Hæstiréttur íslands
Mál nr. 66/2016
Lykilorð
- Brot gegn valdstjórninni
- Líkamsárás
- Ávana- og fíkniefni
- Upptaka
- Einkaréttarkrafa
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 6. janúar 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að því frágengnu að þær verði lækkaðar.
Brotaþolar, A og B, krefjast þess að ákærða verði gert að greiða þeim, hvorum um sig, 300.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða brotaþolum, hvorum um sig, 100.000 krónur í málskostnað við að halda kröfum sínum fram fyrir Hæstarétti, sbr. 3. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Bradley James Houldcroft, greiði brotaþolum, A og B, hvorum um sig, 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 540.898 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 5. janúar 2016.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 4. desember sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 1. september 2015 á hendur ákærða; „Bradley James Houldcroft, kennitala [...], Silfurgötu 8a, Ísafirði,
I.
fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 12. júlí 2014, að heimili sínu, Silfurgötu 8a á Ísafirði, haft í vörslum sínum tvær kannabisplöntur, og hafa um nokkurt skeið fram til þess dags ræktað greindar plöntur, en lögregla fann plönturnar við húsleit.
II.
fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa að morgni mánudagsins 27. október 2014, að heimili sínu, Silfurgötu 8a á Ísafirði, haft í vörslum sínum 4,09 grömm af maríhúana, sem lögregla fann við húsleit.
Teljast báðir ákæruliðir varða við 2., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 1. og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 789/2010 og 513/2012.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á tveimur kannabisplöntum og 4,09 grömmum af maríhúana, með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni. Einnig er krafist upptöku á hitablásara, lampa og tveimur ljósum (skv. munaskrá nr. 104919), sem lögregla lagði hald á í máli nr. 018-2014-3089, og grammavog, mulningskvörn og þremur plastpokum (skv. munaskrá nr. 106988), sem lögregla lagði hald á í máli nr. 018-2014-4859, með vísan til 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, um ávana- og fíkniefni.“
Með ákæru ríkissaksóknara 14. október 2015 var ákærði ákærður fyrir eftirfarandi „brot framin á Ísafirði:
1. Brot gegn valdstjórninni og tilraun til stórfelldrar líkamsárásar, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember 2014, að Silfurgötu 8a, vopnaður hnífi, veist með ofbeldi og hótunum um ofbeldi að lögreglumönnunum A og B, sem voru við skyldustörf, með því að hóta ítrekað að stinga þá með hnífi, þar með talið í andlitið, beina hnífi ógnandi að þeim og leggja ítrekað til þeirra með hnífnum.
2. Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa síðar sama dag, á Fjórðungssjúkrahúsinu, Torfnesi, veist með hótunum um ofbeldi að lögreglumönnunum C og D, sem voru við skyldustörf, með því að hóta að nefbrjóta þá og steyta hnefann ógnandi að D.
Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 101/1976 og 1. gr. laga nr. 25/2007, og telst brot samkvæmt 1. ákærulið auk þess varða við 2. mgr. 218. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Í ákæru er getið um einkaréttarkröfu A, kennitala [...], en hann krefst þess að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola málskostnað, auk virðisaukaskatts, að mati dómsins vegna lögmannsaðstoðar við að hafa bótakröfuna uppi.
Einnig er í ákæru getið um einkaréttarkröfu B, kennitala [...], en hann krefst þess að ákærða verði gert að greiða honum skaðabætur að fjárhæð 300.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2014 þar til mánuður er liðinn frá birtingu bótakröfu, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærða verði gert að greiða brotaþola málskostnað, auk virðisaukaskatts, að mati dómsins vegna lögmannsaðstoðar við að hafa bótakröfuna uppi.
Við aðalmeðferð málsins var, af hálfu ákæruvalds, fallið frá kröfu um upptöku á hnífi sem fram kom í ákæru ríkissaksóknara frá 14. október sl.
Af hálfu ákærða er þess krafist að hann verði dæmdur til vægustu refsingar er lög leyfa og að bótakröfum verði aðallega vísað frá dómi en til vara að bætur verði lækkaðar. Þá er ekki gerð athugasemd við upptökukröfu. Loks er gerð krafa um að málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða og útlagður kostnaður verjandans verði greiddur úr ríkissjóði.
II
Ákæra lögreglustjórans á Vestfjörðum, dagsett 1. september 2015, ákæruliður I
Samkvæmt skýrslu lögreglu var framkvæmd húsleit á heimili ákærða laugardaginn 12. júlí 2014 og fundust þá tvær kannabisplöntur í ræktun. Gögn málsins bera með sér að plönturnar hafi verið í skáp í svefnherbergi ákærða. Við skýrslutöku hjá lögreglu viðurkenndi ákærði að hafa átt plönturnar og hafa ræktað þær og hafi efnið verið ætlað til eigin nota. Meðal málsgagna er ljósmynd af þeim plöntum sem voru haldlagðar. Þá liggur fyrir efnaskýrsla tæknideildar lögreglu þar sem fram kemur að plönturnar hafi verið rannsakaðar og hafi þær reynst innihalda kannabisefni.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi
Ákærði kvaðst hafa reynt að rækta kannabisplöntur heima hjá sér um tíma fram til 12. júlí 2014 en ekki tekist. Ætlunin hafi verið að rækta plönturnar til eigin neyslu. Hann sagði að sér hafi allan tímann verið ljóst að plönturnar væru ónothæfar til neyslu. Aðspurður af hverju hann hafi ekki verið búinn að losa sig við plönturnar kvaðst hann í rauninni ekki hafa vitað hvort þetta væru karlkynsplöntur, það er plöntur sem framleiða hamp. Hann kvaðst hafa geymt plönturnar inni í klæðaskáp þar sem hann hafi lesið það á netinu að þar væru bestu aðstæðurnar hvað varðar hitastig, ljós og þess háttar en hafi ekki verið að fela þær þar.
Þá sagði ákærði að þegar lögreglumennirnir komu í umrætt sinn hafi vinur hans, E, verið í heimsókn hjá honum og hafi þeir óskað eftir að fá að tala við E og hafi ákærði samþykkt það og hleypt þeim inn. Þá hafi þeir spurt hvort þeir mættu leita á heimilinu en því hafi ákærði svarað neitandi og spurt hvort þeir væru með húsleitarheimild. Þeir hafi sagt að þeir teldu sig ekki þurfa húsleitarheimild og hann hafi þá viljað hafa samband við lögmann sinn. Lögreglumaðurinn hafi orðið pirraður og strax ráðist á hann, skellt honum í gólfið og snúið handlegg hans aftur fyrir bak. Seinna hafi hann þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna þess. Þá hafi hann verið handjárnaður og settur í lögreglubifreið og þeir leitað á heimili hans.
Ákærði kvaðst muna eftir að hafa undirritað leitarheimild eftir að lögreglumennirnir réðust á hann. Hann kvaðst hafa beðið um enska útgáfu af skjalinu þar sem hann hafi ekki skilið nóg í íslensku til að skilja þetta skjal. Þá hafi honum verið sagt að hann yrði bara að undirrita þetta og var honum ekki leyft að tala við lögmann áður en hann undirritaði skjalið. Eina skiptið sem honum hafi verið heimilað að hafa samband við lögmann hafi verið annaðhvort rétt fyrir eða á meðan á skýrslutöku stóð. Kvaðst ákærði muna atvik mjög vel og hafa verið allsgáður þetta kvöld. Ákærði kvaðst ekki hafa skilið orð af því sem fram kom á eyðublaðinu sem honum var sýnt og var það ekki þýtt fyrir hann.
Vitnið C lögreglumaður kvaðst hafa komið að húsleit á heimili ákærða í umætt sinn. Upplýsingar hafi borist um að hugsanlega væri verið að selja efni þar. Lögreglumönnunum hafi verið hleypt inn í sjónvarpsherbergi á annarri hæð þar sem ákærði talaði við þá og hafi þeir þá fundið megna kannabislykt. Þeir hafi útskýrt fyrir ákærða af hverju þeir væru komnir. Hafi ákærða verið kynnt að ef hann heimilaði ekki leit mundu þeir tryggja vettvanginn og óska eftir úrskurði dómara um húsleit. Ákærði var mjög ósáttur við þetta og reyndi að vísa þeim út en var á endanum færður út í lögreglubifreið. Vitnið kvaðst hafa verið viðstatt þegar fengin var leitarheimild hjá ákærða og sagði að samskiptin við ákærða hafi að mestum hluta verið á ensku og hafi ákærða verið ljóst hvað hann var að undirrita. Við leitina hafi ákærði vísað á tvær kannabisplöntur. Vitnið kvaðst ekki minnast þess að ákærði hafi óskað eftir því að fá að tala við lögmann. Þá hafi ákærða verið kynnt réttarstaða sín þegar hann var handtekinn.
