Hæstiréttur íslands
Mál nr. 509/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Ákæra
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Miðvikudaginn 4. október 2006. |
|
Nr. 509/2006. |
Ákæruvaldið(Ólafur Hallgrímsson fulltrúi) gegn X (enginn) |
Kærumál. Ákæra. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Ekki var fallist á með héraðsdómi að ákæru væri áfátt svo að leiddi til frávísunar málsins. Var frávísunarúrskurður héraðsdóms því felldur úr gildi og lagt fyrir dómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. september 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 20. september 2006, þar sem máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og fram kemur í úrskurði héraðsdóms gaf sýslumaðurinn á Ísafirði út ákæru á hendur varnaraðila 25. ágúst 2006 fyrir eignaspjöll, þar sem honum er gefið að sök að hafa í desember 2003 látið færa bátinn Æ í heimildarleysi af geymslusvæði við Þ-höfn og nota hann sem efnivið í áramótabrennu, en varnaraðili var ábyrgðarmaður brennunnar. Meðal málsgagna er bréf hafnarstjóra Þ-bæjar 18. september 2006, þar sem ástandi bátsins er lýst áður en hann var fjarlægður af geymslusvæðinu. Kemur þar fram að árið 2000 hafi báturinn verið hálfsokkinn í höfninni og hafi hann þá á kostnað Þ-hafnar verið tekinn upp og settur á uppsátur á hafnarsvæðinu. Tveimur árum síðar hafi hafnarsjóður afskrifað allar skuldir vegna bátsins við sjóðinn meðal annars vegna þess að talið var að báturinn væri þá orðinn gjörsamlega ónýtur og mikið fúabrak. Samkvæmt þessu er óljóst hvort umræddur bátur hafi haft nokkurt fjárgildi er hann var fjarlægður í desember 2003 af hafnarsvæðinu og hann brenndur um áramótin.
Sýslumaðurinn á Ísafirði fer með ákæruvald í málinu. Hann hefur talið rétt að ákæra varnaraðila fyrir þá háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákæru, og telur að hún varði við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um eignarspjöll, en hámarksrefsing fyrir brot á því ákvæði er fangelsi í tvö ár. Þá liggur fyrir að ákæruvaldið álítur að sakargögn séu ekki nægileg til að ákært verði fyrir gripdeild samkvæmt 245. gr. almennra hegningarlaga, sem varðar fangelsi allt að 6 árum, en andlag gripdeildar þarf að hafa fjárgildi. Í ákærunni kemur meðal annars fram að umræddur bátur hafi verið notaður sem efniviður í brennu og að hann hafi verið brenndur 31. desember 2003. Telst ákæran uppfylla kröfur 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 og verður ekki fallist á að annmarki sé á henni er leitt getur til frávísunar málsins. Verður því að ógilda hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 20. september 2006.
Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag um formhlið þess.
Það er höfðað 25. ágúst sl. af sýslumanninum á Ísafirði gegn X f. 11. nóvember 1921 fyrir eignaspjöll, með því að hafa einhvern tíma í desember 2003, sem ábyrgðarmaður áramótabrennu á Y í Z, í heimildarleysi látið færa nánar tilgreindan bát af geymslusvæði við Þ-höfn á Y, þar sem hann var notaður sem efniviður í brennuna og brenndur 31. desember 2003. Er þetta talið varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Eins og hér er rakið, er ákærða gefið að sök að hafa látið taka tilgreindan bát í heimildarleysi og nota hann í bálköst. Myndi taka bátsins í heimildarleysi og tileinkun hans í þágu áramótabrennunnar varða við 245. gr. almennra hegningarlaga, að því gefnu að allir efnisþættir í verknaðarlýsingu þess ákvæðis teldust sannaðir. Þykir ekki nægilega tryggt að hugsanlegum vörnum ákærða verði ekki áfátt af þessum sökum, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991, þar sem honum er gefið að sök í ákæru að hafa unnið til refsingar með því að brenna bátinn, miðað við heimfærslu háttsemi hans til 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga. Verður málinu af þessari ástæðu vísað sjálfkrafa frá dómi.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá dómi.