Hæstiréttur íslands

Mál nr. 343/2008


Lykilorð

  • Málskostnaður
  • Trygging
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 22

 

Fimmtudaginn 22. janúar 2009.

Nr. 343/2008.

Vélaleiga Ella ehf.

(Valgeir Kristinsson hrl.)

gegn

Vélaborg ehf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

 

Málskostnaður. Trygging. Frávísun máls frá Hæstarétti.

 

Máli VE gegn V var vísað frá Hæstarétti þar sem málskostnaðartrygging var ekki afhent innan frests sem VE hafði til þess að afhenda trygginguna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2008 og krefst þess að stefndi greiði sér 430.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2005 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með bréfi 26. júní 2008 krafðist stefndi þess að áfrýjanda yrði með vísan til b. liðar 1. mgr. 133. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Var krafan reist á því að leiða mætti líkur að því að áfrýjandi væri ófær um greiðslu málskostnaðar. Stefndi vísaði til þess að samkvæmt upplýsingum um fjárhagsstöðu áfrýjanda úr vanskilaskrá hefðu vanskil áfrýjanda verið færð sex sinnum í skrána á síðustu fimmtán mánuðum, þar af þrisvar frá því mál þetta var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. júní 2007. Hæstiréttur féllst 26. ágúst 2008 á kröfu stefnda um málskostnaðartryggingu og var fjárhæð hennar ákveðin 500.000 krónur. Skyldi tryggingin sett með peningum eða bankaábyrgð og var áfrýjanda veittur tveggja vikna frestur til að afhenda hana eða skilríki fyrir henni.

Tryggingin var sett í formi bankaábyrgðar frá Glitni banka hf. og var dagsett 10. september 2008. Með bréfi 20. október 2008 var lögmanni áfrýjanda tjáð að með hliðsjón af stöðu Glitnis banka hf. bæri nauðsyn til að málskostnaðartryggingin yrði endurnýjuð og var veittur tveggja vikna frestur til þess. Með vísan til ástands bankamála og yfirlýsinga fyrirsvarsmanns áfrýjanda um að fá greidda tilgreinda peningagreiðslu var fresturinn ítrekað framlengdur munnlega. Hinn 1. desember 2008 var lögmanni áfrýjanda á ný ritað bréf, þar sem áfrýjanda var veittur frestur til 8. desember 2008 til þess að ganga frá tryggingunni. Sá frestur var tvívegis framlengdur, fyrst til 12. desember 2008 og loks lokafrestur til 16. sama mánaðar. Málskostnaðartrygging var ekki sett.

Af þeim ástæðum sem að framan greinir og með skírskotun til 3. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 166. gr. sömu laga, svo sem henni var breytt með 20. gr. laga nr. 38/1994, verður málinu vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Áfrýjandi, Vélaleiga Ella ehf., greiði stefnda, Vélaborg ehf., 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 13. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykja­víkur af Vélaleigu Ella ehf., Borgarholtsbraut 11, á hendur Vélaborg ehf., Krókhálsi 5F, Reykjavík.

Stefndi, Vélaborg ehf., höfðaði gagnsakarmál á hendur stefnanda með gagnstefnu, framlagðri í dóm 28. júní 2007.

Dómkröfur stefnanda í aðalsök eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 430.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 23. mars 2005 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað.

Dómkröfur stefndu í aðalsök eru þær að hið stefnda félag verði sýknað af kröfu stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Krafist er málskostnaðar að mati dómsins.

Dómkröfur gagnstefnanda eru þær að aðalstefnandi verði dæmdur til að greiða gagnstefnanda skuld að fjárhæð 964.400 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 964.400 krónum, frá 23. mars 2005 til greiðsludags, gegn afhendingu á snjóplóg af gerðinni V-3300 HK. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, auk málskostnaðar samkvæmt mati dómsins, auk málskostnaðar að mati dómsins.

Gagnstefndi krefst sýknu af öllum kröfum í gagnsök auk málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda að mati dómsins.

Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar með sér samning 7. febrúar 2005 um kaup aðalstefnanda á snjóplóg af gerðinni V-3300 HK. Aðalstefnandi skoðaði plóginn áður en kaupin voru gerð og greiddi við samningsgerð, 130.000 krónur inn á kaupverðið. Reikningur vegna viðskiptanna var gefinn út 11. febrúar 2005 og 23. mars 2005 greiddi aðalstefnandi gagnstefnanda að auki 300.000 krónur inn á kaupverð plógsins.

Ágreiningur málsins lýtur að því hvort komist hafi á samkomulag um annað en staðgreiðsluviðskipti og hvort gagnstefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningi aðila.

Málsástæður og lagarök aðalstefnanda.

Aðalstefnandi kveðst hafa komið í verslun gagnstefnanda til að greiða eftirstöðvar kaupverðs og taka við snjóplógnum í desember 2005 en þá hafi honum verið tjáð að snjóplógurinn væri ekki til og yrði ekki væntanlegur fyrr en eftir fimm til sex vikur. Aðalstefnandi kveður gagnstefnanda hafa boðið honum annan plóg en því hafi aðalstefnandi hafnað. Aðalstefnandi hafi því verið kominn í þau vandræði að hafa ekki yfir snjóplóg að ráða en hann hafi verið kominn með verkefni við að hreinsa snjó, bæði í Reykjavík og Kópavogi. Hafi hann því ekki átt annan kost en að leita til annars aðila til að verða sér út um snjóplóg. Aðalstefnandi hafi jafnframt tilkynnt gagnstefnanda að kaupunum væri rift vegna vanefnda gagnstefnanda og krafist endurgreiðslu á 430.000 krónum auk vaxta.

Aðalstefnandi byggir á því að hann hafi gert kröfu um endurgreiðslu kaupverðsins, þar sem gagnstefnandi hafi vanrækt skuldbindingar sínar um kaupin á snjóplóginum. Forsenda fyrir kaupunum hafi verið afhending hins keypta þegar aðalstefnandi óskaði eftir að vitja um hlutinn. Aðalstefnandi hafi gert kaup um einstaklega ákveðinn hlut og í tæka tíð fyrir snjóa veturinn 2005-2006. Vanefnd gagnstefnanda hafi leitt til riftunar. Forsendur hafi brostið fyrir viðskiptunum þegar gagnstefnandi seldi hlutinn öðrum og gat ekki efnt skuldbindingar sínar. Hann kveður að upphaflegur samningur hafi liðið undir lok, þar sem stefndi hafi ekki getað efnt samninginn og hafi það leitt til riftunar. Gagnstefnandi eigi engar kröfur á hendur aðalstefnanda og því beri að sýkna aðalstefnanda af fjárkröfum í gagnsök.

Aðalstefnandi vísar máli sínu til stuðnings til meginreglna kröfuréttar og reglna samningalaga um skuldbindingargildi samninga. Vísað er til reglna V. kafla laga nr. 50/2000 um úrræði og rétt kaupanda í lausafjárkaupum. Kröfur um málskostnað styður aðalstefnandi við 1. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. einkum 1. tl. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Í greinargerð í gagnsök setur aðalstefnandi fram mótmæli gegn staðhæfingu gagnstefnanda um að plógurinn hafi staðið á athafnasvæði stefnda frá því í mars 2005. Hann heldur því fram að gagnstefnandi hafi fengið til landsins snjóplóg, hugsanlega í mars 2005, sem hann hafi ætlað aðalstefnanda, en hann hafi ekki verið af þeirri tegund sem aðalstefnandi pantaði. Gagnstefnandi hafi sett fram nýja pöntun en plógurinn hafi ekki komið til landsins og hafi ekki verið kominn í desember 2005. Þegar aðalstefnandi gat í síðasta lagi tekið við plógnum og viljað sækja hann, hafi hann ekki verið til. Aðalstefnandi hafi því rift kaupunum vegna vanefnda og forsendubrests.

Málsástæður og lagarök gagnstefnanda.