Vitnið F lögregluvarðstjóri sagði lögreglu hafa fengið upplýsingar um að það væri maður á heimili ákærða sem hefði verið að koma þangað með fíkniefni. Þeir fóru þá á heimili ákærða sem bauð þeim inn til að tala við viðkomandi og þá hafi þeir fundið greinilega kannabislykt í húsinu. Ákærði hafi ekki verið tilbúinn til að leyfa þeim að leita en að lokum samþykkt leit og hafi fundist hjá honum tvær kannabisplöntur inni í skáp og kvaðst hann minna að ákærði hafi bent á þær. Ákærði hafi verið handtekinn eftir að hann neitaði að heimila leitina en hafi, þegar hann var kominn út í lögreglubifreið, sagt að hann væri tilbúinn að heimila húsleit. Vitnið kvaðst ekki muna hvort hann hafi séð ákærða undirrita húsleitarheimild. Vitnið sagði að samskiptin við ákærða hafi aðallega farið fram á ensku og gerði ráð fyrir að ákærða hafi verið veittar leiðbeiningar um réttarstöðu sína en ekki muna sérstaklega eftir því. Þá kvaðst hann ekki muna eftir því hvort ákærði óskaði eftir því að tala við lögmann.
Vitnið G lögreglumaður sagði lögreglu hafa borist tilkynning um að heima hjá ákærða væri maður að selja fíkniefni. Þeir hafi farið heim til ákærða til að ræða við viðkomandi og hafi ákærði hleypt þeim inn og þeir hafi þá fundið megna kannabislykt og þá óskað eftir að fá að leita. Ákærði hafi fyrst neitað að heimila leit en síðan skipt um skoðun. Þá sagði vitnið að útskýrt hafi verið fyrir ákærða hvað kæmi fram á eyðublaðinu fyrir leitarheimildina.
Vitnið H kvaðst hafa leigt hjá ákærða þegar atvik gerðust. Hann hafi vitað að ákærði var með plöntur inni í skáp og neytti kannabis á þessum tíma og taldi að ræktunin hafi verið tengd þeirri neyslu.
Vitnið I rannsóknarlögreglumaður staðfesti að hafa komið að gerð efnaskýrslu vegna málsins. Aðspurður um nákvæmni rannsóknarinnar með tilliti til þess hvort það hafi fundist virkt THC-efni í plöntu eða ekki sagði vitnið að um væri að ræða litarpróf sem gefi svörun við því hvort það sé THC, þ.e. kannabis, í plöntu, en segi ekkert um styrkleikann. Vitnið kvaðst ekki vita hvort litaprófið gefi samsvarandi svörun ef um hampplöntu er að ræða.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök samkvæmt I. hluta ákæru lögreglustjórans. Hann viðurkenndi fyrir dómi að hafa átt og ræktað plönturnar og að þær hefðu verið í skáp í herbergi hans og er það í samræmi við framburð vitnisins H. Þá staðfestu lögreglumennirnir C og F í framburði sínum fyrir dómi að ákærði hefði vísað á plönturnar þar sem þær voru í skáp í herbergi hans.
Ákærði byggir sýknukröfu sína á því að húsleitin hafi verið ólögmæt. Hann hafi ekki veitt heimild til húsleitar en hann hafi ekki skilið skjalið sem lögreglan lét hann undirrita í því skyni að heimila leit og honum hafi ekki verið kynnt réttarstaða sín og ekki fengið að tala við lögmann þegar hann óskaði þess. Framangreint er í andstöðu við framburð þeirra lögreglumanna sem voru á vettvangi en þeir báru m.a. um að hafa veitt ákærða allar leiðbeiningar á ensku, sem er móðurmál hans. Er því þessari vörn ákærða hafnað.
Samkvæmt framburði ákærða var ætlun hans sú að rækta kannabisplöntur til eigin neyslu. Hann byggir vörn sína á því að plönturnar hafi ekki innihaldið kannabis, þannig að með ræktun þeirra hafi ekki verið framleitt efni sem sé nothæft til neyslu. Ákærði kvaðst hafa vitað þetta og kvað ræktunina hafa verið einhvers konar tilraun hjá sér. Fyrir liggur niðurstaða litarprófs sem framkvæmt var af tæknideild lögreglu sem staðfestir að kannabis hafi verið í plöntunni þó svo að ekki liggi fyrir hver var styrkleiki þess. Þá staðfesti vitnið I rannsóknarlögreglumaður, sem framkvæmdi rannsóknina, að virkt efni kannabis, THC, hafi mælst í plöntunum. Hefur framburður vitnisins um að hann geti ekki sagt til um það hvort hampplanta gæfi sömu niðurstöðu á litarprófi ekki áhrif við mat á framangreindri niðurstöðu litarprófsins. Eftir þessu er sú vörn ákærða að plönturnar hafi ekki innihaldið kannabis haldlaus.
Með vísan til alls ofangreinds telur dómurinn nægilega sannað að ákærði hafi haft í vörslum sínum og ræktað tvær kannabisplöntur og verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem lýst er í fyrsta lið ákærunnar og er háttsemi hans þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
III
Ákæra lögreglustjórans á Vestfjörðum, dagsett 1. september 2015, ákæruliður II
Við aðalmeðferð málsins viðurkenndi ákærði sök hvað varðar II. hluta ákæru lögreglustjórans. Um málavaxtalýsingu er skírskotað til ákæru. Játning ákærða fær fulla stoð í gögnum málsins. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæða í ákæru.
IV
Ákæra ríkissaksóknara, dagsett 14. október 2015, fyrsti og annar ákæruliður
Samkvæmt skýrslu lögreglu barst tilkynning klukkan 03.35 um að ákærði væri í sjálfsvígshugleiðingum og hafi sent SMS-skilaboð til vitnisins J og sagt að hann væri búinn að skaða sig og ætlaði að taka eigið líf. Var talið að ákærði væri á heimili sínu að Silfurgötu 8a á Ísafirði. Lögreglumennirnir A og B fóru á heimili ákærða, sem opnaði dyrnar til hálfs. Sáu lögreglumenn að hann var blóðugur á báðum upphandleggjum og hélt á hnífi í vinstri hendi sem hann reyndi að leyna fyrir aftan bak. Ákærða var kynnt ástæða afskipta lögreglu á íslensku og ensku og hann beðinn um að leggja frá sér hnífinn og honum boðin aðstoð vegna áverkanna. Samkvæmt skýrslu lögreglu æstist ákærði við afskipti lögreglu og reyndi að loka dyrunum en annar lögreglumannanna, A, hafi náð að setja fót milli stafs og hurðar. Lögreglumennirnir hafi tekið upp varnarúða og kylfur og skorað á ákærða að leggja frá sér hnífinn, annars yrðu varnarvopnin notuð, en ákærði varð ekki við þessum tilmælum. Ákærði hafi ítrekað hrópað að hann ætlaði að stinga lögreglumennina og að fyrsti lögreglumaðurinn yrði stunginn í andlitið. Varnarúði hafi þá verið notaður á ákærða og lenti úðinn á andliti hans. Við það hafi ákærði orðið æstari og ítrekað hótun sína. Á meðan á þessu stóð hafi lögreglumenn orðið varir við að annar einstaklingur var inni í húsinu en gátu ekki áttað sig á aðstæðum hans. Ítrekað var skorað á ákærða að leggja frá sér hnífinn en hann varð ekki við þeim fyrirmælum og var þá úðað á hann varnarúða á ný. Skyndilega stökk ákærði út og réðst að lögreglumönnunum með hnífinn í útréttri vinstri hendi sem hann sveiflaði. Við þessa árás hafi lögreglumennirnir hörfað frá dyrunum og beitt fyrir sig kylfum. Gerði ákærði ítrekaðar tilraunir til að stinga lögreglumennina og einnig sveiflaði hann hnífnum í áttina að lögreglumönnunum. Hafi atlaga ákærða fyrst beinst að öðrum lögreglumanninum en síðan hinum. Voru lögreglumennirnir klæddir hnífavestum og beindi ákærði árás sinni sérstaklega að andlitssvæðum þeirra. Beittu lögreglumenn kylfum á vinstri hlið og vinstri hönd ákærða og hörfaði hann inn í húsið á ný, enn vopnaður hnífnum, og lokaði dyrum. Var þá kallað eftir fleiri lögreglumönnum á vettvang auk þess sem ákvörðun var tekin um að lögreglumenn myndu vopnast skotvopnum til neyðarvarnar. Hafi þeir vopnast Glock-skammbyssum og voru þær vel sýnilegar í hulstrum á lærum lögreglumanna. Á meðan hafi vitnið H komið út úr húsinu og afhent lögreglu hníf ákærða. Þá kom einnig á vettvang vitnið J og ræddi hann við ákærða í síma og kom ákærði skömmu síðar út úr húsinu og var handtekinn.
