússins.
Að sögn stefnanda sóttist verkið seint og illa. Seint á árinu 2004 og í byrjun árs 2005 var SuðulistReisir ehf. farinn að hafi uppi ágreining um greiðslu aukakostnaðar í verkinu, sem stefnendur hafa ekki fallist á. Talsvert var reynt til að jafna þennan ágreining en án árangurs. Í þessum viðræðum, og í kjölfar bréfs lögmanns stefnenda til stefnda Suðulistar-Reisis ehf., varð að samkomulagi að stefndi Suðulist-Reisir ehf. lyki við verkið samkvæmt skyldum sínum skv. samningi og leyst yrði úr ágreiningsmálum fyrir dómstólum ef með þyrfti. Þrátt fyrir þetta ástand tóku stefnendur þó húsið í notkun 1. mars 2005. Stefndi, Suðulist Reisir ehf., hóf þá aftur vinnu við að ljúka verkinu um mitt sumar 2005, en lagði vinnu niður skömmu síðar og er hluta verksins enn ólokið og annað gallað að mati stefnanda. Byggingarstjóri hefur ekki látið fara fram lokaúttekt verksins gagnvart byggingaryfirvöldum. Stefnendur létu þá fara fram úttekt á verkstöðu sem var gerð af Klöpp arkitektum - verkfræðingum ehf. að viðstöddum fyrirsvarsmanni stefnda Suðulistar-Reisis ehf. Beiðni stefnenda um dómkvaðningu matsmanns var send Héraðsdómi Reykjavíkur með matsbeiðni dags. 03.10.2005. Dómkvaðningin var tekin fyrir 18. nóvember 2005 og var þá lagður fram viðauki við matsbeiðnina dags. þann sama dag. Helgi S. Gunnarsson, byggingaverkfræðingur og húsasmíðameistari, var dómkvaddur til verksins. Matsfundur var haldinn 22.12.2005 og var þá lagður fram annar viðauki við matsbeiðnina. Staðfestir voru verulegir gallar á verkinu og kostnaður metinn við að ljúka verkinu samkvæmt samningi.
Í október 2006 kom svo í ljós að boltar í burðarvirki hússins (stálgrindinni) voru sumir lausir og að úttekt byggingaryfirvalda hafði ekki farið fram svo sem skylt var.
Var því talið nauðsynlegt að dómkvaddur yrði matsmaður á ný til að skoða og meta hvort samsetning á burðarvirki hússins væri í samræmi við teikningar og hönnunarforsendur framleiðanda stálvirkisins, sem er Arcus í Lettlandi.
Niðurstaða matsins lá fyrir með matsgerð þann 18.04.2007 og var tjónið metið á 704.085 krónur á verðlagi í febrúar 2007.
Stefndi Suðulist-Reisir ehf. lagði á það áherslu í sinni málavaxtalýsingu að stefnendur hafi átt alla sök á þeim töfum sem urðu á verkinu. Í samningnum er tekið fram að verkkaupi leggi til steyptar undirstöður og plötu. Verkinu átti að vera lokið hinn 1. apríl 2004.
Óhjákvæmilegar tafir hafi orðið á verkinu vegna vöntunar á hönnun, útfærslum og uppdráttum frá hönnuðinum, en hann kom fram fyrir hönd stefnenda gagnvart stefnda Suðulist-Reisi ehf. og framleiðandanum.
Ekki greinir aðila á um upphafið og að málið eigi rætur sínar að rekja til verksamnings sem aðilar þess gerðu sín á milli 23. desember 2003. En um skyldur samningsaðila er nokkur blæbrigðamunur og eins um tafir sem urðu á framkvæmdinni.
Stöðugt hafi dregist að ganga frá og ákveða lokahönnun hússins svo að framleiðandanum yrði unnt að hefja smíði hússins.
Það var síðan ekki fyrr en 1. apríl 2004 þegar verkinu átti að vara lokið að efnið í stálgrindina lagði af stað til landsins. Jarðvinna var þá enn í gangi en hún var alfarið á vegum stefnenda. Stefnendur höfðu hins vegar ekkert gert í því að útvega sér smiði til að slá upp sökklum og annast steypu á undirstöðum og plötu og varð úr að stefndi fór í það að afla tilboða í það verk fyrir stefnendur. Tilboðin voru lögð fyrir stefnendur og það lægsta valið. Sökklarnir voru steyptir og fyllt inn í grunninn, en ekki var unnt að steypa plötuna vegna þess að Haraldur Árnason hafði ekki skilað af sér teikningum vegna lagna í grunninn og því gat pípulagningamaðurinn, sem stefndu höfðu ráðið til verksins, ekki lagt neyslu og hitalagnir í grunninn. Jafnframt vantaði enn teikningar af hitalögninni, en húsið er kynnt með gólfhita.
Eftir að stálgrindin hafði legið óhreyfð á lóð hússins í rúman mánuð, var tekin sú ákvörðun, til að spara tíma, að reisa grind hússins beint á sökklana. Kostaði þetta margvísleg óþægindi og fyrirhöfn fyrir stefnda, sem átti að hafa steypta og frágengna plötu undir sér við verkið. Meðal annars þurfti að útbúa sérstaka vinkla sem settir voru á sökkulveggina til að halda uppi gluggunum.
Enn bólaði hins vegar ekkert á teikningunum frá Haraldi, þrátt fyrir mikinn eftirrekstur. . Eftir að grindin hafði staðið þannig í rúma tvo mánuði var hafist handa hinn 28. júlí 2004 við að setja þakið á og síðan var í framhaldinu ákveðið að klæða útveggina. Hins vegar var ísetning glugga látin bíða enn um sinn þar sem ekki var útséð um hvenær unnt yrði að loka húsinu. Hinn 9. september komu loks lagnateikningarnar. Var þá hafist handa við að setja gluggana í, þar sem útlit þótti þá fyrir að platan yrði steypt fljótlega.
Nú brá hins vegar svo við að stefnendur ákváðu að þykkja plötuna í hluta hússins. Varð stefnandi því að fara með öll sín tæki og búnað úr húsinu á meðan skafið var ofan af fyllingunni. Þá hófst bið eftir vinnu pípulagningameistarans og stóð hún í sex vikur. Það var loks hinn 30. október 2004 sem platan var steypt og þremur dögum síðar hófst vinna við reisningu milliveggja. Þá voru liðnir 6 mánuðir frá því að vinna við reisningu grindarinnar hófst.
Allar þessar tafir og bráðabirgðaúrræði sem gripið var til vegna þeirra, juku að sjálfsögðu að mun alla fyrirhöfn stefnda og þá sérstaklega byggingarstjórans, Bjarna Bjarnasonar. Þar sem stefnendur ákváðu að ráða sér ekki eftirlitsmann eða umsjónarmann með verkinu, þrátt fyrir ákvæði þar að lútandi í verksamningnum, hafi það komið í hlut Bjarna að annast um allan eftirrekstur og samskipti við byggingaryfirvöld með sífelldum undanþágubeiðnum vegna þess hve Haraldi gekk illa að skila tilskyldum uppdráttum
Í byrjun vetrar kom síðan upp ágreiningur milli aðila er sneri að þakkantinum. Í upphaflegri útfærslu Arcusar var gert ráð fyrir festingum og frágangi þakkants, sem stefndi Suðulist-Reisir ehf. gat ekki mælt með. Varð úr að Haraldur var fenginn til að útfæra kantinn þannig að hann stæðist kröfur um vindálag. Kom þá strax fram ágreiningur um það hvor málsaðila ætti að bera þann aukakostnað sem því fylgdi, en hann var umtalsverður. Lagði Haraldur þá fram enn eina tillögu að útfærslu á þakkantinum, sem var umtalsvert umfangsminni í framkvæmd og ódýrari.
Stefndi Suðulist Reisir ehf. fékk hins vegar ekki leyfi stefnenda til þess að leggja hina nýju útfærslu á þakkantinum fyrir byggingaryfirvöld. Hver ástæðan var er honum ekki kunnugt um. Engin lausn fékkst því á málinu. Stefnda Suðulist Reisi ehf. er kunnugt um að stefnendur hafa látið klæða þakkantinn án aðildar eða samráðs við hann eða við byggingarstjóra.
Stefndi Suðulist-Reisir hefur uppi í málinu gagnkröfur til skuldajafnaðar og fékk þeim til stuðnings dómkvaddan matsmann til þess að meta rétt og sanngjarnt endurgjald fyrir þar tilgreindrar þjónustu í þágu stefnenda.
Stefndu, Björgvin Guðjón Bjarnason og Vörður tryggingar ehf. gerir málavaxtalýsingu stefnda Suðulistar Reisis ehf. að sinni
II.
