Hæstiréttur íslands

Mál nr. 376/1998


Lykilorð

  • Lögvarðir hagsmunir
  • Bókhald
  • Lögmaður
  • Málsástæða


                                                        

Fimmtudaginn 29. apríl 1999.

Nr. 376/1998.

Jón Gunnar Zoëga

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Ragnari Guðmundssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hdl.)

Lögvarðir hagsmunir. Bókhald. Lögmenn. Málsástæður.

Lögmaðurinn J áfrýjaði dómi héraðsdóms þar sem hann var dæmdur til að láta R í té bókhaldsgögn um  greiðslur til R, en J hafði haft með höndum umsýslu tiltekinna fjármuna hans. Talið var, að sú málsástæða J, að þjónusta hans við R hefði ekki verið venjuleg umsýsla lögmanns heldur vinargreiði, væri of seint fram komin til að á henni yrði byggt. Þótti R eiga rétt á skýringum J á greiðslunum, en uppgjör J við R, sem fyrir lá í málinu og R hafði ritað á samþykki sitt nokkrum árum áður, þótti ekki fullnægjandi að þessu leyti. Þar sem J hafði ekki sýnt fram á, að honum væri ekki unnt að framvísa einstökum gögnum, var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms, að honum væri skylt að láta R þau í té. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Haraldur Henrysson og Hrafn Bragason.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 4. september 1998. Áfrýjandi krefst þess aðallega, að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi. Til vara er krafist sýknu. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms að öðru leyti en því, að ekki er lengur krafist gagna um greiðslu 27. maí 1992 að fjárhæð 1.000.000 króna. Þá krefst stefndi  málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Nokkur ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétt.

Áfrýjandi virðist reisa ómerkingarkröfu sína á því annars vegar, að stefndi hafi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu, þar sem bú hans hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 26. júní 1995, en hins vegar á því, að sér sé ekki unnt að hlíta dómsorði héraðsdóms, þar sem umrædd gögn séu ekki til í bókhaldi sínu. Af  gögnum málsins verður ekki séð, að fyrri málsástæðan hafi verið höfð uppi fyrir héraðsdómi. Samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. laga nr. 38/1994, kemur hún ekki til álita fyrir Hæstarétti nema að því leyti, sem rétturinn gætir þess af sjálfsdáðum, hvort vísa skuli máli frá dómi. Síðari málsástæðan myndi leiða til sýknu en ekki frávísunar, ef á hana yrði fallist.

Sýknukrafa áfrýjanda fyrir Hæstarétti er meðal annars byggð á því, að meðferð hans á ávísun að fjárhæð 5.151.830 krónur, sem gefin var út í tengslum við uppgjör vegna sölu á fasteign stefnda, hafi ekki verið venjuleg umsýsla lögmanns í þágu umbjóðanda síns heldur vinargreiði, sem enga þóknun hafi átt að taka fyrir. Því geti bókhaldslög ekki átt hér við. Af héraðsdómi, greinargerð áfrýjanda í héraði og öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið, að þessari málsástæðu hafi verið hreyft í héraði. Fyrir liggur, að áfrýjandi annaðist margvíslega aðra umsýslu fyrir stefnda vegna fjárhagsörðugleika hans í aðdraganda gjaldþrotsins 1995 og í bréfi áfrýjanda til lögmanns stefnda 18. janúar 1995 er rætt um ógreiddar þóknanir fyrir margvísleg störf í hans þágu. Fyrir Hæstarétti verður ekki byggt á þessari málsástæðu, sem þykir með nokkrum ólíkindum.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hefur stefndi ritað undir uppgjörsblað frá áfrýjanda 10. júlí 1992 og staðfest, að rétt væri með farið, þar á meðal um greiðslur til sín. Engu að síður telur hann sig nú þurfa nánari skýringar frá áfrýjanda af ástæðum, sem fjallað er um í héraðsdómi. Eins og aðstæðum er háttað þykir stefndi eiga rétt á þeim. Áfrýjanda, sem er hæstaréttarlögmaður og bókhaldsskyldur samkvæmt lögum nr. 145/1994 um bókhald, sbr. áður lög nr. 51/1968, ber að gera skýra grein fyrir meðferð þeirra fjármuna stefnda, sem hér er um að ræða, þar á meðal greiðslum til hans sjálfs. Áfrýjandi hefur ekki nægilega fullnægt þessari skyldu sinni með uppgjörsblaðinu 10. júlí 1992, þótt stefndi hafi ritað samþykki sitt á skjalið. Gera verður ráð fyrir því, að greiðslur samkvæmt því skjali hafi átt sér stað með atbeina banka, að minnsta kosti að meginstefnu til. Hefur áfrýjandi ekki gert sennilega grein fyrir því, hvers vegna hann geti ekki framvísað einstökum gögnum, er staðfesti sundurliðun greiðslna samkvæmt uppgjörsblaðinu.

Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur með skírskotun til forsendna hans að öðru leyti.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjanda, Jóni Gunnari Zoëga, er skylt að láta stefnda, Ragnari Guðmundssyni, í té fylgiskjöl úr bókhaldi sínu um eftirfarandi greiðslur til stefnda samkvæmt lokauppgjöri 10. júlí 1992: Greiðslu á 300.000 krónum 4. maí 1992, greiðslu á 1.000.000 króna 12. maí 1992, greiðslu á 400.000 krónum 18. maí 1992 og greiðslu á 2.000.000 króna 29. júní 1992.

Málskostnaðarákvæði héraðsdóms er staðfest.

Áfrýjandi greiði stefnda 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. mars 1998.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 14. júlí 1997. Stefnandi er Ragnar Guðmundsson, kt. 100267-3269, Ofanleiti 3, Reykjavík. Stefndi er Jón G. Zoëga, kt. 090643-2239, Reynimel 29, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur, að viðlögðum dagsektum kr. 10.000 pr. dag, til að: 1) Gera stefnanda skilagrein fyrir fjármunum sem hann móttók af fé stefnanda, nánar tiltekið skv. eftirfarandi: þann 02.04. 19925.151.800,00; þann 28.07.1992500.000,00; þann 01.10.1992500.000,00; þann 18.06.1992400.000,00. 2) að veita eftirfarandi upplýsingar: a)hvenær greiðslum þessum var skilað, b) í hvað þeim var ráðstafað, c) hver móttók hverja greiðslu fyrir sig. 3) Að láta í té eftirfarandi gögn: a)ljósrit kvittana sem stefndi gaf þegar hann móttók greiðslurnar, b)ljósrit kvittana sem stefndi fékk þegar hann innti greiðslurnar af hendi, c)ljósrit af öllum tékkum eða sambærilegum úttektum af bankareikningum þegar stefndi innti greiðslur af hendi, d) ljósrit allra reikninga sem gerðir hafa verið á stefnanda vegna greiddrar þóknunar til stefnda. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Málsatvik, málsástæður og lagarök.

Stefnandi kveðst hafa leitað til stefnda um lögmannsaðstoð í mars eða apríl 1992. Hafi hann þá átti í miklum fjárhagsörðugleikum og við borð legið að hann yrði lýstur gjaldþrota. Stefnda hafi verið falið að taka við peningum og ganga til uppgjörs við lánardrottna og freista þess að greiða úr fjárhagsmálum stefnanda. Hafi stefnandi verið andlega miður sín og vart með sjálfum sér vegna áfalla sem á honum hefðu dunið og sett allt sitt traust á stefnda og raunar verið mikill léttir þegar stefndi hefði verið farinn að vinna í hans málum.