Samkvæmt skýrslum lögreglumannanna C og D fóru þeir með ákærða á slysadeild að morgni mánudagsins 17. nóvember 2014, vegna þeirra atvika sem gerðust um nóttina. Þegar lokið var að meðhöndla ákærða hafi þeir tilkynnt honum að þeir mundu fara með hann aftur á lögreglustöð og hafi ákærði neitað því. Kvaðst hann nefbrjóta þann lögreglumann sem mundi reyna að færa hann á lögreglustöð. Samkvæmt skýrslu D steytti ákærði hnefann í áttina að honum um leið og hann lét þessi orð falla.
Ákærði gaf fyrst skýrslu vegna málsins hjá lögreglu 24. nóvember 2014. Hann lýsti því þá að hann hafi opnað dyrnar þegar lögreglumennirnir komu en ekki viljað fá þá inn. Þeir hafi úðað á hann piparúða tvisvar sinnum og lamið hann með kylfu og hafi handleggur hans brotnað á fjórum stöðum. Ákærði sagði það „kjaftæði“ að hann hafi hótað því að stinga lögreglumenn í andlit, þeir hafi ráðist á hann. Þegar ákærða var sýndur haldlagður hnífur kvaðst hann hafa verið með þennan hníf um nóttina og hafa skaðað sig með honum.
Önnur skýrsla var tekin af ákærða 16. júlí 2015. Var þá borið undir hann hvort hann hafi hótað lögreglumönnum sem fóru með hann á slysadeild til aðhlynningar um morguninn. Ákærði kvaðst ekki hafa verið á góðum stað þegar hann fór á sjúkrahúsið, hann hafi verið kvalinn og hræddur. Hann kvaðst ekki hafa ætlað að gera lögreglumönnunum mein og kannaðist ekki við að hafa hótað þeim.
Einnig liggja fyrir eigin skýrslur vitnanna F og K lögregluvarðstjóra og A, C og D lögreglumanna og framburðarskýrsla vitnanna H, L, J og M en ekki er talin ástæða til að rekja efni þeirra.
Þá liggur fyrir ljósmynd af haldlögðum hnífi, blóðtökuvottorð þar sem fram kemur að blóðsýni var tekið úr ákærða klukkan 10.19 að morgni 17. nóvember, matsgerð Rannsóknastofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði þar sem fram kemur að niðurstaða alkóhólrannsóknar blóðsýnis frá ákærða var 1,26‰ og ljósmyndir af áverkum á ákærða. Loks liggur fyrir læknisvottorð vegna ákærða, dagsett 10. febrúar 2015 og kemur þar fram að ákærði hafi verið brotinn á þremur fingrum og framhandlegg vinstri handar, með bólgu og mar á miðjum framhandlegg og mar á vinstri upphandlegg.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi
Ákærði kvaðst hafa neytt áfengis í umrætt sinn og hafa verið með sjálfsvígshugsanir og hafa sent vini sínum, J, SMS-skilaboð þar sem það hafi komið fram. J hafi svarað og sagt að hann ætlaði að senda lögreglu til hans og það hafi ákærði ekki viljað, enda orðið fyrir árásum af hendi lögreglu áður. Hann kvaðst halda að hann hafi dottið í tröppunum þegar hann fór til dyra og á sama tíma hafi H, sem þá gisti hjá honum, einnig verið að fara til dyra. Þegar hann opnaði dyrnar hafi lögreglumenn verið fyrir utan og afþakkaði hann aðstoð þeirra og lokað dyrunum. Kvaðst hann halda að þeir hafi síðan bankað aftur og hann opnað. Lögreglumennirnir hafi viljað koma inn á heimilið en hann hafi neitað því og þegar hann hafi ætlað að loka dyrunum setti annar lögreglumannanna fót milli stafs og hurðar þannig að hann gat ekki lokað. Kvaðst ákærði halda að hann hafi þá beitt annarri hendi með því að ýta honum frá og síðan lokað dyrum. Það næsta sem hann muni er að hann var laminn, í handlegg og brjóstkassa og úðað síðan á hann tvisvar sinnum. Síðan hafi honum tekist að ýta þeim út og loka dyrunum og hafi hann þá fundið fyrir sviða í andliti og augum. H hafi svo afhent lögreglumönnunum hnífinn. Síðan hafi J, sem var fyrir utan, hringt í hann og beðið hann að koma út og sagði að lögreglan væri þarna og hafi hann farið út, og þá haldið höndum uppi til að sýna að hann væri óvopnaður. Hann hafi síðan verið settur í fangaklefa þar sem hann hafi verið í sex klukkustundir. Það hafi verið blóð úti um allt í klefanum, hann hafi sviðið í andlit og hendur vegna úðans og verið tilfinningalaus bæði í vinstri hendi og vinstri handlegg. Þar hafi verið tekið úr honum blóð og seint morguninn eftir hafi verið farið með hann á sjúkrahúsið þar sem læknar sögðu honum að hann væri úr liði á þremur fingrum. Kvaðst hann minna að lögreglumennirnir C og D hafi haldið honum á meðan læknirinn setti hann í lið aftur. Síðan hafi verið teknar röntgenmyndir og í ljós kom að hann var handleggsbrotinn og brotinn á þremur stöðum á fingrum. Síðan var farið með hann aftur í fangaklefa.
Kvaðst ákærði telja að hann hafi verið með hníf í hægri hendi þegar hann opnaði dyrnar þar sem hann hafði verið að skera sig í vinstri handlegg þegar lögreglan kom. Hann kvaðst lítið muna eftir þessari nótt og hafi hann verið mjög ölvaður. Hann kvaðst ekki minnast þess að hafa reynt að halda því leyndu fyrir lögreglumönnunum að hann héldi á einhverju eða að lögregla hafi skipað honum að leggja eitthvað frá sér. Ákærði kvaðst ekki muna hvort öll samskipti hafi farið fram á ensku en gerði ráð fyrir því og kvaðst ekki minnast þess að hann hafi ekki skilið þá. Þá kvaðst hann hvorki hafa orðið var við að þeir væru með kylfu eða úða fyrr en hann var laminn. Ákærði kvaðst ekki minnast þess að hafa sagt neitt ógnandi við lögreglumennina eða að hafa hótað þeim. Ákærði sagði að H hefði sagt honum að hann hafi verið nálægur þegar atvik áttu sér stað milli ákærða og lögreglu en hann hafi verið innandyra á ganginum. Ákærði kvaðst ekki hafa beitt hnífi gegn lögreglumönnunum þessa nótt heldur einungis notað hann til að skera sjálfan sig. Borin var undir ákærða ljósmynd af hnífi og kvaðst hann gera ráð fyrir að þetta væri sá hnífur sem hann hafi notað til að skera sig.
Ákærði kveðst vera hræddur við lögreglu vegna áreitni hennar og þar sem lögreglumenn hafi margsinnis ráðist á hann og hafi hann áður þurft að leita sér læknishjálpar vegna þess. Þá fylgist lögregla með honum. Ákærði kvaðst ekki telja að hann hafi beitt lögreglumennina ofbeldi og sagði að allir þeir áverkar sem hann hafi hlotið væru varnaráverkar en hafi hann beitt ofbeldi sé það vegna þess að hann hafi verið mjög óttasleginn. Ákærði kvaðst ekki muna eftir að hafa hótað því ítrekað að stinga lögreglumennina með hnífi, þar með talið í andlitið. Ákærði sagði að það fyrsta sem hann muni sé að lögreglumennirnir börðu hann með kylfu þar sem hann stóð í ganginum fyrir innan aðaldyrnar. Hann kvaðst halda að hann hafi beðið þá að hætta, hafi öskrað og hafi lyft vinstri hendi í varnarstöðu fyrir framan andlitið. Þeir hafi barið hann í vinstri framhandlegg og vinstra megin á brjóstkassa. Á meðan hafi þeir sprautað úða tvisvar sinnum undir framhandlegg hans í andlitið.
Ákærði kvaðst vera rétthentur. Aðspurður um þann þátt í ákæru að hann hafi beint hnífi ógnandi að lögreglumönnunum og lagt ítrekað til þeirra með hnífnum kvaðst ákærði ekki muna eftir því. Hann kvaðst telja að hann hafi verið með hnífinn í hægri hendi og því hefði hnífurinn ekki átt að vera í sjónlínu lögreglumannanna þegar hann opnaði dyrnar. Ákærði sagði að erfitt sé að opna lásinn á dyrunum og hann haldi að hann hafi aflæst dyrunum með vinstri hendi en notað hægri höndina samtímis á hurðarhúninn. Hafi hann um leið haft hnífinn í hægri hendi hefur þetta ekki verið auðvelt en mögulegt. Þá sagði ákærði að áður en þessi atvik gerðust hafi hann þjáðst af kvíðaröskun og fengið lyf við því. Þá þjáist hann nú af svefnvandamálum og fái kvíðaköst. Þá hafi hann lokað sig af á heimili sínu, frá vinum sínum.