Gagnstefnandi kveður aðalstefnanda hafa falast eftir kaupum á plógi í verslun sinni og hafi honum verið gerð skýr grein fyrir því að um staðgreiðsluviðskipti yrði að ræða og að í ljósi fjárhagsstöðu hans yrði hann að greiða inn á plóginn svo unnt væri að panta hann. Það hafi aðalstefnandi gert og gagnstefnandi pantað plóginn frá Svíþjóð. Þegar plógurinn hafi komið til landsins hafi aðalstefnandi komið á starfsstöð gagnstefnanda en hafi þá verið tjáð, í samræmi við fyrri yfirlýsingar, að plógurinn yrði ekki afhentur nema gegn fullri greiðslu kaupverðs. Aðalstefnandi hafi greitt gagnstefnanda 300.000 krónur 23. mars 2005 og hafði þá í heildina greitt 430.000 krónur. Hafi plógurinn staðið á athafnasvæði stefnda frá því í mars 2005 án þess að gengið hafi verið frá kaupunum.

Kveður gagnstefnandi að alrangt sé hjá aðalstefnanda að plógurinn hafi ekki verið á staðnum þegar aðalstefnandi kom til að ganga frá kaupunum í desember. Gagnstefnandi hafi beðið eftir því að aðalstefnandi gengi frá kaupunum í samræmi við samning aðila. Á þessum tveimur árum sem gagnstefnanda hafi verið lofað greiðslu, hafi snjóplógurinn, sem fluttur hafi verið sérstaklega inn fyrir aðalstefnanda, staðið við starfsstöð gagnstefnanda og safnað kostnaði, einkum miklum vaxtakostnaði. Samningur milli aðila sé í fullu gildi og beri aðalstefnanda að virða hann.

Þar sem kaupunum hafi aldrei verið rift sé það einnig algerlega úr lausu lofti gripið að aðalstefnandi hafi gert kröfu um endurgreiðslu í framhaldinu. Það hafi hann ekki gert fyrr en með bréfi lögmanns síns 6. janúar 2007.

Þá sé það mikill misskilningur að forsenda fyrir kaupunum hafi verið að aðalstefnandi fengi plóginn afhentan fyrir snjóa veturinn 2005-2006. Í fyrsta lagi hafi það aldrei verið forsenda fyrir kaupunum að hann fengi plóginn afhentan þegar hann vitjaði hlutarins. Forsenda kaupanna hafi verið sú að hann staðgreiddi plóginn og ekki hafi staðið á afhendingu. Í öðru lagi sé það mjög undarleg túlkun á orðasambandinu „fyrir snjóa” að um sé að ræða tímabilið frá desember enda alþekkt að snjór falli í október og nóvember. 

Sú fullyrðing aðalstefnanda að hann hafi keypt einstaklega ákveðinn hlut standist ekki. Um sé að ræða tegundarkaup enda sé gagnstefnanda frjálst að selja aðalstefnanda nákvæmlega eins hlut af sömu tegund. Það breyti því hins vegar ekki að að gagnstefnandi pantaði ákveðin snjóplóg frá Svíþjóð sem hafi staðið aðalstefnanda til boða síðan í mars 2005 gegn greiðslu á eftirstöðvum kaupverðsins.

Gagnstefnandi byggir kröfur sínar á meginreglum samninga- og kröfuréttar auk laga um lausafjárkaup. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Gagnstefnandi byggir gagnkröfu á 2. mgr. 28. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Hann vísar til meginreglu kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga en regla þessi fái m.a. lagastoð í 45., 47. og 54. gr. laga nr. 50/2000 og lögum nr. 42/2000. Um gjalddaga kröfunnar sé einkum vísað til meginreglu 49. gr. laga nr. 50/2000. Þá sé vísað til meginreglna samningaréttar og samningalaga.

Niðurstaða

Óumdeilt er að aðalstefnandi pantaði snjóplóg af gerðinni V-3300 HK hjá gagnstefnanda 7. febrúar 2005 og greiddi þá inn á kaupverð plógsins, 130.000 krónur og 300.000 krónur 23. mars 2005. Komst því á bindandi samningur með aðilum um kaup á plóg af ofangreindri gerð og er að mati dómsins fram komið að um tegundarkaup var að ræða.