Um mitt ár 1992 hafi farið að renna tvær grímur á stefnanda vegna starfa stefnda. Hafi hann verið tíður gestur á skrifstofu stefnda til að spyrja um gang mála. Á þessum tíma hafi stefndi sagt stefnanda að nú væri búið að gera það í málunum sem unnt væri, rétt honum uppgjör sem frammi liggur í máli þessu með bréfi stefnda frá 18. janúar 1995. Hefði stefnandi, sem þá hafi verið andlega langt niðri skrifað undir skjalið í trausti þess að stefndi kæmi gögnum og upplýsingum til hans en þau hafi ekki borist stefnanda með öðrum hætti en að framan sé rakið.

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stefnda sé í fyrsta lagi skylt að hafa í sínu bókhaldi umbeðnar upplýsingar. Í öðru lagi sé honum skylt að láta þær af hendi þegar þess sé beiðst og í þriðja lagi að honum sé fært að verða við þessu.

Stefnandi vísar um ofangreint til þess að stefndi sé bókhaldsskyldur og séu upplýsingar þessar hluti þess sem eigi að vera til reiðu í bókhaldi hans sbr. þágildandi bókhaldslög nr. 51/1968 einkum 9. tl. B liðar 2. gr. og reglugerð nr. 417/1982, 2. mgr. 5. gr, 3.tl. og 7. tl. 4. mgr. 9. gr. Einnig byggist þetta á 8. og 15. gr. laga nr. 61/1942 um málflytjendur o.fl. og Codex Ethicus einkum 3. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 16. gr.

Loks sé á því byggt í fyrsta lagi að stefndi eigi að hafa öll tiltæk gögn skv. framansögðu. Í öðru lagi hljóti hann að geta aflað þeirra frá þeim aðilum sem hann hefði átt skipti við. Í þriðja lagi geti geti stefndi fengið hjá bönkum ljósrit af öllum færslum sem lagðar hafi verið inn á reikning hans og gætu varðað mál þetta og sömuleiðis ljósrit af öllum tékkum og slíku út af reikningi hans sem einnig gætu varðað mál þetta. Kæmi þar að öllum líkindum fram nauðsynlegar upplýsingar svo sem hver hefði innleyst tékka.

Stefndi hafi þegar gefið yfirlit sem fylgt hafi bréfi hans til lögmanns stefnanda dagsettu 18. janúar 1995. Stefnandi geti þó ekki metið hvað orðið hafi um fjármuni hans á því yfirliti, enda hafi hann ekki móttekið allt það fé sem þar er greint heldur hafi stefndi haldið því fram að hann hafi nýtt þessa peninga í þágu stefnanda. Stefnandi þurfi frekari útskýringar á því, svo sem hverjum hafi verið afhentir peningarnir og í hvaða tilgangi og ennfremur gögn sem sýni fram á fjárstreymið.

Af hálfu stefnda er málsatvikum og málsástæðum lýst svo að hann hafi aðstoðað stefnanda á árunum 1992 og 1993 við ýmis verkefni, en þó helst við fjármál hans og fyrirtækis hans Hlunna hf. Hafi stefndi gert stefnanda fullnægjandi skil á öllum greiðslum sem hann tók á móti í nafni stefnanda og afhent stefnanda öll gögn hvað þau varðar. Í stefnu sé krafist skýringa um ráðstöfun fjögurra meintra greiðslna.

Krafist sé skýringa á því hvernig stefndi hafi ráðstafað 5.151.800 krónum. Með bréfi stefnda til lögmanns stefnanda dagsettu 18. janúar 1995 sé nákvæm skýrsla frá stefnda um hvernig þeirri upphæð hafi verið varið. Stefnandi hafi ritað undir uppgjörið að þar sé allt rétt og hefði fengið öll greiðslugögn sem tengist því uppgjöri.

Þá sé krafist skýringa á tveimur greiðslu sem stefnandi telji að stefndi hafi tekið á móti við sölu sumarhúss síns. Greiðandi þessara greiðslna og kaupandi sumarhússins, Gísli Örn Lárusson, hafi samkvæmt kaupsamningi greitt kaupanda 500.000 krónur við undirskrift samnings. Stefndi hafi ekki tekið á móti þeirri greiðslu. Gísli hafi afhent stefnanda víxil fyrir hinum helmingi útborgunar fjárins 500.000 krónur.

