Hæstiréttur íslands

Mál nr. 515/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur


       

Þriðjudaginn 23. september 2008.

Nr. 515/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Ásbjörn Jónsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. Útlendingar.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, svo sem þeim var breytt með 18. gr. laga nr. 86/2008, var staðfestur en gæsluvarðhaldinu markaður skemmri tími.

  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. september 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. september 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Til vara krefst hann þess að beitt verði vægari úrræðum en að því frágengnu að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur þó svo að gæsluvarðhaldi verður markaður sá tími sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 8. október 2008 kl. 16.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness miðvikudaginn 17. september 2008:

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjanes úrskurði að X, fd. [...] 1976, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. október 2008, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi þann 11. september sl. haft afskipti af kærða er hann kom með flugi frá Osló með breskt vegabréf. Kærði hafi verið á leiðinni til  Halifax en haft viðkomu hér á landi. Nafnið á vegabréfinu hafi verið A, fd. [...] 1976. Við skoðun á vegabréfinu sem kærði framvísaði hafi komið í ljós að það var breytifalsað. Kærði hafi sagst hafa búið í Bretlandi síðan árið 1997 og væri hann á leið til Halifax í Kanada til að heimsækja systur sína og vin sinn. Hann hafi verið að koma frá Barcelona á Spáni þar sem hann hafi verið að stofna fyrirtæki en hann hafi verið þar undanfarnar tvær vikur. Er lögreglumenn hugðust taka af kærða fingraför og ljósmyndir hafi hann neitað því og verið ósamvinnuþýður í fyrstu en heimilað það svo.

Við yfirheyrslu hjá lögreglu þann 16. september sl. hafi kærði viðurkennt að hafa haft í vörslum sínum og framvísað fölsuðu vegabréfi, en hann hafi gert það til að bjarga lífi sínu. Þá hafi hann ætlað að sækja um hæli hér á landi en ekki ætlað til Halifax eins og ferðir hans hafi gefið til kynna.

Af framansögðu og með vísan til gagna málsins telur lögreglustjóri að rökstuddur grunur leiki á því að kærði gefi rangar upplýsingar um það hver hann sé. Þá hafi lögregla haldlagt tölvu og farsíma sem kærði hafði í vörslum sínum en hann segi að farsíminn tilheyri ekki sér. Telur lögreglustjóri því nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans eru til rannsóknar hjá lögreglu og Útlendingastofnun. 

Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, 7. mgr. 29. gr. útlendingalaga nr. 96/2002, sbr. lög nr. 86/2008, og b- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, telur lögreglustjóri nauðsynlegt að manninum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 29. október 2008, kl. 16:00.

Rannsókn lögreglu og Útlendingastofnunar um kærða er ekki lokið en hann er undir rökstuddum grun um að gefa rangar upplýsingar um hver hann er. Samkvæmt 7. mgr. 29. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sbr. lög nr. 86/2008, eru því lagaskilyrði fyrir hendi til að hann sæti gæsluvarðhaldi. Að því virtu er fallist á kröfu lögreglustjóra um að hann sæti gæsluvarðhaldi, en því markaður skemmri tími, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurð þennan kveður upp Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari.   

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 22. október 2008, kl. 16:00.