Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-49

Vátryggingafélag Íslands hf. (Einar Baldvin Axelsson lögmaður)
gegn
A (Kristján B. Thorlacius lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Líkamstjón
  • Slysatrygging
  • Vinnuslys
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 10. febrúar 2021 leitar Vátryggingafélag Íslands hf. eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 15. janúar 2021 í málinu nr. 813/2019: A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á skyldu leyfisbeiðanda til greiðslu bóta úr slysatryggingu sjómanna vegna vinnuslyss sem hann varð fyrir í maí 2013 um borð í skipi þar sem hann starfaði sem háseti. Enginn ágreiningur er um að gagnaðili hafi við slysið orðið fyrir varanlegu líkamstjóni og að slysið hafi verið bótaskylt. Aðila greinir á hinn bóginn um hvort bótaréttur gagnaðila sé niður fallinn þar sem hann hafi ekki haft uppi kröfu sína innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem krafa hans er reist á í samræmi við 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga. Héraðsdómur taldi gagnaðila ekki hafa tilkynnt um líkamstjónið innan tilskilins tímafrests og var leyfisbeiðandi sýknaður af viðurkenningarkröfu hans. Landsréttur féllst á hinn bóginn á kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu. Vísaði rétturinn meðal annars til þess að skýra bæri ákvæði 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 svo að þegar krafist væri bóta vegna varanlegs líkamstjóns bæri að miða upphaf frestsins við það hvenær sá, sem orðið hefði fyrir slíku tjóni, hefði raunverulega gert sér grein fyrir því að slys hefði varanlegar afleiðingar fyrir hann. Með hliðsjón af gögnum málsins var tjónstilkynning gagnaðila talin hafa borist innan tilskilins frests.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um túlkun á tímafrestinum til að tilkynna um slys samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 og afmörkun á upphafi þess frests. Úrlausn um það atriði varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og annarra vátryggingafélaga. Hann telur niðurstöðu Landsréttar hvorki samræmast tilgangi lagaákvæðisins né sé hún í samræmi við dóma Hæstaréttar um skýringu á fyrrnefndu ákvæði. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilegar rangur að efni til. Þannig fái það ekki staðist að tjónþoli geti beðið með tilkynningu slyss þar til læknir eða annar sérfræðingur upplýsi hann um mögulegan varanleika áverka. Sú niðurstaða Landsréttar að gagnaðili verði að hafa raunverulega gert sér grein fyrir að áverkar hans voru varanlegir fái ekki staðist. Með því kunni tilkynning um slys að frestast um árabil. 

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt

gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið um sambærileg efni né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.