Verður nú rakin sundurliðun á kröfugerð stefnenda sem byggist að mestu á matsgerð Helga S. Gunnarssonar dómkvadds matsmanns
A hluti matsbeiðnar
1. Kostnaður við að vinna verkþættina fjóra sem þarf til að ganga frá og lagfæra þá liði sem matsliðir 1, 2, 3, og 4 í A lið matsbeiðnar.
|
Kröfuliður 1 : |
Matsfjárhæð : kr. 849.000 |
|
Kröfuliður 2 : |
Matsfjárhæð : kr. 666.000 |
|
Kröfuliður 3 : |
Matsfjárhæð : kr. 306.000 |
|
Kröfuliður 4 : |
Matsfjárhæð : kr. 193.000 |
|
Samtals eru matsliðir 1, 2, 3, og 4 í A sbr. bls. 6 og 7 í matsgerð. Matsliður 5 í matsgerð Vantar flasningar við þakbrún sbr. matsgerð bls. 8. Matsmaður segir að þessi verkþáttur hafi átt að vera inni í samningsverki matsþola. |
kr. 2.014.000 |
|
Matsliður 6 í matsgerð Ófrágengnar tengingar |
kr. 273.000 |
|
þakniðurfalla sbr. matsgerð bls. 8-9.
|
kr. 115.000 |
|
Matsliður 7. Frágangur þakkants var ólokið. Í matsgerðinni var gengið út frá nokkuð kostnaðarsamri lausn skv. teikningum og er ekki miðað við hana að svo stöddu. Við þessa framkvæmd var farinn ódýrari leið var sá kostnaður |
kr. 1.785.000 |
|
B hluti matsbeiðnar Meintir gallar á verkinu. |
|
|
1. Matsliður 1 í B hluta matsgerðar Leki er víða með gluggum og reyklúgum í útveggjaeiningum sbr. matsgerð bls. 11-12. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. Sjá rökstuðning í matsgerð bls. 11.
|
kr. 1.739.000 |
|
C hluti matsbeiðnar Ólokin verk innanhúss. |
|
|
1. Matsliður 1 og 2 í C hluta matsgerðar Málning á stálgrind rispuð og ryðguð sbr. matsgerð bls. 13. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. |
kr. 1.250.000 |
|
2. Matsliður 3 í C hluta matsgerðar Frágang vantar á veggjaeiningum yfir inngangsdyrum o.fl. sbr. matsgerð bls. 14. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. |
kr. 140.000 |
|
3. Matsliður 4 og 5 í C hluta matsgerðar Vantar lokanir og brunaþéttingu sbr. matsgerð bls. 14-15. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. |
kr. 426.000 |
|
6. Matsliður 10 í C hluta matsgerðar Vantar frágang, samkvæmt teikningum, kringum vöruhurð sbr. matsgerð bls. 16-17. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. |
kr. 35.000 |
|
7. Matsliður 12 í C hluta matsgerðar Vantar loft og gólf í tæknirými sbr. matsgerð bls. 17. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. |
kr. 146.000 |
|
8. Matsliður 13 í C hluta matsgerðar Vantar gólfniðurfall í tæknirými sbr. matsgerð bls. 18, eins og áskilið er í gildandi reglugerð.. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. |
kr. 34.000 |
|
|
|
|
Niðurstaða matsgerðar Þorsteins Egilssonar vegna herslu á grind hússins er eins og áður ef greint frá hér að framan |
kr. 704.085 |
|
|
|
|
Samtals er um að ræða kröfur að fjárhæð |
kr. 8.661.085 |
Jafnframt er gerð sú krafa að stefndi, Suðulist Reisir ehf. verði dæmdur til greiðslu á kr. 531.590, með dráttarvöxtum frá 25.01.2008, frá þeim degi til greiðsludags, en þá voru liðnir 15. dagar frá dómsuppsögu í málinu nr. E 1846 / 2005.
Og þá er líka gerð krafa á hendur stefnda, Suðulist Reisir ehf. veðri dæmdur til greiðslu á kr. 1.785.000, með dráttarvöxtum frá 22. júlí 2006, frá þeim degi til greiðsludags. Þetta er matsliður nr. A liður 7. í stefnu á bls. 6 í stefnu og bls. 10 í matsgerð á dskj. nr. 15 í málinu.
Sú krafa er því gerð að nú í þessu máli að eingöngu stefndi, Suðulist, verði dæmdur til greiðslu þessarar kröfu.
Heildarstefnukröfur málins eru því 9.192.675 krónur, sem er heildar stefnukrafa málsins, auk framangreindra vaxtakrafna.
III.
Málsástæður og lagarök stefnenda:
Stefnendur neita heimildar í 1.mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 til að beina kröfum í einu máli að verktakanum, Suðulist-Reisi ehf., sem byggði fasteingina Klettháls 15, Reykjavík, og einnig að Verði tryggingar hf., vegna byggingarstjóratryggingar, sem stefndi Vörður hefur ítrekað neitað að greiða. Telja stefnendur sig hafa orðið fyrir tjóni og hafa aflað sér matsgerðar til að sýna fram á í hverju tjónið er fólgið. Stefnendur byggja á því að í kröfugerðinni felist tvær aðskildar kröfur sem byggi á ólíkum bótagrundvelli, en eigi rætur að rekja til sama samnings, og sé ekkert því til fyrirstöðu að fjalla um þær sem slíkar í einu máli. Varði það efni máls en ekki form að hvaða marki fallist yrði á kröfur stefnenda á hendur hvorum stefnda fyrir sig og hvort skilyrði teljast til að dæma hugsanlega bótaábyrgð þeirra in solidum eða ekki.
Stefnendur telja að stefnda, Bjarna Guðjóni Bjarnasyni, hafi sem byggingarstjóra hússins borið að fylgjast með störfum iðnaðarmanna, sem unnu að einstaka verkþáttum. Stefnendur telja að skilja verði ákvæði 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 svo að eftirlitshlutverk byggingarstjóra feli í sér að honum beri að fylgjast með því að hver verkþáttur sé unninn í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Í þessu felist að byggingarstjóranum beri að sjá til þess að hver verkþáttur sé unninn í samræmi við þær faglegu kröfur, sem gera má í hverju einstöku tilviki, sbr. 118. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.
Stefnendur telja, með vísan til niðurstöðu hins dómkvadda matsmanna, hafi verkið ekki verið svo faglega unnið, sem gera mátti kröfu til. Frágangurinn hafi ekki samræmst þeim kröfum, sem gera verði. Af þessum sökum telja stefnendur að byggingarstjóri hússins hafi, með vanrækslu á að tryggja fagleg og tæknilega fullnægjandi vinnubrögð við frágang klæðningarinnar, brotið starfsskyldur sína með saknæmum hætti.
Stefnda, Verði tryggingu hf. er aðallega stefnt á grundvelli nýrra laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, er tóku gildi 1. janúar 2006. Réttargæsluaðild í varasök byggist á eldri lögum um vátryggingarsamninga, ef lagaskilareglur nýju laganna leiða til þeirrar niðurstöðu að eldri lögin gildi um tilvik þetta.
Tilvísun stefnanda til helstu lagaákvæða:
Stefnendur styðja málatilbúnað sinn einkum við réttarreglur um hlutverk og ábyrgð byggingarstjóra, einkum 51. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 31.-33. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Einnig er vísað til annarra reglna er varða hlutverk byggingarstjóra, t.d. 118. gr. byggingarreglugerðar, og reglna er varða það hvernig standa skuli að byggingarframkvæmdum og hvaða hönnunargögn þurfi að vera til staðar.
Um aðild stefnenda er einkum vísað til 19. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Um aðild Vátryggingafélags Íslands hf. í aðalsök er vísað til bótaskyldu félagsins á grundvelli lögboðinnar starfsábyrgðartryggingar byggingarstjóra hússins, sem og til 44.-45. gr. laga um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004, en um réttargæsluaðild félagsins í varasök er vísað til 95. gr. eldri laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954.
Krafa stefnenda um dráttarvexti styðst við ákvæði III. kafla laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001.
Krafa stefnenda um málskostnað úr hendi stefndu styðst við ákvæði 21. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sérstaklega 129. og 130. gr. laganna.
IV.
Málsástæður stefnda Suðulistar-Reisis ehf. og gagnkröfur:
Dómkröfur stefnda um algera sýknu eða til vara um stórfellda lækkun dómkrafna, byggjast á því annars vegar að kröfur þessar séu ýmist tilhæfulausar með öllu eða allt of háar og hins vegar á því að stefndi telur sig eiga gagnkröfur á hendur stefnendum sem hann lýsir til skuldajafnaðar við kröfur þeirra.
Í andsvörum við kröfugerð stefnenda fer stefndi eftir sömu röð og kröfuliðir koma fram í stefnu.
Um lið A-1 er það að segja að sökkullinn var að sjálfsögðu einangraður. Það gerði verktakinn sem byggði hann. Lóð var hins vegar ófrágengin og hæðarmunur var upp í innkeyrsludyr sem notaðar voru við byggingu hússins. Í verksamningi við Alefli ehf., sbr. dskj. nr. 19, er því lýst hvernig á að ganga frá sökklinum. Hefðbundnar úttektir voru gerðar á byggingunni, án athugasemda, en að sjálfsögðu hefði verið gerð athugasemd við það ef fyllt hefði verið að sökklinum óeinöngruðum. Líklegasta skýringin er að efsti hluti einangrunar hafi skemmst og rifnað frá þegar gengið var frá lóðinni. Matsniðurstaðan miðar við að einangra þurfi allan sökkulinn uppá nýtt, en ekki hefur verið sýnt fram á þörf þess.