Ákærði kvaðst muna eftir því að hafa farið í læknisskoðun á sjúkrahúsinu. Hann hafi þá verið þreyttur og óttasleginn og fundið til mikils sársauka og enn fundið fyrir áhrifum varnarúðans. Hann kvaðst telja að hann hafi verið samvinnuþýður við lögreglu. Hann kvaðst ekki vita hvort hann hafi sagt eitthvað ógnandi við lögreglumennina eða hótað að nefbrjóta þá. Aðspurður hvort hann hafi steytt hnefa í átt að lögreglumanni á sjúkrahúsinu kvaðst hann gera ráð fyrir að það hafi gerst en það hafi þá verið með þeirri hendi sem ekki var örkumluð. Þeir hafi sagt við hann að hann yrði að fara aftur niður á stöð og það hafi hann ekki viljað. Hann kvaðst halda að hann hafi lyft hægri hendi þar sem þeir héldu honum föstum. Hann viti ekki hvort hann hafi kreppt hnefann. Ákærði kvaðst telja að konan sem búi handan götunnar, vitnið L, hafi ekki getað séð það sem gerðist heima hjá honum þar sem þetta gerðist innandyra. Þá benti ákærði á að þegar þetta gerðist hafi lögreglumenn fyllt út í dyrnar á heimili hans og hafi hún einungis mögulega getað séð aftan á þá.
Vitnið B lögregluvarðstjóri sagði að í umrætt sinn hafi verið óskað eftir aðstoð lögreglu að Silfurgötu 8a þar sem einstaklingur hafi verið í sjálfsvígshugleiðingum. Hann og vitnið A hafi farið þangað og þegar ákærði kom til dyra hafi hann verið með hníf í vinstri hendi, sem hann hafi reynt að fela fyrir þeim fyrir aftan bak, og var hann skorinn á handleggjunum. Síðan fór það ekki milli mála að ákærði var með hníf en þá hafi hann verið kominn með höndina niður með lærinu. Þeir hafi boðið honum aðstoð en ákærði ekki þegið hana. Þeir hafi skorað á ákærða að leggja frá sér hnífinn á meðan hann talaði við þá en hann ekki gert það. Ákærði hafi orðið æstur þannig að þeir hafi tekið upp kylfur og varnarúða. Þeir hafi sagt ákærða að ef hann legði ekki frá sér hnífinn yrði þessum búnaði beitt. Á sama tíma hafi þeir báðir heyrt í einhverjum einstaklingi inni í íbúðinni sem hafi líka skorað á ákærða að leggja frá sér hnífinn sinn. Vitnið kvaðst hafa verið fyrir aftan A sem hafi staðið nær dyrunum. Þetta hafi svo þróast í það að A sprautaði framan í ákærða úða og vitnið síðan einnig. Þá hafi ákærði opnað dyrnar og ráðist að þeim með hnífinn á lofti, fyrst að A, síðan vitninu. Þeir hafi náð að verja sig með kylfunum en átök hafi orðið við ákærða fyrir utan en síðan hafi ákærði hörfað að innganginum og farið inn í anddyrið. A hafi farið á eftir honum og stigið inn fyrir þröskuldinn og reynt að ná af honum hnífnum með kylfunni en síðan hafi þeir bakkað út og ákærði þá lokað dyrunum. Vitnið hafi þá kallað á fleiri lögreglumenn og tekið ákvörðun um að vopnast. Hann hafi ásamt tveimur öðrum stillt sér upp fyrir framan húsið. J hafi þá komið og hafi hann hringt í ákærða sem kom út skömmu seinna. Í millitíðinni hafði sá einstaklingur sem var inni með ákærða, H, komið út með hnífinn og afhent A. Þeir hafi gefið ákærða fyrirmæli um að sleppa hnífnum bæði á ensku og á íslensku en ákærði hafi ekki sleppt honum og sagði að hann mundi ráðast á þá lögreglumenn sem kæmu inn og stinga þá í andlitið. Ástandið á ákærða hafi stigmagnast og hafi hann sífellt orðið æstari og virtist ekki taka því vel að lögregla væri komin á staðinn.
Vitnið kvaðst hafa reynt að varna því að ákærði lokaði dyrunum með því að setja fótinn inn fyrir þröskuldinn. Þeir voru þá búnir að heyra að annar aðili væri í húsinu, sem þeir vissu ekki hver var, né heldur hver væri hans staða eða ástand og vildu komast að því. Fyrirmælin til ákærða um að leggja frá sér hnífinn hafi verið ítrekuð og honum sagt að annars yrði varnarbúnaði beitt. Þeir hafi fljótlega tekið upp kylfur og hafi haldið þeim í hárri viðbragðsstöðu. Þá séu úðabrúsarnir um 20 sm langir og þeim hafi verið beint að ákærða og honum sagt að þeir væru komnir með þetta upp og myndu nota þetta. Kvaðst hann telja að ákærði hafi áttað sig á því að þeir væru með þessi vopn en hann hafi ekki sýnt nein viðbrögð og ekki róast. Ákærði hafi sagt við þá að fyrsti lögreglumaðurinn sem kæmi inn í húsið yrði stunginn í andlitið. Þetta hafi hann sagt tvisvar eða þrisvar sinnum á ensku og hafi hann verið æstur þegar hann sagði þetta. Þeir hafi verið á verði eftir að þessi orð féllu og hafi ekkert sótt á ákærða. Varnarúða hafi verið beitt á ákærða þegar búið var að skora á hann að leggja frá sér hnífinn og þegar þeir heyrðu í öðrum einstaklingi inni í íbúðinni. Úðanum hafi fyrst verið beitt eftir að ákærði hótaði að stinga þá í andlitið. Markmiðið með því var að afvopna ákærða en hann hafi haldið áfram með þessa hótun eftir að úðanum var beitt. Ákærði hafi síðan komið út úr húsinu með hnífinn á lofti og hafi þeir þá bakkað frá útidyrunum. Eitt þrep sé niður að dyrunum og hafi vitnið rekið hælinn í það og misst jafnvægið og dottið aftur fyrir sig. Þá hafi ákærði ráðist í áttina að Asem hafi náð að slá ákærða sem hafi þá snúið sér að vitninu og ráðist á hann með hnífinn á lofti og reynt að stinga hann og beindi hnífnum í áttina að andliti hans. Vitnið kvaðst hafa náð að verja sig með kylfunni og slegið ákærða með henni. Ákærði hafi þá bakkað í áttina að innganginum, ennþá með hnífinn í hendi. A hafi þá sótt í áttina að honum, ákærði farið inn í anddyrið og hafi A stigið öðrum fæti inn fyrir þröskuldinn og hafi ætlað að reyna að ná hnífnum af ákærða með kylfunni en ákærði hafi ekki sleppt hnífnum og hafi þeir síðan bakkað út.
Vitnið kvaðst hafa séð ákærða veitast að A með hnífinn á lofti í áttina að andlitinu á A og því svæði. Þeir hafi verið í hnífavestum sem hafi verið sýnileg. Vitnið sagði að hnífsblaðið hafi staðið niður úr hnefa ákærða. Árás ákærða hafi verið mjög kröftug og ofsafengin og hafi vitnið virkilega óttast um líf sitt á þessum tímapunkti. Þá sagði vitnið að þegar ákærði beindi hnífnum í áttina að andliti A hafi A bakkað frá honum og hafi síðan getað haldið honum frá með kylfunni. Vitnið hafi svo náð jafnvæginu og komið til baka og náð einnig höggi á ákærða. Þegar ákærði beindi hnífnum að andliti A hafi A náð að sveigja eða beygja sig frá og hafi svo bakkað og náð svo að beita kylfunni. Vitnið kvaðst hafa slegið ákærða tvö, þrjú högg með kylfunni, eitt hafi lent á framhandlegg og annað á upphandlegg. Höggin hafi farið í ákærða þeim megin sem hann hélt á hnífnum. Vitnið sagði þá hafa verið yfirvegaða í samskiptum sínum við ákærða miðað við aðstæður og sagði ákærða hafa verið mjög æstan þegar hann réðst á þá. Kvaðst hann hafa upplifað þetta sem lífshættulega árás á þá báða. Vitnið sagði ákærða hafi verið með hnífinn í vinstri hendi. Þá staðfesti vitnið að ákærði hafi hótað því að stinga þá í andlitið og lagt til þeirra í áttina að andliti en ekki ógnað þeim á annan hátt með hnífi. Vitnið sagði að sér hefði liðið mjög illa eftir þetta en ekki leitað sér sérfræðiaðstoðar.