Fyrir dómi bar fyrirsvarsmaður aðalstefnanda, Erlingur Jóhann Erlingsson, að aðilar hafi samið um að hann myndi sækja plóginn og fullgreiða hann áður en snjóa tæki, veturinn 2005-2006. Gagnstefnandi hefði ætlað að geyma plóginn þangað til og ,,nota hann í auglýsingarskyni“. Hefði hann oft séð plóginn á starfsstöð gagnstefnanda er hann kom á starfsstöð hans, en er hann hefði komið til gagnstefnanda í nóvember/desember 2005 til að sækja plóginn hafi honum verið tilkynnt að plógurinn væri seldur. Frásögn þessi fyrir dómi er í ósamræmi við yfirlýsingar hans í greinargerð í gagnsök, er hann segir að plógur sá sem hann hafi pantað hafi aldrei komið til landsins, heldur plógur annarrar gerðar, sem hann hafi ekki viljað.

Anna Kristín Birkisdóttir, fjármálastjóri gagnstefnanda kvað að Erlingi hefði verið kunnugt um að krafist hefði verið staðgreiðslu á plógnum. Hann hafi ítrekað komið á starfsstöð gagnstefnanda til að semja um nýtt greiðslufyrirkomulag en um ekkert slíkt hafi samist milli aðila. Hún hefði marghringt í Erling og gengið á eftir greiðslu, en allt komið fyrir ekki. Plógurinn hefði staðið á starfstöð gagnstefnanda þar til síðasta vetur, þegar hann var seldur. Samrýmist framburður Önnu Kristínar þeim framburði Erlings fyrir dómi að hann hafi oft séð plóginn er hann kom á starfsstöð stefnanda, allt þar til hann hafi ætlað að greiða hann í nóvember/desember 2005. Liggur því fyrir að plógurinn stóð á starfsstöð gagnstefnanda frá mars 2005 til reiðu fyrir aðalstefnanda og hefur aðalstefnanda ekki tekist að færa sönnur á að plógurinn hafi ekki verið til reiðu gegn greiðslu kaupverðsins, er hann hugðist sækja hann.

Samkvæmt 49. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup er gjalddagi samningskröfu strax við stofnun kröfunnar nema annað leiði af samningi. Reikningur í málinu ber með sér að staðgreiðsluviðskipti hafi verið að ræða og er ekkert fram komið í málinu sem rennt getur stoðum undir staðhæfingar aðalstefnanda þess efnis að samkomulag hafi komist á um að gagnstefnandi geymdi plóginn á starfsstöð sinni, án þess að fyrir hann væri greitt, þar til aðalstefnandi sækti hann er ,,snjóa tæki“.

Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á að gagnstefnandi hafi vanefnt skuldbindingar sínar samkvæmt samningi aðila. Hefur því ekki verið sýnt fram á að skilyrði riftunar samkvæmt 25. gr. lausafjárkaupalaga nr. 50/2000 hafi verið fyrir hendi, auk þess sem aðalstefnandi hefur ekki sýnt fram á að hann hafi lýst yfir riftun á lögboðinn hátt.

Verður samkvæmt framangreindu fallist á kröfur gagnstefnanda í gagnsök. Eftir þessum úrslitum málsins verður aðalstefnandi dæmdur til að greiða gagnstefnanda málskostnað, bæði í aðalsök og gagnsök, sem ákveðst 175.000 krónur. Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Gagnstefnandi, Vélaborg ehf., er sýkn af kröfum aðalstefnanda, Vélaleigu Ella ehf., í máli þessu.

Aðalstefnandi, Vélaleiga Ella ehf., greiði gagnstefnanda, Vélaborg ehf., 964.400 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 23. mars 2005 til greiðsludags gegn afhendingu á snjóplóg af gerðinni V-3300 HK.

Aðalstefnandi greiði gagnstefnanda 175.000 krónur í málskostnað.