Liður A-2 skýrist af því að stefnendur áttu að steypa sökkul og plötu og á hana átti að reisa húsið. Frágangurinn sem lýst er í þessum lið að vanti, er til kominn vegna þess að húsið var reist áður en platan kom. Ef allt hefði verið eðlilegt hefði verið frá þessu gengið við plötusteypuna. Stefndu eiga ekki kröfu á því að stefnandi taki þennan aukafrágang á sig og því hefði þetta verið aukaverk, tilkomið vegna þessara frávika frá verksamningi.
Hvað varðar liði A-3 og 4 skal tekið fram að pípulagningameistari hússins var ekki á vegum eða ábyrgð stefnda, heldur stefnenda sjálfra. Þegar platan var steypt, var komið langt fram á haust og orðið kalt í veðri. Neitaði hann að setja vatn á gólfhitalögnina til að þyngja hana fyrir steypu. Reynt var að festa hana niður en engu að síður er mikið flot í slíkri lögn sem var mjög stór. Ljóst er að niðurfall er of hátt miðað við hæðarkvóta gólfsins og er það á ábyrgð pípulagningameistarans. Hvort hann hefur sett það vitlaust niður eða að niðurfallið hafi flotið upp með gólfhitalögninni, skiptir ekki máli, hvort tveggja er á hans ábyrgð.
Um lið 5 er það að segja að sérteikning dagsett 25. júní 2004 lá eðlilega ekki fyrir við gerð verksamnings. Þessi frágangur er hluti af frágangi þakkantsins sem aldrei leystist hvernig ætti að vinna.
Í lið 6 gefur matsmaður sér þá forsendu að lagnir hafi verið komnar upp úr jörðu á réttum stað þannig að stefnandi hafi getað tengt niðurföllin beint við regnvatnslögn. Þessi forsenda matsmannsins er einfaldlega röng. Þessir stútar voru ekki komnir. Lóðarfrágangur var ekki á vegum stefnda og heldur ekki regnvatnslögn í kringum húsið. Stefndi gekk frá niðurföllum á húsinu þannig að unnt var að tengja þau lögninni þegar gengið var frá lóðinni.
Um lið 7 sem varðar þakkantinn er það að segja að útfærsla á honum lá ekki fyrir af hálfu hönnuðar þegar verksamningurinn var gerður. Þegar komið var að því að fara að setja kantinn á lagði hann fram tillögur sem gerðu ráð fyrir að kanturinn yrði allur klæddur með vatnsheldum krossviði. Stefndi mótmælti þessum aukna kostnaði og taldi hann ekki vera innifalinn í tilboði sínu. Lagði hönnuðurinn þá fram aðra tillögu, mun einfaldari og ódýrari. Ekki náðist hins vegar samkomulag um þá útfærslu eins og að framan er rakið.
Stefnendur hafa þegar látið klæða þakkantinn, án samráðs við byggingastjóra, og er stefnda ekki kunnugt um að sú útfærsla sem notuð var hafi verið hönnuð og uppdráttum skilað til byggingafulltrúa eins og lög gera ráð fyrir. Ekkert liggur heldur fyrir um raunverulegan kostnað við þessa framkvæmd. Stefnendur gera kröfu undir þessum lið að fjárhæð kr. 1.785.000,00 og vísa henni til stuðnings í fylgiskjal 2. Slíkt fylgiskjal er hvergi að finna á meðal þeirra gagna sem fylgdu stefnu við þingfestingu málsins.
Um lið B 1 er það að segja að frágangur þéttinga er í öllum tilfellum í samræmi við teikningar og fyrirmæli framleiðanda. Matsmaður tjáir sig ekki um það hvort ástæðu þessa leka megi rekja til handvammar eða hönnunar hússins, eða ef til vill einhvers annars. Stefndi telur langlíklegast að ástæðu þess að þéttingar séu farnar að gefa sig, sé að finna í því að húsið stóð í tæpa þrjá mánuði klætt, þar til hægt var að loka því að fullu. Mikið álag verður á húsinu við þessar aðstæður ef einhvern vind gerir og stundum lætur eitthvað undan. Mikið veður gerði einmitt á meðan húsið var í þessu ástandi og þrýstist þá m.a. einn glugginn út í heilu lagi.
Um lið C-1 gerir stefndi þær athugasemdir að ryðskemmdir í stálgrindinni eru ekki á hans ábyrgð. Ryð komst í grindina á meðan hún beið uppsetningar í einn mánuð og stóð síðan óvarin í næstu tvo mánuði, á meðan beðið var eftir teikningum. Þá var gólfplatan steypt eftir að húsinu hafði verið lokað, með tilheyrandi rakamettun. Stefndi tók ekki að sér málun grindarinnar enda er slíkan verklið hvergi að finna í samningsgögnunum, auk þess sem það er ekki viðtekin venja að reisningu stálgrindar fylgi málningarvinna innanhúss. Engin málning fylgdi heldur húsinu frá framleiðanda þess.
Matsmaður metur þennan lið á kr. 1.250.000,00, sem er stór liður í verki sem hljóðar á tæplega 47 milljónir, og því hefði hans að sjálfsögðu verið getið ef ætlunin hefði verið að stefndi tæki slíkt verk að sér. Stefndi hefði að sjálfsögðu lagfært skemmdir sem hann hefði sjálfur valdið, en það ryð og skellur sem lýst er í matsgerðinni eru ekki af völdum hans eða starfsmanna hans.
Í matslið C-2 er talað um frágang vinkla undir gluggum. Hér er þá sennilega átt við vinklana sem stefndi setti aukalega svo hægt yrði að setja veggjaeiningarnar og gluggana í, þrátt fyrir að platan væri ekki komin. Stefndi hefur ekki gert stefnendum reikning fyrir málun þessara vinkla og því skýtur það skökku við að stefnendur geri kröfu á hendur honum vegna vöntunar í þeirri vinnu. Þetta hefði orðið aukaverk ef stefndi hefði unnið það.
Um liði C 3, 4 og 5 vill stefndi koma því á framfæri að sá frágangur sem þar er lýst, er í samræmi við þau hönnunargögn sem hann hafði undir höndum. Vitað var að veggir sem skilja á milli brunahólfa kæmu í glugga og benti stefnandi strax á það að útfæra yrði einhverja lausn á þessu. Hann margítrekaði þetta á byggingartímanum en sú útfærsla barst aldrei og er hann efins um að hún liggi fyrir í dag. Því er gengið frá veggnum og glugganum með þessum hætti, eins og þetta var teiknað og eins og þetta barst frá framleiðanda. Getur stefndi ekki fallist á að honum beri að greiða kostnað við úrbætur á eigninni, umfram það sem fram kemur í hönnunargögnum. Gildir það, hvort sem um er að ræða gögn frá aðalhönnuði eða framleiðanda, en hvort tveggja var samþykkt af stefnendum.
Matsliður 12 lítur að tæknirýminu og vill stefndi koma því á framfæri að ekki var unnt að steypa plötuna í tæknirýminu samhliða gólfplötunni, þar sem frágangi lagna var þar ekki lokið. Henni var því sleppt. Steypuílögnin var unnin og gerð upp samkvæmt einingaverðum og var stefnendum því að sjálfsögðu ekki gerður reikningur vegna tæknirýmisins. Þeir eiga því ekki neina kröfu á hendur stefnda vegna þessa.
Hvað varðar loftið í tæknirýminu þá var stefndi stoppaður af við það þar sem sá sem þá var orðinn eigandi hússins að hluta, Stormur ehf., hugðist byggja milliloft yfir hluta húsnæðis síns, sem m.a. næði yfir tæknirýmið.
Um matslið 13 er það eitt að segja að stefndi sá ekki um pípulagnir í húsinu. Hvorki í sökklinum né annars staðar. Stefnendur voru með pípulagningarmeistara á sínum snærum sem annaðist þessi mál, þ.m.t. uppsetningu niðurfalla í gólfplötuna. Hans aðkoma að verkinu fór ekki á neinn hátt í gegnum stefnda.
Matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að herslu á boltum væri ábótavant. Stefndi á í raun engan kost á að rengja það eða staðreyna.
Þrátt fyrir niðurstöðu matsmannsins telur stefndi að sönnun skorti fyrir því að ástæður þess að uppá herslu boltanna vantaði, megi rekja til handvammar af hans hálfu eða starfsmanna hans. Þrautreyndir fagmenn unnu að uppsetningu stálgrindarinnar og verður að teljast mun líklegra að orsakanna megi rekja til meðferðarinnar á stálgrindinni eftir að hún var sett upp.
Gagnkröfur Suðulistar-Reisis ehf. til skuldajafnaðar sem tengjast útlögðum kostnaði.Umfjöllun dómenda um þær.
Í fyrrgreindu dómsmáli milli aðila hafði stefndi uppi kröfur í framhaldssök vegna ýmiss kostnaðar sem hann greiddi fyrir stefnendur á byggingartímanum. Kröfum þessum var vísað frá dómi þar sem skorta þótti á rökstuðning fyrir þeim. Eru sömu kröfur nú hafðar uppi með ítarlegri rökstuðningi, sem miðar að því að sýna fram á að um sé að ræða kostnað sem ekki teljist hluti af verksamningi.
Eins og margoft hefur rakið og greinilega kemur fram í skjölum málsins, var mikill dráttur á afhendingu allra hönnunargagna og stóð það verkinu fyrir þrifum. Stefnendur vanefndu einnig þá skyldu sína, bæði samkvæmt samningnum og ákvæðum ÍST 30, að hafa umsjónar og eftirlitsmann með verkinu. Hafi það fallið í hlut byggingastjórans að annast alla þá vinnu sem verkkaupar áttu að sinna að þessu leyti.