Vitnið A lögreglumaður sagði lögreglu umrætt sinn hafa borist tilkynning um mann sem væri að veita sér áverka. Hann hafi farið á vettvang ásamt vitninu B og þegar ákærði kom til dyra hafi hann virst vera í miklu uppnámi. Vitnið kvaðst hafa staðið nær dyrunum en B verið fyrir aftan hann og hafi hann séð yfir öxl vitnisins. Kvaðst vitnið gera ráð fyrir að ákærði hafi opnað dyrnar með hægri hendi þar sem vinstri hönd hans hafi verið fyrir aftan bak. Hafi ákærði beygt sig fram þegar hann opnaði dyrnar og hafi vitnið ekki séð nema 2/3 hluta af líkama ákærða og þá vinstri hlið hans þar sem ákærði hafi að hluta til verið bak við dyrnar. Þeir hafi reynt að tala við ákærða en vitnið hafi fljótlega séð að hann var með hníf í hendinni og hafi hann sagt B frá því. Síðan hafi vitnið tekið upp varnarúða og sagt ákærða ítrekað, á íslensku, að setja hnífinn frá sér. Ákærði hafi fljótlega farið að hóta því að stinga þann lögreglumann sem fyrst kæmi inn, í hausinn eða andlitið, og síðan hafi þeir fengið margar hótanir frá honum, á ensku. Þá hafi vitnið farið að skipa ákærða fyrir á ensku og á íslensku. Þá hafi hann hótað því að nota úðann ef hann mundi ekki leggja hnífinn frá sér. Ákærði hafi ekki orðið við því og hafi vitnið á endanum notað úðann á hann og kvaðst hann halda að B hafi einnig notað úðann á ákærða á svipuðum tíma og hafi þetta ekki virst hafa mikil áhrif á ákærða. Vitnið kvaðst svo hafa tekið upp kylfuna og hótað ákærða því að hann myndi beita henni en ákærði legði ekki hnífinn frá sér. Ákærði hafi skyndilega lokið upp dyrunum og komið út á móti honum með vinstri höndina á lofti og reyndi að stinga í áttina að vitninu. Vitnið kvaðst hafa bakkað mjög hratt til baka og til vinstri og reynt að komast undan hendi ákærða. Ákærði hafi verið með „stingandi hreyfingu“ í áttina að honum og hafi markmið hans verið að stinga í efri hlutann á líkama vitnisins, í brjóstkassann og ofar. Kvaðst hann hafa rétt náð að komast undan högginu og kvaðst telja að sú hnífsstunga hefði hafnað einhvers staðar í efri hluta hans. Vitnið kvaðst hafa bakkað strax og í sömu andrá byrjað að beita kylfunni á ákærða tvisvar eða þrisvar sinnum. Markmið hans hafi verið að reyna að hitta hann einhvers staðar í höndina og í efri hluta búksins. Vitnið kvaðst hafa verið með vinstri fótinn milli stafs og hurðar og komið þannig í veg fyrir að ákærði gæti lokað dyrunum þegar ákærði skyndilega lauk þeim upp. Hann hafi þurft að bakka og hafi því ekki getað farið hratt yfir og því hafi hann farið til vinstri til að reyna að komast undan höggunum. Vitnið sagði hnífinn hafa komið niður úr hnefa þegar ákærði stakk í áttina til hans og hafi handarhreyfingin verið niðurvísandi og handleggur farið niður. Ákærði hafi síðan sveiflað hnífnum í áttina að B sem var fyrir aftan vitnið. Vitnið hafi þá strax komið að hægri hlið ákærða, sem hafi snúið að honum, og beitt kylfunni á hægri hlið ákærða sem fór þá á grúfu til að verja höndina fyrir kylfuhöggunum. Hann hafi síðan snúið sér til vinstri og farið í hring og þá enn verið með hnífinn í hendinni. Framhlið ákærða hafi þá snúið að húsveggnum. Ákærði hafi sett höndina á undan sér, með hnífinn í hendinni, og hafi virst vera að þreifa eftir dyrunum. Þá hafi vitnið slegið kylfunni þvert yfir höndina á ákærða og hafi hann verið að reyna að hitta á miðbik handarbaksins en hafi greinilega hitt puttana á honum, fyrir ofan kjúkur. Ákærði hafi engu að síður náð að halda áfram á hnífnum. Ákærði hafi svo ætlað að fara inn og hafi vitnið ætlað að fara á eftir honum og komist inn fyrir dyrnar með hægri hliðina en varð svo frá að hverfa. B hafi þá tekið ákvörðun um að þeir mundu vopnast og kallaði út meiri mannskap og náði í skotvopn. Vitnið kvaðst hafa orðið vart við skugga einhvers við vinstri hlið ákærða þegar þeir töluðu við hann áður en hann fór út og hafi viðkomandi talað rólegri röddu við ákærða. Ákærði afhenti síðan þessum manni hnífinn og kom hann út og afhenti lögreglu hnífinn. Þeir hafi svo stillt sér upp fyrir utan húsið og kvaðst vitnið þá hafa verið hrætt um að ákærði mundi koma hlaupandi út með hníf. Vitnið J hafi síðan komið og hafi hann hringt í ákærða og hafi náð að fá ákærða til að koma út og hafi ákærði verið rólegur þegar hann var handtekinn.
Þá sagði vitnið að þegar ákærði hafi beint athygli sinni að B og lagt til hans með hnífnum hafi vitnið örugglega beitt kylfunni að lágmarki tvisvar sinnum, áður en ákærði snéri sér undan. Þá hafi hann beitt kylfunni einu sinni þegar ákærði var búinn að snúa sér í hálfhring og einu sinni eftir það. Þá sagði vitnið að þegar þeir komu upphaflega að dyrunum á heimili ákærða hafi hann aldrei órað fyrir því að þetta mundi gerast og hafi þeir ekki verið undir það búnir að lenda í hnífaárás og hafi brugðið mikið. Sé þetta að hluta ástæða þess að vitnið hafi ákveðið að hætta að vinna sem lögreglumaður. Kvaðst vitnið telja að hann hafi aldrei fyrr verið í eins mikilli hættu.
Nánar aðspurður kvaðst vitnið telja að þegar ákærði opnaði dyrnar hafi B haft víðara sjónarhorn til að sjá hvort ákærði væri með eitthvað í hendinni sem hann var með fyrir aftan bak þegar hann opnaði dyrnar. Þá kvaðst hann vera viss um að ákærði var með hnífinn í vinstri hendi. Ákærði hafi öskrað ítrekað á þá að hann ætlaði að stinga lögreglumann í höfuðið eða andlitið. Þegar ákærði var utandyra hafi vitnið reynt að beina höggunum með kylfunni eins ofarlega og hann gat og að síðunni á honum til að hafa áhrif á höndina sem hann notaði til að leggja til hans með hnífnum með niðurvísandi handarhreyfingu. Hann kvaðst ekki vita alltaf hvar hann hitti en telja að höggþungi hans hafi ekki verið mikill. Ákærði hafi ekki verið með hnífinn í hægri hendi en hann hafi með þessu verið að reyna að fá hann til þess að hætta að leggja með hnífnum með vinstri hendi í áttina að B en sú hönd hafi snúið frá vitninu og hafi hann því ekki haft aðgang að henni. Þá hafi ákærði sett vinstri höndina yfir höfðuð sér til að verja sig. Kvaðst vitnið telja að ákærði hafi upphaflega notað hægri höndina til að opna dyrnar og loka og þess vegna hafi hann verið með hnífinn í vinstri hendi. Kvaðst hann halda að ákærði hafi ekki haft tóm til að skipta um hönd. Þegar ákærði var að ráðast að B hafi hann snúið hægri hlið að vitninu og þá skýlt sér með hægri hendinni þegar vitnið lagði til hans með kylfunni. Síðan hafi hann séð hnífinn í hendinni og þá slegið til handarinnar og var þá viss um að hnífurinn mundi fara en það gerðist ekki. Þegar ákærði kom út með hnífinn og reyndi að stinga hann fannst honum ákærði vera að reyna að stinga hann í efri hluta líkamans. Það hafi verið mesta mildi, eins og hann upplifði þetta, að hann náði að komast undan högginu. Ákærði hafi reynt að stinga niður og hefði vitnið ekki bakkað hefði höggið hafnað einhvers staðar í efri hluta líkamans. Hann sé þá að tala um andlit, höfuð og efri hluta líkamans, sérstaklega hægra megin.
Vitnið C lögreglumaður kvaðst hafa komið að málinu þegar ákærði var að koma út. Ákærði hafi þá virkað ölvaður og í andlegu ójafnvægi. Þegar tekið var blóðsýni úr ákærða í fangaklefa hafi hann byrjað að vera með ógnandi tilburði og hótað að stinga vitnið með sprautunál. Síðar hafi vitnið, ásamt D, farið með ákærða á sjúkrahúsið og var vitnið viðstatt skoðun á ákærða. Þar hafi ákærði endalaust verið að hreyta í lögreglumennina. Þegar ákærða var sagt, að skoðun lokinni, að hann þyrfti að fara aftur með þeim hafi hann neitað og sagt að hann mundi nefbrjóta hvern þann sem mundi reyna að taka hann og hafi ákærði beint þessu að honum og vitninu D. Þeir hafi þá tekið snögglega hvor í sína höndina á ákærða og leitt hann út í bifreiðina og hafi hann róast niður á leiðinni. Þá hafi hann samfara þessari hótun kreppt hnefa og sett sig í stellingar til þess að vera tilbúinn til að taka á móti þeim. Þessi kreppti hnefi hafi frekar beinst að D en vitninu þar sem D hafi staðið við hægri hönd ákærða sem þá var kominn í fatla á vinstri hendi. Samskipti þeirra við ákærða hafi farið fram á ensku.