Af augljósum ástæðum geti stefndi ekki gert grein fyrir þeirri upphæð sem stefnandi hafi sjálfur tekið á móti án milligöngu stefnda. Hins vegar hafi stefndi tekið að sér að selja víxilinn að fjárhæð 500.000 krónur og selt hann í viðskiptabanka sínum, Íslandsbanka. Gerð sé grein fyrir söluandvirði víxilsins í fylgiskjali með áðurnefndu bréfi frá 18. janúar 1995.

Loks sé krafist skýringa á móttekinni greiðslu frá Herluf Clausen að fjárhæð 400.000 krónur segna kaupa Herlufs á hlutabréfum í Hlunna hf. Svo sem fram komi í fyrrnefndu bréfi hafi stefnanda verið færðar til tekna 400.000 krónur 18. júlí 1992. Stefndi hafi því móttekið þessa fjárhæð og kvittað fyrir.

Stefnandi krefjist ákveðinna upplýsinga í öðrum tölulið dómkrafna í stefnu. Samkvæmt fylgiskjali með margnefndu bréfi frá 18. janúar 1995 séu dagsetningar við hverja greiðslu og hvernig þeim hefði verið ráðstafað. Einnig komi fram hver hafi tekið við þeim en það hafi stefnandi gert í öllum tilvikum.

Í þriðja tölulið dómkrafna í stefnu sé krafist ýmissa skjala sem stefndi hafi ekki undir höndum. Stefnandi hafi þegar fengið öll þau gögn og afrit gagna sem stefndi hafi haft við lokauppgjör. Stefnandi hafi ekki greitt stefnda þóknun fyrir störf hans og stefnandi ekki skrifað reikning vegna þeirrar vinnu.

Allar upplýsingar sem stefnandi krefji um í stefnu séu fyrir hendi. Stefnandi hafi kvittað fyrir öllum mótteknum greiðslum og viðurkennt þær. Hvernig hann hafi ráðstafað greiðslum sem hann hafi fengið frá stefnda geti stefnandi einn sagt frá. Málssókn þessi sé því algerlega tilefnislaus þar sem allt málið sé löngu upplýst og uppgert.

Niðurstaða.

Fram er komið í málinu að stefndi tók við greiðslum þeim sem greinir við dagsetningarnar 2. apríl og 18. júní 1992 í 1. lið kröfugerðar stefnanda. Þá kom fram við meðferð málsins að stefnandi telur það kunni að vera, að hann hafi fengið greiðslu þá sem greind er 28. júlí 1992 að fjárhæð 500.000 og ennfremur að honum hafi borist greiðsla sú sem greind er 1. október að fjárhæð 500.000 krónur. Skilagrein sú sem fylgdi bréfi stefnda frá 18. janúar 1995 tekur til þessa kröfuliðar svo langt sem hún nær og þykja ekki efni til að leggja fyrir stefnda að gefa frekari upplýsingar en þegar liggja fyrir í málinu um það hverjum greiðslum hann tók við fyrir hönd stefnanda.

Í gögnum málsins kemur fram að stefndi heldur því fram að hann hafi afhent stefnanda fé hans á tilteknum dögum sem greinir í fylgiskjali með bréfi hans frá 18. janúar 1995, sjá hér á eftir, og þykir mega við það sitja um upplýsingar sem krafið er um í þessum kröfulið.

Mál þetta á rætur að rekja til þess er stefndi gegndi lögmannstörfum fyrir stefnanda á árinu 1992. Stefnandi hefur sjálfur lagt fram bréf stefnda til lögmanns stefnanda frá 18. janúar 1995. Því bréfi fylgja tvö fylgiskjöl. Á öðru þeirra er yfirlit um ráðstöfun á 5.151.830 króna greiðslu sem stefndi hafði tekið við og 400.000 króna greiðslu frá 18. júní 1992 sem stefndi hafði einnig tekið við. Síðara yfirlitið þykir ekki skipta máli hér. Fyrrgreint yfirlit er svohljóðandi:

„1992

Mótteknir peningar vegna frágangs Þingholtsstræti/Laugavegi

kr. 5.151.830

30.4.