Þegar loks var hægt að byrja að vinna í sökklunum vantaði raflagnateikningar af húsinu. Ekki var því hægt að ganga frá sökkulskautunum í grunninn og stöðvaði það framkvæmdina. Þegar ekkert bólaði á neinum slíkum gögnum frá verkkaupum varð sú niðurstaða að stefndi fengi raflagnahönnuð til að vinna þær teikningar. Til verksins var fengin verkfræðistofan Munus og hljóðaði reikningur hennar á upp á 25.000 krónur auk virðisaukaskatts. Greiddi stefndi þessa fjárhæð. Í verksamningnum kemur skýrt fram að verkkaupar áttu að annast og kosta hönnun, aðra en þá sem unnin var af framleiðanda stálgrindarinnar í Lettlandi. Þessi kostnaður sé því augljóslega ekki hluti af því sem stefndi átti að bera vegna framkvæmdarinnar.
Í gögnum málsins kemur fram að hönnuðurinn, sem býr á Akureyri, sendi iðulega teikningar með flugi, merktar stefnda. Stefndi þurfti því að fara og ná í þær og leggja þær fyrir borgarverkfræðing til samþykktar. Jafnframt þurfti hann þá iðulega að greiða ýmis gjöld sem fylgja slíkri afgreiðslu. Stefndi gerir kröfu um endurgreiðslu þess kostnaðar sem á hann féll af þessum völdum. Eru lögð fram afrit fjögurra reikninga borgarverkfræðings, samtals að fjárhæð 65.960 krónur sem stefndi greiddi. Tilefni hvers og eins reiknings skýrir sig sjálft.
Samkvæmt verksamningum átti stefndi ekki að leggja neitt annað fram en vinnu sína og það efni sem keypt var frá Lettlandi. Hann átti því ekki að bera rafmagnskostnaðinn, hvorki við lýsingu á verkstað né annað. Það er löngu viðtekin og rótgróin venja að verkkaupi leggur allt slíkt til. Samtals greiddi stefndi Orkuveitu Reykjavíkur 185.637 krónur vegna rafmagnskostnaðar á Kletthálsi 15. Þann kostnað áttu verkkaupar að bera og því krefst stefndi endurgreiðslu hans.
Stálgrindin kom í gámum og á flekum með skipi frá Lettlandi. Miklar umbúðir fylgja slíkum farmi sem þurfti að farga. Á byggingartímanum fellur líka til heilmikið af úrgangi og umbúðum. Stefndi tók ekki á sig þann kostnað sem óhjákvæmilega fylgir slíkri förgun enda samrýmist það ekki viðteknum venjum á þessu sviði. Það er verkkaupa að bera allan slíkan tilfallandi kostnað ef hann er ekki berum orðum felldur á verktaka í verksamningi.
Í upphafi verksins var fenginn gámur frá Gámaþjónustunni sem allt sorp var sett í. Fram eru lagðir fimm reikningar frá Gámaþjónustunni vegna leigu sorpgáms og förgunar. Samtals hljóða þessir reikningar upp á 167.234 krónur án vsk., og gerir stefndi kröfu um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar úr hendi stefndu.
Samtals gerir stefndi kröfu um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 443.831 krónur Lýsir hann þeirri kröfu til skuldajafnaðar við dómkröfur stefnenda, að því leyti sem þær kunna að verða viðurkenndar.
Dómendur telja að þessar greiðslur séu allar þess eðlis að stefnendum beri að standa stefnda Suðulist-Reisi ehf. skil á endurgreiðslu þeirra og því megi stefndi Suðulist-Reisir ehf. nýta sér þær til skuldajafnaðar upp í dómkröfur stefnanda.
Gagnkröfur til skuldajafnaðar vegna tafa á verki og sífellt rof á verkferlinu:
Í 1. grein verksamnings aðila á dskj. nr. 3 segir að íslenskur staðall ÍST 30 gildi fyrir verkið. Í grein 21.3 í staðlinum segir að ef verktaki getur sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni af því að verkkaupi afhenti ekki efni, teikningar eða annað sem hann átti að leggja til, þá eigi hann rétt á bótum sem nemi sannanlega auknum kostnaði sem af því hlaust.
Ýmsar vanefndir stefnenda á skyldum sínum samkvæmt verksamningnum hafa valdið stefnda umtalsverðu tjóni, sem hann krefst bóta fyrir.
Verktíminn átti að vara frá 23. desember 2003 til 1. apríl 2004. Vegna margvíslegra vanefnda stefnenda var ekki unnt að hefja reisningu hússins fyrr en í byrjun maí 2004 og tók hún alls 7 mánuði eftir að verkið hófst, vegna sífelldra tafa og truflana af völdum stefnenda. Ellefu mánuðir liðu þannig frá því að verksamningurinn tók gildi og þar til húsið var komið upp og að mestu frágengið.
Ástæður þessa hafa verið raktar og skýrast af gögnum málsins. Framleiðsla hússins gat ekki hafist vegna þess að teikningar af útfærslu glugga og hurða barst ekki frá hönnuði hússins. Jarðvinnu var ólokið og stefnendur höfðu ekki fengið neinn verktaka til að steypa upp sökkulinn og gólfplötuna. Fór stefndi í það að útvega verktaka í það verk. Hinn 20. maí var reisningu stálgrindarinnar lokið. Tók þá við 69 daga stopp í verkinu á meðan beðið var eftir teikningum af gólflögnum. Hinn 28. júlí var talið óhætt að hefja klæðningu á þaki þar sem boðað hafði verið að lagnateikningarnar væru nú væntanlegar. Þeirri vinnu lauk 13. ágúst. Ekki var unnt að ráðast að fullu í að klæða veggina þar sem enn vantaði gólfplötuna, en gluggarnir og hluti klæðningarinnar áttu að hvíla á plötunni. Samt var byrjað að reyna að klæða fyrir ofan gluggana hinn 9. ágúst 2004. Þeirri vinnu lauk 31. ágúst og við tók 10 daga bið á meðan fundin var lausn varðandi festingar glugga og veggeininga við gólf hússins.
Gluggaísetningin tók 21 dag og lauk 1. október 2004. Þá þurfti stefndi að fara út úr húsinu með öll sín tæki og tól. Ástæðan var sú að til stóð að verktakinn sem vann jarðvinnuna við húsið, fengi hluta húsnæðisins í sinn hlut. Þurfti því að þykkja gólfplötuna að hluta og tvöfalda járnagrindina. Var ráðist í að skafa ofan af fyllingunni í sökklinum, breyta lögnum og járnagrind og loks var platan steypt hinn 30. október 2004. Stefndi komst með sín tæki loks inn á gólfið hinn 3. nóvember 2004. Hann hætti störfum við húsið hinn 25. nóvember 2004.
Vinnudagar samkvæmt skýrslu voru alls 98 en þar af voru 22 dagar á litlum afköstum við klæðningu veggja, vegna þess að ekki var hægt að byggja klæðninguna frá gólfi og uppúr. Biðdagar, þar sem ekkert var hægt að vinna í verkinu voru alls 112. Verkið stöðvaðist alveg í þrígang vegna atvika sem verkkaupar báru einir ábyrgð á.
Hinar miklu tafir ullu stefnda umtalsverðu tjóni og hið sama á við um alla fyrirhöfnina og kostnaðinn við það að vera sífellt að stöðva verkið og hefja það aftur. Alls unnu 12 menn í verkinu og notuðu þeir við það 2 skotbómulyftara og 2 vinnulyftur. Auk þess voru handverkfæri, vinnubíll og vinnuskúr bundnir yfir verkinu. Stefndi óskar nú eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta tjón sitt af þessum völdum og mun gera kröfu um að fá það bætt úr hendi stefnenda. Lýsir hann bótakröfu sinni til skuldajafnaðar við dómkröfur stefnenda.
Aukinn kostnaður stefnda og fyrirhöfn vegna þess að plata var ekki steypt:
Í verksamningi aðila segir að stefndi taki að sér að reisa stálgrindarhús á einni hæð staðsett á steyptri plötu. Jafnframt er tekið fram að verkkaupi leggi til undirstöður og vélslípaða plötu. Þetta var ekki gert og var grindin reist, þak og útveggir klæddir með ófrágengna plötuna. Lyftarar og skæralyftur þurftu því að vinna á ósléttri fyllingunni inni í sökklinum. Tafði þetta verkið og jók allt umfang þess og kostnað fyrir stefnda. Í matsbeiðni óskar hann eftir því að umframkostnaður hans vegna þessa verði metinn. Gerir hann kröfu um að stefnendur bæti honum það tjón sem þessar vanefndir þeirra ullu honum.
Aukin þjónusta byggingastjóra umfram verksamning.
Í verksamningnum segir að þóknun byggingarstjóra sé innifalin í verkinu. Í 5. gr. samningsins segir ennfremur að verkkaupi skipi eftirlitsmann, sem verktaki hafi samráð við um alla framkvæmdina. Bjarni G. Bjarnason var byggingastjóri á byggingartímanum og er það jafnvel enn. Stefnendur vanefndu það hins vegar að skipa eftirlitsmann og var enginn á þeirra vegum sem annaðist umsjón verksins eða annaðist um þá hluti sem í hlut verkkaupa koma óhjákvæmilega við svo mikla framkvæmd.