Vitnið K lögregluvarðstjóri kvaðst hafa heyrt hluta af símtali J við ákærða. Hann kvaðst hafa heyrt J segja við ákærða, á ensku, eitthvað á þá leið: „Þú reyndir að stinga þá.“
Vitnið F lögregluvarðstjóri kvaðst hafa orðið var við að J var við heimili ákærða þegar vitnið kom þangað. J hafi verið að tala við ákærða í síma og verið að reyna að fá hann til að koma út. Stuttu síðar hafi ákærði komið út og hafi hann þá verið rólegur en virst vera ölvaður.
Vitnið D lögreglumaður kvaðst hafa haft afskipti af ákærða í fangaklefa áður en farið var með hann á sjúkrahúsið. Hann hafi verið rólegur í upphafi en varð svo æstur og vildi fara á sjúkrahúsið til skoðunar. Hann og vitnið C hafi fylgt ákærða á sjúkrahúsið. Þar hafi hann sýnt mikinn mótþróa og hafi ekki viljað hafa lögreglumennina viðstadda þegar læknir skoðaði hann. Ákærði hafi allan tímann talað um að hann ætlaði ekki að fara með þeim aftur á lögreglustöð. Vitnið sagði ákærða hafa sagt, á ensku, að hann ætlaði að berja þann sem myndi snerta sig og brjóta á honum nefið og steytti hnefa í áttina að vitninu. Þeir hafi þá tekið hann í lögreglutök og leitt hann út af sjúkrahúsinu og út í lögreglubifreið. Vitnið sagði að hann hafi talið ákærða vera ógnandi þegar hann viðhafði þessi ummæli og hafi þeir talið að full ástæða væri til að taka hann í tök. Þetta hafi gerst eftir að læknisskoðun var lokið og þeir hafi ætlað að flytja hann aftur á lögreglustöð. Vitnið hafi staðið hægra megin við ákærða sem hafi sagt: „Sá sem snertir mig, ...ég fer ekki aftur á lögreglustöð, ...snertir mig ég brýt á honum nefið.“ Síðan hafi ákærði sett hnefann krepptan á loft. Á þessum tíma hafi ákærði verið kominn með umbúðir um aðra höndina og hafi hann kreppt þá hönd sem ekki var með umbúðir.
Vitnið L kvaðst hafa vaknað aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember 2014 við mannamál. Síðan hafi hún heyrt sagt: „Leggðu frá þér hnífinn, leggðu frá þér hnífinn. Put down the knive Brad.“ Henni hafi brugðið við þetta og þá litið út um gluggann og séð tvo lögreglumenn standa við hús ákærða. Annar þeirra hafi verið að biðja ákærða um að leggja frá sér hnífinn. Hún hafi þá hætt að fylgjast með atvikum en nokkrum mínútum seinna heyrt að lögreglumaðurinn var enn að segja: „Leggðu frá þér hnífinn.“ Ákærði hafi þá sagt: „I will stab you. I will focking stab you.“ Síðan hafi ákærði ráðist til atlögu eða stokkið út með eitthvað í hendinni „sem fer upp“. Þá hafi annar lögreglumaðurinn dottið en hinn slegið ákærða með kylfu í höndina. Ákærði hafi svo farið aftur inn og þeir eitthvað reynt að tala við hann og reynt að banka. Síðan hafi fleiri lögreglumenn komið og hafi þeir verið í fullum skrúða, það er með skjöld og hjálm. Þeir hafi reynt að tala við ákærða og biðja hann að koma út en engin viðbrögð fengið. Á einhverjum tímapunkti hafi vitnið H, sem einnig bjó þarna, komið út. Einnig hafi vitnið J hjálpað lögreglu að tala við ákærða. Hann hafi hvatt ákærða til að koma út og hafi það verið fyrir hans tilstuðlan sem ákærði kom út. Vitnið kvaðst hafa verið statt í svefnherbergi sínu þegar það heyrði þetta og sá. Það herbergi snúi að götunni og hafi hún verið með galopinn gluggann og hafi heyrt mjög greinilega. Kvaðst vitnið halda að átta eða tíu metrar hafi verið þaðan að staðnum þar sem atvik gerðust og þessa nótt hafi verið gott veður og logn.
Vitnið kvaðst muna að ákærði sagði: „I will stab you in the face.“ Þá kvað vitnið halda að þessi ummæli hafi komið þrisvar fram hjá ákærða. Lögreglumaðurinn hafi sagt ákærða að leggja frá sér hnífinn og þá nefnt nafn ákærða og þá hafi ákærði hótað þessu. Vitnið kvaðst ekki hafa horft á atvikin allan tímann heldur kíkt af og til og hafi fundist þetta vera óþægilegt. Aðspurt sagði vitnið að miðað við það sem hún heyrði hafi ákærði virst vera svolítið æstur og örvæntingarfullur og hafi hún fundið til með honum. Kvaðst hún hafa verið hissa á því hvað lögreglumennirnir sögðu ákærða oft að leggja frá sér hnífinn. Hafi henni fundist lögregla og vinir ákærða vinna vel saman í málinu. Ákærði hafi svo komið út, kropið niður og sett hendur upp fyrir höfuð, eins og lögreglumennirnir sögðu honum að gera, og hreytti blótsyrðum í lögreglu. Vitnið kvaðst ekki muna hvora höndina ákærði hafi verið með á lofti þegar hann veittist að lögreglumönnunum. Aðspurt um lýsingu í umrætt sinn sagði vitnið að það hafi verið ljós úti, en það myndi ekki hvort anddyrið hjá ákærða hafi verið sérstaklega upplýst en kvaðst ekki minnast þess að hún hafi átt í vandræðum með að sjá vegna myrkurs.
Vitnið J sagði ákærða, sem sé vinur hans, hafa verið illa haldinn aðfaranótt 17. nóvember 2014, búinn að drekka mikið og var þungur og hafi vitnið talið sér trú um að hann væri að reyna að taka líf sitt. Hann hafi því beðið lögreglu um aðstoð og tók fram að hann vildi að þeir færu óeinkennisklæddir þar sem ákærði vantreysti lögreglu. Hann kvaðst hafa reynt að vera sem mest í símasambandi við ákærða því að þá vissi hann að ákærði væri á lífi, en eftir einhvern tíma hafi ákærði hætt að svara honum og þá hafi vitnið hlaupið út. Þegar hann kom að heimili ákærða hafi lögregla verið þar. Vitnið kvaðst hafa hringt í ákærða þegar hann var fyrir utan heimili ákærða og hafði hann þá ekki upplýsingar um hvað hafði gerst á undan en vissi þó að það höfðu verið átök. Hafi hann á endanum fengið ákærða til að koma út og var viðstaddur þegar ákærði kom út úr húsinu og lögreglan handtók hann. Aðspurður um ástand lögreglumannanna almennt sagði vitnið þá hafa verið „tilbúna í þetta“ og æsta í að fá að gera eitthvað.
Vitnið N læknir kvaðst hafa komið á lögreglustöðina um morguninn til að taka blóðprufu af ákærða sem þá var í klefa. Ákærði var greinilega reiður og í miklu uppnámi og leið illa. Vitnið kvaðst strax hafa séð að ákærði var slasaður, brotinn á a.m.k. tveimur fingrum og framhandlegg, en ekkert vandamál hafi verið að taka úr honum blóðprufu. Vitnið sagði að brotin hafi sem slík ekki verið hættuleg heilsu ákærða þótt það sé auðvitað sárt að vera brotinn.