Greitt Ragnari

kr. 200.000

4.5.

“          “           v/Borgartúns

kr. 300.000

12.5.

“          “           “       “

kr. 1.000.000

18.5.

“          “

kr. 400.000

20.5.

“    v/Hlunna

kr. 1.762

27.5.

Greitt Ragnari

kr. 1.000.000

10.6.

“          “

kr. 400.000

18.6.

Greiðsla frá Herluf Clausen

kr. 400.000

20.6.

Greitt Ragnari

kr. 2.000.000

10.7.

Greitt Ragnari mismun

kr. 250.068

kr. 5.551.830

kr. 5.551.830

Móttekið kr. 250.068 og að allir reikningar að ofan eru réttir.

Ragnar Guðm. (sign) “

Fram kom við aðalmeðferð málsins að stefnandi kannaðist við að hafa fengið 200.000 krónur 30. apríl 1992, 1.762 krónur 20. maí s.á., 400.000 krónur 10. júní s.á. og 250.068 krónur 10. júlí s.á. sem reyndar er kvittað fyrir af stefnanda. Samkvæmt þessu þykir ekki sýnt fram á að stefnandi þurfi frekari gögn um þessar 4 greiðslur.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 51/1968 um bókhald sem í gildi voru er atvik máls þessa áttu sér stað skal haga bókhaldi svo að rekja megi viðskipti og notkun fjármuna. Verður hér og að líta til reglu þeirrar er fram kemur í 3. mgr. 14. gr. Codex Ethicus fyrir Lögmannafélag Íslands sem höfð verður hliðsjón af við úrlausn þessa. Í ákvæðinu kemur fram að uppgjör og skil lögmanns til skjólstæðings skulu vera greinargóð, og ber lögmanni við lokauppgjör máls að láta skjólstæðingi í té sundurliðaðan reikning yfir verkkostnað í því máli. Framangreint yfirlit sem ber heitið lokauppgjör uppfyllir ekki ofangreind skilyrði til þess að geta talist fullnægjandi greinargerð um ráðstöfun þeirra fjármuna stefnanda sem þar eru greind. Með því að hér er um að ræða uppgjör lögmanns við skjólstæðing sem falið hefur honum að annast fjárvörslu þykir undirritun stefnanda á plagg þetta ekki leysa stefnda undan þeirri skyldu sinni að gefa greinargott uppgjör til skjólstæðings síns. Þykir því, eins og hér háttar til, mega taka 3. tölulið kröfugerðar stefnanda til greina með því að gera stefnda að leggja fram fylgiskjöl þau úr bókhaldi hans sem liggja til grundvallar færslum um greiðslur til stefnanda svo sem nánar greinir í dómsorði.

Eftir atvikum þykja ekki alveg nægjanleg efni til þess að taka kröfu stefnanda um að stefndi verði dæmdur til greiðslu dagsekta verði hann ekki við skyldum sínum samkvæmt dómi þessum enda á stefnandi þess kost að leita fullnustu með aðfarargerð.

Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda 65.000 krónur í málskostnað og er þá litið til reglna um greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Dóm þennan kvað upp Allan V. Magnússon héraðsdómari.

Dómsorð:

Lagt er fyrir stefnda, Jón G. Zoëga, að láta stefnanda, Ragnari Guðmundssyni, í té fylgiskjöl úr bókhaldi sínu vegna eftirfarandi greiðslna til stefnanda skv. lokauppgjöri frá 10. júlí 1992: 4. maí 1992 300.000 krónur; 12. maí 1992 1.000.000 króna; 18. maí 1992 400.000 krónur; 27. maí 1992 1.000.000 króna og 29. júní 1992 2.000.000 króna.

Stefndi greiði stefnanda 65.000 krónur í málskostnað.