Það hefur komið fram og lýsir sér í mörgum gögnum málsins hvernig byggingastjórinn varð í raun að annast framkvæmdastjórn þess einnig fyrir verkkaupa. Þar á meðal var að reka á eftir hönnuðinum, sækja um sífelldar undanþágur þegar hönnunargögn bárust ekki, sækja teikningar og leggja fyrir byggingaryfirvöld, taka út vottorð o.fl. o.fl. Jafnframt stóð hann í því að hanna og fá samþykki byggingaryfirvalda fyrir bráðabirgðaúrræðum, sem til voru komin vegna skorts á teikningum.
Aukavarnir vegna plötusteypu.
Platan var steypt inni í húsinu eftir að klæðningu þess var lokið. Til að verja hana klæddi stefndi allt húsið að innan með plasti uppí 1.2 metra hæð. Lagði stefndi bæði til plastið og mannskap við verkið. Þetta verk var augljóslega ekki hluti verksamnings og krefst stefndi greiðslu fyrir það. Í matsbeiðni óskar hann eftir því að metinn verði allur kostnaður hans af þessu. Hann krefst greiðslu úr hendi stefnenda vegna þessa og lýsir kröfu sinni til skuldajafnaðar við dómkröfur stefnenda.
Festing hitalagnar:
Breytingar voru gerðar á járnagrind hússins til að auka burðargetu þess að hluta. Hitalögnin var síðan lögð yfir járnagrindina og var í raun laus. Venjan er að þyngja slíkar lagnir með því að setja á þær vatn, áður en steypt er, en að öðrum kosti fljóta þær upp í steypunni. Pípulagningarmeistarinn vildi ekki setja vatn á lögnina vegna þess hve langt var liðið á árið og orðið kalt í veðri. Til að unnt væri að steypa plötuna og halda verkinu áfram fór stefndi í það með sínum starfsmönnum að festa hitalögnina niður. Var þetta gert með því að “bensla” hana niður með strekkjaraböndum. Platan er stór og því var um umtalsverða vinnu að ræða. Stefndi lagði einnig til efnið. Þar sem pípulagnir í húsinu voru ekki hluti af verksamningi stefnda á hann heimtingu á greiðslu fyrir verk sitt og það efni sem hann lagði fram. Lýsir hann þeirri kröfu sinni til skuldajafnaðar við dómkröfur stefnenda.
Með öllu framansögðu telur stefndi sig hafa sýnt fram á að stefnendur eigi ekki kröfu á hendur honum og jafnvel þótt svo væri talið, þá leiðir skuldajöfnuður gagnkrafna hans við dómkröfur stefnenda til þess að alfarið ber að sýkna hann.
Stefndi mótmælir vaxtakröfum stefnenda sem röngum og í raun ósamræmanlegum kröfugerðinni að öðru leyti. Fer hún í bága við ákvæði laga um vexti og verðtryggingu nr. 48/2001.
Stefndi vísar um kröfur sínar til meginreglna íslensks samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og réttar efndir.
Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Verður nú farið yfir einstaka kröfuliði í matsgerð Helga S. Gunnarssonar sem stefnendur byggja á og álit dómenda í því sambandi.
Kröfuliður 1 :
Varnaraðili hefur mótmælt greiðsluskyldu sinni í þessum kröfulið og segir m.a. um lið A-1 er það að segja að sökkullinn var að sjálfsögðu einangraður. Það gerði verktakinn sem byggði hann. Telur dómurinn að með þessu sé stefndi að segja að þessi verkþáttur sé ekki í hans verkahring samkvæmt verksamningnum.
Um þennan lið segir í umfjöllun matsmanns, að hann telji að þessi verkþáttur sé ekki hluti af verksamningi milli aðila. Stefnandi heldur því fram að um misskilning sé að ræða hjá matsmanni. Á dómskjali nr. 19, komi fram að þessi frágangur, sé þar innifalinn í sérstökum samningi um undirstöður hússins. Á mynd á dómskjali nr. 48 sést að búið er að einangra sökklana og því verður krafa um kostnað vegna þess ekki tekin til greina. Dómurinn er ósammála stefnanda í þessu efni og telur eins og hinn dómkvaddi matsmaður að þessi tiltekni verkþáttur sé ekki hluti verksamningsins frá 23. desember 2003. Matsfjárhæðin 849.000 krónur sætir ekki ágreiningi en ekki talið að stefnda Suðulist- Reisi ehf. beri að standa stefnanda skil á þessu verki.
Kröfuliður 2 :
Dómendur telja andmæli matsþola sem rakin eru hér að framan á bls. 9 í dóminum ekki eiga við rök að styðjast.
Dómendur eru sammála niðurstöðu matsmanns sem er sú að þetta sé hluti af verksamningi dags. 13.12.2003, og að stefnda Suðulist-Reisi ehf. beri að standa stefnanda skil á óumdeildri matsfjárhæð 666.000 krónum.
Kröfuliður 3 :
Dómendur telja hér, eins og matsmaður, vera um ágalla á verkþætti sem stefnda Suðulist-Reisi ehf. bar að standa skil á samkvæmt verksamningi þegar sökkull og plata voru steypt. Suðulist-Reisi ehf. ber að standa stefnanda skil á óumdeildri matsfjárhæð 306.000 krónum.
Kröfuliður 4 :
Dómendur telja andmæli matsþola sem rakin eru hér að framan á bls. 9 í dóminum ekki eiga við rök að styðjast.
Matsmaður segir að þessi frágangur sé ágalli á verki þegar plata var steypt. Með sama rökstuðningi og í síðasta kröfulið er fallist á að Suðulist-Reisi ehf. beri að standa stefnanda skil á óumdeildri matsfjárhæð 193.000 krónum
Matsliðir 2, 3, og 4 í Ahluta sem teknir eru til greina nema 1.165.000 krónum.
Matsliður 5.
Vantar flasningar við þakbrún. Dómendur sammála matsmanni sem segir að þessi verkþáttur hafi átt að vera inni í samningsverki matsþola. Suðulist- Reisi ehf. ber að standa stefnanda skil á óumdeildri matsfjárhæð 273.000 krónum.
Matsliður 6.
Ófrágengnar tengingar þakniðurfalla. Það er mat dómenda að sú skylda verði ekki lögð á matsþola að standa skil á þessum verkþætti vegna þess að lagnir voru sannanlega ekki komnir upp úr jörðu svo hann gæti tengt niðurföll beint við regnvatnslögn. Hér stóð upp á stefnendur að hafa stúta tilbúna. Er því fallist á mótbárur matsþola við þessum matslið.
Matsliður 7.
Frágangi þakkants var ólokið.
Dómendur telja engan vafa leika á því að samkvæmt verksamningnum eigi matsþoli að ganga frá þakkanti og að því var ólokið þegar hann fór frá verkinu. Stefnendur miða kröfu sína við ódýrari leið en metin er í matsgerð og verður því matsþola gert að standa skil á kröfu stefnenda að fjárhæð 1.785.000 krónur. Stefnendur gera lægri kröfu en matið gerir ráð fyrir og skipta því mótmæli stefnda Suðurlistar-Reisis ehf. vegna gagnaskorts fyrir lægri kröfu engu máli
B hluti matsbeiðnar Meintir gallar á verkinu.
1.
Matsliður 1 í B hluta matsgerðar Leki er víða með gluggum og reyklúgum í útveggjaeiningum. Matsþoli hefur mótmælt ábyrgð sinni á þessu og vísað til þess að farið hafi verið að fyrirmælum framleiðanda og að vegna tafa hafi húsið staðið opið í misjöfnum verðrum. Um þetta nýtur engra gagna í málinu sem dómur verður lagður á. Verðu því meðan við svo búið að fallast á að matsþola beri að skila húsinu þannig að það haldi veðri og vindum. Dómendur eru á einu máli um að matsþola beri að standa skil á þeim kostnaði við að lagfæra ágalla vegna leka þó vera kunni að ágallar á frágangi geti verið framleiðanda að kenna. Er fallist á mat dómkvadds matsmanns að kostnaður við að lagfæra ágalla vegna leka sé 1.739.000 krónur.
C hluti matsbeiðnar Ólokin verk innanhúss.
1.
Um lið C-1 gerir stefndi þær athugasemdir að ryðskemmdir í stálgrindinni eru ekki á hans ábyrgð. Telur hann að ryð hafi komist í grindina á meðan hún beið uppsetningar í einn mánuð og staðið síðan óvarin í næstu tvo mánuði, á meðan beðið var eftir teikningum. Þá hafi gólfplatan verið steypt eftir að húsinu hafði verið lokað, með tilheyrandi rakamettun. Stefndi tók ekki að sér málun grindarinnar enda er slíkan verklið hvergi að finna í samningsgögnunum, auk þess sem það er ekki viðtekin venja að reisningu stálgrindar fylgi málningarvinna innanhúss. Engin málning fylgdi heldur húsinu frá framleiðanda þess. Matsmaður meti þennan lið á 1.250.000 krónur sem sé stór liður í verki sem hljóðar á tæplega 47 milljónir, og því hefði hans að sjálfsögðu átt að geta ef ætlunin hefði verið að stefndi tæki slíkt verk að sér. Stefndi hefði að sjálfsögðu lagfært skemmdir sem hann hefði sjálfur valdið, en það ryð og skellur sem lýst er í matsgerðinni eru ekki af völdum hans eða starfsmanna hans.