Vitnið H kvaðst hafa búið hjá ákærða þegar atvik gerðust. Hann hafi heyrt þegar bankað var á dyrnar og þá farið fram og séð ákærða á leið til dyra og séð hann detta niður stigann. Síðan hafi ákærði opnað og fyrir utan voru lögreglumenn sem voru að athuga með hann. Þeir sjá að ákærði er með hníf og öskra á hann að láta hnífinn niður. Svo verður einhver ágreiningur milli þeirra og ákærða. Síðan verða áflog og ákærði stekkur út um dyrnar en vitnið hafi þá verið búið að snúa sér frá. Ákærði komi síðan til baka inn og reyndi að loka dyrunum en þá hafi lögreglumaður komið á eftir honum og farið að lemja ákærða með kylfu í vinstri höndina en ákærði hafi þá haldið á hnífnum í hægri hendi. Vitnið kvaðst hafa heyrt beinin í ákærða brotna. Á endanum hafi ákærði náð að koma lögreglumanninum út aftur og loka dyrunum. Þá hafi bæði verið búið að lemja ákærða og úða á hann piparúða. Vitnið hafi þá róað ákærða niður og tekið hnífinn af honum og komið til lögreglu. Lögreglumaður hafi spurt vitnið hvort það væru fleiri vopn í húsinu og hafi hann sagt þeim að ákærði væri í eldhúsinu en hann hafi ekki talið að ákærði mundi nota það sem þar var. Lögreglumennirnir hafi svo vikið frá en þá hafi J, vinur ákærða, komið og hann hafi á endanum náð að sannfæra ákærða um að koma út. Vitnið sagði ákærða hafa verið vel ölvaðan og í algjöru uppnámi, en kvaðst ekki hafa séð áverka á ákærða fyrr en lögreglumennirnir nefndu hníf og hafi hann þá einnig séð hnífinn. Um var að ræða vasahníf með 4-5 sm blaði og hélt ákærði hnífnum útréttum niður með síðu þegar lögregla sagði honum að sleppa hnífnum. Hann kvaðst hafa heyrt ákærða segja einu sinni áður en hann stökk út: „If you come in here I will stab you in the face“. Vitnið kvaðst hafa snúið sér frá ákærða og lögreglumönnunum en þá heyrt skarkala og litið aftur við og þá hafi ákærði verið að stökkva út en vitnið hafi ekki séð hvað gerðist þar. Hann kvaðst hafa heyrt að lögreglumennirnir hafi verið að reyna að halda ákærða frá sér og heyrt þá gefa ákærða fyrirmæli um að setja niður hnífinn. Ákærði hafi alltaf verið að útskýra af hverju hann væri með hníf, það væri af því að hann væri að meiða sig, en lögreglumennirnir hafi alltaf gripið fram í. Aðspurður hvort ákærði hafi verið ógnandi í garð lögreglu svaraði vitnið „jú“ og sagði að ákærði hafi ekki verið hress með að þeir væru þarna. Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða beina hnífi að lögreglumönnunum en kvaðst hafa séð lögreglumenn nota úða á ákærða og hafi þeir sprautað á hann þegar hann reyndi að loka á þá. Vitnið sagði lögreglumennina alltaf hafa talað íslensku við ákærða. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í neinni hættu þegar atvik gerðust og taldi ekki að lögregla hafi haft ástæðu til að ætla að hann væri í hættu en hann hafi staðið við hlið ákærða í dyragætt þegar ákærði opnaði og hafi lögreglumennirnir séð hann vel allan tímann. Hann hafi verið hægra megin við ákærða séð frá lögreglumönnunum. Vitnið sagði að sér hafi fundist lögreglumennirnir vera æstir. Aðspurt kvaðst vitnið telja að ákærði hafi fengið 5-6 högg og þau hafi komið öll frá sama lögreglumanni eftir að ákærði var kominn inn aftur. Sú hönd ákærða sem hann var með hnífinn í var þá á bak við dyrnar. Aðspurt sagði vitnið að ljós hafi logað í anddyri og á gangi auk þess sem það hafi logað á útiljósi. Aðspurt á hvaða tímapunkti vitnið hafi snúið sér frá ákærða og lögreglumönnunum anddyrinu sagði vitnið að þá hafi lögreglumennirnir verið búnir að segja ákærða að setja hnífinn niður og ákærði verið búinn að hóta þeim.
Vitnið O læknir kvaðst hafa séð ákærða á slysadeild um klukkan tíu um morguninn. Ákærði hafi fyrst verið æstur en hafi fljótlega róast og bar merki þess að vera undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Ákærði var slasaður, með mar á brjóstkassa, upphandlegg og framhandlegg, brotinn á framhandleggsbeini og þremur langfingrum vinstri handar og með húðrispur á báðum framhandleggjum.
Vitnið P læknir kvaðst hafa komið í fangageymslu til ákærða. Hann sagði að útkallið hafi verið sér minnisstætt. Stemmningin á lögreglustöðinni hafi verið þannig að það virtist sem öllum sem komu að málinu hafi verið mjög brugðið. Því sem gerðist hafi verið lýst fyrir honum og virtust þeir sem fóru heim til ákærða til að aðstoða hann hafa upplifað mikla ógn. Vitninu fannst ástand ákærða ekki vera í samræmi við þessa forsögu. Hann var talsvert ölvaður og hafi gert að gamni sínum við vitnið eiginlega allan þann hátt í klukkutíma sem vitnið var hjá honum. Þetta hafi virkað undarlega á vitnið. Vitnið kvaðst hafa metið það svo að það væri liðhlaup í fingrum ákærða, sem svo reyndist vera brot, en seinna kom einnig í ljós að hann var brotinn á handlegg. Vitnið sagði ákærða ekki hafa verið þjáðan.
Niðurstaða fyrsta ákæruliðar ákæru ríkissaksóknara
Ákærði neitar sök samkvæmt fyrsta ákærulið ákæru ríkissaksóknara. Byggir ákærði vörn sína á því að lögregla hafi að æst ákærða upp með þeim afleiðingum að hann hafi misst stjórn á skapi sínu en aðrar leiðir hafi verið færar til að nálgast hann. Þá telur ákærði að ekki verði byggt á framburði lögreglumannanna þar sem þeir hafi á sama tíma og þeir gáfu framburð sinn verið sjálfir undir kæru vegna sömu atvika. Bæði af framburði ákærða og vitna, og samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á blóðsýni sem tekið var um fimm klukkustundum síðar, má ráða að ákærði var verulega ölvaður þegar atvik gerðust. Framburður hans bendir til þess að hann muni glefsur úr atburðarásinni. Hann kvaðst minnast þess að hafa verið með hníf og að lögregla hafi beitt á hann úða og kylfum og að hann hafi ekki viljað fá lögreglu inn heima hjá sér. Þá bendir bæði framburður ákærða og vitna til þess að andlegt ástand ákærða hafi verið slæmt þegar atvik gerðust. Ákærði kvaðst telja að hann hafi haft hnífinn í hægri hendi þegar atvik gerðust og rökstuddi það með því að hann hefði verið að skera sig á vinstri hendi þegar lögregla kom og taldi að hnífurinn hafi ekki átt að vera í sjónlínu þegar dyrnar voru opnaðar. Fær þessi framburður ákærða stuðning í framburði vitnisins H en er í andstöðu við framburð lögreglumannanna A og B sem báru um að ákærði hafi haft hnífinn í hægri hendi. Af ljósmyndum af vettvangi má ráða að útidyrnar á heimili ákærða hafi opnast til hægri séð frá þeim sem er innandyra. Samrýmist þessi framburður ákærða því illa aðstæðum þar sem ólíklegt er að lögreglumenn hefðu séð hnífinn þegar ákærði opnaði dyrnar hafi hann haft hann í hægri hendi. Vitnin A, B og H eru hins vegar sammála um að lögreglumennirnir hafi fljótlega séð hnífinn. Með vísan til þess telur dómurinn sannað að ákærði hafi verið með hníf í vinstri hendi þegar atvik gerðust en ekkert er fram komið sem bendir til þess að hann hafi á einhverjum tímapunkti fært hann á milli handa sinna.
Framburður vitnanna B og A fyrir dómi um atvik er skýr og stöðugur og í samræmi við þær lýsingar sem koma fram í skýrslum þeirra á rannsóknarstigi. Þeir lýstu því að ákærði hefði komið til dyra og þeir þá séð að hann var með hníf í vinstri hendi sem hann upphaflega reyndi að fela á bak við sig. Þeir lýstu því að þeir hafi ítrekað gefið ákærða fyrirmæli um að setja hnífinn frá sér og þegar ákærði hafi ekki hlýtt þeim fyrirmælum hafi þeir sagt honum að ella mundu þeir beita á hann varnarúða og kylfum. Þeir hafi beitt úðanum eftir að ákærði hótaði að stinga þá í andlitið. Þá hafi ákærði stokkið út og reynt að stinga lögreglumennina, fyrst A og síðan B, en hörfað inn eftir að lögreglumenn beittu kylfum á hann. Báðir lögreglumennirnir báru um að þeir teldu að ákærði hafi beint hnífslagi sínu í áttina að efri hluta líkama þeirra en þeir hafi náð að forða sér undan því. Það hafi ákærði gert þannig að hann reiddi vinstri höndina upp og hafi hnífurinn staðið úr hnefa hans og hafi hann látið höndina ganga niður eftir því sem hann reyndi að stinga þá. Lögreglumennirnir báru einnig um þessa háttsemi ákærða gagnvart hvor öðrum. Þá upplifðu þeir báðir atlöguna sem alvarlega og að þeir hafi naumlega sloppið undan hnífslögum ákærða. J hafi bakkað og fært sig til vinstri til að forða sér frá lagi ákærða en B hafi beygt sig auk þess sem þeir hafi beitt kylfunum.