Dómendur deila þeirri skoðun með matsmanni að eðlileg verkskil frá hendi matsþola felist m.a. í því að hreinsa upp skemmdir grunna, blettamála og yfirmála eftir þörfum. Af einhverjum ástæðum metur matsmaður saman matslið 1 C og 2 C. Veldur þetta því að erfitt er um vik fyrir dómendur að átta sig á því hver hlutur 2 C af matsfjárhæðinni en dómurinn telur að í þeim lið sé fjallað um málningu á því sem telja verður aukaverk sem ekki rúmast innan verksamningsins og beri matsþola ekki skylda til að vinna það verk sem þar er lýst. Hefur dómurinn því talið hæfilegt að lækka þennan lið um 250.000 krónur þannig er liður 1C er tekin til greina á 1.000.000 króna en lið 2C hafnað.
2.
Matsliður 3 í C hluta matsgerðar Frágang vantar á veggjaeiningum yfir inngangsdyrum o.fl. sbr. matsgerð bls. 14. Dómendur eru sammála um að þennan lið, sem rúmast innan verksamningsins skuli taka tilgreina en kostnaður eigi að vera í samræmi við matsgerð 104.000 krónur.
3.
Matsliður 4 og 5 í C hluta matsgerðar Vantar lokanir og brunaþéttingu sbr. matsgerð bls. 14-15. Kostnaður á verðlagi samnings des. 2003. Telja dómendur að gengið sé frá veggnum og glugganum eins og teikningar gera ráð fyrir og eins og þetta barst frá framleiðanda. Er því fallist á með stefnda að honum beri ekki að greiða kostnað við úrbætur á eigninni, umfram það sem fram kemur í verksamningsgögnum. Dregst því kostnaður við að endurgera frágang þar sem brunahólfandi veggur kemur að útvegg(glugga) í NA og NV rýmum sem nemur samkvæmt matsgerð 211.000 krónum sem kemur til frádráttar matsfjárhæð samkvæmt þessum lið þannig að hann er tekin til greina með 426.000-211.000 eða 215.000 krónum.
6.
Matsliður 10 í C hluta matsgerðar Vantar frágang, samkvæmt teikningum, kringum vöruhurð sbr. matsgerð bls. 16-17. Um hluta verksamnings sem Suðulist-Reisi ehf. ber að standa skil á er tvímælalaust að ræða. Kostnaður á verðlagi samnings í desember 2003 samkvæmt matsgerð 35.000 krónur.
7.
Matsliður 12 í C hluta matsgerðar. Þar segir að vanti loft og gólf í tæknirými. Stefndi segir að steypuílögnin hafi verið unnin og gerð upp samkvæmt einingaverðum og var stefnendum því að sjálfsögðu ekki gerður reikningur vegna tæknirýmisins og því eigi stefnendur ekki neina kröfu á hendur stefnda vegna þessa. Dómendur telja að taka beri til greina þann hluta þessa matsliðar sem fjallar um frágang lofts með grind að fjárhæð 49.000 krónur annað sé ekki í verkahring stefnda samkvæmt samningi.
8.
Matsliður 13 í C hluta matsgerðar. Þar segir að gólfniðurfall í tæknirými vanti eins og áskilið sé í gildandi reglugerð. Dómendur telja að samkvæmt verksamningnum sé þetta ekki í verkahring stefnda samkvæmt samningi og beri honum ekki að standa stefnendum skil á kostnaði vegna þessa matsliðar.
Dómendur er sammála því að stefndi skuli bera kostnað þann sem metinn er í matsgerð dómkvadds matsmanns Þorsteins Egilssonar byggingartæknifræðings vegna herslna á burðarvirki en hann nam 704.085 krónum á verðlagi miðað við febrúar 2007.
Þó svo að húsið hafi fengið á sig misjöfn veður vegna tafa leysir það stefnanda ekki undan þeirri skyldu herða burðarvirki hússins fyrir afhendingu.
Þá er óumdeilt að stefnendur eigi inni hjá stefnda vegna ofgreiðslu til stefnda Suðulistar Reisis ehf. að fjárhæð 531.590 krónur vegna aukaverks í tengslum við héraðsdómsmálið E-1846/2005.
Samtals er um að ræða kröfur að fjárhæð 7.600.675 krónur.
VI.
Stefndi lét dómkveðja matsmann til þess að meta sanngjarnt endurgjald vegna vanefnda stefnenda á skyldum sínum samkvæmt verksamningi aðila. Er áhersla sérstaklega lögð á það mikla tjón sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir vegna sífelldra tafa og truflana að völdum stefnenda.
Svör matsmanns við matsliðunum verða nú rakin og umfjöllun dómenda um þá.
Matsliður 1.
Í 1. grein verksamnings aðila á dskj. nr. 3 segir að íslenskur staðall ÍST 30 gildi fyrir verkið. Í grein 21.3 í staðlinum segir að ef verktaki getur sannað að hann hafi orðið fyrir tjóni af því að verkkaupi afhenti ekki efni, teikningar eða annað sem hann átti að leggja til, þá eigi hann rétt á bótum sem nemi sannanlega auknum kostnaði sem af því hlaust.
Verktíminn átti að vara frá 23. desember 2003 til 1. apríl 2004. Vegna margvíslegra vanefnda stefnenda var ekki unnt að hefja reisningu hússins fyrr en í byrjun maí 2004 og tók hún alls 7 mánuði eftir að verkið hófst, vegna sífelldra tafa og truflana af völdum stefnenda. Ellefu mánuðir liðu þannig frá því að verksamningurinn tók gildi og þar til húsið var komið upp og að mestu frágengið.
Þess er óskað að matsmaður meti það fjártjón sem matsbeiðandi hafði af því að þurfa ítrekað að stöðva verkið, bíða um ótiltekinn tíma, hefja það að nýju, aftur og aftur, með hliðsjón af umfangi verks, mannafla, tækjakosti og öðrum þeim kostnaðarliðum sem slíku fylgja óhjákvæmilega.
Matsmaður telur að verktími frá 23. des. 2003 til 1. apríl 2004 eða um 90 virkir dagar (3 mánuðir) sé nægilega langur tími til að klára verkið samkvæmt verksamningi við venjulegar aðstæður og þann útbúnað og mannskap sem gert er ráð fyrir.
Hvorki liggja fyrir dagsskýrslur né færslur dagbókar vegna verksins og þarf matsmaður því að reiða sig á fylgigögn og frásögn aðila á matsfundi.
Eftirfarandi leigugjöld eru notuð við útreikning vegna þessa liðar:
|
Skotbómulyftari |
22.400,- per dag eða 112.000,- viku. |
|
Skæralyftur |
9.400,- per dag eða 56.400,- per viku. |
|
Vinnubúðir |
2.074,- per dag eða 62.220,- per mánuð. |
|
Ýmis handverkfæri |
15.000,- per dag., |
Samkvæmt gögnum hófst verkið í byrjun maí 2004, en ekki 23. des. 2003 eins og verksamningur segir til um. Vinnubúðir voru settar upp í verkbyrjun og stóðu til verkloka í nóv. 2004. Voru vinnubúðir því notaðar til verksins í 7 mánuði í stað 3. Umframleiga á vinnubúðum reiknast því vera 4 mánuðir eða kr. 248.880,-
Frá 20. maí - 28. júlí 2004 virðast framkvæmdir hafa legið niðri vegna framkvæmda við fyllingu undir botnplötu. Einnig virðist matsbeiðandi hafa þurft að stoppa framkvæmdir vegna breytinga á botnplötu og vinnu við gólfhitalagnir frá 1. okt. - 28. okt. 2004.
Dagana 31. ág. - 9. sept. 2004 virðist vinna við reisingu hafa legið niðri þar sem unnið var við breytingu gluggaísetningar (vinkilstál sett undir glugga).
28. okt. og 30. nóv. 2004. Seinni dagsetningin er þó að öllum líkindum rangt skráð.
Matsmaður fellst á að biðdagar vegna verksins af völdum matsþola séu 112 eins og tilgreindir eru í gögnum eða 16 vikur. Er því reiknað með ofangreindri leigu á viðkomandi tækjum þennan vikufjölda.
Matsmaður gerir ráð fyrir því að mannskapur hafi verið tekinn af verkinu meðan á biðtíma stóð, en að stjórnunarkostnaður hafi aukist talsvert vegna þessa. Matsmaður telur kostnað vegna þessa liðar vera 5.829.600 krónur.
Þessum matslið hefur ekki verið mótmælt efnislega eða tölulega auk þess sem dómendur eru sammála matsmanni hér sé um að ræða kostað vegna vanefnda stefnanda á verksamningnum. Ekki hefur með yfirmati eða á annan hátt verið sýnt fram á að metið endurgjald sé ósanngjarnt. Er því fallist á að stefndi megi skuldajafna fjárhæðinni upp í kröfur stefnenda.
Matsliður 2.
Í verksamningi aðila segir að matsbeiðandi taki að sér að reisa stálgrindarhús á einni hæð staðsett á steyptri plötu. Jafnframt er tekið fram að matsþoli leggi til undirstöður og vélslípaða plötu. Þetta var ekki gert og var grindin reist, þak og útveggir klæddir með ófrágengna plötuna.
Þess er óskað að matsmaður leggi mat á þann umfram kostnað sem það hafði í för með sér fyrir matsbeiðanda að þurfa að vinna verkið með lyftara og skæralyftum á ósléttri fyllingunni inni í sökklinum. Jafnfram því að ekki var hægt að vinna klæðninguna og ísetningu glugganna eins og almennt tíðkast, þ.e.a.s. frá steyptri plötu og upp, heldur var þetta unnið í öfugri röð, fyrst að ofan og síðan niður, með sérstökum ráðstöfunum þar sem einingarnar komu niður á sökkulveggina.
Mun erfiðara er að vinna svona verk á ósléttu og lausu undirlagi þar sem nota þarf önnur og mun öflugari/dýrari tæki en annars þyrfti.
Í gögnum málsins er tilboðsverði ekki skipt niður í verkþætti. Einungis er talað um heildarupphæð tilboðs. Almennt er tilboðsupphæðinni skipt í tvo megin þætti þ.e. reising stálgrindar annarsvegar og klæðning útveggja og þaks hinsvegar. Kostnaðarskiptingin er um 40% sem tilheyrir stálgrindinni sem unnin er innan sökkulveggja og 60% klæðningunni sem unnin er utan sökkulveggja. Þessi skipting er nokkuð samhljóða samantekt í dskj. 43. Ætti tilboðsupphæðin því að skiptast þannig að 18.710.000 krónur væru innan sökkulveggja en 28.065.000 krónur utan sökkulveggja.Matsmaður telur þó ljóst að matsbeiðandi hafi í öllu falli orðið fyrir talsverðum óþægindum og kostnaðarauka við að vinna þennan verkþátt á grúsarfyllingu í stað steyptrar plötu þó svo yfirborð fyllingarinnar hafi verið í góðu ásigkomulagi.
Á samþykktum sökkulteikningum er gert ráð fyrir að platan steypist út á sökkulveggina og bindist þeim með tengijárnum. Til að þetta sé gerlegt þarf að steypa sökkulveggina í undirhæð (undir endanlegri hæð) og steypa síðan ofan á þá samtímis plötusteypunni. Til þess að hægt væri að klæða húsið áður en platan væri steypt, þurfti því að útbúa setu fyrir útveggjaeiningar, glugga og aðra prófíla sem sitja áttu á plötunni. Það var gert með því að sjóða vinkilstál 80 x 80 x 8 undir alla glugga og þar sem þess þurfti með. Vinklarnir voru mældir út með hæðakíki og festir í nákvæmri hæðalegu í sökkulveggina með flatjárni og stálteinum. Einingunum/gluggunum var síðan raðað á þessa vinkla sem voru síðan steyptir fastir þegar platan var steypt. Matsmaður telur þetta rétta aðferð undir þessum kringumstæðum.Matsmaður telur vinnulið vegna þessa liðar vera 90 klst. og efnisnotkun 125 lm (sjá kostnaðarsundurliðun).
Matsmaður telur kostnað vegna þessa liðar vera 3.926.205 krónur. Þessum matslið hefur ekki verið mótmælt efnislega auk þess sem dómendur eru sammála matsmanni og kostnaðarsundurliðun hans í matsgerð og að hér sé um að ræða kostað vegna vanefnda stefnanda á verksamningnum. Ekki hefur með yfirmati eða á annan hátt verið sýnt fram á að metið endurgjald sé ósanngjarnt. Dómendur telja þó óhjákvæmilegt að draga frá matsfjárhæðinni vinnu við uppsetningu vinkla 432.000 +.
35.000 v/teina, flatjárns og múrbolta + 361.875 v/ stálvinkla
+ 36.354 v/ förgunar sorps + 254.476 /ýmislegt smáefni og verkfæraleiga
eða samtals 1.119.705 krónur
sem er samkvæmt sundurliðun matsmanns kostnaður vegna vinkla sem stefndi
fékk sér dæmdan í máli E-1846/2005.
Stefnandi lagði dóm þennan fram í málinu sem dómskjal nr. 21. Er því fallist á
að stefndi megi skuldajafna 2.806.500 krónum upp í kröfur stefnenda
samkvæmt þessum matslið.
Matsliður 3.
Í verksamningnum segir að þóknun byggingarstjóra sé innifalin í verkinu. Í 5. gr. samningsins segir ennfremur að verkkaupi skipi eftirlitsmann, sem verktaki hafi samráð við um alla framkvæmdina. Bjarni G. Bjarnason var byggingastjóri á byggingartímanum. Matsþolar vanefndu það hins vegar að skipa eftirlitsmann og var enginn á þeirra vegum sem annaðist umsjón verksins eða annaðist um þá hluti sem í hlut verkkaupa koma óhjákvæmilega við svo mikla framkvæmd.
Í ÍST 30 gr. 17.5, 17.5.1 og 17.5.2 er fjallað um skyldu verkaupa til að ráða umsjónarmann með verkum, hlutverk hans og skyldur. Enginn slíkur aðili var skipaður af hálfu matsþola og þeir gegndu þessu hlutverki ekki sjálfir. Matsbeiðandi heldur því fram að hann hafi tekið að sér og unnið þá vinnu sem annars kæmi í hlut umsjónarmanns og/eða verkkaupa sjálfs.
Þess er óskað að matsmaður skili áliti sínu á því hvort sú vinna sem byggingastjóri sinnti fyrir matsbeiðendur beinlínis vegna þess að umsjónarmaður var ekki á verkinu, felist í skyldum hans og hlutverki sem byggingastjóra. Ef ekki, þá er þess óskað að hann leggi mat á umfang þessara skyldna m.v. stærð verkefnisins, verktíma etc. Þá er þess óskað að hann skili áliti á því hvort og þá í hve miklum mæli þóknun byggingastjóra skyldi breytast við það að verktími lengist frá því að vera þrír mánuðir í ellefu, þ.e.a.s. frá stofndegi verksamnings til lokadags nóvember 2004.
Matsmaður telur eðlilegt í verkefnum af þessari stærðargráðu að verkkaupi ráði sér sérstakan umsjónar- og eftirlitsaðila með bygginga- og tækniþekkingu til að hafa yfirumsjón með framkvæmdum og sjá til þess að ákvæðum samnings sé framfylgt.
Í 5. gr. verksamnings dags. 23. des. 2003 segir „Verktaki skal í öllu framkvæma verkið í samráði við eftirlitsmann er verkkaupi skipar við verkið. Eftirlit verkkaupa kemur ekki í stað eftirlits byggingafulltrúa eða annarra opinbera aðila. Ef verktaki er í vafa um einstök atriði verksins skal hann leita úrskurðar eftirlitsmanns“. Telur matsmaður því að matsþoli hafi átt að ráða eftirlitsmann sem haft hefði umsjón og stjórnun með verkinu þ.m.t. samskipti við hönnuði. Matsmaður telur að byggingastjóri hafi sinnt erindum sem falla undir verksvið sérstaks eftirlitsmanns verkkaupa, og eru umfram skyldur hans sem byggingastjóra.
Matsmaður telur að það hafi verið í verkahring fulltrúa verkkaupa að sjá til þess að teikningar bærust verktaka stimplaðar og fullfrágengnar til að vinna eftir. Verktökum er alfarið óheimilt að vinna eftir ósamþykktum teikningum.
Algengt er að reikna með umsjónar- og eftirlitskostnaði einstakra verka eða verkþátta sé 2 - 3% af viðkomandi kostnaðarliðum. Þessi kostnaður getur þó verið mismunandi eftir umfangi og eðli verka. Þá er miðað við að verkið sé unnið af tæknimönnum og sé nokkuð aðgengilegt. Hér virðist matsbeiðandi hafa þurft að leggja umtalsverða vinnu í að reka á eftir gögnum og telur matsmaður því 2,5% eðlilega tölu. Telur hann því kostnað vegna umsjónar matsbeiðanda vera 1.169.375 krónur.
Í gögnum málsins og á matsfundi kom einnig fram að reisa ætti húsið á þegar steypta sökkla og botnplötu. Ekki var búið að gera neinar ráðstafanir vegna þessarar verkþátta þegar reisa átti húsið. Matsbeiðanda var falið að annast útboð og umsjón með uppsteypu sökkla og plötu, sem hann og gerði. Samkvæmt kostnaðarútreikningum telur matsmaður að þessi kostnaður sé um 10.000.000 króna. Telur matsmaður eðlilegt að matsbeiðandi fái umsjónar- og þóknunarkostnað vegna þessa. Algengt sé að þóknunin vegna umsýslu svona verka sé um 15%, sé ekki um annað samið eða 1.500.000 krónur í þessu tilfelli.
Matsmaður telur kostnað vegna þessa liðar vera 2.669.375 krónur.