Framburður lögreglumannanna fær stoð í framburði vitnisins L en hún bar um að hún hafi séð atvik frá glugga á heimili sínu sem er skammt frá heimili ákærða og þá séð lögreglumennina bakka undan ákærða þegar hann kom út úr anddyrinu, með eitthvað í hendi, og hafi þá annar lögreglumannanna dottið. Þá hafi hún heyrt ákærða ítrekað hóta því að stinga þá, m.a. í andlit. Er framburður L í fullu samræmi við framburð lögreglumannanna svo langt sem framburður hennar nær. Þá bar vitnið H einnig um að hafa heyrt ákærða hóta lögreglumönnunum á sama hátt, séð ákærða stökkva út um dyrnar og heyrt lögreglumennina segja við ákærða, þegar hann var úti, að setja hnífinn niður og sagði að þá hafi lögreglumennirnir verið að halda ákærða frá sér. Skömmu síðar hafi ákærði verið kominn til baka í anddyrið, og var þá enn með hnífinn, og lögreglumennirnir hafi svo komið á eftir honum og hafi annar þeirra þá beitt kylfu á ákærða.
Eins og á stendur verður ekki talið að það rýri trúverðugleika lögreglumannanna B og A að þeir voru kærðir fyrir ólögmæta valdbeitingu vegna sömu atvika en mál það var fellt niður 15. apríl 2015. Telja verður sannað með framburði lögreglumannanna, sem fær stoð í framburði vitnanna L og H, að ákærði hafi reynt að stinga lögreglumennina með hnífi í efri hluta líkama þeirra en ósannað að ákærði hafi lagt oftar en einu sinni til hvors þeirra. Þá telst sannað með framburði framangreindra aðila að ákærði hafi hótað lögreglumönnunum ítrekað að stinga þá í m.a. andlitið. Ekki liggur hins vegar fyrir að ákærði hafi beint hnífi ógnandi að lögreglumönnunum utan þess þegar hann reyndi að stinga þá en af framburði lögreglumannanna og vitnisins H verður helst ráðið að ákærði hafi fram að þeim tíma fyrst haft hnífinn fyrir aftan bak en síðan niður með síðu. Verður ákærði því sýknaður af þeim hluta ákærunnar.
Í ákæru er háttsemi ákærða talin varða við 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 1. mgr. 106. gr. sömu laga. Með þeirri háttsemi sinni að beina hnífslagi í áttina að lögreglumönnunum verður að telja að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að valda þeim líkamstjóni. Hnífur sá sem ákærði beitti í atlögunni var með um 5 sm löngu blaði. Telja verður að hann sé hættulegt tæki í skilningi 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Í ákæru er verknaðnum, hvað varðar brot gegn 2. mgr. 218. gr., lýst sem tilraunarverknaði, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Engir áverkar hlutust af atlögum ákærða og verður að telja mildi að lögreglumönnunum tókst að víkja sér undan hnífslagi ákærða. Þá liggur fyrir að lögreglumennirnir voru að sinna starfi sínu þegar ákærði veittist að þeim og að ákærða var ljóst að um lögreglumenn var að ræða. Með vísan til alls framangreinds telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í fyrsta ákærulið að því undanskildu sem hér að framan er rakið. Eru brot ákærða réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Niðurstaða annars ákæruliðar ákæru ríkissaksóknara
Ákærði neitar sök samkvæmt öðrum ákærulið ákæru ríkissaksóknara og byggir hann vörn sína á því að ósannað sé að hann hafi framið brotið. Framburð ákærða er helst hægt að skilja svo að hann muni ekki hvort hann hafi sýnt af sér þá háttsemi sem hann er ákærður fyrir en skýrt kom fram í framburði hans að hann var ósáttur við þá ætlun lögreglumannanna að flytja hann á ný á lögreglustöð af sjúkrahúsinu. Þá lýsti hann mikilli vanlíðan sinni í umrætt sinn. Einnig bendir framburður vitna til þess að ákærði hafi verið ölvaður og í uppnámi þessa nótt og hafi hann sérstaklega tekið afskipti lögreglumannanna illa upp.
Í ákæru er brot ákærða talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Framburður lögreglumannanna D og C er samhljóða um að ákærði hafi, á sjúkrahúsinu, hótað að nefbrjóta þá og að ákærði hafi samhliða steytt hnefa í átt að D Sú lýsing vitnanna styður það að ætlun ákærða hafi með því verið sú að ógna lögreglumanninum enn frekar eða leggja áherslu á hótunina. Þá bar D um að hann hafi talið þessa hegðun ákærða ógnandi. Fyrir liggur að lögreglumennirnir voru að sinna starfi sínu í umrætt sinn og að ákærða var ljóst að um lögreglumenn var að ræða. Þrátt fyrir þær aðstæður sem ákærði var í þegar atvik gerðust, þ.e. hann var slasaður á sjúkrahúsi, í haldi lögreglu, verður með vísan til ástands hans og þeirra atvika sem á undan gerðust að ætla að hegðun hans hafi verið til þess fallinn að valda ótta hjá lögreglumönnunum. Með vísan til framangreinds telur dómurinn sannað að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst er í öðrum ákærulið og er brot ákærða réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru.
V
Ákærði er fæddur árið 1980. Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur hann ekki áður verið dæmdur til refsingar. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 106. gr. og 2. mgr. 218. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Um ákvörðun refsingar fer eftir refsimörkum 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Brot þau sem ákærði er ákærður fyrir í ákæru ríkissaksóknara og hefur nú verið sakfelldur fyrir eru alvarleg og beinast að lögreglumönnum sem voru að sinna skyldustörfum sínum sem fólust upphaflega í því að veita ákærða aðstoð vegna vanlíðunar hans. Ákærði lýsti því ítrekað fyrir dómi að hann óttaðist lögreglu. Af framburði vitna má ráða að ákærði var í miklu uppnámi þessa nótt og virðist sem hann hafi verið kominn í það ástand áður en afskipti lögreglu byrjuðu og lítur dómurinn til þess við ákvörðun refsingar, sbr. 7. töluliður 1. mgr. 70. gr. laganna. Auk framangreinds er einnig við ákvörðun refsingar litið til 77. gr. almennra hegningarlaga, þess að ákærði er með hreint sakavottorð og alvarleika og umfangs þeirra brota sem ákærði hefur verið sakfelldur fyrir, sbr. 1. og 3. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Með vísan til 6. og 7. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni eru gerð upptæk til ríkissjóðs tvær kannabisplöntur, 4,09 grömm af maríhúana, hitablásari, lampi og tvö ljós (skv. munaskrá nr. 104919), grammavog, mulningskvörn og þrír plastpokar (skv. munaskrá nr. 106988).
VI
Í ákæru er getið um bótakröfur A og B, hvor að fjárhæð 300.000 krónur auk vaxta og lögmannskostnaðar. Bótakrefjendur byggja kröfu sína á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og vísa til þess að um sé að ræða ólögmæta meingerð gegn þeim sem unnin hafi verið af ásetningi og valdið þeim miska, sbr. b-lið ákvæðisins. Ákærði byggir vörn sína á því að bótakrefjendur hafi, sem lögreglumenn, þurft að taka ákveðnum áföllum í starfi. Er því hafnað að slík sjónarmið eigi, eins og á stendur, að leiða til sýknu ákærða af bótakröfum. Árás ákærða á bótakrefjendur var alvarleg og mildi var að ekki hlaust af líkamstjón. Þá lýstu þeir því báðir að þeir hafi talið sig vera í bráðri hættu þegar ákærði lagði til þeirra með hnífnum. Þá var ákærði áður búinn að hóta atlögunum. Telur dómurinn að skilyrði bóta samkvæmt 26. gr. séu fyrir hendi og verður ákærði því dæmdur til að greiða bótakrefjendum, hvorum um sig, 150.000 krónur í miskabætur auk vaxta eins og nánar greinir í dómsorði. Bótakrafa var fyrst birt fyrir ákærða við þingfestingu málsins 21. október 2015 og miðast upphafstími dráttarvaxta við það tímamark, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá greiði ákærði bótakrefjendum hvorum um sig 120.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar, að meðtöldum virðisaukaskatti.
VII
Eftir úrslitum málsins, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, samtals 958.913 krónur. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 800.000 krónur, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts, útlagður kostnaður verjandans, 89.574 krónur, og annar sakarkostnaður er til féll vegna rannsóknar málsins samkvæmt yfirliti ákæruvalds, 69.339 krónur.
Vegna anna dómara hefur uppkvaðning dómsins dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála. Af hálfu dómara og málflytjenda var ekki talin þörf á að málið yrði flutt að nýju.
Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Daði Kristjánsson saksóknari.
Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Bradley James Houldcroft, sæti fangelsi í níu mánuði en fresta skal fullnustu sex mánaða af refsingunni og falli hún niður að tveimur árum liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Upptækt er gert til ríkissjóðs tvær kannabisplöntur, 4,09 grömm af maríhúana, hitablásari, lampi, tvö ljós, grammavog, mulningskvörn og þrír plastpokar.
Ákærði greiði allan sakarkostnað málsins, 958.913 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 800.000 krónur, og ferðakostnað verjandans, 89.574 krónur.
Ákærði greiði A 150.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2014 til 21. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 120.000 krónur í málskostnað.
Ákærði greiði B 150.000 krónur í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 17. nóvember 2014 til 21. nóvember 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, og 120.000 krónur í málskostnað.