Dómendur telja að umsjónar og þóknunarkostnaður vegna sökkuls og plötusteypu sbr. kostnaðarsundurliðun matsmanns, hafi verið greiddur sbr. dómskjal nr. 19 og að samið hafi verið um 10% álagningu og greiddar 1.196.485 krónur. Af þessum sökum verði er þessi matsliður lækkaður um 1.500.000 krónur. Þessum matslið hefur hvorki verið mótmælt efnislega né sýnt fram á af hálfu stefnanda að þau viðfangsefni sem hann fjallar um hafi verið unnin af aðila á hans vegum. Dómendur er sammála matsmanni að öðru leyti og að hér sé um að ræða kostað vegna vanefnda stefnanda á verksamningnum. Ekki hefur með yfirmati eða á annan hátt verið sýnt fram á að metið endurgjald sé ósanngjarnt. Verður stefndi talinn eiga rétt á greiðslu á 1.169.375 krónum vegna þessa matsliðar en um er að ræða þóknun vegna annarrar umsjónar með verkinu. Er því fallist á að stefndi megi skuldajafna fjárhæðinni upp í kröfur stefnenda enda hefur þessum kröfulið ekki verið mótmælt.
Matsliður 4.
Platan var steypt inni í húsinu eftir að klæðningu þess var lokið. Til að verja hana klæddi stefndi allt húsið að innan með plasti uppí 1.2 metra hæð. Lagði stefndi bæði til plastið og mannskap við verkið.
Þess er óskað að matsmaður leggi mat á kostnað matsbeiðanda, bæði efni og vinnu, við að klæða húsið að innan með plasti upp í 1,2 metra hæð fyrir plötusteypu og kostnað hans við að fjarlægja varnirnar að henni lokinni.
Fram kom á matsfundi að matsbeiðandi hafi notað 200µ þolplast til verksins og einungis útveggir/gluggar verið klæddir að innanverðu og plastið keypt í réttri breidd. Hefur hann því kosið að reikna með efnisverði nettó m2 án rýrnunar kr. 225/m2 (þolplast og límband). Vinnan er áætluð út frá öðrum sambærilegum verkum og áætlar 13 klst. vinnu við að líma upp og fjarlægja plastið að lokinni steypu. Tímagjald vinnu er reiknað 4.800 kr. Húsið er 35 x 35 m að utanmáli ásamt tveimur innskotum. Lengd útveggja reiknast vera 144 m.
Þessum matslið hefur ekki verið mótmælt efnislega auk þess sem dómendur eru sammála matsmanni hér sé um að ræða kostað vegna vanefnda stefnanda á verksamningnum. Ekki hefur með yfirmati eða á annan hátt verið sýnt fram á að metið endurgjald sé ósanngjarnt. Er því fallist á að stefndi megi skuldajafna matsfjárhæðinni samkvæmt þessum lið 119.564 krónum upp í kröfur stefnenda.
Matsliður 5.
Breytingar voru gerðar á járnagrind hússins til að auka burðargetu þess að hluta. Hitalögnin var síðan lögð yfir járnagrindina og var í raun laus. Pípulagningameistarinn vildi ekki setja vatn á lögnina vegna þess hve langt var liðið á árið og orðið kalt í veðri. Til að unnt væri að steypa plötuna og halda verkinu áfram fór stefndi í það með sínum starfsmönnum að festa hitalögnina niður.
Þess er óskað að matsmaður leggi mat á kostnað matsbeiðanda af því að “bensla” niður hitalögnina með strekkjaraböndum, til að festa hana við járnagrindina.
Matsmaður telur kostnað vegna þessa liðar vera 475.608 krónur.
Þessum matslið hefur ekki verið mótmælt efnislega auk þess sem dómendur eru sammála matsmanni að öðru leyti en að hér sé um að ræða kostnað vegna vanefnda stefnanda á verksamningnum, heldur sé hér um að ræða aukaverk sem stefndi vann og á að fá greitt fyrir. Ekki hefur með yfirmati eða á annan hátt verið sýnt fram á að metið endurgjald sé ósanngjarnt.
Er því fallist á að stefndi Suðulist-Reisir ehf. megi skuldajafna fjárhæðinni upp í kröfur stefnenda.
Er það því niðurstaða dómsins að Suðulist-Reisir ehf. eigi kröfu að fjárhæð 10.400.647 krónur sem á rót sína að rekja til matsgerðarinnar og hann getur nýtt sér til skuldajafnaðar á móti þeim kröfum sem stefnandi fær dæmdar. Þá á hann rétt á endurgreiðslu útlagðs kostnaðar að fjárhæð 443.831 krónur sem dómurinn hefur fallist á að stefnendum beri að standa honum skil á sbr. bls. 11 og 12 í dómnum. Á stefndi Suðulist Reisir ehf. því í heild skuldajafnaðarkröfu að fjárhæð 10.844.478 krónur á móti kröfum stefnenda.
Málsástæður stefnda Bjarna Guðjóns Bjarnasonar og Varðar trygginga hf. byggjast á því að sakarábyrgð sé ekki til að dreifa á ágöllum á fasteigninni Klettshálsi 15, sem reifaðir eru í matsgerðum á dómskjölum 15 og 18. Engri sök sé til að dreifa og beri því að sýkna bæði Bjarna og Vörð tryggingar hf. Ábyrgð Bjarna afmarkist af 51. gr. laga nr.þ 73/1997 en í 3. mgr. þeirrar greinar sé það sérstaklega tekið fram að ábyrgð byggingarstjóra grundvallist á þeirri skyldu hans að sjá til þess að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti lög og reglugerðir. Því beri Bjarni ekki ábyrgð á öðru en byggingarframkvæmdum. Hugsanlegt athafnaleysi framkvæmdaraðilans er ekki á ábyrgð byggingarstjórans. Sama gildir um ólokin verk.
Að því marki sem málatilbúnaður meðstefnda lýtur að meintum ágöllum á byggingunni Klettshálsi 15, gera stefndu Bjarni og Vörður tryggingar hf. málsástæður hans að sínum að breyttu breytanda.
VII.
Eftir yfirferð dómsins þykir ljóst að stefnendur eiga samkvæmt matsgerð Helga S. Gunnarssonar frá 28. maí 2006 réttmæta kröfu á hendur stefnda Suðulist-Reisi ehf. að fjárhæð 6.365.000 krónur auk 704.085 króna vegna mats Þorsteins Egilssonar frá 18. apríl 2007 og 531.590 króna vegna ofgreiðslu stefnenda til stefnda Suðulist-Reisis ehf. sem ekki er deilt um. Er því fallist á að stefnendur eigi kröfu á hendur stefnda Suðulist-Reisi ehf. að fjárhæð samtals 7.600.675 krónur.
Þá hefur dómurinn fallist á kröfur stefnda Suðulistar-Reisis ehf. samkvæmt mati G. Baldvins Ólasonar, byggingartæknifræðings frá 11. mars 2009 sem nema samtals 10.400.647 krónur auk kröfu um endurgreiðslu útlagðs kostnaðar 443.831 krónu eða alls 10.844.478 krónur sem hann má nýta til skuldajafnaðar á móti dæmdri kröfu stefnenda en sjálfstæðs dóms hefur ekki verið krafist um mismun.
Þegar framkvæmdunum lauk höfðu bótaatvik sem metin eru í matsgerð. G. Baldvins Ólasonar þegar átt sér stað. Af þeim sökum þykja ekki efni til þess að fallast á dráttarvaxtakröfur stefnenda.
Niðurstaðan er því sú að stefnukrafan er tekin til greina með 7.600.675 krónum. Skuldajafnaðarkrafa stefnda Suðulistar-Reisis ehf. samtals að fjárhæð 10.844.478 krónur er jafnframt tekin til greina.
Verður því fallist á aðalkröfu stefnda Suðurlistar-Reisis ehf. um sýknu þar sem samþykkt skuldajafnaðarkrafa hans er hærri en sú krafa stefnenda sem tekin er til greina.
Af þessu leiðir að ekki reynir á bótaábyrgð hins stefnda byggingarstjóra Bjarna Guðjóns Bjarnasonar og er því fallist á aðalkröfu hans um sýknu og er sama að segja um Vörð tryggingar hf.
Eftir þessum úrslitum málsins verða stefnendur dæmdir til þess að greiða stefndu málskostnað. Skulu stefnendur greiða stefnda Suðulist-Reisi ehf. samtals 1.068.209 krónur í málskostnað þ.m.t. kostnað vegna matsgerðar 396.209 krónur auk þess skulu þeir greiða stefnda Bjarna Bjarnasyni og stefnda Verði tryggingum hf. 200.000 krónur hvorum um sig í málskostnað.
Tafir hafa orðið á uppkvaðningu dómsins vegna mikilla anna dómenda. Fyrir liggur yfirlýsing lögmanna málaðilja um að ekki sé þörf á endurflutningi málsins og eru dómendur sama sinnis.
Dóminn kveða upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari og meðdómsmennirnir
Gústaf Vífilsson byggingarverkfræðingur og Jón Ágúst Pétursson byggingartæknifræðingur.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Suðulist-Reisir ehf., Bjarni Guðjón Bjarnason og Vörður tryggingar eru sýknaðir af dómkröfum stefnenda , Jóns Bergssonar ehf. og Godda ehf.
Skulu stefnendur greiða stefnda Suðulist-Reisi ehf. samtals 1.068.209 krónur í málskostnað þ.m.t. kostnað vegna matsgerðar 396.209 krónur auk þess skulu þeir greiða stefnda Bjarna Bjarnasyni og stefnda Verði tryggingum hf. 200.000 krónur hvorum um sig í málskostnað.